Hæstiréttur íslands

Mál nr. 481/2010


Lykilorð

  • Bifreið
  • Svipting ökuréttar
  • Útivist í héraði
  • Akstur undir áhrifum lyfja
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 9. desember 2010.

Nr. 481/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

Aldísi Ósk Egilsdóttur

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Bifreiðir. Svipting ökuréttar. Útivist í héraði. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ítrekun.

A var sakfelld fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í máli sem dæmt var í héraði samkvæmt heimild í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið krafðist mildunar refsingar fyrir Hæstarétti. A hafði áður gerst sek um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en var þá ekki fullra 18 ára. Refsing hennar var því ákveðin eins og um fyrsta brot væri að ræða og hún talin hæfileg 140.000 krónur í sekt. Eldra brot A gat í ljósi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ekki haft ítrekunaráhrif í samræmi við 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Fór því um ökuréttarsviptingu A eftir 4. mgr. ákvæðisins en ekki 6. mgr. þess og henni gert að sæta sviptingu ökuréttar í 12 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2010 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu en að refsing ákærðu verði milduð. 

Ákærða krefst þess að refsing hennar verði milduð.

Í héraði var málið dæmt að ákærðu fjarstaddri með heimild í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Um málskot þetta fer eftir ákvæðum 1. mgr. 197. gr. og 5. mgr. 199. gr., sbr. 2. mgr. 198. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu samkvæmt ákæru. Brot ákærðu er þar réttilega heimfært til refsiákvæða. Ákærða er fædd 28. janúar 1990. Sakarferill hennar er rakinn í héraðsdómi. Ákærða gekkst 30. október 2007 undir viðurlagaákvörðun meðal annars vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Ákærða hafði ekki náð 18 ára aldri þegar hún framdi það brot. Með vísan til dómvenju verður refsing ákærðu ákveðin, eins og um fyrsta brot af þessu tagi væri að ræða, sekt 140.000 krónur, en vararefsing 10 daga fangelsi.

Í 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er að finna reglur um sviptingu ökuréttar þegar stjórnandi ökutækis, sem áður hefur brotið gegn 45. gr. eða 45. gr. a laganna, gerist sekur um slíkt brot á nýjan leik. Reglum þessum verður þó aðeins beitt ef brot verður talið ítrekað í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til þess þarf sakborningur að hafa verið fullra 18 ára þegar hann framdi hið fyrra brot. Þeim aldri hafði ákærða ekki þá náð eins og að framan greinir. Fer því um ökuréttarsviptingu hennar eftir 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga, en ekki 6. mgr. greinarinnar. Með vísan til þessa er ökuréttarsvipting ákærðu ákveðin eitt ár frá birtingu héraðsdóms 30. júní 2010 að telja.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

Kostnað vegna áfrýjunar sakarinnar ber, samkvæmt 220. laga nr. 88/2008, að greiða úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Aldís Ósk Egilsdóttir, greiði 140.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 10 daga.

Ákærða er svipt ökurétti í eitt ár frá 30. júní 2010 að telja.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 100.400 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. apríl 2010.

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 13. apríl sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Sauðárkróki með ákæru 26. febrúar 2010 á hendur Aldísi Ósk Egilsdóttur, fæddri 28. janúar 1990, með lögheimili í Víðihlíð 31 Reykjavík, ,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa um fjögurleytið mánudaginn 23. mars 2009 ekið bifreiðinni TB-896, norður Sauðárkróksbraut í Skagafirði á móts við Áshildarholt, undir áhrifum fíkniefna, og þannig verið óhæf til að stjórna ökutæki örugglega, en amfetamín í blóði ákærðu mældist 360 ng/ml.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5 gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, auk sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.”

II

Í máli var gefið út eitt fyrirkall 3. mars 2010 og var lögreglu falin birting þess sem og ákæru. Svo sem fram kemur í fyrirliggjandi upplýsingaskýrslum lögreglu varð ekki úr birtingu fyrirkallsins þar sem lögreglu tókst ekki að hafa uppi á ákærðu.

Í ljósi framangreinds og með heimild í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var ákæra ásamt fyrirkalli dagsettu 3. mars 2010, birt í Lögbirtingablaðinu 7. apríl sl. 

         Ákærða sótti ekki þing og var málið þá dómtekið að kröfu sækjanda á grundvelli 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19-1991. Með vísan til þeirrar lagagreinar þykir mega jafna útivist ákærðu til játningar hennar enda fer sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins.              Brot ákærðu teljast því sönnuð og varða þau við tilgreind lagaákvæði í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærða áður sætt refsingu Í febrúar 2007 var hún dæmd í tveggja mánaðar skilorðsbundið fangelsi í tvö ár fyrir þjófnað, hylmingu og fíkniefnalagabrot. Í október sama ár var henni gert að greiða sekt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Síðar í sama mánuði, 30. október, gekkst hún undir viðurlagaákvörðun vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna o.fl. og var gert að greiða sekt auk þess sem hún var svipt ökurétti í tvo mánuði. Hinn 3. mars 2008 var ákærða dæmd til greiðslu sektar fyrir þjófað. Loks var henni í lok október sama ár gert að greiða sekt fyrir brot gegn lögum um ávana og fíkniefni.

Brot ákærðu sem lokið var með viðurlagaákvörðun 30. október 2008 hefur ítrekunaráhrif á mál þetta sbr. 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að teknu tilliti til þess þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt til ríkissjóðs en 12 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Þá ber að svipta ákærðu ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar sem nemur samkvæmt yfirliti rannsóknara 130.774 krónum en engin sakarkostnaður hlaust af meðferð málsins fyrir dóminum.

Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Birkir Már Magnússon fulltrúi lögreglustjórans á Sauðárkróki.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Ákærða, Aldís Ósk Egilsdóttir, greiði 200.000 króna í sekt til ríkissjóðs en 12 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. 

Ákærða er svipt ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins.

Ákærða greiði sakarkostnað að fjárhæð 130.774 krónur.