Hæstiréttur íslands

Mál nr. 427/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Föstudaginn 20. júní 2014.

Nr. 427/2014.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2014 sem barst réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. júní 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til sunnudagsins 22. júní 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er samkvæmt gögnum málsins undir rökstuddum grun um háttsemi sem varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en A er nú látinn. Samkvæmt því og öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 16. júní 2014.

Mál þetta barst dómnum og var tekið til úrskurðar í gær.  Sýslumaðurinn á Akureyri krefst þess að X, fæddur [...], dvalarstaður í [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í sjö daga eða til sunnudagsins 22. júní nk., með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Jafnframt er gerð krafa um að sakborningur sæti því að sitja í einrúmi í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Sakborningur krefst þess aðallega að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

Málavextir eru þeir samkvæmt greinargerð rannsóknara að um klukkan 23:00 síðasta laugardagskvöld barst lögreglunni á Blönduósi tilkynning frá Landspítala um að þar lægi sjúklingur, sem læknar teldu að hefði orðið fyrir mjög alvarlegri líkams­árás.  Heitir sjúklingurinn A, [...], til heimilis að [...].  Er hann höfuðkúpubrotinn, með mar á heila gegnt brotinu og farið að myndast drep í heilanum.  Er honum vart hugað líf.  Þá segir í greinargerðinni að á sjúklingnum séu aðrir áverkar sem lögregla telji sig ekki hafa fengið trúverðugar skýringar á.

Þegar tilkynning þessi hafi borist lögreglu á Blönduósi hafi ekkert verið vitað um hvað gerst hafi eða hvar brotaþoli hafi fengið áverkana.  Fljótlega hafi rannsóknin tekið þá stefnu að lögreglan hafi fengið upplýsingar um að brotaþoli hafi hitt og átt í samskiptum við Y, B og C,  föstudagskvöldið 13. júní sl., svo og sakborninginn í þessu máli.  Hafi þeir ekki skýrt með sama hætti frá hvernig þessi samskipti hafi verið, en þau virðist hafa átt sér stað að [...], í [...] þar sem sakborningur búi ásamt Y.

Sakborningur hafi verið handtekinn í gærmorgun, ásamt öðrum þeim sem hafa verið nefndir og séu taldir hafa verið í samskiptum við brotaþola á föstudagskvöldi.

Samkvæmt frásögn lækna sé líklegt að meint árás eða slys hafi átt sér stað nokkru áður en komið hafi verið með brotaþola á sjúkrahús og sennilega á föstudagskvöldi.  Sé ekki samræmi í frásögn sakborninganna um samskipti þeirra við brotaþola þetta kvöld.

Miðað við áverka á brotaþola telji lögregla sig hafa rökstuddan grun um að þeir séu af mannavöldum.  Beinist rannsóknin aðallega að broti gegn 2. mgr. 218. gr. eða eftir atvikum að 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 eða þá að broti gegn 1. mgr. 220. gr. eða 221. gr. sömu laga.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Búið sé að taka fyrstu skýrslur af sakborn­ingum en frekari skýrslutökur séu nauðsynlegar.  Eftir sé að fá læknisfræðileg gögn um brotaþola og niðurstöður réttarfræðilegrar rannsóknar á sakborningum, sem fram hafi farið í gær.  Þá sé eftir að fá gögn um vettvangsrannsókn sem tæknideild lögreglunnar í Reykjavík annist.

Sakborningur í þessu máli og Y séu [...] og búi á vettvangi meints brots og hinir tveir séu [...] sem búi saman.  Hugsanlegt sé og líklegt að rannsaka þurfi vettvang aftur þegar rannsóknin haldi áfram.  Kveðst rannsóknari telja verulega hættu á að sakborningar muni samræma framburði sína og hafa áhrif á vitni og afmá ummerki brots ef þeir gangi lausir meðan á frumrannsókn stendur.

Svo sem að framan greinir er rannsókn þessa máls á algjöru frumstigi.  Fyrir liggur að brotaþoli er í mikilli lífshættu af völdum áverka sem rökstuddur grunur er um að séu af mannavöldum og hann hafi fengið föstudagskvöld eða aðfaranótt laugar­dags.  Er óhjákvæmilegt að á þessu stigi beinist grunur að öllum þeim sem voru í samskiptum við brotaþola á þessum tíma.

Eins og málið liggur fyrir verður að telja að brotaþoli hafi fengið áverkana á dvalarstað sakbornings þar sem sakborningur var einnig.  Er óhjákvæmilegt að á þessu stigi málsins beinist grunur að honum um að hafa valdið eða átt þátt í að valda þeim áverkum sem brotaþoli hefur orðið fyrir, þannig að varðað geti við framangreind ákvæði almennra hegningarlaga.

Ríkir rannsóknarhagsmunir standa til þess að sakborningur geti ekki haft samband við aðra sakborninga eða hugsanleg vitni meðan á frumrannsókn málsins stendur og eru því uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 fyrir því að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald.  Af sömu ástæðum ber að fallast á kröfu um að hann sitji í einrúmi í gæsluvarðhaldinu, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.  Ekki þykir rétt að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

X sæti gæsluvarðhaldi allt til sunnudagsins 22. júní nk. kl. 16:00.

Heimilt er að láta hann sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.