Hæstiréttur íslands

Mál nr. 333/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 25

 

Mánudaginn 25. júlí 2005.

Nr. 333/2005.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

Skilyrðum var talið fullnægt til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans var til meðferðar fyrir æðra dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 1. nóvember 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Varnaraðili var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2005 dæmdur í fangelsi í sex og hálft ár vegna brota gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur í fyrri dómum sínum um gæsluvarðhald yfir varnaraðila talið skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Ekki eru efni til þess að breyta því mati nú. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2005.

Ríkissaksóknari hefur lagt fram kröfu þess efnis að dómfellda, X, [kt. og heimilisfang] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, en þó ekki lengur en til 1. nóvember 2005, kl. 16.00.

Í greinargerðinni kemur fram að með ákæru Ríkissaksóknara útgefinni 9. maí 2005, hafi verið höfðað opinbert mál á hendur dómfellda og fleirum fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fleira.  Dómfelldi hafi verið ákærður fyrir að hafa ásamt fleirum staðið að innflutningi til landsins á 7694,86 g af amfetamíni og 2000 skömmtum af lýsergíð, auk þess að hafa haft í vörslum sínum 4000 skammta af lýsergíð á dvalarstað sínum í Hollandi.  Brot dómfellda sé talið varða 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní sl. hafi dómfelldi verið dæmdur í fangelsi í sex og hálft ár vegna brotanna og hafi dómfelldi áfrýjað dóminum til Hæstaréttar.

Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 17. september 2004.

Með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991 og með hliðsjón af alvarleika sakarefnis, þykir nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur í máli hans.

Með vísan til framangreinds er fallist á þau sjónarmið Ríkissaksóknara að nauðsynlegt sé með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og með tilliti til almannahagsmuna að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í Hæstarétti í máli hans. Verður krafa Ríkissaksóknara því tekin til greina með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, X, [kt. og heimilisfang]  sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, en þó ekki lengur er til 1. nóvember 2005, kl. 16.00.