Hæstiréttur íslands
Mál nr. 327/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Stefna
- Málsástæða
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 16. júní 2010. |
|
Nr. 327/2010.
|
Guðmundur Ágúst Ingvarsson (Ragnar H. Hall hrl.) gegn Einari Óskarssyni og (Árni Ármann Árnason hrl.) Haraldi Úlfarssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Stefna. Málsástæður. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G gegn E og H var vísað frá dómi. Talið var að rakning G á málsástæðum væri knöpp, en að því verði að gæta að samkvæmt c. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skuli lýsing málsástæðna í héraðsdómsstefnu vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Ekki verði séð að vafi geti leikið á því hvert sakarefnið í máli þessu sé. Komi ekki nægilegur rökstuðningur fram í málatilbúnaði G fyrir þeim atriðum sem greini í niðurstöðu hins kærða úrskurðar eftir að málið hafi verið munnlega flutt verði brestur á því að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu þess í dómi. Með kæru úrskurðar um frávísun málsins hafi G látið í ljós að hann kjósi að fá efnisdóm eins og málið liggi fyrir og standi ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í vegi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og rakið er nánar í úrskurði héraðsdóms á málið rætur að rekja til þess að sóknaraðili seldi ásamt öðrum alla hluti í Bliku rekstrarfélagi ehf. til R. Sigmundssonar ehf. með kaupsamningi 30. desember 2005, en í honum var tekið fram að hið selda félag ætti 76,27% hlut í Vélasölunni ehf. Varnaraðilarnir Einar Óskarsson og Haraldur Úlfarsson rituðu undir þennan samning af hálfu kaupandans, en samkvæmt málatilbúnaði þeirra var sá fyrrnefndi stjórnarformaður í R. Sigmundssyni ehf. og sá síðarnefndi framkvæmdastjóri. Samhliða þessum kaupsamningi undirrituðu seljendurnir og varnaraðilar samkomulag, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Við kaupsamning verður gerður samningur milli Vélasölunnar og Guðmundar Ingvarssonar þess efnis að Guðmundur fái kauprétt að lóð sem Vélasölunni kann að verða úthlutað á sama verði og Vélasalan þarf að greiða fyrir hana og skal kauprétturinn gilda í sex mánuði frá úthlutun.“ Svo virðist sem frekari samningur hafi ekki verið gerður um þetta efni, en fyrir liggur að Faxaflóahafnir sf. tilkynnti 14. febrúar 2006 að Vélasölunni ehf. og R. Sigmundssyni ehf. hafi verið úthlutað lóð að Klettagörðum 25 í Reykjavík. Í orðsendingu, sem sóknaraðili beindi til varnaraðila 26. sama mánaðar, vísaði hann til þessarar úthlutunar og tók eftirfarandi fram: „samkv samkomulagi á ég forgang að lóðinni ég reikna með að nýta rétt minn mig vantar uppl. um ss stærð, kvaðir, verð og fl“. Þessu mun hafa verið hafnað í bréfi, sem R. Sigmundsson ehf. ritaði sóknaraðila 17. apríl 2006. Lóðarleigusamningur var gerður um áðurnefnda lóð 18. október 2006 og var leigutaki samkvæmt honum R.S. fasteignafélag ehf., sem varnaraðilar undirrituðu samninginn fyrir, en óumdeilt er í málinu að það félag hafi að fullu verið í eigu R. Sigmundssonar ehf. og stofnað í beinum tengslum við úthlutun lóðarinnar. R.S. fasteignafélag ehf. gaf út afsal fyrir þessari eign 11. október 2007 til Saxhóls ehf., en sóknaraðili staðhæfir að þá hafi verið búið að reisa á lóðinni svokallað stálgrindahús og hafi söluverð fasteignarinnar numið 440.000.000 krónum.
Sóknaraðili höfðaði mál 26. febrúar 2008 á hendur R. Sigmundssyni ehf. til heimtu skaðabóta að fjárhæð 39.694.813 krónur, en fyrir liggur að Vélasalan ehf. hafi verið yfirtekin af því félagi samkvæmt staðfestingu hluthafafunda 7. desember 2006. Kröfu þessa reisti sóknaraðili á því að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem þessu svaraði, sökum þess að félagið hafi vanefnt áðurnefnda skuldbindingu um kauprétt hans að lóð samkvæmt samkomulaginu frá 30. desember 2005, en fjárhæð kröfunnar studdi hann við matsgerð dómkvaddra manna. Með dómi 10. febrúar 2009 var R. Sigmundssyni ehf. gert að greiða sóknaraðila 32.181.237 krónur með dráttarvöxtum frá 4. janúar 2008 til greiðsludags og 1.729.978 krónur í málskostnað. Fyrir liggur að það mál var dómtekið 16. janúar 2009, en deginum áður var heiti R. Sigmundssonar ehf. breytt í R.S. rekstur ehf. og nýtt félag stofnað með fyrrnefnda heitinu. Sóknaraðili staðhæfir að nýja félagið hafi yfirtekið rekstur þess eldra, en bú R.S. reksturs ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4. febrúar 2009.
II
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 19. og 20. maí 2009 og krefst þess að stefndu verði í sameiningu gert að greiða sér sömu fjárhæðir og honum voru dæmdar með í áðurnefndum dómi 10. febrúar 2009 úr hendi félagsins, sem þá hét orðið R.S. rekstur ehf. Í héraðsdómsstefnu kemur fram að sóknaraðili reisi kröfu sína, sem sé um greiðslu skaðabóta, á því að varnaraðilar hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið því að eign, sem honum hafi átt að standa til ráðstöfunar samkvæmt samkomulaginu frá 30. desember 2005, hafi verið haldið frá honum og ráðstafað í þágu annarra. Þetta hafi varnaraðilar gert sem stjórnendur R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf. þegar þeir hafi ráðstafað hagsmunum, sem varði lóðina að Klettagörðum 25, til R.S. fasteignafélags ehf., en þannig hafi þeir komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti knúið fram efndir á samkomulaginu. Segir jafnframt í stefnunni að sóknaraðili telji ljóst að hagur R. Sigmundssonar ehf. hafi með þessu verið skertur mjög og hagsmunum hans stefnt í óefni, en varnaraðilum hafi verið fullkunnugt um öll atvik málsins og mátt frá upphafi vera ljóst að með þessum aðgerðum væri dregið verulega úr líkum á því að sóknaraðili gæti fengið bætur úr hendi félagsins vegna vanefnda á samkomulaginu. Teldi sóknaraðili tjón af þessari háttsemi sannað, enda hafi verið dæmt um það 10. febrúar 2009. Bæri því varnaraðilum óskipt að bæta þetta tjón með greiðslu þess, sem R.S. rekstri ehf. hafi þar verið gert að greiða.
Framangreind rakning á málsástæðum, sem sóknaraðili byggir málsókn sína á, er að sönnu knöpp, en að því verður að gæta að samkvæmt c. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal lýsing málsástæðna í héraðsdómsstefnu vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Ekki verður séð að vafi geti leikið á því hvert sakarefnið í máli þessu er. Komi ekki nægilegur rökstuðningur fram í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir þeim atriðum, sem greinir í niðurstöðu hins kærða úrskurðar, eftir að málið hefur verið munnlega flutt verður brestur á því að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu þess í dómi. Með kæru úrskurðar um frávísun málsins hefur sóknaraðili látið í ljós að hann kjósi að fá efnisdóm eins og málið liggur fyrir og stendur ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í vegi, svo sem varnaraðilinn Haraldur hefur borið við í héraði og fyrir Hæstarétti. Af þessum sökum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Í héraði krafðist hvorugur varnaraðili þess að málinu yrði vísað frá dómi. Að því gættu verður sóknaraðila ekki dæmdur kærumálskostnaður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. mars sl., var þingfest 26. maí 2009.
Stefnandi er Guðmundur Ágúst Ingvarsson, Lálandi 15, Reykjavík.
Stefndu eru Einar Óskarsson, Súlunesi 14, Garðabæ og Haraldur Úlfarsson, Laxakvísl 8, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum 32.181.237 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. janúar 2008 til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess einnig að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum 1.729.978 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2009 til greiðsludags.
Loks krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati héraðsdóms og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts vegna lögmannskostnaðar.
Stefndi, Einar Óskarsson, gerir þær kröfur aðallega að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara að kröfur stefnanda á hendur stefnda Einari Óskarssyni verði stórlega lækkaðar og aðeins teknar til greina að óverulegu leyti.
Í aðal- og varakröfu er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Einari Óskarssyni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefnda, Haraldar Úlfarssonar, eru aðallega gerðar þær dómkröfur að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara að kröfur stefnanda á hendur stefnda Haraldi Úlfarssyni verði stórlega lækkaðar og aðeins teknar til greina að óverulegu leyti.
Bæði í aðal- og varakröfu er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Haraldi Úlfarssyni málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk 24,5% virðisaukaskatts á málskostnaðarfjárhæðina.
Málavextir
Stefnandi og eiginkona hans gerðu, hinn 30. desember 2005, kaupsamning við einkahlutafélagið R. Sigmundsson ehf. þar sem þau seldu félaginu allt hlutafé í einkahlutafélagi sínu, Bliku rekstrarfélagi ehf. Aðaleign hins selda félags var 76,27% hlutur í Vélasölunni ehf., Reykjavík. Samhliða kaupsamningi var gert sérstakt samkomulag milli aðila. Í 2. tl. samkomulagsins segir m.a. að við kaupsamning verði gerður samningur milli Vélasölunnar og Guðmundar Ingvarssonar þess efnis að Guðmundur fái kauprétt að lóð sem Vélasölunni kunni að verða úthlutað. Lóðarumsókn lá þá fyrir hjá Faxaflóahöfnum. Skyldi stefnandi greiða sama verð fyrir lóðina, ef til kæmi, eins og Vélasalan ehf. þyrfti að greiða fyrir hana.
Samningar um þetta voru undirritaðir af stefndu fyrir hönd kaupandans. Stefnandi heldur því fram að þeir hafi báðir verið í stjórn félagsins en stefndi Haraldur heldur því hins vegar fram að á þessum tíma hafi hann verið framkvæmdastjóri félagsins en stefndi Einar verið stjórnarformaður.
Hinn 17. janúar 2006 var stefndi Einar kosinn stjórnarformaður í Vélasölunni ehf. og stefndi Haraldur meðstjórnandi. Stefndi Haraldur var þá einnig framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi. Hinn 14. febrúar 2006 var tilkynnt að stjórn Faxaflóahafna hefði samþykkt að úthluta lóðinni að Klettagörðum 25 í Reykjavík Vélasölunni ehf. og R. Sigmundssyni ehf.
Hinn 26. febrúar 2006 tilkynnti stefnandi hinum stefndu með tölvupósti að honum væri kunnugt um úthlutun lóðarinnar og reiknaði með að nýta kauprétt sinn. Óskaði hann eftir upplýsingum um stærð lóðarinnar, kvaðir, verð og þess háttar. Stefndi Einar ritaði stefnanda bréf 17. apríl 2006. Þar vísar hann í tölvupóstinn frá Guðmundi og til símtala sem þeir hafi átt. Þar lýsir Einar þeirri skoðun að félagið sé óbundið af samkomulaginu varðandi lóðina og lýsir yfir að félagið muni ekki efna það.
Þessa ákvörðun sína kveða stefndu til komna vegna þess að endanlegur kaupsamningur hafi verið undirritaður 30. desember 2005 án þess að gerður væri framangreindur samningur við Vélasöluna ehf., eins og áður sé lýst. Júlíus Vífill Ingvarsson lögfræðingur hafi mætt með stefnanda við undirritun kaupsamnings, Júlíus Vífill hafi einnig verið stjórnarmaður í Vélasölunni á þessum tíma. Í bréfi Júlíusar Vífils til stefnda Einars, sem dagsett sé 12. maí 2006, komi eftirfarandi fram hvað þetta varðar: Við undirskrift kaupsamnings ræddu samningsaðilar hvort seljandi gæti yfirtekið byggingarrétt á lóð sem Vélasalan ehf. fengi úthlutað við Klettagarða. Varaði ég við því að úthlutun lóða lyti ákveðnum reglum, sem ég fór lauslega yfir á fundinum, og benti á að seljandi gæti ekki gengið að því vísu eða tryggt það að byggingarréttur verði framseldur honum þrátt fyrir samkomulag aðila þar um.
Samningur á milli Vélasölunnar ehf. og Guðmundar Ingvarssonar, þess efnis að til Guðmundar yrði afsalað lóð sem Vélasölunni ehf. kynni að verða úthlutað, hafi því ekki verið gerður við kaupsamninginn. Í ljósi þess að umræddur samningur hafi aldrei verið gerður og þess að Júlíus Vífill hafi viðhaft framangreind orð á fundinum, þá hafi stefndu ávallt litið svo á að framsal á lóðinni Klettagörðum 25 til stefnanda væri ólögmæt.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að á þessum tíma hafi legið fyrir að félögin R. Sigmundsson ehf. og Vélasalan ehf. yrðu sameinuð. Hafi R. Sigmundsson ehf. leitað eftir því við Faxaflóahafnir sf. að fá úthlutað nýrri lóð við Fiskislóð í Reykjavík. Í þessu ferli hafi komið fyrirspurn frá Faxaflóahöfnum sf. um hvort félögin tvö sameinuð hefðu áhuga á að leggja inn endurnýjaða umsókn um að fá úthlutað lóðinni Klettagörðum 25, Reykjavík, en af hálfu Faxaflóahafna sf. væri litið svo á að forsendur væru fyrir úthlutun hennar til R. Sigmundssonar ehf. eftir sameiningu félaganna. Eins og stefnandi vísi í hafi legið inni hjá Faxaflóahöfnum sf. umsókn Vélasölunnar ehf. frá árinu 2004 um lóðina, en að mati Faxaflóahafna sf. hafi Vélasalan ehf. ein og sér ekki uppfyllt þær kröfur sem Faxaflóahafnir sf. gerðu varðandi starfsemi á lóðinni, en um sé að ræða 6.575 m2 lóð. Í kjölfar ábendingar Faxafalóahafna sf. hafi stjórn R. Sigmundssonar ehf. sent erindi til Faxaflóahafna ehf. hinn 9. febrúar 2006 varðandi ósk um úthlutun umræddrar lóðar við Klettagarða 25, Reykjavík, undir húsnæði fyrir sameinaða starfsemi R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf. Fram komi þar að hugmynd félagsins sé að byggja eigið húsnæði, um 3500-4000 fermetra á lóðinni undir sameinaða starfsemi, auk þess sem gerð sé grein fyrir starfseminni. Til útskýringar hér sé nauðsynlegt að geta aðeins um starfsemi félaganna, en R. Sigmundsson ehf. (stofnað árið 1940) hafi sérhæft sig í sölu og þjónustu til útgerðaraðila á siglinga-, fjarskipta- og fiskileitartækjum sem og sölu og þjónustu á landmælinga- og leiðsögutækjum. Vélasalan ehf. (einnig stofnað 1940) hafi starfaði að milligöngu við innflutning, viðgerðir og endurbætur á fiskiskipum og hafi í því sambandi átt í samstarfi við pólska skipasmíðafyrirtækið Skipapol í Póllandi er hafi unnið að endurbótum á fiskiskipum. Einnig hafi starfsemin varðað innflutning og sölu á vatnabátum, sportbátum og búnaði í slíka báta og hafi fyrirtækið á þessu sviði verið stærst á Íslandi. Þá hafi það selt björgunarbúnað til nota um borð í skipum og bátum.
Eins og áður segir tilkynnti stjórn Faxaflóahafna sf. hinn 14. febrúar 2006 að samþykkt hefði verið að úthluta lóðinni Klettagörðum 25, Reykjavík til R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf.
Stefndu halda því fram að í framhaldi af því hafi R. Sigmundsson ehf. óskað eftir lánafyrirgreiðslu hjá Frjálsa Fjárfestingarbankanum hf. vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni, en viðskiptabanki félagsins hafi verið SPRON. Að tilmælum Frjálsa Fjárfestingarbankans hf. hafi verið ráðist í að stofna sérstakt félag, R.S. fasteignafélag ehf., um fasteignina til að auðvelda utanumhald á virðisaukaskatti er tilheyrði byggingaframkvæmdunum og til að viðhalda aðgreiningu fjármuna er fóru til byggingaframkvæmdanna frá rekstrarfjárhag félagins. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þetta af hálfu Faxaflóahafna sf.
Samkvæmt lóðarleigusamningi, dags.18. október 2006, var gerður samningur á milli Faxaflóahafna sf. og R.S. Fasteignafélags um leigu á lóð við Klettagarða nr. 25.
Stefndu benda á að fram komi í stofnsamningi R.S. fasteignafélags ehf. að það félag sé að 100% hlut í eigu R. Sigmundssonar ehf. Þann 11. október 2007 hafi R.S. fasteignafélag ehf. síðan afsalað fasteigninni Klettagörðum 25, Reykjavík til Saxhóls ehf. Samhliða sölu fasteignarinnar hafi aðilar gert með sér leigusamning, þar sem R. Sigmundsson ehf. tók fasteignina á leigu af Saxhóli ehf. til 15 ára, og hafi átt endurkauparétt að eigninni að 10 árum liðnum. Í framhaldinu hafi R.S. fasteignafélag ehf. verið sameinað R. Sigmundssyni ehf., sbr. XIV. kafla laga nr. 138/2004 en ákveðið hafi verið að samruninn skyldi miðaður við 1. janúar 2008.
Hinn 9. febrúar 2007 fékk stefnandi dómkvadda tvo matsmenn til að meta tiltekin atriði vegna þess tjóns sem stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda á samningum um lóðina. Hinir dómkvöddu matsmenn luku matsgerð sinni 4. desember 2007. Stefnandi kveður í framhaldi af því hafa verið skorað á viðsemjanda stefnanda að ganga til samninga á grundvelli matsins, en því hafi verið hafnað.
Höfðaði stefnandi þá mál á hendur R. Sigmundssyni ehf. til heimtu bóta vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna vanefndanna og byggði kröfur sínar á matsgerðinni. Tekið var til varna af hálfu félagsins.
Hinn 10. febrúar 2009 var kveðinn upp dómur í máli stefnanda gegn R.S. rekstri ehf. sem áður hét R. Sigmundsson ehf. eins og áður segir. Stefnandi kveður þá hafa verið ókunnugt um nafnbreytingu félagsins og að bú þess hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta örfáum dögum áður. Þess vegna sé stefndi tilgreindur R. Sigmundsson ehf. í dóminum. Félagið hafi verið dæmt til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 32.181.237 krónur með dráttarvöxtum frá 4. janúar 2008 til greiðsludags og 1.729.978 krónur í málskostnað.
Stefnandi kveður kröfu samkvæmt dóminum hafa verið lýst í þrotabúið. Dóminum hafi ekki verið áfrýjað, en samkvæmt upplýsingum skiptastjóra séu engar eignir í búinu.
Stefnandi höfðar mál þetta á hendur stefndu persónulega og byggir á því, eins og síðar greinir, að þeir hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið því að lóð sem hafi átt að standa honum til ráðstöfunar hafi verið ráðstafað í þágu annarra.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á hendur stefndu á því að þeir hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið því að eign sem honum hafi átt að standa til ráðstöfunar, samkvæmt samningi, var haldið frá honum og ráðstafað í þágu annarra. Sé á því byggt að stefndu hafi með aðgerðum sínum sem stjórnendur R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf. á árinu 2006 ráðstafað hagsmunum sem vörðuðu lóðina nr. 25 við Klettagarða í Reykjavík til þriðja aðila, R. S. fasteigna ehf., og þannig komið í veg fyrir að stefnandi gæti knúið fram efndir á kaupréttarsamkomulagi sínu og R. Sigmundssonar frá 30. desember 2005.
Stefnandi telji ljóst að með þessu athæfi hafi hagur R. Sigmundssonar ehf. verið skertur um mjög mikla fjármuni og hagsmunum stefnanda um leið stefnt í óefni. Stefndu hafi báðum verið fullkunnugt um öll atvik í málinu. Þeim hafi þess vegna verið eða mátt vera ljóst frá upphafi að með aðgerðum þeirra hafi verulega verið dregið úr líkum á því að stefnandi gæti knúið fram bótagreiðslur frá félaginu vegna vanefndanna. Telur stefnandi ljóst að öll skilyrði skaðabótaskyldu stefndu séu uppfyllt.
Tjón stefnanda af háttsemi stefndu sé sannað, enda hafi verið um það dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur með dómi í máli nr. E-2078/2008. Séu kröfur stefnanda á því reistar að stefndu beri óskipt að bæta honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna athæfis þeirra og geri hann því kröfu um að stefndu verði dæmdir til að greiða honum það sem dæmt var í umræddu máli að R. S. rekstur ehf. skyldi greiða honum. sé þar annars vegar um að ræða bótafjárhæðina sjálfa, þ.e. 32.181.237 krónur auk dráttarvaxta, og hins vegar málskostnað í því máli að fjárhæð 1.729.978 krónur.
Krafist sé dráttarvaxta af síðarnefndu fjárhæðinni frá þeim degi er 15 dagar voru liðnir frá dómsuppsögu.
Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda Einars Óskarssonar
Af hálfu stefnda Einars er öllum kröfum stefnanda í máli þessu, málatilbúnaði og málsástæðum, mótmælt bæði sem röngum og ósönnuðum.
Í stefnu vísi stefnandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli stefnanda gegn R. Sigmundssyni ehf., sbr. mál nr. E-2078/2008. Því máli hafi lokið með efnisdómi og samkvæmt niðurstöðu dómsins var R. Sigmundssyni ehf. gert að greiða stefnanda tilteknar skaðabætur þar sem félagið hafði vanefnt ákvæði samkomulags aðila frá 30. desember 2005. Af hálfu stefnda sé vísað til þess að umrætt dómsmál varði því sömu lögskipti og málsókn stefnanda byggist á í máli þessu. Af hálfu stefnda sé á því byggt að það sé meginregla samkvæmt íslensku einkamálaréttarfari að sama sakarefni verði ekki oftar en einu sinni borið undir hliðsettan dómstól, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991. Í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur komi fram að málið hafi verið höfðað þann 26. febrúar 2008. Hvorugum stefndu í þessu máli hafi hins vegar verið stefnt í því máli. Að mati stefnda hefði stefnandi þurft að stefna stefndu Einari og Haraldi ásamt R. Sigmundssyni ehf. í hinu fyrra máli, hefði hann vilja byggja á að þeir bæru, auk R. Sigmundssonar ehf., ábyrgð á vanefndum á samkomulaginu frá 30. desember 2005. Hér sé m.a. vísað til 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um óskipta aðild. Stefndi byggi á því að mál þetta varði framangreind lögskipti og kröfur um skaðabætur vegna meintra vanefnda R. Sigmundssonar ehf. og þ.a.l. beri að vísa því án kröfu frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, enda þegar gengin efnisdómur í máli sem varði sama sakarefni, þar sem stefndi kaus að stefna ekki öðrum en félaginu.
Í öllu falli varði þetta því að kröfur stefnanda á hendur stefndu vegna umræddra lögskipta, hafi þær einhvern tímann einhverjar verið, séu þá allar fallnar niður fyrir tómlæti. Sé hér hvorutveggja vísað til þess tíma sem liðinn sé frá málshöfðun í héraðsdómsmálinu nr. E-2078/2008, og ekki síður, að um 2 ár og 7 mánuðir liðu frá úthlutun Faxaflóahafna sf. á lóðinni Klettagarðar 25, Reykjavík, til R.S. fasteignafélags, uns skaðabótamál þetta var höfðað, en í því sambandi hafi stefnandi ekki beint neinum kröfum að stefndu fyrr en með fyrirvaralausri málssókn þessari. Framangreint tómlæti hafi valdið stefnda Einari því að ef svo ólíklega vilji til að dómurinn fallist á bótaábyrgð hans, þá sé honum fyrirmunað að sækja bætur til R.S. reksturs ehf. (áður R. Sigmundsson ehf.) þar sem félagið sé nú orðið gjaldþrota.
Stefnandi reisi skaðabótakröfur sínar á hendur stefnda Einari efnislega á því að stefndi hafi í störfum sínum sem stjórnarformaður R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf., ráðstafað, fyrir hönd félaganna, lóðinni Klettagörðum 25, Reykjavík, er stefnandi hafi átt kauprétt að samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi til R.S. fasteigna ehf. sbr. afsal, dags. 11. október 2007, um eignina Klettagarða 25 til Saxhóls ehf., og þannig komið í veg fyrir að stefnandi gæti knúið fram efndir á kaupréttarsamkomulagi sínu og R. Sigmundssonar ehf. frá 30. desember 2005. Með þessu hafi hagur R. Sigmundssonar ehf. verið skertur um mjög mikla fjármuni og hagsmunum stefnanda um leið stefnt í óefni, þar sem með þeirri aðgerð hafi verulega dregið úr líkum á því að stefnandi gæti knúið fram bótagreiðslur frá félaginu vegna vanefnda á samkomulaginu.
Stefndi Einar mótmæli framangreindum málatilbúnaði er lúti að skaðabótakröfu stefnanda og byggi á því að skilyrðum skaðabótaréttar um sök, ólögmæti, orsakatengsl og sönnun á umfangi tjóns séu ekki uppfyllt.
Varnir stefnda lúti fyrst og fremst að því að viðsemjandi stefnanda og eiginkonu hans samkvæmt kaupsamningi, dags. 30. desember 2005, um sölu allra hluta í einkahlutafélaginu Bliku rekstrarfélagi ehf. til R. Sigmundssonar ehf., hafi verið einkahlutafélagið R. Sigmundsson ehf. en ekki stefndi Einar. Samkvæmt meginreglum félagaréttar, sbr. og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, verði stefnandi því að sæta því að félagið eitt sé skuldbundið vegna viðskiptanna og hann eigi því ekki kröfu á hendur öðrum, hvorki stjórnarmönnum, hluthöfum né framkvæmdastjóra. Framangreint grundvallist á því að einkahlutafélag sé félag með takmarkaðri ábyrgð.
Þrátt fyrir að félag það sem stefnandi eigi kröfu á, sbr. fyrrgreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sé nú komið í greiðsluþrot og fyrirséð að krafan fáist ekki greidd úr þrotabúinu, þá geti stefndi Einar, sem fyrrum stjórnarformaður félagsins, ekki persónulega borið skaðabótaábyrgð á hinu meinta tjóni stefnanda. Slíkt myndi ganga gegn þeirri meginreglu félagaréttar að stjórnarmenn félags með takmarkaða ábyrgð beri að jafnaði ekki skaðabótaábyrgð gagnvart þriðja manni. Í þessu sambandi vísist til ákvæða 108. gr. ehl. en þar komi fram að stjórnarmenn einkahlutafélags geti eingöngu orðið skaðabótaskyldir gagnvart þriðja manni vegna ásetnings- eða gáleysisbrota á ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 eða samþykktum félags. Bótaábyrgð stjórnarmanna gagnvart þriðja manni geti einnig byggst á almennu skaðabótareglunni en ábyrgð samkvæmt henni sé þó bundin af skilyrðum ákvæðis 2. ml. 108. gr. ehl.
Stefndi byggi á því að hann hafi í störfum sínum sem stjórnarformaður R. Sigmundssonar ehf. hvorki brotið gegn ákvæðum ehl. eða samþykktum félagsins, enda hafi allar ákvarðanir sem teknar voru af stjórn félagsins vegna lóðar við Klettagarða 25 í Reykjavík verið teknar á viðskiptalegum forsendum.
Í stefnu sé á því byggt að hin ólögmæta og saknæma háttsemi stefnda hafi falist í því að hann hafi ráðstafað lóðinni Klettagörðum 25, Reykjavík til R.S. fasteignafélags ehf. Stefndi mótmæli þessari málsástæðu harðlega, enda hafi það ekki verið í hans valdi að ráðstafa lóðinni til umrædds félags. Hið rétta sé að Faxaflóahafnir sf. úthlutuðu lóðinni til R.S. fasteignafélags ehf. eftir að stjórn R. Sigmundssonar ehf. fór þess á leit við Faxaflóahafnir sf. að lóðinni yrði úthlutað til félagsins. Ástæða þess að stjórn R. Sigmundssonar ehf. hafi óskað eftir því að lóðinni yrði úthlutað til sérstaks fasteignafélags, hafi fyrst og fremst vegna hagræðissjónarmiða sem tengdust frjálsri skráningu þeirrar byggingar sem fyrirhugað var að reisa og utanumhaldi á virðisaukaskatti. Af framangreindu virtu telji stefndi að skilyrði almennu skaðabótareglunnar um sök og ólögmæti séu ekki uppfyllt þar sem stefndi hafi ekki ráðstafað lóðinni og geti stefndi því aldrei borið fébótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Stefndi bendi á að dómaframkvæmd hér á landi sýni að nokkuð mikið þurfi að koma til svo að tiltekin vanræksla eða athöfn verði metin stjórnarmanni til sakar og séu rökin fyrir því m.a. eftirfarandi:
Líkur séu fyrir því að ákvarðanir stjórnarmanna séu teknar með hagsmuni félagsins fyrir augum.
Mjög strangur bótamælikvarði í garð stjórnarmanna sé talinn geta valdið slíkri varfærni í stjórnunarstörfum að hún fái illa samrýmst heilbrigðri fjármálastjórn félaga.
Einkahlutafélag sé félag með takmarkaðri ábyrgð. Víðtækar bótareglur á hendur stjórnarmönnum slíks félags fái illa samrýmst þeirri staðreynd því að þær gætu haft þau áhrif að ábyrgðin teldist í raun ekki verulega takmörkuð.
Stefndi hafi sýnt fram á að hann hafi ekki ráðstafað lóðinni til R.S. fasteignafélags ehf. heldur hafi lóðinni verið úthlutað til félagsins af Faxaflóahöfnun sf. Stefndi mótmæli því sem byggt sé á, og haldið sé fram í stefnu, að tjón hafi hlotist af ráðstöfun varðandi lóðina fyrir R. Sigmundsson ehf. og vísist í því sambandi til þess að R.S. fasteignafélag ehf. hafi að 100% hluta verið í eigu R. Sigmundssonar ehf. Það sé því einnig rangt og ósannað er segi efst á bls. 4 í stefnu að með því að lóðinni Klettagarðar 25, Reykjavík, var úthlutað til R.S. fasteignafélags ehf. en ekki R. Sigmundssonar ehf. hafi hagur R. Sigmundssonar ehf. verið skertur, eða umrætt hafi dregið úr líkum á gjaldfærni R. Sigmundssonar gagnvart stefnanda. Í þessu sambandi skuli á það bent að við sölu á fasteigninni Klettagörðum 25 árið 2007 til Saxhóls hf. hafi allt kaupverðið farið til R.S. fasteignafélags. ehf. sem hafi verið í 100% eigu R. Sigmundssonar ehf. en síðar hafi félögin sameinast. Af framangreindu megi ljóst vera að R. Sigmundsson ehf. hafi ekki orðið fyrir fjártjóni er Faxaflóahafnir sf. úthlutuðu umræddri hafnarlóð R.S. fasteignafélagi ehf.
Í stefnu sé á því byggt að lóðin Klettagarðar 25 hafi átt að standa stefnanda til ráðstöfunar samkvæmt samningi. Þessu mótmæli stefndi og bendi á að við kaupsamningsgerð hafi ekki verið gengið frá samkomulagi á milli stefnanda og Vélasölunnar ehf. um kauprétt að umþrættri lóð. Ástæða þess að ekki hafi verið gengið frá samkomulaginu hafi m.a. verið sú að Júlíus Vífill Ingvarsson, lögfræðingur stefnanda og stjórnarmaður í Vélasölunni ehf., hafi varað við því við kaupsamningsgerð að stefnandi gæti fengið umrædda lóð framselda. Þar sem ekki hafi verið gengið formlega frá samkomulaginu við kaupsamningsgerð, eins og til hafi staðið, þá telur stefndi að R. Sigmundsson ehf. hafi verið óbundið af samkomulagi frá 30. desember 2005.
Stefndi mótmæli því jafnframt að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2078/2008 hafi fordæmisgildi í máli þessu hvað varðar skuldbindingargildi dómskjals nr. 6. Grundvallist það á eftirfarandi:
Í fyrsta lagi hafi Júlíus Vífill Ingvarsson ekki mætt fyrir dóminn þrátt fyrir að honum hafi verið send vitnakvaðning. Stefndi telji að þessi ákvörðun hans hafi orðið til þess að ekki hafi verið hægt að sýna dóminum fram á að fallið hafi verið frá samkomulagi frá 30. desember 2005 við kaupsamningsgerð, þar sem formskilyrði þess um sérstakan samning á milli stefnanda og Vélasölunnar ehf. hafi ekki verið uppfyllt.
Í öðru lagi hafi dóminum ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, þar sem hið dæmda félag var orðið gjaldþrota.
Jafnvel þó litið sé svo á að fyrrgreint samkomulag hafi verið skuldbindandi fyrir R. Sigmundsson ehf., þá hefði lóðin Klettagarðar 25 engu að síður aldrei staðið stefnanda til ráðstöfunar. Hafi það byggst á því að stjórn Vélasölunnar ehf. hafi aldrei samþykkti gjafaframsal á hugsanlegum lóðarréttindum til stefnanda enda hefði félagið sjálft, kröfuhafar þess og hluthafar félagsins sem voru ótengdir stefnanda geta skaðast af slíku samþykki ef lóðinni hefði síðar verið úthlutað til Vélasölunnar ehf.
Hvað þetta varðar þá telji stefndi sérstaka ástæðu til þess að mótmæla fullyrðingu er fram komi í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 10. maí 2006, en þar segi um hinn meinta kauprétt: „...enda má hverjum manni vera það ljóst að þetta umrædda samningsákvæði felur í sér hluta þess endurgjalds sem umbjóðendur mínir áttu að fá fyrir hið selda hlutafé.“ Hvað þessa fullyrðingu lögmanns stefnanda varðar sé rétt að benda á að hafi það verið hugmyndin hjá stefnanda að þetta væri hluti af endurgjaldinu, þá sé slíkt endurgjald ólögmætt þar sem tekin séu verðmæti út úr einkahlutafélagi án þess að sambærileg verðmæti komi í staðinn. Með því verði staða kröfuhafa lakari sem og annarra hluthafa í félaginu sem hafi átt 23,73%. Um þetta vísist m.a. til 48. gr. og 51. gr. ehl.
Stefndi telji einnig að skilmálar Faxaflóahafna sf., sbr. t.d. 2. tl. 7. gr. lóðarleigusamnings um leigu á lóðinni Klettagarðar nr. 25, standi því í vegi að stefnandi hafi getað fengið lóðina framselda. Ljóst megi því vera að skilyrði voru ekki fyrir því að fá lóðinni úthlutað til að framselja hana stefnanda. Jafnvel þótt svo hefði ekki verið hefði engu að síður ekki getað komið til framsals á lóðarréttindunum til stefnanda. Stefnandi hafi þannig hvorki sýnt fram á að hann hafi rekið hafnsækna starfsemi og þá ekki heldur að hann hafi getað sýnt fram á þörf sína fyrir lóð af þessari stærð undir starfsemi er flokkast gæti undir ,,hafnsækna starfsemi“.
Jafnvel þó svo ólíklega myndi vilja til að dómurinn liti á samkomulag aðila frá 30. desember 2005 sem gilt framsal og að stefnandi hefði átt rétt á að nýta sér kauprétt að lóðinni, þá hafi stefnandi ekki orðið fyrir neinu tjóni. Fullyrða megi að Faxaflóahafnir sf. hefðu aldrei viðurkennt framsal á lóðinni til stefnda sem sé einstaklingur. Hefði slík umsókn borist megi leiða líkur að því að Faxaflóahafnir sf. hefðu einfaldlega leyst lóðina til sín á sama verði og henni var úthlutað og því hefði stefnandi ekki náð að hagnast á lóðinni á þennan hátt og geti hann þar af leiðandi ekki gert kröfu um bætur fyrir meint tjón.
Stefndi vísi einnig til þess að fyrir hafi legið að Vélasalan ehf. hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem stjórn Faxaflóahafna sf. setti varðandi úthlutun lóðarinnar, og Faxaflóahafnir sf. hefðu því ekki samþykkt umsókn Vélasölunnar ehf. um úthlutun frá 2004. Forsendur að baki úthlutun Faxaflóahafna sf. á lóðinni til R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf. hafi verið allt aðrar en þær sem hefði þurft til að unnt væri að framkvæma 2. tl. í samkomulagi R. Sigmundssonar ehf. og stefnanda frá 30. desember 2005. Ákvörðun Faxaflóahafna sf. um að úthluta félögunum lóðinni hafi þannig byggst á því að félögin myndu flytjast þangað með sameinaða starfsemi sína.
Að öllu framangreindu virtu séu sýknukröfur stefnda á því byggðar að þó svo að hann hafi gegnt stjórnarformennsku í R. Sigmundssyni ehf. þegar Faxaflóahafnir sf. úthlutuðu umræddri lóð R.S. fasteignum ehf., þá geti hann aldrei orðið bótaskyldur persónulega gagnvart stefnanda vegna meints tjóns hans. Skipti þá engu máli þó að stjórn R. Sigmundssonar ehf. hafi óskað eftir því við Faxaflóahafnir sf. að framangreindur háttur yrði hafður á við úthlutun.
Ef svo ólíklega fari að dómurinn telji að stefnandi hafi orðið fyrir einhverju því tjóni er stefndi Einar beri bótaábyrgð á, byggi stefndi í varakröfu á því að skaðabótakröfur stefnanda beri að lækka stórlega, sbr. ákvæði 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 3. mgr. 108. gr. ehl. Fallist dómurinn á kröfur stefnanda að öllu leyti, þá verði að mati stefnda að draga frá helming dómkröfunnar þar sem lóðinni hafi upphaflega verið úthlutað til tveggja félaga þ.e. Vélasölunnar ehf. og R. Sigmundssonar ehf. Þá fjárhæð verði síðan að lækka um 23,73% sem nemi hlut annarra eigenda en Bliku ehf. í Vélasölunni ehf. Að endingu þurfi að draga frá skaðabótakröfunni tekjuskatt af söluhagnaði en hann sé 10%.
Stefndi mótmæli alfarið sönnunargildi matsgerðar Óskars R. Harðarsonar, hdl. og lögg. fasteignasala, og Arnars Ívars Sigurbjörnssonar, húsasmíðameistara og matstæknis, dags. 4. desember 2007, enda hafi stefndi Einar ekki verið aðili að því matsmáli. Stefnda hafi því ekki gefist færi á að koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri áður en matið fór fram.
Stefndi geri sérstakar athugasemdir við matsspurningu nr. 3. en krafa stefnanda í héraðsdómsmálinu nr. E-2078/2008 byggi á umræddri spurningu sem sé eftirfarandi:
Hvað telja matsmenn að hægt hefði verið að selja réttindi yfir lóðinni fyrir hátt verð á fasteignamarkaði hér á landi í júlí 2006. Skal þá miða við að ráðstöfun yrði í því formi að selt væri allt hlutafé einkahlutafélags sem ætti ekki aðrar eignir en lóðarréttindin og skuldaði ekkert.
Í þessari matsspurningu sé horft fram hjá þeirri augljósu staðreynd að stefnandi í málinu sé einstaklingur en ekki félag og því hafi niðurstaða matsspurningarinnar ekkert gildi fyrir stefnanda við sönnun á hinu meinta tjóni.
Jafnframt mótmæli stefndi því að dómsniðurstaða héraðsdóms í héraðsdómsmálinu nr. E-2078/2008: Guðmundur Ágúst Ingvarsson gegn R. Sigmundsson ehf., hafi nokkurt sönnunargildi um meint tjón stefnanda og sönnun þess, gagnvart stefnda, enda stefndi Einar ekki málsaðili að því dómsmáli. Það að stefnandi vísi um sönnun varðandi meint tjón sitt (sbr. stefnu) til umrædds héraðsdóms og þess að þegar hafi verið dæmt um það, sýni augljóslega nauðsyn þess að stefndu væru aðilar að því dómsmáli ef stefnandi vildi auk viðsemjanda síns, R. Sigmundssonar ehf., jafnframt beina skaðabótakröfum að stefndu vegna þess sakarefnis sem þar hafi verið fjallað um.
Í öðru lagi mótmæli stefndi því að hann geti borið ábyrgð á málskostnaði er R. Sigmundssyni ehf. hafi verið gert að greiða stefnanda samkvæmt umræddum héraðsdómi í máli nr. E-2078/2008, enda ekki við stefnda að sakast að stefnandi kýs að höfða málin í tvennu lagi.
Mótmælt sé dráttarvaxtakröfum stefnanda. Stefnandi hafi ekki beint kröfum að stefnda Einari fyrr en með stefnu í þessu máli. Verði kröfur stefnanda á hendur stefnda Einari að einhverju leyti teknar til greina sé á því byggt að dráttarvextir geti fyrst reiknast þegar mánuður sé liðinn frá stefnubirtingardegi, enda stefnda ekki kynnt kröfugerð stefnanda fyrr en þá, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísi stefndi m.a. til reglna félagaréttar og laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, reglna einkamálaréttar og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála einkum 2. mgr. 116. gr. og 1. og 2. mgr. 18. gr. þeirra laga. Þá sé vísað til 16. gr. sömu laga varðandi aðildarskort. Vísað sé til skilmála Faxaflóahafna sf. er giltu við úthlutun lóðarinnar og aðalskipulags er gilti fyrir svæðið. Vísað sé til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 24. gr. Einnig sé vísað til almennra reglna skaðabótaréttar og þeirra skilyrða sem gerð séu fyrir bótaskyldu, svo og um orsakasamband. Loks sé vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkrafa byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og ber honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnda Haraldar Úlfarssonar
Í stefnu vísi stefnandi til þess að 10. febrúar 2009 hafi verið kveðinn upp dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli stefnanda gegn R. Sigmundsson ehf., sbr. mál nr. E-2078/2008. Því máli hafi lokið með efnisdómi og samkvæmt dómsniðurstöðunni var R. Sigmundssyni ehf. gert að greiða stefnanda skaðabætur að þar tilgreindri fjárhæð þar sem samkvæmt niðurstöðu dómsins var talið að R. Sigmundsson ehf. hefði vanefnt ákvæði 2. tl. samkomulags frá 30. desember 2005 gagnvart stefnanda. Af hálfu stefnda sé vísað til þess að umrætt dómsmál varði því sömu lögskipti og málssókn stefnanda, sú sem hér sé til meðferðar, fjalli um. Af hálfu stefnda sé hér byggt á því að það sé meginregla samkvæmt íslensku einkamálaréttarfari að sama sakarefni verði ekki oftar en einu sinni borið undir hliðsettan dómstól, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991. Í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur komi fram að málið hafi verið höfðað þann 26. febrúar 2008. Hvorugum stefndu í þessu máli hafi hins vegar verið stefnt í því máli. Að mati stefnda hefði stefnandi, ef hann auk skaðabótakrafna á hendur viðsemjanda sínum R. Sigmundssyni ehf. hugðist hafa uppi skaðabótakröfur á hendur fleiri aðilum, s.s. stefndu í þessu máli, þurft að beina þar málsókn sinni að öllum þeim aðilum er hann vildi byggja á að bæru með R. Sigmundsson ehf. ábyrgð gagnvart því tjóni er hann telur sig hafa orðið fyrir vegna meintra vanefnda R. Sigmundssonar ehf. gagnvart fyrrgreindu samkomulagi. Hér sé og m.a. vísað til 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um óskipta aðild. Máli þessu, er varði framangreind lögskipti og kröfur um skaðabætur vegna meintra vanefnda R. Sigmundssonar ehf. í þeim, beri því að vísa á kröfu frá dómi sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, enda þegar genginn efnisdómur í máli sem varðaði sama sakarefni, þar sem stefndi hafi kosið að stefna ekki öðrum en R. Sigmundssyni ehf.
Í öllu falli varði þetta því að kröfur stefnanda á hendur stefndu vegna umræddra lögskipta, hafi þær einhvern tímann einhverjar verið, séu þá allar fallnar niður fyrir tómlæti. Sé hér hvorutveggja vísað til þess tíma sem liðinn sé frá málshöfðun í héraðsdómsmálinu nr. E-2078/2008, og loks, ekki síður, að um 2 ár og 7 mánuðir hafi liðið frá úthlutun Faxaflóahafna sf. á lóðinni Klettagarðar 25, Reykjavík, til R.S. fasteignafélags ehf., uns skaðabótamál þetta var höfðað, en stefnandi hafi í því sambandi ekki beint neinum kröfum að stefndu fyrr en með fyrirvaralausri málssókn þessari.
Af hálfu stefnda Haraldar sé öllum kröfum stefnanda í máli þessu, málatilbúnaði og málsástæðum, mótmælt bæði sem tilhæfulausum og efnislega röngum, svo og tölulega. Stefndi Haraldur byggi m.a. á því að stefnandi hafi átt þau viðskipti, sem séu undirrót krafna hans við R. Sigmundsson ehf. Samkvæmt meginreglum félagaréttar, sbr. og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, verði stefnandi því að sæta því að félagið eitt sé skuldbundið vegna viðskiptanna og hann eigi því ekki kröfur á hendur öðrum, hvorki stjórnarmönnum, hluthöfum né framkvæmdastjóra. Þá sé ljóst að framkvæmdastjóri beri ekki almenna skaðabótaskyldu þó viðskipti milli félags með takmarkaða ábyrgð og þriðja manns bresti að fullu eða nokkru.
Á bls. 3-4 í stefnu segi um málsástæður og lagarök er stefnandi reisi þessa málsókn sína á, að málsóknin sé byggð á sakarreglunni, en um málsástæður sé þar byggt á að stefndi hafi, samkvæmt því er stefnandi telur, í störfum sínum sem framkvæmdastjóri R. Sigmundssonar ehf. og stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í Vélasölunni ehf., ráðstafað fyrir hönd félaganna, lóðinni Klettagörðum 25, Reykjavík, sem stefnandi hafi átt kauprétt af samkvæmt samkomulagi, dags. 30. desember 2005, og þannig komið í veg fyrir að stefnandi gæti knúið fram efndir á kaupréttarsamkomulagi sínu og R. Sigmundssonar ehf. frá 30. des. 2005. Stefnandi telji ljóst að með þeirri ráðstöfun hafi hagur R. Sigmundssonar ehf. verið skertur um mjög mikla fjármuni og hagsmunum stefnanda um leið stefnt í óefni, þar sem með þeirri aðgerð hafi verulega dregið úr líkum á því að stefnandi gæti knúið fram bótagreiðslur frá félaginu vegna vanefnda á samkomulaginu.
Þessum grundvallarmálsástæðum stefnanda, og um leið einu málsástæðum, mótmæli stefndi Haraldur sem alfarið röngum. Rétt þyki í því sambandi hér fyrst að ítreka að viðsemjandi stefnanda og eiginkonu hans samkvæmt kaupsamningi, dags. 30. desember 2005, um sölu á hlutum í Bliku rekstrarfélagi ehf. og á nefndu samkomulagi, hafi verið einkahlutafélagið R. Sigmundsson ehf. en ekki stefndi Haraldur. Umræddan kaupsamning og samkomulag hafi stefndi undirritað ásamt stjórnarformanni R. Sigmundssonar ehf., meðstefnda Einari, samkvæmt umboði sem þeim hafði verið veitt frá hluthöfum og stjórn R. Sigmundssonar ehf. Með undirritun kaupsamnings og samkomulagsins hafi stefndi, Haraldur, og meðstefndi, skuldbundið einkahlutafélagið í samræmi við efni umræddra skjala. Undirritun stefnda, Haraldar, á kaupsamninginn og samkomulagið hafi verið í fullu samræmi við það umboð sem honum og meðstefnda hafði verið veitt af eigendum og stjórn félagsins vegna samningsgerðarinnar, sbr. 1. mgr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og því um bindandi löggerninga fyrir félagið að ræða. Engin lagastoð sé hins vegar fyrir því að stefndi Haraldur verði sem umboðsmaður við umræddan löggerning gerður persónulega bótaskyldur gagnvart efndum umbjóðanda síns, R. Sigmundssonar ehf., á umræddum löggerningum. Virðist og stefnanda hafa verið þetta ljóst þegar hann höfðaði héraðsdómsmálið nr. E-2078/2008. Sýknukröfur stefnda séu, að því er varðar efnisatriði málsins, m.a. byggðar á aðildarskorti sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi byggir einnig á því að skilyrði skaðabótaábyrgðar skorti alfarið í málinu, hvað varði stefnda Harald, s.s. varðandi sök, ólögmæti, orsakatengsl og fjártjón. Af hálfu stefnda sé vísað til þess að sú ákvörðun hafi verið tekin af eigendum og stjórn R. Sigmundssonar ehf., en ekki stefnda, að óska eftir við Faxaflóahafnir sf. að lóðinni yrði úthlutað til R.S. fasteignafélags ehf. en ekki til R.Sigmundssonar ehf. og stjórnin sjálf, annast framkvæmd hennar. Það sé því alfarið rangt sem haldið sé fram í stefnu að stefndi, Haraldur, hafi ráðstafað hagsmunum er vörðuðu lóðina nr. 25 við Klettagarða í Reykjavík til R.S. fasteignafélags ehf.
Vísað sé til að samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé hluthafafundur æðsta vald í málefnum félagsins og sbr. IX. kafla sömu laga fari félagsstjórn með málefni félagsins á milli aðalfunda. Verkefni framkvæmdastjóra lúti hins vegar, sbr. 2. mgr. 44. gr., að því að annast daglegan rekstur félagsins og beri honum í þeim efnum að fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hafi gefið. Sbr. sömu lagagrein taki hinn daglegi rekstur ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar, en slíkar ráðstafanir geti framkvæmdastjóri einungis gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn. Eins og fyrr greini hafi umrædd ákvörðun um að fara þess á leit við Faxaflóahafnir sf. að lóðinni Klettagarðar 25, Rvík, yrði úthlutað R.S. fasteignafélagi ehf. tekin af hluthöfum og stjórn R. Sigmundssonar ehf. og sbr. ofangreint ekki á forræði stefnda að hafa áhrif á hana. Sýknukröfur stefnda séu því m.a. gerðar með vísan til þess að stefndi verði ekki sem framkvæmdastjóri félagsins gerður bótaskyldur vegna ákvarðana eigenda og stjórnar R. Sigmundssonar ehf., sem hann að auki hafi sjálfur ekki átt aðild að, né heldur vegna framkvæmdar á þeim ákvörðunum.
Enn fremur sé því alfarið mótmælt sem röngu, sem byggt sé á og haldið fram í stefnu, að fjártjón hafi hlotist af þessari ráðstöfun fyrir R. Sigmundsson ehf. Um það vísist til að R.S. fasteignafélag ehf. hafi að 100% hluta verið í eigu R. Sigmundssonar ehf. Á sama hátt sé það rangt er greini efst á bls. 4 í stefnu, þar sem því sé haldið fram að með því að lóðinni Klettagarðar 25, Reykjavík, hafi verið úthlutað til R.S. fasteignafélags ehf. en ekki R. Sigmundssonar ehf. hafi hagur R. Sigmundssonar ehf. verið skertur, eða að umrætt hafi dregið úr líkum á gjaldfærni R. Sigmundssonar ehf. gagnvart stefnanda. Í þessu sambandi skuli og bent á hvert fjármunir þeir er komu fyrir sölu á fasteigninni, Klettagarðar 25, Rvk, til Saxhóls ehf. runnu, en við sölu R.S. fasteignafélags ehf. á lóðinni til Saxhóls hf. hafi allt kaupverðið farið til samstæðu R. Sigmundssonar ehf. Meginhluti þess hafi farið til Frjálsa fjárfestingabankans hf. til uppgreiðslu lána er tekin voru af R.S. fasteignafélagi ehf. hjá bankanum vegna húsbygginga á lóðinni, en það sem eftir stóð til SPRON vegna skulda R. Sigmundssonar ehf. við sparisjóðinn. Í kjölfar sölunnar hafi svo R.S. fasteignafélag ehf. verið sameinað R. Sigmundssyni ehf., sbr. XIV. kafla laga nr. 138/2004.
Tekið sé fram að stefndi, Haraldur, hafi einskis ávinnings notið af umræddum ráðstöfunum, sem, eins og áður segi, hluthafafundur og stjórn félagsins ákváðu, en hann hafi hvorki verið hluthafi í R. Sigmundssyni ehf. né R.S. fasteignafélagi ehf., að því undanskyldu að eiginkona hans átti um 3% eignarhlut í R. Sigmundssyni ehf.
Loks vísi stefndi til þess að legið hafi fyrir, áður en stjórn R. Sigmundsson ehf. sendi inn erindi sitt til Faxaflóahafna sf., hinn 9. febrúar 2006, um úthlutun umræddrar lóðar við Klettagarða 25, Reykjavík, undir húsnæði fyrir sameinaða starfsemi R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf., að ekki kæmi til álita hjá Faxaflóahöfnum sf. að samþykkja umsókn Vélasölunnar ehf. um úthlutun frá 2004 eins og stefnandi hafi haft væntingar um, bæði vegna þess að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði stjórnar Faxaflóahafna sf. um lóðarhafa hvað umfang starfsemi varðar og að úthlutun hafi verið háð áformum um nýtingu lóðarinnar. Forsendur að baki úthlutun Faxaflóahafna sf. á lóðinni til R. Sigmundssonar ehf. og Vélasölunnar ehf. hafi þannig verið allt aðrar en þær sem hefði þurft til að unnt væri að framkvæma 2. tl. í samkomulagi R. Sigmundssonar ehf. og stefnanda frá 30. desember 2005. Ákvörðun Faxaflóahafna sf., um að úthluta félögunum lóðinni, hafi þannig verið bundin því að félögin myndu flytjast þangað með sameinaða starfsemi sína. Samkvæmt þessu hafi einfaldlega ekki verið fyrir hendi þær aðstæður er greini í 2. tl. samkomulagsins, sem skilyrði til að kaupréttur stefnanda að lóðinni gæti orðið virkur. Þá sé vísað til þess að ómöguleiki hafi verið fyrir hendi varðandi það að félögin mættu framselja lóðina til stefnanda sbr. skilmála Faxaflóahafna sf., sbr. 2. mgr. 1. tl. 7. gr. lóðarleigusamnings, þar sem óheimilt sé að framselja leiguréttinn að lóðinni öðrum en þeim er hafi með höndum rekstur hafnsækinnar starfsemi. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi átt möguleika á að uppfylla þetta skilyrði, né heldur að raunhæft geti talist að stjórn Faxaflóahafna sf. hefði fallist á að hann hefði þörf fyrir hafnarlóð af þessari stærð, en eins og greini í gr. 7.2. í lóðarleigusamningi hafi leigusali heimild til að beita forkaupsrétti við framsal á lóðarleiguréttinum. Sbr. ofangreint hafi ástæður fyrir því að stefnandi átti þess ekki kost að kaupa lóðina í samræmi við samkomulagið verið aðrar en þær sem haldið sé fram í málatilbúnaði stefnanda. Stefnandi hafi því ekki sýnt framá með neinum raunhæfum hætti að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.
Hvað varðar kröfu stefnanda um að stefndu verði dæmdir til að greiða honum þann málskostnað sem honum var dæmdur í héraðsdómsmálinu nr. E-2078/2008: Guðmundur Ágúst Ingvarsson gegn R. Sigmundssyni ehf., séu ekki tilgreindar í stefnu neinar ástæður í því sambandi á hverju stefnandi byggi þessa kröfu sína, og krafan því vanreifuð, en að sjálfsögðu beri stefndu ekki persónulega ábyrgð á skuldum R.S. reksturs ehf. (áður R. Sigmundssonar ehf.). Að öðru leyti vísist til þess er greini að ofan um að skilyrði skaðabótaábyrgðar skorti alfarið í málinu.
Ef svo ólíklega fari að dómurinn fallist ekki á ofangreindar málsástæður stefnda, en telji að stefnandi hafi orðið fyrir einhverju því tjóni er stefndi Haraldur beri bótaábyrgð á, byggi stefndi í varakröfu á því að skaðabótakröfur stefnanda beri að lækka stórlega. Beri þar m.a. að lækka kröfur stefnanda á þeim grundvelli að lóðinni hafi einungis að 50% hluta verið úthlutað Vélasölunni ehf.
Stefndi mótmæli alfarið sönnunargildi matsgerðar hr. Óskars R. Harðarsonar, hdl. og lögg. fasteignasala, og hr. Arnars Ívars Sigurbjörnssonar, húsasmíðameistara og matstæknis, dags. 4. desember 2007, enda hafi stefndi, Haraldur, ekki verið aðili að því matsmáli. Stefnda hafi því ekki gefist færi á að koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri áður en matið fór fram. Jafnframt mótmæli stefndi Haraldur því að dómsniðurstaða héraðsdóms í héraðsdómsmálinu nr. E-2078/2008: Guðmundur Ágúst Ingvarsson gegn R. Sigmundssyni ehf., hafi nokkurt sönnunargildi um meint tjón stefnanda, gagnvart stefnda, enda stefndi Haraldur ekki aðili að því dómsmáli. Það að stefnandi vísi um sönnun varðandi meint tjón sitt til umrædds héraðsdóms og þess að þegar hafi verið dæmt um það, sýni augljóslega nauðsyn þess að stefndu væru aðilar að því dómsmáli ef stefnandi vildi, auk viðsemjanda síns R. Sigmundssonar ehf., jafnframt beina skaðabótakröfum að stefndu vegna viðskiptanna, þ.e. þess sakarefnis sem þar hafi verið fjallað um.
Þá mótmæli stefndi því sérstaklega í varakröfunni að hann geti borið ábyrgð á málskostnaði er R. Sigmundssyni ehf. var gert að greiða stefnanda samkvæmt umræddum héraðsdómi í máli nr. E-2078/2008, enda ekki við stefnda að sakast að stefnandi kjósi að höfða málin í tvennu lagi.
Mótmælt sé dráttarvaxtakröfum stefnanda. Stefnandi hafi ekki beint kröfum að stefnda, Haraldi, fyrr en með stefnu í máli þessu. Verði kröfur stefnanda á hendur stefnda, Haraldi, að einhverju leyti teknar til greina sé á því byggt að dráttarvextir geti fyrst reiknast þegar mánuður sé liðinn frá stefnubirtingardegi, enda stefnda ekki kynnt kröfugerð stefnanda fyrr en þá, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísi stefndi m.a. til reglna félagaréttar og laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, reglna einkamálaréttar og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 116. gr. og 1. og 2. mgr. 18. gr. þeirra laga. Þá sé vísað til 16. gr. sömu laga varðandi aðildarskort.
Vísað sé til reglna skaðabótaréttar og þeirra skilyrða sem gerð séu fyrir bótaskyldu, svo og um tjón og orsakasamband. Vísað sé til skilmála Faxaflóahafna sf. er gilt hafi við úthlutun lóðarinnar og aðalskipulags er gilti fyrir svæðið. Þá sé vísað til IX. kafla laga nr. 91/1991 um matsgerðir. Loks sé vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkrafa byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.
Niðurstaða
Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur R. Sigmundssyni ehf. til greiðslu efndabóta vegna vanefnda félagsins á samkomulagi um kauprétt stefnanda að lóðinni nr. 25 við Klettagarða. Niðurstaða þess dómsmáls var sú að félagið R. Sigmundsson ehf., hefði vanefnt ákvæði samkomulags, sem gert var 30. desember 2005, og fjallaði um kauprétt stefnanda að umræddri lóð. Var félagið dæmt til þess að greiða stefnanda 32.181.237 krónur í efndabætur. Dómur var kveðinn upp í því máli 10. febrúar 2009.
Stefnandi hefur nú höfðað mál þetta á hendur stefndu til greiðslu sömu fjárhæðar og honum var dæmd í hinu fyrra máli, auk málskostnaðar sem stefnanda var dæmdur í málinu. Mál þetta er höfðað á hendur stefndu persónulega og krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefndu þar sem þeir hafi með ólögmætum og saknæmum hætti bakað honum tjón.
Með því að aðilar eru aðrir en í fyrra málinu, auk þess sem málsgrundvöllur er annar og ekki er um sömu kröfu að ræða, er ekki fallist á að dómur frá 10. febrúar 2009 sé bindandi um úrslit þessa máls, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, og verður málinu ekki vísað frá af þeim sökum.
Í máli þessu byggir stefnandi kröfur sínar á því að stefndu hafi, sem stjórnendur R. Sigmundssonar ehf., með ólögmætum og saknæmum hætti valdið því að eign sem honum hafi átt að standa til ráðstöfunar samkvæmt samningi hafi verið haldið frá honum og ráðstafað í þágu annarra, og þannig komið í veg fyrir að stefnandi gæti knúið fram efndir á kaupréttarsamkomulagi sínu og R. Sigmundssonar frá 30. desember 2005. Stefndi telur að með þeim aðgerðum sínum hafi stefndu rýrt hag R. Sigmundssonar ehf. Þá hafi aðgerðir þeirra verulega dregið úr líkum á því að stefnandi gæti knúið fram bótagreiðslur frá félaginu vegna vanefndanna.
Í sóknargögnum lýsir stefnandi því ekki með neinum hætti hverjar þær ólögmætu og saknæmu athafnir stefndu voru sem hann telur hafa leitt til tjóns síns. Ekki er gerð grein fyrir hlut hvors um sig í því ferli, eða þeim athöfnum, sem stefnandi telur hafa bakað sér tjón. Þá er ekki að finna í sóknargögnum rökstuðning fyrir því hvernig meintar ráðstafanir stefndu, sem vörðuðu umrædda lóð, rýrðu hag R. Sigmundssonar ehf. og komu í veg fyrir að stefnandi gæti knúið fram efndir á umræddu kaupréttarsamkomulagi og síðar komið í veg fyrir að stefnandi gæti knúið fram bótagreiðslur frá félaginu vegna vanefnda þess.
Málatilbúnaður stefnanda er vanreifaður og kröfur hans órökstuddar í verulegum atriðum. Hefur stefnandi ekki lagt þann grundvöll að málinu sem telja verður nauðsynlegan til þess að dómur verði lagður á málið. Ber því að vísa málinu frá dómi án kröfu.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað. Skal stefnandi greiða hvorum hinna stefndu 200.000 krónur í málskostnað.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Stefnandi, Guðmundur Ágúst Ingvarsson, greiði stefndu, Einari Óskarssyni og Haraldi Úlfarssyni, hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað.