Hæstiréttur íslands
Mál nr. 443/2008
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Biðlaun
|
|
Miðvikudaginn 20. maí 2009. |
|
Nr. 443/2008. |
Valur Steinn Þorvaldsson(Jón Höskuldsson hrl.) gegn Búnaðarsambandi Kjalarnesþings (Sigmundur Hannesson hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Biðlaun.
V starfaði sem héraðsráðunautur og framkvæmdastjóri hjá B frá árinu 1987 til 1. maí 2006. Greindi aðila á um rétt V til biðlauna eftir starfslok hans, hvor aðilanna ætti að greiða reikning lögmanns vegna ráðgjafar við endurskoðun ráðningarsamnings V og hvort V hefði við aðalmeðferð málsins samþykkt skuld að tiltekinni fjárhæð. Óumdeilt var að starfssamningur V hafði ekki verið endurskoðaður eins og til stóð samkvæmt upphaflegum samningi aðila. Var þriggja manna framkvæmdastjórn falið að uppfæra samninginn. Lögmaður var fenginn til aðstoðar að frumkvæði V og var B dæmdur til að greiða reikning hans. Framkvæmdastjórnin og V undirrituðu breytingu á starfssamningi við V 7. nóvember 2005. Í málinu þótti nægilega upplýst að starf V hefði verið lagt niður er hann hætti störfum. Með vísan til samningsins 7. nóvember 2005 og annarra málsgagna var staðfestur biðlaunaréttur V. V hafði látið gjaldfæra ýmsar úttektir hjá B sem ekki fundust fylgiskjöl fyrir, staðfesti V að stærstur hluti þeirra væru persónulegar úttektir en taldi hluta þeirra hafa verið í þágu B. Hæstiréttur hafnaði því að V hefði samþykkt við skýrslugjöf í héraði að hann skuldaði alla fjárhæðina, en engu að síður var talið að B þyrfti ekki við svo búið að bera þennan kostnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. ágúst 2008. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.433.130 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 1. október 2008. Hann krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, en til vara lækkunar á kröfu aðaláfrýjanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Helstu ágreiningsefni máls þessa eru hvort aðaláfrýjandi eigi rétt til biðlauna eftir starfslok sín 1. maí 2006, hvor aðila eigi að greiða reikning Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns vegna ráðgjafar hans við endurskoðun ráðningarsamnings aðaláfrýjanda og hvort aðaláfrýjandi hafi við aðalmeðferð málsins samþykkt skuld að tiltekinni fjárhæð og að því marki ráðstafað sakarefninu.
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I
Aðaláfrýjandi hóf störf hjá gagnáfrýjanda fyrri hluta árs 1987 sem héraðsráðunautur í fullu starfi og framkvæmdastjóri í hlutastarfi. Samkvæmt samkomulagi hætti hann störfum 1. maí 2006. Á sama tíma og starfslok aðaláfrýjanda voru rædd og gengið var frá breytingu á starfssamningi hans, var unnið að samningi við Búnaðarfélag Vesturlands um að þjónusta gagnáfrýjanda við bændur yrði færð til þess félags. Mun þetta hafa verið í samræmi við samning Bændasamtaka Íslands og ráðuneyta landbúnaðar og fjármála um hagræðingu verkefna samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998 um fækkun leiðbeiningamiðstöðva. Lá fyrir að gagnáfrýjandi myndi ekki fá áfram fjárveitingu til starfs ráðunautar. Á stjórnarfundi gagnáfrýjanda 6. júlí 2005 var samþykkt að mynda framkvæmdastjórn og var bókað að hún skyldi „vinna að málum Búnaðarsambandsins, starfslokum Vals og var það samþykkt.“ Átti kosning framkvæmdastjórnarinnar stoð í 6. gr. laga gagnáfrýjanda. Niðurstaðan varð að Leiðbeiningamiðstöð Vesturlands var falið að sjá um þjónustu á starfssvæði gagnáfrýjanda að öðru leyti en því að þjónusta við hrossabændur var færð til Búnaðarsambands Suðurlands. Gagnáfrýjandi réð ekki annan starfsmann í stað aðaláfrýjanda. Þykir þannig nægilega upplýst að starf aðaláfrýjanda hafi verið lagt niður er hann hætti störfum.
Þegar aðaláfrýjandi hóf störf hjá gagnáfrýjanda var ráðningarsamningur færður í fundargerðarbók stjórnar gagnáfrýjanda 14. janúar 1987 með því efni að aðaláfrýjandi skyldi frá mars 1987 taka að sér umsjón og rekstur eigna gagnáfrýjanda. Laun hans skyldu greiðast eftir kjarasamningi Búnaðarsambanda og Hagsmunafélags héraðsráðunauta, auk þess sem hann skyldi frá greidda tiltekna yfirvinnu og ferðakostnað vegna starfsins. Tekið var fram að samningurinn yrði endurskoðaður um áramót 1987/1988, en af því mun ekki hafa orðið.
Fyrir Hæstarétt var lögð bókun á fundi stjórnar Búnaðarfélags Íslands 11. nóvember 1988 þar sem fram kemur það viðhorf að „ráðunautar, sem ráðnir hafa verið til félagsins í stöður, sem heimilaðar hafa verið og viðurkenndar með fjárveitingum á fjárlögum, tekið laun í samræmi við launakerfi og samninga ríkisins við viðkomandi hagsmunafélag eigi sama rétt til biðlauna og ríkisstarfsmenn í skilningi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Komi til þess að einhverjar af stöðum ráðunauta verði lagðar niður og ekki verði tök á að ráða viðkomandi í aðra stöðu hjá félaginu, þá á hann rétt til biðlauna í samræmi við 14. gr. nefndra laga.“
Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður var fenginn til aðstoðar við starfslok aðaláfrýjanda og undirrituðu framkvæmdastjórnin og aðaláfrýjandi skjal 7. nóvember 2005 um „breytingar á starfssamningi“. Þar kemur fram að launakjör aðaláfrýjanda hafi aldrei verið endurskoðuð á starfstíma hans. Ekki hafi orðið breytingar á efni starfssamningsins umfram launabreytingar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Aðilar séu sammála um að kjör hans hafi ekki fylgt þróun kjara héraðsráðunauta hvorki að því er varðar laun eða önnur kjör, svo sem um viðbótarlífeyrissparnað. Hins vegar hafi ábyrgð og álag sem starfinu fylgi aukist umtalsvert frá því upphaflegur samningur var gerður í janúar 1987. Þá er lýst starfssviði aðaláfrýjanda og launakjörum og loks öðrum starfstengdum kjörum, sem „skulu vera óbreytt og útfærð með sama hætti og verið hefur, m.a. varðandi og annarra starfstengdra réttinda sem VÞ hefur áunnið sér á starfstíma sínum, þ.m.t. uppsagnarfrestur og biðlaunaréttur.“ Á fundi framkvæmdanefndar 21. febrúar 2006 var bókað að samkomulag væri um að aðaláfrýjandi hætti störfum 1. maí 2006. Rúmu ári eftir undirritun samningsins eða 12. desember 2006 var hann borinn upp á stjórnarfundi gagnáfrýjanda og honum synjað staðfestingar. Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að það hafi einkum verið réttur aðaláfrýjanda til biðlauna sem stjórnin hafi ekki viljað samþykkja.
Svo sem lýst er hér að framan fól stjórn gagnáfrýjanda framkvæmdastjórn að ganga frá starfslokum aðaláfrýjanda. Ritaði framkvæmdastjórnin öll undir samkomulagið 7. nóvember 2005. Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna héraðsdóms um gildi samkomulagsins er staðfest niðurstaða hans um að gagnáfrýjandi hafi verið við það bundinn.
Nægilega er komið fram í málinu að eðli starfa aðaláfrýjanda var opinber stjórnsýsluframkvæmd samkvæmt búnaðarlöggjöfinni sem að verulegu leyti var fjármögnuð úr ríkissjóði. Launakjör hans fóru eftir kjarasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga við íslenska ríkið, hann fékk akstursgreiðslur og dagpeninga, hann var virkur sjóðfélagi hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins frá 1. júní 1968 og naut réttar til töku eftirlauna samkvæmt svonefndri 95 ára reglu við starfslok. Þegar allt þetta er virt, framangreind bókun Búnaðarsambands Íslands 11. nóvember 1988 og þau orð í samningi aðila frá 7. nóvember 2005 að meðal starfstengda réttinda sem aðaláfrýjandi hafi áunnið sér á starfstíma sínum hjá gagnstefnanda sé biðlaunaréttur, verður fallist á að aðaláfrýjandi njóti slíks réttar. Að þessari niðurstöðu fenginni, gerir gagnáfrýjandi ekki ágreining um að biðlaun miðist við 12 mánuði og nemi 5.984.731 krónum svo sem aðaláfrýjandi hefur krafist.
II
Áður er rakið að stjórnarfundur gangáfrýjanda fól þriggja manna framkvæmdastjórn að leysa kjaramál aðaláfrýjanda og semja um starfslok hans. Upplýst er að nokkurn tíma tók að undirbúa og ganga frá samkomulagi áður en það var undirritað 7. nóvember 2005. Aðaláfrýjandi kveður öllum hafa verið ljóst að það þyrfti að leiðrétta launakjör hans og hafi hann viljað að stjórnin nyti við það lögfræðilegrar ráðgjafar. Hafi hann því beðið Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmann að taka að sér það verk. Ragnar Halldór bar fyrir dómi að honum hefði verið falið að vinna þetta fyrir báða aðila og Búnaðarsambandið hefði greitt fyrir vinnu hans. Vitnið Guðmundur Jónsson fyrrverandi formaður gagnáfrýjanda hafnaði því að þetta hefði verið samþykkt, en kvaðst þó ekki muna það nægilega vel til að fullyrða að aðaláfrýjandi hefði ekki borið undir hann að fá lögmann í verkið. Sagði hann nánar spurður: „ einhvern tíma mun ég nú hafa lýst því yfir að ég vildi nú ekki standa í þessu einn ... ef eitthvað þyrfti að gera.“ Hér er um að ræða gagnkvæman samning vegna starfa aðaláfrýjanda hjá gagnáfrýjanda, sem óumdeilt er að ekki hafði verið endurskoðaður eins og til stóð samkvæmt upphaflegum samningi aðila. Við þessar aðstæður og með vísan til þess sem að framan er rakið verður fallist á að gagnáfrýjanda beri að greiða umdeildan reikning.
III
Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að í gagnstefnu í héraði samþykkti aðaláfrýjandi aðeins að skulda gagnáfrýjanda 6.414.050 krónur vegna óútskýrðra reikninga. Við skýrslugjöf í héraði hafi hann hins vegar samþykkt alla fjárhæðina sem gagnáfrýjandi hafði fært honum til skuldar vegna þessa liðar, 7.523.818 krónur og byggir héraðsdómur niðurstöðu sína á því. Aðaláfrýjandi mótmælir þessu og hefur fyrir Hæstarétti gert sömu kröfu og gerð var í gagnstefnu í héraði að því er þetta varðar. Þar sem ekki er unnt að finna nefndu samþykki hans stað í endurriti af framburði hans verður því hafnað að hann hafi samþykkt hærri fjárhæð en fram kom í gagnstefnu í héraði. Samkvæmt málsgögnum er um að ræða kostnað sem aðaláfrýjandi lét gjaldfæra hjá gagnáfrýjanda án þess að leggja fram reikninga eða önnur fylgiskjöl fyrir honum. Verður ekki talið að gagnáfrýjandi þurfi við svo búið að bera þennan kostnað. Af þessum ástæðum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að öll fjárhæðin, 7.523.818 krónur, komi til frádráttar kröfu aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að aðaláfrýjanda bæri að greiða gagnáfrýjanda 1.774.664 krónur og er sú fjárhæð óumdeild að öðru leyti en að framan greinir. Sú breyting er nú gerð á niðurstöðu héraðsdóms að gagnáfrýjanda er gert að greiða aðaláfrýjanda 5.984.731 krónu vegna biðlauna og einnig að gagnáfrýjandi skuli bera kostnað vegna lögfræðiþjónustu Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns 128.857 krónur. Samkvæmt þessu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 4.338.924 krónur (5.984.731+128.857-1.774.664).
Miðað við atvik málsins, einkum þau að aðaláfrýjandi átti sjálfur sök á þeirri óvissu sem uppi var um uppgjör aðila, þykir með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu mega ákveða að dráttarvextir miðist við 26. apríl 2007, en þann dag þingfesti aðaláfrýjandi gagnsök sína í héraði.
Eins og málsatvikum er háttað og með tilliti til þess að aðaláfrýjandi, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda, átti sjálfur nokkra sök á því að launamál hans voru í ólestri og að hann auk þess gætti ekki hin síðari ár starfsskyldna sinna að því varðaði meðferð fjármuna vinnuveitanda síns og bókhald, þykir rétt með hliðsjón af sjónarmiðum að baki 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að láta málskostnað falla niður á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Búnaðarsamband Kjalarnesþings, greiði aðaláfrýjanda, Vali Steini Þorvaldssyni, 4.338.924 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. apríl 2007 til greiðsludags.
Málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 30. júní sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 21. mars 2007.
Stefnandi í aðalsök og gagnstefndi er Búnaðarsamband Kjalarnesþings, Þverholti 3, Mosfellsbæ, en stefndi í aðalsök og gagnstefnandi er Valur Steinn Þorvaldsson, Minna-Mosfelli, Mosfellsbæ.
Endanlegar dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 5.037.310 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni, frá 1. maí 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. maí 2007, en síðan árlega þann dag. Loks er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefndi í aðalsök krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Með gagnstefnu, sem birt var stefnanda í aðalsök 17. apríl 2007, höfðaði stefndi gagnsök og gerir þær kröfur að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 5.433.130 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. maí 2006 til greiðsludags, auk vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, fyrst 1. maí 2007, og síðan árlega þann dag. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi gagnstefnda samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Gagnstefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að mati dómsins. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á kröfum gagnstefnanda og að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af þessum þætti málsins.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með ráðningarsamningi frá janúar 1987 var Valur Steinn Þorvaldsson, hér nefndur aðalstefndi, ráðinn til starfa sem héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, aðalstefnanda í máli þessu. Samkvæmt ráðningarsamningnum tók aðalstefndi einnig frá sama tíma að sér umsjón og rekstur eigna aðalstefnanda. Laun áttu að greiðast eftir kjarasamningi Búnaðarsambanda og héraðsráðunauta, en að auki átti aðalstefndi að fá greidda 25 tíma í yfirvinnu á mánuði fyrir framkvæmdastjórastarf. Samningurinn kvað og á um að aðalstefndi skyldi leggja til bifreið og fengi hann greitt fyrir allan akstur á vegum aðalstefnanda samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi. Ráðningarsamninginn skyldi endurskoða um áramót 1987/1988. Ekki kom til þess að samningurinn yrði endurskoðaður, en 7. nóvember 2005 undirrituðu aðalstefndi og framkvæmdastjórn aðalstefnanda samkomulag um svofelldar breytingar á starfskjörum aðalstefnda, sem gilda átti frá 1. mars 2005:
1. „VÞ gegnir starfi héraðsráðunautar BSK og hefur umsjón með faglegum verkefnum og samstarfi við aðra sérfræðinga. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri BSK og hefur umsjón með rekstri þess, fjárreiðum og eignum, eins og verið hefur.
2. VÞ tekur laun skv. launatöflu kjarasamnings Félags íslenskra náttúrufræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs nr. 663-09, launafl. C18/3, og eru mánaðarlaun frá 1. mars 2005 kr. 408.055. Er þetta heildargreiðsla fyrir vinnuframlag VÞ og innifelur öll viðvik hvort sem þau eru unnin innan marka daglegs vinnutíma eða utan. Launafjárhæðin tekur síðan þeim breytingum hlutfallslega sem samninganefndir búnaðarsambanda og héraðsráðunauta kunna að semja um á gildistíma starfssamnings þessa.
3. Öll önnur starfstengd kjör VÞ en laun skulu vera óbreytt og útfærð með sama hætti og verið hefur, m.a. varðandi greiðslur í lífeyrissjóð og greiðslur vegna afnota bifreiðar VÞ í þágu vinnuveitandans, dagpeninga og annarra starfstengdra réttinda sem VÞ hefur áunnið sér á starfstíma sínum, þ.m.t. uppsagnarfrestur og biðlaunaréttur.“
Framkvæmdastjórn aðalstefnanda skipuðu á þessum tíma Guðmundur Jónsson, formaður stjórnar aðalstefnanda, Björn Jónsson varaformaður og Ásthildur Skjaldardóttir ritari. Samkomulagið var undirritað á lögfræðiskrifstofu Ragnars H. Hall hrl., en einnig fært í fundargerðarbók stjórnar aðalstefnanda.
Með bréfi 28. desember 2005 frá Þrúði G. Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Félags íslenskra náttúrufræðinga, til Guðmundar Jónssonar, formanns aðalstefnanda, voru skýrðar þær breytingar sem orðið höfðu á launakjörum aðalstefnda samkvæmt nýgerðum kjarasamningi Búnaðarsambanda og Hagsmunafélags ráðunauta.
Meðal framlagðra gagna eru fundargerðir stjórnar og framkvæmdastjórnar aðalstefnanda frá september 2004 til febrúar 2008. Má þar sjá að á nokkrum fundum er fjallað um starfslok aðalstefnda. Í fundargerð stjórnar frá 6. júlí 2005 kemur fram að rætt hafi verið um samdrátt í tekjum af búnaðargjaldi og um stöðu aðalstefnanda vegna ákvæða nýs búnaðarsamnings. Bókað var að vegna þessa þyrfti að íhuga samstarf við Vestlendinga eða Sunnlendinga. Þá var að tillögu formanns samþykkt að hann, ásamt varaformanni og ritara, mynduðu framkvæmdastjórn, sem hefði það hlutverk að vinna að málum aðalstefnanda og starfslokum aðalstefnda. Næst er bókað um fund framkvæmdastjórnar á skrifstofu Ragnars H. Hall hrl. 7. nóvember 2005, þar sem gengið var frá breytingum á starfssamningi aðalstefnda. Í fundargerð stjórnar 13. desember 2005 er bókað að aðalstefndi hafi gert stjórninni grein fyrir störfum framkvæmdanefndar. Jafnframt segir þar að gengið verði frá starfslokum aðalstefnda fyrir áramót. Í fundargerð framkvæmdastjórnar frá 21. febrúar 2006, sem undirrituð er af framkvæmdastjórn og aðalstefnda, kemur fram að samkomulag sé um að aðalstefndi hætti störfum 1. maí 2006. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar aðalstefnanda, sem haldinn var 12. desember 2006, er bókað í fundargerð að samningur sá sem framkvæmdastjórn og aðalstefndi hafi gert 7. nóvember 2005, um breytingar á starfssamningi aðalstefnda, hafi aldrei verið borinn upp, hvorki á stjórnarfundi né aðalfundi. Var samningurinn borinn undir atkvæði fundarmanna og honum synjað með öllum greiddum atkvæðum. Í fundargerðum má einnig lesa að mjög hefur verið rætt um aðskilnað aðalstefnda við starfslok, bókhaldsóreiðu á skrifstofu hans, drátt á vinnu við gerð ársreikninga fyrir árin 2004 og 2005 og vöntun á fylgiskjölum. Þar sem aðalstefnandi taldi að ekki væri allt með felldu í fjármálum sambandsins var endurskoðunarfirmanu Deloitte m.a. falið að yfirfara fjárreiður þess, þ.á m. bankareikninga. Í bréfi Deloitte frá 17. október 2006 til aðalstefnanda segir svo:
„Við höfum yfirfarið bankareikning félagsins fyrir árin 2004, 2005 og frá 1. janúar til 18. maí 2006. Eftir yfirferð teljum við að krafa Búnaðarsambands Kjalarnesþings á hendur Vali Þorvaldssyni sé kr. 15.202.830. Krafan byggist á úttektum Vals af bankareikningi félagsins á tímabilinu, fylgiskjölum sem til staðar eru í bókhaldinu og ekki eru talin tilheyra Búnaðarsambandinu og úttektum af bankareikningi þar sem fylgiskjöl vantar í bókhaldið og ekki er hægt að sjá hvað verið er að greiða. Eftir er að taka tillit til þess að Valur á rétt á launum á þessu tímabili og á eftir að færa það til lækkunar á kröfunni. Einnig á eftir að bæta við skuld Vals við félagið frá 31/12 2003 sem samkvæmt bókhaldi félagsins 31/12 2003 er kr. 897.087.“
Með bréfi Deloitte fylgdu sundurliðanir á bankareikningum sambandsins árin 2004, 2005 og fyrir tímabilið 1. janúar til 18. maí 2006. Fjárhæðin, 15.202.830 krónur, sundurliðast þannig:
|
Úttekið/millifært á Val |
9.022.634,- |
|
Reikn. til staðar í bókhaldi, en tilheyra Vali prívat skv. yfirferð Hafbergs Þórissonar |
1.056.378,- |
|
Engin fylgiskjöl til staðar í bókhaldi |
7.523.818,- |
|
Innborgað af Vali |
(2.400.000,-) |
|
|
15.202.830,- |
Að viðbættri skuld aðalstefnda samkvæmt bókhaldi 31/12 2003, að fjárhæð 897.087 krónur, nemur fjárhæðin samtals 16.099.917 krónum. Frá þeirri fjárhæð á eftir að draga laun aðalstefnda. Ágreiningur er með aðilum um ofangreindar fjárhæðir, að undanskilinni skuld aðalstefnda að fjárhæð 897.087 krónur. Jafnframt deila aðilar um fjárhæð vangoldinna launa aðalstefnda og rétt hans til biðlauna.
Í stefnu í aðalsök er frá því greint að aðalstefnandi hafi freistað þess að aðilar færu yfir gögn málsins í því skyni að ná samkomulagi um fjárhagslegt uppgjör, en án árangurs, þar sem aðalstefndi hafi ekki viljað sitja fundi með forsvarsmönnum aðalstefnanda. Að svo komnu hafi aðalstefnanda verið nauðsyn að höfða mál þetta og fá skorið úr ágreiningi aðila fyrir dómi.
Í gagnstefnu kemur fram að gagnstefnandi hafi lýst sig reiðubúinn við Guðmund Jónsson, þáverandi formann gagnstefnda, til að ljúka uppgjöri fyrir starfstíma sinn, þ.e. fram til 1. maí 2006, og lengur ef nauðsyn krefði. Í byrjun apríl sama ár hafi gagnstefnanda hins vegar virst sem einhvers konar valdarán hefði átt sér stað í stjórn gagnstefnda og kjörin stjórn sambandsins gerð valdalaus. Því til skýringar nefnir gagnstefnandi m.a. að farið hafi verið inn í skrifstofu hans og bókhaldsgögn fjarlægð, að honum fjarstöddum og án hans vitundar. Geti gagnstefnandi því ekki borið ábyrgð á þeim bókhaldsgögnum. Eftir það hafi honum ekki gefist tækifæri til að skila af sér, eins og um hafi samist. Fram kemur einnig að gagnstefnandi hafi í byrjun árs 2007 óskað eftir viðræðum við gagnstefnda um uppgjör milli aðila. Um leið hafi hann gert alvarlegar athugasemdir við að í kröfubréfi gagnstefnda hafi laun hans ekki verið reiknuð út og dregin frá heildarkröfunni. Hafi gagnstefndi ekki sinnt óskum hans um viðræður, en þess í stað hafið málarekstur á hendur honum.
Málsástæður og lagarök stefnanda í aðalsök
Aðalstefnandi byggir á því að aðalstefndi skuldi honum þá fjárhæð sem að ofan greinir. Hafi aðalstefndi, án heimildar aðalstefnanda, bæði safnað upp skuld á viðskiptareikningi sínum hjá aðalstefnanda, svo og greitt af reikningi aðalstefnanda fyrir ýmsar vörur og þjónustu í eigin þágu. Þá sé meðferð hans á fylgiskjölum verulega ábótavant og engin fylgiskjöl til staðar í bókhaldi fyrir háum úttektum af reikningi aðalstefnanda. Allt sé þetta staðfest í samantekt endurskoðunarfirmans Deloitte. Hins vegar sé það óumdeilt að aðalstefndi eigi inni vangoldin laun hjá aðalstefnanda fyrir árin 2004 og 2005, svo og fyrir tímabilið frá janúar til apríl 2006, og komi þau til frádráttar skuld hans við aðalstefnanda. Krafa aðalstefnanda sundurliðast svo, og hefur þá verið tekið tillit til breyttrar kröfugerðar hans:
|
Krafa 31/12 2003 |
897.087,- |
|
|
Fært á viðsk.m. |
9.022.634,- |
|
|
Fylgiskj. v/Vals (Hafberg) |
1.056.378,- |
|
|
Engin fylgiskj. |
7.523.818,- |
|
|
|
18.499.917,- |
|
|
Endurgreitt af Vali |
(2.400.000,-) |
|
|
|
16.099.917,- |
|
|
Til frádráttar: |
|
|
|
Laun jan.- des. 2004 staðgr. |
3.029.206,- |
|
|
Dagp. + ferðak. |
1.092.946,- |
(4.122.152,-) |
|
|
|
|
|
Laun jan.-sept. 2005 staðgr. |
2.446.283,- |
|
|
Laun okt.-des. 2005 |
1.229.676,- |
|
|
Dagp. + ferðak. |
1.192.946,- |
(4.869.905,-) |
|
|
|
|
|
Laun jan.-apríl 2006 |
1.639.568,- |
|
|
Dagp. + ferðak. (1.292.946 ÷3) |
430.982,- |
(2.070.550,-) |
|
|
Krafa samtals |
5.037.310,- |
Aðalstefnandi tekur fram að staðgreiðsla af launum hafi verið greidd til október 2005. Þá kveðst hann til einföldunar gera kröfu um dráttarvexti af stefnufjárhæðinni frá 1. maí 2006 að telja.
Til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, kveðst aðalstefnandi styðja við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, kröfu um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa hans um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda í aðalsök
Aðalstefndi mótmælir og vísar á bug sem röngum og ósönnuðum þeim fullyrðingum að ekki hafi allt verið með felldu í fjármálum aðalstefnanda og beri aðalstefndi ábyrgð á því.
Byggir hann á því að útreikningi aðalstefnanda á launum hans fyrir tímabilið 1. janúar til 1. maí 2006 sé verulega áfátt. Svo dæmi sé tekið taki aðalstefnandi ekkert tillit til biðlauna aðalstefnda í 12 mánuði frá 1. maí 2006 að telja. Starf aðalstefnda hafi verið lagt niður þegar aðalstefnandi hætti starfsemi og Leiðbeiningarmiðstöð Vesturlands hafi tekið við verkefnum aðalstefnanda. Við þá breytingu hafi ekki verið gert ráð fyrir að starf aðalstefnda yrði flutt þangað, þvert á móti hafi starf hans verið lagt niður og honum ekki boðið annað starf í þess stað. Réttur aðalstefnda til biðlauna sé ótvíræður og hafi alltaf legið fyrir, enda áréttað í sérstökum samningi aðila frá 7. nóvember 2005. Til frekari stuðnings vísar aðalstefndi til ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar sé m.a. að finna tilvísun til eldri laga um sama efni, nr. 38/1954. Að öðru leyti kveðst aðalstefndi vísa til málsástæðna og lagaraka, sem fram komi í gagnstefnu hans.
Málsástæður og lagarök stefnanda í gagnsök
Gagnstefnandi byggir kröfur sínar á því að hann eigi rétt til launa hjá gagnstefnda fyrir tímabilið frá 2004 til 2007, þ.m.t. biðlauna, og vísar í þeim efnum til samnings aðila frá 7. nóvember 2005, um breytingar á starfssamningi gagnstefnanda. Til frádráttar vangoldnum launum kveðst hann viðurkenna sem réttmætar ýmsar kröfur gagnstefnda, og miðist kröfugerð hans í gagnsök við það.
Að því er launakröfur varðar kveðst gagnstefnandi byggja á því að starfskjörum hans hafi verið breytt með samningi aðila frá 7. nóvember 2005. Breytingarnar hafi gilt frá 1. mars 2005, en frá þeim tíma skyldi gagnstefnandi taka laun samkvæmt launatöflu kjarasamnings Félags íslenskra náttúrufræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, nr. 663-09, launaflokkur C18/3 (mánaðarlaun frá 1. mars 2005 408.055 krónur). Í málinu liggi fyrir bréf framkvæmdastjóra Félags íslenskra náttúrufræðinga frá 28. desember 2005, er sýni að gagnstefnandi eigi rétt til tveggja launaflokka hækkunar samkvæmt kjarasamningi, svo og bréf frá framkvæmdastjóra BHM, dagsett 25. apríl 2007, er sýni þróun launa gagnstefnanda frá 1. mars 2005 til 1. maí 2007, og miðist launaútreikningur hans við þær forsendur. Jafnframt komi fram í áðurgreindum samningi um breytingar á launakjörum gagnstefnanda að öll önnur starfstengd kjör hans skuli vera óbreytt og útfærð með sama hætti og verið hafi, m.a. greiðslur vegna afnota gagnstefnanda af bifreið, dagpeningar og starfstengd réttindi, s.s. biðlaunaréttindi. Taki kröfugerð hans einnig mið af því.
Gagnstefnandi telur að mikið vanti upp á að viðhlítandi grundvöllur sé fyrir meintum fjárkröfum gagnstefnda á hendur honum, og rekur hann það til vanþekkingar á starfsemi gagnstefnda. Þannig fái vart staðist að gagnstefnanda sé persónulega ætlað að standa straum af ýmsum útgjöldum sem stjórn gagnstefnda hafi falið honum að annast, og nefnir í dæmaskyni tækifærisgjafir, vinnu iðnaðarmanna við viðhald fasteignar gagnstefnda, veitingar í fræðsluferðum, lögfræðiaðstoð við samningsgerð, kostnað vegna þinglýsingar og stimpilgjalda og viðhalds og kaupa á búnaði og tækjum gagnstefnda.
Gagnstefnandi sundurliðar kröfur sínar á hendur gagnstefnda með eftirfarandi hætti og tekur um leið afstöðu til krafna sem hann telur að koma eigi til frádráttar kröfum hans:
Ekki er um það ágreiningur að skuld gagnstefnanda við gagnstefnda 31. desember 2003 nam 897.087 krónum.
Við uppgjör vegna ársins 2004 kveðst gagnstefnandi styðjast við nær fullgert bókhald gagnstefnda fyrir það ár, sem hann hafi skilað til endurskoðunarfirmans Deloitte á fyrri hluta árs 2005. Afstemmingum hafi þó ekki að fullu verið lokið og kunnugt hafi verið um villufærslur, sem átti eftir að leiðrétta. Geri gagnstefnandi grein fyrir þeim leiðréttingarfærslum á sérstöku skjali í gögnum málsins. Hins vegar hafni hann alfarið sem röngum og órökstuddum þeim breytingum sem fram komi í skýrslu Deloitte og beri yfirskriftina „Reikningar v/VÞ skv. Hafberg“, og telji að þær breytingar hafi verið fyrirskipaðar einhliða af stjórn gagnstefnda, án þess að skýringar lægju fyrir. Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gagnstefnandi telur að gera þurfi, fellst hann á að greiðslur gagnstefnda til hans á árinu 2004 hafi numið alls 8.017.990 krónum. Í þeirri fjárhæð sé innifalin staðgreiðsla skatta vegna launa gagnstefnanda, 1.365.544 krónur. Á móti eigi að koma innborganir gagnstefnanda, 2.400.000 krónur, sem hann hafi greitt á reikning gagnstefnda og 11.636 krónur vegna tveggja reikninga gagnstefnda, sem gagnstefnandi hafi greitt persónulega, eða samtals 2.411.636 krónur, svo og laun ársins 2004 að fjárhæð 4.394.670 krónur, bifreiðastyrkur að fjárhæð 859.850 krónur og dagpeningar, 397.904 krónur, eða samtals 8.064.060 krónur. Með því móti nemi skuld gagnstefnda við gagnstefnanda vegna ársins 2004 46.070 krónum.
Að því er áhrærir kröfur gagnstefnda á hendur gagnstefnanda vegna ársins 2005 ítrekar gagnstefnandi að honum hafi ekki gefist kostur á að skila af sér bókhaldsgögnum við starfslok sín. Þess í stað hafi starfsvettvangur hans og bókhaldsgögn verið yfirtekin af gagnstefnda með gerræðislegum hætti 7. apríl 2006, að honum fjarstöddum. Frá þeim tíma firri hann sig ábyrgð á þeim bókhaldsgögnum sem fjarlægð hafi verið af skrifstofu hans. Engu að síður kveðst gagnstefnandi fallast á að fjárhæðir sem tilgreindar séu í yfirliti Deloitte fyrir árið 2005, auðkenndar sem „engin fylgiskjöl“, hafi gangstefndi greitt honum, að frádregnum 12 færslum, alls að fjárhæð 255.059 krónur, sem tilgreindar séu í sérstöku skjali sem hann hafi lagt fram. Eftir standi því 3.744.914 krónur, sem gagnstefnandi samþykki. Þá geri gagnstefnandi ekki athugasemd við að liðurinn „Úttekið/millifært á Val“, að fjárhæð 1.920.300 krónur, séu greiðslur gagnstefnda til hans. Hins vegar vísi hann alfarið á bug fjárhæðum sem auðkenndar séu „Reikningar v/VÞ skv. Hafberg“, að undanskilinni einni greiðslu í banka að fjárhæð 36.400 krónur. Samkvæmt því fallist gagnstefnandi á að greiðslur til hans á árinu 2005 hafi numið 5.701.614 krónum. Að auki hafi gagnstefndi greitt staðgreiðslu skatta af launum hans, 1.072.897 krónur, og nemi því heildargreiðslur til hans 6.774.511 krónum. Á móti komi innborgun gagnstefnanda á reikning gagnstefnda 30. desember 2005, 750.000 krónur, auk greiðslu hans á reikningi vegna gólfbóns í sameign að fjárhæð 28.460 krónur, eða samtals 778.460 krónur. Jafnframt komi laun ársins 2005 til frádráttar, 5.864.243 krónur, bifreiðastyrkur að fjárhæð 916.576 krónur og dagpeningar, 174.400 krónur, eða samtals 7.733.679 krónur. Samkvæmt því telur gagnstefnandi að skuld gagnstefnda við hann vegna ársins 2005 nemi 959.168 krónum.
Gagnstefnandi kveðst fallast á að fjárhæðir sem tilgreindar séu í yfirliti Deloitte fyrir árið 2006 og auðkenndar sem „engin fylgiskjöl“ tilheyri honum, að undanskildum 12 færslum sem skýrðar séu á sérstöku framlögðu skjali hans, samtals að fjárhæð 326.839 krónur. Því nemi samþykkt fjárhæð 2.623.066 krónum. Þá geri hann ekki athugasemd við að liðurinn „Úttekið/millifært á Val“, að fjárhæð 500.000 krónur, tilheyri honum einnig, en vísi sem fyrr á bug fjárhæðum undir liðnum „Reikningar v/VÞ skv. Hafberg“, þó að undanskilinni einni greiðslu að fjárhæð 17.400 krónur. Því fallist gagnstefnandi á að greiðslur gagnstefnda til hans á árinu 2006 hafi numið 3.140.466 krónum. Að auki hafi gagnstefndi greitt staðgreiðslu skatta vegna launa hans fyrir árið 2006, 149.950 krónur. Samtals nemi greiðslur gangstefnda því 3.290.416 krónum. Á móti komi hins vegar laun ársins 2006, svo og biðlaun frá 1. maí til 31. desember 2006, samtals 6.277.243 krónur, bifreiðastyrkur til 1. maí sama ár, 269.704 krónur, og dagpeningar til sama dags, 57.200 krónur, eða samtals 6.604.147 krónur. Samtals nemi því skuld gangstefnda við gagnstefnanda vegna ársins 2006 3.313.731 krónu.
Eins og áður er fram komið byggir gangstefnandi á því að hann eigi rétt á biðlaunum til 1. maí 2007, og vísar í því sambandi til samnings aðila frá 7. nóvember 2005. Nemi launin á árinu 2007 samtals 2.011.248 krónum.
Samkvæmt framanrituðu er krafa gagnstefnanda á því reist að hann eigi rétt til launa og annarra greiðslna úr hendi gangstefnda fyrir árin 2003 til 2007, samtals að fjárhæð 24.413.134 krónur. Á móti þeirri fjárhæð komi greiðslur sem gagnstefndi hafi þegar innt af hendi, samtals að fjárhæð 18.082.917 krónur, svo og óumdeild skuld gagnstefnanda við gagnstefnda samkvæmt bókhaldi 31/12 2003, 897.087 krónur. Geri gagnstefnandi kröfu til þess að gangstefndi greiði sér mismun þeirra fjárhæða, 5.433.130 krónur.
Kröfum sínum til stuðnings kveðst gagnstefnandi vísa til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, svo og til laga nr. 50/2000, einkum VI. og VII. kafla þeirra, laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 og eldri laga nr. 38/1954, en einnig til kjarasamnings búnaðarsambanda og Hagsmunafélags ráðunauta frá 9. desember 2005. Krafa hans um dráttarvexti og vaxtavexti er reist á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um heimild til höfðunar gagnsakar til sjálfstæðs dóms vísar gagnstefnandi til 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa hans um málskostnað er byggð á XXI. kafla sömu laga. Þá er krafa hans um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefnda í gagnsök
Gagnstefndi mótmælir því algerlega að gagnstefnandi eigi rétt á biðlaunum í eitt ár frá starfslokum, eins og haldið sé fram af hans hálfu. Því til stuðnings bendir hann á að gagnstefnandi hafi sjálfur kosið að láta af störfum þegar fyrir lá að breytinga var að vænta á starfsemi búnaðarfélaga. Beri fundargerðir stjórnar gagnstefnda þess augljóst vitni að starfslok gagnstefnanda hafi verið ákveðin í fullri sátt og með samkomulagi við hann sjálfan. Þótt starf gagnstefnanda hafi verið lagt niður við starfslok hans, sé þeim verkefnum sem hann hafi áður haft með höndum nú sinnt með öðrum hætti, m.a. af Leiðbeiningarmiðstöð Vesturlands, enda starfi Búnaðarsamband Kjalarnesþings áfram. Gagnstefndi leggur einnig áherslu á að hvorki í upphaflegum ráðningarsamningi gagnstefnanda, kjarasamningi hans, né í lögum sé mælt fyrir um biðlaunarétt honum til handa. Gagnstefnandi sé ekki ríkisstarfsmaður og hafi ekki verið. Því stoði hann ekki að vísa til bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til stuðnings slíkri kröfu. Og jafnvel þótt biðlaunaréttur sé nefndur á nafn í þeirri breytingu sem gerð var á starfssamningi gagnstefnanda 7. nóvember 2005, telur gagnstefndi að sá réttur hafi ekki getað stofnast við það eitt. Túlka verði lokaorð samningsins í ljósi þess tilgangs sem hafi vakað fyrir framkvæmdastjórn með gerð hans. Jafnframt verði að hafa hugfast að stjórn gagnstefnda hafnaði þessum samningi síðar og því hafi hann ekki öðlast gildi gagnvart gagnstefnda. Telji dómurinn engu að síður að gagnstefnandi eigi rétt á biðlaunum, verði að líta til þess að hann hafi ekki lagt fram nein gögn sem staðfesti að hann hafi ekki notið launa á tímabilinu frá 1. maí 2006 til 1. maí 2007, en þau eigi að koma til frádráttar biðlaunakröfu hans.
Gagnstefndi kveðst einnig mótmæla útreikningi og framsetningu launakrafna gagnstefnanda. Kröfurnar miðist við að samkomulag hafi orðið um breytingar á starfskjörum gagnstefnanda frá 1. mars 2005, en því hafni gagnstefndi með framangreindum rökum. Þá sé því alfarið hafnað að gagnstefnandi eigi rétt til biðlauna frá 1. maí 2006 til 1. maí 2007.
Gagnstefndi kveðst halda fast við þær kröfur sem hann geri í stefnu í aðalsök. Stafi skuld gagnstefnanda við gagnstefnda af því að hann hafi safnað upp skuld á viðskiptareikningi sínum, án vitundar og heimildar stjórnar gagnstefnda. Jafnframt hafi gagnstefnandi trassað að ganga frá launauppgjöri og bókhaldi, sem um leið hafi leitt til þess að frágangur ársreikninga hafi dregist úr hömlu. Enn fremur hafi hann verið ófáanlegur til að gera hreint fyrir sínum dyrum og koma fjármálum í viðunandi horf, þrátt fyrir ítrekaðar óskir gagnstefnda. Þá kveðst gagnstefndi mótmæla órökstuddum fullyrðingum gagnstefnanda um að starfsvettvangur hans hafi verið yfirtekinn og að einhvers konar valdarán hafi átt sér stað í stjórn gagnstefnda.
Við munnlegan flutning málsins vék gagnstefndi sérstaklega að reikningi frá Ragnari H. Hall hrl., sem greiddur var af gagnstefnda, en síðar bakfærður á gagnstefnanda. Taldi hann fráleitt að gagnstefnda bæri að greiða þann reikning, þar eð vinna lögmannsins hafi alfarið verið unnin í þágu gagnstefnanda og að hans ósk. Hinu sama gegndi um aðrar fjárhæðir sem færðar hafi verið til skuldar hjá gagnstefnanda, ekki verði með góðu móti séð að þær greiðslur hafi verið í þágu gagnstefnda. Þá taldi gagnstefndi að gagnstefnanda hafi ekki tekist að skýra hvaðan innborgun á reikning gagnstefnda 30. desember 2005, að fjárhæð 750.000 krónur, hafi komið. Verði ekki slegið föstu að sú innborgun hafi stafað frá gagnstefnanda sjálfum.
Munnlegar skýrslur fyrir dómi
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Valur Steinn Þorvaldsson, aðalstefndi og stefnandi í gagnsök, Hafberg Þórisson, núverandi formaður stjórnar aðalstefnanda og gagnstefnda, Guðmundur Jónsson, fyrrverandi formaður stjórnar, stjórnarmennirnir Þorlákur Ásgeir Pétursson, Björn Jónsson og Ásthildur Skjaldardóttir, Hilmar Alfreð Alfreðsson og Guðbjörg Óskarsdóttir, starfsmenn Deloitte, Ragnar H. Hall hrl., Þrúður G. Haraldsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Félags íslenskra náttúrufræðinga, og Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri BHM.
Valur Steinn Þorvaldsson skýrði frá því að hann hafi verið ráðinn sem héraðsráðunautur til Búnaðarsambands Kjalarnesþings 1. apríl 1987 með skriflegum ráðningarsamningi. Í starfinu hafi einnig falist að sjá um fjárreiður og eignir sambandsins, sem framkvæmdastjóri þess. Hafi hann verið eini starfsmaður sambandsins og haft mikið á sinni könnu. Upp úr síðustu aldamótum hafi þó dofnað yfir starfsemi búnaðarsambandsins, þar sem búgreinafélög tóku við verkefnum búgreinanna. Af þeim ástæðum hafi í búnaðarlögum verið gert ráð fyrir fækkun leiðbeiningarmiðstöðva og hafi hann þá sjálfur haft á orði að starfsemi Búnaðarsambands Kjalarnesþings liði undir lok.
Valur sagðist líta svo á að héraðsráðunautar, þ.á m. hann sjálfur, væru „hálf-opinberir“ starfsmenn, fé til greiðslu launa þeirra kæmi frá ríkinu og þeir væru aðilar að lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. Í kjarasamningi Búnaðarsambanda og Hagsmunafélags ráðunauta væri einnig kveðið á um að um réttindi þeirra færi að öðru leyti eins og um ríkisstarfsmenn. Hann sagði að sumir ráðunautar væru jafnframt félagar í Félagi íslenskra náttúrufræðinga, og væri hann þar á meðal. Þegar Valur var spurður um biðlaunaréttindi, sagðist hann líta svo á að hann ætti eins árs biðlaunarétt, því hefði ekki hvarflað að honum að segja upp störfum hjá búnaðarsambandinu. Hins vegar hafi hann beðið eftir því að starf hans yrði lagt niður.
Spurður um breytingar á starfssamningi 7. nóvember 2005 sagði Valur að stjórn sambandsins hafi verið það kunnugt að hann hefði dregist aftur úr í launum, enda hefðu ráðningarkjör hans aldrei verið endurskoðuð, eins og kveðið var á um í upphaflegum ráðningarsamningi. Þegar að því dró að hann gæti farið á eftirlaun kvaðst hann hafa imprað á því við framkvæmdastjórn búnaðarsambandsins að nauðsynlegt væri að breyta starfskjörum hans og hefði framkvæmdastjórnin fallist á það. Jafnframt hefði framkvæmdastjórnin fallist á að hann leitaði aðstoðar Ragnars H. Hall hrl. til þess að gera samning um slíkar breytingar. Eftir að samningurinn hafði verið undirritaður kvaðst Valur hafa reiknað sér laun í samræmi við ákvæði hans og að fengnum skýringum hjá Félagi íslenskra náttúrufræðinga.
Valur kvaðst viðurkenna að sú fjárhæð sem endurskoðunarfirmað Deloitte hafi fært honum til skuldar vegna vöntunar á fylgiskjölum, samtals 7.523.818 krónur, væri vegna úttekta hans sjálfs og ætti því með réttu að koma til frádráttar kröfu hans á hendur búnaðarsambandinu. Ástæðu þess að hann hafi notað reikning búnaðarsambandsins með þessum hætti megi að stærstum hluta rekja til lausafjárskorts, hann hafi því ekki getað greitt sér laun reglulega. Hins vegar kveðst hann með engu móti geta fallist á að honum beri að greiða flestar þær úttektir sem Hafberg Þórisson telji að honum tilheyri.
Í máli Hafbergs Þórissonar, núverandi formanns Búnaðarsambands Kjalarnesþings, kom fram að eftir árið 2002 hafi farið að bera á losarabrag í starfi Vals. Hafi það einkum lýst sér í því að hann átti í erfiðleikum með reikningshald og skil ársreikninga. Valur hafi þá lengi óskað eftir því að hætta störfum, enda hafi hann verið að komast á eftirlaun samkvæmt „95 ára reglunni“. Sjálfur kvaðst Hafberg hafa talið þá breytingu sem gerð var á starfskjörum Vals 7. nóvember 2005 ágæta, að því leyti sem laun hans voru þá hækkuð og gátu auðveldað honum að komast á góð eftirlaun. Hins vegar kvaðst hvorki hann, né stjórn búnaðarsambandsins, hafa getað fallist á að með þeirri breytingu hafi verið samið um biðlaunaréttindi, og því hafi samningnum síðar verið hafnað af stjórn sambandsins. Tók hann fram að aðeins stjórn búnaðarsambandsins hefði heimild til að ráða starfskjörum ráðunautar, framkvæmdastjórn hefði ekki slíkt umboð. Aðspurður sagði hann að Leiðbeiningarstöðin á Hvanneyri sinnti nú því starfi sem héraðsráðunautur gegndi áður. Því kvaðst hann ekki líta svo á að starfið hafi verið lagt niður.
Spurður um fylgiskjöl sem hann hefði tekið út úr bókhaldi búnaðarsambandsins og merkt Vali í samantekt Deloitte, alls að fjárhæð 1.056.378 krónur, sagði Hafberg að hann hefði sjálfur farið yfir fylgiskjöl áranna 2004, 2005 og til 18. maí 2006. Í þeirri yfirferð hefði hann tekið út fylgiskjöl, sem hann taldi að þyrfti skýringa við og vafi léki á að tilheyrðu sambandinu. Valur hefði hins vegar aldrei gefið skýringar á þessum fylgiskjölum og því væri fjárhæðin færð honum til skuldar.
Guðmundar Jónsson, fyrrverandi formaður stjórnar búnaðarsambandsins, greindi frá aðdraganda að þeim samningi sem gerður var um breytt starfskjör héraðsráðunautar. Hann sagði að Valur hefði óskað eftir því að hann, og aðrir í framkvæmdastjórn, kæmu til fundar við Ragnar H. Hall hrl. til þess að undirrita samning um launahækkun til hans. Hefði Valur sagt að hann hefði orðið eftir í launaþróun og að slíkur samningur yrði honum eins konar veganesti inn í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar sem hann tæki eftirlaun. Sagðist Guðmundur hafa farið á fundinn, ásamt öðrum í framkvæmdastjórn, og þar hefði samningurinn verið undirritaður eftir nokkurn formála frá Ragnari H. Hall hrl. Spurður um fyrri samskipti við Ragnar H. Hall hrl., sagðist hann aldrei fyrr hafa átt nein samskipti við hann og ekki hefði hann átt nokkurt frumkvæði að því að lögmaðurinn var fenginn til þessa starfs. Hins vegar sagði hann að vel gæti verið að hann hefði tjáð Vali að honum þætti eðlilegt að hann stæði ekki einn í slíkum samningum, án þess þó að í því fælist að stjórn sambandsins greiddi fyrir þjónustuna. Sérstaklega spurður um biðlaunaréttindi, og önnur starfstengd réttindi Vals, sagði Guðmundur að slíkt hefði aldrei verið rætt í stjórn sambandsins.
Guðmundur kvaðst líta svo á að Valur hefði sjálfur átt frumkvæði að því að láta af störfum hjá búnaðarsambandinu. Hafi hann borið slíka ósk fram á stjórnarfundi í ársbyrjun 2006, að sig minnti, og hafi hann í því sambandi nefnt 1. maí það ár. Hafi um þetta verið fullt samkomulag og hafi Valur hætt störfum þann dag, en án þess að ráðið hafi verið í hans stað. Í máli hans kom einnig fram að undir það síðasta hafi bókhald verið í óreiðu hjá Vali og ekki hafi tekist að halda aðalfund fyrir árið 2004 og 2005 á réttum tíma vegna þess. Sérstaklega aðspurður kvaðst Guðmundur efins um að framkvæmdastjórn hafi haft umboð til að gera þær breytingar á starfskjörum ráðunautarins, sem birtust í þeim samningi sem undirritaður var 7. nóvember 2005, enda hafi honum síðar verið hafnað af stjórn sambandsins.
Þorlákur Ágúst Pétursson, stjórnarmaður í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, sagði fyrir dómi að Valur Þorvaldsson hefði kosið að hætta störfum hjá sambandinu í kjölfar þess að ráðunautum búnaðarsambanda var fækkað. Starf hans hafi þó ekki verið lagt niður þar sem Leiðbeiningarþjónusta Vesturlands sinnti nú starfi hans.
Björn Jónsson, fyrrverandi varaformaður stjórnar, skýrði svo frá að Valur Þorvaldsson hefði óskað eftir því að laun hans yrðu leiðrétt, þegar líða fór að starfslokum hans. Í því sambandi hefði Valur rætt um að hann væri að komast á eftirlaunaaldur samkvæmt „95 ára reglunni“, og þyrfti að leiðrétta kjör hans til samræmis við kjör annarra héraðsráðunauta. Fullt samkomulag hafi orðið milli stjórnar og Vals sjálfs um að hann léti af störfum. Áður hefðu þó stjórnarmenn rætt það sín í milli hvort breyta ætti skipulagi starfs hans, t.a.m. hvort reyna ætti að semja við hann um að gegna starfinu áfram í 50% starfshlutfalli. Björn kvaðst telja víst að Valur hafi sjálfur fengið Ragnar H. Hall hrl. til að aðstoða sig við gerð samnings um breytingu á starfskjörum hans frá 7. nóvember 2005. Þegar vitnið var að því spurt hvort hann og aðrir í framkvæmdastjórn sambandsins hefðu haft umboð til að undirrita samninginn, sagðist hann vilja taka fram að sig minnti að samningurinn hefði ekki verið borinn undir alla stjórnarmenn og hafi það sætt ágreiningi innan stjórnarinnar.
Í máli Ásthildar Skjaldardóttur, fyrrum stjórnarmanns, kom fram að hún hafi á sínum tíma setið í framkvæmdastjórn búnaðarsambandsins. Sagðist hún muna eftir því að Valur hefði sjálfur orðað það við stjórn sambandsins að láta af störfum, enda væri hann kominn með rétt til eftirlauna. Að frumkvæði Vals hafi framkvæmdastjórn farið á fund Ragnars H. Hall hrl., og hafi þar verið undirritaður samningur um breytingu á starfskjörum hans, enda hefði komið í ljós að Valur hafði dregist aftur úr í launum í samanburði við kollega sína. Tók vitnið fram að Valur hefði sjálfur ákveðið að Ragnar H. Hall hrl. annaðist samningsgerðina fyrir sig.
Starfsmenn endurskoðunarfirmans Deloitte, Hilmar Alfreð Alfreðsson og Guðbjörg Óskarsdóttir, kváðust um nokkurra ára skeið hafa annast uppgjör fyrir Búnaðarsamband Kjalarnesþings. Í máli Guðbjargar kom fram að Valur Þorvaldsson hefði skilað til hennar bókhaldsskjölum fyrir árið 2004 í júnímánuði 2005. Eftir skoðun sína hafi hún sent honum spurningalista um það sem á vantaði, þ.á m. um fylgiskjöl, en engin svör hafi borist. Hafi hún ítrekað beiðni sína, en án árangurs. Spurð um það hvort Valur hafi síðar komið með athugasemdir við ýmsar bókhaldsfærslur, sagðist vitnið ekki kannast við slíkt. Hann hafi að vísu komið á skrifstofuna í ársbyrjun 2007 og farið yfir bókhaldsmöppur og þær athugasemdir sem gerðar hefðu verið, en ekki komið með neinar skýringar. Valur hefði þá haft á orði að hann myndi koma síðar, en hann hafi þó aldrei komið.
Vitnið Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður kvaðst muna eftir því að Valur Þorvaldsson hafi leitað til sín vorið 2005 og óskað eftir aðstoð sinni við samningsgerð um breytt starfskjör, og þar sem til stæði að leggja starf hans niður í kjölfar skipulagsbreytinga á búnaðarsamböndum. Vegna þessa hafi hann átt fund með Runólfi Sigursveinssyni, formanni Hagsmunafélags ráðunauta. Í framhaldi af því hafi vitnið gert tillögu að breyttum starfssamningi, þar sem bæði hafi verið kveðið á um launahækkun og biðlaunaréttindi, enda hefði vitnið talið að biðlaun væru hluti af áunnum réttindum Vals. Ekki kvaðst hann minnast þess að hafa átt aðra fundi með stjórnarmönnum búnaðarsambandsins en þann dag sem samningurinn var undirritaður, 7. nóvember 2005. Hins vegar taldi hann að stjórnarmenn hefðu kynnt sér efni samningsins áður en hann var undirritaður á skrifstofu vitnisins. Vitnið taldi að vinna sín hefði verið unnin fyrir báða samningsaðila og hefði Valur tjáð honum að búnaðarsambandið myndi greiða fyrir þjónustu hans. Sérstaklega aðspurður, sagði Ragnar að með biðlaunarétti hafi hann átt við sams konar réttindi og ríkisstarfsmenn nytu. Hafi hann talið að Valur hefði áunnið sér slík réttindi.
Ekki þykir þörf á að rekja frekar munnlegar skýrslur fyrir dóminum.
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um fjárhagslegt uppgjör við starfslok aðalstefnda hjá aðalstefnanda og um vangoldin laun aðalstefnda, en einnig um gildi þess samnings sem gerður var 7. nóvember 2005 um breytingar á starfskjörum aðalstefnda.
Í upphaflegum ráðningarsamningi er tekið fram að aðalstefndi sé ráðinn til starfa sem héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, en einnig sem framkvæmdastjóri þess og skuli hann annast umsjón og rekstur eigna sambandsins. Aðalstefndi var eini starfsmaður búnaðarsambandsins og hvíldi því á honum að annast einnig um allar fjárreiður þess, tekjur og útgjöld, þ.m.t. launauppgjör, en einnig viðhald og rekstur eigna búnaðarsambandsins. Gerð ársreikninga hin síðari ár annaðist hins vegar endurskoðunarfirmað Deloitte. Í máli aðalstefnda fyrir dómi kom fram að ástæða þess að hann notaði bankareikning aðalstefnanda til greiðslu eigin úttekta hafi verið sú að greiðslur úr búnaðarsjóði hafi þorrið á árinu 2005 og því hafi ekki verið til nægilegt fé á bankareikningi til greiðslu launa hans hverju sinni.
Í samantekt endurskoðunarfirmans Deloitte kemur fram að samtals eru millifærðar 9.022.634 krónur á viðskiptareikning aðalstefnda vegna úttekta hans af bankareikningi aðalstefnanda árin 2004, 2005 og til 18. maí 2006. Fjárhæðin skiptist þannig milli ára að 6.602.334 krónur eru vegna 2004, 1.920.300 krónur vegna 2005 og 500.000 krónur vegna ársins 2006. Aðalstefndi samþykkir þessar millifærslur, að frátöldum 10.296 krónum, sem taldar eru honum til skuldar á árinu 2004. Er sú fjárhæð vegna kaupa á pappír í Odda og verður hún því ekki skuldfærð á aðalstefnda. Með þeirri athugasemd nema millifærslur vegna úttekta aðalstefnda á ofangreindum árum samtals 9.012.338 krónum.
Í samantekt endurskoðunarfirmans eru aðalstefnda einnig færðar til skuldar 7.523.818 krónur, þar sem engin fylgiskjöl hafi fundist vegna þeirra úttekta. Milli ára skiptist fjárhæðin þannig að 573.940 krónur eru færðar á árið 2004, 3.999.973 krónur 2005 og 2.949.905 krónur á árið 2006. Í gagnstefnu kveðst aðalstefndi samþykkja 6.414.050 krónur, en hafnar því að mismunurinn verði færður honum til skuldar, þar sem þær úttektir hafi verið í þágu aðalstefnanda. Við yfirheyrslu fyrir dómi kvaðst aðalstefndi hins vegar samþykkja alla fjárhæðina sem færð er honum til skuldar undir þessum lið, og verður hún því lögð til grundvallar við fjárhagsuppgjör aðila.
Hafberg Þórisson, núverandi formaður aðalstefnanda, sagði fyrir dómi að hann hefði farið yfir öll fylgiskjöl í bókhaldi búnaðarsambandsins fyrir árin 2004, 2005 og til 18. maí 2006. Við þá skoðun hefði hann tínt út fylgiskjöl, þar sem hann taldi að vafi léki á að úttektir væru í þágu búnaðarsambandsins eða þyrfti skýringa við frá aðalstefnda. Valur hafi hins vegar aldrei viljað skýra þessi fylgiskjöl eða koma til fundar við sig, og því hefði hann talið eðlilegt að færa þær úttektir til skuldar hjá honum. Er sú skuld sérstaklega tilgreind í samantekt endurskoðunarfirmans sem „Reikn. sem eru til staðar í bókhaldi, en tilheyra VÞ prívat skv. yfirferð Hafbergs“, alls að fjárhæð 1.056.378 krónur.
Aðalstefndi hefur mótmælt því að fjárhæðin verði færð honum til skuldar, að undanskildum 53.800 krónum samkvæmt tveimur úttektum, annars vegar á árinu 2005, hins vegar á árinu 2006.
Meðal gagna málsins eru þau fylgiskjöl sem Hafberg Þórisson tók til hliðar og mynda fjárhæðina sem færð er aðalstefnda til skuldar. Flest eru þau vegna kaupa á skrifstofu- og rekstrarvörum, ýmsum byggingavörum, rafmagnsvörum og þjónustu. Ýmist eru reikningar stílaðir á aðalstefnanda eða bera merki um staðgreiðslu. Vekur aðalstefnandi sérstaka athygli á því að þar á meðal sé reikningur frá Ragnari H. Hall hrl., vegna lögfræðiaðstoðar er hann veitti aðalstefnda við breytingu á starfssamningi hans. Telur hann fráleitt að aðalstefnanda verði gert að greiða þann reikning og því hafi reikningsfjárhæðin verið bakfærð á aðalstefnda. Umræddur reikningur er stílaður á aðalstefnanda, að fjárhæð 128.857 krónur, dagsettur 25. nóvember 2005. Við yfirheyrslu fyrir dómi kom fram hjá Ragnari H. Hall hrl. að aðalstefndi hefði leitað til hans og óskað aðstoðar vegna breytinga á starfskjörum hans. Hefði aðalstefndi tjáð honum að Búnaðarsamband Kjalarnesþings myndi greiða fyrir þjónustuna og því hefði reikningur verið gefinn út á nafn búnaðarsambandsins. Guðmundur Jónsson, fyrrverandi formaður stjórnar búnaðarsambandsins, sagði fyrir dómi að hann hefði ekki átt neitt frumkvæði að því að aðalstefndi leitaði til lögmannsins, og því síður að hann hafi fallist á að aðalstefnandi greiddi fyrir þá þjónustu.
Þegar litið er til eðlis þeirrar þjónustu sem Ragnar H. Hall hrl. veitti aðalstefnda í umrætt sinn, svo og til þess að aðalstefndi átti sjálfur frumkvæði að þeim viðskiptum, án heimildar aðalstefnanda, verður að fallast á það með aðalstefnanda að reikningur lögmannsins verði færður til skuldar hjá aðalstefnda. Öðru máli gegnir um aðrar úttektir aðalstefnda samkvæmt fyrirliggjandi fylgiskjölum. Hefur aðalstefnanda ekki tekist að færa sönnur á að þær séu honum óviðkomandi. Til skuldar aðalstefnda samkvæmt þessum lið verða því aðeins færðar 182.657 krónur (53.800 + 128.857).
Óumdeilt er að aðalstefndi skuldaði aðalstefnanda 897.087 krónur í árslok 2003. Þá er og óumdeilt að aðalstefndi greiddi 2.400.000 krónur inn á skuld sína við aðalstefnanda í desemberlok 2004. Hins vegar greinir aðila á um hvort innborgun á reikning aðalstefnanda 30. desember 2005, að fjárhæð 750.000 krónur, stafi frá aðalstefnda.
Í sundurliðun endurskoðunarfirmans Deloitte á bankareikningi fyrir árið 2005 er ofangreind fjárhæð færð sem innborgun 30. desember það ár. Í skýringadálki er sett spurningamerki við innborgunina. Í gögnum aðalstefnda er að finna úttektarseðil vegna úttektar aðalstefnda af bankareikningi eiginkonu hans 30. desember 2005. Á seðilinn er skráð tímasetning úttektarinnar. Einnig er þar að finna innborgunarseðil er sýnir innborgun á bankareikning aðalstefnanda að fjárhæð 750.000 krónur og er innborgunin framkvæmd nánast á sama augnabliki og úttektin af reikningi eiginkonunnar. Þótt skráð sé á innborgunarseðil að fjárhæðin sé innborguð af Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, verður að telja að slíkt fái ekki staðist, þar sem reikningseigandi er jafnframt skráður sá sami, þ.e. Búnaðarsamband Kjalarnesþings. Ekki verður heldur séð að umrædd fjárhæð sé færð sem útborgun á sundurliðuðu bankayfirliti aðalstefnanda. Verður því fallist á það með aðalstefnda að til frádráttar skuld hans við aðalstefnanda komi tvær innborganir hans, samtals að fjárhæð 3.150.000 krónur.
Enginn ágreiningur er um að aðalstefndi á ógreidd laun hjá aðalstefnanda fyrir árið 2004 og til þess dags er hann lét af störfum. Hins vegar deila aðilar um hvort miða skuli laun hans við þann samning sem gerður var 7. nóvember 2005 um breytingu á fyrri starfssamningi, svo og um hvort aðalstefndi hafi öðlast rétt til biðlauna.
Aðalstefndi bar fyrir dómi að hann hefði imprað á því við framkvæmdastjórn aðalstefnanda að nauðsynlegt væri að breyta starfskjörum sínum, enda styttist í að hann kæmist á eftirlaun samkvæmt svokallaðri „95 ára reglu“ í samþykktum lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Af framburði flestra stjórnarmanna aðalstefnanda fyrir dómi má einnig ráða að vilji þeirra hafi staðið til þess að auðvelda aðalstefnda að láta af störfum og njóta góðra eftirlauna, enda hafi þeim verið kunnugt að hann hefði dregist aftur úr í launum og þau ekki verið endurskoðuð frá upphafi ráðningar hans. Í ljósi þessa hafi framkvæmdastjórn farið til fundar við Ragnar H. Hall hrl. 7. nóvember 2005, þar sem skrifað hafi verið undir samning um breytingar á starfskjörum aðalstefnda. Fól samningurinn í sér hækkun grunnlauna frá 1. mars 2005. Jafnframt var þar mælt fyrir um að öll starfstengd kjör og réttindi sem aðalstefndi hefði áunnið sér á starfstíma sínum, að launum undanskildum, skyldu vera óbreytt og útfærð með sama hætti og verið hefði, þ.m.t. uppsagnarfrestur og biðlaunaréttindi.
Ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu aðalstefnanda að títtnefndur samningur hafi aldrei öðlast gildi, þar sem honum hafi verið hafnað af stjórn aðalstefnanda 12. desember 2006. Í því sambandi er bent á að framkvæmdastjórn aðalstefnanda hafði m.a. það hlutverk að vinna að starfslokum aðalstefnda og ritaði framkvæmdastjórnin undir samninginn, án fyrirvara um samþykki stjórnar aðalstefnanda. Eftir gerð samningsins voru haldnir fundir, bæði í stjórn og framkvæmdastjórn aðalstefnanda, án þess að séð verði af fundargerðum að samningurinn hafi verið til umræðu, hvað þá að bornar hafi brigður á umboð framkvæmdastjórnar eða gildi samningsins að öðru leyti. Í fundargerð stjórnar frá 13. desember 2005 er m.a.s. bókað að aðalstefndi hafi gert stjórninni grein fyrir störfum framkvæmdastjórnar. Þá verður ekki séð að formaður stjórnar aðalstefnanda hafi að nokkru leyti brugðist við í tilefni af bréfi frá framkvæmdastjóra Félags íslenskra náttúrufræðinga frá 28. desember 2005, þar sem skýrðar voru þær breytingar sem orðið höfðu á launakjörum aðalstefnda samkvæmt nýgerðum kjarasamningi Búnaðarsambanda og Hagsmunafélags ráðunauta. Síðast en ekki síst er til þess horft að aðalstefndi lét af störfum 1. maí 2006, án þess að samningnum hafi þá verið hafnað eða séð verði að vafi léki á um gildi hans. Í máli aðalstefnda fyrir dómi kom fram að hann hefði frá júlí 2005 reiknað sér laun samkvæmt samningnum og fær það stoð í skilagreinum staðgreiðslu, sem aðalstefnandi hefur lagt fram. Að þessu virtu verður fallist á það með aðalstefnda að við útreikning launa hans skuli miða við þau laun sem aðilar sömdu um 7. nóvember 2005, með gildistíma frá 1. mars sama ár.
Af hálfu aðalstefnda er á því byggt að hann eigi rétt til biðlauna í eitt ár, frá 1. maí 2006 til 1. maí 2007, og er kröfugerð hans í gagnsök á því reist. Til stuðnings þeirri kröfu vísar hann til margnefnds samnings aðila frá 7. nóvember 2005, þar sem biðlaunaréttindi hans eru nefnd sem áunnin réttindi hans. Þrátt fyrir orðalag samningsins hafa þó engin gögn verið lögð fram því til stuðnings að aðalstefndi hafi áunnið sér rétt til biðlauna. Þannig er hvorki mælt fyrir um réttindi til biðlauna í upphaflegum ráðningarsamningi hans frá 1987, né þeim kjarasamningi milli Búnaðarsambanda og Hagsmunafélags ráðunauta, sem lagður hefur verið fram í málinu. Í kjarasamningnum er heldur engin ákvæði að finna sem kveða á um að starfstengd réttindi ráðunauta skuli vera eins og ríkisstarfsmanna, eins og aðalstefndi hefur haldið fram.
Til frekari stuðnings biðlaunakröfu sinni vísar aðalstefndi til ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo og til þess að laun hans hafi verið greidd af ríkisfé og hann því litið á sig sem „hálf-opinberan“ starfsmann.
Á þessi rök verður þó ekki fallist, enda gilda lög nr. 70/1996 aðeins um starfsmenn ríkisins samkvæmt þeirri skilgreiningu sem finna má í 1. og 2. gr. þeirra laga, og áður 1. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fellur starf aðalstefnda ekki undir þá skilgreiningu. Þá verður heldur ekki á það fallist að með títtnefndum samningi frá 7. nóvember 2005 hafi stofnast biðlaunaréttur til handa aðalstefnda, enda með öllu óljóst á hvaða grundvelli sá réttur er reistur eða um inntak hans. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfu aðalstefnda um greiðslu biðlauna tímabilið 1. maí 2006 til 1. maí 2007.
Verður þá fjallað um aðrar launakröfur aðalstefnda á hendur aðalstefnanda.
Í stefnu í aðalsök kemur fram að greidd hafi verið staðgreiðsla af launum aðalstefnda fyrir tímabilið frá janúar 2004 til og með september 2005, og liggja fyrir skilagreinar Tollstjórans í Reykjavík því til staðfestingar. Samkvæmt þeim námu laun aðalstefnda á árinu 2004, að frádreginni staðgreiðslu, alls 3.029.206 krónum. Sætir sú fjárhæð ekki ágreiningi. Til viðbótar átti aðalstefndi rétt á greiðslu ferðakostnaðar og dagpeninga. Að áliti aðalstefnda nemur sú fjárhæð 1.257.754 krónum og er fjárhæðin sundurliðuð í ferðakostnað að fjárhæð 859.850 krónur og dagpeninga að fjárhæð 397.904 krónur, án þess þó að fram komi forsendur til grundvallar útreikningi dagpeninga. Aðalstefnandi telur hins vegar að vangoldinn ferðakostnaður og dagpeningar fyrir árið 2004 nemi samtals 1.092.946 krónum, og styðst þá við ársreikning aðalstefnanda fyrir það ár. Verður sú fjárhæð lögð til grundvallar í uppgjöri aðila, enda fram komið að aðalstefndi skilaði bókhaldi ársins 2004 til endurskoðunarfirmans Deloitte í júní 2005, þótt í ýmsu hafi því verið ábótavant. Verður að ætla að meðal þeirra bókhaldsgagna hafi verið útreikningur aðalstefnda á ferðakostnaði og dagpeningum, sem lagður hafi verið til grundvallar við samantekt á rekstrargjöldum aðalstefnanda. Að þessum forsendum gefnum nema vangoldin laun og kostnaður til aðalstefnda árið 2004 samtals 4.122.152 krónum.
Eins og fram er komið fellst dómurinn á að samningur hafi komist á milli aðila um breytt launakjör aðalstefnda, og gildi sá samningur frá 1. mars 2005. Byggist launaútreikningur hans fyrir árið 2005 og fram til 1. maí 2006 á þeim launakjörum frá 1. mars 2005. Þannig reiknast aðalstefnda til að vangoldin laun hans árið 2005 nemi samtals 4.791.346 krónum, en 2.153.810 krónum fyrir tímabilið janúar til 1. maí 2006, að frádreginni staðgreiðslu launa, en fyrir liggur að aðalstefnandi hefur greitt staðgreiðslu af launum aðalstefnda til og með september 2005, samtals 1.072.897 krónur. Þótt aðila greini á um gildi þess samnings sem hér hefur verið nefndur, er ekki tölulegur ágreiningur um fjárhæð vangoldinna launa aðalstefnda fyrir þetta tímabil, og verða fjárhæðirnar því þannig lagðar til grundvallar í uppgjöri aðila.
Aðalstefnandi hefur í kröfugerð sinni gert ráð fyrir að aðalstefndi eigi einnig vangoldinn ferðakostnað og dagpeninga vegna ofangreinds tímabils. Að áliti hans nemur sú fjárhæð 1.192.946 krónum vegna ársins 2005, en 430.982 krónum fyrir árið 2006. Þar sem fjárhæðir þessar eru nokkru hærri en samkvæmt kröfugerð aðalstefnda, en um leið samþykktar af aðalstefnanda, verða þær lagðar til grundvallar í uppgjöri aðila.
Samkvæmt öllu framanrituðu sundurliðast kröfur aðila sem hér segir:
|
Kröfur stefnanda í aðalsök vegna skuldar aðalstefnda: |
|
|
|
Óumdeild skuld 31. des. 2003 |
|
897.087,- |
|
Fært á viðskiptareikning vegna úttekta |
|
9.012.338,- |
|
Engin fylgiskjöl |
|
7.523.818,- |
|
Reikningar til staðar, en tilheyra VÞ skv. yfirferð Hafbergs |
|
182.657,- |
|
|
|
17.615.900,- |
|
Endurgreitt af aðalstefnda á árunum 2004 og 2005 |
|
3.150.000,- |
|
|
Samtals |
14.465.900,- |
|
Kröfur stefnanda í gagnsök vegna vangoldinna launa: |
|
|
|
Laun jan.- des. 2004, að frádr. staðgreiðslu |
|
3.029.206,- |
|
Ferðakostn. og dagpeningar 2004 |
|
1.092.946,- |
|
Laun jan.- des. 2005, að frádr. staðgreiðslu |
|
4.791.346,- |
|
Ferðakostn. og dagpeningar 2005 |
|
1.192.946,- |
|
Laun jan.- 1. maí 2006, að frádr. staðgreiðslu |
|
2.153.810,- |
|
Ferðakostn. og dagpeningar 2006 |
|
430.982,- |
|
|
Samtals |
12.691.236,- |
Samkvæmt þessu er krafa stefnanda í aðalsök 1.774.664 krónum hærri en krafa stefnanda í gagnsök á hendur gagnstefnda. Verður gagnstefndi því sýknaður af kröfum gagnstefnanda, en aðalstefndi dæmdur til greiðslu fjárhæðarinnar, ásamt vöxtum eins og krafist er í stefnu og ekki sætir mótmælum.
Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Aðalstefndi, Valur Steinn Þorvaldsson, greiði aðalstefnanda, Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, 1.774.664 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. maí 2006 til greiðsludags og vaxtavöxtum samkvæmt 12. gr. sömu laga, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. maí 2007, en síðan árlega þann dag.
Gagnstefndi, Búnaðarsamband Kjalarnesþings, er sýkn af kröfum gagnstefnanda, Vals Steins Þorvaldssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.