Hæstiréttur íslands

Mál nr. 77/2010


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Sekt
  • Vararefsing
  • Skilorð


Fimmtudaginn 10. febrúar 2011.

Nr. 77/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Sigurjóni G. Halldórssyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Vararefsing. Skilorð.

S, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins A ehf., var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa á árunum 2004 og 2005 hvorki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti fyrir félagið samtals 13.274.631 króna, né staðgreiðslu opinberra gjalda samtals 2.103.773 krónur. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að sannað væri að virðisaukaskattskýrslum fyrir A ehf. hefði ekki verið skilað á réttum tíma. Yrði því fallist á kröfur ákæruvalds um þyngingu refsingar og yrði fésekt ákveðin sem næmi tvöfaldri vangoldinni fjárhæð virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu. Var refsing S ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 6 mánuði og var honum einnig gert að greiða sekt að fjárhæð 31.000.000 króna en sæta ella fangelsi í 4 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu hans. 

Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Að því frágengnu krefst hann mildunar á refsingu.

I

Kröfu sína um frávísun málsins rökstyður ákærði með því að rannsókn þess hafi verið áfátt. Vísar hann einkum til þess að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi ekki rannsakað bókhald A ehf. þótt ákærði hafi bent á að bókhaldsgögnin væru hjá tilgreindri bókhaldsstofu, sem hefði ekki viljað afhenda þau, nema gegn greiðslu ,,á sínum verkþætti“. Einnig bendir ákærði á að hann hafi ekki notið þess að innborganir á skattskuld félagsins hafi verið látnar ganga inn á skuldir, sem leitt gætu til mildunar viðurlaga hans, heldur hafi þær fyrst verið látnar ganga til greiðslu á vöxtum og viðurlögum. Þá bendir ákærði á, að athugasemdir hans og gögn, sem hann lagði fram, og hefðu átt að leiða til þess að stofn til ákvörðunar virðisaukaskatts hefði lækkað, vegna þess að kröfur um þóknun fyrir tilgreind verk væru tapaðar, hefðu ekki sætt réttu mati af hálfu ákæruvalds. Einungis hefði verið fallist á að hluti krafnanna væri tapaður en miða hefði átt við að þær væru allar tapaðar.  Hefði afstaða ákæruvalds verið reist á því að bú skuldara þyrfti að hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta eða árangurslaust fjárnám gert hjá honum til þess að unnt væri að fallast á að krafa teldist töpuð. Kveður ákærði þessa viðmiðun fela í sér misskilning ákæruvalds. Enn reisir ákærði þessa kröfu sína á því að við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og hjá lögreglu hafi þess ekki verið gætt að upplýsa atriði, sem væru ákærða í hag, heldur einungis atriði sem væru honum í óhag og gátu leitt til sakfellingar. Telur ákærði það andstætt reglum um réttláta málsmeðferð fyrir dómi í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 70. gr. stjórnarskrárinnar og ,,6. gr. MSE“ hvernig staðið var að rannsókn málsins. Hann vísar einnig til ,,meginreglunnar um vandaða stjórnsýsluhætti.“ Loks kveður ákærði að ákæra hafi verið gefin út áður en honum barst tilkynning um lok rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem hann kveður hafa verið 13. september 2010. Óheimilt hafi verið að hans mati að gefa út ákæru áður en rannsókn hafi lokið formlega hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Rannsókn á skilum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimts virðisaukaskatts A ehf., en ákærði var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins, hófst hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. nóvember 2006. Ákærði mætti til skýrslugjafar í þágu rannsóknarinnar eftir ítrekaðar boðanir. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsóknina 24. janúar 2008 segir að ákærði hafi sem fyrirsvarsmaður félagsins fengið senda skýrslu um rannsóknina og niðurstöður hennar, en ekki hafi komið fram andmæli af hans hálfu. Í skýrslunni kemur fram á hvaða gögnum rannsóknin er reist og er tekið fram að hún sé aðeins að litlu leyti reist á bókhaldsgögnum, öðrum en skilagreinum félagsins á staðgreiðslu og virðisaukaskatti fyrir þau tímabil, sem um ræðir. Ekki er um það deilt að bókhald A ehf. fyrir árin 2004 og 2005 hafði ekki verið fært og lá því ekki fyrir við rannsóknina. Ákærði benti á að bókhaldsgögn væru hjá tilgreindri bókhaldsstofu og má ráða að bókhaldið hafi ekki verið fært vegna þess að ekki hafi verið greitt fyrir þá þjónustu. Sjálfur taldi ákærði ekki ástæðu til að leysa þau út. Ákærði bar samkvæmt stöðu sinni sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri A ehf. ábyrgð á að skipulag og starfsemi félagsins væri í góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og að bókhald félagsins væri fært í samræmi við lög og venjur, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Það firrir hann ekki þessari ábyrgð þótt hann hafi falið bókhaldsstofu að annast færslu bókhaldsins. Hann getur heldur ekki velt þessum skyldum á skattrannsóknarstjóra ríkisins eða aðra rannsóknaraðila. Verður ekki fallist á röksemdir hans að þessu leyti.

Að öðru leyti lúta röksemdir ákærða í þessum þætti málsins að efnisatriðum, sem koma til athugunar ef þurfa þykir við efnisúrlausn þess.

II

 Í héraðsdómi er gerð grein fyrir því að ákæruvaldið hafi við aðalmeðferð málsins leiðrétt fjárhæðir um vangoldinn virðisaukaskatt til samræmis við niðurstöðu rannsóknar ríkislögreglustjóra 10. desember 2009 á upplýsingum ákærða um kröfur A ehf. um þóknun fyrir verk, sem hann sjálfur taldi tapaðar. Niðurstaðan var á því reist, í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt, að þær kröfur væru tapaðar þar sem bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta eða gert hjá honum árangurslaust fjárnám. Voru fjórtán kröfur, auk þeirra sem áður var talið, taldar tapaðar miðað við tilgreindar forsendur. 

Ákærði hefur fyrir Hæstarétti haldið til streitu kröfu sinni um enn frekari leiðréttingu, sem fæli í sér að fallist yrði á að allar þær kröfur, sem um ræðir, teldust tapaðar. Hefur hann lagt fyrir Hæstarétt fjölda reikninga, útgefna af A ehf., sem hann kveður ekki hafa fengist greidda og verði ekki greiddir. Í sumum tilvikum hafi verið gefnir út aðrir reikningar í stað þeirra, sem hann leggur fram, og þeir greiddir og skilað af þeim virðisaukaskatti. Sex af þeim reikningum, sem ákærði hefur lagt fyrir Hæstarétt, eru gefnir út á öðrum tíma, en ákæra tekur til, þar af fjórir á árinu 2003. Ekkert liggur fyrir um, hvort virðisaukaskattskýrslur fyrir þau tímabil, sem reikningarnir taka til, hafi verið leiðréttar eða hvort gerð hafi verið heildstæð  leiðréttingaskýrsla vegna ársins 2003. Ákærði hefur heldur ekki sýnt fram á að kröfur samkvæmt öðrum reikningum, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt, séu tapaðar eða eigi af öðrum ástæðum að leiða til lækkunar á vangoldnum virðisaukaskatti.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða staðfest.

Til stuðnings kröfu sinni um þyngingu refsingar ákærða vísar ákæruvaldið til þess að fésektarrefsing hafi ekki verið ákvörðuð réttilega í héraðsdómi þar sem ekki hafi verið skilyrði til þess að færa hana niður úr lágmarki því, sem tiltekið er í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Sannað er að virðisaukaskattskýrslum fyrir A ehf. var ekki skilað á réttum tíma. Verður því fallist á kröfu ákæruvalds um þyngingu refsingar og verður fésekt ákveðin sem nemur tvöfaldri vangoldinni fjárhæð virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu. Samkvæmt því verður fésekt ákærða vegna brota, sem tilgreind eru í 1. lið ákæru, ákveðin 27.000.000 krónur en 4.000.000 krónur vegna brota sem tilgreind eru í 2. lið ákæru, eða samtals 31.000.000 krónur og komi fjögurra mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan þess tíma, sem í dómsorði greinir.

Niðurstaða héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða, skilorðsbindingu hennar og um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um fangelsisrefsingu ákærða, Sigurjóns G. Halldórssonar, og um skilorðsbindingu hennar.

Ákærði greiði 31.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 468.147 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2009.

Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 24. mars 2009, á hendur ákærða Sigurjóni G. Halldórssyni, kt. 120170-3849, Hvammsgerði 1, Reykjavík, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins A, kennitala [...], sem ákærði Sigurjón var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður fyrir, með því að hafa:

1.           Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir hönd félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2004 og eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og maí til og með desember 2005, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna sömu tímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 17.487.451, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vangoldinn VSK

á eindaga:

Árið 2004

nóvember - desember

kr.

12.440.659

kr.

12.440.659

Árið 2005

janúar - febrúar

kr.

3.192.354

maí - júní

kr.

1.533.676

júlí - ágúst

kr.

189.278

september - október

kr.

12.625

nóvember - desember

kr.

118.859

kr.

5.046.792

Samtals:

kr.

17.487.451

2.   Eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna maí, júní og júlí 2005, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna sömu tímabila, samtals að fjárhæð kr. 2.103.773, sem sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2005

maí

kr.

940.567

júní

kr.

725.247

júlí

kr.

437.959

Samtals:

kr.

2.103.773

Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Við aðalmeðferð málsins óskaði sækjandi eftir því að breyta 1. ákærulið á þann veg að samtala í verknaðarlýsingu 1. töluliðar ákæru verði „samtals að fjárhæð kr. 13.274.631“, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vangoldinn VSK

á eindaga:

Árið 2004

nóvember - desember

kr.

9.555.906

kr.

9.555.906

Árið 2005

janúar - febrúar

kr.

3.192.354

maí - júní

kr.

655.352

júlí - ágúst

kr.

102.289

september - október

kr.

-165.546

nóvember - desember

kr.

-65.724

kr.

3.718.725

Samtals:

kr.

13.274.631

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

Með bréfi til ríkislögreglustjóra, dagsettu 13. mars 2008, vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli ákærða til opinberrar rannsóknar vegna meintra brota á ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og um virðisaukaskatt og eftir atvikum almennum hegningarlögum, sem framin hefðu verið við rekstur einkahlutafélagsins A. Bú A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. maí 2007 og lauk skiptum 20. september það ár. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var skráður tilgangur félagsins rekstur smásölu, heildsölu, rekstur og leiga tækja, verktakastarfsemi, rekstur fasteigna og annar skyldur rekstur. Var ákærði skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós að vanrækt hefði verið að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins fyrir greiðslutímabilin maí, júní og júlí 2005 og innheimtum virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna nóvember-desember 2004 og janúar-febrúar, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2005. Jafnframt að vanrækt hefði verið að standa skil á staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum  vegna framangreindra tímabila á lögmæltum tíma.

Ákærði gaf skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra 26. nóvember 2007. Var hann þá m.a. spurður hvort bókhald félagsins hefði verið fært. Svaraði ákærði því til að bókhaldið hefði verið hjá B ehf., en „það hefði ekkert verið gert í því þar“. Hann hefði því tekið bókhaldið þaðan og farið með það til C ehf. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að óskað hefði verið eftir því að afhentir yrðu uppgjörsreikningar virðisaukaskatts úr færðu bókhaldi og launabókhald vegna þeirra tímabila sem rannsóknin tók til. Upplýsingar úr bókhaldinu hvað varðar skuldunauta félagsins hefðu verði afhentar, en ekki annað sem beðið var um. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kom fram hjá ákærða að staðgreiðsluskilagreinar væru byggðar á vinnuskýrslum og launaseðlum félagsins og teldi hann þær gefa rétta mynd af launagreiðslum þess. Laun hefðu alltaf verið í forgangi hjá félaginu og hefðu alltaf verið greidd á réttum tíma. Sagði ákærði jafnframt að virðisaukaskattsskýrslur og samanburðar- og leiðréttingarskýrslur væru byggðar á bókhaldi félagsins og teldi hann þær gefa rétta mynd af rekstrinum.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra er rakið að rannsókn á vangoldinni staðgreiðslu félagsins hafi einkum grundvallast á innsendum staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum, tekjubókhaldi ríkisins og fyrrgreindri skýrslu ákærða. Þá hafi rannsókn á vangoldnum virðisaukaskatti einkum grundvallast á innsendum virðisaukaskattsskýrslum, samanburðar- og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts, tekjubókhaldi ríkissjóðs, skýrslu ákærða og upplýsingum úr bókhaldi um stöðu skuldunauta félagsins. Fylgja gögnin skýrslunni. 

Ákærði var yfirheyrður hjá ríkislögreglustjóra 12. febrúar 2009. Sagðist hann bera á því ábyrgð að skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskattsskýrslum hefði ekki verið skilað eða ekki skilað á lögmæltum tíma. Þá sagðist ákærði ekki rengja tölulegar niðurstöður varðandi afdregna staðgreiðslu sem ekki hefði verið staðið skil á og vangoldinn virðisaukaskatt. Lagt var fyrir ákærða yfirlit yfir 22 kröfur sem hefðu mögulega tapast í rekstri félagsins. Sagðist ákærði geta staðfest að umræddar kröfur hefðu tapast og væri það ástæða þess að ekki hefði verið unnt að greiða þær skattaskuldir sem um ræðir.

Við meðferð málsins fyrir dómi neitaði ákærði sök. Sagðist hann telja tölulegan grundvöll ákæru vera rangan og að bókhaldsgögn sýndu fram á það. Lagði ákærði fram gögn að því er varðar frekari innskatt og ætlaðar tapaðar kröfur, sem ákærandi tók tillit til og var bókað um breytingar á ákæru þar að lútandi, sem að ofan greinir. 

Við aðalmeðferð málsins hafnaði ákærði því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir hönd félagsins eða að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma svo sem lýst er í 1. ákærulið. Þá hafnaði ákærði því að hafa ekki staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma, svo sem greinir í 2. ákærulið. Sagðist ákærði ekki draga í efa að vanhöld hefðu verið á skilum á skýrslum og skilagreinum eins og lýst væri í ákæru. Hins vegar hefði hann fengið B til að vinna þessi gögn og standa skil á þeim. Sagðist ákærði vera lesblindur og því ekki fær um að annast þessa vinnu sjálfur. Þá gerði ákærði athugasemdir við efni skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu. Sagðist hann ekki hafa getað tekið afstöðu til gagna sem lögregla bar undir hann við skýrslutökuna vegna lesblindunnar. Af sömu ástæðu hefði hann ekki getað lesið skýrsluna yfir áður en hann undirritaði hana.

Vitnið D sagðist hafa starfað á skrifstofu félagsins. Hefði hún m.a. skráð tímaskýrslur starfsmanna. Hún hefði ekkert komið nálægt færslu bókhalds. Vitnið kannaðist við að hafa undirritað virðisaukaskattsskýrslur og leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts sem eru meðal gagna málsins. Hefðu skýrslurnar verið unnar af bókhaldsstofu og byggðar á gögnum sem bókhaldsstofan hefði haft undir höndum. Þá kannaðist vitnið við að hafa undirritað skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og sagðist gera ráð fyrir því að þær byggðu á gögnum um greidd laun hjá félaginu.

Vitnið E, starfsmaður bókhaldsstofunnar Endurskoðun og reikningsskil, gerði grein fyrir yfirlitum sem hann vann fyrir ákærða og lögð voru fram í málinu um ætlaðan vantalinn innskatt og tapaðar kröfur. Varðandi lista um ætlaðar tapaðar kröfur sagði vitnið að D hefði afhent sér möppu með afritum reikninga sem gefnir hefðu verið út af félaginu og talið væri að myndu ekki innheimtast eða að von væri á reikningum frá sömu aðilum á móti. Sagðist vitnið hafa listað þessar kröfur upp, en sjálfur hefði hann enga afstöðu tekið til þess hvort um raunverulega tapaðar kröfur væri að ræða eða ekki. Hann hefði ekki kannað það sem slíkt.

Niðurstaða

Ákæruliður 1

Ákærði hefur hvorki borið brigður á að virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins hafi ýmist ekki verið skilað eða ekki skilað á lögmæltum tíma né að vanhöld hafi verið á skilum á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins á því tímabili sem í ákæru greinir. Hann neitar hins vegar sök og hefur annars vegar vísað á starfsmenn bókhaldsstofu, sem hann segir að hafi borið ábyrgð á því að annast skýrslugerð til skattyfirvalda. Hins vegar hefur ákærði véfengt tölulegan hluta ákæru, sem hann segir ekki grundvallast af bókhaldi félagsins.

Óumdeilt er að ákærði var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins á þeim tíma sem um ræðir, eins og gögn málsins bera með sér. Samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 bar ákærða því skylda til að annast um að starfsemi félagsins væri í réttu horfi og jafnframt að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld og stæði skil á skýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda, svo sem lög gera ráð fyrir. Er hafnað vörn ákærða sem felst í því að vísa um ábyrgð á aðra.

Að framan var reifað hvaða gögn lágu til grundvallar rannsókn skattrannsóknarstjóra á virðisaukaskattsskilum félagsins, en ákæra styðst við niðurstöður þeirrar rannsóknar. Við meðferð málsins fyrir dómi lagði ákærði fram gögn um frekari innskatt og ætlaðar tapaðar kröfur, sem ákærandi tók tillit til og var bókað um breytingar á 1. ákærulið þar að lútandi. Var niðurstaða ákæruvaldsins sú að lækka skyldi áður reiknaðan skilaskyldan höfuðstól vangoldins virðisaukaskatts um þá fjárhæð sem nemur vanreiknuðum innskatti samkvæmt yfirlitum sem ákærði lagði fram. Hafa kröfur ákærða því verið teknar til greina að fullu. Með vísan til þessa, og gagna málsins að öðru leyti, verður ákærði sakfelldur samkvæmt 1. ákærulið, svo sem ákæru hefur verið breytt, og telst háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákæruliður 2

Ákærði neitar sök og ber því í fyrsta lagi við að hann hafi ekki borið ábyrgð á því að ekki hafi verið staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma á því tímabili sem í ákæru greinir, þar sem hann hafi falið starfsmönnum bókhaldsstofu að annast skýrslugerð til skattyfirvalda. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er vörn ákærða að þessu leyti hafnað.

Ákærði ber ekki á móti því að ekki hafi verið staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna, svo sem rakið er í ákæru. Hann hefur hins vegar véfengt tölulegan hluta þessa ákæruliðar þar sem ófullnægjandi gögn hafi að hans mati legið til grundvallar rannsókn skattrannsóknarstjóra. Við aðalmeðferð málsins bar ákærði því jafnframt við að hann hefði ekki verið fær um að taka afstöðu til gagna sem lögregla bar undir hann við skýrslutöku þar sem hann væri lesblindur.

Að framan eru rakin þau gögn sem rannsókn skattrannsóknarstjóra grundvallaðist á. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra var bókað eftir ákærða að staðgreiðsluskilagreinar, sem liggja frammi í málinu væru byggðar á vinnuskýrslum og launaseðlum félagsins og teldi hann þær gefa rétta mynd af launagreiðslum þess. Sagði ákærði að laun hefðu alltaf haft forgang hjá félaginu og hefðu alltaf verið greidd á réttum tíma. Við skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra var bókað eftir ákærða að hann rengdi ekki tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar varðandi afdregna staðgreiðslu. Skilagreinarnar sem um ræðir eru undirritaðar af D og sagðist hún fyrir dóminum gera ráð fyrir því að þær byggðu á gögnum um greidd laun hjá félaginu. Hefur ákærði ekki bent á neitt því til stuðnings að vangoldin staðgreiðsla kunni að vera oftalin samkvæmt þessum ákærulið. Verður mótbárum ákærða á þessum grundvelli hafnað, enda eru þær órökstuddar.

Samkvæmt framansögðu, og með vísan til gagna málsins að öðru leyti, telst sannað að ákærði hafi framið þau brot sem rakin eru í 2. ákærulið. Hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.

Refsing og sakarkostnaður

Ákærði er fæddur í janúar 1970. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu í málinu. Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir stórfelld brot gegn skattalögum vegna reksturs einkahlutafélags síns. Verður refsing tiltekin samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. 

Samkvæmt gögnum málsins voru 3.549.145 krónur greiddar inn á virðisaukaskattsskuld félagsins fyrir eða eftir eindaga. Þá kemur til frádráttar virðisaukaskattur af ætluðum töpuðum kröfum félagsins. Er við það miðað að skuldunautur hafi verið úrskurðaður gjaldþrota eða að fyrir liggi að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá skuldara. Upphaflega leiddi rannsókn ríkislögreglustjóra í ljós að um væri að ræða 22 tapaðar kröfur í málinu og nam afreiknaður virðisaukaskattur af fjárhæð þeirra 2.272.291 krónu. Við meðferð málsins fyrir dómi lagði ákærði fram yfirlit yfir frekari kröfur sem hann taldi vera tapaðar. Að virtu ofangreindu viðmiði teljast 14 kröfur vera tapaðar til viðbótar því sem áður var talið, en afreiknaður virðisaukaskattur af þeim nam 214.973 krónum.  Verður því tekið tillit til þess við ákvörðun sektarrefsingar ákærða að virðisaukaskattur af töpuðum kröfum nemi 2.487.264 krónum. Samkvæmt framansögðu telst ákærði hafa staðið skil á verulegum hluta vanskilafjárhæðar virðisaukaskatts vegna tímabilsins nóvember-desember 2004, eða samtals 6.036.409 krónum. Verður sektarfjárhæð vegna þessa tímabils færð niður úr lágmarki samkvæmt heimild í 2. málslið 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. lög nr. 134/2005 og fésekt ákveðin 10 % af vanskilafjárhæð. Að öðru leyti verður sektarrefsing ákveðin með hliðsjón af lögbundnu refsilágmarki svo að nemi tvöfaldri vanskilafjárhæð, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Verður ákærði dæmdur til að greiða 13.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 311.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Tryggvason saksóknarfulltrúi.

Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurjón G. Halldórsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. 

Ákærði greiði 13.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.