Hæstiréttur íslands

Mál nr. 249/2012


Lykilorð

  • Ábyrgð
  • Aðfinnslur


 

                                     

Fimmtudaginn 29. nóvember 2012.

Nr. 249/2012.

 

Benedikt G. Stefánsson

(sjálfur)

gegn

Landsbankanum hf. 

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

 

Ábyrgð. Aðfinnslur.

L hf. krafði B um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar á grundvelli yfirlýsingar hans um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á reikningi P ehf. hjá bankanum. Byggði B sýknukröfu sína m.a. á því að hann ætti kröfu um skaðabætur á hendur L hf. til skuldajafnaðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að B hefði ekki leitt að því viðhlítandi rök að L hf. hefði bakað sér bótaskyldu gagnvart honum og var skuldajafnaðarkröfu B því hafnað. Taldi Hæstiréttur gögn málsins ótvíræð um sjálfskuldarábyrgð B og staðfesti því niðurstöðu héraðsdóms um að honum bæri að greiða L hf. hina umkröfðu fjárhæð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Skarphéðinn Þórisson hæstaréttarlögmaður.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. febrúar 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 28. mars sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 16. apríl 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gekkst áfrýjandi með yfirlýsingu 27. júní 2006 í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld Pelkó ehf. við Landsbanka Íslands hf., vegna yfirdráttar á svokölluðum þjónustureikningi nr. 0111-26-380530. Umsamin hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar var 1.500.000 krónur auk vaxta og kostnaðar. Hinn 30. apríl 2010 námu innistæðulausar færslur á reikningnum 2.119.319 krónum og var honum þá lokað. Bú Pelkó ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 18. nóvember 2009. Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum auk málskostnaðar.

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Landsbanka Íslands hf. sem er samkvæmt því réttur aðili að máli þessu. Nafni stefnda var svo breytt í NBI hf. og eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp var nafni hans breytt í Landsbankinn hf.

II

Af héraðsgreinargerð áfrýjanda verður ráðið að hann byggi sýknukröfu sína á því einu að hann og Pelkó ehf. eigi skaðabótakröfur á hendur stefnda. Ekki verður séð að hann hafi fyrir héraðsdómi hreyft öðrum málsástæðum fyrir sýknukröfu sinni og koma aðrar málsástæður því ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er Pelkó ehf. ekki aðili að máli þessu og kemur því ætluð skaðabótakrafa þess félags á hendur stefnda heldur ekki til skoðunar.

Áfrýjandi telur sig eiga kröfu um skaðabætur á hendur stefnda sem hann metur hæfilegar að fjárhæð 30.000.000 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er varnaraðila rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði eru fyrir hendi. Gagnkrafan skal þá höfð uppi í greinargerð en sjálfstæður dómur getur ekki gengið um hana. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er varnaraðila heimilt með gagnstefnu að hafa uppi gagnkröfu í máli til sjálfstæðs dóms en slíka gagnsök verður að höfða innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar. Áfrýjandi höfðaði ekki gagnsök og kemur ætluð skaðabótakrafa hans því einungis til skoðunar sem gagnkrafa til skuldajafnaðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

Áfrýjandi hefur í málatilbúnaði sínum ekki leitt að því viðhlítandi rök að stefndi hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart áfrýjanda og er krafan  engum haldbærum gögnum studd. Verður því að hafna skuldajafnaðarkröfu áfrýjanda sem felur í sér kröfu um sýknu eða lækkun dómkrafna stefndu. Gögn málsins eru ótvíræð um sjálfskuldarábyrgð áfrýjanda að hámarki 1.500.000 krónur auk vaxta og kostnaðar á yfirdrætti á reikningi 0111-26-380530 hjá stefnda. Þegar reikningnum var lokað var skuldin að fjárhæð 2.119.319 krónur og hefur hún ekki verið greidd. Þessum gögnum hefur ekki verið hnekkt og verður því niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um kröfu stefnda og málskostnað.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Það athugist að undir rekstri málsins hafa áfrýjanda verið veittar leiðbeiningar sem hafa borið takmarkaðan árangur. Þannig fór áfrýjandi ekki að reglum sem gilda um málsgögn í einkamálum auk þess sem meginhluti gagna sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt og þeirra málsástæðna sem raktar eru í greinargerð áfrýjanda fyrir réttinum varða mál þetta í engu. Þá eru í greinargerð hans settar fram kröfur á ýmsa aðila sem ekki eru aðilar að málinu. Er þetta aðfinnsluvert þótt ekki séu alveg nægar ástæður við svo búið til beita ákvæðum 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Benedikt G. Stefánsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júní 2010 til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011.

Mál þetta sem dómtekið var 1. nóvember 2011 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavikur 23. nóvember 2010 af  NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík á hendur Benedikt G. Stefánssyni, Miklubraut 90, Reykjavík.

Kröfur

Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.500.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, af 1.500.000 krónum frá 14. júní 2010 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda og skaðabóta vegna ólögmætrar samkeppni frá Landsbankanum/Húsasmiðjunni gegn stefnda og fyrirtæki hans. Telur stefndi að hæfilegar skaðabætur séu 45.000.000 króna til þrotabús Pelkó ehf. og 30.000.000 króna til stefnda.

Atvik máls, málsástæður og lagarök stefnanda samkvæmt stefnu

Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að 26. júní 2006 hafi Pelkó ehf. stofnað tékkareikning nr. 380530 við útibú stefnanda að Laugavegi 77 í Reykjavík. Þann 30. apríl 2010 hafi innistæðulausar færslur á reikningnum numið 2.119.319 krónum og hafi reikningnum þá verið lokað. Stefndi hafi með sjálfskuldarábyrgð  nr. 0111-63-110299, dagsettri 27. júní 2006, tekist á hendur sjálfsskuldarábyrgð á skuld þessari gagnvart stefnanda, fyrir allt að 1.500.000 krónum auk vaxta og kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Pelkó ehf., eigandi tékkareikningsins, hafi verið úrskurðað gjaldþrota  18. nóvember 2009 og því ekki verið stefnt í málinu. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf 14. maí 2010 en skuld þessi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.  

Hvað aðild NBI hf. varði hafi Fjármálaeftirlitið (FME) með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. tekið þá ákvörðun að ráðstafa  eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, nú NBI hf., kt. 471008-0280, sé dagsett þann 9. október 2008.

Hvað lagarök varði sé byggt á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti þ.m.t. vaxtavexti styðji stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun  sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing sé vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málatvik, málsástæður og lagarök samkvæmt greinargerð stefnda

Stefndi kveðst hafa tekið yfirdráttarlán hjá Landsbanka Íslands hf. 19. maí 2005 að fjárhæð 2.000.000 króna til að kaupa efni til að halda áfram framleiðslu á lömpum í fyrirtæki sínu Pelkó ehf. Samkomulagið sem gert hafi verið til að tryggja að lánið yrði greitt hafi verið að fyrirtækið Lumex, helsti viðskiptavinur stefnda, yrði í innheimtu hjá Landsbankanum og að reikningar Lumex mættu aldrei verða eldri en þriggja mánaða. Landsbankinn hafi haft veð í þessum reikningum. Frá þeim tíma til dagsins í dag hafi bankinn aldrei beðið um greiðslur vegna lánsins. Sem ábyrgðaraðila ætti stefnda að vera um það kunnugt. Fyrir sex mánuðum hafi Lumex beðið sig að fella niður skuldir við Pelkó ehf. sem stefndi hafi ekki getað vegna þess að Pelkó ehf. hafi verið í gjaldþrotameðferð. Stefndi spyrji hvort Lumex hafi ekki verið krafið um þessa skuld. Greinilegt sé að þeir eigi að sleppa við að borga skuldir sínar en stefndi að borga sem ábyrgðarmaður. Stefndi hafi verið í góðri trú. Landsbankinn hafi farið að taka stöðu gegn krónunni og nota lán stefnda sem spilapeninga, sbr. Rannsóknarskýrslu Alþingis. Landsbankinn hafi tekið skortstöðu gegn krónunni á móti hagsmunum stefnda. Stefndi telji að framlögð gögn sýni, svo ekki verið um villst, að Landsbankinn hafi brotið öll velsæmismörk. Landsbankinn verði að borga skaðabætur fyrir misgjörðir sínar. Landsbankinn hafi valdið gríðarlegum efnahagslegum skaða á fyrirtæki stefnda, kaupendum og stefnda.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis komi fram að „starfsemi íslensku bankanna fór að mörgu leyti bæði á skjön við lög og reglur og í bága við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.“ Þar komi einnig fram að „sá hópur sem stýrði bönkunum hafi fallið í nánast allar þær freistingar sem á vegi hans urðu.“ Íslensku bankarnir hafi verið stofnanir þar sem litið hafi verið á eftirlitsaðila „sem gleðispilla“ og „reglurnar sem hindranir sem eigi að reyna að sniðganga frekar en leiðbeiningar um vandaða starfshætti.“ Alþingi Íslendinga hafi lítið sem ekkert gert til að breyta því andfélagslega lagaumhverfi sem enn verndi vöxt þeirrar spillingar sem lagt hafi efnahag þjóðarinnar í rúst. Embættismenn allra greina ríkisvaldsins, sérstaklega dómsvaldsins, verði að gera sér grein fyrir að íslensku bankarnir séu stofnanir sem brugðist hafa trausti almennings „með eftirminnilegum hætti“ – svo vitnað sé aftur í hina svokölluðu Rannsóknarskýrslu.

Þegar stefndi hafi tekið lánið sem hann kalli Landsbanki (1) árið 2005, hafi Landsbankinn verið einkafyrirtæki, og haldist svo þar til í október 2007 að það hafi verið lýst gjaldþrota. Milli þess dags, október 2007 og til 14. mars 2008, hafi verið sagt að bankinn væri „partur af ríkinu“. Hann hafi haldið áfram að starfa með nýja kennitölu og nýja sjóði. Þetta gjaldþrota fyrirtæki, sem hafi ekki getað haldið áfram rekstri, eða fengið endurfjármögnun, eða selt, eða keypt, hafi samt starfað áfram á sama vettvangi, með sama starfsfólki. Gjaldþrot sé að öll viðskipti hætti, svo að gjaldþrota fyrirtæki sé endurskipulagt. Það hafi ekki verið gert í Landsbankanum. Þessari ólöglegu stöðu hafi verið breytt 14. mars 2008 þegar ríkisbankinn Landsbanki (2) hafi verið stofnaður. Frá gjaldþroti gamla Landsbankans þar til nýi Landsbankinn hafi verið stofnaður hafi liðið eitt ár. Varðandi hvað verið hafi í gangi þetta ár sé vísað til kennitölu NBI hf., 471008-0280. Eftir yfirlýsingu um gjaldþrot Landsbankans (1), og þegar vitað hafi verið að bankinn ætlaði að selja kröfur sínar á hagstæðu verði, þá hafi stefndi reynt að kaupa skuldir sínar. Stefndi hafi ekki fengið svar en stuttu seinna hafi hann frétt að ríkið myndi kaupa eigur Landsbankans (1) og það myndi stofna Landsbankann (2) sem sé stefnandi í máli þessu. Spurning stefnda sé hver sé ástæðan fyrir því að ekki hafi verið háð opinbert uppboð á eignum bankans. Landsbankinn hafi stofnað Vestia til að sjá um rekstur á Húsasmiðjunni og öðrum fyrirtækjum. Landsbankinn (2) fari svo að reka Húsasmiðjuna. Þar með sé Landsbankinn kominn í samkeppni við stefnda með lampa og byggingavörur. Stefndi hafi farið og talað við fulltrúa bankans og spurt af hverju Landsbankinn/Húsasmiðjan tækju ekki vörur stefnda og færu að selja í Húsasmiðjunni. Stefnda hafi verið sagt að hafa samband við Vestia sem hann hafi gert en þeir aldrei svarað. Landsbankinn/Húsasmiðjan hafi verið að selja lampa á 1.990 krónur. Kassinn undir lampa frá stefnda kosti 500 krónur. Tapið hafi verið svo mikið að Landsbankinn hafi verið kominn undir leyfileg mörk með eiginfé og hafi orðið að selja til Vestia til að bjarga sér. Þá sé komin sú staða að stefndi hafi verið í samkeppni við Landsbankann/Húsasmiðjuna með sölu á lömpum og byggingavinklum.

Vestia sé núna eign lífeyrissjóða og Landsbankans. Húsasmiðjan haldi áfram að selja lampa undir framleiðsluverði. Þeir geti þetta með því að stefndi og fyrirtæki hans hafi verið keyrt í gjaldþrot. Það geti enginn verið í samkeppni við banka og lífeyrissjóði. Gegn þessu hafi stefndi þurft að berjast, borga skatta og lífeyrisgjöld og mikinn kostnað við framleiðslu vegna hárra gjalda á allt milli himins og jarðar. Húsasmiðjan hafi í krafti peninga getað keypt á „dumping“ verðum vegna þess að það sé svo dýrt að höfða mál hér á landi. Þá komist þeir upp með að eyðileggja öll iðnfyrirtæki á Íslandi. Stefndi spyrji af hverju ekki sé notuð venjuleg innheimta í máli þessu hjá Landsbankanum. Stefndi telji að Landsbankinn vilji fá dóm til að geta hækkað allar kröfur á litla manninn.

Stefndi leggi til að sér séu dæmdar bætur fyrir óréttmæta viðskiptahætti sem sett hafi Pelkó ehf. á hausinn, valdið stefnda ómældum skaða og komið í veg fyrir að stefndi gæti farið í útflutning á lömpum til Noregs og Svíþjóðar. Stefndi geri þær kröfur að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Þá krefjist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda og skaðabóta vegna ólögmætrar samkeppni frá Landsbankanum/Húsasmiðjunni gegn stefnda og fyrirtæki hans. Á fundi 15. febrúar 2011 hafi bankastjóri Landsbankans sagt að bankinn ætlaði að stofna nefnd til að bæta siðferðið í Landsbankanum og að allir starfsmenn ættu að skrifa undir. Þar með sé Landsbankinn búinn að játa sekt sína i máli þessu. Stefndi vísi til laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Þá vísi stefndi til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem mæli svo fyrir að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda.

Þar með telji stefndi að boðorðin tíu gildi á Íslandi: „Þú skalt ekki stela.“ „Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.“ „Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.“ „Þú skal ekki girnast konu náunga þíns.“ Þá vísi stefndi til jafnræðisreglunnar í 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 sem hljóði svo: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Þótt jafnræðisreglan hafi ekki verið sett í stjórnarskrána fyrr en árið 1995 sé talið að hún hafi verið í gildi fyrir þann tíma sem óskráð regla og komi það fram í dómum Hæstaréttar fyrir lögfestingu hennar. Rétt sé að taka fram að upptalninguna í 1. mgr. beri ekki að skoða sem tæmandi heldur sé henni beitt til að sýna dæmi. Markmið reglunnar sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli þeirra atriða sem komi fram í 1. mgr. og annarra atriða sem gætu talist ómálefnaleg. Sambærileg mál eigi að fá sambærilega úrlausn og um mál sem ekki teljist sambærileg, gildi þveröfug regla.

Þess beri þó að gæta að 1. mgr. 65. gr. banni ekki mismunun sem slíka heldur banni hún mismunun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. Gott dæmi um þetta sé álagning sérstaks tekjuskatts, svonefnds hátekjuskatts, á grundvelli VI. liðs bráðabirgðaákvæða laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Þar sé um hreina mismunun að ræða því þeim sem hafi hærri tekjur en aðrir sé gert að greiða hærra hlutfall tekna sinna í skatt. Þessi skattlagning sé hins vegar talin byggð á málefnalegum grunni enda sé aðeins þeim efnameiri gert að þola hana. Reglur sambærilegar jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar komi til dæmis fram í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og III. og IV. kafla laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Niðurstaða

Fyrir liggur í máli þessu að stefndi tók með yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð dagsettri 27. júní 2006 sjálfskuldarábyrgð á skuld Pelkó ehf. við Landsbanka Íslands h.f. vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0111-26-380530. Umsamin hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar var 1.500.000 krónur auk vaxta og kostnaðar vegna bankalegrar kröfugerðar og kostnaðar af lögfræðilegri innheimtu þeirrar skuldar sem ábyrgðinni var ætlað að tryggja. Af hálfu stefnanda hafa verið lögð fram gögn í málinu sem sýna að yfirdráttur á framangreindum tékkareikningi var þann 30. apríl 2010, 2.119.319 krónur. Þá hafa verið lögð fram í málinu annars vegar afrit af tilkynningu til stefnda frá 8. desember 2009, þar sem athygli stefnda er vakin á fjárhæð yfirdráttarins og hins vegar afrit af innheimtubréfi til stefnda frá 14. maí 2010, þar sem stefndi er krafinn um greiðslu á 1.500.000 krónum auk vaxta og kostnaðar með vísan til framangreindrar sjálfskuldarábyrgðar og gjaldfallinnar yfirdráttarskuldar Pelkó ehf. Fyrir liggur að Pelkó ehf. var úrskurð gjaldþrota 18. nóvember 2009. Stefndi, sem er ólöglærður, hefur í máli þessu ekki haft uppi neinar varnir sem varða að lögum gildi sjálfskuldarábyrgðar stefnda  frá 27. júní 2006 eða fjárhæð stefnukröfunnar eða aðrar varnir sem þörf er á að taka afstöðu til í máli þessu. Skaðabótakröfur stefnda fyrir sína hönd og Pelkó ehf., sem hafðar eru uppi að því er virðist til skuldajafnaðar, eru með öllu órökstuddar og er þeim með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vísað frá dómi ex officio. Með vísan til framanritaðs eru kröfur stefnanda í máli þessu teknar til greina eins og greinir í dómsorði að því undanskildu að ekki er ástæða til að ákveða í dómsorði að vextir skuli leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Eftir úrslitum málsins verður stefndi, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til að greiða stefnanda 150.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kvað upp Þórður S. Gunnarsson settur héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Benedikt G. Stefánsson, greiði stefnanda, NBI hf., 1.500.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. júní 2010 til greiðsludags. Kröfu stefnda um skaðabætur sér til handa og Pelkó ehf. er vísað frá dómi ex officio. Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.