Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð


Miðvikudaginn 22

 

Miðvikudaginn 22. ágúst 2007

Nr. 399/2007.

Steinbjörg ehf.

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

gegn

Fiskeldistækni ehf.

(Lúðvík Örn Steinarsson hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð.

F krafðist þess að honum yrði heimilað að fá skipið B tekið úr vörslum S og fengið sér með beinni aðfarargerð. Ágreiningur aðila laut aðallega að því hvort í gildi væri leigusamningur milli þeirra þar sem F seldi S skipið á leigu, en F kvaðst ekki kannast við fyrirliggjandi samning og sagði nafnritun sína á hann falsaða. Vísað var til þess að samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 þyrfti réttur gerðarbeiðanda að vera skýr til að aðför yrði leyfð án undangengins dóms. Yrði að afla frekari sönnunargagna um ágreining aðila áður en afstaða yrði tekin til hans og var ekki talið að sú sönnunarfærsla gæti farið fram í máli sem rekið væri samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989. Þá var ekki talið að kæra á ætlaðri fölsun nafnritunar F gæti jafngilt uppsögn á samningnum. Var samkvæmt því ekki unnt að fallast á kröfu F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. júlí 2007, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá skipið Bjarma BA-326, skipaskrárnúmer 1321, tekið úr vörslum sóknaraðila og fengið sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ágreiningur málsaðila lýtur aðallega að því hvort í gildi sé leigusamningur milli þeirra, þar sem varnaraðili selur sóknaraðila fyrrgreint skip á leigu. Leigusamningur dagsettur 22. júní 2006 þessa efnis er meðal gagna málsins. Kveðst fyrirsvarsmaður varnaraðila ekki kannast við gerð samningsins og segir nafnritun sína á hann falsaða. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir gögnum sem lögð voru fram í héraði varðandi þennan ágreining.

Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 þarf réttur gerðarbeiðanda að vera skýr til að aðför verði leyfð án undangengins dóms. Fyrir liggur að afla verður frekari sönnunargagna um ágreining aðila áður en afstaða verður tekin til hans, meðal annars vitnisburðar frá vottum að undirskriftum undir umræddan samning. Sú sönnunarfærsla getur ekki farið fram í máli sem rekið er samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. lokaákvæði 1. mgr. 83. gr. laganna. Þá getur kæra á ætlaðri fölsun nafnritunar fyrirsvarsmanns varnaraðila ekki talist jafngilda uppsögn á leigusamningnum. Með vísan til þessa verða ekki talin uppfyllt skilyrði fyrir að varnaraðili geti fengið skipið Bjarma BA-326 afhent sér með beinni aðfarargerð. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi en rétt þykir að málskostnaður í héraði falli niður.

Samkvæmt þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Varnaraðili, Fiskeldistækni ehf., greiði sóknaraðila, Steinbjörgu ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

                                          

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. júlí 2007.

Mál þetta barst dómnum 13. október sl. Meðferð þess var frestað að ósk aðila vegna gagnaöflunar, en það var síðan munnlega flutt og dómtekið 7. júní sl.

Gerðarbeiðandi, Fiskeldistækni ehf., Hrauntungu 5, Kópavogi, krefst þess að skipið Bjarmi BA-326, skipaskrárnúmer 1321, verði tekið úr vörslum gerðarþola, Steinbjargar ehf., Skógum, Tálknafjarðarhreppi, með beinni aðfarargerð og fengið lögmanni gerðarbeiðanda fyrir hans hönd. Þá er krafist málskostnaðar.

Gerðarþoli krefst þess að synjað verði um að kröfur gerðarbeiðanda nái fram að ganga auk þess sem málskostnaðar er krafist.    

I.

Gerðarbeiðandi eignaðist framangreint skip samkvæmt afsali þann 18. apríl 2005. Kveðst hann hafa hugsað sér að selja það aftur, en falið Níels Adolf Ársælssyni, Skógum, Tálknafirði, vörslur þess tímabundið.

Í málinu liggur frammi leigusamningur um skipið. Samkvæmt honum tók gerðarþoli skipið á leigu af gerðarbeiðanda frá 22. júní 2006. Samningurinn átti að vera ótímabundinn, en með sex mánaða uppsagnarfresti. Skyldi leigan vera 5% af aflaverðmæti ásamt virðisaukaskatti og greiðast eftir á, á gjalddaga 10. hvers mánaðar, í fyrsta sinn 10. ágúst 2006. Skyldi innheimta hana með reikningi um hver mánaðamót. Samningurinn er undirritaður af fyrrnefndum Níels fyrir hönd gerðarþola. Af hálfu gerðarbeiðanda sem leigusala er ritað nafn Ólafs Wernerssonar, stjórnarmanns og framkvæmdastjóra gerðarbeiðanda.

Gerðarbeiðandi kveður þessa nafnritun vera falsaða og kærði lögmaður framkvæmdastjórans hana til ríkislögreglustjóra þann 22. september 2006.

Gerðarbeiðandi kveður sér aftrað með ólögmætum hætti að fá lögmætar vörslur skipsins og krefst aðfarar með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989.    

II.

Gerðarþoli kveður fyrrnefnda fyrirsvarsmenn gerðarbeiðanda og gerðarþola hafa ákveðið við gjaldþrot fyrri eiganda skipsins að kaupa það í sameiningu. Hafi þeir ætlað að selja skipið aftur. Gerðarbeiðandi hafi lagt fram kaupverðið. Fyrirtækið Skip ehf., í eigu fjölskyldu fyrirsvarsmanns gerðarþola, hafi haft leigusamning um skipið og hafi verið ákveðið að fella þann samning ekki úr gildi, heldur halda fiskveiðileyfi sem Skip ehf. hafði fengið.

Ekki hafi tekist að selja skipið. Hafi verið ákveðið að taka það í slipp til lagfæringa áður en það yrði boðið til sölu á ný. Forsvarsmenn Skips ehf. hafi borið kostnað af lagfæringunum. Það félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi þá verið stofnað til gerðarþola, til að taka við rekstri skipsins. Hafi verið samið um það við fyrirsvarsmann gerðarbeiðanda að færa samninginn yfir á gerðarþola. Hafi hann samþykkt það og hafi einn starfsmanna gerðarþola farið með samning, sem lögmaður samdi, til fyrirsvarsmannsins og hafi hann undirritað hann fyrir hönd gerðarbeiðanda.

Gerðarþoli kveðst byggja á því að gildur leigusamningur sé fyrir hendi um skipið og mótmælir því að undirritun fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda á hann sé fölsuð. Þá megi á það benda að viðskipti aðila séu flóknari en svo að þau verði útkljáð í máli um beina aðfarargerð. Hafi varnaraðili, fyrirsvarsmaður hans og fjölskylda fyrirsvarsmannsins staðið straum af öllum kostnaði vegna skipsins og telji sig eiga stórfellda kröfu á gerðarbeiðanda af þeim sökum.    

III.

Í málinu liggur frammi skrifleg aðilaskýrsla fyrrnefnds fyrirsvarsmanns gerðarþola. Kemur þar fram að eiginkona hans hafi vottað undirritun hans á nefndan samning, en að starfsmaður hans hafi farið með samninginn á heimili fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda til undirritunar. Nefndur starfsmaður undirritar samninginn sem vottur. Þá liggur frammi skrifleg yfirlýsing starfsmannsins um að fyrirsvarsmaðurinn hafi undirritað skjalið.

Við munnlegan málflutning var lögð fram skrifleg matsgerð frá rannsóknarstofu sænsku lögreglunnar (Statens kriminaltekniska laboratorium), um rannsókn á undirritun fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda og samanburð við sýnishorn af rithönd hans. Þar segir að við samanburð á vefengdu undirskriftinni og rithandarsýnunum sjáist viss svipur hvað snerti stíleinkenni, einföldunarstig og form tilgreindra stafa. Á móti komi frávik hvað snerti innbyrðis hlutföll bókstafa og form tilgreindra tveggja stafa. Að auki fyrirfinnist ekki í sýnunum nákvæm samsvörun á þeim stoppum í skriftinni sem sé að finna í vefengdu undirskriftinni, bæði í skírnar- og eftirnafni. Erfitt sé að leggja öruggt mat á athuganirnar en ekki virðist gerlegt að líta fram hjá frávikunum. Sá svipur sem sé til staðar bendi helst til þess að umrædd undirskrift hafi orðið til sem tilraun til að eftirmynda fríhendis eiginhandarundirskrift fyrirsvarsmannsins. Bendi niðurstöðurnar í nokkrum mæli til þess að vefengda undirskriftin sé ekki eiginhandarundirskrift hans.    

IV.

Gerðarbeiðandi er þinglýstur eigandi framangreinds skips. Fyrirsvarsmaður hans hefur kært til lögreglu meinta fölsun leigusamnings sem gerðarþoli byggir rétt sinn til skipsins á. Niðurstöður rithandarrannsóknar benda til þess í nokkrum mæli að undirritunin sé fölsuð. Ekki liggur fyrir að leigugjald samkvæmt samningnum hafi nokkru sinni verið innt af hendi eða reikningur gerður fyrir því. Sá tími sem liðinn er síðan fyrirsvarsmaðurinn kærði meinta fölsun til lögreglu er umfram þann uppsagnarfrest sem samningurinn kveður á um. Í ljósi þessara atvika verður ekki talið að gerðarþoli geti að svo komnu máli byggt rétt til skipsins á nefndum samningi. Verður krafa gerðarbeiðanda samkvæmt því tekin til greina.

Krafa um málskostnað var ekki höfð uppi í aðfararbeiðni, en gerð við munnlegan flutning málsins. Verður hún talin nægilega snemma fram komin, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 1. september 2003 í máli nr. 308/2003. Verður gerðarþola gert að greiða gerðarbeiðanda 100.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Gerðarbeiðanda, Fiskeldistækni ehf., er heimilt að fá skipið Bjarma BA-326, skipaskrárnúmer 1321, tekið úr vörslum gerðarþola, Steinbjargar ehf., með beinni aðfarargerð.

Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 100.000 krónur í málskostnað.