Hæstiréttur íslands

Mál nr. 824/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Mánudaginn 20. janúar 2014.

Nr. 824/2013.

Arctic Linefish A/S og

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Íslandsbanki hf.

(Ásgerður Þ. Hannesdóttir hdl.)

gegn

Samskipum hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli A og Í hf. á hendur S hf. Málsatvik voru þau að ágreiningi um kröfu sem S hf. lýsti við gjaldþrotaskipti þrotabús N ehf. hafði verið vísað til héraðsdóms samkvæmt heimild í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Áður en málið var þingfest í héraði afturkallaði S hf. kröfu sína við skiptin þar sem hún hefði að fullu verið greidd. Talið var að mál yrði ekki rekið fyrir dómi eftir reglum 5. þáttar laga nr. 21/1991 eftir afturköllun kröfunnar til að fá leyst úr álitaefnum um hvort efni hefðu verið til þess að hún yrði viðurkennd við gjaldþrotaskiptin, enda nytu A og Í hf. annarra úrræða teldu þeir skiptastjóra hafa farið ranglega með hagsmuni þrotabúsins gagnvart S hf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 10. og 11. desember 2013, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. nóvember 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess hvor fyrir sitt leyti að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Krafa hans um málskostnað í héraði getur því ekki komið til frekari álita hér fyrir dómi.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var mál þetta lagt fyrir héraðsdóm vegna ágreinings, sem reis við skipti á þrotabúi Norðurstrandar ehf. um hvort viðurkenna ætti kröfu að fjárhæð 19.109.147 krónur, sem varnaraðili hafði lýst og krafist að fengi notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að skiptastjóri hafi í skrá um lýstar kröfur í þrotabúið lýst sig samþykkan því að viðurkenna þessa kröfu, en sóknaraðilar hafi á skiptafundi í búinu 4. apríl 2013 mótmælt þeirri rétthæð kröfunnar, sem varnaraðili hafi krafist. Skiptastjóri beindi ágreiningi um kröfuna til héraðsdóms 2. júlí 2013, en áður en mál þetta var þingfest af því tilefni 9. október 2013 hafði varnaraðili með bréfi til skiptastjóra 10. júlí sama ár afturkallað kröfuna með því að hún hafi að fullu verið greidd.

Þótt sóknaraðilar telji að ekki hefði átt að viðurkenna kröfu varnaraðila við gjaldþrotaskiptin, eins og skiptastjóri gerði samkvæmt framansögðu, verður ekki rekið mál fyrir dómi eftir reglum 5. þáttar laga nr. 21/1991 til að fá leyst úr álitaefnum um hvort efni hafi verið til þess eftir að krafan hefur verið afturkölluð við skiptin. Getur engu breytt í því sambandi af hvaða tilefni krafan var afturkölluð, enda njóta sóknaraðilar annarra úrræða telji þeir skiptastjóra hafa farið ranglega með hagsmuni þrotabúsins gagnvart varnaraðila. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðilum verður í sameiningu gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kæra í máli þessu er gersamlega að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Arctic Linefish A/S og Íslandsbanki hf., greiði í sameiningu varnaraðila, Samskipum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. nóvember 2013.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar eða eftir atvikum ákvörðunar, fimmtudaginn 14. nóvember 2013, er komið til dómsins með bréfi Arnars Sigfússonar hdl., skiptastjóra þrotabús Norðurstrandar ehf., kt. 610993-3549, mótteknu 2. júlí 2013, þar sem skiptastjóri vísar til dómsins ágreiningi sem hann kveður hafa komið upp við skiptin.

Í bréfi sínu lýsir skiptastjóri ágreiningnum svo, að að kröfuhafinn Samskip hf., kt. 440986-1539, Kjalarvogi, Reykjavík, hafi lýst í búið kröfu að fjárhæð 19.109.147 krónur og hafi henni verið lýst sem haldsréttarkröfu sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991. Sé um að ræða vangreidd flutnings- og geymslugjöld vegna flutnings og geymslu vara fyrir Norðurströnd ehf. og hafi verið vísað til yfirlýsingar frá 6. desember 2012 um beitingu haldsréttar, skilmála farmbréfa og almennra skilmála flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu.

Skiptastjóri kveðst hafa viðurkennt kröfuna að fullu. Á skiptafundi hinn 4. apríl 2013 hafi fulltrúar tveggja kröfuhafa, Arctic Linefish a/s, Otneimneset, Strandlandet, Noregi, og Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, mótmælt þeirri afstöðu skiptastjóra. Á fundi vegna ágreiningsins hinn 20. júní 2013 hafi verið bókað að afstaða skiptastjóra væri óbreytt og Samskip hf. tækju undir hana. Kröfuhafarnir Arctic Linefish a/s og Íslandsbanki hf. mótmæli haldsrétti Samskipa hf. vegna kröfunnar. Þá að lögmaður Samskipa hf. óski bókað að krafa félagsins hafi verið greidd að fullu og verði kröfulýsingin dregin til baka að fenginni skriflegri yfirlýsingu félagsins um að krafan hafi verið að fullu greidd. Hafi jafnframt verið bókað eftir lögmönnum Arctic Linefish a/s og Íslandsbanka hf. að umbjóðendur þeirra áskilji sér allan rétt gagnvart búinu og/eða Samskipum hf. komi til þess að krafan verði dregin til baka.

Á kröfulýsingaskrá sem liggur fyrir í málinu er getið um kröfu frá Samskipum hf. að fjárhæð 19.109.147 krónur, samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Um hana segir á skránni: „Krafa afturkölluð, greidd“.

Með bréfi til skiptastjóra, dags. 10. júlí 2013, afturkölluðu Samskip hf. kröfu sína í búið, þar sem hún væri „að fullu greidd“. Hinn 8. október 2013 sendi skiptastjóri Samskipum hf. kröfuskrá eins og hún væri þann dag, „þar sem meðal annars kemur fram að krafa Samskipa hefur verið afturkölluð vegna greiðslu.“

II

Við þingfestingu málsins lögðu Samskip hf. fram síðastgreind gögn og í framhaldi af því gaf dómurinn mættum kost á því að tjá sig um hvort vísa bæri málinu frá en ef ekki, hvernig aðild þess skyldi háttað. Í þinghaldi hinn 14. nóvember lýstu Arctic Linefish a/s og Íslandsbanki hf. þeim sjónarmiðum að málinu skyldi ekki vísað frá dómi og að þau fyrirtæki skyldu teljast sóknaraðilar þess en Samskip hf. varnaraðili. Þrotabú Norðurstrandar ehf. kvaðst telja unnt að reka málið áfram. Við þær aðstæður ættu hvorki búið sjálft né skiptastjóri þess að eiga aðild að málinu. Samskip hf. byggðu á því að vísa bæri málinu frá dómi, en yrði það ekki gert ætti þrotabúið sjálft en ekki Samskip hf. að eiga aðild að því til varnar.

III

Bæði Arctic Linefish a/s og Íslandsbanki hf. byggja á því, að krafa Samskipa hf. sé enn í búinu, enda sé ekki unnt í senn að vera kröfuhafi í bú og afturkalla kröfuna. Krafan sé enn á kröfuskrá og um hana sé ágreiningur og því sé heimilt að reka þetta mál um þann ágreining. Samskip hf. byggja á því, að krafan hafi verið gerð upp að fullu og hafi verið formlega afturkölluð þar sem hún sé ekki lengur til staðar.

IV

Skiptastjóri þrotabús Norðurstrandar ehf. hefur beint þessu máli til dómsins með vísan til 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., sbr. 1. mgr. 171. gr. laganna.

Í 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um að ágreiningi á skiptafundi um afstöðu skiptastjóra til einstakra krafna skuli vísað til héraðsdóms til meðferðar samkvæmt 171. gr. laganna. Hér háttar hins vegar svo til að sú krafa, sem skiptastjóri samþykkti við mótmæli tiltekinna kröfuhafa, hefur verið greidd. Ágreiningur málsins er því ekki lengur um afstöðu skiptastjóra til kröfunnar, heldur um réttmæti þeirrar gjörðar að greiða kröfuna. Að mati dómsins gerir 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 ekki ráð fyrir að slíkum ágreiningi verði vísað til héraðsdóms samkvæmt reglum V. þáttar laganna. Skipti þar ekki máli þótt krafan sé enn skráð á kröfuskrá, en þar stendur hún með athugasemd skiptastjóra um að hún hafi verið greidd og afturkölluð.

Með vísan til þessa verður að mati dómsins ekki komizt hjá því að vísa málinu frá dómi án kröfu. Málskostnaður úrskurðast ekki.

Áslaug Björgvinsdóttir hdl. gætti hagsmuna Artic Linefish a/s,

Ásgerður Þ. Hannesdóttir hdl. Íslandsbanka hf., Einar Ingimundarson hdl. Samskipa hf. og Arnar Sigfússon hdl. þrotabús Norðurstrandar ehf.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.