Hæstiréttur íslands

Mál nr. 237/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Gagnkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                            

Fimmtudaginn 16. apríl 2015.

Nr. 237/2015.

A

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

B

(Björn Jóhannesson hrl.)

Kærumál. Dánarbússkipti. Gagnkrafa. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi A og B í tengslum við skipti á dánarbúi C, að öðru leyti en því að vísað var frá héraðsdómi kröfu B um að A yrði gert að afhenda dánarbúinu nánar tiltekna lausafjármuni þar sem krafan hefði ekki verið höfð uppi eftir fyrirmælum 124. og 125. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2015, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna í tengslum við opinber skipti á dánarbúi C. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi að sér verði greiddar 4.798.350 krónur af eignum dánarbúsins, í öðru lagi að viðurkennt verði að hann eigi 50% hlut í félaginu [...] og í þriðja lagi að vísað verði frá héraðsdómi kröfum varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að greiða dánarbúinu annars vegar 625.000 krónur og hins vegar 274.471 krónu, svo og að afhenda því nánar tiltekna lausafjármuni. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 1. apríl 2015. Hann krefst þess að staðfest verði ákvæði hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila um greiðslu á 4.798.350 krónum og viðurkenningu á því að hann sé eigandi helmingshlutar í [...], en sóknaraðila verði á hinn bóginn gert að greiða dánarbúi C annars vegar 625.000 krónur og hins vegar 228.475 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilteknum fjárhæðum frá 17. júlí 2013 til greiðsludags, svo og að afhenda dánarbúinu „hluti sem listaðir eru upp í framlögðu skjali nr. 83“. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést C [...] júní 2013 og var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta 13. desember sama ár eftir kröfu sóknaraðila, sem hafði verið í óvígðri sambúð með henni. Varnaraðili, sem er ófjárráða sonur C, er einkaerfingi hennar. Við opinberu skiptin reis ágreiningur um kröfur, sem sóknaraðili gerði um greiðslu annars vegar fyrir framlag sitt til endurbóta á fasteign þeirrar látnu að [...] í [...] og hins vegar vegna umönnunar hennar á tilteknu tímabili veikinda fyrir andlátið, svo og um viðurkenningu eignarréttar að helmingshlut í félaginu [...], sem var að öllu leyti skráð í eigu hennar. Jafnframt kom upp ágreiningur um kröfur, sem varnaraðili gerði um að sóknaraðila yrði gert að greiða dánarbúinu húsaleigu vegna nota af fasteigninni að [...] frá andláti C til loka september 2013, útlagðan kostnað í tengslum við fasteignina á því tímabili og bætur vegna skemmda á henni, svo og að afhenda dánarbúinu hest í eigu þess og lausafjármuni, sem voru tilgreindir á sérstökum lista. Skiptastjóri í dánarbúinu vísaði þessum ágreiningsefnum til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 16. maí 2014. Undir rekstri málsins í héraði aflaði sóknaraðili matsgerðar dómkvadds manns um kostnað, sem hefði hlotist af því að kaupa vinnu við endurbætur á fasteigninni, en á grundvelli matsins nam endanleg dómkrafa sóknaraðila af því tilefni 4.798.350 krónum. Þá féll sóknaraðili frá kröfu sinni um greiðslu fyrir umönnun, en hélt til streitu kröfu um viðurkenningu á eignarrétti að helmingshlut í áðurnefndu félagi. Varnaraðili krafðist að öllum þessum kröfum yrði hafnað, en jafnframt að sóknaraðila yrði gert að greiða dánarbúinu 625.000 krónur í húsaleigu og 274.471 krónu vegna útlagðs kostnaðar af fasteigninni auk þess sem honum yrði gert að afhenda því lausafjármuni „sem listaðir eru upp í framlögðu skjali nr. 83.” Með hinum kærða úrskurði var öllum kröfum beggja aðila hafnað að frátöldu því að síðastgreind krafa varnaraðila var að nokkru tekin til greina.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að hafna því að viðurkenna kröfur sóknaraðila á hendur dánarbúinu annars vegar um greiðslu á 4.798.350 krónum og hins vegar um eignarrétt að helmingi hluta í [...]. Með því að sóknaraðili krafðist í málinu viðurkenningar kröfu um greiðslu úr hendi dánarbúsins var því heimilt að hafa uppi gagnkröfur til sjálfstæðrar dómsúrlausnar um greiðslu úr hendi hans, enda var fullnægt öðrum skilyrðum 2. töluliðar 126. gr. laga nr. 20/1991. Á gagnkröfunum um greiðslu, sem varnaraðili heldur uppi í þágu dánarbúsins, eru ekki þeir annmarkar að efni séu til að verða við kröfu sóknaraðila um að þeim verði vísað frá héraðsdómi. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður á hinn bóginn staðfest niðurstaða hans um að hafna þessum kröfum. Í lögum nr. 20/1991 er ekki að finna heimildir handa dánarbúi til að beina í máli, sem rekið er eftir reglum 5. þáttar þeirra, kröfu að þriðja manni um afhendingu muna, sem það telur sig njóta eignarréttar yfir, aðrar en þær, sem getið er í 124. og 125. gr. laganna. Í máli þessu hefur krafa um skyldu sóknaraðila til að láta af hendi lausafjármuni ekki verið höfð uppi eftir fyrirmælum þeirra ákvæða og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa henni af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Eftir úrslitum málsins er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu varnaraðila, B, um að sóknaraðila, A, verði gert að afhenda dánarbúi C nánar tiltekna lausafjármuni.

Að öðru leyti skal hinn kærði úrskurður vera óraskaður.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 6. febrúar sl., barst dóminum 28. janúar 2014 með bréfi skiptastjóra við opinber skipti á dánarbúi C. Sóknaraðili er A, kt. [...], [...], [...]. Varnaraðili er B, [...], [...], [...], sem er ólögráða en hagsmuna hans gætir skipaður fjárhaldsmaður hans, D, kt. [...].

Sóknaraðili krefst þess að honum verði greiddar 4.798.350 krónur af eignum dánarbús C vegna framlags við lagfæringar á húseigninni [...], [...]. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að hann eigi 50% í fyrirtækinu [...], kt. [...], sem stofnað hafi verið af honum og C. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Varnaraðili krefst sýknu af kröfu sóknaraðila um greiðslu á 4.798.350 krónum vegna framlags við lagfæringar á húseigninni að [...] í [...] en til vara að krafa sóknaraðila verði stórlega lækkuð. Þá krefst varnaraðili þess jafnframt að kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að hann eigi 50% í [...] sem sé í eigu dánarbús C, verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér leiguskuld að fjárhæð 625.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 125.000 krónum frá 17. júlí 2013 til 1. ágúst 2013, af 375.000 krónum frá 1. ágúst 2013 til 1. september 2013 og af 625.000 krónum frá 1. september 2013 til greiðsludags. Jafnframt krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér skuld að fjárhæð 274.471 króna auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. ágúst 2014 til greiðsludags. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til að afhenda dánarbúi „þá hluti sem listaðir eru upp í framlögð skjali nr. 83“. Að lokum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

I

Málavextir

Sóknaraðili og C, móðir varnaraðila, B, munu hafa hafið samband í desember 2009. C bjó þá og starfaði í [...]. Sóknaraðili bjó hér á landi og átti íbúð í [...] í [...]. C flutti til landsins í byrjun árs 2011. Hún festi kaup á fasteigninni að [...] í [...] 30. nóvember 2010. Þar bjuggu hún og sóknaraðili, ásamt varnaraðila, syni hennar, frá því í mars 2011. C veiktist haustið 2012 og glímdi við erfið veikindi veturinn 2012 til 2013. Hún lést [...] júní 2013 og fór útför hennar fram [...] sama mánaðar. Sóknaraðili og C voru ekki í skráðri sambúð og fasteignin að [...] var þinglýst eign hennar.

D, var skipaður fjárhaldsmaður varnaraðila að ósk C. Fer hann með hagsmuni drengsins fyrir dóminum. D átti fund með sóknaraðila og bróður hans, E, 17. júní 2013 vegna málefna dánarbúsins. Meðal annars var rætt um hversu lengi sóknaraðili gæti verið í húsinu. Mun sóknaraðili hafa óskað eftir því að fá að vera í húsinu fram að áramótum en því verið hafnað af hálfu fjárhaldsmannsins sem bauð honum að vera í húsinu í einn mánuð, leigulaust.

D sendi tölvupóst síðar sama dag til sóknaraðila og bróður hans þar sem efni fundarins er rakið. Var óskað eftir athugasemdum af þeirra hálfu því að mikilvægt væri „að við leggjum allir af stað með sameiginlegan skilning til að ekki komi upp eitthvað óvænt á næstu vikum þegar við vinnum okkur í gegnum þetta“. Þá segir að honum sem fjárhaldsmanni varnaraðila beri að tryggja með sem bestum hætti hagsmuni drengsins til lengri og skemmri tíma, hafandi til hliðsjónar vilja C eins og hægt væri. Búið samanstæði af félaginu [...], húsinu við [...], innbúi þess og lausu fé sem C kunni að hafa skilið eftir. Vilji C og laganna hljóðan kvæðu skýrt á um að allar eignir hennar rynnu til sonarins. Þá er gerð grein fyrir því að vilji hinnar látnu hafi verið að félagið [...] rynni að fullu til sóknaraðila. Ástæður þess væru þær tvær helstar að þetta væri „félag sem var notað sameiginlega til að halda utan um aflatekjur beggja og hitt, að með því að skilja [...] jeppabifreið sína eftir í félaginu, þá jafnar hún á móti þeirri vinnu og kostnaði sem [A] setti í eignina að [...], þá helst pallinn í garðinum“. Engin lagaheimild væri fyrir þessum gjörningi. Því hafi honum þótt rétt að ráðfæra sig við þann lögfræðing sem C hafði valið til að sjá um sín mál við fráfall sitt. „Lögfræðingurinn hefði rætt gjöfina á [...] til [A] við aðstandendur og þótti lögfræðingnum ljóst að vilji C hefði verið þessi, auk þess sem sanngirnissjónarmið koma þarna að. Með hliðsjón af þessu þótti henni ekki gengið óeðlilega á hagsmuni B þótt af þessu yrði, og við munum því vinna að því.“

Þá er í umræddum tölvupósti gerð grein fyrir stöðu mála hvað varðar fasteignina að [...]. Kemur fram að hún verði sett á sölu eins fljótt og auðið er og að stefnt sé að því að söluferli geti hafist í ágúst. Gera þurfi ráðstafanir með innbú, þrífa eignina og gera hana sem best fallna til sölu. Eignin verði seld með núverandi leigjendum í kjallaranum og því þurfi ekki að gera ráðstafanir vegna þeirra. Þá segir: „Á fundi okkar í morgun náðum við samkomulagi um að miða við að [A] hafi yfirgefið [...] eigi síðar en eftir einn mánuð og er því rétt að miða við [...] júlí. Það þýðir að eigi síðar en á þeim degi hafi [A] valið sér nýjan dvalarstað, tekið þann hluta innbúsins sem til hans telst og hafi ekkert frekara erindi í húsið. Það geri því kleift að skipta um læsingar, gera ráðstafanir með öryggiskerfi og annað þess háttar sem þarf að gera til að undirbúa húsið fyrir sölu.“

Jafnframt segir í tölvupóstinum varðandi innbú að til búsins teljist þeir hlutir sem C hafi lagt til í upphafi auk helmings þeirra hluta sem keyptir voru sameiginlega af henni og sóknaraðila. Muni sóknaraðili gera lista yfir þá hluti sem til hans teldust og þá hluti sem voru keyptir sameiginlega. Við skiptingu þeirra skuli „meginregla vera helmingaskipt verðmæti, en þó horft til tilfinningalegra sjónarmiða þegar endanleg skipting fer fram. Aðilar skulu stefna á að ná samkomulagi um þetta sem allra fyrst, eigi síðar en í vikunni sem lýkur 30. júní.“

Þá segir að allt laust fé renni til varnaraðila. Undantekning frá þessu sé laust fé sem sitji í [...] og C kunni að hafa aflað.

E, bróðir sóknaraðila svarar póstinum degi síðar eða [...] júní 2013. Þar þakkar hann fyrir fundinn. Þeir hafi „ætlað að fara í þetta í gærkvöldi“ en vegna óvæntra veikinda dóttur sóknaraðila hafi það ekki tekist en þeir gætu vonandi farið í málið síðar um daginn. Þá segir: „Ég verði í sambandi um leið og við höfum farið yfir þetta.“

F, systir sóknaraðila, sendir D póst [...] júní 2013 þar sem segir að vegna „ótrúlega ruddalegrar framkomu“ gagnvart sóknaraðila hafi „hann ráðið sér lögmann til að gæta hagsmuna sinna varðandi skipti á búi þeirra C. Hann óskar eftir að ekki verði haft frekara samband við sig vegna þessa máls.“ Þá segir að sóknaraðili fari „fram á að fá frið á sínu heimili í [...] fyrir foreldrum C og er þeim óheimilt að koma þangað meðan ekki er búið að ganga frá dánarbúinu. Skipt hefur verið um læsingar í [...] og það tilkynnt til Sýslumannsins í Reykjavík.“

Lögmaður sóknaraðila ritaði Sýslumanninum í Reykjavík bréf [...] júní 2013 þar sem gerð er grein fyrir því að lögmanninum hafi verið falið að setja fram kröfur í dánarbúið vegna framkvæmda og lagfæringa í húseigninni [...], vegna tekjumissis vegna umönnunar C í veikindum hennar. Þá er þar gerð grein fyrir því að hann og C hafi átt félagið [...] saman og að lokum að hann hygðist vera áfram í húsnæðinu, þó ekki lengur en í sex mánuði.

Með bréfi D til sóknaraðila [...] júní 2013 var hann, með vísan til samtals hans við sóknaraðila og bróður hans 17. sama mánaðar, hvattur til þess að standa við það sem þar hafi verið rætt og þeir hafi sammælst um. Vilji þeirra væri að „sigla þessum málum í höfn“ áður en drengurinn kæmi til landsins en hann hafði skömmu eftir útför móður sinnar farið til útlanda með föður sínum. Þá er ítrekað að vonast sé til þess að sóknaraðili hafi gert ráðstafanir með annað húsnæði og að hann muni yfirgefa [...] eigi síðar en [...] júlí. Þá er óskað eftir því að hann setji saman lista yfir þær eignir sem hann telji að séu sínar eða hafi verið keyptar sameiginlega af honum og C. Þetta væri „forsenda þess að hægt sé að ganga hreint til verks eins og við ræddum“.

Þáverandi lögmaður C heitinnar ritaði bréf til Sýslumannsins í Reykjavík, [...] júní 2013, þar sem óskað var eftir því að sýslumaður tæki málefni dánarbús hennar sem fyrst til formlegrar afgreiðslu hvað varðar forsjá foreldra C með syni hennar B og skipun D sem fjárhaldsmanns drengsins. Jafnframt var óskað eftir því að sýslumaður aflaði gagna um fjárreiður dánarbúsins hjá bönkum og öðrum stofnunum þar sem enginn í fjölskyldunni hefði aðgang að heimabanka hennar eða hefði gögn um fjárreiður hennar almennt. Lögmaðurinn ritaði annað bréf til sýslumanns 4. júlí sama ár þar sem áðurnefnd atriði voru áréttuð auk þess sem gerð var grein fyrir þeim kröfum sem sóknaraðili hefði beint að búinu. Þá var einnig óskað eftir því að haft yrði uppi á horfnum bókhaldsgögnum C og félagsins [...].

D, fjárhaldsmaður varnaraðila, sendi sóknaraðila tölvupóst 16. júlí 2013 þar sem málefni búsins voru rædd. Þá var þar boðað að óskað yrði útburðar sóknaraðila úr fasteigninni að [...] þar sem hann hefði ekki sinnt áskorun um að flytja úr eigninni og að hann yrði krafinn um leigu fyrir afnot af eignum búsins. Skyldi húsaleiga fyrir hvern dag nema 8.333 krónum, leiga fyrir [...] jeppa vera 1.907 krónur á dag og leiga fyrir [...] jeppa vera 1.407 krónur á dag. Væri þetta neyðarráðstöfun búsins til að gæta hagsmuna sinna og fæli hún ekki sér með nokkrum hætti samþykki, samkomulag eða samning um þessa tilhögun. Var sóknaraðili beðinn um að afhenda lykla að fasteigninni.

Með tölvupósti D til lögmanns sóknaraðila 17. júlí 2013 var óskað eftir liðsinni lögmannsins til þess að hlutir í eigu sonar C yrðu til reiðu fyrir hann er hann kæmi til landsins.

Með bréfi lögmanns varnaraðila, 16. ágúst 2013, var gerð sú krafa að sóknaraðili flytti úr húsinu í síðasta lagi 31. sama mánaðar. Ef hann óskaði eftir því að fá að vera lengur í húsnæðinu væri varnaraðili tilbúinn að semja um það í stuttan tíma gegn leigugreiðslu. Þá var þar gerð krafa um afhendingu bifreiðanna tveggja, sem áður eru nefndar, í síðasta lagi innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Einnig var gerð krafa um afhendingu tveggja hesta í eigu dánarbúsins. Um innbú sagði að varnaraðili teldi ljóst að sóknaraðili tæki sína persónulegu hluti og þá hluti sem hann hefði komið með þegar hann flutti í [...]. Hvað varðaði þá hluti sem keyptir voru meðan aðilar bjuggu saman var lagt til að sóknaraðili sendi tillögu að skiptingu þeirra miðað við lista sem hann hefði sent foreldrum C í tölvupósti í byrjun júlí. Á grundvelli þessa yrði svo gengið frá samkomulagi um skiptingu hlutanna sem fyrst en í síðasta lagi 31. sama mánaðar. Þá er hafnað skilningi sóknaraðila á því að hann og C hefðu stofnað og átt sameiginlega félagið [...]. Félagið hafi hún stofnað ein og átt ein enda upphaflega hugsað til þess að halda utan um vinnu hennar erlendis af skattalegum ástæðum. Þá hafi það einnig verið í samræmi við áherslu hennar á að halda fjárhag þeirra aðskildum.

Í framhaldinu skiptust lögmenn aðila og fjárhaldsmaðurinn á tölvuskeytum vegna innbúsins í [...] og viðskilnaðar sóknaraðila við eignina.

Í tölvupósti lögmanns varnaraðila til lögmanns sóknaraðila 28. september 2013 kemur fram að varnaraðili samþykki að sóknaraðili taki með sér innbúið sem hann hafi „listað upp“ um sumarið með nokkrum undantekningum. Er tekið fram að með þessu sé ekki verið að ganga frá skiptingu innbúsins eða samþykkja að hlutirnir falli í hlut sóknaraðila. Skipting innbúsins verði tekin inn í heildarsamkomulag aðila um fjárskiptin.

Með tölvupósti lögmanns varnaraðila til lögmanns sóknaraðila 3. október 2013 var með vísan til atburða dagana þar á undan tilkynnt að dánarbúið liti svo á að sóknaraðili hefði fallið frá samkomulagi sem gert hefði verið í ágúst sama ár og að dánarbúið teldi sig með öllu óbundið af því. Voru ástæður þess sagðar algert tillitsleysi hans til beiðni varnaraðila um það hvaða hlutir af innbúinu yrðu skildir eftir í húsinu, taka hluta í eigu dánarbúsins umfram heimild, framkoma hans við son C og aðra aðstandendur þar sem dregist hefði vikum saman að hleypa drengnum inn á heimilið og það að afhenda eigur hans með því að skilja þær eftir eftirlitslausar fyrir framan húsið auk algers skorts á samstarfsvilja. Er skorað á sóknaraðila að afhenda eignir búsins og ítrekað að varnaraðili áskilji sér rétt til að krefja sóknaraðila um leigu af húsnæðinu og bifreiðunum.

Lögmaður sóknaraðila gerði í tölvupósti 7. október 2013 athugasemdir við bréfið. Fullyrðingar sem þar kæmu fram væru órökstuddar og ómögulegt að átta sig á hvað um væri að ræða og hvaða hluti væri átt við að sóknaraðili hefði tekið.

Með bréfi 7. október 2013 kærði lögmaður varnaraðila sóknaraðila og systur hans til lögreglunnar fyrir heimildarlausa töku muna úr húsi C og óskaði eftir opinberri rannsókn á „verknaðinum“.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila til lögmanns varnaraðila 23. október 2013, sem ritað er í tilefni af tölvupóstssamskiptum lögmannanna 3. og 7. sama mánaðar, kemur fram að því hafi verið mótmælt af hálfu lögmannsins í tölvupóstinum 7. október 2013 að dánarbúið teldi sig með öllu óbundið af samkomulagi sem gert hafi verið í lok ágúst. Eru síðan nánar rakin atvik málsins hvað varðar innbú í [...] og persónulega muni C.

Bréfinu var svarað af hálfu lögmanns varnaraðila 1. nóvember 2013. Þar var því mótmælt að í tölvupósti lögmanns sóknaraðila 7. október 2013 hefðu komið fram mótmæli við því að samkomulagið væri niður fallið heldur væri þar eingöngu lýst viðhorfum til nokkurra atriða sem fram komu í tölvupóstinum frá 3. október 2013. Þá var bent á að dánarbúið hefði samþykkt í tölvupósti 28. september 2013 að sóknaraðili mætti taka með sér ákveðna hluti úr innbúinu. Eftir því hafi ekki verið farið heldur hafi sóknaraðili tekið með mér mun fleiri hluti en samþykkt hafði verið. Í framhaldinu hafi dánarbúið lýst sig óbundið af samkomulagi aðila.

Í svarbréfi lögmanns sóknaraðila 13. nóvember 2013 kemur fram að geri dánarbúið kröfu um að tilteknum munum verði skilað muni sóknaraðili „fara yfir það“. Dánarbúið hafi á hinn bóginn ekki gert kröfu um afhendingu tiltekinna muna og því geti hann ekki skilað því sem hann viti ekki hvað er. Hafi sóknaraðili metið stöðu málsins svo að enginn vilji hafi verið til þess af hálfu dánarbúsins að leysa málin gagnvart honum og því sjái hann sér ekki annað fært en að óska eftir opinberum skiptum á búinu. Þó sé það einlægur vilji sóknaraðila að ganga til samninga við dánarbúið um frágang mála gagnvart honum. Verði settar fram kröfu af hálfu dánarbúsins um afhendingu muna muni hann fara yfir þá kröfu. Þá hafi hann fullan hug á að ljúka málum þannig að hann taki í sinn hlut [...] og það sem félaginu tilheyri.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2013 var dánarbú C tekið til opinberra skipta að kröfu sóknaraðila en erfingjar höfðu fengið leyfi til einkaskipta 13. ágúst 2013. Skiptastjóri vísaði ágreiningi sem upp kom við skiptin til dómsins með bréfi 28. janúar 2014. Þar segir að við skipti á dánarbúinu hafi orðið ágreiningur sem einkum varði eignarhald á fyrirtækinu [...] en hin látna hafi verið skráð fyrir 100% hlutafjár í því. Þá sé ágreiningur um afnot sóknaraðila af fasteigninni að [...] eftir andlát C, eignarhald á innbúi og um fjárkröfur sóknaraðila vegna lagfæringa á áðurnefndri fasteign og umönnunar hans gagnvart hinni látnu í veikindum hennar.

Nánar kemur fram í bréfi skiptastjóra að sóknaraðili geri í fyrsta lagi kröfu um greiðslu 5.963.000 króna vegna framlags við lagfæringar á húseigninni að [...] í [...]. Í öðru lagi geri hann kröfu um greiðslu 4.000.000 króna í umönnunarbætur vegna þess tíma sem hann hafi annast hina látnu í veikindum hennar. Í þriðja lagi krefjist hann helmingshlutar í einkahlutafélaginu [...] sem hann kveður hafa verið stofnað af honum og hinni látnu.

Varnaraðili hafi í fyrsta lagi gert þá kröfu að sóknaraðila yrði gert að greiða leigu að fjárhæð 250.000 krónur á mánuði vegna veru hans í [...] frá miðjum júní til loka september 2013. Í öðru lagi að sóknaraðila yrði gert að greiða útlagðan kostnað dánarbúsins vegna veru hans í [...] frá miðjum júlí til loka september 2013, þ.m.t. fasteignagjöld, fráveitugjöld, gjöld fyrir hita og rafmagn, símakostnað og gagnaveitugjald. Í þriðja lagi að sóknaraðila yrði gert að greiða kostnað við viðgerð á útvegg á [...] vegna skemmda sem orðið hafi á húsinu þegar markísa hafi verið skorin niður við flutning hans úr húsinu. Í fjórða lagi sé gerð krafa um afhendingu innbús sem listað hafi verið í bréfi til lögreglunnar 7. október 2013.

Skiptafundur var haldinn 23. janúar 2014 til að jafna ágreining aðila. Það tókst ekki og var ágreiningnum þá vísað til héraðsdóms í samræmi við 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Fram kemur í bréfi skiptastjóra að hann telji dánarbúið ekki þurfa að eiga aðild að málinu.

Sóknaraðili og D, skipaður fjárhaldsmaður varnaraðila, sem gætir hagsmuna hans í málinu, gáfu skýrslu fyrir dóminum. Þá gaf skýrslu G matsmaður, H nágranni sóknaraðila og C, I nágranni sóknaraðila og C, F systir sóknaraðila, J varamaður í stjórn [...], K smiður, L faðir C og M móðir C.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Kröfu sína um greiðslu 4.798.350 króna úr hendi varnaraðila byggir sóknaraðili á meginreglum kröfuréttarins um að honum beri greiðsla fyrir framlag hans við framkvæmdir og lagfæringar að [...] í [...].

Kveður sóknaraðili að skömmu eftir að hann og C hófu sambúð, hafi það orðið að samkomulagi þeirra á milli að hann myndi sinna ýmissi vinnu við húseignina og lóðina ásamt lagfæringum innanhúss. Byggi fjárhæðin á mati dómkvadds matsmanns um það hvað C hefði þurft að greiða hefði hún keypt þá vinnu sem sóknaraðili lagði fram. Matsmaðurinn hafi haft upplýsingar frá sóknaraðila um hvernig hann hafi unnið verkið, hversu margir bílar af efni hafi farið í og úr lóð og hvernig verkið hafi gengið fyrir sig. Matsmaðurinn hafi á hinn bóginn metið það sjálfstætt samkvæmt reynslu manna sem séu í slíkum verkum hvað hafi mátt reikna með miklu magni jarðvegs o.fl. vegna framkvæmdanna og hver væri eðlilegur tími sem ætla mætti að færi almennt í svona framkvæmdir. Óumdeilt væri að vinnan við undirbúning pallasmíðinnar hefði verið gríðarleg og miklu meiri en menn höfðu gert sér í hugarlund. Svo mikil hefði vinnan verið að C hefði líklega aldrei farið í þessar framkvæmdir ef hún hefði þurft að ráða til sín verktaka til að gera þetta. C hafi litið svo á að framlag sóknaraðila hafi verið svo mikið að honum bæri greiðsla fyrir það til að rétta hans hlut og hafi hún sérstaklega litið til [...] bifreiðarinnar sem hafi verið inni í félaginu [...] en það hafi verið dýr bifreið.

Sóknaraðili, sem starfi við ýmsa tækjavinnu, kveðst hafa séð um alla undirvinnu fyrir gerð palls á lóðinni. Einnig hafi hann séð um ýmsar lagfæringar innanhúss og utan, s.s. málningu, lagfæringu á innihurðum og gluggum o.fl. Þá hafi sóknaraðili skipt um ruslatunnuskýli, sem hann hafi keypt og sett við húsið. Sóknaraðili hafi unnið meira og minna allt sumarið 2011 við húseignina, fyrst við jarðvegsvinnu en þegar vinna hafi verið hafin vegna væntanlegra pallaframkvæmda hafi komið í ljós mikil klöpp sem hafi þurft að fleyga áður en unnt væri að hefja smíði pallsins. Við það verk hafi sóknaraðili notað stór vinnutæki, bæði gröfu, vörubíl og krana sem hann hafi útvegað. Þá hafi sóknaraðili greitt ýmsum iðnaðarmönnum fyrir þeirra vinnu við verkið.

Sóknaraðili gerði í greinargerð sinni kröfu um að honum yrðu greiddar samtals 5.936.000 krónur vegna framkvæmda hans við fasteignina og sundurliðaðist krafan þannig:

1)       Kostnaður vegna ruslatunnuskýlis                                                   170.000 krónur

2)       Vinna við smíði palls og heitan pott í 50 daga                           1.520.000 krónur

3)       Laun greidd til iðnaðarmanna vegna þeirrar vinnu                      500.000 krónur

4)       Kostnaður vegna vörubíls og jarðefnis sem ekið var af lóð        480.000 krónur

5)       Kostnaður vegna vörubíls og sands sem ekið var í lóð                240.000 krónur

6)       Kostnaður vegna vörubíls og moldar sem ekið var í lóð             160.000 krónur

7)       Vélavinna á gröfu í 20 daga                                                           1.600.000 krónur

8)       Steypa í undirstöður fyrir pall                                                             50.000 krónur

9)       Vinna við viðhald á húsi að innan, innihurðir o.fl.                        608.000 krónur

10)   Vinna og kostnaður útlagður af sóknaraðila                                                 608.000 krónur

Samtals                                                                                               5.936.000 krónur

Undir rekstri málsins aflaði sóknaraðili matsgerðar og lækkaði þennan hluta kröfugerðar sinnar niður í 4.798.350 krónur til samræmis við niðurstöðu matsgerðarinnar. Byggir hann á þeim kostnaði sem þar kemur fram við einstaka verkþætti. Í matsbeiðni var þess óskað að dómkvaddur yrði matsmaður til að skoða og meta framkvæmdir vegna húseignarinnar og lóðarinnar nr. [...] við [...] í [...] á árinu 2011. Meta skyldi eftirtalda verkþætti:

1.       Hvað má áætla að kostnaður vegna lóðarvinnu vegna palls við húseignina nr. [...] við [...] hefði verið, hefði þurft að kaupa alla þá vinnu sem framkvæmd var?

2.       Hvað má áætla að hefði verið raunhæfur kostnaður við byggingu trépalls við [...], vegna aðstoðarmanns smiðs, hefði þurft að kaupa þá vinnu?

3.       Hvað má áætla að kostnaður hefði verið við kaup og uppsetningu skýlis fyrir ruslatunnur við húseignina nr. [...] við [...], hefði þurft að greiða iðnaðarmönnum fyrir þá vinnu og annan kostnað vegna skýlisins?

4.       Hvað má áætla að kostað hefði að lagfæra hurðir í fasteigninni nr. [...] við [...], hefði þurft að greiða fyrir þá vinnu.

5.       Hvað má áætla að kostað hefði að mála húseignina nr. [...] við [...] að innan, hefði þurft að greiða fyrir þá vinnu.

Í matsgerðinni eru ofangreindir verkþættir nánar sundurliðaðir í einstaka verkliði og gerð grein fyrir kostnaði vegna hvers liðar um sig. Samantekið telur matsmaður að kostnaður vegna allra ofangreindra verkþátta nemi 4.798.350 krónum. Þar af nemi kostnaður vegna efnis og tækja 3.501.000 krónum og vegna vinnu 1.297.350 krónum. Eru þessar fjárhæðir gefnar upp að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Af matsgerð verður ráðið að matsmaður telji kostnað vegna fyrsta verkþáttar nema samtals 2.893.000 krónum, þar af er kostnaður vegna vinnu 60.000 krónur. Hvað varðar annan verkþáttinn nemur heildarkostnaður 556.350 krónum og er þar eingöngu um kostnað vegna vinnu að ræða. Hvað varðar þriðja verkþáttinn nemur heildarkostnaður vegna hans 202.000 krónum en þar af var kostnaður vegna vinnu 42.000 krónur. Heildarkostnaður vegna fjórða verkþáttar nemur 426.000 krónum. Þar af er kostnaður vegna efnis og tækja 271.000 krónur en kostnaður vegna vinnu 155.000 krónur. Að lokum nemur heildarkostnaður vegna fimmta verkþáttar 721.000 krónum. Þar af er kostnaður vegna efnis og tækja 237.000 krónur en kostnaður vegna vinnu 484.000 krónur.

Metinn kostnaður í matsgerðinni fól í sér allan kostnað verktaka við að sinna viðkomandi verklið og innifelur virðisaukaskatt. Miðað var við að verkið væri unnið í einum áfanga og af faglærðum mönnum með aðstoðarmönnum. Tekið var tillit til umfangs verkliða og aðstæðna á verkstað. Metinn kostnaður er á verðlagi í samræmi við dagsetningu matsgerðar.

Samantekin niðurstaða matsmanns vegna einstakra verkþátta er eftirfarandi:

Verkþáttur

@ efni, tæki

@ vinna

Upphæð

1. Hvað má áætla að kostnaður vegna vinnu við lóðarvinnu vegna palls við húseignina nr. [...] við [...] hefði verið, hefði þurft að kaupa alla þá vinnu sem framkvæmd var?

 

 

 

Flytja smágröfu á staðinn og lyfta inn á lóð og aftur til burt. Miða er við að vél sé flutt tvisvar á staðinn.

288.000

 

288.000

Grafa upp lausan jarðveg í haug á lóð. Ekki liggur fyrir hvert magn af lausum jarðvegi var og er hér miðað við að það hafi verið 25 m3 sem er mismunur á því sem gefið er upp að flutt hafi verið burt af lausu efni, uppúrtekt, og fleygaðri klöpp sem áætluð er hér að neðan. Efnismagn svarar til um 28 cm moldarlags að jafnaði á lóð.

110.000

 

110.000

Fleyga upp klöpp með smágröfu með áföstum fleyg og setja í haug á lóð. Fleyga rás í klöpp fyrir lögnum að heitum potti. Ekki liggur fyrir hvert magn af fleygaðri klöpp var og er hér miðað við að það hafi verið 25 m3 sem svarar til um 0,4 m lags að meðaltali ofan af því svæði sem pallur er á.

1.375.000

 

1.375.000

Laus jarðvegur og fleyguð klöpp fjarlægð með vörubíl með krabba og fluttur á losunarstað við Bolöldu. Miðað er við að efnið hafi verið fjarlægt saman en ekki í sitt hvoru lagi.
Miðað er við að rúmmál moldarjarðvegs og torfs aukist um 27% við að því er mokað upp á bíl og klappar um 50% við að fleyga upp og moka á bíl. Samblandað getur rúmmál moldar og fleygaðrar klappar verið minna en ómögulegt er að segja um hver það var.

440.000

 

440.000

Jafna yfir klöpp með hraungrús frá Björgun  - Lambafellsnáma. Ekið með vörubíl og krabbað inn á lóð. Jafnað með smágröfu.
Miðað er við magn sem gefið var upp af matsbeiðanda þ.e. 6 vörubílsfarmar með grús, 7 m3 hver, samtals 42 m3.

380.000

 

380.000

Jafna undir grasflöt með aðkeyptri mold.
Miðað er við grjóthreinsaða mold. Ekið með vörubíl og krabbað inn á lóð.
Jafnað með smágröfu.
Miðað er við magn sem gefið var upp af matsbeiðanda þ.e. 2 vörubílsfarma með mold, 9 m3 hver, samtals 18 m3.

155.000

 

155.000

Fínjafna undir túnþökur, þjappa, bera húsdýraáburð undir. Tyrfa grasflöt með aðfluttu torfi sem lyft er inn á lóð með vörubíl með krana.

35.000

60.000

95.000

Verkstjórn, samskipti við vélamenn, bílstjóra og efnissala.

50.000

 

50.000


2. Hvað má áætla að hefði verið raunhæfur kostnaður við byggingu trépalls við [...], vegna aðstoðarmanns smiðs, hefði þurft að kaupa þá vinnu?

 

 

 

Bora göt á vegg og ganga frá ídráttarpípum frá heitum potti. Miðað er við fjórar ø75 pípur.

50.000

50.000

Pallur:
Grafa fyrir undirstöðum í malarfyllingu, steypa platta. Ganga frá stoðum og festa dregara á þær. Festa bita ofan á dregara. Klæða með rásuðum borðum.

Hér er einungis metinn kostnaður vegna vinnu aðstoðarmanns faglærðs smiðs við smíðina.

217.300

217.300

Þrep og bekkir:
Grind, klæðning, lamir.

Hér er einungis metinn kostnaður vegna vinnu aðstoðarmanns faglærðs smiðs við smíðina.

65.600

65.600

Stoðveggur á lóðarmörkum húsa nr. [...] og [...].
Miðað við að staurar séu í holum í jarðvegi og steyp að. Grind á milli staura og klæðning báðum megin.
Hér er einungis metinn kostnaður vegna vinnu aðstoðarmanns faglærðs smiðs við smíðina.

200.900

200.900

Klæða stoðvegg á lóðarmörkum við hús nr. [...] og [...]. Klætt var á skjólvegg sem fyrir var.
Hér er einungis metinn kostnaður vegna vinnu aðstoðarmanns faglærðs smiðs við smíðina.

22.550

22.550

3. Hvað má áætla að kostnaður hefði verið við kaup og uppsetningu skýlis fyrir ruslatunnur við húseignina nr. [...] við [...], hefði þurft að greiða iðnaðarmönnum fyrir þá vinnu og annan kostnað vegna skýlisins.

 

 

 

Útvega og taka á móti sorptunnuskýli og setja niður á lóð. - Bogaskýli án hurða.

111.000

12.000

123.000

Flutningur á sorptunnuskýli.

19.000

 

19.000

Sérsmíða hurðir pallaefni fyrir sorptunnuskýli. Stangalamir festar á kant skýlis. Renniloka á annarri hurðinni og garðklinka á hinni.

30.000

30.000

60.000

4. Hvað má áætla að kostað hefði að lagfæra hurðir í fasteigninni nr. [...] við [...], hefði þurft að greiða fyrir þá vinnu?

 

 

 

Taka átta innihurðir af lömum og flytja á verkstæði í Hafnarfirði.

10.000

15.000

25.000

Pússa og mála karma á staðnum.

12.000

30.000

42.000

Taka af lamir, húna og skrár, pússa hurðir og sprautulakka á verkstæði. Setja lamir aftur á hurðir. Setja nýjar skrár í hurðir. Flutningur.

160.000

50.000

210.000

Flytja hurðir aftur til baka, hengja á lamir og setja nýja húna á hurðir.

81.000

36.000

117.000

Pússa garðhurð og útihurð og mála á staðnum ásamt körmum. Miðað er við að hurðir og karmar séu málaðar að utan og að innan.

8.000

24.000

32.000

5. Hvað má áætla að kostað hefði að mála húseignina nr. [...] við [...] að innan, hefði þurft að greiða fyrir þá vinnu?

 

 

 

Blettaspartla og endurmála alla veggi í húsinu og loft á neðri hæð tvær umferðir.

160.000

390.000

550.000

Endurmála glugga að innanverðu tvær umferðir.

20.000

70.000

90.000

Skipta um gluggajárn; gluggakrækjur og stormjárn.

57.000

24.000

81.000

Samtals metinn kostnaður kr. m. vsk.

3.501.000

1.297.350

4.798.350

Samt. án vsk.

2.789.641

1.033.745

3.823.386

Vsk. af vinnu á verkstað

263.605

Sóknaraðili kveðst ekki hafa kvittanir fyrir greiðslu ofangreinds kostnaðar nema að óverulegu leyti og skýrist það af því, að hann hafi greitt fyrir stóran hluta vinnunnar með skiptivinnu, þ.e. hann hafi fengið iðnaðarmenn til að vinna fyrir sig, en greitt með því að vinna fyrir viðkomandi aðila í staðinn. Þá hafi hann fengið lánaðar stórtækar vinnuvélar sem þurft hafi við verkið á lóð, vegna vinnu sinnar fyrir Altak ehf. og Teknís ehf. Vegna starfa sinna á stórum vinnuvélum hafi hann haft kunnáttu og getu til að vinna á þessum stórtæku vélum sjálfur og ekki þurft að greiða öðrum sérstaklega fyrir það.

Eins og staðfest sé í tölvupósti D, þann [...] júní 2013, til sóknaraðila hafi það verið vilji C heitinnar að sóknaraðili fengi greiddan þann kostnað og þá vinnu sem hann setti í eignina, að henni látinni. En þar segir: „C óskaði eftir þeirri undantekningu frá því ferli sem lög gera ráð fyrir þannig að [...] rynni að fullu til A. Ástæður þessa voru tvær helstar: Þetta er það félag sem var notað sameiginlega til að halda utan um aflatekjur beggja og hitt, að með því að skilja [...] jeppabifreið sína eftir í félaginu, þá jafnar hún á móti þeirri vinnu og kostnaði sem A setti í eignina að [...], þá helst pallinn í garðinum.“ Framangreindur D kemur fram fyrir hönd varnaraðila, erfingja dánarbúsins.

Kröfu sína um að viðurkennt verði að hann eigi 50% í fyrirtækinu [...] byggir sóknaraðili á því að hann og hin látna hafi stofnað félagið saman og hafi tekjur þeirra verið tekjur félagsins samkvæmt reikningum fyrir vinnu hennar og sóknaraðila. Af bókhaldi félagsins sé auðvelt að staðreyna þetta. Þá sé auðvelt að sjá af bókhaldinu að frá því að hin látna veiktist, í lok september 2012, og þar til hún lést hafi einu tekjur félagsins verið tekjur vegna vinnu sóknaraðila. Ástæður þess að félagið hafi verið skráð á nafn hinnar látnu séu þær að hún, sem var viðskiptafræðingur, hafi haft til þess kunnáttu umfram sóknaraðila en hann hafi haft litla þekkingu á samningsgerð og auk þess verið á vanskilaskrá. Þau hafi því ákveðið að C sæi um alla skjalagerð og alla praktíska þætti varðandi félagið og rekstur þess. Þau hafi bæði litið svo á að þetta hafi verið þeirra sameign. Þau hafi rekið bílana í gegnum félagið og ýmislegt annað. Sóknaraðili taldi sig ekki kunna til þessara verka og vildi mun frekar að félagið væri á nafni hinnar látnu. Sóknaraðili hafi margítrekað óskað eftir upplýsingum úr bókhaldi félagsins en án árangurs. Hann hafi einungis fengið bankayfirlit frá byrjun ársins 2013 og ársreikninga. Bókhald félagsins væri allt í höndum lögráðamanns eina erfingja dánarbúsins.

Við stofnun félagsins hafi sóknaraðili og hin látna ákveðið að flytja bifreiðir sínar inn í félagið. Hin látna hafi átt [...] bifreið en sóknaraðili hafi átt [...] bifreið. Þá bifreið hafði sóknaraðili keypt á árinu 1998 á lánssamningi. Þegar lánið á bifreiðinni hafi verið greitt upp hafi sóknaraðili skráð bifreiðina á mág sinn, N. Síðar hafi hann skráð bifreiðina á systur sína og konu N, F. Sóknaraðili hafi þó allt frá árinu 2002 ávallt verið skráður umráðamaður bifreiðarinnar. Á árinu 2010 hafi sóknaraðili fært bifreiðina af nafni systur sinnar yfir á nafn hinnar látnu vegna þess að systir hans hefði óskað eftir því að það yrði gert vegna tryggingamála. Hin látna hafi svo skráð bifreiðina á nafn einkahlutafélagsins á árinu 2012. Allt þetta hafi verið gert í hagræðingarskyni fyrir sóknaraðila, en hið rétta var, að bifreiðin var í raun í eigu hans.

Hvað varðar kröfur varnaraðila kveðst sóknaraðili mótmæla þeim öllum. Í bréfi skiptastjóra til dómsins komi fram hverjar kröfur varnaraðila séu en hvorki er þar greint frá fjárhæðum né því á hverju kröfur varnaraðila byggjast. Sóknaraðili geti því ekki mótmælt þeim kröfum með öðru móti en því að mótmæla þeim að öllu leyti.

Sóknaraðili mótmælir kröfu um húsaleigu og greiðslu kostnaðar. Krafan um greiðslu húsaleigu sé með öllu órökstudd og vanreifuð og því beri að vísa henni frá dómi af sjálfsdáðum (ex officio). Engin gögn liggi fyrir um það af hverju farið sé fram á 250.000 krónur á mánuði í húsaleigu. Gögn frá Þjóðskrá sem byggt sé á útskýri þetta ekki frekar. Sömu sjónarmið eigi við um kröfu um greiðslu kostnaðar vegna reksturs fasteignarinnar. Skjöl frá Vodafone og Orkuveitunni sem varnaraðili leggi fram styðji ekki þessa kröfu á nokkurn hátt. Engin leið sé að átta sig á því á hverju þessi krafa byggist. Þá sé algerlega óútskýrt af hverju sóknaraðili eigi að greiða fasteignagjöld af eigninni.

Krafa um afhendingu hluta er vanreifuð. Hlutina þurfi að tilgreina hvern og einn nákvæmlega og sóknaraðili þurfi að sýna fram á eignarrétt sinn að þeim hverjum og einum til þess að geta átt rétt á að fá þá afhenta. Hvorugt er gert og telur sóknaraðili því að vísa beri kröfunni sjálfkrafa (ex officio) frá dómi. Sóknaraðila sé með öllu óljóst í flestum tilvikum um hvaða hluti sé að ræða. Hann hafi ekki mótmælt því að hafa einhverja þessara hluta í fórum sínum en þá hluti sem hann hafi eigi hann.

Um lagarök vísar sóknaraðili til meginreglna kröfuréttarins. Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu sóknaraðila um greiðslu 4.798.350 króna vegna framlags við lagfæringar og framkvæmdir við húseignina að [...]. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á kröfu sína þar að lútandi. Hann hafi ekki lagt fram neina reikninga eða kvittanir fyrir útlögðum kostnaði. Telur varnaraðili ljóst að það sem greitt hafi verið fyrir framkvæmdirnar hafi verið greitt af C heitinni en ekki sóknaraðila. Sóknaraðilli hafi ekki sýnt fram á kröfu sína og eigi ekkert tilkall til greiðslu úr hendi varnaraðila.

Þá framvísi sóknaraðili engum gögnum vegna svokallaðrar „skiptivinnu“ heldur fullyrði einungis að hún hafi átt sér stað. Hann geti ekki byggt kröfu sína gagnvart varnaraðila á slíkum fullyrðingum eða yfirlýsingum samverkamanna sinna. Ekki verði leitað atbeina dómstóla til að koma fram eða framfylgja slíkum kröfum.

Sóknaraðili hafi lagt fram matsgerð kröfu sinni til stuðnings. Kveðst varnaraðili ekki mótmæla tölulegum niðurstöðum matsmannsins eða þeim útreikniaðferðum sem hann beiti við mat sitt, heldur telur varnaraðili matsmanninn ekki hafa haft fullnægjandi upplýsingar um hvað var gert við húseignina. Matið sé því eingöngu byggt á staðhæfingum sóknaraðila um hvað hafi verið gert á lóðinni og í húsinu. Varnaraðila hafi verið meinað af hálfu sóknaraðila að hafa fulltrúa sinn á matsfundum, fulltrúa sem hafi þekkt vel til þeirrar vinnu sem fram fór við húseignina og hafi því getað veitt matsmanni mikilvægar upplýsingar. Sérstaklega dregur varnaraðili í efa lýsingar er lúta að undirvinnu á klöpp og flutning efnis úr og í lóð sem ekki séu trúverðugar. Tilefni matsins hafi verið að láta óvilhallan og sérfróðan aðila staðreyna hver kostnaðurinn hefði verið fyrir C af þessum framkvæmdum sem sóknaraðili lýsti hefði hún þurft að greiða fyrir þær á þeim tíma sem þær fóru fram. Matsgerðin segi á hinn bóginn ekkert um hver gerði hvað í framkvæmdunum né hvað hafi raunverulega verið unnið og hver hafi þá greitt fyrir vinnuna. Að mati varnaraðila sé augljóst að C heitin hafi greitt fyrir allar framkvæmdirnar. Af þessum ástæðum telur varnaraðili matsgerðina að engu hafandi. Í greinargerð sóknaraðila sé þessi krafa hans í tíu liðum en sóknaraðili hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings einum einasta lið. Hann hafi ekki framvísað neinum reikningum vegna framkvæmdanna, ekki lagt fram kvittanir fyrir útlögðum kostnaði s.s. málningu eða kaupum á ruslatunnuskýli, né gögnum um leigu tækja, o.s.frv. Þá sé fullyrðingum sóknaraðila um greiðslu með skiptivinnu mótmælt með öllu.

Þá byggir varnaraðili einnig sýknukröfu sína á því að þær endurbætur sem sóknaraðili hafi komið að við [...] hafi verið framlag hans til C til að mæta því að hann lagði ekkert af hendi vegna veru sinnar í húsnæðinu og vegna reksturs eignarinnar. C hafi keypt fasteignina í nóvember 2010. Hún hafi ein greitt af áhvílandi láni og allan rekstrarkostnað vegna fasteignarinnar frá því að hún flutti inn og fram á dánardag. Sóknaraðili hafi sett íbúð sína í [...] í leigu þegar hann flutti í [...] og fengið a.m.k. 130.000 krónur á mánuði í leigutekjur vegna hennar. Á sama tíma hafi hann búið í [...] frá mars 2011 fram í byrjun október 2013 eða í 30 mánuði án þess að leggja fram nokkra fjármuni vegna veru sinnar í húsnæðinu eða til reksturs fasteignarinnar.

Með vísan til alls ofangreinds telur varnaraðili að sýkna eigi hann af kröfu sóknaraðila um greiðslu vegna framlags við lagfæringar á húseigninni.

Verði ekki fallist á að sýkna varnaraðila af kröfunni krefst hann þess til vara að krafan verði stórlega lækkuð. Sóknarnaraðili eigi ekki rétt á að fá greiddan virðisaukaskatt vegna framlags síns við framkvæmdirnar eins og sóknaraðili geri kröfu um á grundvelli matsgerðarinnar. Ljóst sé að það eigi að lækka kröfuna sem nemi virðisaukaskatti, enda hafi ekki átt sér stað nein innheimta eða skil á virðisaukaskatti af hálfu sóknaraðila. Þá byggir varnaraðili kröfu sína um lækkun á því að krafa sóknaraðila sé allt of há. Ekki sé deilt um að hann hafi komið að framkvæmdum við [...] en það gerðu fleiri en hann. Hann hafi aldrei greitt neitt út vegna framkvæmdanna. Þá séu ekki fyrir hendi fullnægjandi gögn um útreikning kröfunnar eða forsendur þess útreiknings. Vísar varnaraðili til stuðnings varakröfu sinni til þess sem rakið er hér að ofan um aðalkröfu hans, m.a. hvað varðar skiptivinnu. Sóknaraðili byggi kröfu sína á kostnaðartölum matsgerðarinnar. Þar komi m.a. fram að kostnaður við að keyra jarðveg og klöpp frá lóðinni nemi 440.000 krónum. Þá hafi það kostað 380.000 krónur. að keyra með hraungrús að lóðinni. Að þessari vinnu hafi komið O vörubílstjóri en hann hafi fengið greiddar vegna þessa 186.138 krónur þann 27. júní 2011 og 112.857 krónur þann 1. júlí 2011. Greiðslurnar hafi verið inntar af hendi af reikningi C og komi skýrlega fram á yfirliti yfir reikning hennar.

Þá komi einnig fram á yfirlitunum innlegg á reikning C að fjárhæð 2.472.200 krónur 3. júní 2011. Kveður varnaraðili þá fjárhæð vera til komna vegna töku skuldabréfaláns sem C hafi tekið vegna framkvæmdanna. Í júní og júlí séu verulegar fjárhæðir millifærðar á þá aðila sem komu að framkvæmdunum auk þess sem háar peningafjárhæðir hafi verið teknar út sem greiddar hafi verið beint þeim sem unnu að þeim.

Þá liggi fyrir að auk smiðsins K komu sóknaraðili, faðir C og bróðir hennar að undirvinnunni og pallasmíðinni sjálfri. Samkvæmt framburði smiðsins K hafi sóknaraðili í mesta lagi skilað 20% af vinnu aðstoðarmanns. Krafa sóknaraðila geri á hinn bóginn ráð fyrir því að hann hafi unnið þetta einn. Þá liggi fyrir að þær umfangsmiklu aðgerðir sem gerðar voru á lóðinni vegna framkvæmdanna voru ekki í nokkru samræmi við byggingu pallsins og ónauðsynlegar aðgerðir að mestu. Sóknaraðili geti ekki krafið um greiðslu vegna ónauðsynlega aðgerða sem hann hafi farið í á lóðinni.

Krafa vegna sorptunnuskýlis sé allt of há. Það hafi fengist gefins eða verið keypt með miklum afslætti enda hafi það verið gallað. Þá hafi sóknaraðili ekki framvísað neinum reikningum þar að lútandi og séu meiri líkur en minni til þess að C hafi sjálf greitt fyrir það. Þá liggi fyrir að smiðurinn hafi smíðað hurðirnar á skýlið úr afgangspallaefni sem C keypti og bæði vinna og efni við það var greitt af henni.

Krafa vegna lagfæringa á hurðum innanhúss sé alltof há. Engir reikningar liggi fyrir vegna þessa kostnaðar og vísar varnaraðili til fyrri umfjöllunar um skiptivinnu fram hjá skatti. Þá sé ósannað að sóknaraðili hafi einn komið að þessari vinnu.

Krafa vegna málningar fasteignarinnar sé alltof há. Engum reikningum hafi verið framvísað vegna kostnaðar af þeirri vinnu. Í matinu komi fram að allir veggir hafi verið málaðir en það sé ekki rétt. Þá sé ósannað að sóknaraðili hafi einn komið að þessari vinnu. Líklegt sé að C hafi sjálf komið að henni.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að hann eigi 50% eignarhlut í [...] verði hafnað. Er kröfunni mótmælt sem rangri, ósannaðri og órökstuddri. Að mati varnaraðila er grundvöllur kröfunnar óljós og krafan svo vanreifuð að það hljóti að koma til skoðunar af hálfu dómara að vísa henni frá af sjálfsdáðum (ex officio).Varnaraðili byggir á því að fyrirliggjandi gögn og allar opinberar skráningar vegna félagsins staðfesti að C hafi stofnað, átt og rekið fyrirtækið. C hafi lagt fram nauðsynlegt hlutafé við stofnun félagsins og hún hafi verið skráður stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess. Hún bar ein ábyrgð á félaginu að öllu leyti. Varamaður í stjórn hafi verið J. Aðalstarfsemi félagsins hafi verið rekstur tölvuþjónustu. Félagið hafi C stofnað í maí 2011 til að halda utan um vinnu hennar erlendis af skattalegum ástæðum. Félagið gaf frá upphafi út reikninga vegna vinnu hennar. Nokkrum mánuðum seinna, líklega í september 2011, fór það að gefa út reikninga vegna verktakavinnu sóknaraðila. Sóknaraðili kom þó ekki með neinum hætti að stofnun félagsins og getur ekki gert nokkurt tilkall til þess.

Varnaraðili bendir á að útgáfa reikninga af hálfu fyrirtækisins, bæði fyrir og eftir að C veiktist, segi ekkert um eignarhald þess. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi fengið afhent ýmis gögn vegna fyrirtækisins frá andláti C, s.s. ársreikning fyrirtækisins og bankayfirlit. Hafi þau gögn verið afhent vegna viðræðna á milli sóknaraðila og dánarbúsins um mögulegar sættir í málinu. Mestur hluti frumbókhaldsgagna fyrirtækisins og hinnar látnu sé í vörslu sóknaraðila eða glataður. Varnaraðili hafi sent sóknaraðila ítrekaðar áskoranir um að skila bókhaldsgögnunum sem urðu innlyksa í [...] þegar skipt var um læsingar og var hvergi að finna þegar húsnæðinu var skilað. Þá hafi skiptastjóri skorað á sóknaraðila að skila bókhaldsgögnum en án árangurs

Varnaraðili vísi á bug öllum útskýringum sóknaraðila hvað varðar ástæður þess að félagið hafi verið skráð á C eina en ekki þau bæði enda séu þær ótrúverðugar. Bendir varnaraðili á í þessum sambandi að sóknaraðili sé ekki ókunnugur fyrirtækjarekstri en hann hafi rekið verktakastarfsemi í eigin einkahlutafélagi um árabil og vinni í dag sem verktaki. Það að bera fyrir sig vankunnáttu á þessu sviði sé ekki trúverðugt.

Þá sé því einnig mótmælt að sóknaraðili hafi lagt fram [...] bifreiðina, [...], sem sitt framlag við stofnun fyrirtækisins. [...] bifreið C hafi aftur á móti strax í upphafi verið lögð inn í fyrirtækið. Sóknaraðili hafi ekki verið skráður eigandi bifreiðarinnar, sem hafi verið nýskráð árið 1998, nema í nokkra mánuði á árinu 2008. Þá hafi félagið [...] ekki eignast umrædda bifreið fyrr en löngu eftir stofnun þess eða 1. júní 2012 og þá hafi bifreiðinni verið afsalað til fyrirtækisins frá C sjálfri. Allur rekstrarkostnaður vegna bifreiðarinnar hafi verið greiddur af félaginu sem skráðum eiganda. Þá komi fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2012 að félagið hafi keypt bifreiðina og greitt fyrir hana 500.000 krónur. Bifreiðin hafi því ekki verið lögð inn í félagið sem hlutafé sóknaraðila. Samkvæmt ársreikningum félagins hafi hlutafé þess verið óbreytt frá stofnun og engin breyting orðið á eignarhaldi þess eða stjórn frá upphafi þar til gerð hafi verið breyting á því eftir andlát C. Þá liggi ekkert fyrir um að sóknaraðili hafi með öðrum hætti lagt félaginu til fjármuni sem ætlaðir hafi verið til að kaupa hlutfé í því. Útgáfa reikninga af hálfu félagsins vegna vinnu sóknaraðila segi ekkert um eignarhald þess.

Telur varnaraðili með vísan til alls framangreinds að hafna eigi kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að hann eigi 50% í [...].

Kröfu sína um að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila 625.000 krónur í leiguskuld byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi búið í fasteign í eigu dánarbúsins, [...], frá miðjum júlí 2013 fram í byrjun október s.á. og beri honum því að greiða dánarbúinu leigu vegna afnota sinna af húsnæðinu þennan tíma. Sé því gerð krafa um leigu í tvo og hálfan mánuð. Honum hafi strax verið gert ljóst að ef ekki næðist samkomulag milli aðila sem byggði á samtali þeirra 17. júní 2013 bæri honum að greiða leigu vegna afnota sinna af húsnæðinu frá 17. júlí sama ár og hafi dánarbúið áskilið sér allan rétt í þessu sambandi. Miðað sé við að mánaðarleiga húsnæðisins nemi 250.000 krónum og byggt á upplýsingum frá þjóðskrá um meðalleiguverð íbúðarhúsnæðis af tiltekinni stærð og á tilteknu svæði.

Kröfu sína um að sóknaraðili greiði varnaraðila 274.471 krónu vegna rekstrarkostnaðar fasteignarinnar byggir varnaraðili á því að á þeim tíma er sóknaraðili bjó að [...], frá miðjum júlí 2013 fram í byrjun október s.á. hafi fallið til ýmis rekstrarkostnaður vegna notkunar sóknaraðila af fasteigninni. Dánarbúið hafi greitt þennan kostnað en krefjist nú endurgreiðslu hans úr hendi sóknaraðila. Kveðst varnaraðili styðja kröfu sína við framlögð gögn.

Fjárhæð kröfunnar sundurliðist með eftirfarandi hætti:

  1. Orkuveita Reykjavíkur:hiti, rafmagn og vatn/fráveita            209.087 krónur
  2. Vodafone: áskrift fyrir heimasíma og nettengingu                      19.388 krónur
  3. Reykjavíkurborg: fasteignagjöld (kr. 157.700/360x105d)         45.996 krónur

samtals 274.471 krónur

Kröfu sína um að sóknaraðila verði gert að afhenda varnaraðila þá hluti sem taldir sé upp á framlögðu dómskjali nr. 83 byggir varnaraðili á því að um sé að ræða hluti úr innbúi í eigu dánarbúsins og hluti í eigu [...] sem sé í eigu dánarbúsins. Kveðst varnaraðili byggja rétt sinn til hlutanna á framlögðum gögnum í málinu, m.a. innbúslista með athugasemdum aðila frá því í maí 2014 og kvittunum fyrir greiðslu C á sófum, þvottavél, þurrkara, uppþvottavél, heimabíói og markísu. Þá séu fyrir hendi gögn vegna úttekta vegna kaupa á hlutum úr Byko og Ikea. Um sé að ræða hluti sem sóknaraðili hafi tekið með sér þegar hann flutti úr [...] í byrjun október 2013 og hafi ekki skilað til baka þrátt fyrir áskorun um það. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn til sönnunar um eignarhald sitt á einum einasta hlut af innbúslistanum, s.s. kvittanir eða greiðsluyfirlit.

Varnaraðili kveðst einnig benda á að sóknaraðili hafi ekki lagt neina peninga til heimilisins á stuttum sambúðartíma hans og C, hvorki til daglegs rekstrar, s.s. hita og rafmagns, né nokkurs sem keypt hafi verið til heimilisins. Þegar C hafi flust til Íslands frá [...] í byrjun árs 2011 hafi hún komið með 20 feta gám fullan af húsmunum og hafi þeir verið meginuppistaðan af innbúinu í [...]. C hafi verið mjög passasöm í fjármálum og alltaf verið með allt sitt á hreinu. Hún hafi verið fjárhagslega mjög vel stæð þegar hún tók saman við sóknaraðila og hafði hin síðari ár verið með góðar tekjur. Þrátt fyrir að hafa ekki getað sinnt verkefnum á veikindatímabili sínu hafi hún fengið ríflega 600.000 krónur á mánuði úr sjúkdómatryggingu sinni að frádregnum sköttum. Sóknaraðili hafi á hinn bóginn staðið veikt fjárhagslega þegar þau tóku saman. Þá hafi hann verið með mun lægri tekjur og fjármálaferill hans undanfarin ár ekki traustvekjandi. Virðast öll hans viðskipti og starfsemi hafa verið meira og minna nótulaus og miða við að gefa ekki tekjur upp til skatts, sbr. t.d. leigu hans á íbúðarhúsnæði sínu. C hafi verið vel kunnugt um fjármál sóknaraðila og því hafi hún lagt mikla áherslu á að fjárhagur þeirra væri aðskilinn. Sóknaraðili hafi verið mjög ósáttur við þessa áherslu hennar og ekkert legið á þeirri skoðun sinn. Þá hafi hann gengið fast eftir því við C að giftast sér meðan hún lá á líknaradeildinni en það hafi hún ekki viljað, enda vildi hún alls ekki rýra hagsmuni varnaraðila með nokkrum hætti.

Sóknaraðili haldi því fram í málinu að hann hafi komið með fullt innbú með sér þegar hann hafi flutt í [...] og að C hafi ákveðið að gefa það og selja. Varnaraðili mótmælir þessu og telur það mjög ótrúverðugt af hálfu sóknaraðila að halda því fram að C hafi ráðskast með hann og eigur hans með þessum hætti. Hafi hann losað sig við sitt persónulega innbú þegar hann flutti inn í [...] hafi það verið á hans ábyrgð og hann verði að taka afleiðingum af því en ekki dánarbúið. Er því mótmælt með öllu að það skapi sóknaraðila einhvern rétt til innbús í eigu dánarbúsins þótt hann hafi losað sig við sitt eigið innbú þegar hann flutt inn í [...].

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, laga um skráningu fyrirtækja nr. 17/2003, lögræðislaga nr. 71/1997 og húsaleigulaga nr. 36/1994. Jafnframt er vísað til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, sifjaréttar og eignaréttar. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður varnaraðili við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi sóknaraðila.

IV

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ágreiningi í tengslum við opinber skipti á dánarbúi C sem lést [...] júní 2013. Sóknaraðili bjó með C heitinni að [...] í [...], ásamt syni C, frá mars 2011 þar til hún féll frá. Sóknaraðili og C munu ekki hafa verið í skráðri sambúð og þau munu hafa haft aðskilinn fjárhag. Fasteignin að [...] var þinglýst eign C. Þá mun sóknaraðili ekki hafa átt þar lögheimili. Varnaraðili er sonur C heitinnar en fyrir hans hönd kemur fram fyrir dóminum og gætir hagsmuna drengsins, D, sem skipaður var fjárhaldsmaður hans 11. júlí 2013 af Sýslumanninum í Reykjavík.

Í málinu liggur fyrir töluverður fjöldi gagna. Þar á meðal eru tölvupóstssamskipti ýmist milli aðila sjálfra eða aðila þeim tengdum eða lögmanna þeirra varðandi málefni dánarbúsins, viðskilnað sóknaraðila við fasteignina að [...], leigugreiðslur og skiptingu innbús og kröfur sóknaraðila gagnvart búinu. Gerð er að nokkru leyti grein fyrir samskiptum þessum í málavaxtalýsingu en ljóst er að aðila greinir á um ýmislegt er varðar atvik málsins og þá atburðarás sem fór í gang í kjölfar andláts C. Þá er fram komið í málinu að lögmenn aðila hafa ítrekað freistað þess að ná sáttum auk þess sem dómari ræddi möguleika á sáttum við lögmenn aðila við fyrirtökur málsins og kannaði einnig sættir með aðilum við aðalmeðferð þess eftir að skýrslutökur höfðu farið fram.

Krafa sóknaraðila í málinu er í fyrsta lagi fjárkrafa vegna vinnu hans við endurbætur og lagfæringar á húsinu að [...] í [...], einkum vinnu hans vegna undirbúningsvinnu vegna palls sem reistur var við húsið sumarið 2011. Sóknaraðili aflaði matsgerðar dómkvadds matsmanns undir rekstri málsins og byggir þessa kröfu sína á niðurstöðum hennar. Varnaraðili mótmælir ekki aðferðum matsmannsins við matið eða tölulegum útreikningi hans. Á hinn bóginn hefur varnaraðili dregið sönnunargildi matsgerðarinnar í efa þar sem hann telur matsmanninn eingöngu hafa haft einhliða upplýsingar frá sóknaraðila um verkþætti og framkvæmdir við lóðina. Fjölmargir aðrir hafi komið að þessari vinnu, m.a. faðir C og bróðir auk smiðs á vegum C. Í matsgerðinni sé eingöngu metið hvað framkvæmdirnar hefðu kostað C hefði hún þurft að greiða verktökum fyrir þá vinnu. Matsgerðin segi ekkert til um hver þáttur sóknaraðila var við framkvæmdir við fasteignina en eins og krafa hans sé sett fram á grundvelli matsgerðarinnar líti út fyrir að vinnan hafi eingöngu verið unnin af honum.

Fram er komið í málinu að föður C, sem þekkti að nokkru til framkvæmda við lóðina og til þeirra lagfæringa sem fram höfðu farið innanhúss og utan, var meinað af hálfu sóknaraðila að sitja matsfundi. Aðspurður fyrir dóminum kvað matsmaður það oft koma fyrir að matsfundi sætu aðilar sem veitt gætu upplýsingar um það verk sem verið væri að meta, án athugasemda af hálfu aðila að matinu. Dómurinn telur enga ástæðu til að draga í efa þær útreikniaðferðir sem matsmaðurinn beitir og þær tölulegu niðurstöður sem fram koma í matsgerðinni á grundvelli þeirra. Á hinn bóginn verður að telja ljóst af framansögðu að matsmaðurinn hafði eingöngu einhliða upplýsingar frá sóknaraðila um framkvæmdirnar en fram er komið í málinu að auk sóknaraðila komu fleiri að umræddum framkvæmdum við lóðina. Með hliðsjón af ofansögðu telur dómurinn að ekki sé unnt að leggja matsgerðina til grundvallar kröfu sóknaraðila um endurgjald vegna vinnu hans við framkvæmdir á lóðinni að [...] og vegna umkrafins kostnaðar hans af þeim framkvæmdum. Það sama má segja hvað varðar þann hluta kröfu hans er lýtur að viðhaldi og lagfæringum á eigninni innanhúss og utan og fjallað er um í matsgerðinni. Verður því ekki byggt á niðurstöðu matsgerðarinnar við úrlausn um þessa kröfu sóknaraðila.

Ekki er um það deilt í málinu að sóknaraðili lagði fram vinnu við framkvæmdir á lóðinni og viðhald á fasteigninni. Málatilbúnað sóknaraðila verður að skilja svo að hann telji sanngjarnt að hann eigi rétt á endurgjaldi úr hendi varnaraðila vegna þessarar vinnu. Varnaraðili hefur talið að líta verði svo á að vinna sóknaraðila og kostnaður hafi verið eðlilegt framlag hans til C enda hafi hann búið í húsinu án þess að leggja þar nokkuð til. Ekki er unnt að líta svo að svo hafi um samist með sóknaraðila og C að hann fengi greitt fyrir framlag sitt hvað þetta varðar. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki lagt fram viðhlítandi gögn í málinu sem sýna fram á hver kostnaður hans var af umræddum verkum hvorki hvað varðar vinnuframlag né útlagðan kostnað. Er ekki unnt að byggja á lista sem hann hefur lagt fram um greiðslur til ýmissa fyrirtækja án þess að hægt sé að staðreyna með nokkrum hætti að þessar greiðslur séu til komnar vegna framkvæmda við [...]. Þá þykja yfirlýsingar um lán á tækjum ekki leggja nægilega skýran grunn að kröfu hans. Þá liggur ekki nægilega ljóst fyrir hvert vinnuframlag hans var. Verða yfirlýsingar nágranna ekki taldar varpa skýru ljósi á þetta. Er því ekki að finna gögn í málinu sem varpað geta ljósi á kröfu hans. Verður sóknaraðili að bera hallann af slakri sönnunarstöðu hvað þetta varðar og að ekki sé unnt með framlögðum gögnum að staðreyna kröfu hans. Er það því niðurstaða dómsins að ósannað sé hvert framlag sóknaraðila var við umræddar framkvæmdir og hvaða kostnað hann bar af framkvæmdunum og verður kröfu hans því hafnað. Þá er engan veginn hægt að líta til „skiptivinnu“, sem sóknaraðili kveðst hafa innt af hendi, og meta framlag hans eftir því auk þess sem engar sönnur hafa verið færðar á slíkt í málinu.

Sóknaraðili hefur í málinu einnig krafist viðurkenningar á því að hann eigi 50% í félaginu [...]. Byggir hann kröfu sína á því að ávallt hafi staðið til að hann og C ættu félagið að jöfnu enda hafi félagið verið stofnað til að halda utan um tekjur þeirra beggja. Hann hafi á hinn bóginn ekki haft mikla þekkingu á samningsgerð og ýmsu er laut að rekstri félags og því hafi þau ákveðið að C yrði ein skráð fyrir félaginu. Gögn málsins styðja ekki þessa kröfu sóknaraðila. Ástæður þær er hann gaf fyrir dóminum fyrir því að ákveðið hefði verið að C yrði eingöngu skráð fyrir félaginu fá ekki stoð í gögnum málsins, né teljast þær trúverðugar. Ljóst er að sóknaraðili hafði um árabil rekið verktakastarfsemi er félagið var stofnað og getur því ekki borið fyrir sig vankunnáttu á því sviði. Þá fá þau sjónarmið varnaraðila að hann hafi átt að eiga helmingshlut í félaginu, en skráningu þess hafi verið háttað með öðrum hætti, ekki stoð í framburði varamanns í stjórn þess, J, fyrir dóminum sem kannaðist ekki við að nokkuð slíkt hefði verið rætt við stofnun félagsins. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að C hafi lagt út allt hlutafé félagsins og í samræmi við það verið skráð fyrir því öllu. Hefur sóknaraðili ekki leitt neinar líkur að því að það hafi staðið til af þeirra hálfu beggja að hann ætti helming í félaginu, hvorki við stofnun þess né síðar. Verður að telja ljóst að sóknaraðili kom ekki að stofnun félagins og lagði ekki fram stofnfé í upphafi né keypti hann sig inn í félagið síðar. Þá er engan veginn hægt að líta svo á að þótt félagið hafi gefið út reikninga vegna verktakavinnu sóknaraðila jafngildi það hlutdeild í félaginu. Er þessari kröfu sóknaraðila með hliðsjón af öllu ofangreindu því hafnað.

Varnaraðili hefur í málinu krafið sóknaraðila um greiðslu leigu frá [...] júlí til 1. október 2013 en óumdeilt er í málinu að sóknaraðili flutti út úr fasteigninni að [...] á þeim tíma. Byggir varnaraðili kröfu sína á því að svo hafi um samist með aðilum að sóknaraðili fengi að vera leigulaust í eigninni í einn mánuð en eftir það væri eðlilegt og sanngjarnt að hann greiddi fyrir afnot sín af fasteigninni. Dómurinn telur ósannað að svo hafi um samist með aðilum að sóknaraðili greiddi leigu fyrir afnot sín af eigninni. Fyrir liggur að sóknaraðili leigði út íbúð sína í [...]. Samningurinn var ótímabundinn og var honum sagt upp bréflega 28. júní 2013. Skyldi leigutíma ljúka 31. desember 2013. Þá verður að líta til þess að sóknaraðili hafði átt heimili að [...] frá því í mars 2011. Dómurinn telur að þegar horft er heildstætt á atvik málsins og með vísan til ofangreinds verði að hafna kröfu varnaraðila um greiðslu leigu að fjárhæð 625.000 krónur. Þá verður einnig með vísan til sömu sjónarmiða að hafna kröfu varnaraðila um að sóknaraðila beri að greiða 274.471 krónu m.a. vegna afnota af fasteigninni vegna rafmagns, hita og vatnsnotkunar og áskrift fyrir heimasíma og nettengingu. Þá er örðugt að sjá á hvaða grunni honum beri að greiða fasteignagjöld fyrir áðurnefnt tímabil sem krafist er greiðslu leigu á. Er þessari kröfu varnaraðila því einnig hafnað.

Hvað varðar kröfu varnaraðila um afhendingu innbús eða hluta „sem listaðir eru upp í framlögðu skjali nr. 83“, eins og í kröfugerð hans segir, er til þess að líta að umræddur listi er mjög almennur. Munir eru þar taldir upp án nánari tilgreiningar, t.d. hvað varðar tegund hlutanna eða hvenær þeir voru keyptir. Varnaraðili hefur haldið því fram að aðilar málsins hafi „kastað á milli sín“ innbúslistum og sóknaraðila eigi að vera alveg ljóst hvaða hluti sé átt við. Varnaraðili hefur í sjálfu sér ekki mótmælt því að hafa einhverja þessa hluti undir höndum en það séu þá hlutir sem hann telji sig eiga. Dómurinn telur að ekki verði með góðu móti séð af listanum sjálfum um hvaða hluti er að ræða eða hvernig fullnusta ætti kröfu um afhendingu þeirra á grundvelli skjalsins yrði á hana fallist í heild sinni. Þá verður að telja algerlega óljóst hvort allir þessir hlutir eru í fórum varnaraðila. Af skjallegum gögnum málsins verður þó ráðið að C heitin hafi keypt sófa og heimilistæki sem finna má samsvörun við á áðurnefndum lista og liggja fyrir reikningar vegna þeirra kaupa. Þykir því unnt að fallast á að sóknaraðila verði gert að afhenda varnaraðila tvo rauða sófa, þvottavél, þurrkara og uppþvottavél. Þá er einnig í gögnum málsins að finna reikning vegna kaupa hennar á heimabíói og markísu og verður sóknaraðila því einnig gert að afhenda varnaraðila þá hluti. Auk þess sem niðurstaða þessi byggist á reikningum um kaup ofangreindra tækja og hluta er einnig litið til þess að meðal gagna málsins er mat P frá 12. febrúar 2014, m.a. á ofangreindum munum, fyrir utan markísu, sem gert var að beiðni skiptastjóra dánarbúsins. Kemur þar fram að þeir hafi verið staðsettir í íbúð sóknaraðila að [...] auk þess sem matinu fylgja myndir af ofangreindum hlutum. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á eignarrétt sinn á þessum hlutum og verður því fallist á að honum verði gert að afhenda varnaraðila þá eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Verður kröfu varnaraðila um afhendingu annarra hluta samkvæmt áðurnefndum lista að öðru leyti hafnað.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Við það mat er horft heildstætt á atvik málsins, málatilbúnað aðila og reksturs málsins fyrir dóminum og einnig litið til úrslita þess.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um greiðslu 4.798.350 króna vegna framlags hans við framkvæmdir og lagfæringar á húseigninni að [...] í [...].

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að hann eigi 50% hlut í félaginu [...].

Hafnað er kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að greiða honum 625.000 krónur með dráttarvöxtum eins og nánir greinir í kröfugerð varnaraðila.

Hafnað er kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að greiða honum 274.471 krónu með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í kröfugerð varnaraðila.

Sóknaraðili skal afhenda varnaraðila eftirtalda muni: Tvo rauða sófa, uppþvottavél, þvottavél, þurrkara, Philips heimabíó og markísu.

Málskostnaður fellur niður.