Hæstiréttur íslands

Mál nr. 324/2016

Gunnar Björn Þórhallsson (Garðar G. Gíslason hrl.)
gegn
Kaupþingi ehf. (Þröstur Ríkharðsson hrl. )

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sem G hafði lýst við slit K ehf. sem reist var á ætlaðri bótaskyldu starfsmanna K ehf. vegna kaupa G á hlutabréfum í K ehf. og lántöku vegna þeirra kaupa.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2016 þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði krafa sín að fjárhæð 3.699.722 krónur og henni skipað í réttindaröð við slit varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili að viðurkennd verði krafa sín að fjárhæð 419.185 krónur auk dráttarvaxta af skaðabótakröfunni frá 2. nóvember 2009 til greiðsludags og þeim skipað í réttindaröð samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Gunnar Björn Þórhallsson, greiði varnaraðila, Kaupþingi ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2016.

                Þetta mál, sem barst dóminum 10. maí 2011 með bréfi slitastjórnar Kaup­þings banka hf., var þingfest 29. júní það ár og tekið til úrskurðar 17. febrúar 2016.

                Sóknaraðili, Gunnar Björn Þórhallsson, kt. [...], Steinahlíð 7c, Akur­eyri, krefst þess að skaðabótakrafa hans að fjárhæð 6.953.950 kr., nr. 20100106-1536 á kröfuskrá varnaraðila, Kaupþings ehf., sem var lýst sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verði viðurkennd að fjárhæð 3.699.722 kr. en að öðru leyti eins og henni var lýst fyrir slitastjórn Kaupþings banka hf. með kröfu­lýs­ingu 30. desember 2009. Þar af er krafist greiðslu kostnaðar af kröfu­lýs­ingu 336.935 kr. ásamt virðis­auka­skatti af kostnaði 82.550 kr. Einnig er krafist greiðslu drátt­ar­vaxta af skaða­bóta­kröf­unni frá og með 2. nóvember 2009 til greiðslu­dags og alls kostnaðar sem fallið hefur til frá og með 2. nóvember 2009 til greiðsludags, sem lýst var sem eftir­stæðum kröfum, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl.

                Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili, Kaupþing ehf., 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

                Hann krefst þess jafnframt að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila máls­kostnað að meðtöldum virðis­auka­skatti.

Málavextir

                Atvik þessa máls varða kaup sóknaraðila á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. 7. nóv­em­ber 2007 og lán sem hann tók hjá bankanum til kaupanna. Sá banki var við­skipta­banki hans og mun hann ekki hafa leitað þjón­ustu annarra bankastofnana. Sókn­ar­aðili hafði þjón­ustu­fulltrúa í bankanum sem hann leitaði til með öll sín erindi.

                Fyrir dómi kom fram að sóknaraðili hefði tekið nokkur lán í erlendum myntum hjá bank­anum til þess að fjár­magna vöxt fyrirtækis síns svo og að hann bæri gott skyn á slík lán og skildi áhætt­una sem fylgdi því að ófyrirsjáanlegar sveiflur geta orðið á gengi.

                Sóknaraðili stofnaði vörslureikning hjá bankanum 27. febrúar 2007 og hafði mán­að­ar­áskrift að verðbréfasjóðum þannig að hann keypti hlut­deild­ar­skírteini í tveimur slíkum sjóðum í nokkra mánuði. Með vörslusamningnum veitti sókn­ar­aðili bank­anum fullt umboð til að kaupa og selja verð­bréf samkvæmt fyrir­mælum hans. Hann hafði hins vegar ekki neina reynslu af verðbréfaviðskiptum.

                Skráðar upplýsingar um samskipti sóknaraðila við þjónustufulltrúa sinn eru ekki margar. Sóknaraðili bar að þegar nokkrir fjármunir hefðu safnast inn á þessa reikn­inga hafi hann leitað til þjónustufulltrúans til þess að athuga hvort til væru leiðir sem gæfu betri ávöxtun en þessir sjóðir. Þá hafi honum verið bent á að bankinn væri reiðu­búinn að veita erlent lán, annað hvort til þess að kaupa vaxtamun eða kaupa hluta­bréf í bank­anum sjálfum. Keypti sóknaraðili hlutabréf í bankanum væri bankinn reiðu­búinn að lána honum margfeldi þeirrar fjárhæðar sem hann ætti sjálfur á reikn­ingi. Þegar þeir hafi rætt þessar leiðir hafi einnig komið fram að best sé að koma inn í við­skiptin þegar gengi krónunnar sé lágt.

                Í tölvupósti frá þjónustufulltrúanum 30. október 2007 segir:

                Þú átt rúmlega 1,5 mkr. í þessum sjóðum, 895.000 og 632.000. Ég sel þetta og kaupi í peningasjóði. Við getum svo lánað þér max 7,5 mkr. út á þetta. Við getum byrjað með minna og séð til með rest...;-)

                Skömmu eftir hádegi 7. nóvember 2007 sendi starfsmaður bankans sóknar­aðila svo­hljóð­andi tölvuskeyti:

                Krónan er að fara í 115, viltu fara í vaxtamun eða taka erlent til að kaupa í t.d. Kaup­þing.

                Sóknaraðili bar að annað hvort hefði hann hringt í þjónustufulltrúann eða þjón­ustu­fulltrúinn í hann hefði honum fundist sóknaraðili bregðast seint við tölvu­póst­inum. Sóknaraðili kvaðst hafa skilið samtal þeirra þannig að gengi hlutabréfa í bank­anum væri lágt skráð og því væri vænlegri kostur, til lengri tíma litið, að kaupa þau.

                Til að fjármagna hlutabréfakaupin tók sóknaraðili samdægurs mynt­körfu­lán hjá bankanum að fjárhæð 2.400.000 kr. Við lántökuna und­ir­ritaði sóknar­aðili sér­staka yfir­lýsingu vegna hennar, en með henni lýsti sóknaraðili yfir því að hann gerði sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem felst í lántöku í erlendum myntum vegna breyt­inga á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni og heim­ildar bank­ans til ein­hliða vaxtabreytinga. Sóknaraðili lýsti sérstaklega yfir því að hann skildi og væri reiðu­búinn að taka þá áhættu sem lántökunni fylgdi.

                Til tryggingar á skuldbindingum sínum við Kaupþing banka hf. seldi sóknar­aðili honum að handveði eign sína í peningamarkaðssjóði Kaupþings svo og hluta­bréfin í bank­anum.

                Síðar þennan dag sendi þjónustufulltrúinn starfsmanni í viðskiptaráðgjöf Kaup­þings í Reykja­vík tölvupóst og óskaði eftir því að keypt væru hluta­bréf í bank­anum fyrir sóknaraðila fyrir 2.300.000 kr. Hann lét vita af því að greiðslan kæmi innan skamms því verið væri að útbúa lán fyrir kaupunum.

                Starfsmaðurinn í Reykjavík svaraði örskömmu síðar:

                Keypti 2323hluti@980  ....  Þú lætur hann kvitta undir mifid ekki satt?

                Þjónustufulltrúinn skrifaði sóknaraðila síðar þennan dag:

                Kaupþing var keypt á genginu 980. Þetta er algjör snilld, vextirnir af peninga­sjóðnum geta borgað vextina af láninu og svo er bara að vona að Kaupþing fari upp...;-)

                Sóknaraðili minntist þess ekki að hafa svarað MiFID-spurningalistanum og þjón­ustu­fulltrúinn minntist þess ekki heldur en slíkt skjal hefur ekki verið lagt fram.

                Sóknaraðili skrifaði þjónustufulltrúanum tölvupóst 1. febrúar 2008:

                Var að leita eftir því hvað þetta fína fjárfestingarlán :o) er að kosta mig og þá sé ég að þarna eru skráð vanskil? er það eins og það á að vera?

                Skömmu síðar svarar þjónustufulltrúinn:

                Ég kippi þessu í liðinn...þetta var askoti fínt fjárfestingarlán ;-)

                Held samt að þetta fari nú að síga upp, Kaupþing stendur mjög vel eftir að hafa sleppt því að kaupa þennan hollenska banka.

                Sóknaraðili kvaðst hvorki fyrr né síðar hafa keypt önnur hlutabréf og ekki hafa þekk­ingu á þeim umfram þessa reynslu.

                Fjármálaeftirlitið ákvað 6. október 2008 að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga, sem tiltekin félög í NASDAQ OMX Iceland hf. gáfu út, þar á meðal Kaupþings banka hf. Stjórn bankans sagði af sér 9. október 2008 og með vísan til ákvæða laga nr. 125/2008 skipaði Fjármálaeftirlitið bankanum skila­nefnd sem tók strax við öllum heimildum stjórnarinnar.

                Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 skv. heimild í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009. Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjald­þrotaskipti, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, þar á meðal um með­ferð krafna og meðferð ágreiningsmála fyrir dómstólum.

                Varnaraðili birti í fyrsta sinn innköllun í Lögbirtingablaðinu 30. júní 2009. Í inn­köll­un­inni var skorað á alla þá, sem töldu til hvers kyns skulda eða annarra réttinda á hendur Kaupþingi eða eigna í umráðum bankans, að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn bankans innan sex mánaða frá birtingu innköllunarinnar. Við birtingu inn­köllunarinnar í Lögbirtingablaðinu hófst sex mánaða kröfulýsingarfrestur sem rann út á miðnætti 30. desember 2009.

                Sóknaraðili lýsti kröfu við slit varnaraðila á lokadegi frestsins. Með bréfi dags. 19. ágúst 2010 var kröfu sóknaraðila hafnað meðal annars vegna þess að atvikið var ekki talið bóta­skylt. Þeirri afstöðu mót­mælti sókn­ar­aðili skrif­lega 20. september 2010. Ekki náðist að sætta ágreininginn og var honum því vísað til héraðs­dóms.

                Sóknaraðili greiddi vexti af láninu á þriggja mánaða fresti, fjórum sinnum árið 2008 og þrisvar árið 2009 en greiddi það að fullu upp 11. febrúar 2011 og hafði þá sam­tals reitt af hendi 6.691.445 krónur.

                Varnaraðili vísaði málinu til héraðsdóms 10. maí 2011. Sóknaraðili lagði fram grein­ar­gerð sína 26. september það ár og krafðist þess aðallega að skaðabótakrafa hans að fjár­hæð 6.953.950 kr., sem lýst var við slit varnaraðila, yrði viðurkennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara að skaða­bótakrafa hans að fjárhæð 6.647.575 kr. yrði viður­kennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Lánið var endurreiknað í nóvember 2011 og nam upp­greiðslu­virði þess eftir end­ur­útreikninginn 3.280.237 krónum. Sú fjárhæð, að viðbættum kostnaði við kröfu­lýs­ingu ásamt virðis­auka­skatti af kostnaði, myndar dómkröfu sóknaraðila.

                Hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. misstu verðgildi sitt þegar Fjármálaeftirlitið tók stjórn bankans yfir í október 2008.

                Með dómi Hæstaréttar 2. apríl 2012 í máli nr. 188/2012 var staðfestur sá úrskurður héraðsdóms að þessu máli skyldi frestað þar til fyrir lægju niðurstöður rann­sóknar sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkun stjórnenda Kaupþings banka hf. eða eftir atvikum úrslit sakamáls, yrði það höfðað.

                Ákæra var gefin út 15. mars 2013 á hendur æðstu stjórnendum Kaupþings banka hf. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2015 í máli nr. S-206/2013 voru þeir sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun með því að hafa á tíma­bil­inu 1. nóvember 2007 til og með 8. október 2008 haldið uppi verði hlutabréfa í bank­anum með því að láta deild eigin viðskipta kaupa hlutabréf í honum.

                Tímabilið sem ákæran byggir á hófst því viku áður en sóknaraðili keypti hluta­bréfin. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar en hefur ekki enn verið settur á dag­skrá réttarins.

                Þetta ágreiningsmál var, eins og áður segir, tekið til úrskurðar 17. febrúar sl.

Málsástæður sóknaraðila

                Krafa sóknaraðila er krafa um skaðabætur og grundvallast annars vegar á almennu sakarreglunni, nánar tiltekið reglunni um vinnuveitendaábyrgð, þar eð tjón hans verði raki til saknæmrar og bótaskyldrar háttsemi starfsmanns bank­ans. Hins vegar byggir krafan á því að gera hafi mátt ríkari kröfur til bankans en annarra um aðgæslu og vönduð vinnubrögð vegna þeirrar sérfræðiþekkingar sem starfsmenn hans höfðu. Á varn­ar­aðila hvíli því sérfræðiábyrgð.

                Sóknaraðili byggir á því að starfsmenn bankans hafi hvatt hann og ráðlagt honum að festa sparnað sinn í hluta­bréfum í bankanum og taka jafnframt lán því til við­bótar í sama skyni, sam­hliða því að bankinn hafi haft afar mikil og óeðlileg áhrif á verð­myndun bréfanna á mark­aði. Sóknaraðili telur sig hafa verið blekktan til að kaupa hluta­bréf í bank­anum í þeim tilgangi að viðhalda og/eða hækka gengi bréfa hans, en sam­kvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafi sölu­þrýstingur á bréf Kaupþings auk­ist frá miðju ári 2007. Þannig hafi við­skipta­hættir bankans gagn­vart sókn­ar­aðila ekki byggst á eðlilegum við­skipta­sjón­ar­miðum sam­kvæmt 5. gr. laga nr. 108/2007 um verð­bréfa­við­skipti. Samkvæmt þessu ákvæði beri fjár­mála­fyrir­tæki að starfa í sam­ræmi við eðli­lega og heilbrigða við­skipta­hætti og venjur í verð­bréfa­við­skiptum, með trú­verðugleika fjár­málamarkaðarins og hags­muni við­skipta­vina að leið­ar­ljósi. Með því að upplýsa sókn­ar­aðila ekki um umsvif sín á mark­aði, þróun á verði hluta­bréfanna og það sem ætla verður að hafi verið raun­veru­legt virði þeirra, eða áhættu af slíkum verð­bréfa­við­skiptum almennt, hafi bank­inn brotið gegn ofan­greindu ákvæði.

                Sóknaraðili, sem hefur ekki neina aðra reynslu af verðbréfaviðskiptum en þessi kaup, telur sig hafa verið misnotaðan í framangreindum gjörningi. Samtímis því að starfs­maður bankans hafi hvatt hann til fjárfestingarinnar, sem hann lýsti sem „algjörri snilld“, í tölvupósti til sóknaraðila 7. nóvember 2007 hafi bank­inn sjálfur stundað umfangs­mikil kaup á eigin hluta­bréfum í þeim tilgangi að gefa mis­vís­andi upplýsingar um eftirspurn eftir hluta­bréf­unum og hafa þannig grund­vall­ar­áhrif á verð þeirra. Í því sam­bandi bendir sóknaraðili á að samkvæmt skýrslu Rann­sókn­ar­nefndar Alþingis hafi bank­inn árið 2007 staðið að baki kaupum á hlutabréfum í sjálfum sér í 46,45% til­vika. Þessi inn­grip bankans í við­skipti með hlutabréf í sjálfum sér hafi gefið alranga mynd af raun­veru­legu verð­mæti hlutabréfanna, sem í reynd hafi ekk­ert verið. Hlutirnir hafi þannig verið taldir hafa verðgildi, sem þeir hafi í raun ekki haft. Það hafi leitt til þess að nýir hluthafar, sókn­ar­aðili þar með talinn, hafi keypt hluti og jafn­framt fallist á að skuld­setja sig til slíkra kaupa, sem vel að merkja byggð­ust á ráð­legg­ingum starfs­manna bankans. Vegna þessara óeðlilegu áhrifa bank­ans á mark­aðs­virði bréf­anna, auk hástemmdra lýs­inga starfsmanns hans á fjárfestingu sókn­ar­aðila, hafi sókn­ar­aðila verið talin trú um að verð­þró­unin yrði önnur en í stefndi og raunin varð. Þannig hafi sókn­ar­aðili hlotið beinan skaða af því hvernig starfsmaður bank­ans ráð­lagði honum sem og aðgerðum bankans til að hafa áhrif á verðmyndun eigin hluta­bréfa samhliða ráð­legg­ing­unum. Til viðbótar því að þessi háttsemi bank­ans og starfs­manns hans brjóti gegn 5. gr. laga nr. 108/2007, telur sóknaraðili að bankinn hafi einnig brotið gegn 8. gr. lag­anna um hagsmunaárekstur með því að greina honum ekki frá umsvifum bank­ans á mark­aði með eigin hlutabréf, enda hafi þau haft afgerandi áhrif á verð­myndun bréf­anna, eins og áður greinir. Þá hafi bankinn einnig brotið gegn 18. gr. lag­anna um bestu fram­kvæmd en ljóst sé að hans eigin aðgerðir hafi bein­línis verið fallnar til þess að halda uppi verði hlutabréfa sem í reynd voru verðlaus.

                Eins og fyrr greinir, hafi sóknaraðili ekki haft neina reynslu af verð­bréfa­við­skiptum og hafi leitað til bankans til að ávaxta sparnað sinn á sem bestan og örugg­astan hátt. Vegna reynsluleysis af hlutabréfakaupum teljist sóknaraðili almennur fjár­festir. Að undir­lagi starfsmanna bankans hafi hann keypt hlutabréf í bank­anum. Starfs­menn bankans hafi þó ekki aflað neinna upplýsinga um sóknaraðila svo sem bank­anum var skylt, sbr. 14. og 15. gr. laga nr. 108/2007. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lag­anna skuli fjár­mála­fyrir­tæki sem veitir fjárfestingarráðgjöf eða sinnir eignastýringu afla sér upp­lýs­inga um þekk­ingu og reynslu viðskiptavinar eða hugsanlegs við­skipta­vinar á sviði við­kom­andi teg­undar verðbréfaviðskipta, fjárhagsstöðu hans og markmið með fyrir­hug­aðri fjár­fest­ingu, þannig að því sé kleift að veita viðskiptavininum ráð­legg­ingar um hvaða verð­bréfa­viðskipti hæfi honum. Í 2. mgr. segir að afli fjár­mála­fyr­ir­tæki ekki þeirra upp­lýs­inga sem mælt er fyrir um í 1. mgr., eða sé því ókleift að afla þeirra, sé því óheim­ilt að láta viðskiptavini í té ráðleggingar um verð­bréfa­við­skipti. Sam­kvæmt 14. gr. laganna beri fjármálafyrirtæki að veita viðskiptavinum sínum grein­ar­góðar upp­lýs­ingar um þá fjár­festingarkosti sem standa til boða og þá áhættu sem slíkum fjár­fest­ingum fylgir. Svo við­skiptavinir geti tekið upplýsta fjár­fest­ing­ar­ákvörðun þurfa upp­lýsingarnar að vera skýrar og sanngjarnar og mega ekki vera vill­andi.

                Þrátt fyrir skýr fyrir­mæli þar að lútandi hafi sóknaraðili ekki verið flokkaður sér­stak­lega eða lát­inn svara spurn­inga­lista samkvæmt MiFID-tilskipun Evrópu­sam­bands­ins sem núgild­andi lög um verðbréfaviðskipti byggja á en það hafi bankanum einnig verið skylt að gera. Sóknar­aðila hafi ekki heldur verið veittar greinargóðar upp­lýs­ingar um fjár­fest­ing­ar­kost­inn eða áhætt­una sem honum fylgdi. Sóknaraðili hafi því alls ekki verið upp­lýstur um áhættu samfara hluta­fjár­kaupum né veittar upplýsingar um hluta­bréf bank­ans eða stöðu hans að öðru leyti þegar viðskiptin áttu sér stað. Í tölvu­pósti milli starfs­manna bank­ans 7. nóvember 2007 sé tengiliður sóknaraðila í úti­búi bank­ans á Akur­eyri hvattur til að láta sóknaraðila „kvitta undir mifid“. Það hafi aldrei verið gert og sókn­ar­aðila hafi því ekki verið greint frá ríkum rétti sínum til upp­lýs­inga og sam­svar­andi skyldu bank­ans til að veita honum upplýsingar.

                Þegar sóknaraðili viðraði áhyggjur sínar af stöðu mála í tölvupósti til starfs­manns bankans 1. febrúar 2008 voru honum ekki verið veittar neinar upplýsingar um áhættu eða stöðu mála. Þvert á móti hafi honum verið talin trú um að gjörningurinn væri „askoti fínt fjár­fest­ingarlán“ og að nú hlyti þetta að „fara að síga upp“. Sókn­ar­aðila var með þessum athugasemdum starfsmanns bankans, sem eigi að hafa meiri þekk­ingu og reynslu á sviði verðbréfaviðskipta en sóknaraðili, auk þess sem starfs­mað­ur­inn hafi haft mun meiri upplýsingar en sóknaraðili, verið beint frá því að selja bréfin. Þess í stað hafi verið ýjað að því að hlutirnir myndu lagast og með ráðleggingu starfs­manns­ins, sem virðist ekki hafa byggst á öðru en óskhyggju, hafi verið komið í veg fyrir að sókn­ar­aðili gæti tak­markað tjón sitt með sölu bréfanna til annarra og eftir atvikum bank­ans sjálfs.

                Tjón sóknaraðila felist einkum í þeirri fjárhæð sem hann hafi endurgreitt vegna þess láns sem starfs­menn bank­ans leiðbeindu honum um og ráðlögðu að taka til að auka fjár­fest­ing­una. Skaða­bóta­krafan miðast við stöðu lánsins þegar það hafði verið end­ur­reiknað og sóknaraðila endurgreitt það sem hann hafði ofgreitt. Tjónið sé bein afleið­ing háttsemi starfsmanna bank­ans. Sókn­ar­aðili hafi leitað til bankans til að fá ráð­legg­ingar sérfræðinga um hvernig best væri að fara með sparnað sinn, rúmlega 1,5 millj­ónir króna. Starfsmenn bankans hafi ráð­lagt honum að skuld­setja sig til að spara. Eins og rakið hafi verið hafi þessi ráð­gjöf bein­línis verið röng og sak­næm sem slík, vegna þeirrar stöðu að ekki hafi verið eftir­spurn eftir bréfunum heldur hafi stjórnendur bank­ans haldið verði þeirra uppi.

                Sóknaraðili telur allt framangreint sýna að hefði honum verið gerð grein fyrir rétt­ar­stöðu sinni, hefði hann fengið þær upplýsingar sem hann átti rétt á og verið upp­lýstur um hin gríð­ar­lega umfangsmiklu kaup bankans á hlutabréfum í bankanum, hefði hann getað tekið upplýsta ákvörðun um viðskiptin. Það hafi hann ekki getað heldur þvert á móti fengið mjög villandi upplýsingar auk þess sem bankinn, vís­vit­andi, hafi haldið uppi og reynt að hækka ranglega verð eigin hlutabréfa. Af þessum sökum hafi sókn­ar­aðili keypt, án tilhlýðilegra upplýsinga, hlutabréf í bankanum. Ákvörðun um þá fjár­fest­ingu og tilhögun hennar, sem leiddi til fjárhagslegs tjóns fyrir sóknar­aðila, verði rakin til saknæmrar háttsemi starfsmanna bankans sem lýst hafi verið hér að framan. Að sama skapi hafi starfsmenn bankans beinlínis aukið áhættu sóknar­aðila með því að hvetja hann til að taka hátt lán og fjárfesta þannig fyrir umtalsvert meira fé en nam sparn­aði hans.

                Tilgangur sóknaraðila, þegar hann leitaði til bank­ans, hafi einungis verið að ávaxta sparnað sinn skynsamlega. Ráð­legging starfs­manna bank­ans hafi hins vegar verið þveröfug, þ.e. að skuldsetja sókn­ar­aðila og kaupa hluta­bréf en verði þeirra hafi verið haldið uppi með vafa­sömum hætti. Að lokum, þegar tvær grímur fóru að renna á sókn­ar­aðila, hafi honum verið beint frá því að selja hluta­bréfin 1. febrúar 2008, þegar þau voru enn einhvers virði, sbr. tölvu­póst starfs­manns þann dag. Þannig hafi honum bein­línis verið stýrt frá því að tak­marka tjón sitt. Athuga­semd starfs­manns bank­ans, sem bjó yfir marg­falt meiri upp­lýs­ingum og reynslu en sóknar­aðili, virðist ein­ungis hafa byggst á ósk­hyggju fremur en stað­reyndum.

                Með vísan til þeirra skilyrða laga um verðbréfaviðskipti sem farið hafi verið yfir sé ljóst að bankanum hafi verið óheimilt að ráðleggja sóknaraðila og hafa milli­göngu um þessa fjár­fest­ingu á þann hátt sem gert var. Í þessu samhengi verði jafn­framt að hafa í huga að almennt séu gerðar strangar kröfur til fjármálafyrirtækja um að þau gæti ýtr­ustu varkárni í sam­skiptum við viðskiptavini. Ástæða þessara ríku krafna sé meðal ann­ars sú að fjár­mála­fyrir­tæki veiti sérfræðiþjónustu á sviði verð­bréfa­við­skipta og að miklir fjár­hags­legir hags­munir séu í húfi fyrir viðskiptavini. Í þessu tilviki hafi bank­inn aug­sýni­lega ekki staðið undir fyrrgreindum kröfum.

                Vegna alls framangreinds telur sóknaraðili sig eiga rétt á skaðabótum úr hendi varn­ar­aðila vegna tjóns síns. Krafa sóknaraðila byggist á því láni sem Kaupþing banki hf. veitti honum til hlutabréfakaupanna og miðar krafa sóknaraðila að því að gera hann eins settan og hefði hann ekki tekið lánið.

                Um lagarök er vísað til 5., 8., 14., 15., 16. og 18. gr. laga nr. 108/2007, um verð­bréfa­viðskipti, sem og almennra reglna kröfu-, samninga- og skaða­bóta­réttar. Krafa sóknaraðila um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður varnaraðila

Skilyrði sakarreglunnar ekki uppfyllt

                Varnaraðili hafnar málatilbúnaði sóknaraðila alfarið og telur að hafna beri kröfu hans. Skilyrði almennu sakarreglunnar séu ekki uppfyllt enda hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að starfsmenn Kaupþings banka hf. hafi á sak­næman og ólögmætan hátt valdið honum tjóni sem varnaraðili beri ábyrgð á. Þar fyrir utan sé krafa sóknar­aðila van­reifuð, því hvorki hið meinta tjón né hin meinta bóta­skylda háttsemi séu nægi­lega afmörkuð.

                Málatilbúnaður sóknaraðila virðist helst byggjast á því að starfs­menn Kaup­þings banka hf. hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að ráðleggja honum að kaupa hlutabréf í bankanum, svo sem með því að vanda vinnubrögð sín ekki nægilega, upp­lýsa sóknaraðila ekki um umsvif bankans á markaði, þróun á verði hluta­bréfanna, áhættu af verðbréfaviðskiptum o.fl.

                Tjón sitt skilgreini sóknaraðili aftur á móti sem endurgreiðslufjárhæð þess erlenda láns sem hann tók til að fjármagna hlutabréfakaupin.

                Skaðabótakrafa sóknaraðila virðist samkvæmt þessu byggja á meintri sak­næmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna bankans í tengslum við kaup sókn­ar­aðila á hluta­bréfum en tjónið byggist á endurgreiðslufjárhæð erlends láns sem var notað til að fjár­magna fjár­fest­inguna án þess að sóknaraðili hafi á nokkurn hátt sýnt fram á orsaka­tengsl þar á milli, þ.e. hvort og þá hvernig ráðgjöf starfsmanna bankans hafi haft áhrif á endurgreiðslufjárhæð lánsins.

                Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila og byggir á því að ráðleggingar sem honum voru veittar um að fjárfesta í hlutabréfum í bankanum séu ekki ákvörðun um kaup á hluta­bréfum enda sé sú ákvörðun alfarið í höndum sóknaraðila sjálfs. Enn síður feli ráð­legg­ing um að kaupa tiltekin hlutabréf í sér ákvörðun um að taka erlent lán til að fjár­magna hluta­bréfa­kaupin. Slík ákvörðun sé af allt öðrum toga og byggist á því að sókn­ar­aðili sé reiðu­bú­inn að taka þá áhættu að fjármagna hluta­bréfa­kaup með mynt­körfu­láni. Þessar ákvarðanir hafi sókn­ar­aðili sjálfur tekið og hann einn geti borið ábyrgð á þeim.

                Varnaraðili bendir enn fremur á að starfsmenn bankans hafi varað sóknaraðila við þeirri áhættu sem fylgir því að taka myntkörfulán. Í yfirlýsingu vegna lán­töku í erlendu myntkörfuláni Kaupþings, sem sóknaraðili hafi ritað undir 7. nóv­em­ber 2007, lýsi hann yfir því að hann geri sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem felst í að taka lán í erlendum myntum, bæði með tilliti til gengisáhættu sem og þess að bank­anum var heim­ilt að breyta vöxtum lánsins á þriggja mánaða fresti til sam­ræmis við þá vexti sem giltu gagn­vart hliðstæðum lánum.

                Þetta sýni að sóknaraðili hafi gert sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem hann tók með því að fá erlenda mynt að láni og geti hann því ekki byggt skaðabótakröfu á hendur varnaraðila á þeim grundvelli.

                Jafnframt sé ljóst að hlutabréfakaupum fylgi almennt nokkur áhætta. Kaup­andi hluta­bréfa geti almennt ekki gengið út frá því að ekki verði tap á slíkri fjár­fest­ingu og því síður að hún skili hagnaði. Sóknaraðila sé skylt að afla sér upp­lýs­inga sem geti nýst þegar hann ákveður hvort hann eigi að kaupa hlutabréf eða láta það ógert. Sókn­ar­aðila hafi því átt að vera ljóst að verð­bréfa­við­skipti eru þess eðlis að þau geta hvort heldur sem er leitt til taps eða gróða. Með því að ákveða að kaupa hluta­bréf með láns­fjár­mögnun sé áhætta tekin á því að fjár­fest­ingin tap­ist. Sóknaraðili geti ekki átt kröfu á varnaraðila sökum þess að hluta­bréfin féllu í verði.

                Vegna þeirrar málsástæðu sóknaraðila að hlutabréf í bankanum hafi orðið verð­laus verði að hafa í huga þá atburði sem dundu yfir íslenskt fjármálakerfi haustið 2008. Bankinn hafi ekki farið varhluta af þeim atburðum. Hlutabréf í nánast öllum félögum, sem skráð voru á hlutabréfamarkaði, hafi orðið verðlaus við hrun íslensku við­skipta­bankanna í október 2008. Tapið hafi því ekki aðeins verið bundið við hluta­bréf í Kaup­þingi banka hf.

Fjárfesting sóknaraðila

                Varnaraðili mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að sóknaraðili hafi verið mis­not­aður með því að kaupa hlutabréf í bankanum og að í orðunum algjör snilld í tölvu­skeyti starfsmanns bankans fel­ist einhvers konar ábyrgð bankans á ávöxtun hluta­bréf­anna eins og sóknar­aðili virð­ist byggja á. Varnaraðili telur að starfs­maður bankans hafi í tölvu­póst­inum lýst jákvæðri skoðun sinni á ákvörðun sóknaraðila um fjár­mögnun kaup­anna, þ.e. að vaxta­tekjur hans dygðu til að standa undir vaxtakostnaði láns­ins, en jafn­framt að brugðið gæti til beggja vona með þróun á verðmæti hluta­bréf­anna. Tölvuskeyti starfsmannsins 7. nóvember 2007 sýni jafnframt að sóknaraðili sé hvorki hvattur til né honum ráð­lagt að kaupa hluta­bréf í bankanum en þar segi: Krónan er að fara í 115, viltu fara í vaxta­mun eða taka erlent til að kaupa t.d. í Kaup­þingi? Þetta tölvu­skeyti sýni að sókn­ar­aðili hafi sjálfur ákveðið að kaupa hlutabréf í bank­anum og við­skipta­hættir bank­ans hafi hvorki verið óeðlilegir né hafi bankinn brotið gegn 5. gr. laga um verð­bréfa­við­skipti nr. 108/2007 eins og sóknaraðili haldi fram.

                Varnaraðili mótmælir því að upplýsingum starfsmanna bankans til sóknaraðila hafi verið ábóta­vant en samkvæmt 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 beri fjár­mála­fyrir­tæki að veita viðskiptamönnum sínum upplýsingar meðal annars í þeim tilgangi að þeim verði fært að taka upplýsta fjárfestingarákvörðun, eins og segir í nið­ur­lagi 1. mgr. ákvæðisins.

                Áður sé rakið að sóknaraðili hafi sjálfur ákveðið að kaupa hlutabréf með lánsfé en fyrir liggi að bankinn hafi gert sókn­ar­aðila ljóst að mikil áhætta fylgdi lántökunni. Sókn­ar­aðili hafi jafnframt undirritað vörslu­samn­ing þannig að bank­inn gæti varð­veitt þau verðbréf sem sóknaraðili keypti.

                Varnaraðili mótmælir því að Kaupþing banki hf. hafi brotið gegn 15. gr. laga um verð­bréfaviðskipti nr. 108/2007. Hann áréttar að sóknaraðili hafi keypt hluta­bréf sem teljist til einfaldra fjármálagerninga skv. 16. gr. laga um verð­bréfa­við­skipti nr. 108/2007 og hafi viðskiptin farið fram að frumkvæði sóknaraðila auk þess sem starfs­maður bankans gerði sóknaraðila ljóst að í viðskiptunum fælist áhætta.

                Varnaraðili áréttar að tilvísun sóknaraðila til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafi ekki þýðingu í þessu ágreiningsmáli. Skýrslan sé ekki sönn­un­ar­gagn og styðji hvorki þá fullyrðingu sóknaraðila að Kaupþing banki hf. hafi verið á fallanda fæti haustið 2007 né að starfsmaður bankans hafi brotið gegn 8. og 18 gr. laga um verð­bréfa­viðskipti nr. 108/2007 um hagsmunaárekstra og bestu fram­kvæmd­ina. Þessu til stuðn­ings vísar varnaraðili til Hæstaréttardóms 7. apríl 2011 í máli nr. 561/2010. Sönn­un­ar­færsla sóknaraðila um fjárhagsstöðu bankans sé afar fátækleg enda takist honum ekki að færa fullnægjandi sönnur á staðhæfingar sínar eftir þeim leiðum sem lög um með­ferð einkamála nr. 91/1991 bjóða. Málsástæður sóknaraðila hvað þetta varðar séu með öllu ósannaðar.

                Varnaraðili mótmælir þeim fullyrðingum sóknaraðila að Kaupþing banki hf. hafi sjálfur stundað umfangsmikil kaup á eigin bréfum í þeim tilgangi að gefa mis­vís­andi upp­lýs­ingar um eftirspurn eftir hlutabréfum og þannig haft grundvallaráhrif á verð þeirra. Varnaraðili hafnar alfarið fullyrðingum sóknaraðila um meinta markaðs­mis­notkun sem ósönn­uðum. Enn fremur verði vitneskju starfsmanna í fram­línu útibús bank­ans á Akur­eyri ekki jafnað til þekkingar æðstu stjórnenda hans. Viðkomandi starfs­maður bank­ans hafi, á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram og einnig í febrúar 2008, ekki haft neina hugmynd um að yfirvofandi væru þeir atburðir sem áttu sér stað haustið 2008.

                Varnaraðili mótmælir því loks sem sóknaraðili haldi fram að starfsmaður bank­ans hafi komið í veg fyrir að sóknaraðili takmarkaði tjón sitt með því að selja hluta­bréf sín. Í tölvu­pósti sóknaraðila, spyrjist hann fyrir um vanskil á lána­samn­ingi sem starfs­maður bankans segist ætla að kippa í liðinn. Ekki verði séð að með þessu hafi starfs­mað­ur­inn komið í veg fyrir sölu hlutabréfa enda ekki minnst á hluta­bréf í sam­skiptum aðila.

                Með vísan til alls framangreinds hafi sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á að Kaup­þing banki hf. hafi á saknæman hátt þagað yfir upplýsingum eða veitt rangar upp­lýs­ingar þegar sóknaraðili tók umrætt lán til hlutabréfakaupa. Ekkert í gögnum máls­ins styðji þær fullyrðingar sóknaraðila að bankinn hafi beitt blekkingum eða ekki sinnt skyldum sínum sem ráðgjafi. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila.

 

                Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila vanreifaðan þar sem hvorki hið meinta tjón né hin meinta bótaskylda háttsemi og orsakatengsl hennar við tjónið sé nægi­lega afmarkað. Hvorki sé ljóst hvernig tjón sóknaraðila sé komið til né hvernig það tengist ráðgjöf um hluta­bréfa­kaup. Bótakrafa sóknaraðila virðist fyrst og fremst snú­ast um lántöku sóknaraðila en ekki tap vegna hlutabréfakaupa en málsástæður sókn­ar­aðila snúast fyrst og fremst um ranga ráðgjöf vegna hlutabréfakaupa. Þar eð erfitt sé að átta sig á málatilbúnaði sóknaraðila eigi varnaraðili erfitt með að halda uppi nægj­an­legum vörnum.

                Kröfu sóknaraðila um kostnað auk virðisaukaskatts af kostnaði er mótmælt sem og kröfu hans um dráttarvexti frá 2. nóvember 2009 til greiðsludags. Kostnaður við kröfu­lýs­ingu sé eftirstæð krafa og sóknaraðili hafi lýst kröfu um dráttarvexti sem eftir­stæðri kröfu. Slitastjórn muni ekki taka afstöðu til eftirstæðra krafna, sbr. 114. gr. laga, um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, í samræmi við 119. gr. sömu laga. Það sé einnig megin­regla við gjaldþrotaskipti að hver kröfu­hafi beri sinn kostnað við að lýsa og halda fram kröfum sínum.

                Krafa varnaraðila um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa hans um virð­is­aukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988, um virð­is­auka­skatt. Vísað er til laga um verbréfaviðskipti, nr. 108/2007, laga um meðferð einka­mála, nr. 91/1991, laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem og laga um gjald­þrota­skipti o.fl., nr. 21/1991. Málið er flutt á grundvelli XXIV. kafla sömu laga, sbr. 171. gr. þeirra.

Niðurstaða

                Í þessu máli þarf að svara því hvort á varnaraðila, Kaupþingi hf. sem er Kaup­þing banki hf. í slitameðferð, hvíli skaðabótaábyrgð á fjártjóni sóknaraðila, Gunnars Björns Þórhallssonar, vegna ólögmætra og saknæmra vinnubragða starfsmanns í útibúi Kaup­þings banka á Akureyri.

                Í lýsingu málavaxta kemur fram að sóknaraðili hafi átt talsverð viðskipti við útibú Kaupþings banka á Akureyri. Af því tilefni hafi hann oft rætt við þjónustu­full­trúa sinn í bank­anum og áður en þeir atburðir gerðust, sem eru grundvöllur þessa máls, hafi sókn­ar­aðili rætt það við starfsmanninn hvaða leiðir væru færar til þess að ávaxta betur það fé sem hann hafði lagt á verðbréfasjóði, sparifé sitt.

                Eftir samtalið 7. nóvember 2007 lögðu sóknaraðili og starfsmaður Kaupþings banka hf. upp með það að hann næði ávöxtun á sparifé sitt með þremur sam­verk­andi þáttum. Sóknaraðili átti í upphafi fé í verðbréfasjóðum hjá bankanum, vextir af þeirri inn­eign áttu að greiða vaxtakostnað af láni sem hann tók. Með láninu keypti hann hluta­bréf. Á gjalddaga lánsins að liðnum tveimur árum var þess vænst að hlutabréfin hefðu hækkað í verði. Sóknaraðili gæti þá selt þau, greitt upp kúlulánið og jafnframt fengið ávöxtun af þeim.

                Þessi gerningur, sem fór endanlega í vaskinn þegar Fjármálaeftirlitið tók við stjórn bank­ans í október, var því myndaður með inneign sóknaraðila í Kaupþingi banka hf. og tveimur samn­ingum sem sókn­ar­aðili gerði við bankann 7. nóvember 2007. Annars vegar með láni sem hann tók í erlendum myntum sem samsvaraði 2.400.000 kr. og hins vegar kaup­samn­ingi um 2323 hluti sem hann keypti í bankanum á genginu 980.

                Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að ekki séu orsakatengsl milli fjártjóns sókn­ar­aðila og meintrar saknæmrar háttsemi starfsmanns Kaupþings. Sóknaraðili skil­greini fjár­tjón sitt sem endur­greiðslu­fjár­hæð lánsins sem hann tók en rétt sinn til skaða­bóta grund­valli hann á sak­næmum og ólögmætum vinnubrögðum starfsmanna bank­ans þegar hann keypti hluta­bréfin. Meint saknæm vinnubrögð starfsmanns bank­ans vegna þeirra kaupa tengist ekk­ert afdrifum lánsins.

                Þegar litið er til þess að lánið var tekið í því skyni að kaupa hlutabréfin og það var andvirði þeirra sem átti að greiða lánið á gjalddaga þess þykir þetta tvennt ekki verða aðgreint á þann hátt sem varnaraðili gerir. Hin meinta saknæma háttsemi við sölu hlutabréfanna tengist fjártjóninu þannig að þar eð bréfin urðu verðlaus gegndu þau ekki því hlutverki sem þeim var ætlað í hinum þríliðaða gerningi að endurgreiða lánið á gjald­daga. Til þess að endurgreiða lánið varð sóknaraðili að ganga á sparifé sitt.

                Í tölvupóstinum 7. nóvember 2007 bendir starfsmaður bankans sóknaraðila á að nú sé rétti tíminn til að leggja grunn að ávöxtun og nefnir tvær leiðir. Einn liður í þeim báðum var lán tekið í erlendum myntum.

                Dómurinn telur reyndar að ekki hefði breytt neinu þótt sóknaraðili hefði ein­vörð­ungu nýtt sparnað sinn í að kaupa hlutabréfin því ávöxtunin átti alltaf að nást með hækkuðu gengi hlutabréfanna og að þau gerðu meira en greiða það fé sem notað var til að kaupa þau, hvort sem það var tekið að láni eða tekið úr sjóði sóknaraðila.

                Við vitnaleiðslur kom fram að sóknaraðili þekkti vel til erlendra lána og því verður ekki séð að nokkru hafi verið haldið leyndu fyrir honum sem hefði borið að greina honum frá í því sambandi. Þar að auki hefur það ekki þýðingu lengur hvort lánið var upp­haf­lega í erlendri mynt eða íslenskum krónum því það var endurreiknað og sóknar­aðila endurgreitt það sem hann hafði ofgreitt. Ekki varð annað ráðið en að við aðalmeðferð byggði sóknaraðili ekki lengur á því að vinnubrögðum starfsmanns bank­ans hefði verið áfátt þegar hann veitti lánið.

                Eftir stendur það hvort stefnandi hafi, þegar hann keypti hluta­bréfin í Kaup­þingi banka hf., gert það að ráðleggingu starfsmanns bankans eða ekki. Hvort starfs­mað­ur­inn hafi, eins og sóknaraðili byggir á, hvatt hann eða ráðlagt honum að kaupa hluta­bréfin í Kaup­þingi þegar þeir ræddust við eftir að starfsmaðurinn sendi sókn­ar­aðila tölvu­póst­inn.

                Þegar metið er hvort vinnubrögð starfsmanns Kaupþings banka, í aðdraganda þess að sóknaraðili keypti hlutabréfin í bankanum, hafi verið sak­næm og ólögmæt, þarf fyrst að svara því hvort þær upplýsingar sem starfsmaðurinn veitti sóknaraðila hafi verið eða ekki verið fjárfestingarráðgjöf.

                Hugtakið fjárfestingarráðgjöf (e. investment advice) er skilgreint í 4. tölulið 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Þau tóku gildi 1. nóvember 2007 og eiga því við um þau atvik sem eru grundvöllur þessa máls. Í frumvarpi til laganna segir: „Sam­kvæmt skil­grein­ingunni er fjár­fest­ing­ar­ráðgjöf persónulegar ráð­leggingar til við­skipta­vinar í tengslum við við­skipti með fjármálagerninga, hvort sem er að frum­kvæði við­skipta­vin­arins eða þess sem þjónustuna veitir.“ Þar sem fjár­fest­ingarráðgjöf telst nú til verð­bréfa­viðskipta skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins þykir nauð­syn­legt að skil­greina hugtakið hér. Skil­grein­ingin byggist á 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. MiFID-til­skip­un­ar­innar. Í skilyrðinu um ráð­legg­ingar í tengslum við fjár­mála­gern­inga felst það að ráð­legg­ingar um upp­bygg­ingu eignasafns, t.d. helming í hluta­bréfum og helm­ing í skulda­bréfum, teljast ekki til fjár­festingarráðgjafar. Ráðgjöfin verður þannig að hafa tengsl við ákveðna fjár­mála­gern­inga. Í 52. gr. tilskipunar fram­kvæmda­stjórn­ar­innar 2006/73/EB er hugtakið fjár­fest­ingarráðgjöf nánar skilgreint og gert ráð fyrir að það verði sett í reglugerð, sbr. 2. mgr. Þar kemur fram að með persónu­legum ráð­legg­ingum er átt við ráðleggingar sem sendar eru til einstaklings sem fjárfestis eða hugsan­legs fjár­festis eða sem umboðs­manns fyrir fjárfesti eða hugs­an­legan fjárfesti. Ráð­legg­ing­arnar verða að vera kynntar þannig að þær henti við­kom­andi eða byggjast á athugun á aðstæðum viðkomandi og verða að vera ráð­legg­ingar um að kaupa, selja, gang­ast í áskrift, skipta, innleysa, halda eða ábyrgjast kaup á til­teknum fjár­mála­gern­ingum eða nýta sér eða nýta sér ekki rétt sam­kvæmt ákveðnum fjármálagerningi til að kaupa, selja, gangast í áskrift, skipta eða inn­leysa fjármálagerning. Þá kemur fram að ráð­legg­ingar eru ekki persónulegar ef þær eru aðeins veittar með almennum dreifing­ar­leiðum eða eru veittar almenningi.

                Samkvæmt framburði sóknaraðila velti hann því fyrir sér hvort í boði væru betri leiðir til að ávaxta það fé sem hann átti í hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum og leitaði því ráða hjá þjónustufulltrúa sínum í bankanum. Eins og áður greinir ritaði þjón­ustu­fulltrúinn sóknaraðila svofelldan tölvupóst:

                Krónan er að fara í 115, viltu fara í vaxtamun eða taka erlent til að kaupa í t.d. Kaup­þingi.

                Að sögn þjónustufulltrúans höfðu hann og sóknaraðili átt mikil samskipti vegna viðskipta sóknaraðila við bankann. Þjónustufulltrúinn bar að hann hefði viljað láta sóknaraðila vita að vegna lækk­andi gengis krónunnar væri réttur tími til að fjár­festa. Báðir þeir möguleikar sem hann nefndi við sóknaraðila hafi grundvallast á því að tekið væri erlent lán. Póstinn hefði hann sent sóknaraðila vegna þess að hann vissi af áhuga hans á að auka ávöxtunina.

                Eftir að sóknaraðili fékk póstinn ræddust hann og þjónustufulltrúinn við, í síma eða í bankanum.

                Sóknaraðili bar að hann hefði skilið þjónustufulltrúa sinn þannig að gengi bank­ans væri lágt og því væri hugsanlega, til lengri tíma litið, vænlegri sá kostur að kaupa hluta­bréf í bankanum en sá að kaupa verðbréf sem gæfu hærri vexti en þá sem greiða þyrfti af erlenda láninu.

                Í þessu máli horfir svo við að sóknaraðili og starfsmaður bankans eru sammála um að þeir hafi ræðst við, annað hvort augliti til auglitis eða í síma. Hvað þeim fór á milli verður ekkert fullyrt um. Sóknaraðili byggir á því að hallann af þeim sönnunar­skorti verði að leggja á varnaraðila en varnaraðili byggir á að sönnunarbyrðin hvíli á sókn­ar­aðila þar eð hann hafi ríflega 10 mánuðum áður, í febrúar 2007, ritað undir vörslu­samning við Kaupþing banka.

                Í 3. gr. vörslusamningsins um fyrirmæli vörsluþega segir:

Vörsluþegi getur gefið fyrirmæli sín um verðbréfaviðskipti munnlega, rafrænt eða skriflega, s.s. með símbréfi, tölvupósti eða með símtali.

...

Fyrirmæli um verðbréfaviðskipti eða önnur fyrirmæli vörsluþega til starfsfólks Kaup­þings banka hf. sem berast með framangreindum hætti eru á ábyrgð vörslu­þega. Ef fyrirmæli eru gefin munnlega, s.s. í síma hefur vörsluþegi sönnunarbyrði fyrir því að slík fyrirmæli hafi verið gefin, að starfsfólk Kaupþings banka hf. hafi farið út fyrir þau fyrirmæli eða tekið ákvarðanir sem ekki hafi verið gefin munnleg fyrir­mæli um.

                Þetta ákvæði fellir á vörsluþega að sanna hvaða fyrirmæli hann gaf starfs­mönnum bankans. Að mati dómsins fellir þetta ákvæði þó ekki á sóknaraðila þá byrði að sanna hvað starfsmenn bankans segja við hann svo sem hvort ráðleggingar starfs­manns bankans hafi verið persónulegar eða ekki.

                Hefði legið fyrir að sóknaraðili og starfsmaður bankans hafi ræðst við í síma hefði hvílt á bankanum að sanna efni þess sem þeim fór á milli. Í 6. gr. vörslu­samn­ings­ins segir um hljóðritun:

Vörsluþega er kunnugt um að símtöl milli hans og starfsfólks Kaupþings banka hf. kunna að vera hljóðrituð. Aðilar þessa samnings eru sammála um að hljóðritanir eða skrifleg og rafræn gögn sem berast til Kaupþings banka hf. skuli lögð til grund­vallar ef ágreiningur rís um einstök verðbréfaviðskipti eða aðrar hreyfingar á vörslu­reikn­ingi.

                Hvorugur getur hins vegar munað hvort þeir ræddust við í síma eða hvort sókn­ar­aðili fór í útibúið. Því verður ekki talið að umsamdar sönnunarreglur leysi málið.

                Það hugtaksskilyrði sem hér þarf að greiða úr er að ráðleggingarnar hafi verið „kynntar þannig að þær henti viðkomandi eða byggist á athugun á aðstæðum við­kom­andi“.

                Sóknaraðili bar að hann hefði væntanlega valið að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á grundvelli þess að eftir samtal við starfsmann bankans hafi hann talið að það væru meiri ávöxtunarmöguleikar í þeirri leið. Á þessum tíma hefði gengi hluta­bréfa bank­ans átt að vera lágt og það væru meiri líkur til þess að það myndi hækka þannig að það ætti að vera vænlegri fjárfestingarkostur en vaxtamunarviðskipti.

                Í reynd er ekki við annað að styðjast en það sem sóknaraðila minnir að hafi verið megininntakið í því sem starfsmaðurinn ræddi við hann.

                Að mati dómsins felast í þeim upplýsingum starfsmannsins, sem hann á að hafa veitt sóknaraðila í samtali eftir að tölvupósturinn var sendur, ekki persónulegar ráð­legg­ingar í skilningi 4. töluliðar 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sókn­ar­aðili byggir ekki á því að starfsmaðurinn hafi sagt honum að það hentaði sókn­ar­aðila að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka né að starfsmaðurinn hafi grundvallað upp­lýs­ingar sínar á sérstökum aðstæðum sóknaraðila.

                Að mati dómsins hefur sóknaraðili því ekki sýnt fram á að það sem honum og starfs­manni Kaupþings banka fór á milli í samtali 7. nóvember 2007 hafi verið fjár­fest­ing­ar­ráðgjöf. Samkvæmt þeirri niðurstöðu á 16. gr. laga nr. 108/2007 við um skyldur starfs­manns­ins gagnvart sóknaraðila.

                Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 108/2007 skal fjármálafyrirtæki, sem veitir aðra þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta en fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringu, óska eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu viðskiptavinar eða hugsanlegs við­skipta­vinar á sviði viðkomandi tegundar verðbréfaviðskipta til að geta metið hvort þjónustan eða varan sé viðeigandi fyrir viðskiptavininn.

                Í framkvæmd þýðir þetta að láta við­skipta­vin­inn fylla út MiFID-spurninga­list­ann og meta út frá þeirri reynslu sem viðskiptavinurinn segist hafa hvort fjár­mála­gern­ing­ur­inn henti honum.

                Þetta mat þarf þó ekki að fara fram eigi 4. mgr. 16. gr. við. Samkvæmt því ákvæði er fjármálafyrirtæki óskylt að kynna sér þekkingu og reynslu viðskiptavinar þegar þjónusta þess felst aðeins í framkvæmd eða móttöku og miðlun fyrirmæla og öllum skilyrðum fjögurra stafliða 4. mgr. er fullnægt.

                Dómurinn hefur þegar hafnað því að þjónustufulltrúi sóknaraðila hafi veitt honum fjárfestingarráðgjöf þegar sóknaraðili keypti hlutabréfin. Jafnframt telur dóm­ur­inn að þegar sóknaraðili hafði ákveðið hvað yrði fyrir valinu hafi starfsmaðurinn komið fyrirmælum hans í framkvæmd.

                Hlutabréfin voru á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu og þjónustan var veitt að frumkvæði viðskiptavinarins. Skilyrði a- og b-liðar 4. mgr. 16. gr. voru því uppfyllt.

                Hins vegar liggja ekki fyrir gögn um það hvort sóknaraðili hafi verið skil­merki­lega upplýstur um að bankanum væri óskylt að meta hvort fjármálagerningurinn væri viðeigandi fyrir hann og hann nyti því ekki þeirrar verndar sem felst í slíku mati. Því er ósannað að skilyrði c-liðar 4. mgr. 16. gr. hafi verið uppfyllt.

                Áður en unnt er að taka afstöðu til þess hvort skilyrði d-liðar 4. mgr. 16. gr. hafi verið upp­fyllt þarf að taka afstöðu til þess hvort bankinn hafi sinnt þeim skyldum sem á starfsmönnum hans hvíldu samkvæmt 8. gr. laganna um hagsmunaárekstra.

                Sam­kvæmt 1. mgr. 8. gr. skal fjár­málafyrirtæki gera allar tiltækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hags­muna­árekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina þess.

                Samkvæmt 2. mgr. skal fjármálafyrirtæki greina hagsmunaárekstra:

                1. milli fyrirtækisins sjálfs annars vegar, þar með talið starfsmanna þess, einka­umboðs­manna eða aðila sem lúta yfirráðum þess, og viðskiptavina þess hins vegar og

                2. milli viðskiptavina fyrirtækisins innbyrðis.

                Í 3. mgr. segir að veiti ráðstafanir skv. 1. mgr. ekki fullnægjandi vissu fyrir því að hags­muna við­skiptavina sé nægjanlega gætt skal fjármálafyrirtæki upplýsa við­kom­andi við­skipta­vini um eðli og ástæður hagsmunaárekstranna áður en til viðskipta er stofnað milli fjármálafyrirtækis og viðskiptavinarins.

                Við aðalmeðferð byggði sóknaraðili á því að sjónarmið um samsömun eigi hér við. Æðstu stjórn­endur Kaupþings banka hf. hafi verið sak­felldir fyrir að halda uppi verði hluta­bréfa í bankanum á þeim tíma þegar hann keypti hlutabréfin. Því hafi bank­inn ekki upp­fyllt skilyrði 1. mgr. 8. gr.

                Sóknaraðili leggur þann grunn að máli sínu að vinnubrögð starfsmanns útibús Kaup­þings banka á Akureyri hafi, þegar sóknaraðili keypti hlutabréf í bankanum 7. nóv­em­ber 2007, verið ólögmæt og saknæm.

                Þjónustufulltrúi sóknaraðila í bankanum bar að hann hefði ekki haft minnstu hug­mynd um að stjórnendur bankans hefðu staðið að baki kaupum á hlutabréfum í bank­anum. Hann kvaðst aldrei hafa verið hvattur af sínum yfirmönnum til þess að mæla með því að viðskiptavinir keyptu hlutabréf í bankanum. Hann bar jafnframt að hann hefði hvorki fengið bónus fyrir að veita lán né selja verðbréf. Hann hafi hins vegar átt nokkur hlutabréf í bankanum og lítils háttar kauprétt. Dómurinn telur því að hags­munir starfsmannsins og hagsmunir sóknaraðila hafi ekki rekist á og því ekki hvílt á honum upplýsingaskylda af þeim sökum.

                Eins og áður greinir voru stjórnendur Kaupþings banka, með dómi Héraðs­dóms Reykjavíkur 26. júní 2015, meðal annars sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun með því að hafa haldið uppi eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum. Tímabilið sem ákæran tekur til hefst 1. nóvember 2007 en sóknaraðili keypti sín hlutabréf í bank­anum tæpri viku síðar, 7. nóvember. Dóminum í sakamálinu hefur verið áfrýjað til Hæsta­réttar. Fyrir nið­ur­stöðu þessa máls þykir ekki skipta máli þótt afstaða Hæsta­réttar til ákær­unnar liggi ekki fyrir.

                Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki meint markaðs­mis­notkun kann að hafa haft áhrif á verð hlutabréfa í Kaupþingi, á þeim tíma þegar sókn­ar­aðili keypti sín bréf, sem mun þó hafa verið lágt. Hafi áhrif hennar verið ein­hver má fall­ast á að bank­inn hafi ekki sinnt þeim skyldum sem á honum hvíldu sam­kvæmt 8. gr. laganna og að því leyti hafi skilyrði d-liðar 4. mgr. 16. gr. laga nr. 108/2007 ekki verið upp­fyllt.

                Þótt skilyrði 4. mgr. 16. gr. hafi ekki fyllilega verið uppfyllt fær dómurinn ekki séð að orsakatengsl séu á milli þess og þess að sóknaraðili keypti bréfin. Jafnframt fær dóm­ur­inn ekki séð að orsakatengsl séu á milli markaðs­mis­notk­un­ar­innar og þess að sókn­ar­aðili keypti bréfin né heldur að kaup hans séu sennileg afleið­ing af henni.

                Dómurinn hefur því hafnað þeim málsástæðum sem sóknaraðili færir fyrir kröfu sinni. Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknar­aðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til skyldu varn­ar­aðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, hæfilega ákveð­inn 500.000 kr.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Hafnað er þeirri kröfu sem sóknaraðili, Gunnar Björn Þórhallsson, lýsti við slit varn­ar­aðila, Kaupþings ehf.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 kr. í málskostnað