Hæstiréttur íslands
Mál nr. 811/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Mánudaginn 27. janúar 2014. |
|
Nr. 811/2013.
|
Vilhjálmur Bjarnason (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) gegn Vigni Rafni Gíslasyni og (enginn) Björgólfi Thor Björgólfssyni (Reimar Pétursson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um skyldu vitnis, löggilta endurskoðandans VRG, til að gefa skýrslu í héraði í tengslum við öflun VB á sönnunargögnum án þess að mál hefði verið höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðila að spurningu, sem VB beiddist að VRG yrði gert skylt að svara, um aðdraganda og ástæður að baki fundi er lýst var í tilteknu skjali. Hæstiréttur vísaði til þess að fyrrgreint skjal varðaði lögboðna upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þágildandi lögum nr. 144/1994 um ársreikninga auk þess sem almennur aðgangur væri að efni skjalsins samkvæmt fyrirmælum laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Að þessu virtu taldi rétturinn þagnarskylduákvæði laga nr. 161/2002, laga nr. 3/2006 og laga nr. 79/2008 um endurskoðendur ekki standa því í vegi að VRG yrði gert skylt að svara spurningu VB. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að VRG væri ekki skylt að svara spurningunni að því marki sem slíkt kynni að fella á hann ábyrgð af því tagi sem greindi í 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. og 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2013 þar sem leyst var úr ágreiningi um skyldu varnaraðilans Vignis Rafns Gíslasonar til að gefa skýrslu í tengslum við öflun sóknaraðila á sönnunargögnum án þess að mál hafi verið höfðað, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. þeirra laga. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilanum Vigni verði gert skylt að svara eftirfarandi spurningu: „Vitnið útskýri aðdraganda og ástæður að baki þeim fundi sem lýst er í minnisblaði frá 22. október 2005, dskj. nr. 21.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðilans Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Varnaraðilinn Vignir hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilinn Björgólfur krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Með dómi Hæstaréttar 15. maí 2013 í máli nr. 259/2013 var sóknaraðila, sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Landsbanka Íslands hf. urðu verðlaus við fall bankans 7. október 2008, heimilað að leita sönnunar fyrir dómi samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991. Um er að ræða heimild til öflunar sönnunargagna um tiltekin atriði sem sóknaraðili álítur að ráðið geti niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun gegn varnaraðilanum Björgólfi. Telur sóknaraðili að tjón sitt megi að minnsta kosti að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna í starfsemi bankans sem varnaraðilinn Björgólfur hafi stuðlað að eða átt þátt í og hafi að lokum leitt til þess að bankinn var tekinn til slita. Varnaraðilinn Vignir var eitt þeirra sextán vitna sem sóknaraðili hugðist leiða fyrir dóm til skýrslugjafar í framangreindu skyni og var hann boðaður á dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2013 með skriflegri kvaðningu þar um samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga 91/1991. Þann dag voru á dómþingi lagðar fyrir varnaraðilann þær tvær spurningar sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði en hann taldi sér hvorki skylt né heimilt að svara þeim. Sóknaraðili krafðist þess þá að úrskurður gengi um skyldu varnaraðilans til þess að svara spurningunum. Með hinum kærða úrskurði var varnaraðilanum gert skylt að svara þeirri spurningu hverjir af hálfu endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers ehf. (PwC), Landsbanka Íslands hf., Samson eignarhaldsfélags ehf. (Samson ehf.) eða Novators eignarhaldsfélags ehf. hefðu komið að vinnu við mat á því hvort varnaraðilinn Björgólfur myndi teljast tengdur aðili að Landsbanka Íslands hf. Hins vegar var í hinum kærða úrskurði talið að varnaraðilanum Vigni væri óheimilt að svara spurningu sem laut að því að útskýra aðdraganda og ástæður að baki þeim fundi sem lýst er í minnisblaði frá 22. október 2005 en það er sú spurning sem kæra máls þessa lýtur að. Minnisblaðið er meðal gagna málsins.
Varnaraðilinn Björgólfur hefur með afskiptum sínum af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti gengið inn í mál sóknaraðila og varnaraðilans Vignis þannig að jafna má til meðalgöngu í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 og telst hann því aðili málsins.
II
Í bókun sem varnaraðilinn Vignir lagði fram og las upp er hann var kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar 6. nóvember 2013 kemur fram að hann sé löggiltur endurskoðandi, einn eigenda PwC sem annaðist endurskoðun ársreikninga og könnun á árshlutareikningum Landsbanka Íslands hf. frá 1998 til 2008, og einn þeirra endurskoðenda sem unnið hafi þessi störf fyrir bankann. Með vísan til ákvæða 108. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sé honum hvorki skylt né heimilt að svara spurningum um hag Landsbanka Íslands hf. eða málefni bankans eða viðskiptamanna hans, sem hann kunni að hafa komist að eða fengið vitneskju um við framkvæmd starfa sinna fyrir bankann. Þá kemur einnig fram í bókuninni að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hafi höfðað einkamál á hendur PwC og krefji fyrirtækið skaðabóta vegna tjóns sem slitastjórnin telji að bankinn hafi orðið fyrir vegna háttsemi PwC við endurskoðun og könnun á reikningsskilum bankans. Þar sem varnaraðilinn sé einn eigenda og starfsmanna PwC megi ljóst vera að áfellisdómur í umræddu skaðabótamáli væri til þess fallinn að valda sér tilfinnanlegu fjárhagstjóni og geti hann því einnig með vísan til 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 skorast undan að svara spurningum sóknaraðila. Loks bendir varnaðili á að hafi þær athafnir, sem leitað er upplýsinga um í málinu, gerst með þeim hætti sem sóknaraðili heldur fram í beiðni sinni, kynnu þær að varða refsingu samkvæmt hlutafélagalögum og lögum um fjármálafyrirtæki, en samkvæmt lögum nr. 91/1991 verði vitni ekki gert að svara spurningu ef í því geti falist bending um að hann hafi framið refsiverðan verknað.
III
Með spurningu þeirri sem mál þetta varðar er þess krafist að varnaraðilinn Vignir útskýri aðdraganda og ástæður að baki þeim fundi, sem lýst er í minnisblaði frá 22. október 2005, en minnisblaðið er sem fyrr segir meðal gagna málsins. Það stafar frá varnaraðilanum Vigni, var sent Landsbanka Íslands hf. og ber heitið „Minnisatriði vegna birtinga [á] upplýsingum við tengda aðila í reikningsskilum Landsbankans.“ Fyrrgreindan fund sátu Birgir Már Ragnarsson framkvæmdastjóri Samsonar ehf. og auk hans samkvæmt því sem í minnisblaðinu segir „Vignir Rafn Gíslason og Hjalti Schiöth löggiltir endurskoðendur hjá [PwC], Haukur Þór Haraldsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans og Þór Þorláksson aðstoðarframkvæmdastjóri lögfræðisviðs og útlánaeftirliti.“
Í upphafi minnisblaðsins er tilgangi fundarins lýst og hann sagður haldinn svo unnt sé „að leggja mat á þörf á upplýsingagjöf um venslaða aðila í reikningsskilum Landsbanka Íslands hf. m.t.t. alþjóðlegs reikningsskilastaðals nr. 24 (IAS 24).“ Þá segir að Samson ehf. sé stærsti hluthafi Landsbanka Íslands hf. og nemi eignarhluturinn rúmlega 40% af heildarhlutafé bankans. Í upphafi árs 2005 hafi hluthafar í Samson ehf. verið þrír og eignarhlutföll skipst þannig að Björgólfur Guðmundsson hafi átti 42,5% hlutafjár, varnaraðilinn Björgólfur 42,5% og Magnús Þorsteinsson 15%. Upplýst hafi verið í tilkynningu til Kauphallar Íslands 9. ágúst 2005 að Magnús hafi selt hlut sinn í félaginu og í kjölfar þess hafi vaknað spurningar um hvort það breytti einhverju um fyrri niðurstöðu hvað varðar upplýsingar um tengda aðila í reikningsskilum.
Í framhaldinu er þess getið í minnisblaðinu að fyrri niðurstaða hafi verið „byggð á áfangaskýrslu hóps sem fjallaði um upplýsingar um venslaða aðila m.t.t. IAS 24 og viðræðum fulltrúa PwC í Bretlandi og Íslandi við formann hópsins, sem jafnframt er innri endurskoðandi Landsbankans. Samkvæmt þeirri niðurstöðu var álitið [að] bæði Samson og Björgólfur Guðmundsson væru venslaðir aðilar í skilningi 9. gr. IAS 24. Samson á grundvelli þess að félagið ætti það stóran eignarhlut í félaginu að það hefði s.k. mikilvæg áhrif (e: significant influence) á rekstur og stefnu Landsbankans en Björgólfur á grundvelli þess að hann var bankaráðsformaður. Hins [vegar] var það niðurstaðan að hvorki Björgólfur Thor né Magnús vær[u] venslaðir aðilar þar sem áhrif þeirra í Samson væru ekki það mikil að þeir gætu haft mikilvæg áhrif ... á rekstur [og] stefnu Landsbankans þar sem óbeint eignarhald þeirra í Landsbankanum í gegnum Samson nægði ekki til þess. Skilgreining á mikilvægum áhrifum er ekki alltaf fullkomlega ljós en taka má mið af skilgreiningum bæði í staðli IAS 24 (9. gr.) sem og í IAS 28 þar sem fjallað er um reikningsskil hlutdeildarfélaga. Við skilgreiningu á mikilvægum áhrifum er oft stuðst við 20% eignarhlut sbr. IAS 28 og hjá Björgólfi Thor reiknaðist óbeinn eignarhlutur 19% (44,79*42,5%). Hlutfallsútreikningurinn hér miðast við eignarhlutföll í upphafi árs 2005.“
Þá segir í minnisblaðinu að „Birgir Már ... upplýsti að Samson eignarhaldsfélag ehf. hefði sjálft keypt hlutinn af Magnúsi en sú ráðstöfun væri einungis tímabundin. Á meðan félagið á hlut í sjálfu sér falla atkvæði tengd honum niður á hluthafafundum þannig að tímabundið fara þeir Björgólfur og Björgólfur Thor með 50% atkvæða í Samson. Birgir Már var hins vegar mjög vel meðvitaður um að það gæti mögulega orsakað mikla breytingu á upplýsingum um venslaða aðila í reikningsskilum Landsbankans. Hann greindi frá því að það væri fyrirætlan Samson að breyta eignarhaldinu í félaginu fyrir árslok þannig að eignarhlutur Björgólfs Thors myndi fara í sama eða lægra hlutfall og það var í upphafi árs. Honum var gerð grein fyrir því á fundinum að ef það gerðist ekki væri líklegt að skilgreina yrði Björgólf Thor sem venslaðan aðila á grundvelli 9. gr. IAS 24 þannig að upplýsa þyrfti um viðskipti hans við bankann á grundvelli ákvæða í staðlinum og mögulega í öðrum IAS/IFRS stöðlum.“ Loks segir í minnisblaðinu að niðurstaða fundarins hafi verið sú „að breyta ekki skýringum á vensluðum aðilum gagnvart Samson og hluthöfum hans í árshlutauppgjöri 30. september 2005 nema í stað þess að segja frá því að Samson sé í eigu þriggja einstaklinga verður að koma fram að Samson sé í eigu þriggja aðila. Fyrir áramót verður síðan að fá frekari upplýsingar um stöðu á eignarhaldi í Samson og meta málið upp á nýtt m.t.t. ákvæða IAS 24 og þess sem hér hefur komið fram.“
Undir minnisblaðið ritaði varnaraðilinn Vignir og fylgiskjal með því var tilkynning til Kauphallar Íslands „vegna sölu á hlutum í Samson ehf., Samson Holdings og Topaz Equities 9.8.2005 15:17:55.“ Í tilkynningunni sagði að eignarhaldsfélög í eigu Magnúsar Þorsteinssonar hefðu þann dag „selt hluti sína í félögunum Samson eignarhaldsfélag ehf., Samson Global og Topaz Equities. Samson ... er eigandi að 44,78% hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., Samson Global er eigandi að 22,45% hlutafjár í Burðarási hf og Topaz Equities er eigandi að um 7,1% hlut í Straumi fjárfestingarbanka hf. Eftir viðskiptin eru Samson eignarhaldsfélag ehf., Samson Global og Topaz Equities í eigu eignarhaldsfélaga í eigu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Björgólfur Guðmundsson er formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hf. og Björgólfur Thor Björgólfsson er stjórnarformaður Burðaráss hf.“ Í framhaldi þessa voru taldir upp hluthafar, stærð hluta og hlutfallstala hlutafjár.
IV
Eins og fyrr greinir telur varnaraðilinn Vignir sér hvorki heimilt né skylt að svara þeirri spurningu sem kæra málsins lýtur að og vitnar í því sambandi til ákvæða laga nr. 79/2008, laga nr. 161/2002 og laga nr. 3/2006. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008 eru endurskoðendur, starfsmenn þeirra, eftirlitsaðilar og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu endurskoðenda eða eftirlitsaðila bundnir þagnarskyldu um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 kemur fram að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 3/2006 er endurskoðendum, skoðunarmönnum og samstarfsmönnum þeirra óheimilt að veita einstökum félagsaðilum eða óviðkomandi aðilum upplýsingar um hag félagsins.
Gegn framangreindum rökum í bókun varnaraðilans Vignis bendir sóknaraðili á að minnisblað það sem um ræði í spurningunni og efni þess liggi fyrir í málinu og lúti spurningin að því hver hafi verið aðdragandi fundarins sem þar sé vísað til og ástæða þess að hann var haldinn. Með því að svara spurningunni sé varnaraðilinn ekki að upplýsa um einkahagi Landsbanka Íslands hf. Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu að upplýsingar um tengda aðila og hvernig þær rati inn í reikninga bankans séu ekki einkahagir Landsbanka Íslands hf. í skilningi b. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 og í öðru lagi þar sem upplýsingarnar séu þegar opinberar. Í þriðja lagi telur sóknaraðili að það felist ekki í svörum við spurningunni að varnaraðilinn sé að upplýsa um atvik eða hagi Landsbanka Íslands hf. sem hann hafi komist að í starfi sínu sem endurskoðandi fyrir bankann. Loks heldur sóknaraðili því fram að verði komist að þeirri niðurstöðu að spurningin varði upplýsingar sem leynt skuli fara séu hagsmunir hans af því að varnaraðilinn svari spurningunni miklu meiri en hugsanlegir hagsmunir Landsbanka Íslands hf. af því að sömu upplýsingar fari leynt. Skipti þar mestu að bankinn sé í slitameðferð og hlutabréf hans ekki lengur skráð í kauphöll. Þá liggi fyrir að ítarlegar upplýsingar um starfsemi bankans, áður en hann var tekinn til slitameðferðar, hafi verið birtar opinberlega, meðal annars í rannsóknarskýrslu Alþingis. Því sé vandséð hvaða hagsmuni bankinn hafi af því að ekki sé fjallað um sömu atvik fyrir dómi í máli þessu. Verði ekki séð hvernig hægt sé að hafa hagsmuni af því að eitthvað fari leynt eftir að það hafi verið gert opinbert.
V
Spurning sú sem kæra málsins lýtur að varðar aðdraganda og ástæður þess að fundur sá var haldinn 20. október 2005 um málefni Landsbanka Íslands hf. sem frá greinir í minnisblaði varnaraðilans Vignis 22. október sama ár en efni þess er áður rakið. Á þeim tíma sem umræddur fundur var haldinn laut Landsbanki Íslands hf. í starfsemi sinni meðal annars ákvæðum laga nr. 161/2002. Um fjármálafyrirtæki hafa um nokkurt skeið gilt hér á landi sérstakar reglur sem setja eignarhaldi þeirra þrengri skorður en almennt gilda um eignarhald annarra fyrirtækja. Birtast takmarkanirnar einkum í reglum laga nr. 161/2002 um virka eignarhlutdeild en þær voru upphaflega leiddar í lög hér á landi með lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði.
Í gögnum málsins kemur fram að Samson ehf. sótti um samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum félagsins á virkum eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. með bréfi 12. nóvember 2002 og féllst eftirlitið á umsóknina með ákvörðun 3. febrúar 2003. Eins og áður er rakið kom fram í fyrrgreindu minnisblaði að Samson ehf. væri stærsti hluthafi Landsbanka Íslands hf. og næmi eignarhlutur hans rúmlega 40% af heildarhlutafé bankans. Þá sagði þar að í upphafi árs 2005 hefðu hluthafar í Samson ehf. verið þrír en upplýst hefði verið í tilkynningu til Kauphallar Íslands 9. ágúst 2005 að einn af þremur hluthöfunum, Magnús Þorsteinsson, hefði þann dag selt hlut sinni í félaginu. Í kjölfarið hefðu vaknað spurningar um hvort þetta breytti einhverju um fyrri niðurstöðu gagnvart upplýsingum um tengda aðila í reikningsskilum bankans. Samkvæmt þessu er ljóst að tilefni fundarins 20. október 2005 var framangreind breyting á eignarhaldi í Samson ehf. og tilgangi fundarins var lýst svo í minnisblaðinu að hann væri haldinn til „að fá upplýsingar frá Birgi [Má Ragnarssyni] um stöðu eignarhalds í Samson svo hægt væri að leggja mat á þörf á upplýsingagjöf um venslaða aðila í reikningsskilum Landsbankans m.t.t. alþjóðlegs reikningsskilastaðals nr. 24 (IAS 24).“
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002, eins og ákvæðið var þegar Samson ehf. fékk samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum félagsins á virkum eignarhlut í Landsbanka Íslands hf., skyldi aðili sem hafði í hyggju að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Þá skyldi samþykkis Fjármálaeftirlitsins enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili yki svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti færi yfir 20, 33 eða 50% eða næmi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki yrði talið dótturfyrirtæki hans. Í 2. mgr. 40. gr. var virkur eignarhlutur skýrður svo að átt væri við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem næmi 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem gerði kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 161/2002 sagði meðal annars í skýringum við 40. gr. að til þess væri ætlast að samþykkis Fjármálaeftirlitsins væri aflað hverju sinni er aðili færi yfir tilgreind mörk. Færi hann niður fyrir þau, þótt aðeins í skamman tíma væri, skyldi honum eftir sem áður skylt að beina nýrri umsókn til Fjármálaeftirlitsins hygðist hann fara yfir mörkin að nýju. Hugtakið virkur eignarhlutur var nánar skýrt með dæmum og sagt að hvers konar samstilltar aðgerðir, hverju nafni sem nefndust, kynnu þannig að falla undir virka eignarhlutdeild. Þá sagði í athugasemdunum að óbein hlutdeild aðila nægði til þess að hann yrði talinn eigandi virks eignarhluta í skilningi ákvæðisins. Með óbeinni hlutdeild væri átt við að ekki væri nauðsynlegt að aðili væri sjálfur eigandi hlutanna eða atkvæðisréttarins, heldur nægði að hann réði með einhverjum öðrum hætti yfir virka eignarhlutanum. Aðili gæti til dæmis öðlast slík yfirráð með því að eignast ráðandi hlut í móðurfélagi ef samanlagður eignarhlutur þess og dótturfélags í fjármálafyrirtæki væri yfir þeim mörkum sem ákvarði hvað teljist virkur eignarhlutur. Að öðrum kosti væri fjárfestum hægðarleikur að dreifa eignarhaldi sínu á ýmis félög í sömu félagasamstæðunni og komast þannig hjá reglunum. Undir óbeina hlutdeild félli einnig það tilvik þegar tveir eða fleiri hluthafar kæmu sér saman um samræmda beitingu samanlagðs atkvæðisréttar. Ljóst væri að örðugt kynni að vera að færa sönnur á að slíkt samkomulag væri fyrir hendi en Fjármálaeftirlitinu væri hins vegar ætlað að nýta rannsóknarheimildir sínar til að grafast fyrir um hvort svo væri.
Varnaraðilinn Vignir hefur sem fyrr segir vikist undan því að svara spurningu þeirri sem kæra málsins lýtur að meðal annars með vísan til þagnarskylduákvæða í lögum nr. 161/2002, lögum nr. 3/2006 og lögum nr. 79/2008. Í því sambandi er þess að gæta að svo unnt væri að fá heimild Fjármálaeftirlitsins til að eignast virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. þurfti Samson ehf. að veita eftirlitinu ítarlegar upplýsingar samkvæmt VI. kafla laga nr. 161/2002, þar á meðal um eignarhald félagsins og tengsl þess við aðra lögaðila. Jafnframt hvíldi sú viðviðarandi skylda á félaginu og eigendum þess að veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar um breytingar á eignarhaldinu og atriði sem að því lutu svo sem nánar var rakið í þágildandi 107. gr. laga nr. 161/2002 og 52. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga sem þá giltu. Þá er til þess að líta að stjórn Landsbanka Íslands hf. skyldi samkvæmt ákvæðum XI. kafla laga nr. 161/2002 semja ársreikning félagsins fyrir hvert rekstrarár sem ásamt skýrslu stjórnar myndaði eina heild. Í skýrslu stjórnar bankans skyldi meðal annars upplýsa um hundraðshluta hlutafjár þeirra hluthafa sem áttu a.m.k. 10% hlutafjár í félaginu í loks ársins. Af þessu leiddi að upplýsingar um breytingar á eignarhaldi í Samson ehf. gátu eftir atvikum ratað í ársreikning Landsbanka Íslands hf. Ársreikningur bankans ásamt skýrslu stjórnar hans skyldi sendur Fjármálaeftirlitinu og liggja frammi á afgreiðslustað bankans og afhentur hverjum viðskiptaaðila sem þess óskaði innan tveggja vikna frá samþykkt aðalfundar. Þá hvíldi sú skylda á Landsbanka Íslands hf. samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 3/2006 að senda ársreikning sinn með þeim upplýsingum sem þar komu fram til ársreikningaskrár og samkvæmt 3. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 skyldi ársreikningaskrá veita aðgang að þeim gögnum sem skilaskyld voru samkvæmt þeirri grein.
Eins og áður greinir ber minnisblaðið 22. október 2005 það með sér að fundurinn 20. sama mánaðar var haldinn til þess að meta hvaða áhrif þær breytingar, sem orðið höfðu á eignarhaldi í Samson ehf., hefðu á tilgreiningu tengdra aðila í reikningsskilum Landsbanka Íslands hf. og hvernig fullnægt skyldi lögbundinni upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins af sama tilefni. Þegar virtar eru framangreindar reglur um skyldu fyrirsvarsmanna Samsonar ehf. og Landsbanka Íslands hf. til að veita réttar upplýsingar af þessu tilefni, og hafðar í huga þær reglur sem giltu um aðgang að þeim upplýsingum, verður ekki talið að þar sé um að ræða upplýsingar sem leynt skyldu fara samkvæmt lögum eða eðli máls í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008. Þá verða umræddar upplýsingar af sömu ástæðum hvorki taldar hafa varðað viðskipta- eða einkamálefni Samsonar ehf. og Landsbanka Íslands hf. í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 né hafa varðað hag þessara fyrirtækja í skilningi 108. gr. laga nr. 3/2006 þannig að um efni þeirra hvíldi þagnarskylda. Af þessu leiðir að hafi fundurinn 20. október 2005 verið haldinn til þess að meta með hvaða hætti lögum samkvæmt skyldi brugðist við þeim aðstæðum sem upp voru komnar getur varnaraðilinn Vignir, með vísan til þeirrar meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, ekki skorast undan að svara þeirri spurningu hver var aðdragandi þess að fyrrgreindur fundur var haldinn og ástæður þar að baki.
Til þess er á hinn bóginn að líta að varnaraðilinn Vignir telur einnig að sér sé ekki skylt að svara spurningu þeirri sem kæra málsins lýtur að með vísan til 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því ákvæði getur vitni skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari þess gæti falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjártjóni. Af þessu leiðir að hafi í aðdraganda fyrrgreinds fundar með einhverjum hætti verið rætt, hvort ástæða væri til að fara á svig við framangreindar lagareglur um skyldu til upplýsingagjafar og birtingu upplýsinga vegna breytinga á eignarhaldi í Samson ehf., getur varnaraðilinn Vignir með vísan til 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 að því marki vikist undan að svara spurningu þeirri sem kæra málsins lýtur að.
Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðilanum Björgólfi gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að í hinum kærða úrskurði er ítrekað rætt um vitnastefnanda og vitnastefnda en þessi hugtök eiga sér ekki stoð í réttarfarslögum eftir gildistöku laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Varnaraðilanum Vigni Rafni Gíslasyni er skylt að svara spurningu sóknaraðila, Vilhjálms Bjarnasonar, um aðdraganda og ástæður að baki fundi þeim er haldinn var 20. október 2005 og frá greinir á dómskjali nr. 21. Þó er varnaraðilanum Vigni ekki skylt að svara spurningunni að því marki sem slíkt kann að fella á hann ábyrgð af því tagi sem greinir í 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðilinn Björgólfur Thor Björgólfsson greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2013.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. september 2012, fór vitnastefnandi, Vilhjálmur Bjarnason, Hlíðarbyggð 18, Garðabæ, þess á leit við dóminn að honum yrði heimilað, á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi, að leita sönnunar um atvik sem vörðuðu lögvarða hagsmuni hans og gætu ráðið úrslitum um málshöfðun á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, 55 Clarendon Road, Notting Hill, London, Bretlandi.
Við þingfestingu málsins 29. október 2012 krafðist vitnastefndi þess að beiðni vitnastefnanda yrði hafnað. Með dómi Hæstaréttar Íslands 15. maí sl. í máli nr. 259/2013 féllst rétturinn á að vitnastefnanda væri heimilt að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um þau atriði sem kröfugerð hans tæki til, að því undanskildu að vitnastefnda yrði ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.
Vitnið Vignir Rafn Gíslason, kt. 140464-5759, var með vitnakvaðningu, útgefinni 18. október sl., kvaddur fyrir dóm 6. nóvember sl. kl. 9:15 til að gefa skýrslu í þessu máli. Í upphafi skýrslugjafar var lögð fram bókun vitnisins, sem vitnið hafði áður lesið upp í heyranda hljóði.
Í bókuninni kemur fram að vitnið sé löggiltur endurskoðandi og einn eigenda endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers ehf. (hér eftir nefnt ,,PwC“) sem hafi annast endurskoðun á ársreikningum og könnun á árshlutareikningum fyrir Landsbanka Íslands hf. allt frá árinu 1998 og til ársins 2008. Vitnið sé einn þeirra endurskoðenda sem hafi unnið þessi störf fyrir bankann.
Með hliðsjón af þagnarskylduákvæðum 108. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki telji vitnið sér hvorki heimilt né skylt að veita upplýsingar eða svara spurningum um hag Landsbanka Íslands hf. eða málefni bankans eða viðskiptamanna hans sem hann kunni að hafa komist að eða fengið vitneskju um við framkvæmd starfa sinna fyrir bankann.
Þá upplýsi vitnið að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hafi höfðað einkamál á hendur PwC og krafist skaðabóta vegna tjóns sem slitastjórnin telji að bankinn hafi orðið fyrir vegna háttsemi PwC við endurskoðun og könnun á reikningsskilum bankans. Þar sem vitnið sé einn eigenda og starfsmanna PwC sé ljóst að áfellisdómur í umræddu skaðabótamáli slitastjórnarinnar væri til þess fallinn að valda vitninu tilfinnanlegu fjárhagstjóni, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991.
Loks bendi vitnið á að hefðu þær athafnir, sem leitað sé upplýsinga um, gerst með þeim hætti sem vitnastefnandi haldi fram í beiðni sinni, kynnu þær að varða refsingu samkvæmt lögum nr. 161/2002 og lögum nr. 2/1995 um hlutafélög. Samkvæmt lögum um meðferð einkamála verði vitni ekki gert að svara spurningu ef í því geti falist bending um að vitnið hafi framið refsiverðan verknað.
Því telji vitnið að það geti einnig, með vísan til umræddra ákvæða laga um meðferð einkamála, skorast undan að svara spurningum sem varða störf vitnisins eða PwC fyrir Landsbanka Íslands hf.
Dómari ákvað að lögmaður vitnastefnanda fengi að leggja spurningar fyrir vitnið. Vitnið neitaði að svara fyrstu tveimur spurningum lögmannsins með vísan til þeirra röksemda sem fram koma í bókun vitnisins. Um er að ræða eftirfarandi spurningar:
Hverjir komu að vinnu við mat á því hvort vitnastefndi myndi teljast tengdur aðili að Landsbanka Íslands hf. af hálfu PricewaterhouseCoopers, Landsbankans og þá mögulega starfsmenn Samson eða Novator.
Vitnið útskýri aðdraganda og ástæður að baki þeim fundi sem lýst er í minnisblaði frá 22. október 2005 á dskj. nr. 21.
Lögmaður vitnastefnanda krafðist þess að vitnið svaraði spurningunum. Lögmenn aðila og dómari urðu ásáttir um að fresta frekari skýrslutöku af vitninu þar til úrskurður dómara lægi fyrir um það hvort vitninu væri heimilt að svara framangreindum spurningum. Krafan var tekin til úrskurðar í þinghaldinu eftir að lögmenn aðila og vitnið höfðu tjáð sig.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 gildir sú meginregla í íslensku einkamálaréttarfari að hverjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik. Þessi skylda er þó ekki fortakslaus því að í 52. gr. sömu laga er mælt fyrir um aðstæður þar sem vitni er óskylt að svara spurningu og í 53. gr. laganna er lýst aðstæðum þar sem vitni er óheimilt að svara spurningu.
I
Samkvæmt b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er vitni óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi sem m.a. endurskoðandi. Orðin ,,einkahagi manns“ eru ekki skýrð í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 91/1991. Sambærilegt ákvæði er í b-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og fram kemur í athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim lögum að fyrirmynd þeirra er sótt til b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar Íslands 8. október sl. í máli nr. 408/2013 var tekin afstaða til skýringar b-liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi réttarins var því slegið föstu að undir ákvæðið gæti fallið einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni einstaklinga jafnt sem lögpersóna, að því tilskildu að þeim sérfræðingum, sem taldir séu upp í ákvæðinu eða gegna öðrum störfum er jafn rík trúnaðarskylda fylgi, hafi verið trúað fyrir slíkum upplýsingum í starfi þeirra. Að mati dómsins verður að skýra hugtakið ,,einkahagi manns“ í b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 og b-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 með sama hætti. Því verður að túlka ákvæði b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 á þann veg að það nái líka yfir einkahagi lögaðila. Í dómi Hæstaréttar var því einnig slegið föstu að við skýringu á b-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, sem feli í sér undantekningu frá vitnaskyldu, verði að líta til þess að því sé ætlað að vernda trúnaðarsamband sérfræðings og skjólstæðings, sem til hans leitar, þannig að skjólstæðingurinn geti almennt treyst því að upplýsingar, sem hann lætur sérfræðingnum í té um einkahagi sína, verði ekki síðar notaðar gegn honum í sakamáli án hans vilja. Að mati dómsins eiga sömu sjónarmið við um skýringu b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.
Í d-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi.
Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur er kveðið á um þagnarskyldu m.a. endurskoðenda um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Kveðið er á um þagnarskyldu m.a. endurskoðenda í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki varðandi allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækis, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum og helst þagnarskyldan þótt látið sé af starfi.
Í athugasemdum við 58. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 161/2002 segir m.a. að upplýsingar sem leynt eigi að fara geti bæði verið viðskiptalegs og persónulegs eðlis. Enda þótt beiting ákvæðisins hljóti ávallt að vera háð mati yrði í vafatilvikum að telja að upplýsingar sem fjármálafyrirtæki byggi yfir um viðskiptamann sinn féllu undir þagnarskyldu, nema atvik bentu til annars.
Samkvæmt þessu er ljóst að ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 er fyrst og fremst ætlað að vernda viðskiptahagsmuni viðskiptavinar fjármálafyrirtækis, en ekki hagsmuni fjármálafyrirtækisins, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands 20. janúar 2010 í máli nr. 758/2009.
Í 108. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga segir að m.a. endurskoðendum sé óheimilt að veita einstökum félagsaðilum eða óviðkomandi aðilum upplýsingar um hag félagsins.
Fram kemur í 1. mgr. 91. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, eins og greininni var breytt með 11. gr. laga nr. 68/2010 og 6. gr. laga nr. 13/2010, að félagsstjórn og framkvæmdastjóri skuli leggja fram á hluthafafundi upplýsingar um þau málefni, sem skipta máli um mat á ársreikningi félagsins og stöðu þess að öðru leyti eða áhrif geta haft á afstöðu hluthafa til mála, er ákvörðun á að taka um á fundinum, þegar hluthafi krefst þess og slíkt má verða án verulegs tjóns fyrir félagið að mati félagsstjórnar. Tekið er fram að upplýsingaskyldan eigi einnig við um samband félagsins við félög innan sömu samstæðu og hlutafjáreign einstakra hluthafa og atkvæðisrétt þeirra. Upplýsingar, sem lagðar séu fram í opinberum hlutafélögum, geti m.a. byggst á spurningum hluthafa til félagsstjórnar og framkvæmdastjóra.
II
Fyrir liggur að vitnið er löggiltur endurskoðandi og annaðist endurskoðun á ársreikningum og könnun á árshlutareikningum fyrir Landsbanka Íslands hf. frá árinu 1998 til ársins 2008, ásamt fleiri endurskoðendum hjá endurskoðunarfyrirtækinu PwC.
Ákvæði 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur leggur þagnarskyldu á endurskoðendur um allt sem þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt og helst þagnarskyldan þótt látið sé af starfi. Af þessu ákvæði verður skýrlega ráðið að endurskoðendur eru bundnir ríkri þagnarskyldu gagnvart viðskiptavinum sínum. Ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki mælir einnig fyrir um ríka þagnarskyldu endurskoðenda um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækis, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum og helst þagnarskyldan þótt látið sé af starfi. Ákvæði 108. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga mælir síðan fyrir um að endurskoðendum sé óheimilt að veita einstökum félagsaðilum eða óviðkomandi aðilum upplýsingar um hag félagsins.
Fyrir liggur að vitnastefnandi var hluthafi í Landsbanka Íslands hf. og þar með félagsaðili í bankanum í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum er endurskoðendum ekki skylt að veita upplýsingar um hag félags samkvæmt lögum í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008 og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, heldur er það þvert á mót beinlínis óheimilt samkvæmt 108. gr. laga nr. 3/2006. Af þessu leiðir einnig að það sem endurskoðendur kunna að komast að um hag félags vegna starfa sinna við endurskoðun á ársreikningum og könnun á árshlutareikningum félags er einkamálefni viðkomandi félags í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Spurningar þær sem vitnið neitaði að svara eru tvær. Hvað varðar fyrri spurninguna verður ekki séð að spurningin varði einkahagi vitnastefnda eða Landsbanka Íslands hf. sem vitninu hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að í starfi sem trúnaðarskylda fylgir í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, eða leyndarmál um viðskipti sem vitnið hefur komist að í starfi í skilningi d-liðar sömu málsgreinar, enda er hér einungis spurt um það hvaða starfsmenn hafi komið að tilteknu starfi eða verkefni. Ekki verður heldur séð að í svar við spurningunni geti falist játning eða bending um að vitnið hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því tilfinnanlegu fjárhagstjóni, sbr. 3. mgr. 52. gr. sömu laga. Þótt þeim starfsmönnum sem um ræðir kunni að vera óheimilt að svara spurningum um starfið á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 79/2008, 58. gr. laga nr. 161/2002 og 108. gr. laga nr. 3/2006 leiðir það ekki til þess að vitninu sé óheimilt að greina frá nöfnum þeirra. Verði þess krafist síðar að skýrsla verði tekin af viðkomandi starfsmönnum á grundvelli ákvæða XII. kafla laga nr. 91/1991 er vitnastefnda mögulegt að gæta hagsmuna sinna við þær skýrslutökur, s.s. með því að krefjast úrskurðar dómara um spurningar sem hann telur þeim starfsmönnum óheimilt að svara. Sama rétt hafa viðkomandi starfsmenn. Verður því fallist á að vitninu sé skylt að svara spurningunni.
Síðari spurningin varðar hag Landsbanka Íslands hf. sem vitnið komst að vegna starfa sinna sem endurskoðandi bankans. Spurningin varðar því einkahagi þess félags sem vitnið hefur komist að í starfi sem endurskoðandi í skilningi b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Er vitninu því óheimilt að svara spurningunni. Ákvæði 1. mgr. 91. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög breytir ekki þessari niðurstöðu, enda hvílir skylda samkvæmt því ákvæði á félagsstjórn og framkvæmdastjóra hlutafélags, en ekki á endurskoðanda.
Landsbanki Íslands hf. er í slitameðferð. Ekki hefur komið fram að slitastjórn bankans hafi gefið vitninu leyfi til að svara síðari spurningunni. Vitninu er því óheimilt að svara spurningunni samkvæmt b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, nema skilyrði 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt.
Í 3. mgr. 53. gr. er gerð sú undantekning frá þessu banni að ef dómari telur hagsmuni aðila verulega meiri af því að upplýst verði um atriði samkvæmt b- til d-lið 2. mgr. en hagsmuni hlutaðeiganda af því að leynd verði haldið, geti hann þá eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningu þótt leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli þá svarið ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem á ekki aðild að máli. Landsbanki Íslands hf. er ekki aðili að þessu máli og er þegar af þeirri ástæðu ekki lagaheimild fyrir því að dómari leggi fyrir vitnið að svara umræddri spurningu.
Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki þörf á að fjalla um það hvort vitninu sé óskylt að svara þessari spurningu með vísan til 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Vitninu Vigni Rafni Gíslasyni er skylt að svara eftirfarandi spurningu:
Hverjir komu að vinnu við mat á því hvort vitnastefndi myndi teljast tengdur aðili að Landsbanka Íslands hf. af hálfu PricewaterhouseCoopers, Landsbankans og þá mögulega starfsmenn Samson eða Novator.
Vitninu er óheimilt að svara eftirfarandi spurningu:
Vitnið útskýri aðdraganda og ástæður að baki þeim fundi sem lýst er í minnisblaði frá 22. október 2005 á dskj. nr. 21.