Hæstiréttur íslands
Mál nr. 593/2006
Lykilorð
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Kærumál
|
|
Mánudaginn 20. nóvember 2006. |
|
Nr. 593/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hennar, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. janúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hún verði látin sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds eða henni gert að leggja fram tryggingu samkvæmt 109. gr. laga nr. 19/1991. Að því frágengnu krefst hún að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms
Reykjavíkur 16. nóvember 2006.
Lögreglan
í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt.
og heimilisfang], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur
í máli hennar, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 18. janúar nk. kl. 16.00.
Í
greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru útgefinni 1. nóvember 2006
hafi ríkissaksóknari höfðað opinbert mál á hendur X o.fl. fyrir stórfellt
fíkniefnabrot. Sé ákærðu gefið að sök að hafa átt aðild að innflutningi á
1.980,87 g af kókaíni til landsins. Umrædd fíkniefni hafi verið flutt til
landsins frá Spáni þann 9. ágúst sl. og fundust við leit í farangri A þegar hún
kom til landsins um Keflavíkurflugvöll. Þáttur ákærðu í málinu sé talinn
verulegur þar sem hún sé talin hafa haft milligöngu um flutning fíkniefnanna
til Íslands með því að hafa í júlí sett sig í samband við meðákærða B og beðið
hann um að finna samverkamenn til að sækja fíkniefnin til Spánar og flytja þau
til Íslands. Fyrir milligöngu meðákærða B hafi ákærða hitt hann ásamt meðákærða
C nokkrum dögum síðar á heimili sínu í þessu skyni þar sem lagt hafi verið
nánar á ráðin um innflutning fíkniefnanna. Ákærða hafi hitt meðákærða C aftur í
lok júlí að Laugavegi 143 sem og daginn eftir á heimili sínu þar sem ákærða
hafi veitt honum frekari upplýsingar um skipulag ferðarinnar og tilhögun
hennar. Frá 2. til 5. ágúst hafi ákærða
verið í síma- og netsamskiptum við meðákærða C og veitt honum nauðsynlegar
leiðbeiningar til að hann gæti mælt sér mót við meðákærða D á Benidorm í því
skyni að móttaka frá honum fíkniefnin og flytja þau til Íslands. Að beiðni óþekkts vitorðsmanns hafi ákærða
lagt til kr. 30.000 inn á bankareikning meðákærða D í því skyni að hann gæti
greitt kostnað vegna ferðalaga til að sækja og flytja fíkniefnin á Spáni fram
að afhendingu þeirra. Ákærða hafi hyggst móttaka fíkniefnin frá meðákærðu C og
A á Keflavíkurflugvelli eftir komu þeirra til landsins. Sakargiftir á hendur
ákærðu styðjist við þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu.
Ákærða
sé því undir sterkum grun um að hafa framið brot sem geti varðað hana allt að
12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr.
64/1974, sbr. lög nr. 32/2001, og telji ákæruvaldið því að skilyrði séu til
áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um
meðferð opinberrra mála.
Ákærða
hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 10. ágúst 2006, sbr. úrskurði
Héraðsdóms Reykjavíkur í málum R-410/2006, 448/2006 og 528/2006 og dóma
Hæstaréttar í málum nr. 472/2006 og 527/2006.
Hæstiréttur
hafi tekið undir það álit ákæruvalds að fyrir liggi sterkur grunur um að ákærða
hafi framið brot sem getur varðað hana allt að 12 ára fangelsi, sbr. fyrrnefnda
dóma Hæstaréttar í málum ákærðu nr. 472/2006 og 527/2006.
Með
vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð
opinberra mála sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Ákærða hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 10. ágúst sl.,
fyrst vegna rannsóknarhagsmuna en frá 24. ágúst sl. á grundvelli
almannahagsmuna. Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 472/2006 og 527/2006
var það metið svo að þáttur ákærðu í innflutningi fíkniefna væri með þeim hætti
að rétt væri að hún skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.
Ekki verður séð að forsendur fyrir því mati hafi breyst við áframhaldandi
meðferð málsins. Ákærða sem hefur játað aðild sína að fíkniefnabroti er ákærð
fyrir að hafa að beiðni óþekkts vitorðsmanns haft milligöngu um flutning
fíkniefna til Íslands. Fyrir liggur að ákæra í málinu var gefin út 1. nóvember
sl. og málið þingfest 10. nóvember sl. og frestað til gagnaöflunar til 23.
nóvember nk. Meðferð máls þessa hefur gengið eðlilega fyrir sig og ekki dregist
úr hófi að því er séð verður. Brot það sem ákærðu er gefið að sök varðar allt
að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a.
laga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Brotið er þess eðlis að telja verður
gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og ekki efni til að
beita vægari úrræðum, sbr. 109. og 110. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt þessu er
fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir
ákærðu. Verður því fallist á kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald,
eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð :
Ákærða,
X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli
hennar, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 18. janúar nk. kl. 16.00.