Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/1999
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Vörslur
|
|
Fimmtudaginn 30. september 1999. |
|
Nr. 88/1999. |
Gunnar Þór Sveinsson (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) gegn Vatnsnesi sf. Eyjólfi Sverrissyni og Sverri Sverrissyni (Karl Axelsson hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Vörslur.
Vél bifreiðar í eigu G skemmdist þegar bifreiðin var í vörslum bílasölunnar B. Héraðsdómur skipaður sérfróðum meðdómendum taldi að sterkar líkur væru á því að skemmdirnar hefðu verið komnar á byrjunarstig áður en bifreiðin kom á bílasöluna og að ósannað væri að tjónið mætti rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna hennar. Ekki var talið að G hefði hnekkt þessari niðurstöðu og var héraðsdómur staðfestur um sýknu eigenda B af kröfum G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 1999 og krefst þess aðallega að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér 615.819 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. apríl 1999 til greiðsludags, en til vara aðra lægri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Félagið hefur ekki látið málið til sín taka.
Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt matsgerð dómkvadds bifvélavirkjameistara 29. apríl 1999, þar sem áætlaður viðgerðarkostnaður á vél bifreiðar þeirrar, er málið varðar, er talinn nema samtals 615.819 krónum. Hefur áfrýjandi lækkað kröfu sína í samræmi við það.
Svo sem greint er í héraðsdómi komu fram verulegar skemmdir í vél bifreiðar áfrýjanda þegar hún var í vörslum bílasölu stefndu í september 1997. Í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var komist að þeirri niðurstöðu, að sterkar líkur væru á því að þær skemmdir, sem reyndust vera á vél bifreiðarinnar, hafi verið komnar á byrjunarstig áður en henni var ekið til reynslu hjá bílasölunni, og að ósannað væri að tjónið mætti rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna stefndu. Áfrýjandi hefur ekki með nýrri matsgerð eða á annan hátt hnekkt þessari niðurstöðu. Verður því ekki komist hjá að staðfesta héraðsdóm með vísan til forsendna hans um annað en málskostnað.
Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 1998.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. nóvember 1998, er höfðað með stefnu birtri 12. 2. 1998 gegn Eyjólfi Sverrissyni, kt. 040257-3229, Baldursgarði 4, Keflavík og Sverri Sverrissyni kt. 190663-3889, Heiðarbóli 27, Keflavík báðum persónulega og fyrir hönd Vatnsness sf., kt. 570292-2349, Grófinni 15c, Keflavík til greiðslu skaðabóta.
Þá er Sjóvá Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, stefnt til réttargæslu í málinu með stefnu birtri 17. 2. 1998.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu in solidum verði gert að greiða honum kr. 784.065.- með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 52.456,- frá 6. febrúar 1998 til 24. apríl 1998, en af kr. 455.262,- frá þeim degi til 9. september 1998, en af kr. 784.065,- frá þeim degi til greiðsludags, eða lægri fjárhæð að mati dómsins.
Þá er þess krafist, að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Loks er krafist virðisaukaskatts af tildæmdum málskostnaði.
Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara að fjárhæðir dómkrafna verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Af hálfu réttargæslustefndu eru engar sjálfstæðar dómkröfur gerðar, enda eru engar sjálfstæðar kröfur gerðar á hendur félaginu.
II.
Stefndi Vatnsnes sf. rak Bílasölu Keflavíkur að Hafnargötu 90, Keflavík. Vegna rekstrarins hafði stefndi keypt starfsábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf., sbr. nánar rgj. nr. 406/1994, sem sett er með stoð í 5. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994 með síðari breytingum.
Stefnandi þessa máls keypti í Bandaríkjunum árið 1996 sportbifreið, Mitsubishi 3000, GT VR 4, árgerð 1991, og flutti hana til landsins. Bifreiðin hefur skráningarnúmerið FT-693.
Kveður stefnandi bifreiðina hafa verið í fyrsta flokks ástandi er hann keypti hana og hafi látið smyrja hana reglulega og farið vel með hana. Í lok september 1997 setti stefnandi bifreiðina í sölumeðferð hjá stefnda. Virðist hún þá hafa verið ekin um 70 þúsund mílur samkvæmt mæli. Þar sem um óvenju kraftmikla bifreið sé að ræða kveðst stefnandi hafa brýnt fyrir sölumönnum bílasölunnar að gæta varúðar við sölumeðferð hennar, og lagt áherslu á að einungis líklegir kaupendur fengju að reynsluaka bifreiðinni og að ávallt yrði starfsmaður viðstaddur skoðun og reynsluakstur hennar.
Nokkrum dögum síðar kveðst stefnandi hafa grennslast fyrir um það hvernig gengi með söluna. Honum hafi þá verið tjáð að eitthvað mikið væri að bifreiðinni. Hann hafi þá farið á bílasöluna og sannfærst um að svo væri, tekið bifreiðina og látið draga hana fyrst á smurstöðina Klöpp og síðan á verkstæði Þ. Jónssonar og Co. í Reykjavík. Framlögð yfirlýsing verkstæðisins dags. 24. nóvember 1997 hljóðar svo:
„Vélaverkstæðið Þ. Jónsson og Co Vélaland hf. hefur tekið í sundur og kannað skemmdir í vél bifreiðarinnar FT-693. Í framhaldi af því er gerð eftirfarandi: Skoðunargerð fyrir bifreiðina FT-693:
1. Lýsing á fyrirliggjandi skemmdum: Sveifarás vélar er ónýtur vegna úrbræðslu og blokk er kreppt á höfuðlegum sem orsakast af úrbræðslunni. Ein stimpilstöng er útglennt og rifin. Smurdæla er ónýt vegna svarfs úr hinum úrbræddu legum.
2. Könnun á hugsanlegum frekari skemmdum: Túrbínur eru lausar og liðugar en eindregið er mælt með því að þær verði sendar í ítarlega sérfræðilega skoðun (Blossi).
Ástæða tjónsins: Við teljum að vél bifreiðarinnar hafi orðið fyrir miklu yfirálagi. Slíkt yfirálag orsakast annað hvort af því að vélinni er ekið á miklum snúningshraða eða bifreiðinni skipt niður á mikilli ferð og vélin þannig sett á mikinn yfirsnúning. Í ljósi þessa mikla skaða sem vélin hefur orðið fyrir verður að ætla að henni hafi verið ekið nokkuð eftir að úrbræðsla átti sér stað. Slíkar vélaskemmdir eins og hér um ræðir geta ekki átt sér stað við eðlilega notkun bifreiðarinnar og verður því ekki annað ályktað en það að vélin hafi orðið fyrir misnotkun.”
Stefnandi hefur lagt fram ljósrit reikninga fyrir viðgerð þeirri sem fram fór á bílnum sem hann byggir aðalkröfu á:
1. Reikning frá smurstöðinni Klöpp ehf. dags. 24. apríl 1998 vegna kaupa á vél frá Bandaríkjunum:
|
Innkaupsverð vélar $ 4.275 |
|
|
Tollverð 82,15 kr. |
351.191 kr. |
|
Tollur og gjöld |
51.625 kr. |
|
Alls |
402.816 kr. |
2. Reikningur frá Vélalandi ehf. dags. 9.9.1998:
|
Vinna við vél, vél úr og í, samt. 114 klst + efni |
328.803 kr. |
3. Reikningur frá Blossa hf. dags. 6.2. 1998:
|
Viðgerð á túrbínu |
52.456 kr. |
|
Samtals |
784.074 kr. |
Í greinargerð stefndu segir m.a. að burtséð frá fyrirmælum stefnanda um tilhögun reynsluaksturs bifreiðarinnar, sé það almenn og mikilsverð regla stefndu við sölumeðferð bifreiða, að einungis þeim aðilum, sem að mati stefndu hafi raunverulegan áhuga á viðkomandi bifreið, sé gefinn kostur á reynsluakstri. Þá sé jafnframt kappkostað að starfsmenn sölunnar séu með í för við reynsluakstur sé þess nokkur kostur. Svo hafi verið í báðum þeim tilvikum sem um ræði í máli þessu. Við fyrri reynsluaksturinn hafi verið viðstaddur sölumaðurinn Elmar Sigurðssson og þann síðari sölumaðurinn Guðbergur Ingólfsson. Þeir muni væntanlega staðfesta fyrir dómi að ekkert hafi verið óeðlilegt við aksturslag þeirra er prófuðu bifreiðina.
Við seinni reynsluaksturinn hafi verið búið að aka bifreiðinni u.þ.b. 1 kílómetra frá bílasölunni er torkennileg hljóð fóru að berast frá vél hennar. Þá hafi þegar verið drepið á vélinni, haft samband við bílasöluna og hafi starfsmenn hennar óskað eftir því að bifreiðinni yrði ekki ekið að svo stöddu. Hefði síðan verið send dráttarbifreið til að sækja bifreiðina. Daginn eftir hafi stefnanda verið tilkynnt um atvikið og skorað á hann að koma og athuga bifreið sína. Þegar hann kom á bílasöluna hafi hann gangsett bifreiðina og gefið henni nokkrum sinnum kröftuglega inn til þess, að sögn, að komast að raun um hvað að bifreiðinni væri.
III.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn til skýrslugjafar, stefnandi, Gunnar Þór Sveinsson og Smári Helgason, fyrirsvarsmaður Bílasölu Keflavíkur, og vitnin Harald P. Hermanns, bifvélavirkjameistari, kt. 160146-3549, Sigurður Jack, kt. 120963-4499, Óskar Þór Karlsson, kt. 261144-4339, Hjalti Ragnar Garðarsson, kt. 110667-3969, Árni Gunnlaugsson, kt. 261175-3399, Guðbergur Ingólfur Reynisson, kt. 171171-5989, Þröstur Karelsson, kt. 240772-5319 og Elmar Sigurðsson, kt. 080877-3909.
Stefnandi kvaðst starfa á Smurstöðinni Klöpp við smurningu bifreiða og minni viðgerðir. Hann kvaðst hafa góða þekkingu á bifreiðum. Hann kvaðst hafa keypt umrædda bifreið í Bandaríkjunum á kr. 2.200.000. Gögn hefðu fylgt bifreiðinni sem sýndu gott viðhald hennar. Hann kvað viðhald bifreiðar á sínum eignartíma hafa verið pottþétt. Aldrei hefði verið vandamál með vél eða gírkassa. Hann kvaðst hafa verið í Bandaríkjunum er bifreiðin var sett í sölu hjá stefnda þann 19. september 1997 og hefði hann komið aftur til landsins 23. sama mánaðar. Hann kannaðist ekki við að hringt hefði verið í hann frá bílasölunni vegna bilunarinnar. Hins vegar hefði hann hringt í bílasöluna og sagt að hann ætlaði að sækja bifreiðina og hefði hann þá verið spurður hvort einhver vandamál hefðu verið með hana. Nefnt hefði verið eitthvert vélarhljóð. Hann kvaðst hafa farið á bílasöluna ásamt stjúpa sínum Óskari Karlssyni, sett bifreiðina í fjórða gír og þeir síðan ýtt henni til að kanna hvort vélin væri föst. Svo hefði ekki reynst vera og hefði hann þá gangsett bifreiðina og gefið henni lítillega inn í því skyni að hlusta eftir hljóði frá vél. Þeir hefðu heyrt bank aftarlega í vélinni og hefði hann talið að legur væru farnar í túrbínu. Hann hefði þá drepið á bifreiðinni og beðið bílasölu að annast flutning bifreiðarinnar til Reykjavíkur. Hann kannaðist ekki við að hafa þanið vél bifreiðarinnar. Hann kvað Vélaland ehf. hafa annast viðgerð bifreiðarinnar í kjölfar skoðunar.
Smári Helgason bílasali eignaðist umrædda bílasölu í mars 1997 og rak hana í skjóli leyfis stefndu til bílasölu uns hann öðlaðist sjálfur leyfi til að reka bílasölu. Hefði þetta verið gert með samþykki Sýslumannsins í Keflavík. Hann kvað bifreiðinni hafa verið reynsluekið tvívegis meðan hún var á bílasölunni og hefðu sölumenn verið með í bæði skiptin. Hann hefði verið á staðnum þegar Aðalsteinn Hallbjörnsson kom úr fyrri reynsluakstrinum og hefði hann kvartað undan stífri kúplingu og skrölti aftan í bifreið. Þetta hefðu ekki verið óalgeng viðbrögð manna sem ekki hafa áhuga á að kaupa bifreið sem þeir hafa reynsluekið. Hann kvað sölumanninn Guðberg Ingólf hafa hringt í bílasöluna meðan á seinni reynsluakstri stóð og tilkynnt að eitthvað hljóð væri í bifreiðinni, akstur hennar hefði verið stöðvaður og dráttarbíll kallaður til. Hann hefði síðan falið nefndum Guðbergi að hafa samband við stefnanda en eitthvað muni það hafa dregist. Hann kvaðst hafa veitt því athygli að stefnandi þandi vél bifreiðarinnar þegar hann sótti hana. Þetta hefðu ekki verið einhverjir 2000 snúningar. Smári, sem sagðist hafa unnið sem vélvirki í 10 ár og alist upp við bíla, kvaðst hafa undrast mest að stefnandi skyldi gefa köldum bílnum svona mikið inn eftir að búið var að tilkynna honum að eitthvað væri að vélinni.
Vitnið Harald P. Hermanns staðfesti skoðunargerð sína á vélinni. Hann kvaðst hafa gert við vélina eftir skoðun. Hann kvaðst enga aðra orsök hafa fundið fyrir bilun vélarinnar en ofreynslu.
Vitnið Sigurður Jack kvaðst hafa ekið bifreiðinni á bílasöluna í Keflavík og hefði hann ekki orðið var við neitt óeðlilegt í bifreiðinni. Hann kvaðst vera með meira próf og vanur bifreiðum.
Vitnið Óskar Þór Karlsson, stjúpi stefnanda, kvaðst hafa ekið bifreiðinni daginn áður en farið var með hana til Keflavíkur og ekki heyrt nein torkennileg hljóð í henni. Hann kvaðst hafa farið með stefnanda að sækja bifreiðina. Þeim hefði verið sagt að aukahljóð væru í vélinni. Stefnandi hefði sett bifreiðina í gír og þeir ýtt henni til að kanna hvort vélin væri föst. Svo hefði ekki verið. Bifreiðin hefði síðan verið gangsett og hefði hann þá heyrt aukahljóð frá vélinni sem hefði ágerst er henni var gefið inn. Síðan hefði verið drepið á vélinni. Hann kvað það helber ósannindi að stefnandi hefði þanið vélina.
Vitnið Hjalti Reynir Garðarsson var starfsmaður á bílasölunni umrætt sinn. Hann kvaðst hafa vitað af fyrri reynsluakstri bifreiðarinnar þegar Aðalsteinn ók. Sá akstur hefði aðeins staðið yfir í 5-10 mínútur. Aðalsteini hefði ekki líkað við bifreiðina. Aðspurður hvers vegna, hefði Aðalsteinn sagt að kúplingin væri leiðinleg og skrölt aftur í bílnum. Þar með hafi þetta verið búið. Hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur er seinni reynsluaksturinn fór fram. Hann kvaðst hafa verið viðstaddur er stefnandi kom að sækja bílinn og gangsetti hann. Hann kvað stefnanda hafa þanið vélina strax eftir gangsetningu en ekki ekið bifreiðinni. Stefnandi hefði verið mjög rólegur og sagt að legur væru farnar í túrbínu. Hann kvað ekkert hafa verið minnst á að eitthvað væri að vélinni eftir fyrri aksturinn.
Vitnið Árni Gunnlaugsson, sem starfaði á bílasölunni, varð var við fyrri reynsluakstur bifreiðarinnar, sem hefði staðið stutta stund. Hann kvaðst hafa rætt við Aðalstein eftir aksturinn og hefði hann sett út á það að kúplingin væri of stíf og að hann kynni ekki við bílinn eins og hann væri. Hann hefði ekki minnst á vélina. Hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur síðari reynsluaksturinn eða þegar stefnandi kom til að sækja bílinn. Hann kvaðst hafa sett bílinn í gang þegar hann var settur í hús eða farið með hann út og hefði hann ekki orðið var við neitt óeðlilegt.
Vitnið Guðbergur Ingólfur Reynisson, sem starfaði á bílasölunni, fór í seinni reynsluaksturinn með manni að nafni Vilbert. Hann kvað ekkert hafa verið óeðlilegt við akstur Vilberts. Hann hefði ekki gefið bifreiðinni óeðlilega inn og ekki ekið hratt. Hann kvað þá hafa verið stadda rétt hjá Hagkaupi í Njarðvík eftir 5-7 mínútna akstur er Vilbert hafði orð á því að tikkhljóð heyrðist frá vél. Hann kvaðst þá hafa farið að leggja við hlustir og greint hljóðið. Þeir hefðu þá strax stöðvað bifreiðina og drepið á hreyfli hennar. Vilbert hefði hringt í jeppaeiganda í Sandgerði sem hefði komið og dregið bifreiðina að bílasölunni. Hann kvað þá ekki hafa þorað að taka þá áhættu að setja bifreiðina aftur í gang. Hann kvaðst hafa verið viðstaddur er stefnandi kom á bílasöluna, sótti kveikjuláslyklana, gangsetti bifreiðina og þandi vélina. Hann kvaðst hafa talað við stefnanda á þriðja degi frá reynsluakstrinum og greint honum frá biluninni. Hann kvaðst ekki muna hvort stefnandi ók bifreiðinni í portinu eins og haft var eftir vitninu í skýrslu hjá lögreglu. Hins vegar mundi hann eftir því að stefnandi hefði gangsett bifreiðina og gefið henni hressilega inn og þanið óeðlilega. Honum hefði fundist þetta óeðlilegt þar sem búið hefði verið að segja stefnanda frá biluninni. Eðlilegra hefði verið að skoða bifreiðina áður. Vitnið taldi bifreiðina hafa verið áður á bílasölunni. Vitnið kvaðst ekki hafa fylgst með snúningshraðamæli bifreiðarinnar í reynsluakstrinum.
Vitnið Þröstur Karelsson starfar hjá Bílamarkaðnum í Kópavogi. Hann kvað bifreiðina hafa verið þar til sölu frá miðjum júlí fram í september 1997. Hann kvað ástand bifreiðarinnar hafa verið ágætt og gangur hennar þýður og góður. Hann kvaðst einungis hafa ekið bifreiðinni í og úr húsi. Bifreiðinni hefði hins vegar aldrei verið reynsluekið meðan hún var þarna í sölumeðferð. Hann kvað enga rannsókn framkvæmda á ástandi bifreiða sem teknar eru í sölu, heldur sé söluyfirlit byggt á frásögn eiganda.
Vitnið Elmar Sigurðsson, sem starfaði á bílasölu stefndu, kvaðst hafa farið í fyrri reynsluaksturinn með Aðalsteini Hallbjörnssyni, sem hefði kvartað undan skrölti aftan í bifreiðinni og kúplingunni. Aðalsteinn hefði ekki ekið ógætilega. Þeir hefðu snúið við eftir stuttan akstur, farið inn á bílasöluna og þar hefði Aðalsteinn sagt að hann væri ekki ánægður með bílinn. Þeir hefðu verið komnir örstutt frá bílasölunni er þeir heyrðu hljóð og því hafi þeir ekki viljað keyra meira. Aðspurt minnti vitnið að annað hvort hann eða Aðalsteinn hefðu sagt á bílasölunni að eitthvað væri athugavert við bifreiðina. Vitnið mundi fremur óljóst eftir atvikum.
Vitnin Aðalsteinn Hallbjörnsson og Vilbert Gústafsson, sem gáfu skýrslur hjá lögreglu voru ekki kvödd fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því, að stefndu beri ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli skaðbótareglna innan samninga. Ennfremur er vísað til ábyrgðar stefndu á saknæmu atferli starfsmanna sinna, eða svonefndrar „húsbóndaábyrgðarreglu”.
Stefnandi bendir á, að það sé ágreiningslaust, að bifreiðin varð fyrir tjóni á meðan hún var í vörslu Bílasölu Keflavíkur. Bifreiðin hafi verið í lagi þegar hún var afhent stefndu til sölumeðferðar, henni hafi verið ekið tvívegis og í seinni akstrinum hafi orðið vart við „torkennileg hljóð” frá vél bílsins, sbr. lýsingu starfsmanna stefndu á atburðum. Fyrir liggi álit sérfróðra aðila, sem telji útilokað að skemmdir á vél bílsins hafi orðið við eðlilega notkun. Loks sé fullyrt af starfsmönnum bílasölunnar, að þeir hafi verið viðstaddir reynsluakstur bifreiðarinnar.
Byggt er á því, að starfsmenn stefndu hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu við sölumeðferð bifreiðarinnar. Þeir hafi ekki gætt að varnaðarorðum stefnanda og tryggt að bifreiðinni væri ekið með eðlilegum hætti við reynsluakstur hennar. Þeim hafi borið sem vörsluaðila bifreiðarinnar að tryggja að sölumeðferð hennar væri með þeim hætti að bifreiðin yrði ekki fyrir tjóni.
Þegar litið sé til þess hvers eðlis skemmdirnar eru, sé ljóst að mikið hafi gengið á við akstur bifreiðarinanr. Útilokað sé að starfsmenn stefndu hafi ekki orðið varir við óeðlilegan akstur bifreiðarinnar hafi þeir verið viðstaddir. Hafi þeir því átt að grípa inn í aksturinn og koma í veg fyrir tjón eða forðast frekara tjón. Hafi þeir ekki verið viðstaddir, hafi þeir brugðist fyrirmælum stefnanda og ekki gætt að varúðarskyldu sinni um að vera viðstaddir akstur bifreiðarinnar.
Stefnandi byggir ennfremur á því, að strangar kröfur verði að gera til stefndu og starfsmanna hans. Þeir hafi bílasölu að atvinnu og bjóði fram þjónustu sína og sérfræðiþekkingu við sölumeðferð gegn gjaldi.
Í tilefni af því sem fram kom hjá vitnum í lögreglurannsókn, sem stefnandi óskaði eftir, tefldi stefnandi fram nýrri málsástæðu við aðalmeðferð málsins, sem byggðist á því að torkennilegra hljóða hefði orðið vart frá vél bifreiðarinnar í bæði skiptin sem bifreiðinni var reynsluekið. Er á því byggt að reynsluaksturinn hafi verið aðalorsök skemmdanna á bílnum. Starfsmenn stefndu hafi vitað eða mátt vita, að bifreiðin var ekki í ökufæru ástandi, í það minnsta þegar síðari reynsluaksturinn fór fram. Þeim hafi borið sem vörslumönnum bílsins að koma í veg fyrir frekari akstur, strax og kunnugt var um bilunina. Það hafi þeir ekki gert og þegar af þeirri ástæðu sé um sök að ræða hjá starfsmönnum stefndu.
IV.
Málsástæður og lagarök stefndu
Aðalkröfu sína um sýknu byggja stefndu á því að með öllu sé ósannað að starfsmenn Bílasölu Keflavíkur ehf. hafi gerst sekir um saknæma og ólögmæta háttsemi, slíka sem renni stoðum undir kröfur stefnanda. Þá verði ekki lögð ábyrgð á hendur stefndu fyrir tjóni stefnanda, hvorki á grundvelli laga nr. 6971994 eða almennra reglna skaðabótaréttarins.
Frumskilyrði fyrir bótaskyldu stefndu sé að sök starfsmanna hans sé sönnuð og hvíli sú sönnunarbyrði á stefnanda. Stefnanda hafi ekki tekist sú sönnun og því beri að sýkna stefndu.
Verði talið sannað að starfsmenn hafi gerst sekir um saknæmt gáleysi, sé á því byggt að ekki séu orsakatengsl milli hinnar meintu saknæmu háttsemi þeirra og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir.
Þeirri fullyrðingu stefnanda, að ágreiningslaust sé að tjónið hafi orðið meðan bifreiðin var í vörslum stefndu er mótmælt. Ljóst sé að bilun hafi komið fram við síðari reynsluakstur en hins vegar sé með öllu ósannað að bifreiðin hafi verið í fullkomnu lagi er hún var afhent til sölumeðferðar. Af hálfu stefndu er athygli vakin á því að skoðunargerð Vélalands hf. hafi verið samin að beiðni stefnanda án nokkurs atbeina stefndu og burtséð frá gildi hennar staðfesti hún ekki þessa fullyrðingu stefnanda, heldur sé þar tekið fram að ljóst þyki að bifreiðinni hafi verið ekið nokkuð eftir að „úrbræðsla” átti sér stað. Þá beri að líta til meðferðar stefnanda sjálfs á bifreiðinni í starfsstöð stefndu eftir að honum hafði verið tilkynnt um vélarbilunina.
Þá er byggt á því að skoðunargerðin verði ekki lögð til grundvallar varðandi tjón stefnanda og orsakir þess þar sem stefndu hafi ekki verið gefinn kostur á að vera viðstaddir skoðun. Þá hafi hvorki stefndu, starsmenn eða aðrir fulltrúar stefndu séð umrædda vél.
Þótt talið yrði að þeir sem reynsluóku bifreiðinni hafi gerst sekir um slíka meðferð á henni að tjón hafi hlotist af, er á því byggt að þó svo það yrði talið sannað, verði bótaábyrgð ekki lögð á stefndu vegna slíkrar háttsemi. Aðili sem annist milligöngu um sölu notaðra bifreiða geti þannig ekki ábyrgst gagnvart eiganda að þriðji aðili sem reynsluekur bifreið geri það ætíð eftir einhverjum „bonus pater” mælikvarða. Milligöngumaður geti gert ráðstafanir til að lágmarka hættuna og það hafi starfsmenn stefndu sannarlega gert í máli þessu með þeim aðferðum sem áður er lýst. Komi sú staða upp að þriðji maður valdi sannanlegu tjóni við reynsluakstur með saknæmum hætti sé það auðvitað hans að bæta tjón en ekki bílasala.
Varakröfu um lækkun byggja stefndu á því að reikningum sé mótmælt sem of háum og þá hafi stefnandi ekki aflað mats dómkvadds matsmanns í samræmi við réttarfarslög.
Stefndu mótmæla nýrri málsástæðu stefnanda sem fram kom við aðalmeðferð málsins.
Stefndu vísa til almennra meginreglna skaðabótaréttarins, sérstaklega reglna um húsbóndaábyrgð. Vísað er til laga nr. 69/1994 og almennra reglna um milligöngu við samningsgerð. Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 130. g. , sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Bifreið sú sem mál þetta snýst um var meira en 6 ára gömul og ekin um 70 þúsund mílur er vél hennar bilaði.
Stefnandi brýndi fyrir starfsmönnum stefnda að gæta sérstakrar varúðar við sölumeðferð bifreiðarinnar, þar sem um „óvenju kraftmikla” og verðmæta bifreið væri að ræða, og að starfsmaður stefnda yrði ávallt með í reynsluakstri. Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á annað en að stefndi hafi farið eftir þessum fyrirmælum stefnanda í hvívetna. Þannig var bifreiðin alltaf geymd inni í húsi yfir nótt og í bæði skiptin sem henni var reynsluekið var starfsmaður stefnda með í ferð.
Gegn framburði vitna hefur stefnanda ekki tekist að sanna að akstur bifreiðarinnar í reynsluakstri hafi verið óeðlilegur eða með öðrum hætti en ætlast mátti til miðað við gerð og eiginleika bifreiðarinnar.
Ósannað þykir að vart hafi orðið við óeðlileg hljóð frá vél bifreiðarinnar í fyrri reynsluakstrinum. Gegn mótmælum stefndu verður ekki byggt á framburði Aðalsteins Hallbjörnssonar, sem fyrst prófaði bifreiðina, hjá lögreglu, en hann var ekki kvaddur til vitnisburðar fyrir dóminum. Enda þótt litið yrði til framburðar Aðalsteins hjá lögreglu, verður ekki af þeim framburði talið sannað að óeðlilegt hljóð hefði greinst frá vél í fyrri akstrinum.
Er vart varð óeðlilegs hljóðs frá vél í seinni reynsluakstrinum, var akstur bifreiðarinnar þegar stöðvaður, drepið á hreyfli og bifreiðin dregin að bílasölunni. Sýnir þetta rétt viðbrögð starfsmanns stefnda.
Af lýsingu vitna verður ekki séð að meðferð bifreiðarinnar í reynsluakstrinum, þegar vart varð óeðlilegs vélarhljóðs, hafi getað valdið þeim víðtæku og miklu skemmdum sem urðu á vélinni. Verður því að ætla að frumorsök skemmdanna hafi þegar verið fyrir í bifreiðinni áður en þessi akstur fór fram. Því til stuðnings þykir mega benda á það álit skoðunarmannsins Haralds P. Hermanns, að í ljósi þess mikla skaða sem vélin hafi orðið fyrir, verði að ætla að henni hafi verið ekið nokkuð eftir að úrbræðsla átti sér stað.
Dómarar skoðuðu umrædda vél í starfsstöð Vélalands hf. eftir aðalmeðferð málsins. Eru hinir sérfróðu meðdómsmenn sammála lýsingu skoðunarmanns á skemmdum vélarinnar og frumorsökum skemmdanna og áliti skoðunarmanns um aðdraganda þeirra. Eftir skoðun á vélinni telja hinir sérfróðu meðdómsmenn sterkar líkur á því , að þeir ágallar sem reyndust vera á vélinni, hafi verið komnir á byrjunarstig áður en umræddur reynsluakstur fór fram. Þá þykir ekki unnt að útiloka að stefnandi hafi sjálfur aukið á skemmdirnar með því að gangsetja vél bifreiðarinnar og gefa henni inn.
Samkvæmt framansögðu telst því ósannað í máli þessu að tjón það sem varð á vél bifreiðarinnar megi rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna stefndu, sem stefndu beri ábyrgð á. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á aðrar ástæður sem gætu verið grundvöllur bótaábyrgðar stefndu. Ber því að sýkna stefndu af öllum dómkröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, og meðdómsmennirnir Finnbogi Eyjólfsson og Jan Jansen, bifvélavirkjameistarar.
D ómsorð:
Stefndu, Eyjólfur Sverrisson, Sverrir Sverrisson og Vatnsnes sf. skulu vera sýknir af öllum dómkröfum stefnanda, Gunnars Þórs Sveinssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.