Hæstiréttur íslands
Mál nr. 94/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnaöflun
- Vitni
|
|
Mánudaginn 4. mars 2002. |
|
Nr. 94/2002. |
Ragnhildur Guðmundsdóttir(Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Gagnaöflun. Vitni.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu R um að henni yrði heimilað að leiða fyrir dóm vitni, sem byggju yfir sérþekkingu á sviði tölvumála, til að svara spurningum um hvort víst eða líklegt mætti telja að upplýsingar í gagnagrunni á heilbrigðissviði samkvæmt lögum nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði yrðu persónugreinanlegar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að leiða fyrir dóm vitni, sem byggju yfir sérþekkingu á sviði tölvumála, til að svara spurningum um hvort víst eða líklegt mætti telja að upplýsingar í gagnagrunni á heilbrigðissviði samkvæmt lögum nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði verði persónugreinanlegar. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara gert að heimila umbeðnar skýrslutökur. Hann krefst þess jafnframt að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og málskostnaður látinn niður falla.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2002.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 5. þessa mánaðar um þá kröfu stefnanda, að ,,dómurinn heimili með úrskurði að leiða fyrir dóminn vitni, sem búa yfir sérþekkingu á sviði tölvumála, til skýrslugjafar og einkum til að svara spurningum og rökstyðja svör um, hvort víst megi telja eða líklegt megi telja, að heilbrigðisupplýsingar þær, sem fyrirhugað er að flytja úr sjúkraskrám í gagnagrunn á heilbrigðissviði samkvæmt lögum nr. 139/1998 verði persónugreinanlegar, m.a. að teknu tilliti til heimildar í sömu lögum til að samtengja greindan gagnagrunn við erfðafræðigagnagrunn og ættfræðigagna-grunn.” Þá er krafist hæfilegs málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Stefndi krefst þess, að kröfum stefnanda verði hafnað, en gerir ekki kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.
Stefnandi rekur mál þetta til að fá þeirri kröfu sinni framgengt, að felld verði úr gildi sú stjórnvaldsákvörðun stefnda að hafna beiðni stefnanda, dagsettri 16. febrúar 2000, um að ekki verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði upplýsingar úr sjúkraskrám um látinn föður hennar. Þá krefst stefnandi dómsviðurkenningar á rétti stefnanda til að leggja bann við, að framangreindar upplýsingar um föður hennar verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði.
Þær upplýsingar úr sjúkraskrám, sem stefnandi krefst í máli þessu, að ekki verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði, varða látinn föður hennar. Byggir stefnandi á því, að erfðafræðilegar upplýsingar teljist til heilsufarsupplýsinga samkvæmt gagnagrunns-lögum og að auki sé heimilt að tengja gagnagrunninn við ættfræðigagnagrunn og erfðafræðigagnagrunn. Af þessum ástæðum verði ekki aðeins unnt að afla upplýsinga um þær manneskjur, sem taka þátt í gagnagrunninum með ætluðu samþykki, heldur og um nákomna ættingja þeirra, ekki síst börn þeirra og aðra niðja, jafnvel þótt þau taki ekki þátt í grunninum. Í máli þessu greinir aðila meðal annars á um, hvort umræddar heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám séu ópersónugreinanlegar með þeim aðferðum, sem gert er ráð fyrir, að beitt verði við meðferð þeirra og úrvinnslu. Jafnframt byggir stefnandi á því, að upplýsingar þær, sem fyrirhugað er að setja í gagnagrunninn, verði ekki ópersónugreinanlegar og meðal annars af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt, að fyrir liggi upplýst samþykki á þann hátt, sem að ofan greinir.
Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er hverjum manni, sem orðinn er 15 ára, lýtur íslenskri löggjöf og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum, sem beint er til hans um málsatvik. Mælir ákvæðið mælir þannig fyrir um hverjum er skylt að að koma fyrir dóm og bera vitni til að að svara spurningum um málsatvik. Ræðst niðurstaða dómsins um þann ágreining, sem hér er til meðferð, af túlkun á orðinu málsatvik í umræddri lagagrein.
Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála sker dómari úr því hverju sinni eftir mati á þeim gögnum, sem komið hafa fram í máli, hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, enda bindi fyrirmæli laga hann ekki sérstaklega um mat í þessum efnum. Í máli þessu er ekki deilt um atburðarrás að baki máli þessu. Hins vegar greinir aðila meðal annars á um, hvort þær heilsufarsupplýsingar um föður stefnanda úr sjúkraskrám, sem hér um ræðir, séu ópersónugreinanlegar með þeim aðferðum, sem gert er ráð fyrir, að beitt verði við meðferð þeirra og úrvinnslu og jafnframt, hvort þær verði ópersónugreinanlegar við eftirfarandi meðferð þeirra í sambandi við tengingu gagnagrunnsins við ættfræðigagnagrunn og erfðafræðigagnagrunn. Snýst deila aðila að þessu leyti því um mat á ofangreindum atriðum, en ekki um málsatvik í skilningi 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Hyggst stefnandi þannig kveðja sérfræðinga fyrir dóminn beinlínis í þeim tilgangi að sýna fram á, að umræddar heilsufarsupplýsingar í gagnagrunninum séu persónugreinanlegar, en ekki til upplýsingar um atvik máls þessa, sem þeir hafi upplifað af eigin raun. Verður því að telja, að um sé að ræða atriði, sem stefnandi eigi kost á leiða í ljós með mats- eða skoðunargerð eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991. Geta sérfræðingar þessir því ekki talist vitni um málsatvik í skilningi 1. mgr. 51. gr. laganna. Til stuðnings þeirri ályktun má vísa til dóms Hæstaréttar frá 21. maí 1996, sem er að finna í dómabindi réttarins á bls. 1785.
Það er því niðurstaða dómsins, að hafna beri ofangreindri kröfu stefnanda, en rétt þykir, að ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms.
Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefnanda um, að henni sé heimilt að leiða fyrir dóminn vitni, sem búa yfir sérþekkingu á sviði tölvumála, til skýrslugjafar og einkum til að svara spurningum og rökstyðja svör um, hvort víst megi telja eða líklegt megi telja, að heilbrigðisupplýsingar þær, sem fyrirhugað er að flytja úr sjúkraskrám í gagnagrunn á heilbrigðissviði samkvæmt lögum nr. 139/1998 verði persónugreinanlegar, meðal annars að teknu tilliti til heimildar í sömu lögum til að samtengja greindan gagnagrunn við erfðafræðigagnagrunn og ættfræðigagnagrunn.
Málskostnaðarákvörðun vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms.