Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2002.

Nr. 49/2002.

Jórunn Anna Sigurðardóttir

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

J krafðist þess að fjölskipaður héraðsdómur viki sæti í máli hennar gegn íslenska ríkinu eftir að Hæstiréttur hafði ómerkt dóm héraðsdóms og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Talið var að dómarar væru ekki vanhæfir til að fara með málið á nýjan leik vegna þessa samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hefði ekkert komið fram sem gæfi tilefni til að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Var kröfu J því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjölskipaður héraðsdómur viki sæti í máli hennar gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómurunum í héraði verði gert að víkja sæti, svo og að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2002

Með dómi Hæstaréttar, upp kveðnum 29. mars 2001, var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þessu 11. júlí 2000 ómerktur svo og málsmeðferð frá og með munnlegum málflutningi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, gagnaöflunar og dómsálagningar að nýju.

Með úrskurði héraðsdóms 3. apríl 2001 var leitað umsagnar læknaráðs um eftirfarandi atriði sem Hæstiréttur hafði tilgreint í dómi sínum 29. mars 2001 að nauðsynlegt væri að fá áður en dómur gengi í héraði:

[...].

Með bréfi 18. desember 2001 til Héraðsdóms Reykjavíkur svaraði læknaráð framangreindum spurningum á þennan veg:

[...].

Er dómsformaður lagði fram umsögn læknaráðs á dómþingi 11. janúar sl. krafðist lögmaður stefnanda að dómarar málsins vikju sæti.  Er þessi krafa til meðferðar hér.

Lögmaðurinn taldi að í málinu hefði reynt á ýmis matskennd atriði sem dómarar hafi komist að niðurstöðu um í flestu í óhag fyrir stefnanda.  M.a. væri um að ræða túlkun á læknisfræðilegum gögnum og ályktanir dregnar af þeim.  Væri það mat stefnanda að dómarar hefðu tjáð sig um málið með sambærilegum hætti og um matsaðila væri að ræða.  Teldi stefnandi því að fyrir fram mætti ætla að verulega yrði á brattann fyrir sig að sækja í málinu yrði málið til meðferðar hjá sömu dómurum.  Telja yrði líklegt að þrátt fyrir þá venjubundnu túlkun dómstóla að þegar máli væri vísað aftur heim í hérað, leiði það ekki eitt sér til þess að dómarar þurfi að víkja sæti, þá eigi annað við í þessu máli m.a. vegna þess að í dóminum væru sérfróðir meðdómendur.  Líkja mætti áliti þeirra í málinu við álit matsmanna enda byggt á sérfræðiþekkingu þeirra.  Einnig til rökstuðnings teldi stefnandi að vegna þess að í dóminum sætu sérfróðir meðdómendur þá ætti Hæstiréttur örðugra um vik með að meta álit þeirra en ef dómurinn væri eingöngu skipaður einum reglulegum héraðsdómara.

Lögmaður stefnanda kvaðst byggja kröfu sína á g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Lögmaður stefnda mótmælti kröfugerð stefnanda.  Taldi hann að ekkert lægi fyrir í málinu um vanhæfi dómenda.  Þeim  bæri við þessar aðstæður að dæma mál þetta samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar þegar málinu var vísað heim í hérað að nýju.

Niðurstaða:  Fyrir því er venja að skýra hina almennu vanhæfisreglu er fram kemur í g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 - og eldri ákvæði sama efnis - á þann veg, að héraðsdómari verði ekki talinn vanhæfur þó hann hafi áður leyst úr máli að efni til, ef hann fjallar um það að nýju að undangenginni ómerkingu fyrri úrlausnar.  Verður og að miða við að Hæstiréttur hafi ekki talið að dómarar í þessu máli væru vanhæfir til að fara með málið á nýjan leik, þegar málinu var vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.  Þá hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að óhlutdrægni héraðsdómara verði með réttu dregin í efa.

Samkvæmt framangreindu verður kröfu stefnanda, um að dómarar máls þessa víki sæti, hafnað.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu stefnanda um að dómarar málsins víki sæti er hafnað.