Hæstiréttur íslands
Mál nr. 232/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Miðvikudaginn 28. apríl 2010. |
|
Nr. 232/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Framsal sakamanna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms sem staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2010, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 8. febrúar 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að málsvarnarlaun skipaðs réttargæslumanns hans fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2010.
Með kröfu ríkissaksóknara, dags. 3. mars 2010, er þess krafist, að staðfest verði ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 8. febrúar 2010 um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands.
Dómkröfur varnaraðila eru þær, að felld verði úr gildi ákvörðun dóms- og mannréttindaráðuneytisins frá 8. febrúar 2010, þess efnis, að fallast á beiðnir pólskra yfirvalda um að varnaraðili verði framseldur til Póllands. Þá er þess krafist, að málsvarnarlaun réttargæslumanns verði greidd úr ríkissjóði.
Málið var tekið til úrskurðar mánudaginn 22. mars sl.
I
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram, að með bréfum dómsmálaráðuneytisins, dags. 9. og 30. nóvember 2009, hafi ríkissaksóknara borist tvær beiðnir pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, pólsks ríkisborgara, til fullnustu fangelsisrefsingar samkvæmt tveimur refsidómum.
Samkvæmt gögnum, sem fylgdu fyrri framsalsbeiðninni, dags. 28. október 2009, hafi varnaraðili, með dómi héraðsdóms í [...] frá 27. september 2006 í máli nr. IIK 144/06, verið sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 280. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa, þann 31. ágúst 2005, í [...], ásamt tveimur öðrum mönnum, ógnað nafngreindri konu með hnífi og beitt ofbeldi og þannig haft farsíma af nafngreindum manni. Hafi varnaraðili verið dæmdur í 3 ára fangelsi og til greiðslu skaðabóta. Fram komi, að gæsluvarðhald, sem varnaraðili sætti vegna málsins frá 8. september til 13. desember 2005, komi til frádráttar.
Áfrýjunardómstóll hafi staðfest niðurstöðu dómsins hinn 21. desember 2006, sbr. mál nr. II AKa 334/06. Þann 25. október 2007 hafi verið gefin út handtökuskipun á hendur varnaraðila til fullnustu refsingarinnar. Þá hafi evrópsk handtökuskipun verið gefin út á hendur varnaraðila þann 3. júní sl.
Samkvæmt gögnum, sem fylgja síðari framsalsbeiðninni, dags. 27. október 2009, hafi varnaraðili, með dómi héraðsdóms í [...] frá 29. nóvember 2004 í máli nr. IIK 217/04, verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. og 2. mgr. 224. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa, þann 12. júlí 2004 í [...], annars vegar móðgað með orðbragði sínu tvo lögreglumenn, sem voru við skyldustörf og hugðust stöðva för hans vegna gruns um akstur reiðhjóls undir áhrifum áfengis, og hins vegar veitt mótþróa og hótað lögreglumönnunum tveimur að kæra þá fyrir ofbeldi gegn honum, og þannig reynt að fá þá til að hætta við handtöku hans. Hafi hann verið dæmdur í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til 3 ára og greiðslu sektar.
Með ákvörðun sama dómstóls frá 17. júlí 2007 hafi varnaraðila verið gert að afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dómi þessum, með vísan til 1. mgr. 75. gr. pólskra hegningarlaga, þar sem hann hafi, á skilorðstíma dómsins, gerst sekur um samkynja brot með beitingu valds, sbr. fyrrgreindan dóm héraðsdóms í [...] frá 27. september 2006. Handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur varnaraðila þann 18. mars 2008 af lögreglustjóra.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi kynnt varnaraðila, þann 14. október sl., að hann væri eftirlýstur til handtöku af pólskum yfirvöldum með framsal í huga, en eftirlýsingin hafi komið í ljós við athugun á kennitölu hans í Schengen-upplýsingakerfinu. Hafi varnaraðili, við skýrslutökuna, kannast við, að gögn vegna eftirlýsingarinnar ættu við sig og kvað lýsingu þar á broti því, sem hann hafi verið sakfelldur fyrir með dóminum frá 26. september 2006, að mestu leyti rétta. Þá hafi varnaraðila verið formlega kynntar framsalsbeiðnirnar þann 9. desember sl. hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður um dóminn frá 29. nóvember 2004 kvað varnaraðili þar átt við sig. Kvaðst hann hafna framsali.
Ríkissaksóknari hafi sent dómsmálaráðuneytinu álitsgerð um málið þann 5. janúar sl., skv. 17. gr. laga nr. 1371984. Hafi ríkissaksóknari talið efnisskilyrði framsals uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984, sem og formskilyrði, sbr. 12. gr. laganna. Dómsmálaráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að verða við beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila þann 8. febrúar sl. Í bréfi dómsmálaráðuneytisins hafi verið tekið fram, að fyrirliggjandi upplýsingar um persónulega hagi varnaraðila geti ekki, að mati ráðuneytisins, talist nægilegar til að synja um framsal, sbr. 7. gr. laga nr. 14/1984.
Ákvörðun ráðuneytisins hafi verið kynnt varnaraðila á dómþingi í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. febrúar sl., í tengslum við kröfu um áframhaldandi farbann. Degi síðar, hinn 17. s.m., hafi ríkissaksóknara borist kæra varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 14. gr. laga nr. 13/1984.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndrar álitsgerðar ríkissaksóknara, dags. 5. janúar sl., og ákvörðunar dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, dags. 8. f.m.
Varnaraðili hefur sætt farbanni í þágu málsins frá 14. október sl. og rennur það út þann 13. apríl nk. kl. 16.00.
II
Í greinargerð varnaraðila er atvikum máls þessa lýst svo, að varnaraðili, sem er pólskur ríkisborgari, hafi verið handtekinn af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 14. október 2009, þá eftirlýstur í svonefndu Schengen upplýsingakerfi af pólskum yfirvöldum til fullnustu á tveimur refsidómum, annars vegar þriggja ára fangelsisdómi (mál II K 144/06), og hins vegar sex mánaða dómi (mál II K 217/04). Varnaraðili hafi, við handtökuna, verið færður til skýrslugjafar hjá lögreglu og í framhaldinu færður fyrir héraðsdóm, þar sem gerð hafi verið krafa um, að hann sætti farbanni á meðan framsalsmálið væri til meðferðar hjá íslenskum yfirvöldum. Varnaraðili hafi samþykkt kröfuna, en tekið sérstaklega fram, að með því væri hann ekki að samþykkja hugsanlega framsalskröfu. Varnaraðili hafi í upphafi verið úrskurðaður til að sæta farbanni til 11. nóvember 2009, sem hafi verið framlengt samfellt frá þeim tíma. Varnaraðili sæti nú farbanni til 13. apríl nk.
Í skýrslu hjá lögreglu þann 14. október 2009 hafi varnaraðili látið þess getið, að hann hefði komið til Íslands 13. október 2006 í þeim tilgangi að finna hér íbúð og búa með fjölskyldu sinni. Á Íslandi væri lífið einfaldara og betra en í Póllandi. Varnaraðili búi með fjölskyldu sinni að [...] í [...]. Eiginkona hans sé pólsk og heiti A. Þau eigi saman telpuna B, f. [...]. Áður hafi hjónin misst barn við fæðingu, og sé það grafið hér á landi. Varnaraðili starfi hjá [...] og sé góður starfsmaður og samviskusamur, eins og fram sé tekið í bréfi C, þjónustustjóra [...], dags. 9. nóvember 2009 (dskj. nr. 15). Í áðurnefndri lögregluskýrslu hafi varnaraðili gert athugasemdir í þá veru, að mál það, sem hann hefði verið dæmdur fyrir í Póllandi (mál II K 114/06) hefði verið á grundvelli rangra sakargifta og hefði hann ekki verið dæmdur á grundvelli staðreynda. Komi þetta fram neðst á bls. 1 í nefndri lögregluskýrslu. Þessi sjónarmið hafi varnaraðili áréttað í skýrslu hjá lögreglu 9. desember 2009. Þá liggi fyrir, að varnaraðili sé brotalaus hér á landi. Komi það fram í bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, dags. 8. febrúar sl., sem hafi kannað þetta atriði sérstaklega við afgreiðslu málsins. Framtíðaráform varnaraðila standi til þess að búa hér áfram og ala upp börn sín hér á landi.
Með bréfi, dags. 8. febrúar sl., hafi dómsmála- og mannréttindaráðuneytið fallist á tvær beiðnir pólskra dómsmálayfirvalda um, að varnaraðili yrði framseldur til Póllands. Hafi það verið gert á grundvelli umsagnar sóknaraðila í bréfi, dags. 5. janúar sl., þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu, að öll skilyrði til framsals væru uppfyllt, bæði formskilyrði og efnisskilyrði laga. Sú afstaða íslenskra yfirvalda hafi ekki verið kynnt varnaraðila formlega, en frá henni sé greint í kröfu sóknaraðila við fyrirtöku á farbannsmáli varnaraðila (nr. R-107/2010) þann 16. febrúar sl., án þess að afstaða varnaraðila til ákvörðunar væri bókuð að öðru leyti en því, að ákvörðunin yrði borin undir dómstóla.
III
Krafa varnaraðila um að ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins frá 8. febrúar sl., þess efnis að fallast á beiðnir pólskra yfirvalda um, að varnaraðili verði framseldur til Póllands, verði felld úr gildi, er byggð á því, að skilyrði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984, séu ekki uppfyllt í málinu.
Grundvöllur framsalsbeiðna, annars vegar auðgunarbrot varnaraðila, og hins vegar mótþrói við handtöku í máli vegna meintrar ölvunar á reiðhjóli, hafi verið framin og dæmd í Póllandi. Brotin hafi verið framin 12. júlí 2004 og 31. ágúst 2005. Héraðsdómar vegna þeirra séu frá 29. nóvember 2004 og 27. september 2006. Dómur vegna fyrra brotsins hafi verið skilorðsbundinn til þriggja ára. Áfrýjunardómstóll hafi staðfest auðgunarbrotadóminn 21. desember 2006. Með ákvörðun frá 17. júlí 2007 hafi varnaraðila verið gert að afplána fangelsisrefsingu samkvæmt hinum skilorðsbundna dómi (dómur héraðsdóms í [...] 27. september 2006), enda hefði hann brotið af sér á skilorðstímanum.
Af hálfu varnaraðila er m.a. á því byggt, að ekki sé unnt að heimila framsal sakbornings á grundvelli laga nr. 13/1984 vegna hins skilorðsbundna dóms, sem önnur framsalsbeiðnin sé byggð á. Fyrir liggi, að frestun á fullnustu dómsins hafi verið felld brott með einhliða ákvörðun 17. júlí 2007 viðkomandi yfirvalds, en ekki dómi, án þess að varnaraðila væri um það kunnugt. Sú ákvörðun sé mjög íþyngjandi fyrir varnaraðila, svo ekki sé fastara að orði kveðið, og hafi ákvörðunin hvorki verið birt fyrir varnaraðila, né honum eða talsmanni á hans vegum veitt færi á að tala máli varnaraðila, áður en ákvörðunin var tekin. Það fái ekki staðist að lögum, og verði framsalsákvörðun ekki reist á þessum grundvelli.
Í umsögn sóknaraðila til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins sé á því byggt, að brot það, sem varnaraðili var sakfelldur fyrir með áðurnefndum dómi frá 26. september 2006 og varðar við 2. mgr. 280. gr. pólskra hegningarlaga, eigi undir 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þetta sé rangt og sé þessu mótmælt af hálfu varnaraðila. Varnaraðili hafi bent á, að dæmt hafi verið á grundvelli rangra sakargifta og viðkomandi hafi ekki verið ógnað með hnífi eða á annan hátt. Megi um þetta vísa til lögregluskýrslu, sem tekin hafi verið af varnaraðila 14. október 2009. Varnaraðili hafi lýst því svo, að um „þjófnað með hótunum“ hefði verið að ræða með því að félagi hans hefði hrifsað síma úr hendi þolanda og þeir hlaupið á brott. Slík háttsemi sé gripdeild að íslenskum lögum, sbr. 245. gr. alm. hgl. og verði fráleitt felld undir 252. gr. alm. hgl. Það fái ekki staðist og sé því harðlega mótmælt af varnaraðila. Gripdeild varði sömu refsingu og þjófnaður og verði að telja, að líkleg refsing fyrir þá háttsemi, sem um ræði, væri 1-3 mánaða fangelsi, og sé á því byggt og beinlínis fullyrt, að líkleg refsing fyrir þann verknað, sem þar um ræði að íslenskum lögum, yrði örugglega langt innan við eins árs fangelsi. Því séu ekki skilyrði til framsals, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984, enda þurfi við athugun á skilyrðum framsals að meta líklega refsingu að íslenskum lögum, ásamt öðrum atriðum.
Af hálfu varnaraðila sé einnig bent á, að samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 sé heimilt í sérstökum tilvikum að synja um framsal, ef mannúðarástæður mæli gegn því. Í ákvæðinu sé nefndur aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar ástæður. Persónulegar aðstæður varnaraðila séu raktar í greinargerð þessari. Þá liggi fyrir, að brot þau sem varnaraðili hafi verið dæmdur fyrir í Póllandi og séu grundvöllur fyrir tveimur beiðnum þarlendra yfirvalda um framsal á varnaraðila til Póllands, sem að framan sé lýst, séu ekki alvarleg. Varnaraðili vísi til þess, að hann hafi, með samfelldri dvöl sinni hér á landi í rúm þrjú ár og atvinnu hér á landi, aðlagast landi og þjóð, og hafi hann eignast vini og kunningja vegna vinnu sinnar og utan hennar. Eins og staðfest sé með bréfi [...], sé varnaraðili mikilvægur starfsmaður fyrirtækisins og greinilegt sé, að fyrirtækið vilji halda varnaraðila í vinnu og telji, að fangelsisvist í Póllandi muni ekki bæta kosti hans. Varnaraðili hafi lagt sig fram um að læra íslensku eins og staðfest sé með bréfi [...] tungumálaskóla, dags. 8. nóvember 2009, dskj. nr. 17. Varnaraðili sé algerlega brotalaus hér á landi á ríflega þriggja ár dvalartíma sínum. Varnaraðili og kona hans hafi orðið fyrir þeirri óþægilegu lífsreynslu að missa barn, sem sé grafið hér á landi. Verði varnaraðili framseldur til Póllands muni það kollvarpa fjölskyldu hans, enda engar líkur á, að kona varnaraðila hafi möguleika á að búa hér áfram og sjá fjölskyldunni farborða á eigin spýtur. Fjölskyldan yrði þá einnig svipt möguleika til að heimsækja leiði ástvinar. Samkvæmt þessu mæli öll mannúðarsjónarmið, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984, sterklega með því, að hin umþrætta ákvörðun verði felld úr gildi.
Að öllu þessu gættu sé að lögum fullnægjandi heimild til að hnekkja hinni umþrættu ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins á grundvelli mannúðarsjónarmiða og synja um framsal á varnaraðila til Póllands. Ljóst sé, að við mat á skilyrðum laga til að heimila framsal, beri, samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984, að líta til félagslegra aðstæðna viðkomandi. Það hafi ekki verið gert í tilviki varnaraðila með viðhlítandi hætti, og útilokað sé, að í umsögn Ríkissaksóknara til ráðuneytisins, sem hin umþrætta ákvörðun sé reist á lögum samkvæmt, sé með skýrum og fullnægjandi hætti fjallað um félagslegar aðstæður varnaraðila og fjölskylduhagi hér á landi. Að mati varnaraðila sé ljóst, að verði hin umþrætta ákvörðun staðfest, muni það hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir persónulega hagi varnaraðila og væri í ósamræmi við mannúðarástæður, sem mæli sterklega með því, í tilviki varnaraðila, að kröfur hans verði teknar til greina í málinu. Ekki verði heldur útilokað, að með umþrættri ákvörðun sé gengið á svig við ákvæði laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Á það sé enn fremur bent, að ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins sé lítt rökstudd, þegar komi að sjónarmiðum að baki undantekningarákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984. Það fái, að mati varnaraðila, illa staðist stjórnsýslulög nr. 37/1993, þegar um jafn íþyngjandi ákvörðun sé að ræða og eigi við um þá ákvörðun, sem varnaraðili freisti að fá hnekkt. Þá sé margt, sem bendi til þess, að dómsmálaráðuneytið hafi ekki haft fullnægjandi upplýsingar um allar persónulegar aðstæður varnaraðila, og því verði ekkert fullyrt um, að ákvörðun ráðuneytisins hefði orðið hin sama og raun varð, hefði ráðuneytið haft ítarlega og rökstudda umsögn frá Ríkissaksóknara. Hefði svo verið, hefði ráðuneytið, án nokkurs vafa, synjað framsali á grundvelli heimildar í áðurnefndri 7. gr. laga nr. 13/1984. Ekki sé því hægt að útiloka, að ráðuneytið hafi, með hinni umþrættu ákvörðun, gengið á svig við 10. og. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þessu sambandi sé óhjákvæmilegt að benda á, í dæmaskyni, að fram komi í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir hinni umþrættu ákvörðun, að varnaraðili hafi ekki afplánað refsingu í Póllandi fyrir brotin. Þetta sé ekki rétt. Fram komi í skýrslu, sem lögregla tók af varnaraðila 14. október að varnaraðili hefði setið þrjá mánuði í gæsluvarðhaldi vegna málsins, sem komi til frádráttar, og megi jafna því við afplánun. Það að þetta komi ekki fram í rökstuðningi ráðuneytisins, staðfesti, að afgreiðsla ráðuneytisins sé lítt grunduð og ekki byggð á réttum sjónarmiðum. Sé ljóst, að mati varnaraðila, að ráðuneytið hafi ekki rannsakað málið með viðhlítandi hætti, áður en það tók hina umþrættu ákvörðun.
Þá leyfi varnaraðili sér að lokum að benda á umfjöllun meiri hluta Hæstaréttar í málinu nr. 116/2009, þar sem fjallað sé ítarlega um þau gagnstæðu sjónarmið, sem vegist á við mat á skilyrðum til framsals og því, hvort mannúðarsjónarmið eigi að leiða til þess, að framsali sé hafnað. Vísað sé til ítarlegs rökstuðnings Hæstaréttar í málinu. Jafnframt sé bent á, að langt sé um liðið síðan varnaraðili framdi þau brot, sem um ræði, þ.e. á árunum 2004 og 2005. Frá þeim tíma hafi varnaraðili algerlega snúið við blaðinu og breytt lífi sínu og stofnað fjölskyldu hér á landi.
Að öllu þessu virtu beri, að mati varnaraðila, að fella úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 8. febrúar 2010, þar sem fallist hafi verið á tvær beiðnir pólskra yfirvalda um að framselja varnaraðila til Póllands.
Þess sé krafist, að skipuðum réttargæslumanni varnaraðila verði dæmd þóknun úr Ríkissjóði fyrir meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi. Krafan sé reist á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Bent sé sérstaklega á, að varnaraðili hafi sætt farbanni samfellt frá 14. október 2009 á meðan mál hans hefur verið til meðferðar hjá íslenskum yfirvöldum, og hafi varnaraðili ávallt fallist á að sæta farbanni og verið mjög samvinnuþýður við meðferð málsins hjá lögreglu og yfirvöldum.
IV
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann, ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. sömu laga er framsal þó aðeins heimilt, ef verknaður, eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum og samkvæmt 1. tl., 3. mgr. sömu greinar er því aðeins heimilt að framselja mann til fullnustu á dómi, ef refsing samkvæmt dómi er minnst 4 mánaða fangelsi.
Formskilyrðum 12. gr. laga nr. 13/1984 er fullnægt í máli þessu.
Refsing varnaraðila samkvæmt dómum þeim, sem eru grundvöllur framsalsbeiðni þessarar er annars vegar þriggja ára fangelsi og hins vegar sex mánaða fangelsi, sem varnaraðila er gert að sæta vegna skilorðsrofs. Ekki eru efni til að endurskoða forsendur þessara dóma, en varnaraðili byggir m.a. á því, að þyngri dómurinn hafi verið byggður á röngum forsendum, um gripdeild hafi verið að ræða en ekki ofbeldisrán. Þá eru ekki efni til að endurskoða niðurfellingu skilorðs vegna fyrra dómsins hér fyrir dómi, og liggur ekki annað fyrir, en farið hafi verið að þarlendum lögum við þá ákvörðun, en ákvörðunin var, samkvæmt gögnum málsins, tekin af héraðsdómstól í [...]. Uppfylla báðir þessir dómar því þann refsiramma, sem kveðið er á um í 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá liggur ekki annað fyrir en að hvorug refsingin sé fyrnd eða niður fallin samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga.
Varnaraðili byggir enn fremur á því, að synja beri um framsal af mannúðarástæðum og tilgreinir hann sjónarmið sín í þeim efnum í greinargerð, auk þess sem hann hefur lagt fram gögn sem sýna, að hann hefur komið sér vel í vinnu og hefur gert sér far um að læra íslensku. Hann er vel liðinn, bæði á vinnustað og námi, sem og ber nágranni, sem býr í sama húsi og hann, honum vel söguna.
Í úrskurði dóms- og mannréttindaráðuneytisins frá 8. febrúar 2010 kemur fram, að varnaraðila var gefinn kostur á að koma að öllum sjónarmiðum sínum varðandi synjun á framsali á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sem hann og gerði og naut hann einnig aðstoðar réttargæslumanns. Er í úrskurði ráðuneytisins fjallað um synjun á þessum grundvelli og komist að þeirri niðurstöðu, að þær ástæður, sem varnaraðili færir fram, nægi ekki til að synjað verði um framsal. Eru ekki efni til að endurskoða þá niðurstöðu efnislega, en niðurstaða ráðuneytisins er rökstudd og málefnaleg og er ekki fallist á, að með ákvörðun ráðuneytisins hafi verið gengið á svig við tilgreind ákvæði stjórnsýslulaga. Þá er ekki fallist á, að ákvörðunin brjóti gegn ákvæðum laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins, að uppfyllt séu skilyrði laga nr. 13/1984 um framsal á varnaraðila og er ákvörðun dómsmálaráðherra frá 8. febrúar 2010 staðfest, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila úr ríkissjóði. Með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun hans hæfilega ákveðin kr. 340.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 8. febrúar 2010 um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands, er staðfest.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hrl., kr. 340.000, greiðist úr ríkissjóði.