- Kærumál
- Fjárnám
- Skattur
- Fyrning
|
Fimmtudaginn 21. september 2000. |
Nr. 346/2000. |
Kristrún Ása Kristjánsdóttir(sjálf) gegn tollstjóranum í Reykjavík (Gunnar Ármannsson fulltrúi) |
Kærumál. Fjárnám. Skattar. Fyrning.
Bú K var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember 1995 og lýsti Gjaldheimtan (G) kröfu við skiptin 8. janúar 1996 um greiðslu skuldar K vegna opinberra gjalda m.a. vegna gjaldársins 1995. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til viðurkenningar lýstra krafna, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og lauk skiptum á þrotabúi K 1. mars 1996 án þess að greitt væri upp í lýstar kröfur. Í febrúar 1999 endurákvarðaði skattstjóri opinber gjöld K vegna gjaldáranna 1994, 1995 og 1996, að beiðni K. Þá lá fyrir að þrívegis hafði verið greitt inn á gjaldaskuld K á árinu 1999. Þann 24. febrúar 2000 leitaði tollstjóri (T) fjárnáms hjá K fyrir ógreiddum eftirstöðvum opinberra gjalda vegna gjaldáranna 1999, 1998 og 1995. K gerði ekki athugasemd varðandi gjaldárinu 1998 og 1999, en mótmælti fjárnámi vegna gjaldársins 1995, þar sem hún taldi skuldina fyrnda. Talið var að með lýsingu kröfu G við gjaldþrotaskipti á búi K hefði fyrning hennar verið rofin samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til viðurkenningar kröfunnar hafi nýr fyrningarfrestur byrjað að líða gagnvart T þann dag sem kröfunni var lýst. Því hafi fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 verið liðinn þegar beiðni T um fjárnám barst sýslumanni í febrúar 2000. Þá var talið að ráða mætti af 6. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt að endurákvörðun opinberra gjalda hefði ekki áhrif á gjalddaga og þar með fyrningu skuldar, sem myndast hefði við upphaflega álagningu gjalda, að því leyti sem fjárhæð skuldarinnar væri lægri en endanlega ákveðin gjöld að lokinni endurákvörðun. Var því ekki fallist á að endurákvörðun á opinberum gjöldum K vegna gjaldársins 1995 hefði myndað nýjan upphafsag fyrningarfrests á heildarskuld vegna gjalda þess árs. Í málinu lá ekkert fyrir um upphaflega álagningu opinberra gjalda K vegna gjaldársins 1995 og var því ekki unnt að slá því föstu í hvaða mæli fyrningartími á skuld K kynni að geta ráðist af endurákvörðuninni. Loks var ekki talið að T hefði sýnt fram á að líta mætti svo á að K hefði með innborgunum sínum viðurkennt í merkingu 6. gr. laga nr. 14/1905 að skulda honum opinber gjöld vegna ársins 1995. Var talið að T hefði ekki hnekkt þeirri vörn K að krafa um opinber gjöld vegna gjaldársins 1995 væri fyrnd og því gæti fjárnám fyrir þeirri kröfu ekki náð fram að ganga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. september sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2000, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 3. apríl 2000 um að fram yrði haldið fjárnámsgerð á hendur sóknaraðila, sem varnaraðili hafði krafist 24. febrúar sama árs fyrir skuld hennar að fjárhæð samtals 6.896.562 krónur. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði breytt á þann veg að fjárnám verði aðeins gert fyrir skuld að fjárhæð 20.840 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Með áðurnefndri beiðni 24. febrúar 2000 leitaði varnaraðili fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir ógreiddum eftirstöðvum opinberra gjalda hennar vegna gjaldársins 1999, 15.722 krónur, gjaldársins 1998, 5.118 krónur, og gjaldársins 1995, 6.875.722 krónur, eða samtals fyrir 6.896.562 krónum að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði. Í málinu gerir sóknaraðili ekki athugasemd við að fjárnám nái fram að ganga fyrir skuld frá gjaldárunum 1998 og 1999, alls 20.840 krónum, en mótmælir hins vegar að svo fari um skuld fyrir gjaldárið 1995, sem hún telur fallna niður fyrir fyrningu.
Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta 20. nóvember 1995. Gjaldheimtan í Reykjavík lýsti 8. janúar 1996 kröfu við gjaldþrotaskiptin um greiðslu skuldar sóknaraðila vegna opinberra gjalda, sem voru talin nema alls 8.356.260 krónum. Óumdeilt er að þar hafi meðal annars verið um að ræða opinber gjöld vegna gjaldársins 1995, en í málinu liggur hins vegar ekkert fyrir um hvernig heildarskuldin var greind milli einstakra ára. Við gjaldþrotaskiptin neytti skiptastjóri heimildar í lokamálslið 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að láta hjá líða að taka afstöðu til viðurkenningar lýstra krafna, þar sem hann taldi ljóst að þær fengjust í engu greiddar. Skiptum á þrotabúi sóknaraðila mun síðan hafa verið lokið 1. mars 1996 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greitt væri upp í lýstar kröfur.
Með bréfi 27. mars 1998 til ríkisskattstjóra mun sóknaraðili hafa leitað eftir því að opinber gjöld hennar vegna gjaldáranna 1994, 1995 og 1996 yrðu ákveðin á ný, en við upphaflega álagningu þeirra mun skattstjóri hafa áætlað skattstofna, þar sem sóknaraðili hafði ekki sinnt framtalsskyldu. Erindi þetta framsendi ríkisskattstjóri 30. mars 1998 skattstjóranum í Reykjavík, sem afgreiddi það með endurákvörðun umræddra gjalda í úrskurði 3. febrúar 1999. Í málinu liggur ekki fyrir hver endanleg fjárhæð gjaldanna hafi orðið samkvæmt úrskurðinum vegna einstakra gjaldára, en óumdeilt er að skuld vegna gjaldársins 1995, eins og um hana er rætt í málinu, sé í samræmi við niðurstöðu þessarar endurákvörðunar.
Í málinu hefur varnaraðili lagt fram gögn um þrjár greiðslur inn á skuld sóknaraðila, sem bárust honum 4. febrúar, 22. nóvember og 3. desember 1999. Þeirri fyrstu, að fjárhæð 16.000 krónur, var ráðstafað inn á skuld vegna gjaldársins 1994. Var eins farið með þá næstu, sem nam 57.485 krónum. Síðasta greiðslan, sem var að fjárhæð 8.000 krónur, var látin ganga upp í skuld sóknaraðila vegna gjaldársins 1995. Um þá greiðslu liggur fyrir ljósrit af gíróseðli, þar sem varnaraðili var tilgreindur sem viðtakandi hennar og sóknaraðili sem greiðandi, en um skýringu greiðslunnar var á seðlinum svofelldur prentaður texti: „Opinber gjöld samkvæmt skattskrá utan staðgreiðslu“. Þá hefur verið lagt fram í málinu skjal á bréfsefni varnaraðila, sem eftir yfirskrift sinni virðist hafa að geyma athugasemdir varðandi innheimtu gjalda hjá sóknaraðila. Segir þar meðal annars: „Samningur við S.S.B. greiðir kr. 8.000- á mánuði“. Engar skýringar hafa komið fram á efni þessa skjals undir rekstri málsins.
II.
Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 ber þrotamaður eftir lok gjaldþrotaskipta á búi sínu ábyrgð á skuldum, sem ekki fást þar greiddar. Segir í ákvæðinu að ef kröfu hefur verið lýst við skiptin og hún ekki fengist greidd sé fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum. Byrji nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi, sem skiptum er lokið, ef krafan hefur verið viðurkennd við þau, en ella á þeim degi, sem kröfunni var lýst.
Eins og áður greinir lýsti Gjaldheimtan í Reykjavík 8. janúar 1996 kröfu um greiðslu opinberra gjalda við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila. Með lýsingu kröfunnar var fyrning hennar rofin samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Með viðhlítandi lagaheimild tók skiptastjóri hins vegar ekki afstöðu til viðurkenningar á kröfunni. Af því leiðir samkvæmt berum orðum tilvitnaðs lagaákvæðis að nýr fyrningarfrestur byrjaði að líða gagnvart sóknaraðila áðurnefndan dag, sem kröfunni var lýst.
Beiðni varnaraðila um fjárnám hjá sóknaraðila barst sýslumanninum í Reykjavík 25. febrúar 2000. Var þá liðinn fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda frá því að fyrningu skuldar sóknaraðila við Gjaldheimtuna í Reykjavík var slitið með kröfulýsingu 8. janúar 1996. Getur varnaraðili því ekki borið við að skuld sóknaraðila sé ófyrnd vegna gjaldþrotaskiptanna á búi hennar.
III.
Í 6. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt er mælt svo fyrir að ef skattar gjaldanda eru hækkaðir eftir álagningu falli „viðbótarfjárhæðin“ í gjalddaga tíu dögum eftir að honum var tilkynnt um hækkun. Af þessu verður ályktað að endurákvörðun opinberra gjalda hafi ekki áhrif á gjalddaga og þar með fyrningu skuldar, sem myndast hefur við upphaflega álagningu gjalda, að því leyti, sem fjárhæð skuldarinnar er lægri en endanlega ákveðin gjöld að lokinni endurákvörðun þeirra. Getur endurákvörðun því ekki leitt af sér nýjan gjalddaga og fyrningartíma skuldar nema að því leyti, sem skuldin verður með henni hærri en upphaflegri álagningu nam.
Að gættu framangreindu verður ekki fallist á með varnaraðila að endurákvörðun skattstjórans í Reykjavík 3. febrúar 1999 á opinberum gjöldum sóknaraðila vegna gjaldársins 1995 geti hafa myndað nýjan upphafsdag fyrningarfrests á heildarskuld vegna gjalda þess árs. Ekkert liggur fyrir í málinu um hver hafi verið fjárhæð opinberra gjalda sóknaraðila á því ári samkvæmt upphaflegri álagningu þeirra, hvort þau hafi lækkað við endurákvörðun skattstjóra eða hækkað. Eins og málið liggur fyrir verður því engu slegið föstu um það í hvaða mæli fyrningartími á skuld sóknaraðila vegna gjaldársins 1995 kunni að geta ráðist af umræddri endurákvörðun 3. febrúar 1999.
Eins og áður greinir hefur varnaraðili lagt fram gögn um að greiðslu frá sóknaraðila 3. desember 1999 að fjárhæð 8.000 krónur hafi verið ráðstafað til greiðslu opinberra gjalda hennar vegna gjaldársins 1995. Af þeim gögnum verður ekkert ráðið um að sóknaraðili hafi ætlast til að þannig yrði með greiðsluna farið, en á greiðsludegi stóð sóknaraðili enn í skuld við varnaraðila vegna opinberra gjalda 1998 og 1999, sem nam hærri fjárhæð en greiðslunni. Svo sem áður var rakið verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum frá varnaraðila að samið hafi verið á ótilgreindum degi við sóknaraðila um að hún greiddi mánaðarlega inn á skuldir sínar 8.000 krónur eða sömu fjárhæð og greidd var 3. desember 1999. Varnaraðili hefur ekkert upplýst um efni þessa samnings aðilanna, þar á meðal hvort sóknaraðili hafi þar gengist undir að ljúka skuldinni, sem deilt er um í málinu, með slíkum óverulegum mánaðarlegum greiðslum. Í þessu ljósi hefur varnaraðili ekki fært viðhlítandi sönnur fyrir því að líta megi svo á að sóknaraðili hafi með þessari innborgun viðurkennt í merkingu 6. gr. laga nr. 14/1905 að skulda honum opinber gjöld vegna gjaldársins 1995.
Vegna þess, sem að framan segir, hefur varnaraðili ekki með málatilbúnaði sínum hnekkt þeirri málsvörn sóknaraðila að krafa hans um opinber gjöld vegna gjaldársins 1995 sé fyrnd. Getur því fjárnám fyrir þeirri kröfu ekki náð fram að ganga. Því til samræmis verður ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 3. apríl 2000 breytt á þann veg, sem í dómsorði greinir.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvörðun, sem sýslumaðurinn í Reykjavík tók 3. apríl 2000 um beiðni varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík, um fjárnám hjá sóknaraðila, Kristrúnu Ásu Kristjánsdóttur, er breytt á þann veg að fjárnám nái fram að ganga fyrir skuld að fjárhæð 20.840 krónur.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2000.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 5. maí sl.
Sóknaraðili er Kristrún Ása Kristjánsdóttir, kt. 020841-2579, Rauðalæk 69, Reykjavík.
Varnaraðili er Tollstjórinn í Reykjavík, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að breytt verði með úrskurði aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík er fram fór 3. apríl 2000 og gerðin nái einungis til kröfu að fjárhæð 20.840 kr. Sýslumaðurinn í Reykjavík ákvað þann 3. apríl 2000 að krafan öll að upphæð 6.896.562 kr. væri ófyrnd þrátt fyrir mótmæli gerðarþola og gerðinni yrði haldið áfram. Þá var lýst yfir að ákvörðunin yrði borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins vegna beiðni um úrlausn þessa.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að að ákvörðun sýslumanns um að láta hina kærðu aðfarargerð halda áfram vegna kröfu varnaraðila að fjárhæð 6.896.562 kr. ásamt áfallandi dráttarvöxtum frá 24. febrúar 2000 verði staðfest.
Jafnframt er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 7. júní sl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989, áður en úrskurður var kveðinn upp.
I
Málsatvik
Sóknaraðili var úrskurðuð gjaldþrota 20. nóvember 1995.Ágreiningur aðila snýst um það hvort krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila um greiðslu eftirstöðva vegna opinberra gjalda álagðra 1995, hafi verið fyrnd þegar varnaraðili lagði inn fjárnámsbeiðni vegna kröfunnar hjá sýslumanninum í Reykjavík 25. febrúar 2000.
Kröfulýsing vegna eftirstöðvanna frá 1995 var móttekin af skiptastjóra 8. janúar 1996. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til kröfunnar og lauk skiptum 1. mars 1996. Sóknaraðili kærði álagningu sína með skattakæru dags. 27. mars 1998. Þann 3. febrúar 1999 tók skattstjóri kæruna til greina með því m.a. að lækka verulega álagninguna vegna gjalda álagðra 1995. Þann 4. febrúar 1999 var greitt ótilgreint 16.000 kr. inná skattskuld sóknaraðila við varnaraðila. Fór greiðslan öll upp í álögð gjöld ársins 1994. Þann 22. nóvember 1999 var greitt ótilgreint 57.485 kr. inná skattskuld sóknaraðila við varnaraðila. Fór greiðslan öll upp í álögð gjöld ársins 1994. Þann 3. desember 1999 greiddi sóknaraðili kr. 8.000 inná skattskuld sína við varnaraðila. Fór greiðslan öll upp í álögð gjöld ársins 1995.
Varnaraðili heldur því fram að krafa hans hafi ekki verið fyrnd við móttöku fjárnámsbeiðni hjá sýslumanni þann 25. febrúar 2000. Upphaf fyrningarfrests, í tengslum við gjaldþrotaskipti sóknaraðila, skuli miða við skiptalok þann 1. mars 1996. Fyrningu kröfunnar hafi jafnframt verið slitið með skattakæru sóknaraðila þann 27. mars 1998 og nýrri álagningu skattstjóra þann 3. febrúar 1999. Þá hafi sóknaraðili greitt inná á kröfuna 4. febrúar 1999, 22. nóvember 1999 og 6. desember 1999 og skuli reikna nýjan fjögurra ára fyrningarfrest frá hverri greiðslu.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður kröfu gerðabeiðanda samkvæmt greiðslustöðuyfirliti, sem lagt hafi verið fram hjá sýslumanninum í Reykjavík 17. mars 2000 vera vegna opinberra gjalda fyrir árin 1995 6.875.722 kr., 1998 5.118 kr. og 1999 11.165 kr. Því er mótmælt að krafa að upphæð 6.875.722 kr. frá 1995 sé aðfararhæf þar sem hún sé fyrnd. Ekki sé ágreiningur vegna opinnberra gjalda fyrir árin 1998 og 1999. Þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til kröfu Gjaldheimtunnar í Reykjavík í bú sóknaraðila byrji nýr fyrningarfrestur að líða frá kröfulýsingarfresti 8. janúar 1996. Fyrningarfresti vegna kröfunnar fyrir árið 1995 hafi ekki verið slitið og ekkert hafi verið lagt fram sem sýni það. Slík krafa fyrnist á fjórum árum.
Um málskot þetta vísar sóknaraðili til 15. kafla laga nr. 90/1989. Um fyrningu kröfunnar er vísað til fyrningarlaga nr. 14/1905, aðallega 3. gr. og 2. mgr. 165 gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Vegna kröfu um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili telur að skýra beri 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 á þann hátt að sé skiptum lokið, með heimild í 155. gr. gjaldþrotaskiptalaga, án þess að afstaða sé tekin til lýstrar kröfu, með heimild í 1. mgr. 119. gr. laganna, þá byrji fyrningarfrestur hennar að líða við skiptalok. Upphaf fyrningarfrests, umþrættrar kröfu í máli þessu, skuli því miða við skiptalok þann 1. mars 1996. Krafan hafi því af þessari ástæðu verið ófyrnd þegar fjárnámsbeiðni hafi verið móttekin hjá sýslumanni 25. febrúar 2000, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989.
Lög nr. 21/1991 hafi leyst af hólmi lög nr. 6/1978 og í stað 133. gr. og 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga hafi komið 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Í 133. gr. laganna hafi verið kveðið á um 10 ára fyrningarfrest krafna sem ekki fengjust greiddar við gjaldþrotaskipti. Í 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga hafi verið kveðið á um við hvaða tímamark skyldi miða upphaf fyrningarfrests. Þar hafi verið sagt að væri krafa viðurkennd skyldi miða upphafið við skiptalok en væri kröfu hafnað skyldi miða við þann dag sem kröfu væri hafnað.
Í greinargerð með 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotaskiptalaga segir að hið nýja ákvæði sé frábrugðið hinu eldra að því leyti að gjaldþrotaskiptin leiði til rofa á fyrningu, en síðan byrji sá fyrningartími að líða á ný sem eigi við um hverja kröfu um sig. Með þessum orðum virðast höfundar laganna ekki hafa gert ráð fyrir öðrum efnisbreytingum frá fyrra réttarástandi. Kveðst varnaraðili halda því fram að ef skýra ætti 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotaskiptalaga á þann hátt, sem sóknaraðili haldi fram, þá hefði verið ærin ástæða til að víkja að því sérstaklega í greinargerðinni ef ætlunin hefði verið að breyta gildandi reglum, sbr. Hrd. 1979:403.
Sé lögskýring sóknaraðila notuð leiði það til þess að ákvæðið þannig skýrt leiði ekki til eðlilegs lagasamræmis heldur þvert á móti. Í 119. og 120. gr. gjaldþrotaskipta-laga komi fram reglur um það hvernig með skuli fara ef skiptastjóri fallist ekki á að viðurkenna kröfu að öllu leyti. Í þeim greinum komi fram að unnt sé að fá niðurstöðu héraðsdóms um gildi viðkomandi kröfu. Sé þetta í raun eina leiðin til að ná fram dómi um gildi kröfu gagnvart þrotabúi, sbr. 1. mgr. 116. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ef skiptastjóri nýti sér heimild 3. ml. 1. mgr. 119. gr. gjaldþrotaskiptalaga og taki ekki afstöðu til kröfu, geti því sú staða komið upp, sé lögskýringu stefnenda beitt, að krafa kröfuhafa fyrnist á meðan á skiptum stendur. Til séu mörg dæmi þess að tekið hafi lengri tíma en fjögur ár, frá móttöku kröfulýsingar, að ljúka skiptum í þrotabúi. Geti það verið hvort sem er vegna málaferla eða að skiptastjóri sýni mikla biðlund gagnvart þrotamanni sem sé að reyna að leysa til sín bú sitt.
Í greinargerð með 119. og 120. gr. gjaldþrotaskiptalaga segi að þau ákvæði séu í nær öllum atriðum sama efnis og ákvæði 108.-110. gr. eldri laga. Í greinargerðinni sé jafnframt vísað til greinargerðar með 59. og 60. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum. Í þeirri greinargerð segi m.a. að mælt sé sérstaklega fyrir um undanþágu frá skyldu til að taka afstöðu til hverrar kröfu fyrir sig ef um kröfur sé að ræða sem verði talið víst í ljósi efnahags dánarbúsins að fáist ekki greiddar, enda mundi erfiði við mat á slíkum kröfum ekki þjóna neinum tilgangi. Miðað við þetta virðist lögskýringarleið sóknaraðila vera alröng því samkvæmt henni skipti höfuðmáli, hvað upphaf fyrningarfrests varði, að skiptastjóri taki afstöðu til allra krafna hvort sem telja megi að eitthvað fáist greitt upp í þær eða ekki.
Verði lögskýringarleið sóknaraðila valin megi segja að 3. ml. 1. mgr. 119. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé dauður bókstafur. Telja megi þá víst að framvegis muni kröfuhafar í öllum tilfellum krefjast þess af skiptastjórum að þeir taki afstöðu til allra krafna, einnig í þeim rúmlega 90% tilfella þegar um eignalaus bú sé að ræða, til að tryggja það að upphaf fyrningarfrests miðist við skiptalok. Slík niðurstaða yrði í andstöðu við frásögn í greinargerð með skiptalögum og öll viðurkennd lögskýringarsjónarmið. Hefði löggjafinn ætlað að breyta fyrra réttarástandi að þessu leyti hefði verið eðlilegt að kveða á um slíka breytingu með skýrum hætti í lögum eða greinargerð.
Því sé haldið fram að innsend skattakæra sóknaraðila rjúfi fyrningu kröfunnar og jafngildi viðurkenningu skuldara á kröfunni, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905. Nýr fyrningarfrestur á umþrættum eftirstöðvum gjaldanda hafi því byrjað að líða 27. mars 1998. Jafnframt sé því haldið fram að enn skuli reikna nýtt upphaf fyrningarfrests miðað við úrskurðardag skattsstjóra 3. febrúar 1999, sbr. ákvæði laga nr. 14/1905 og laga nr. 75/1981.
Þá er því haldið fram að við hverja greiðslu sóknaraðila dagana 4. febrúar 1999, 22. nóvember 1999 og 3. desember 1999 hafi nýr fjögurra ára fyrningarfrestur byrjað að líða sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905. Krafa varnaraðila fyrnist því í fyrsta lagi 3. desember 2004.
Kröfu um greiðslu málskostnaðar styður varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Samkvæmt framlagðri skrá yfir lýstar kröfur í þrotabúi sóknaraðila var ekki tekin afstaða til kröfu varnaraðila, þar sem ljóst var að ekkert myndi koma upp í greiðslu hennar, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Kröfunni var lýst 8. janúar 1996, en skiptum í búinu lauk 1. mars 1996. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 ber þrotamaður ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið, ef krafan var viðurkennd, en ella á þeim degi sem kröfunni var lýst. Ákvæði þetta er frábrugðið reglu 139. gr., sbr. 133. gr. eldri laga nr. 6/1978 um sama efni að því leyti að fyrningartími tekur nú mið af fyrningartíma hverrar kröfu fyrir sig, en er ekki ávallt tíu ár, eins kveðið var á um samkvæmt tilvitnuðu eldra ákvæði. Ekki er sérstaklega kveðið á um upphaf fyrningarfrests kröfu, sem óskylt er að taka afstöðu til, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, en telja verður að þrotamaður beri ábyrgð á henni fullan fyrningartíma frá lokum skipta. Er það í samræmi við reglu laga nr. 6/1978 sem ekki verður séð að átt hafi að breyta með núgildandi lögum um gjaldþrotaskipti.
Samkvæmt framansögðu bar að miða upphaf fyrningarfrests vegna lýstrar kröfu varnaraðila í bú sóknaraðila við skiptalok hinn 1. mars 1996. Krafan var því ófyrnd þegar aðfararbeiðni varnaraðila var móttekin hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 25. febrúar 2000, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989 og 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu varnaraðila um það að að ákvörðun sýslumanns um að láta hina kærðu aðfarargerð halda áfram vegna kröfu varnaraðila að fjárhæð 6.896.562 kr. ásamt áfallandi dráttarvöxtum frá 24. febrúar 2000 verði staðfest.
Sóknaraðili skal greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst 40.000 kr.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að aðfarargerð nr. 011-2000 02192, sem hófst 3. apríl 2000, skuli halda áfram, vegna kröfu varnaraðila að fjárhæð 6.896.562 kr. ásamt áfallandi dráttarvöxtum frá 24. febrúar 2000, er staðfest.
Sóknaraðili, Kristrún Ása Kristjánsdóttir, greiði varnaraðila, tollstjóranum í Reykjavík, 40.000 kr. í málskostnað.