Hæstiréttur íslands
Mál nr. 796/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn
9. desember 2014. |
|
Nr.
796/2014. |
Lögreglustjórinn á
höfuðborgarsvæðinu (Jón
H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Páll Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga
nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar
sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu
stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún
Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2014, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
7. desember 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins
12. desember 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í
l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili
krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að
gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að varnaraðila
verði ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Að virtum gögnum málsins er varnaraðili meðal annars undir rökstuddum
grun um að hafa framið brot sem varðað getur fangelsi samkvæmt 252. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með
skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt.
[...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. desember nk. kl.
16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur
fram að skömmu fyrir miðnætti í gær hafi lögreglu borist tilkynning um átök milli
fjögurra manna við [...] í Reykjavík og að tveir þeirra væru að fara af staðnum
á grárri bifreið. Bifreiðin hafi verið stöðvuð skömmu síðar í akstri og hafi
tveir menn verið í henni, báðir með áverka og þar af annar með nokkur
stungusár. Í kjölfarið hafi tveir menn, kærði og Y, verið handteknir við [...].
Í bifreiðinni hafi fundist hnífur sem talið sé að hafi verið notaður við
árásina en við komu á sjúkrahús hafi komið í ljós að brotaþoli var með 6 stungusár,
tvö að framan á brjóstkassa, eitt á upphandlegg og tvö á síðu.
Þá er þess getið að við skýrslutöku
hjá lögreglu hafi annar brotaþola, A, lýst atvikum þannig að hann hafi verið
ásamt vini sínum B á rúntinum og haft viðkomu hjá [...] í [...], en [...]
standi hjá [...]. Þeir hafi tekið eftir tveimur mönnum með hettur og
sólgleraugu ganga að bifreiðinni og mennirnir hafi svo sest inn í bifreiðina.
Maðurinn sem hafi setið fyrir aftan a, þ.e. ökumannsmegin, hafi tekið upp
piparúða og maðurinn sem setið hafi fyrir aftan B, þ.e. farþegamegin, tekið upp
stóran hníf. Maðurinn með piparúðann hafi því næst skipað þeim að koma með
símana sína, veskin sín og bíllyklana og í kjölfarið sprautað úr piparúðanum
inni í bifreiðinni. Við það hafi þeir A og B farið út úr bifreiðinni og maðurinn
með piparúðann elt A en maðurinn með hnífinn elt B. A hafi kvaðst hafa slegist
við manninn og að lokum náð yfirhöndinni. Skömmu síðar hafi B öskrað til hans
að hann hafi verið stunginn. Þá hafi A hlaupið til hans, komið honum inn í
bílinn og ekið af stað með hann upp á sjúkrahús en verið stöðvaður af
lögreglunni skömmu síðar.
Í greinargerð lögreglustjóra er tekið
fram að við skýrslutöku hjá lögreglu hafi hinn brotaþola, B, lýst atvikum
þannig að hann hafi verið með A á rúntinum og þeir stöðvað við [...]. Skömmu
síðar hafi tveir menn komið inn í bifreiðina, um sitt hvora afturhurðina.
Maðurinn sem hafi komið fyrir aftan A hafi verið með piparúða eða eitthvað álíka og
aðilinn sem hafi komið fyrir aftan sig hafi verið með tvö hnúajárn og hníf. B
kvæði mennina hafa öskrað á sig og A að láta þá fá allt sem þeir gætu, veski,
síma, peninga og þess háttar. Þegar þeir hafi ekki orðið við þeirri beiðni hafi
einhvers konar piparúða verið spreyjað í bifreiðina
og í framhaldi af því hafi aðilinn sem setið hafi fyrir aftan B dregið upp
hníf. Því hafi B og A forðað sér út úr bifreiðinni. Báðir mennirnir hafi einnig
farið út úr bifreiðinni. B hafi svo lent í átökum við aðilann með hnífinn sem
náð hafi að stinga B fimm sinnum með hnífnum. B kvæðist hafa reynt að verja sjálfan
sig vegna hnífstunguárásarinnar. B kvæðist hafa náð að koma sér til baka í bílinn með
hjálp A og hafi hann séð hnífinn á jörðinni og sett í bílinn til þess að geta
látið lögregluna fá hnífinn. Engin fíkniefni hafi mælst í þvagi B.
Að sögn lögreglustjóra neitar kærði sök.
Kærði kveðjist hafa verið á vettvangi og lent í slagsmálum við ökumann
bifreiðarinnar en hafi ekki séð hvað fram hafi farið á milli meðkærða og hins
mannsins. Vakthafandi
læknir hafi greint frá því að B hafi verið með nokkra stunguáverka. Fram hafi
komið að hann hafi verið með sex stungusár, á brjóstvegg, vinstri öxl og á baki
vinstra megin. Hann segði að ein stungan hefði verið lífshættuleg, en hún hefði
verið í brjóstið og náð langt inn í brjóstholið á honum. Fram hafi komið að B
hafi fengið svonefnt loftbrjóst vegna áverkans. Þá hafi komið fram að hann væri
marinn víðs vegar og ætti erfitt með hreyfingar.
Lögreglustjóri tekur fram að rannsókn
málsins sé enn á frumstigi. Nauðsynlegt sé því að hans mati að lögregla fái
svigrúm til að ná utan um málið og yfirheyra sakborninga nánar sem og vitni, en
árásin hafi átt sér stað á opnu svæði nálægt fjölda íbúða og því ljóst að tölverð vinna sé eftir við að hafa upp á mögulegum vitnum
og ræða nánar við þau vitni sem þegar hafi gefið sig fram. Að mati lögreglu
megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda
rannsókn málsins, svo sem með því að reyna að hafa áhrif á framburð meðkærða og
vitna. Þá kunni hann að reyna að koma undan gögnum í málinu. Lögregla telji það
brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á fram komna kröfu um
gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til að koma í veg fyrir að kærði
geti spillt rannsókn málsins. Sakarefni málsins telji lögreglustjóri varða við
211. gr., sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218 gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940. Brot gegn ákvæðunum geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Að mati
lögreglu sé fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um
háttsemi sem geti varðað fangelsisrefsingu. Um heimild til gæsluvarðhalds sé
vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um
heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu standi sé vísað til 2. mgr.
98. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé
þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Af
því sem fram hefur komið fyrir dómi og gögnum málsins verður ráðið að kærði sé
undir rökstuddum grun um að hafa framið hættulega líkamsárás í félagi við annan
mann, sem fangelsisrefsing liggur við. Ekki
liggur fyrir hlutur hvors um sig í árásinni. Rannsókn málsins er á frumstigi og
má ætla að kærði geti torveldað rannsókn þess svo sem með því að hafa áhrif á
samseka eða vitni. Samkvæmt því er uppfyllt skilyrði a-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til að verða við kröfu um
gæsluvarðhald. Með sömu
rökum er fallist á að skilyrði 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt
til að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldsvistinni. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til
greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör
Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt.
[...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. desember nk. kl.
16.00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur.