Hæstiréttur íslands
Mál nr. 496/2003
Lykilorð
- Nytjastofnar sjávar
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 2004. |
|
Nr. 496/2003. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Níels Adolf Ársælssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Nytjastofnar sjávar.
Skipstjórinn N var sakfelldur fyrir brot gegn 2. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, eins og sú grein var orðuð er brotið var framið, svo og 5. gr. og 6. gr. sömu laga, með því að hafa ekki hirt, landað, né látið vega allan afla skipsins. Þótti refsing N hæfilega ákveðin 1.000.000 króna sekt til ríkissjóðs.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að ákærði gerðist sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Brot ákærða varða við 2. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, eins og sú grein var orðuð á þeim tíma er brotin áttu sér stað, sbr. nú 1. gr. laga nr. 13/2002 og jafnframt varða brot hans við 5. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57/1996. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur einnig staðfestur um refsingu ákærða, sem og um sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 8. ágúst 2003.
Mál þetta, sem var dómtekið 27. júní sl., höfðaði ríkislögreglustjóri hér fyrir dómi 27. febrúar sl., með ákæru á hendur Níels Adolf Ársælssyni, f. 17. september 1959, Skógum, Tálknafjarðarhreppi og T ehf.
„fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, með því að ákærði Níels Árni [svo misritað í ákæru], sem skipstjóri á Bjarma BA-326 skipaskrárnúmer 1321 hirti ekki, landaði ekki né lét vega allan afla skipsins, í samræmi við það sem lög áskilja, í tveimur veiðiferðum þess útaf Vestfjörðum laugardaginn 3. nóvember og sunnudaginn 4. nóvember 2001 sem landað var í Flateyrarhöfn að veiðiferðunum loknum þar sem áhöfn þess henti að minnsta kosti 53 þorskum af afla skipsins aftur í hafið skömmu eftir veiði þeirra.
Brot ákærða Níelsar Árna telst varða við 2. mgr. 2. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57, 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.
Brot ákærða T ehf. telst auk framangreinds varða við 24. gr. laga nr. 57, 1996.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreint brot.“
Fallið var frá ákæru á hendur T ehf. undir rekstri málsins, með vísan til þess að það hefur verið úrskurðað gjaldþrota.
Ákærði krefst sýknu.
I.
Í fréttatíma Sjónvarpsins 8. nóvember 2001 var sýnt myndband, þar sem fiskar eru fluttir með færiböndum að rennu, sem þeir falla á og fara út um lúgu. Síðan sést á myndbandi sem tekið er ofan frá borðstokki skips, hvar fiskar falla út um lúgu á skipshlið og ofan í sjó.
Ákærði kannast við að myndirnar hafi verið teknar um borð í því skipi og á þeim tíma sem ákæran greinir og að hann hafi verið skipstjóri á skipinu. Hann kveður engum fiski hafa verið hent, nema vegna þess að hann væri svo sýktur af hringormi að hann væri augsýnilega ónýtur. Hafi einhverjum ósýktum fiski verið varpað fyrir borð, hafi það verið andstætt fyrirmælum hans og án hans vitundar. Ákærði kveðst hafa talið að ekki hafi nema 40 fiskum verið varpað fyrir borð, en kveðst þó ekki rengja að þeir hafi verið a.m.k. 53.
Ákærði segir að tveir fréttamenn hafi verið um borð í þeim tilgangi að taka myndir, en kveðst ekki vilja tjá sig frekar um veru þeirra þar. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort hann hefði skýrt það fyrir þeim að fiskinum væri hent vegna þess að hann væri sýktur.
Vitnið A, sem þá starfaði sem fréttamaður, kveður tildrög þess að hann og B myndatökumaður voru um borð hafa verið þau að hann hafi lengi talið ólögmætt brottkast fiskjar vera vandamál í fiskveiðistjórnun á Íslandi. Skipstjórinn hafi hringt til fréttastofu og lýst þessu vandamáli og vitnið hafi haft samband við hann og orðið úr að þeir fengju að vera um borð og taka myndir af brottkasti. Vitnið kveður skipstjórann hafa sagt sér að hann hefði gefið áhöfninni fyrirmæli um að fleygja öllum fiski undir ákveðnum stærðarmörkum og sér hafi sýnst að öllum fiski undir 45 sm. á lengd vera hent. Misjafnt hafi verið hve miklu var hent úr einstökum hölum, eftir því hvar verið var að veiða, en skipstjórinn hafi leitast við að veiða ekki nema stærri fisk. Hann telur að sjálfur hafi hann séð einhverjum hundruðum fiska hent, en tekur fram að hann hafi ekki fylgst með veiðunum allan tímann. Vitnið segir að hann hafi ekki séð betur en að sá fiskur sem var hent hafi verið heill og ósýktur. Vitnið, sem er fiskifræðingur að mennt, kveðst aldrei hafa séð merki um hringormasýkingu utan á heilum fiski.
Vitnið B segir að A hafi hringt í sig og sagst hafa komist í kynni við skipstjóra sem vildi leyfa þeim að koma til sín og taka myndir af brottkasti. Hafi hann farið í tvær veiðiferðir og tekið upp allt að 80 mínútna myndefni, þó ekki allt af brottkasti, heldur af ýmsu öðru sem hafi borið fyrir augu. Vitnið óhlýðnaðist fyrirmælum dómsins um að hafa myndefnið með sér til sýningar í réttinum og kveðst hafa gefið loforð um að skýra aldrei frá nafni bátsins og sýna aldrei neitt af myndefninu, umfram það sem sýnt var í ofannefndri sjónvarpsfrétt. Vitnið kveðst ekki telja sig hafa séð hundruðum eða þúsundum fiska varpað fyrir borð, heldur hafi þar frekar verið um einhverja tugi að ræða. Þá geti það ekki lagt mat á stærð fiska sem var fleygt.
Vitnið D, sem var háseti á skipinu í greindum veiðiferðum, segir að fiski hafi verið fleygt vegna smæðar og telur að miðað hafi verið við fisk sem var um 50 sm á lengd og smærri. Telur vitnið að þetta hafi verið einhver hundruð fiska. Vitnið kveðst ekki hafa séð sýktan fisk, en einhverjum fiskum, þó ekki mörgum, hafi verið fleygt vegna skemmda.
Vitnið E, sem gegndi starfi netamanns í greindum veiðiferðum, segir að fyrirmæli hafi verið um að fleygja þorski sem var undir 2 ½ kg. að þyngd, vegna þess að ekki borgaði sig að hirða hann. Vitnið kveðst áætla að allt að 5-10 tonnum af fiski hafi verið hent með þessum hætti í veiðiferðunum tveimur. Vitnið kveðst ekki hafa séð neinn fisk sýktan af hringormi. Hann kveðst aðspurður telja að það geti verið að það sjáist á heilum fiski ef hann er sýktur af hringormi, helst á gömlum stórum fiski ef hann er grindhoraður.
Vitnið F var stýrimaður í greindum veiðiferðum. Vitnið kveðst hafa unnið uppi á þilfari og ekki séð fisk fara í sjóinn. Hann kannast ekki við að fyrirmæli hafi verið um að fleygja fiski, nema hann væri sýktur eða skemmdur. Vitnið kveður það sjást utan á fiski ef hann er mjög sýktur af hringormi, það sjáist á hnúðum sem myndist undir roðinu. Vitnið kveðst ekki muna til þess að rætt hafi verið að borið hafi á slíkum fiski í umræddum veiðiferðum.
Vitnið G, sem var vélavörður í greindum veiðiferðum, bar í upphafi skýrslu sinnar hér fyrir dómi að eingöngu hefði verið hent fyrir borð fiski sem var ónýtur, þ.e. slitinn, marinn, kraminn, eða étinn af pöddu eða marfló, en kannaðist ekki við að fiski hefði verið hent vegna smæðar. Vitninu var kynntur framburður hans fyrir lögreglu, þar sem hann skýrði frá að fyrirmæli hefðu verið um að henda fiski sem var undir 1 ½ kg. að þyngd og að hann myndi sérstaklega eftir einu hali, þar sem líklega hefðu komið 10 til 15 tonn í snurvoðina og að af því hefði líklega verið kastað 10-20 af hundraði. Sagðist vitnið þá hljóta að hafa sagt þar rétt frá.
Vitnið H, sem var vélstjóri í greindum veiðiferðum, skýrði svo frá í fyrstu að einungis hefði verið fleygt fyrir borð þeim fiskum sem sjást á myndbandinu og hafi þeim verið fleygt vegna þess að þeir hafi verið sýktir og litið illa út. Hafi þeir verið með kýli. Borinn var undir vitnið framburður hans fyrir lögreglu, þar sem hann greindi frá því að undirmálsfiski hafi verið hent og að öllu jöfnu hendi þeir ekki öðrum fiski en undirmálsfiski og að blátt bann liggi við því á Bjarma BA 326 að koma að landi með undirmálsfisk. Vitnið var spurt hve undirmálsfiskur sé stór og sagði að hann væri svona 30 sentimetrar. Vitnið var spurt hvort regla hafi verið að fleygja honum fyrir borð og sagði þá að alla jafna sé öllum svona smáfiski hent. Vitninu var kynntur framburður þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness þar sem það giskaði á að einhverjum tugum tonna af fiski hefði verið hent í þessum veiðiferðum. Vitnið kvað þetta hafa verið ágiskun sína og ekki kunna að skýra frá því hve miklu hafi verið fleygt fyrir borð, en vita að fyrirskipað hafi verið að henda sýktum fiski. Það viti hins vegar ekki hve mikið hafi farið út um lúguna.
Vitnið I kvaðst hafa farið um borð í Bjarma BA 326 14. nóvember 2001 til veiðieftirlits og verið þar í tæpar þrjár vikur. Spurður um aflasamsetningu sagði hann að smáfiskur, þ.e. undir 55 sm. á lengd, hafi mest farið upp í um 17%. Hann hafi séð F stýrimann kasta fjórum fiskum fyrir borð og annan skipverja kasta einum. Hann hafi gert athugasemd við það og gert skipstjóra aðvart. Eftir það hafi engum fiski verið hent. Hann kveður annan skipverjann, líklega F, hafa gefið þá skýringu að þetta væri smárusl. Spurður um hvort hann þekki til þess að hringormasmit sjáist utan á heilum fiski sagði hann sig minna að þetta geti sést á hnúðum á kviði fisks, en það sé ekki algengt.
II.
Ekki er deilt um að myndband, sem var sýnt í ofangreindum sjónvarpsfréttatíma og sýnir m.a. fisk fara út um lúgu á skipshlið, hafi verið tekið um borð í Bjarma BA-326. Lágmarksfjöldi þorska, sem greindur er í ákæru, er samkvæmt talningu sækjanda við skoðun á myndbandinu, sem hann gerði nánar grein fyrir við munnlegan málflutning. Ákærði kveðst ekki rengja talninguna. Þegar þar að auki er virtur framburður A, E og D um magn brottkastaðs fisks í veiðiferðunum tveimur, sem giska á miklu meira magn, A og D á hundruð fiska og E jafnvel á allt að tvö þúsund, er ekki varhugavert að telja sannað að varpað hafi verið fyrir borð a.m.k. 53 fiskum í þeim tveimur veiðiferðum sem greindar eru í ákæru.
III.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, eins og ákvæði greinarinnar hljóðaði áður en henni var breytt með lögum nr. 13/2002, var skylt að hirða og koma með að landi allan afla. Í 2. mgr. var kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. væri heimilt að varpa fyrir borð afla sem væri sýktur, selbitinn eða skemmdur á annan hátt, sem ekki hefði verið hægt að komast hjá á þeim veiðum sem um væri að ræða. Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi varpað afla fyrir borð í skjóli þessarar heimildar. Segir hann að varpað hafi verið fyrir borð fiski sem hafi sýnilega verið svo sýktur af hringormi að hann hafi verið ónýtur. Nefnir hann að veitt hafi verið á svonefndu Kópanesrifi, þar sem mikið sé um hringormasýktan fisk.
Samkvæmt minnisblaði Hafrannsóknarstofnunar, dagsettu 9. maí 2003, sem er samið af Droplaugu Ólafsdóttur líffræðingi, byggja upplýsingar um selorma í þorski á Íslandsmiðum á könnunum á lönduðum afla frá árunum 1985-1988. Segir í minnisblaðinu að fjöldi orma aukist með auknum aldri og lengd fiskanna og vísbendingar séu um mun milli svæða umhverfis landið. Gögn gefi ekki til kynna að þorskur landaður á Vestfjörðum sé að meðaltali sýktari af selormi en á öðrum svæðum. Hugsanlegt sé að staðbundnar aðstæður geti orsakað mun fleiri orma í fiskum á afmörkuðum svæðum en vænta megi út frá meðaltölum á svæðinu í heild. Engar upplýsingar liggi hins vegar fyrir um ormasýkingar í fiskum við Kópanesrif eða frá nálægum fjörðum. Droplaug kveðst ekki kannast við það af eigin raun að unnt sé að sjá það utan á fiski ef hann er sýktur af hringormi, en kveðst þó ekki vilja útiloka að það geti gerst í einstökum tilfellum. Spurð hvort hold fisks geti verið svo skemmt af þeim sökum kveðst hún ekki kannast við það þegar um þorsk er að tefla. Hún segir það sína reynslu að ormurinn bori sig inn í hold fisksins og liggi tiltölulega djúpt inni í flakinu.
J, fyrrverandi skipstjóri á Tálknafirði, var kallaður fyrir dóminn til skýrslugjafar. Hann kveðst hafa reynslu af fiskveiðum á Kópanesrifi og segir að þess sé síður en svo að vænta að fá þar fisk sem sé meira smitaður af hringormi en gerist og gengur. J segir það geta gerst að sjáist utan á fiski að hann sé sýktur af hringormi, en segir það vera hverfandi tilvik.
Vitnið A, sem er fiskifræðingur að mennt, kveðst aldrei hafa séð merki um hringormasýkingu utan á heilum fiski og að hann hafi ekki séð betur en að fiskur sem var varpað fyrir borð í þeim veiðiferðum sem ákæran varðar, hafi verið heill og ósýktur. D kveðst ekki hafa séð sýktan fisk, en einhverjum fiskum, þó ekki mörgum, hafi verið fleygt vegna skemmda. Vitnið E kveðst ekki hafa séð neinn fisk í þessum veiðiferðum, sem hafi verið sýktur af hringormi, en telja af reynslu sinni að það geti sést á heilum fiski, helst gömlum og horuðum. Þá bera F og H að það geti sést á fiski ef hann er sýktur af hringormi, á kýlum, eða hnúðum undir roðinu.
Allur sá fiskur, sem sést á ofannefndu myndbandi, er óblóðgaður og óslægður. Sumt af honum sést í nærmynd. Engin merki sjást á myndunum um að hann hafi verið sýktur eða skemmdur. Miðað við skýrslur Droplaugar Ólafsdóttur og A og sjómanna, sem raktar hafa verið hér að ofan, verður ekki lagt til grundvallar að það sé nema í undantekningartilfellum, sem unnt sé að sjá á heilum fiski að hann sé sýktur af hringormi.
Til þess verður litið að vitnið A, sem er fiskifræðingur að mennt, ber að hann hafi engan fisk séð sýktan eða skemmdan af þeim sem varpað var fyrir borð í greindum veiðiferðum. Sama hljóðar vitnisburður E um, svo og vitnisburður D, sem segir þó að einhverjum, en ekki mörgum fiskum hafi verið varpað fyrir borð vegna skemmda. Vitnisburður G og H um að eingöngu hafi verið varpað sýktum fiski fyrir borð, verður ekki lagður til grundvallar. Er þá litið til þess að framburður þeirra hér fyrir dómi var ósamkvæmur skýrslum þeirra fyrir lögreglu og hvað H varðar, skýrslu hans fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Framburður þessara vitna varð óákveðinn þegar leitað var skýringa þeirra á þessari ósamkvæmni. Þegar jafnframt er litið til framburðar A um að tilefni þess að hann fór um borð í skip, sem fyrir liggur að var Bjarmi BA 326, var að afla heimilda um ólögmætt brottkast fiskjar eftir ábendingu um það frá skipstjóranum og framburðar D og E um almenn fyrirmæli um að varpa fyrir borð öllum fiski undir ákveðnum stærðarmörkum, er það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ástæða brottkastsins var ekki sýking í fiskinum. Verður staðhæfing ákærða um það metin fyrirsláttur einn.
IV.
Samkvæmt ofansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa framið þá háttsemi sem ákæran greinir, án þess að hafa verið það heimilt samkvæmt þágildandi ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Háttsemi hans varðar nú við verknaðarlýsingu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 13/2002. Ber að dæma ákærða fyrir brot gegn því ákvæði, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæðið þykir tæma sök gagnvart ákvæðum 5., 6., og 9. gr. laga nr. 57/1996, og verður háttsemi ákærða því ekki heimfærð til þeirra. Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 23. gr. laga nr. 57/1996.
Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans fyrir það brot sem hann er hér sakfelldur fyrir. Við ákvörðun refsingar hans verður litið til þess að lagt er til grundvallar að hann hafi látið varpa fyrir borð a.m.k. 53 fiskum, sem sjást á örstuttu myndskeiði, sem er dæmigert fyrir miklu meira heildarbrottkast í þeim tveimur veiðiferðum sem ákæran varðar, samkvæmt framburði A,E og D. Ákærði verður látinn njóta þess að ekki verður staðreynt hve miklu magni var varpað fyrir borð umfram ofangreinda 53 fiska og brot hans ekki metið stórfellt, þannig að varði fangelsi, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 57/1996.
Refsing ákærða ákveðst sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 1.000.000 króna, sem ákærði skal greiða innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæta ella fangelsi í þrjá mánuði. Þá verður hann dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hrl., sem ákveðast 300.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri. Dómsuppsaga hefur dregist nokkuð vegna anna dómarans.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Níels Adólf Ársælsson, greiði 1.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hrl., 300.000 krónur.