Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 27. maí 2009. |
|
Nr. 271/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Arnþrúður Þórarinsdóttir, aðstoðarsaksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. Þá var einnig staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna breyttri tilhögun gæsluvarðhalds.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærðir eru úrskurðir Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2009, þar sem varnaraðila var annars vegar gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. júní 2009 klukkan 16 og honum gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur og hins vegar var hafnað kröfu hans um breytta tilhögun gæsluvarðhalds. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður um gæsluvarðhald verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og hann verði ekki látinn sæta frekari einangrun.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður um gæsluvarðhald og einangrun verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hinna kærðu úrskurða verða þeir staðfestir.
Dómsorð:
Hinir kærðu úrskurðir eru staðfestir.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2009
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [heimilisfang], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 2. júní 2009. Þess er jafnframt krafist að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að þann 20. apríl 2009 hafi lögreglunni borist upplýsingar um að von væri á sendingu til Íslands sem innihéldi fíkniefni. Væri pakkinn sendur með hraðflutningafyrirtækinu UPS. Pakkinn hafi borist til landsins daginn eftir og reynst innihalda um 6 kg af amfetamíni. Á pakkanum hafi verið gefið upp símanúmer sem hafði reynst óskráð en tekið í notkun 15. apríl sl. Upplýsingar hafi síðan borist erlendis frá um að kærði væri notandi þessa símanúmers. Gögn málsins beri með sér að kærði hafi verið í sambandi við þá aðila sem sent hafi pakkann hingað til lands. Þann 18. maí sl. hafi lögreglan fylgst með kærða þar sem hann hafi hitt þrjá útlendinga í Smáralind og gengið með þeim að bifreið við verslunarmiðstöðina. Þar hafi kærði afhent mönnunum umslag sem lögreglan telur að hafi innihaldið peninga. Kærði hafi verið handtekinn á heimili sínu í dag og leit gerð hjá honum. Fundist hafi 1.200.000 krónur í peningum heima hjá honum og 695.000 krónur í peningum hafi fundist á vinnustað hans.
Lögreglan telur rökstuddan grun kominn fram um stórfellt fíkniefnabrot kærða. Hún telur nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins svo honum sé ekki kleift að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn eða geti komið undan gögnum sem hafi sönnunargildi í málinu. Þykir lögreglunni því nauðsynlegt vegna rannsóknarinnar að kærði sæti gæsluvarðhaldi og einangrun á meðan gæsluvarðhaldi stendur.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. júní 2009, kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2009.
X var úrskurðaður í dag til að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 2. júní 2009, kl. 16:00. Honum var jafnframt gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Hann krefst þess nú að gæsluvarðhaldinu verði hagað þannig að ekki verði um takmarkanir að ræða og er sérstaklega mótmælt takmörkunum að því er varðar c-, d- og e-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er kröfu kærða mótmælt og þess krafist að tilhögun gæsluvarðhalds fari fram samkvæmt c-, d- og e-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Það liggur fyrir í máli þessu að kærði sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 vegna gruns um brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er rannsóknarhagsmunum þeim sem liggja til grundvallar lýst í fyrrgreindum úrskurði um gæsluvarðhald. Með vísan til þess sem þar er greinir, og að virtum öllum atvikum málsins, þykir skilyrðum fullnægt til að kærði sæti takmörkunum skv. c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kröfu kærða, X, um breytta tilhögun gæsluvarðhalds er hafnað.