Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Mánudaginn 29. apríl 2013. |
|
Nr. 230/2013.
|
Credit Suisse Int. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
Með úrskurði héraðsdóms var mál L hf. á hendur C Int. fellt niður og fyrrnefnda félaginu gert að greiða því síðarnefnda 500.000 krónur í málskostnað. Var sú fjárhæð ákveðin að teknu tilliti til umfangs málsins og með hliðsjón af tímaskýrslu lögmanns C Int. og þeim venjum sem skapast hefðu um ákvörðun málskostnaðar. Í málinu krafðist C Int. þess að L hf. yrði gert að greiða sér hærri málskostnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framlögð skjöl í málinu, sem mörg væru á ensku, hefðu ekki verið þýdd er málið var fellt niður. Kostnaður C Int. vegna þýðingar væri því hvorki vegna skyldu sem á hann væri lögð samkvæmt 2. mgr. né 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og félli ekki undir 1. mgr. 129. gr. sömu laga. Þá hefði kostnaður málsaðila almennt vegna vinnu lögmanns hans við meðferð máls verið metinn af dómstólum hverju sinni og væri þá jafnan tekið tillit til þeirra atriða sem skírskotað væri til í hinum kærða úrskurði. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með þessum athugasemdum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2013, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að varnaraðila verði gert að greiða honum 6.768.200 krónur í málskostnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um hækkun þess málskostnaðar, sem ákveðinn var með hinum kærða úrskurði, einkum á því að umfang málsvarnar hans í héraði hafi verið verulegt. Auk þess hafi verið nauðsynlegt að tefla fram vörnum um flókna lögfræðilega þætti, þótt gögn sem varnaraðili hafi lagt fram hafi sýnt að sóknaraðili hafi ekki verið aðili að þeim viðskiptum, sem riftunarkrafa varnaraðila hafi beinst að. Hafi sóknaraðili þurft að afla gagna frá óskyldum aðilum til að geta reist vörn sína á. Hann kveður að samkvæmt framlagðri vinnuskýrslu hafi lögmenn hans unnið 157 vinnustundir í þágu málsvarnarinnar, þar af hafi 116 vinnustundir kostað 240 evrur hver vinnustund, 38 vinnustundir kostað 355 evrur hver vinnustund og 2,5 vinnustundir 115 evrur hver vinnustund. Samanlagt kosti framangreind vinna 41.737,5 evrur. Þá kveðst sóknaraðili hafa greitt 1.053,95 evrur í kostnað vegna þýðingar.
Sóknaraðili bendir einnig á að varnaraðili hafi vegna handvammar höfðað málið gegn röngum aðila og fellt málið niður um síðir af þeim ástæðum. Loks bendir sóknaraðili á að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni, sem jafngildi um 210.000.000 króna.
Mál þetta var þingfest fyrir héraðsdómi 29. maí 2012 og óskaði varnaraðili þess í þinghaldi 11. mars 2013 að það yrði fellt niður. Þá hafði málið verið tekið fyrir þrisvar sinnum eftir að því hafði verið úthlutað til dómara.
Málskostnaður er ígildi skaðabóta vegna þess kostnaðar, sem aðili hefur af því að gæta hagsmuna sinna í dómsmáli. Í 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 er tiltekið hvaða kostnaður falli undir málskostnað. Samkvæmt a. lið málsgreinarinnar er þar á meðal ,,kostnaður af flutningi máls“ og í e. lið er meðal annars getið um þóknun þýðanda.
Framlögð skjöl í málinu, sem mörg eru á ensku, höfðu ekki verið þýdd er málið var fellt niður. Kostnaður sóknaraðila vegna þýðingar er því hvorki vegna skyldu sem á hann er lögð samkvæmt 2. mgr. né 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 og fellur ekki undir 1. mgr. 129. gr. þeirra laga. Hæfilegur kostnaður málsaðila vegna vinnu lögmanns hans við meðferð máls, þar með talið málflutning og undirbúning hans hefur verið metinn af dómstólum hverju sinni og þá tekið tillit til þeirra atriða, sem héraðsdómur skírskotar til í hinum kærða úrskurði.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Credit Suisse Int., greiði varnaraðila, LBI hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2013.
Í þinghaldi í dag, mánudaginn 11. mars 2013, óskaði lögmaður stefnanda, LBI hf., Austurstræti 16, Reykjavík eftir niðurfellingu máls sem hann hefur höfðað gegn stefnda, Credit Suisse International, One Cabot Square, London, Stóra Bretlandi, málið lýtur að kröfum stefnanda um riftun greiðslu að nafnvirði 2 milljónir evra 3. júní 2008 og endurgreiðslu á 1.298.353,10 evra.
Stefnandi hefur vísað til þess að eftir höfðun málsins hafi komið fram að annar lögaðili innan fyrirtækjasamstæðu stefnda hafi verið viðtakandi greiðslunnar, þ.e. Credit Suisse Securities Ltd., og muni þeim aðila verða stefnt. Jafnframt hefur stefnandi vísað til þess að ógerningur hafi verið fyrir hann að staðreyna fyrir höfðun málsins að viðtakandi greiðslunnar var umrætt dótturfélag stefnda en ekki stefndi sjálfir. Af hálfu stefnda hefur hins vegar verið vísað til þess að leiðréttingar stefnda hafi komið fram snemma og hafi stefnanda frá upphafi verið í lófa lagið að beina málsókn sinni að réttum aðila svo framarlega sem hann hefði rannsakað málið nægilega.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður fallist á kröfu stefnanda um niðurfellingu málsins. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laganna skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli. Samkvæmt þessu er skylt að fallast á kröfu stefnda um málskostnað án tillits til hugsanlegra álitamála um rétta aðild sem stefnandi stóð frammi fyrir við höfðun málsins. Að teknu tilliti til umfangs málsins þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 500.000 krónur. Er þá bæði höfð hliðsjón af tímaskýrslu lögmanns stefnda en einnig þeim venjum sem skapast hafa um ákvörðun málskostnaðar. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til þess að stefndi mun ekki vera virðisaukaskattsskyldur samkvæmt íslenskum lögum.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.
ÚRSKURÐARORÐ:
Mál þetta er fellt niður.
Stefnandi, LBI hf., greiði stefnda, Credit Suisse Int., 500.000 krónur í málskostnað.