Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Þriðjudaginn 22. maí 2007. |
|
Nr. 258/2007. |
Dánarbú A(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) gegn B (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Dánarbú A kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu þess um að B afhenti sér Kjarvalsmálverk og standklukku. Voru atvik þau að eignir dánarbúsins nægðu ekki til að efna skuldbindingar þess og fór því um búskiptin eftir reglum um gjaldþrotaskipti. Um heimild fyrir kröfunni vísaði dánarbúið til 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en samkvæmt því getur skiptastjóri í þrotabúi krafist þess að þrotamanni eða forráðamanni félags eða stofnunar, sem er til gjaldþrotaskipta, verði með dómsúrskurði meðal annars gert að afhenda sér eign þrotabús. Þar sem ákvæðið veitti ekki heimild til að beina kröfu sem þessari að öðrum en þeim, sem getið er í ákvæðinu, varð því ekki beitt gegn B. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda sér olíumálverk eftir Jóhannes S. Kjarval og standklukku. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að tekin verði til greina krafa hans um afhendingu framangreindra muna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurður og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins lést A 14. júní 2004 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 9. september 2005. Eignir dánarbúsins munu ekki nægja til að efna skuldbindingar þess og hefur því verið farið með það eftir reglum um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili telur sig eiga olíumálverk eftir Jóhannes S. Kjarval og standklukku, sem varnaraðili hafi í umráðum sínum. Óumdeilt er að munir, sem sóknaraðili auðkennir á þennan hátt, séu í vörslum varnaraðila, sem er dóttir A heitins og meðal erfingja eftir hann, en hún hefur andmælt því að þessir munir tilheyri sóknaraðila. Með beiðni til héraðsdóms 27. febrúar 2007 krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að afhenda sér munina. Mál þetta var þingfest af því tilefni 16. mars 2007, en með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila sem fyrr segir hafnað.
Um heimild fyrir framangreindri kröfu vísar sóknaraðili til 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði getur skiptastjóri í þrotabúi krafist þess að þrotamanni eða forráðamanni félags eða stofnunar, sem er til gjaldþrotaskipta, verði gert með dómsúrskurði að afhenda sér eign þrotabús, sem hann hefur í vörslum sínum, eða veita aðgang að húsnæði, þar sem ástæða er til að ætla að finna megi eignir eða gögn búsins. Ákvæði þetta geymir ekki heimild til að beina kröfu sem þessari að öðrum en þeim, sem hér var getið, og verður því af þeim sökum ekki beitt gagnvart varnaraðila. Verður því ekki komist hjá að vísa máli þessu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2007.
Með bréfi Steinunnar Guðbjartsdóttur hrl., skiptastjóra í þrotabúi A, [kt. og heimilisfang], dagsettu 27. febrúar 2007, var krafist úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur um skyldu varnaraðila, C, til þess að afhenda olíumálverk eftir Jóhannes Kjarval og Borgundarhólmsklukku sem teldust til eigna þrotabús A, skv. 3. mgr. 82. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Jafnframt er krafist málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Aðilum máls var veittur sameiginlegur frestur til framlagningar greinargerðar og var það tekið til úrskurðar hinn 30. mars sl. að málflutningi loknum.
I.
Málavextir.
Árið 1944 ákvað D að gera jörðina X að óðalsjörð. Með afsali dagsettu 30. júní 1967 afsalaði hann óðalinu til sona sinna E og A, sem fyrirframgreiddum arfi. Fram kemur í endurriti úr skiptabók Gullbringu- og Kjósarsýslu, að bræðurnir tækju við óðalsréttinum að jörðinni X I, en báðir bræðurnir voru búsettir þar. Skyldu þeir eignast jörðina með öllum húsum og öllu, sem jörðinni fylgi og fylgja bæri og yrði hún þaðan í frá óskipt sameign þeirra að hálfu hvors. Lýstu systkini þeirra, F og G, yfir samþykki sínu fyrir þessari ráðstöfun. D lést árið 1970 en eiginkona hans, H, árið 1985. Var hún búsett hjá A syni sínum frá 1975 til dauðadags.
Með landskiptasamningi frá 9. desember 1989 skiptu þeir bræður jörðinni í átta matshluta, þar nefndir X I-VIII. Voru sumir í séreign þeirra hvors um sig en aðrir í óskiptri sameign þeirra. Var X I séreign E og ábýlisjörð hans, en X II séreign A og hans ábýlisjörð. Eftir að þetta gerðist skipti A út úr sínum eignarhluta þremur spildum, en deila vegna hluta þeirra hefur komið til kasta Hæstaréttar Íslands.
Í mars árið 2000 gerðu bræðurnir með sér samkomulag um að vísa skiptum á óskipta hluta sameignarinnar og slitum á samrekstri þeirra til úrlausnar gerðardóms. Var gerðardómur kveðinn upp 4. apríl 2002 og er í dómsorði kveðið á um skiptingu hins óskipta lands, húsakosts, véla og annarra eigna. Hefur tvívegis reynt á gildi hans í nýlegum dómum Hæstaréttar.
Með afsali, dagsettu 19. janúar 2004, afsalaði A óðalsrétti sínum að X til dóttur sinnar, varnaraðila í máli þessu, sem fyrirframgreiddum arfi. Í þinglýstu afsalinu kemur fram tilgreining samkvæmt þinglýsingabók á eignarhlutum þeim, sem eftirleiðis teldust hennar eign. Á afsalið er ritað samþykki eiginkonu A og annarra barna hans.
Hinn 14. júní 2004 lést A og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 9. september 2005, en það reyndist ógjaldfært. Fór þá um skipti á dánarbúinu eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti. Námu lýstar kröfur í búið kr. 731.351.482, en erfingjar hans gengust ekki við skuldum búsins. Núverandi skiptastjóri þess er Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.
Samkvæmt bréfi skiptastjóra, frá 27. febrúar sl., er talið til eigna búsins, olíumálverk eftir Jóhannes Kjarval og Borgundarhólmsklukka, en munir þessir voru taldir verðmætir. Fram kemur í bréfinu að þeir væru í vörslum erfingja hins látna, en þeim bæri að skila mununum inn í þrotabúið. Á þeim tíma var hins vegar ekki vitað með vissu hver erfingjanna hefði þá undir höndum. Upplýstist á seinni stigum málsins að þeir væru í vörslum varnaraðila. Með tölvupósti til erfingjans C, dagsettum 9. janúar sl., fór skipastjóri þess á leit að munir þessir yrðu afhentir honum. Hafnaði C því og kvað málverkið vera fylgifé óðalsins X. Krafðist skiptastjóri því úrskurðar héraðsdóms um afhendingu munanna eins og áður segir. Við aðalmeðferð dró skiptastjóri tilbaka þá fullyrðingu sína, að um Borgundarhólmsklukku væri að ræða og vísaði eftirleiðist aðeins til „klukku“.
II.
Sóknaraðili kveður óumdeilt að umræddir munir hafi verið í eigu hins látna. Um tilurð málverksins segir í tölvupósti C til skiptastjóra að Jóhannes Kjarval hafi fengið húsaskjól um hríð árið 1935 hjá foreldrum sóknaraðila. Sem þakklætisvott fyrir það hafi hann málað mynd af bænum og Esjunni og gefið þeim. Hann segi jafnframt að málverkið hafi verið hjá ömmu hans, móður sóknaraðila, allt til þess að hún flutti háöldruð til sóknaraðila.
Ekki sé unnt að fallast á þá málsástæðu varnaraðila að umræddir munir teljist fylgifé óðalsins X. Í 44. gr. núgildandi jarðalaga nr. 81/2004 sé ákvæði um fylgifé með óðalsjörðum, sem sé sambærilegt því sem var í eldri lögum nr. 65/1976. Umræddir munir geti ekki fallið undir þessa lagagrein samkvæmt orðanna hljóðan, en hún eigi t.d. við um ljósmyndir af þeim bændum sem setið hafa jörðina, uppdrætti, kort og þess háttar, sem varða tiltekna jörð, og búreksturinn. Undir ákvæðið falli hins vegar ekki málverk eða munir sem hafi verulegt fjárhagslegt verðmæti og teljist fremur til fjárfestinga en þess að hafa minningagildi. Tilgangur ákvæðisins sé augljóslega ekki að gera slíka muni að fylgifé óðals.
Ákvæði um að tilteknir munir skuli fylgja óðalsjörðum feli í sér undantekningu frá eignarréttarákvæðum sem beri að skýra þröngri lögskýringu. Væri sóknaraðili, sem óumdeilanlega hafi verið eigandi munanna, á lífi, gæti núverandi óðalsbóndi tæplega gert tilkall til munanna í skjóli lagagreinarinnar, gegn andmælum hans og staðhæfingum hans um að um persónulega eign hans væri að ræða.
Við málsmeðferð fyrir gerðardómi hafi E, bróðir sóknaraðila, haldið því fram að framangreindir munir ættu að koma til skipta þar sem munirnir væru fylgifé óðalsins og ættu því undir málsmeðferð gerðardómsins. Þessu hafi sóknaraðili mótmælt eindregið og lýst því yfir að munirnir væru hans persónulega eign sem hann hafi fengið í sinn hlut að foreldrum sínum látnum. Þessir munir hefðu komið í hans hlut en aðrir síst verðminni í hlut systkina hans.
Í bréfi sóknaraðila til E bróður síns, dags. 26. febrúar 2001 segi, m.a.:
„Nefnt Kjarvalsmálverk “prýðir” ekki stofu [D], heldur hangir þar sem það var hengt upp yfir rúmi móður okkar árið 1975, í herbergi sem hún hafði til næturgistingar síðustu ár sín í [X]. Nefna má að í vörslum [E] eru ýmsir verðmætir munir úr dánarbúi foreldra okkar t.d. málverk af Steinsnesi. Borgundarhólmsklukka svo nefnd er nú ekki slík, heldur standklukka sem var brúðkaupsgjöf til foreldra okkar árið 1925. Lá hún undir skemmdum í gamla íbúðarhúsinu og var forðað í geymslu í húsi A. Báðir þessir hlutir eru í eign okkar systkina.“
Í bréfi lögmanns sóknaraðila dags. 1. mars 2001 segi um álitaefnið: „Umrætt málverk varð eftir hjá A eftir andlát móður þeirra bræðra sem bjó hjá A. Ýmsir munir úr dánarbúi foreldra þeirra bræðra eru hjá bræðrunum og öðrum systkinum þeirra í mismunandi miklum mæli. Munir þessir tilheyra ekki samrekstri þeirra bræðra heldur dánarbúi foreldra þeirra og því fyrir utan valdsviðs gerðardómsins að fjalla um skiptingu þeirra. Bent er á að önnur systkini þeirra bræðra eiga ekki aðild að gerðardómsmálinu. Áskilinn er réttur til að tilgreina muni í vörslum E sem koma eiga á móti umræddu málverki.“
Gerðardómurinn féllst á rök sóknaraðila og taldi utan síns verksviðs að fjalla um munina enda væri um að ræða muni úr dánarbúi foreldra aðila.
Af þessu megi sjá að sóknaraðili sjálfur hafi ekki litið á munina sem fylgifé óðalsins heldur sem sína persónulegu eign sem hann hefði hlotið í arf eftir foreldra sína. Erfingjar sóknaraðila geri rök E að sínum í máli þessu þrátt fyrir að hafa mótmælt þeim eindregið í gerðardómi. Með því séu þau að haga seglum eftir vindi.
Telja verði að yfirlýsingar sem lagðar séu fram fyrir gerðardómi séu bindandi. Um sé að ræða málflutningsyfirlýsingu sem niðurstaða dóms sé grundvölluð á. Slíkri yfirlýsingu sé ekki hægt að breyta eftir hentugleikum og séu aðilar bundnir af yfirlýsingu sóknaraðila sjálfs um málið. Það sé staðreynd að sóknaraðili máls þessa líti ekki á munina sem fylgifé óðalsins heldur sem sína persónulegu eign sem hann hafi hlotið í arf eftir foreldra sína.
Enginn ágreiningur sé um að sóknaraðili hafi fengið munina úr dánarbúi foreldra sinna þegar móðir hans lést árið 1985. Þá sé ágreiningslaust að munirnir hafi verið á heimili móður sóknaraðila þar til hún hafi, sökum heilsubrests, flutt til sóknaraðila árið 1975. Þar hafi málverkið verið „hengt upp yfir rúmi“ gömlu konunnar og verið þar á meðan hún lifði. Munirnir hafi því ekki fylgt óðalinu þegar sóknaraðili hafi tekið við því árið 1967. Fyrir liggi að þá hafi munirnir enn verið í vörslum foreldra sóknaraðila og hafi ekki verið afhentir honum sem fylgifé óðalsins.
Sóknaraðili hafi afsalað óðalinu til B dóttur sinnar 2004. Í afsalinu sé ekki minnst á munina og megi af því sjá að sóknaraðili hafi alls ekki litið á þá sem fylgifé óðalsins. Þá hafi sóknaraðili haft vörslur munanna alveg til andláts síns sem hafi verið eftir að óðalsréttinum var afsalað til B.
Af þessu megi sjá að umræddir munir hafi aldrei verið fylgifé óðalsins heldur persónuleg eign foreldra sóknaraðila sem hafi komið í hlut sóknaraðila við andlát þeirra.
Lögð sé áhersla á að í afsölum sé hvergi minnst á munina. Það hefði þó verið eðlilegt hefði verið litið svo á að þeir væru fylgifé óðalsins. Þá hafi munirnir ekki verið afhentir til þeirra sem hafi tekið við óðalinu á hverjum tíma. Varnaraðilar geti ekki valið sér fylgifé með óðalinu með þeim rökum að viðkomandi munir hafi minningargildi fyrir þá bændur sem hafa setið jörðina. Með því væri unnt að komast hjá því að standa kröfuhöfum þrotabúsins skil á andvirði eigna en það sé ekki markmið jarðalaga.
III.
Varnaraðili byggir á því að hinir umdeildu munir hafi ekki tilheyrt dánarbúi sóknaraðila, og því beri varnaraðila ekki lögboðin skylda til þess að afhenda þá sóknaraðila.
Á því sé byggt af hálfu varnaraðila, að með afsalinu hafi varnaraðili fengið afsal fyrir munum þessum, þar sem þeir séu hluti af fylgifé óðalsins, og því séu munir þessir lögformleg eign varnaraðila sem varnaraðila beri engin lagaleg skylda til þess að láta af hendi til sóknaraðila.
Ekki sé um það deilt að er óðalinu og fylgifé þess hafi verið afsalað til varnaraðila skv. framansögðu, hafi jarðalög nr. 65/1976 með síðari breytingum, verið í gildi. Í 48. gr. laganna komi fram það sem telja megi til fylgifjár óðalsjarðar. Ákvæði þetta hafi verið efnislega óbreytt í lögum frá árinu 1936, sbr. 2. gr. laga nr. 102/1962 um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða, sbr. 2. gr. laga nr. 116/1943 um ættaróðal og erfðaábúð, sbr. 16. gr. laga nr. 8/1936 um erfðaábúð og óðalsrétt. Lögin frá 1936 hafi m.a. komið í stað tilskipunar frá 17. apríl 1833 viðvíkjandi óðalsrétti á Íslandi, sem leysti m.a. af hólmi tilskipun frá 14. janúar 1771. Í tilskipuninni frá 1833 séu notuð hugtökin óðalsréttur og óðalsgóss.
Hafi munir þeir, sem ofan getur, verulegt minningargildi og sterka skírskotun til ættaróðals varnaraðila. Á silfurplötu klukkunnar standi 30. maí 1925, sem sé brúðkaupsdagur föðurafa varnaraðila og föðurömmu, D og H í X. Ekki sé um Borgundarhólmsklukku að ræða. Kjarvalsmálverkið hafi verið þeim persónulega gefið af Jóhannesi S. Kjarval árið 1935.
Rétt sé að vekja á því athygli að í 3. mgr. 49. gr. jarðalaga nr. 65/1976 segir að yfirlýsingu, um að jörð sé gerð að ættaróðali, skuli þinglýsa. Í yfirlýsingu skal sérstaklega getið fylgifjár, sem jörð er lagt til. Ekki verði séð af sóknargögnum málsins að sóknaraðili hafi leitað eftir slíkri yfirlýsingu.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að komi upp ágreiningur eða álitaefni um hvað telja beri til fylgifjár óðals þá sé það Sýslumaðurinn í Reykjavík sem beri að skera úr þeim ágreiningi og hafi Héraðsdómur á þessu stigi ekki lögsögu í málinu. Verði ekki fallist á þá málsástæðu kunni það að varða frávísun málsins, ex officio, en ekki sé gerð krafa um frávísun þess af hálfu varnaraðila. Verði hins vegar ekki á þessa málsástæðu fallist beri að hafa hliðsjón af meginreglum gjaldþrotalaga. Krafa sóknaraðila hafi komið fram röskum 32 mánuðum eftir frestdag sem hafi verið 14. júní 2004, verði ekki lagður úrskurður á málið eins og það liggi fyrir, sbr. 1. mgr. 2. gr. gjaldþrotalaga, og með vísan til meginreglna gjaldþrotalaga um riftun með lögjöfnun og ólögfestum reglum um tómlæti.
Um lagarök vísast m.a. til V. kafla erfðalaga nr. 8/1962, til ákv. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og fl., einkum 84., 95. og 131. gr. svo og til ákv. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 28. gr. (skuldajöfnun) 80. gr., 129. og 130. gr. (málskostnaður). Jafnframt vísast til ólögfestra reglna um tómlæti.
IV.
Niðurstaða
Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort þeir munir, sem skiptastjóri krefst afhendingar á, með vísan til 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, teljist með réttu eign sóknaraðila. Fellur það undir dóminn að leysa úr þeim ágreiningi samkvæmt 170. gr. laga nr. 21/1991, en ekki sýslumann eins og varnaraðili heldur fram. Á því er byggt af hálfu varnaraðila, að aðgerðir skiptastjóra samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði séu bundnar tímamörkum og verði því ekki lagður úrskurður á ágreiningsefnið. Í 82. gr. laga nr. 21/1991 kemur ekkert fram um það að skiptastjóri skuli grípa til þeirra aðgerða sem þar eru heimilaðar, innan tiltekins tímafrests. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð að heimildir 3. mgr. séu nýmæli. Hefði því verið þörf á að taka það sérstaklega fram í lagaákvæðinu, ef ætlunin hefði verið að afmarka í tíma hvenær kröfur yrðu bornar undir dóm. Þykir lögjöfnun ekki tæk eins og varnaraðili heldur fram. Ber því að hafna þessari málsástæðu hans.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila sé hafnað á þeim grunni að munir þeir sem um ræðir séu fylgifé óðals og heyri því ekki undir skipti á búi sóknaraðila.
Eins og rakið hefur verið afsalaði D óðalsrétti sínum árið 1967, til sona sinna, E og A. Við landskiptasamning þeirra á milli frá árinu 1989, kom X II í hlut A. Gekk það áfram til varnaraðila árið 2004, er A afsalaði sér öllum óðalsrétti sínum til hennar, auk annarra eignarhluta sem hann átti í séreign eða í óskiptri sameign með E bróður sínum. Óumdeilt er að X II er ættaróðal sem skipt var út úr X.
Í 48. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sem voru í gildi á þeim tíma er A afsalaði óðalsrétti sínum til varnaraðila, er kveðið á um þau hlunnindi og annað það sem skylt sé að láta fylgja óðalsjörð. Þar segir í 2. ml. ákvæðisins: „Jarðeigandi skal auk þess láta fylgja jörðinni skjöl, er varða jörðina frá fyrri tíð og eru í hans vörslum, einnig myndir og muni, er hafa minningargildi fyrir þá bændur eða bændaætt er situr eða setið hefur jörðina.“ Í lögskýringargögnum með lögum þessum, svo og eldri lögum, er ekki að finna neinar vísbendingar um það hvers konar myndir og muni um sé að ræða, umfram það sem fram kemur í ákvæðinu sjálfu. Þá liggur ekki frammi í málinu yfirlýsing um fylgifé, sem jörð er lagt til eftir 48. gr., skv. 3. mgr. 49. gr. jarðarlaga nr. 65/1976, sbr. 71/1978, né gögn sem sýna að úttekt skv. 1. mgr. 58. gr. laganna hafi farið fram.
Í gögnum málsins kemur fram forsaga umræddra hluta en þeir voru upphaflega í íbúðarhúsi D og H í Xi, sem víða er kallað „gamla íbúðarhúsið“. Hvað varðar málverkið eftir Jóhannes Kjarval, þá varð það eftir hjá hjónunum eftir að D afsalaði óðalsréttinum til E og A. Klukkan var einnig á heimili þeirra en virðist hafa verið flutt á heimili A til geymslu þegar hún lá undir skemmdum í gamla húsinu. D andaðist árið 1970 en H bjó áfram í húsinu þar til hún flutti til A árið 1975. Hafði hún þá málverkið með sér. Svo virðist sem ágreiningslaust sé að hlutir þessir hafi komið í hlut A eftir það. Ber aðilum þó ekki saman um hvernig það gerðist. Fram kemur í greinargerð varnaraðila að það hafi gerst við „uppskipti á óðalinu“ og er þá væntanlega átt við landskiptasamninginn frá árinu 1989. Sóknaraðili kveður A hins vegar hafa fengið munina í arf eftir foreldra sína.
H lést árið 1985. Fram kemur í yfirlýsingu frá bæjarfógetanum í Hafnarfirði frá 1988 að bú H hafi verið eignalaust. Þó er ljóst að innbú eða munir voru til staðar þó ekki sé vitað með vissu hvernig þeim var ráðstafað úr búinu, annað en að þeir hafi dreifst á milli systkinanna með óformlegum hætti. Ekki verður séð að ágreiningur um það fyrirkomulag hafi risið á milli systkinanna, ef frá er talinn ágreiningur sem var á milli E og A í tengslum við fyrrgreindan gerðardóm frá árinu 2000. Krafðist E þess að skipti umræddra muna heyrði undir úrlausn gerðardómsins enda væri um fylgifé óðalsins að ræða. Í greinargerðum A, sem lagðar voru fyrir gerðardóminn, kemur skýrt fram það sjónarmið hans, að munirnir tilheyrðu dánarbúi foreldra þeirra og væru í eigu systkinanna. Féllst gerðardómurinn á þessi sjónarmið og taldi það ekki heyra undir starfssvið sitt að fjalla um þær kröfur sem lutu að munum sem virtust tilheyra dánarbúi foreldra aðila. Verður yfirlýsing A um munina, í tengslum við gerðardóminn, ekki túlkuð á annan hátt en svo að hann hafi þá litið á innbú foreldra sinna sem óskipta sameign þeirra systkina. Eftir að gerðardómurinn féll voru munirnir áfram í vörslum A athugasemdalaust, allt til dauðadags. Þá verður ekki séð að krafist hafi verið endurupptöku skipta á dánarbúi H.
Eins og fram hefur komið er á því byggt af hálfu sóknaraðila að málverkið og klukkan séu eign dánarbúsins en ekki fylgifé óðals. Að mati dómsins er í sjálfu sér ekki útilokað að líta á málverkið sem fylgifé óðalsins X samkvæmt hljóðan 48. gr. laga nr. 56/1976, sérstaklega þegar litið er til þess að tilurð þess tengdist veru Kjarvals þar og að myndin er af bænum og umhverfi hans. Í máli þessu verður hins vegar ekki leyst úr því hvort munirnir hafi í raun verið fylgifé óðalsins í ljósi málavaxta allra, heldur hvort eignarréttur A hafi verið það skýr að fallast megi á kröfu sóknaraðila. Verður í þessu sambandi að líta til þess sem að framan er rakið um munina, þ.e. hvað gögn málsins beri með sér um þá, hver hafi haft vörslur þeirra, bæði fyrir og eftir andlát þeirra hjóna D og H, og hvernig vörslurnar voru tilkomnar, yfirlýsinga A um munina, svo og þess sem fram kemur í gerðardóminum um þá. Í ljósi þess verður ekki talið ótvírætt að munirnir hafi verið eign A að óskiptu. Verður kröfu sóknaraðila því hafnað. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert skylt að afhenda olíumálverk eftir Jóhannes Kjarval og klukku er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Rétt endurrit staðfestir.
22.05. 2007.
Gjald kr. 300