Hæstiréttur íslands
Mál nr. 383/2014
Lykilorð
- Dómari
- Vanhæfi
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 17. september 2015. |
|
Nr. 383/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn X og (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) Y (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Dómari. Vanhæfi. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ómerking héraðsdóms.
X og Y voru í héraði sakfelldir fyrir stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 30.225 töflum af MDMA til söludreifingar í ágóðaskyni. Var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju þar sem að sá dómari sem dæmdi málið í héraði hafði tvívegis úrskurðað Y í gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var því vanhæfur til að fara með málið, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí og 20. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærðu og upptöku ávana- og fíkniefna, en að refsing þeirra verði þyngd.
Ákærði X krefst aðallega sýknu, til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing verði milduð.
Ákærði Y krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Mál þetta var tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Samkvæmt gögnum málsins var ákærða Y meðal annars með úrskurðum héraðsdóms 28. september og 16. nóvember 2011 gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þessa úrskurði kvað upp sá dómari sem síðan dæmdi málið í héraði. Hann var því vanhæfur til að fara með málið, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Vegna þessa verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Sigurðar Sigurjónssonar og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, 496.000 krónur til hvors.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23 maí 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 13. febrúar sl. og dómtekið 14. apríl sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 20. janúar 2014, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], og Y, kennitala [...], [...], [...].
I.
„Gegn ákærðu báðum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ágúst 2011, ásamt Z, kt. [...], staðið að innflutningi á samtals 30.225 töflum með fíkniefninu MDMA (ecstasy), frá [...] til Keflavíkurflugvallar, til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, svo sem nánar er rakið í 1.-2. tölulið:
1. Ákærði Y fékk meðákærða X til verksins, veitti honum leiðbeiningar um ferðatilhögun, afhenti honum síma, símkort og greiðslukortið sitt til að greiða fyrir ferðakostnað og uppihald og millifærði kr. 364.000 á tímabilinu 11.-22. ágúst 2011 inn á reikning X í sama skyni.
2. Ákærði X fór til [...], og síðar [...] og [...], í því skyni að móttaka og flytja fíkniefnin til Íslands, móttók ákærði fíkniefnin í [...] frá Z og flutti þau til landsins sem farþegi með flugi [...] frá [...], falin í farangri sínum þar sem tollverðir fundu þau við komu hans til Keflavíkurflugvallar þriðjudaginn 23. ágúst 2011.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Gegn ákærða Y fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 7. september 2011 að [...], [...], haft í vörslum sínum 1,6 g af amfetamíni sem hann framvísaði til lögreglumanna og eina töflu með fíkniefninu MDMA (ecstasy), sem lögreglan fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1981 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þess er krafist að öll ofangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sem og þau lyf sem hald var lagt á (1.756,08 g af staðdeyfilyfinu Lídókaín og 2.951,35 g af alkóhólsykri), samkvæmt 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.“
Upphaflega var ákæra gefin út 21. maí 2013 á hendur ofangreindum ákærðu auk Z, kt. [...], í máli nr. [....], en Z sætti farbanni í [...]. Var það mál fellt niður þann 20. janúar sl. Í framhaldi var gefin út ný ákæra á hendur ákærðu X og Y í þessu máli og ákæra á hendur Z í máli nr. [...]. Hefur því máli nú verið frestað ótímabundið þar sem ekki næst til ákærða Z þrátt fyrir löglega birt fyrirkall.
Ákærðu komu fyrir dóminn við þingfestingu málsins ásamt skipuðum verjendum sínum og neituðu sök. Var málinu frestað til framlagningar greinargerðar til 13. mars sl. Fór aðalmeðferð málsins fram 14. apríl sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.
Málavextir.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu kom ákærði X til landsins með flugi [...] þann 23. ágúst 2011 og fundust fíkniefni falin í botni ferðatösku sem hann hafði meðferðis. Vó taskan í kringum 20,67 kg tóm en venjuleg þyngd sams konar tösku er á bilinu 4-6 kg. Við rannsókn á töskunni komu fíkniefni í ljós, falin í botni hennar. Reyndust 30.225 ecstacy-töflur, 1.756,08 g af staðdeyfilyfinu Lídókaín, sem notað er til að drýgja kókaín, og 2.951,35 g af óþekktu efni vera í töskunni. Við rannsókn á töflunum hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í eiturefnafræði kom fram að ecstacy-töflurnar innihéldu sem samsvarar 83-88 mg af MDMA-klóríði. Þá var um að ræða 1.756,08 g af staðdeyfilyfinu Lídókaín sem er lyfseðilsskylt og einnig var Fenasetín sem er verkjalyf og löngu hætt að nota hér á landi. Óþekkta efnið reyndist vera alkóhólsykur sem ætla má að nota eigi til að drýgja önnur fíkniefni. Ákærði X var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 24. ágúst 2011 og sætti hann gæsluvarðhaldi til 16. nóvember 2011. Ákærði X kvaðst hjá lögreglu hafa talið að hann væri með um eitt kíló af kókaíni í töskunni. Kvaðst ákærði X hafa flogið til [...] þann 11. ágúst 2011 á [...] tónleika ásamt nokkrum vinum sínum. Vinir hans hafi síðan farið heim 15. ágúst en hann hafi ekki getað útvegað sér farmiða og því orðið eftir í [...]. Hann hafi síðan fengið símtal frá meðákærða Y, sem hafi boðið honum að taka ferðatösku með einu kílói af kókaíni með sér til Íslands en á móti átti að fella allar skuldir ákærða X niður. Ákærði Y hafi lánað sér greiðslukort til að kaupa farmiðann út og til að nota í ferðinni. Ákærði X hafi farið með lest til [...] og gist þar á farfuglaheimili og daginn eftir hafi hann flogið til [...] þar sem hann hafi innritað sig á [...] hótel. Íslenskur maður hafi komið til sín á hótelið þann 16. ágúst og látið sig hafa tóma ferðatösku og sagt sér að annar maður myndi sækja töskuna, koma fíkniefnunum fyrir í henni og skila henni svo aftur til ákærða. Seinni maðurinn hafi komið sama kvöld til sín og verið íslenskur. Sá hafi skilað sér töskunni um miðnætti kvöldið eftir eða 17. ágúst. Þá hafi ákærði X tekið lest til [...] og aftur þaðan til [...]. Þar hafi ákæri gist eina nótt og flogið síðan daginn eftir til [...] og þaðan til Íslands eða 23. ágúst 2011 þar sem hann var handtekinn.
Ákærði Y var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald 7. september 2011 og sætti því til 22. nóvember 2011 er hann var látinn laus.
Rannsóknargögn.
Fyrir liggur í gögnum málsins greiðslukvittun þar sem ákærði X greiddi með Vísa-korti flugmiða frá Keflavík til [...] þann 17. júlí 2011 og frá [...] til Keflavíkur 21. júlí 2011, samtals 72.677 krónur. Önnur greiðslukvittun liggur fyrir þar sem ákærði X bókaði flug frá [...] til Keflavíkur laugardaginn 23. júlí 2011. Greitt var með greiðslukorti, 32.815 krónur.
Yfirlit yfir bankagreiðslur af bankareikningi ákærða X liggur fyrir í málinu. Kemur þar fram að á tímabilinu 14. júlí 2011 til 23. ágúst 2011 lagði meðákærði Y inn samtals 354.000 krónur í ellefu færslum. Þá liggur fyrir yfirlit yfir úttektir á greiðslukorti ákærða Y sem ákærði X var með í ferðinni og notaði til að greiða kostnað og uppihald. Einnig liggur fyrir innborgun á það greiðslukort 19. ágúst 2011, 26.000 krónur, sem Y lagði inn á kortið. Þá lagði ákærði Y þrisvar inn á farsíma sem X var með í ferðinni og losaði sig við áður en hann kom til Íslands. Að auki fékk Y lánaða peninga hjá A, 95.000 krónur, til að leggja inn á X á meðan hann var í [...]. Þá liggja fyrir tengsl á milli ákærða X og Z en Z lagði 40.000 krónur inn á reikning ákærða Y þann 25. júlí 2011, tveimur dögum eftir að X kom heim frá [...] úr fyrri ferðinni. Þá liggur fyrir að A lánaði Z greiðslukort sitt til að greiða farmiða þann 16. ágúst 2011 fyrir Z til [...]. Einnig greiddi Z fyrir gistingu á [...] hótelinu í [...], bæði fyrir sig og ákærða X með greiðslukorti A.
Mikil símasamskipti voru á milli ákærðu frá 11. ágúst til 25. ágúst 2011 eða tuttugu og eitt símtal á milli símanúmera [...], símanúmer sem ákærði X var með, og [...], símanúmer sem ákærði Y var með. Þá liggja einnig fyrir upplýsingar um fjölda símtala milli símanúmera [...] og [...], símanúmer sem X var með, eða fjörutíu og átta hringingar og smáskilaboð á tímabilinu 12. til 17. ágúst 2011 en lögreglu grunar að ákærði X hafi haft símanúmerið [...] á meðan á ferðinni stóð. Að auki eru mikil símasamskipti á milli ákærða Y og Z á tímabilinu 11. til 15. ágúst 2011 og á sama tíma og ákærði X var í [...].
Útskrift af Facebook-samskiptum á tímabilinu 17. júlí til 25. ágúst 2011 liggja fyrir.
Matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, dagsett 1. september 2011, liggur fyrir í málinu þar sem niðurstöður efnagreiningar á sýnum er send voru liggja fyrir. Kemur þar m.a. fram að töflurnar innihéldu MDMA og voru að mestu í formi MDMA-klóríðs. Í sýnum sem tekin voru til rannsóknar reyndist vera 83 og 84 mg af MDMA-klóríði í hverri töflu. Önnur matsgerð, dagsett 30. september 2011, frá sömu stofnun liggur fyrir með sömu niðurstöðum utan að í einu sýni tafla reyndust vera 88 mg af MDMA-klóríði.
Skýrsla var tekin af ákærða X hjá lögreglu 24. ágúst 2011. Kvaðst hann þá varla þora að tjá sig um sakarefnið, hann skuldaði peninga og sér hafi verið lofað að skuldin yrði felld niður ef hann færi þessa ferð. Honum hafi verið sagt að það væri eitt kíló af kókaíni sem hann ætti að sækja. X kvaðst hafa flogið til [...] 11. ágúst og verið þar til 15. ágúst og farið á [...] tónleika. Þá hafi hann tekið lest til [...] og verið þar í einn eða tvo daga og flogið þaðan til [...]. Hann hafi verið þar í fimm daga að skemmta sér og farið svo með lest til [...] aftur, stoppað þar eina nótt og farið þá yfir til [...] með lest til [...], verið þar í tvo daga og farið svo heim. X kvaðst hafa haldið að hann yrði sóttur af einhverjum þegar hann kæmi heim til Íslands, annars hefði hann hringt í einhvern til að láta sækja sig á flugvöllinn. X kvaðst hafa fengið peninga hjá systur sinni í gegnum Western Union til að kaupa flugmiða frá [...] til Íslands. X kvaðst ekki hafa fengið peninga frá neinum áður en hann fór út til [...] en þegar hann var úti og ákvað að verða eftir hafi hann fengið símtal frá Íslandi þar sem honum hafi verið boðið „þetta“ og þá fengið peninga. X kvaðst ekki hafa fengið farmiða heim þann 15. ágúst en félagar hans sem fóru með honum á tónleikana hafi allir farið heim. Kvaðst X hafa farið til [...] daginn eftir að krakkarnir fóru heim og kíkt á [...] og leikið sér á hjólabretti. Þá hafi verið búið að hafa samband við hann og segja honum að fara til [...]. Þar hafi ekkert gerst og hann því skráð sig á [...] Hostel og verið þar eina nótt. Síðan hafi hann farið til [...]. X kvaðst ekki vilja segja hvar hann hafi fengið töskuna en hann hafi verið að skoða sig um í [...]. Hann hafi gist á farfuglaheimili í fjórar eða fimm nætur. Hann hafi ekki verið með mikið fé en það hafi verið séð til þess að hann ætti fyrir gistingu. Hann hafi bara farið í hraðbanka og tekið út og átt pening til að lifa en hann hafi ekki getað skemmt sér mikið. X kvaðst hafa hitt einn asískan Íslending í [...] sem hafi gist á sama hóteli og hann. Ástæða þess að hann hafi síðan flogið frá [...] til Íslands hafi verið sú að ódýrast hafi verið að kaupa flugmiða frá [...] með millilendingu í [...]. Þá sagði X að hann hafi átt að losna við skuldir sínar eftir ferðina og þetta hafi átt að vera eitt kíló af kókaíni. X kvað greiðslukort sem fannst í fórum hans vera í eigu vinar síns Y en hann hafi notað það kort til að fara í hraðbanka og kaupa sér á barnum. Það hafi síðan brotnað upp úr kortinu og hann því ekki getað notað það áfram. Neitaði X því að ákærði Y tengdist innflutningnum.
Skýrsla var aftur tekin af ákærða X hjá lögreglu 25. ágúst 2011. Var honum tjáð niðurstaða tæknideildar á umfangi fíkniefnanna. Kvaðst X hafa fengið símtal 15. ágúst þar sem honum var sagt að hann gæti „fríað mig undan skuldum.“ Það hafi verið aðili sem sé náinn honum og vissi því að hann væri enn erlendis. Sá aðili hafi einnig boðið sér mánuðinum á undan, þegar X var í [...], að taka eitt kíló af kókaíni til Íslands en X hafnað því. Þá hafi honum verið boðnar 500.000 krónur fyrir. Sagði X að honum hafi verið sagt að það yrði hringt í hann og komið með tösku til hans upp á hótel. Fyrst hafi honum verið sagt að fara til [...] og að hann fengi fíkniefnin þar en það hafi ekki gengið upp. Síðan hafi honum verið sagt að fara til [...] og þar hafi það gengið upp. Honum hafi verið sagt að fara á ákveðið hótel í [...] og bíða. Þar hafi hann fengið tölvupóst og hann svarað honum með því að segja að ekkert væri að gerast. Það hafi verið eftir tvo daga en eftir það hafi hlutirnir farið að gerast og hann verið með fíkniefnin þar í tvær eða þrjár nætur. Hann hafi fengið fyrirmæli um að hann mætti ekki fara strax og hann þyrfti að bíða lengur í [...]. Hann hafi verið búinn að skrá sig út af hótelinu en fengið skilaboð um að hann ætti að dvelja þar lengur og fara síðan með lest til [...], taka þar lest til [...] og fljúga svo þaðan til Íslands. X kvaðst hafa verið með sinn farsíma í ferðinni en eyðilagt hann í [...]. Hann hafi keypt sér annan síma í [...] og fengið símanúmer sem hann átti að hringja úr þegar hann væri kominn til [...]. Kvað X símakort sem fannst í fórum hans við komuna vera úr gamla símanum hans sem er [...].
X lýsti atvikum svo að þegar hann kom til [...] þann 16. ágúst hafi maður komið til sín með tóma ferðatösku og sagt að annar maður kæmi að sækja þá tösku til að setja fíkniefnin í. Sá maður hafi komið seinna um kvöldið og tekið töskuna. Sá hafi hringt í sig úr hótelsímanum og spurt um herbergisnúmer og komið upp á herbergi til sín. Það hafi verið kokkurinn. Hann hafi tekið töskuna og sett fíkniefnin í hana. Hann hafi sagst ætla að koma á hádegi daginn eftir en ekki komið fyrr en um miðnætti. Sá hafi opnað töskuna þegar hann kom með hana upp á herbergið og tekið upp úr henni aðra tösku svo að hann liti ekki grunsamlega út þegar hann færi út af herberginu. X kvaðst hafa ætlað til [...] 20. ágúst og skráð sig út af hótelinu en þá verið sagt að vera þar lengur svo hann hafi skráð sig aftur inn á það. Var honum sagt að henda kvittuninni. X útskýrði fyrir lögreglu hvernig hann hafi fengið peninga til að kaupa flugmiða og kvaðst hann hafa fengið lánað greiðslukort hjá félaga sínum til að geta keypt farmiða heim þar sem ekki væri hægt að kaupa farmiða nema með greiðslukorti á netinu. Það sé sami náunginn sem eigi kreditkortið og hafi hringt í sig út og boðið sér að taka töskuna heim. X kvað báða mennina sem hann hitti í [...] hafa verið Íslendinga en hann hafi hvorugan þekkt en kannast við annan þeirra. Aðspurður um það hvort hann hafi gert sér grein fyrir því að meira var í töskunni en eitt kíló af kókaíni kvaðst X hafa grunað að það væri meira í henni en einmitt þess vegna hafi hann ekki getað hætt við. Hann hafi ekki getað skilið töskuna eftir á glámbekk og hann hafi orðið að klára dæmið, annars myndi skuldin margfaldast.
Skýrsla var tekin af X þann 31. ágúst 2011 hjá lögreglu. Lýsir X ferð sem hann fór í til [...] 17. júlí 2011. Kvaðst hann hafa fengið peninga hjá Y áður, þ.e.a.s. fyrst þegar honum var boðið að fara en sú ferð hafi mistekist. Hann hafi núna fengið greiðslukort lánað hjá Y og greitt flugmiðann með því en lagt pening sjálfur inn á kortið áður. X var inntur eftir innlögnum á reikning X í fyrri ferð hans og kvaðst hann yfirleitt ekki vita af hverju verið var að leggja peninga inn á hann. Þá kvaðst X hafa átt að losa sig við farsíma sinn og greiðslukort Y í ferðinni en þau fyrirmæli hafi hann fengið í gegnum netfangið hushmail.
Þann 13. september 2011 var lögregluskýrsla tekin af ákærða X. Kvaðst hann hafa fengið Nova-símakort í [...] hjá manninum sem lét hann hafa töskuna. Hann hafi svo skilið símann sinn eftir og notað kortið í nýja símann en losað sig við símann í [...]. X hafi verið búinn að fá upplýsingar um það áður en hann kom til [...] að hann þyrfti bara að gefa upp nafn sitt því að búið væri að bóka herbergi fyrir hann. Maðurinn hafi verið í herberginu þegar hann kom í það og sá hafi látið sig fá töskuna og sagt sér hvað hann ætti að gera. Sá maður hafi verið með sér í herberginu í tvær eða þrjár nætur. Þegar þriðji maðurinn kom að sækja töskuna hafi X farið út og fengið sér göngutúr en hann hafi vel séð manninn. Aðspurður kvaðst X ekki þora að lýsa manninum sem var með honum á herberginu en lögreglan gæti spurt meðákærða Y, hann hlyti að þekkja hann eitthvað. Aðspurður um símanúmerið [...] kvaðst X kannast við símanúmerið en ekki vera viss. Þá kvað X nafnið „K“ á Facebook vera tilbúið nafn en hann og Y hafi átt samskipti sín á milli á því nafni. Þá lýsti X aðkomu Y og stúlku að gistingu fyrir X í fyrri ferð hans til [...] í júlí 2011. X kvað aðspurður að maðurinn á hótelinu í [...] hafi gefið sér þau fyrirmæli að hann ætti að losa sig við meðákærða Y.
Þann 26. september 2011 var aftur tekin skýrsla af ákærða X hjá lögreglu. Vildi X ekki tjá sig um það aðspurður hvort það hafi verið Z sem var með honum á [...] hótelinu í [...]. Þá vildi X ekki tjá sig um það hvers vegna Z hafi kvittað á afrit af hótelherbergi sem X var í í [...] og á öðrum stað séu pantanir á veitingum upp á herbergið undirritaðar með [...]. Þá kvaðst X hafa talað við Y eftir 16. ágúst 2011 úr tíkallasíma eða símanum sem hann fékk, einu sinni eða tíu sinnum, hann myndi það ekki. Þá kvaðst X vita til þess að Y hafi beðið fleiri en hann að fara utan til að sækja fíkniefni. X kvaðst ekki vita hver hafi lagt peninga inn á greiðslukortið áður en hann keypti farmiða frá [...] til [...], hann hafi bara farið með greiðslukortið hans Y í hraðbanka og tekið út [...]. Þá kvaðst X hafa fengið símkort úti í [...] frá aðilanum sem hann hitti þar en ekki síma. Þá kvaðst hann hafa hringt í móður Y úr símanúmerinu [...], það væri símanúmerið sem hann fékk úti. Þá hafi hann fengið pening frá manninum sem hann hitti á hótelinu í [...].
Skýrsla var tekin af X fyrir dómi þann 16. nóvember 2011. Lýsti hann ferðalagi sínu til [...], [...], [...], [...], [...] og Íslands á sama hátt og hann hafði gert í fyrri skýrslum fyrir lögreglu. Þá kvað hann annan manninn sem hann hitti á hótelinu í [...] vera Z. Z hafi verið kominn út á undan sér og látið sig hafa tómu töskuna. X hafi síðan hitt annan mann sem hafi tekið töskuna, græjað hana, komið aftur, og hitt Z sem hafi síðan látið sig fá töskuna. Kvaðst X hafa talið að í töskunni væri eitt kíló af kókaíni eins og honum hafi verið sagt áður, en það hafi verið Y þegar hann hringdi í sig. Kvaðst X vita að Z og Y væru vinir. Kvað X Y hafa fengið sig til að fara í ferð til að sækja kókaín í júlí 2011 en það hafi ekki gengið upp og svo aftur í ágúst 2011. Sem greiðslu fyrir seinni ferðina átti að fella niður fíkniefnaskuldir sem X var með.
Þann 24. nóvember 2011 var tekin lögregluskýrsla af ákærða X. Kvað hann rétt að Z hafi komið með tösku til sín í [...] með fötum í að beiðni Y. Þá kvað X framburð Z um að þeir hafi ekki gist í sama herbergi á hótelinu í [...] rangan, þeir hafi gist í sama herbergi allar næturnar nema fyrstu nóttina, þá hafi X verið í sérherbergi. Þá kvað hann framburð Z um að hann hafi nánast haldið X uppi í [...], vera að hluta til réttan, þeir hafi djammað saman og X fengið einhverjar evrur hjá Z. Þá kvað hann Z hafa greitt fyrir hótelherbergin. Þá lýsti X því þannig að þriðji maðurinn, sem hafi verið íslenskur, hafi komið þrisvar upp á hótelherbergi til þeirra. Fyrst til að sækja töskuna, næst til að segja þeim að það hafi dregist að græja töskuna og í þriðja sinn hafi hann komið með töskuna tilbúna með fíkniefnum í. X kvaðst hafa farið út úr herberginu í öll skiptin. X kvað þá ekki hafa rætt um þyngd töskunnar en X hafi strax pakkað í hana. Sér hafi fundist hún mjög þung þegar hann fór með hana á flugstöðina og vigtaði hana. Taskan hafi þá vigtað þrjátíu og tvö kíló. Hann hafi fengið rauðan miða á hana og þurft að borga yfirvigt. Þá kvaðst X hafa fengið blað frá Z með upplýsingum sem hann átti að senda Y með sms um að hann væri fáviti og allt hefði klikkað. X kvaðst hafa síðan heyrt það hjá vini sínum að Y hafi talað um að hann væri að fá 400 ecstacy-töflur og kvað hann Y hafa vitað að það væru ecstacy-töflur í töskunni en ekki eitt kíló af kókaíni.
Skýrsla var tekin hjá lögreglu af Y 7. september 2011. Kvaðst Y ekkert vita um málið. Þá kvaðst Y eiga þau fíkniefni sem lögregla fann við húsleit heima hjá honum. Aðspurður um símanúmerið [...] kvaðst Y fyrst hafa fundið þann síma á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en síðar í skýrslunni að þetta væri símanúmer hjá vini hans, X. Hann hafi lagt pening inn á hann á meðan hann var erlendis og X hafi beðið sig um það en þeir væru góðir vinir. Þá hafi X beðið sig um að lána sér pening þegar hann fór til [...] sem hann hafi gert ásamt kreditkorti sínu en það væri fyrirframgreitt greiðslukort en X hafi þurft að borga sjálfur inn á það. Inntur eftir innborgun á X þann 11. ágúst 2011, 10.000 krónur, kvað hann X hafa vantað pening fyrir flugmiðanum. Inntur eftir innlögn á X, 90.000 krónur, 15. ágúst 2011 kvað Y X hafa vantað peninga fyrir flugmiðanum til baka. Hann hafi ætlað að koma heim 15. ágúst en hætt við og farið eitthvað til [...]. X hafi sagt sér að hann ætlaði að hitta einhverja vinkonu sína. Inntur eftir innlögn á X aftur þann sama dag, 50.000 krónur, sagði Y að X hafi vantað meiri pening. Þá kvað Y skýringu á því að hann hafi enn lagt 80.000 krónur inn á hann sama dag vera þá sömu, og Y hafi átt varasjóð og maður hjálpi vinum sínum ef þeir eru í vandræðum. Inntur eftir 40.000 króna innlögn á X þann 22. ágúst, kvaðst Y ekki hafa heyrt neitt frá X, en X hafi hringt einhvern tímann í sig og sagst vera blankur. Y hafi lagt inn á X og ekki heyrt aftur í honum. Inntur eftir innlögn að fjárhæð 20.000 krónur sama dag, svaraði Y að fyrra svar ætti við. Kvaðst Y hafa lánað X 350.000 til 400.000 krónur. Inntur eftir innlögn á X þann sama dag, 80.000 krónur, kvaðst Y bara vera að safna peningum fyrir X og þess vegna hafi hann lagt þetta inn á hann í nokkrum hlutum. Þá kvaðst Y aftur þann sama dag hafa lagt inn á X 74.000 krónur. Hann væri búinn að vera duglegur að leggja fyrir. Kvaðst hann geyma peningana heima, ef hann væri með þá rafrænt í banka myndi hann bara eyða þeim. Þá hafi allir peningarnir verið búnir þegar lögreglan kom í húsleit heim til hans. Þá kvaðst Y ekki muna hvers vegna hann lagði ítrekað peninga inn á X í júlí 2011. Þá kvaðst Y ekkert kannast við Facebook-samskipti þeirra frá því í júlí 2011. Þá neitaði Y því að hafa beðið X um að fara út og sækja eitt kíló af kókaíni, hvorki í fyrri ferðina né seinni ferðina.
Þann 20. september 2011 gaf Y aftur skýrslu hjá lögreglu. Aðspurður um símanúmerið [...] kvaðst Y halda að X hafi verið með það númer, hann hafi hringt í sig úr því. Þá kvaðst Y hafa beðið A um lán, 95.000 krónur, sem hún hafi lagt inn á reikning sinn 15. ágúst 2011, í þeim tilgangi að hjálpa X á meðan hann væri úti. Aðspurður um skýringar á því hvers vegna A hafi greitt í upphafi fyrir hótelherbergi X, neitaði Y að tjá sig um það. Síðar kvaðst hann hafa verið beðinn um að redda aðila til að ná í eitt kíló af kókaíni og koma með það heim. Aðilinn hafi átt að fara til [...] og ná í kókaínið. Hann hafi boðið X þetta, Y hafi verið þvingaður til að finna einhvern í þetta en það geti verið að hann hafi verið búinn að tala við einhverja fleiri til að fara. X hafi sagst vanta peninga og Y hafi boðið honum eina milljón króna fyrir að taka kókaínið heim frá [...]. Kvað hann allan peninginn sem hann hafi lagt inn á X hafa komið frá öðrum aðila. X hafi ekki fengið pakkann í fyrri ferðinni. X hafi ætlað að gera það sama í seinni ferðinni og koma heim 15. ágúst. Annar aðili hafi verið í sambandi við X og Y hafi bara átt að leggja inn á hann pening og athuga hvernig honum liði. Y kvaðst hafa viljað draga sig út úr þessu þar sem þetta hefði klúðrast áður, en talið þetta vera orðið svolítið „risky“. Hann hafi ekki verið í neinu sambandi við X 16. eða 17. ágúst. Hann hafi ekki vitað hvað hafi farið á milli þriðja aðilans og X varðandi seinni ferðina. Y hafi bara verið beðinn um að leggja þennan pening inn á hann. Hann hafi hvergi komið nálægt þessu hótelherbergi og ekki pantað það. Þá taldi Y að A hafi verið neydd til að taka þátt í þessu og notuð sem leppur eins og Y. Þá minnti Y að hann hafi látið X hafa símkort og síma fyrir þessar ferðir, sem hann hafi keypt á N1, frelsiskort. Þá kvaðst Y hafa verið í tölvusambandi við X á Facebook, bæði undir sínu nafni og nafni B. Y kvaðst bara hafa hitt manneskju úti í bæ, það hafi væntanlega verið vinir aðilans sem bað hann um þetta. Þá kvaðst Y hafa átt að fá 100.000-200.000 krónur fyrir milligönguna. Y var spurður um miða sem fannst við húsleit í náttborðsskúffu hans. Á framhlið miðans stendur:
„300g (1,5m)Hreint, eða 1m í pening.+ flug+gisting+gjaldeyri
[...]. 3-7 dagar.
Allt er tilbúið, verður að geta farið sem fyrst.
-Má taka 1-2 með sér (Heilbrigt lið)
(Helst ekki fara einn,) og hinir mega ekkert vita.“ Á bakhlið miðans stendur:
„ath þessi 300gr miðast við hreint s.s. setur amk 2 út í,
Í heildsölu 900gr -1kg =4,5-5m.“
Skýrði Y þennan miða svo að þetta væri greinilega bara boðið sem hann átti að bjóða X, milljón krónur eða hvort hann vildi fá þetta í efnum. Y hafi fengið þennan miða örugglega áður en X fór til [...]. Y var spurður út í sms-skilaboð sem bárust í síma hans 22. ágúst 2011. Kvað Y það vera skilaboð sem tengist ferð X út og komu hans heim en vildi ekki skýra frá frá hverjum skilaboðin komu. Þá kvaðst Y ekki hafa vitað af þessum töflum.
Skýrsla var tekin af Y 27. september 2011 af lögreglu. Skýrði hann svo frá að X hafi viljað fara aftur út eftir fyrri ferðina og ákveðið hafi verið að X færi til [...] á tónleika í þeim tilgangi að sækja tösku. Y hafi viljað draga sig út úr þessu en ekki fengið en hann og X hafi verið í allt of miklu sambandi og að auki hafi hinir aðilarnir verið farnir að tala við X líka og því hafi honum fundist þetta fáránlegt. Upphaflega hafi staðið til að X fengi efnin afhent á flugvellinum í [...] þegar hann væri kominn út og allur peningur sem Y hafi lagt inn á X hafi verið fyrir uppihaldi hans. Y kvaðst hafa verið í litlu sambandi við Z en Z hafi lagt 40.000 krónur inn á sig í þeim tilgangi að leggja það inn á X. Þá kvaðst Y ekki hafa vitað af aðild Z að þessu máli. Þá vildi Y ekki svara því hvort Z hafi beðið hann um að útvega burðardýr og ekki hvort Z þekkti þá aðila. Þá lýsti Y því að X hafi fengið kreditkort sitt lánað til að kaupa flugmiða út en X hafi sjálfur lagt pening inn á kortið. Þá neitaði Y því að hafa verið í símasambandi við X eftir samtal þeirra á lestarstöðinni 16. ágúst. Þá kvaðst Y hafa látið X hafa síma fyrir fyrri ferðina og taldi númerið vera [...]. Þá kvaðst Y hafa verið notaður í þeim tilgangi að leggja inn peninga á reikning X í ferðinni.
Y gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 22. nóvember 2011. Kvaðst Y standa við fyrri framburð sinn varðandi vitneskju sína um aðild Z og veru hans úti í [...]. Neitaði Y því að hafa sent Z með fatatösku til X þar sem hann var staddur í [...]. Kvað hann Z segja ósatt um þetta. Spurður um símtal Y við Z 15. ágúst, daginn áður en Z fór út til [...], kvaðst Y vafalaust hafa ætlað að tala við [...]. Neitaði Y að hafa haft frekari vitneskju um ferð Z.
Húsleit var gerð heima hjá Y þann 7. september 2011. Lagði lögregla þá m.a. hald á ofangreindan miða og eina e-töflu. Einnig framvísaði Y ætluðu amfetamíni.
Matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 22. september 2011, liggur fyrir þar sem fram kemur að í rannsókn hafi komið ljósbleik yrjótt tafla um 8,2 mm í þvermál. Á annarri hlið hennar hafi verið merkið „Volkswagen“ en deiliskora á hinni hliðinni. Innihélt taflan MDMA. Greindist í töflunni 82 mg af MDMA-klóríði. Var sýnið borið saman við fyrri sýni sem send höfðu verið rannsóknarstofunni og haldlögð höfðu verið við komu X til landsins. Segir að öll sýnin hafi innihaldið MDMA-klóríð af svipuðum styrkleika og séu að því leyti sambærileg. Fyrri sýni hafi verið nákvæmlega eins og síðasta sýnið frábrugðið þannig að þær fyrrnefndu væru því örugglega ekki úr sömu framleiðslulotu og sú tafla sem haldlögð var heima hjá Y.
Z var handtekinn í [...] þann 3. nóvember 2011 og yfirheyrður þar. Z kvaðst hafa farið til [...] þá um sumarið, í júlí eða ágúst, þar sem hann hafi verið ósáttur við konuna og ætlað að sletta úr klaufunum. Kvaðst hann hafa hitt strák þar sem heiti X og þeir hafi djammað eitthvað saman. Sá hafi verið einhverjar nætur inni á hótelherbergi hjá sér að djamma en ekki gist þar. Kvað Z Y, vin sinn, hafa sagt sér að X, vinur hans, væri fatalaus á einhverju hjólabrettaferðalagi um [...] og beðið hann um að fara með föt til hans. Sá hafi átt að koma upp á herbergi til sín og sækja fötin þangað. Fötin hafi verið í venjulegri ferðatösku með fötum í, buxur, bolir og einhver venjuleg föt. X hafi svo bara komið á hótelið og hafi Z þá verið kominn þangað. Kvaðst hann ekki hafa hugmynd um hvar X hafi gist. Kvað Z það vera rétt að hann hafi kvittað fyrir hótelherberginu og X hafi pantað þangað veitingar, þeir hafi verið ansi skrautlegir þar. Þá væri það rétt að hann hafi verið á nokkrum herbergjum á hótelinu en hótelið hafi ráðið því, það hafi verið gert þegar hann framlengdi dvölinni. Z kvaðst kannast við Y en þeir væru í sama vinahópi. Z kvaðst ekki muna eftir 40.000 króna millifærslu frá sér til Y. Þá vissi hann ekki hvers vegna bróðir hans, C, hefði lagt 20.000 krónur inn á reikning X 25. júlí 2011. Þá kvaðst Z ekkert kannast við nokkra miða sem fundust við húsleit heima hjá honum og voru með upplýsingar um kennitölur, símanúmer og bankareikningsnúmer. X kannaðist heldur ekki við ýmsar upplýsingar sem voru í stílabókum er haldlagðar voru á heimili hans og hann kvaðst eiga. Þá kvað Z X segja ósatt um að Z hafi komið með tösku til hans til að flytja fíkniefnin í.
Skýrsla var aftur tekin af Z hjá lögreglu 26. mars 2012. Kvað hann það rangt hjá X að hann hafi afhent honum ferðatösku með fíkniefnum í [...] og að hann hafi greitt fyrir hótelgistingu fyrir þá báða á [...] hótelinu í [...] og sérherbergi fyrir X fyrstu nóttina. Þá neitaði Z nokkurri vitneskju um „D“ þrátt fyrir að miði hafi fundist heima hjá X um greiðslur frá honum. Þá ítrekaði Z að hann hafi ekki þekkt X áður en þeir hittust í [...], þrátt fyrir að lögregla hafi bent honum á að hann hafi beðið E, systur Z, að hýsa X í [...] þegar X fór í fyrri ferðina í júlí. Þá ítrekaði Z að Y hafi vitað um ferð Z til [...] og að hann hafi látið sig hafa tösku með fötum til X.
Skýrsla var tekin af A þann 20. september 2011. Kvaðst hún þekkja Y en hann væri í fjölskyldu barnsföður hennar. Kvað hún Y hafa komið til sín og beðið sig um að fá lánaða mikla peninga sem hún hafi millifært á hann. Það hafi verið 95.000 krónur en hann hafi ekki sagt sér hvers vegna hann þyrfti þessa peninga. Það hafi verið í byrjun ágúst. Hún hafi áður lánað honum pening og hann ætíð greitt sér til baka. Þá kvað hún Y hafa fengið Visa-kort hennar lánað til að kaupa flugmiða og hótelherbergi fyrir vin sinn, hún mundi ekki hvenær en það gætu verið tvær til fjórar vikur síðan. Y hafi lagt pening inn á hana fyrir því. Hún hafi talið að Y væri að bjarga vini sínum. Þá upplýsti A að Z hafi einnig fengið að nota greiðslukort sitt og hafi það verið á svipuðum tíma. Þá kvað hún Z vera þann eina sem komi til greina að hafa bókað hótelherbergið í [...] hjá henni. Hann hafi einnig bókað farmiða til [...] þar sem hann var að fara að heimsækja systur sína til [...].
F gaf skýrslu hjá lögreglu 10. október 2011 og kvaðst vera vinur X. Kvað hann X hafa boðið sér að koma með sér út og taka eina fíkniefnatösku sjálfur og þeir átt að fá eina og hálfa milljón króna saman fyrir að taka fíkniefnatöskur til landsins. X hafi sagt að þeir fengju pening fyrir flugmiðum áður en þeir færu út og fyrir uppihaldi og síðan greiðslu um leið og þeir kæmu heim. Þeir áttu að fara fyrst á tónleika til [...] og þar átti að koma með töskurnar upp á herbergi til þeirra. Minnti F að það hafi átt að vera kókaín í töskunni en hann myndi ekki hversu mikið magn. Þetta boð X hafi komið um fimm dögum fyrir brottför og hafi F fundist sá fyrirvari stuttur. X hafi síðan hringt í sig úr myntsíma, að F taldi frá [...]. Þá hafi X haft samband við sig á Facebook frá kaffihúsi í [...] og sagst hafa verið rændur og beðið sig um að útvega honum pening fyrir farmiða heim. F hafi beðið föður sinn um að kaupa flugmiða fyrir X sem hann hafi gert. F kvaðst hafa verið farið að gruna að Y væri viðriðinn ferð X út því að Y hafi alltaf verið að koma í vinnuna til F og spyrja hvort F hefði heyrt eitthvað frá X. Það hafi verið þegar X fór í seinni ferðina en Y sé í vinahópnum. F kvaðst kannast við smáskilaboð send á Y 22. ágúst 2011 þar sem segir: „Er pungur ekki kominn??? [...].“ Y kvað X hafa séð að hann vildi ekki fara með honum og hann því hætt að spyrja sig.
E gaf skýrslu 17. nóvember 2011 hjá lögreglu og kvaðst búa í [...] ásamt bróður sínum, Z, konu hans og barni þeirra. Kvaðst A ekki þekkja Y þrátt fyrir að hann hafi tvisvar hringt í símanúmer hennar í [...]. Þá kvað hún bróður sinn, Z, hafa beðið sig um að hýsa X þar sem hann hafi vantað gistingu.
C gaf skýrslu hjá lögreglu 22. nóvember 2011 og kvaðst aðspurður hafa að beiðni systur sinnar lagt 20.000 krónur inn á reikning X og hafi það verið 25. júlí 2011. Hann hafi oft hjálpað systkinum sínum um smálán en í umrætt sinn hafi X verið staddur hjá A og tekið umrædda fjárhæð út í gjaldeyri í [...].
G gaf skýrslu hjá lögreglu 18. nóvember 2011 og kvað H vera systur félaga síns. Kvaðst hann hafa hitt H í ágúst og keypt fyrir hana flugmiða fyrir Z en hún hafi verið í einhverjum vandræðum með Visa-kort. Hann hafi þá verið að koma heim frá [...].
I gaf skýrslu hjá lögreglu 29. nóvember 2011 og kvaðst hafa kynnst X og Y á árinu 2010, þeir hafi allir leigt saman. Í byrjun árs 2011 hafi hann hætt að leigja með þeim og þeir ekki verið í miklu sambandi síðan. I kvaðst hafa vitað að X hafi farið utan en frétt af málinu í fréttum. I kvaðst hafa verið í partýi heima hjá Y þegar X var úti og Y hafi þá sagt við sig að hann hafi átt von á kókaíni en það hefði breyst og í staðinn fengi hann e-töflur og þær myndu sjást fljótlega á götunni. Y hafi aldrei sagt hvað hann ætti von á mörgum töflum. Y hafi verið að spila sig stóran og ekkert verið að halda þessu leyndu. C hafi einnig heyrt þetta.
J gaf skýrslu hjá lögreglu 5. desember 2011 og kvaðst ekkert hafa vitað um innflutning X en Y hafi spurt hana í lok desember 2010 hvort hún vildi fara út til [...] og sækja eitt kíló af kókaíni. Átti hún að fá eina til eina og hálfa milljón fyrir. Hafi hún neitað þessu. Þá kvaðst hún hafa verið heima hjá Y og C á svipuðum tíma og á meðan X var úti og hafi Y sagt að hann ætti von á, eða vissi, að það væru að koma ecstacy-töflur. Hafi Y sagt þetta við tvo stráka sem voru heima hjá þeim.
C gaf skýrslu þann 8. desember 2011 hjá lögreglu og kvaðst hann ekkert hafa vitað um ferð X. Y hafi hins vegar boðið sér að fara til [...] milli jóla og nýjárs 2010 og sækja eitt kíló af kókaíni. Hafi hann átt að fá eina milljón fyrir. C kvaðst hafa verið ósáttur við að sér væri boðið svona og Y hafi einnig boðið öðrum vinum sínum þetta, m.a. I, vinkonu sinni. Kvaðst C hafa verið staddur á [...] og Y hafi þá sagt sér að hann ætti von á að fá 400-500 kúlur. Þær væru bleikar eða rauðar Volkswagen-töflur. Það hafi verið á meðan X var úti. C hafi næst frétt af málinu í fjölmiðlum.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði X kom fyrir dóminn og kvað rétt vera að hann hafi farið í ferð á tónleika til [...] og farið þaðan til [...], [...], [...], [...], [...] og Íslands eins og greinir í ákæru og komið með þau fíkniefni sem þar greinir. Ákærði kvaðst hafa farið á tónleika í [...] umrætt sinn. Honum hafi verið boðið að fara út og sækja fíkniefni áður en hann fór í tónleikaferðina en hann hafnað því af því að hann hafði farið áður í fíkniefnaleiðangur sem hefði mistekist. Þegar vinir hans, sem voru með honum í [...], voru að fara heim, hafi verið hringt í ákærða og honum boðið að taka tösku heim. Hann hafi ekki getað neitað boðinu en fíkniefnaskuldir hans hafi átt að falla niður. Ákærði hafi átt að sækja eitt kíló af kókaíni. Allt annað hafi verið í töskunni þegar hann kom heim. Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega hvort hann hafi verið í [...] eða ekki þegar hann fékk símtalið en minnti að hann hafi átt að fá tösku með fíkniefnum afhenta í [...] en hann myndi það ekki nákvæmlega. Ákærði kvaðst hafa ákveðið á síðustu stundu að fara til [...] og fengið fyrirfram greidd laun til að geta keypt flugmiða. Hann hafi ekki átt flugmiða með félögum sínum til baka til Íslands en hann hafi ætlað að láta á það reyna að fá ódýrt flug. Kvaðst ákærði ekki vita hver það hafi verið sem hringdi í sig í [...] en það hafi ekki verið meðákærði Y en Y hafi hins vegar boðið sér að fara út áður en ákærði fór í tónleikaferðina. Ákærði kvaðst ekki muna vel í hvaða samskiptum hann var við Y eftir að hringt var í ákærða í [...]. Ákærði kvað sér hafa verið sagt að fara til [...] til að sækja fíkniefni og þar hafi hann átt að hringja í einhvern. Þá hafi honum verið sagt að fara til [...]. Ákærði mundi ekki hver hafi sagt sér að fara til [...], það gæti verið Y en hann var ekki viss, hann blandaði svolítið saman þessum ferðum, þ.e. í júlí og ágúst. Ákærða minnti að hann hafi átt að fá einhvern pening þegar hann væri kominn út en það ekki gengið eftir og þá hafi hann beðið meðákærða Y að lána sér pening. Þegar ákærði hafi komið til [...] hafi hann farið á hótelið en búið var að bóka hótelherbergi á hann. Minnti ákærða að Y hafi sagt sér að fara á þetta hótel en hann væri ekki viss. Ákærði hafi farið í afgreiðsluna og gefið upp nafnið sitt. Hafi honum þá verið vísað á ákveðið herbergi og þegar hann kom þangað hafi Z verið þar fyrir. Mundi ákærði ekki hvort þeir hafi gist saman þá nótt eða í sitthvoru herbergi. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt Z fyrir en kannaðist við hann þar sem hann væri vinur meðákærða Y. Ákærði og Z hafi fengið sér bjór og farið út að borða. Eitt kvöldið hafi myndast eitthvert stress og Z beðið sig um að yfirgefa herbergið. Þegar hann kom til baka hafi taskan með fíkniefnunum verið komin inn í herbergið. Minnti ákærða að Z hafi verið með tóma tösku þar fyrir, hann myndi ekki til þess að Z hafi komið með einhver föt til sín. Kvaðst ákærði hafa vitað að Z hafi ætlað að hitta mann sem útvegaði fíkniefnin. Ákærði kvaðst hafa talið að það væri um eitt kíló af kókaíni í töskunni. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð fíkniefnin í töskunni en Z hafi látið sig hafa töskuna. Ákærði kvað töskuna hafa verið þunga en hann ekki hugsað út í það að eitthvað annað gæti verið í töskunni. Þó svo að hann hafi áttað sig á því að meira væri í töskunni hefði hann aldrei getað skilið hana eftir. Ákærði kvaðst hafa þurft að borga yfirvigt fyrir töskuna en hann hafi ekki áttað sig á því hversu þung taskan var fyrr en hún var komin á færibandið á flugvellinum. Ákærði hafi verið peningalaus og hringt í systur sína sem hafi lagt inn á hann í gegnum Western Union fyrir yfirvigtinni. Ákærði kvaðst ekki hafa haldið á þeim tíma að eitthvað annað en kókaín hafi verið í töskunni heldur bara meira magn af kókaíni en hann átti von á. Aðspurður um fjármögnun ferðarinnar kvaðst ákærði alltaf hafa fengið millifærslur frá meðákærða Y, um 400.000 krónur. Z hafi síðan greitt allt fyrir sig í [...]. Greiðslurnar frá Y hafi verið fyrir útlögðum kostnaði en ekki sem greiðsla fyrir skuldir og sektir sínar. Fyrr hafi ákærði átt að fá eina og hálfa milljón fyrir ferðina sem misfórst í júlí 2011. Ákærði kvaðst hafa verið í rugli á þessum tíma og verið skíthræddur. Skýring á því að ákærði var með greiðslukort frá meðákærða Y hafi verið sú að hann varð að hafa greiðslukort til að kaupa flugmiða erlendis og ákærði hafi ekki átt greiðslukort. Ákærði kvaðst halda að meðákærði Y hafi verið beðinn um að halda ákærða uppi í ferðinni en kvaðst ekki geta staðfest það. Ákærða minnti að hann hafi í fyrstu verið með sinn eigin síma en þegar leið á hafi hann útvegað sér nýjan síma en honum hafi verið sagt að fá sér nýjan síma. Mundi ákærði ekki hver það hafi verið, Y eða hinn aðilinn. Ákærði kvaðst hafa átt eitt eða tvö símtöl við þennan mann sem bað hann um að fara í ferðina, allavega eitt í [...] en mundi ekki eftir fleiri símtölum við þann aðila. Annars hafi hann verið í sambandi við Y. Ákærði hafi einnig verið í sambandi við Y á spjallrásum í tölvu sem hann hafi komist í í mollum. Ákærði taldi að skuldirnar sem áttu að falla niður hafi verið um 700.000 krónur en hann væri ekki viss. Þá taldi ákærði víst að það hafi átt að selja fíkniefnin þegar þau kæmu til landsins.
Ákærði kvaðst hafa boðið F, vini sínum, að koma með sér í ferðina en fengið bakslag vegna fyrri ferðarinnar og því sagt F að koma ekki með sér.
Ákærði kvað Y hafa boðið sér í júlí 2011 að fara til [...] og sækja fíkniefni og ákærði hafi farið en þá hafi ekkert gengið upp. Y hafi aftur boðið sér að fara til [...], ákærði samþykkt að fara en hætt við áður en hann fór í tónleikaferðina. Kvað hann sig og Y vera vini og það hafi verið sjálfsagt af hálfu Y að lána sér greiðslukortið sitt en Y hafi vitað að ákærði ætlaði að flytja inn þessa tösku. Ákærða minnti að sími og peningabúnt hafi verið skilið eftir í bifreið hans áður, þegar hann fór í fyrri ferðina, en slíkt hafi ekki verið nú. Ákærði kvaðst hafa snúið lífi sínu við, kominn með heimili og unnustu og myndi ekki fara í slíka ferð aftur. Ákærði áréttaði að hann hafi ætlað sér að koma með eitt kíló af kókaíni til landsins.
Ákærði kvaðst aðspurður ekki skulda meðákærða Y þær fjárhæðir sem Y lagði inn á reikning hans á meðan hann var í seinni ferðinni. Ákærði kvaðst ekkert hafa vitað af því fyrr en eftir að hann var handtekinn hver lagði inn á reikninginn, ákærði hefði bara farið í hraðbanka og tekið út peninga. Ákærði kvaðst hafa opnað töskuna úti í [...] og sett dótið sitt í hana áður en hann fór frá [...]. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um aðild Z áður en hann kom til [...].
Framburður ákærða hjá lögreglu 25. ágúst 2011 var borinn undir hann og kvað hann peninga hafa verið lagða inn á bankareikning sinn í [...]. Aðspurður um framburð sinn um að sami aðili hafi boðið sér að taka töskuna heim og átti greiðslukortið sem hann var með í láni, kvaðst ákærði vera viss um að þriðji aðili hafi hringt í sig til [...], en hvort það hafi verið Y, sem hringdi fyrst og rétti hinum manninum símann, gat ákærði ekki sagt til um. Aðspurður um framburð sinn fyrir dómi kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það hvort Y hafi líka hringt ásamt þriðja manni, hann mundi það ekki. Aðspurður um að ákærði hafi fengið síma hjá Y áður en hann fór í ferðina, kvaðst ákærði hafa fengið síma frá Y áður en hann fór í fyrri ferðina. Aðspurður um það hvernig ákærði hafi fengið flugmiða til Íslands, kvaðst ákærði hafa keypt flugmiðann í [...], flogið þaðan til [...] og þaðan til Íslands. Ákærði kvaðst hafa verið með pening fyrir flugmiðanum en systir hans hafi sent honum pening fyrir yfirvigtinni. Ákærði kvaðst ekki hafa verið búinn að vigta töskuna áður en hann kom á flugvöllinn en taskan hafi verið mjög þung en ákærði væri óvanur að ferðast milli landa og hafi hann ekki vitað um að greiða þyrfti fyrir yfirvigt.
Ákærði Y kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa komið að þeim innflutningi sem ákært er fyrir nú. Hann hafi komið að fyrri ferð meðákærða í júlí 2011. Þá hafi hann boðið X að fara í ferðina og verið beðinn um að útvega meðákærða X síma og peninga fyrir ferðina, sem hann hafi gert. Ákærði hafi verið beðinn um að útvega aðila þá til að fara til [...] og sækja þar tösku en ákærði vissi ekki hvað átti að vera í töskunni. Hafi hann verið þvingaður til að gera þetta. Meðákærði hafi ekki komið með neitt heim þá.
Ákærði kvaðst ekki hafa komið að seinni ferðinni né beðið meðákærða að fara til [...]. Ákærði kvaðst hafa lánað meðákærða greiðslukortið sitt þar sem meðákærði átti ekki greiðslukort og þurfti kort til að kaupa flugmiða. Meðákærði hafi ætlað til [...] á tónleika með vinum sínum. Þeir hafi síðast haft samskipti þegar meðákærði var staddur á lestarstöð í [...], 16. ágúst, og ákærði vitað að meðákærði hafi verið félaus. Ákærði hafi lánað honum pening þá en var ekki með á hreinu hversu mikinn. Ákærði kvaðst hafa lagt inn á greiðslukortið en mundi ekki til þess að hafa lagt pening inn á reikning meðákærða. Ákærði kvaðst ekki hafa átt pening sjálfur til að lána og aðspurður kvaðst hann hafa verið þvingaður til að gera þetta. Ákærði kvaðst hafa átt að fylgjast með því hvað meðákærði væri að gera og hvernig honum liði. Ákærði gat ekki skýrt það hvers vegna hann hafi verið látinn fylgjast með meðákærða. Ákærði mundi ekki hvort eða hverja hann hafi beðið um að leggja peninga inn á meðákærða. Ákærði kvaðst ekkert vita um ferðalag meðákærða utan tónleikaferðina og að hann hafi farið frá [...] til [...]. Hann vissi ekki hvers vegna meðákærði hafi farið til [...]. Ákærði kvað Z vera kunningja sinn en hann hafi ekki vitað af aðkomu hans fyrr en eftir á. Þá vissi hann ekki til þess að Z hafi lagt peninga inn á meðákærða. Aðspurður kvað ákærði sig minna að meðákærði hafi átt að koma með kókaín en mundi ekki hversu mikið magn. Ákærði kvaðst ekki muna hversu mikið meðákærði hafi átt að fá greitt fyrir þá ferð. Ákærði kvaðst ekkert hafa vitað um þá ákvörðun meðákærða að fara til [...] og flytja inn fíkniefni. Ákærði kvaðst hafa verið í einhverju símasambandi við meðákærða þegar hann var í [...] en ekki miklu.
Lögregluskýrslur voru bornar undir ákærða. Fyrst frá 20. september 2011. Þar segi ákærði að hann hafi verið beðinn um að redda aðila til að sækja eitt kíló af kókaíni. Kvað ákærði það hafa verið fyrri ferðina. Ákærði kvaðst hafa boðið meðákærða að fara í þá ferð. Kvað ákærði það vera rétt auk þess að hann hafi boðið fleiri aðilum að fara í fyrri ferðina. Aðspurður um miða, sem fannst við húsleit heima hjá ákærða, með upplýsingum um fíkniefni á, kvaðst ákærði kannast við miðann og kvað þar vera upplýsingar í tengslum við að finna aðila til að fara í fyrri ferðina. Ákærði kvaðst eflaust hafa átt að fá eitthvað fyrir sinn hlut en mundi það ekki frekar. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu vegna seinni ferðar meðákærða, að meðákærði hafi ætlað að gera það sama í seinni ferðinni, kvaðst ákærði neita að svara því. Aðspurður um framburð sinn um að hann hafi átt að fylgjast með því hvernig meðákærða liði í ferðinni, kvað hann það rétt. Aðspurður um framburð sinn um að ákærði hafi viljað draga sig út úr þessu þar sem þetta hafi verið orðið „risky“ kvað ákærði það rétt og ekki hafa verið í sambandi við meðákærða eftir 16. ágúst. Ákærði kvaðst ekkert hafa rætt við meðákærða eftir það og á meðan hann var í [...]. Aðspurður um þann framburð að í því símtali hafi ákærði örugglega nefnt við meðákærða að fara til [...] þar sem búið væri að redda hóteli, kvaðst ákærði ekki kannast við þetta.
Yfirlit yfir úttektir af greiðslukorti ákærða þann 15. 16. og 20. ágúst voru bornar undir ákærða. Kvaðst hann ekki hafa verið í sambandi við meðákærða á þessum tíma. Innlögn á kortið frá 19. ágúst var borin undir ákærða. Kvaðst hann ekki muna eftir því. Innlagnir inn á reikning meðákærða að fjárhæð 354.000 krónur dagana 14. júlí til 22. ágúst 2011 voru bornar undir ákærða. Kvaðst ákærði hafa verið látinn leggja þessar fjárhæðir inn á meðákærða en það hafi líka komið fyrir að hann hafi lagt inn á meðákærða sem vinargreiða, hann myndi það bara ekki. Ákærði var inntur eftir því hvort hann hafi verið í einhverjum samskiptum við Z í [...] og kvaðst ákærði ekki muna til þess en þeir væru kunningjar. Borin voru undir ákærða samskipti hans við Z frá 19. maí til 11. ágúst 2011 eða samtals 96 tengingar, og kvaðst ákærði ekki muna eftir því. Þá eru mikil samskipti á milli þeirra frá 11. ágúst til 15. ágúst 2011. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu 27. september 2011 um að tónleikaferð meðákærða hafi hljómað vel og meðákærði hafi upphaflega átt að fá efnin afhent á flugvellinum í [...], kvaðst ákærði ekki kannast við þetta. Þá var ákærði inntur eftir því að vitni hafi sagt eftir ákærða að hann ætti von á ecstacy-töflum á meðan meðákærði var í seinni ferðinni. Kvaðst ákærði ekki kannast við þetta.
Framburðarskýrslu ákærða hjá lögreglu voru bornar undir ákærða og staðfesti hann undirritun sínar á þær. Facebook-síða undir nafninu K var borin undir ákærða. Kvaðst ákærði hafa notað þessa síðu til að hafa samband við meðákærða, „eflaust eitthvað“.
Vitnið B kom fyrir dóminn og kvað ákærða Y vera í fjölskyldu sinni en að ákærði X væri bróðir bekkjarsystur vitnisins. Vitnið kvaðst ekkert hafa vitað um umræddan innflutning. Kvað vitnið rétt að ákærði Y hafi beðið sig um lán á peningum. Minnti vitnið að það hafi verið um 95.000 krónur. Y hafi greitt sér til baka. Vitnið kvaðst kannast við að hafa lánað kærustu Z greiðslukort sitt en þær hafi verið vinkonur. Vitnið hafi ekki vitað þá í hvaða tilgangi en álykti nú um ástæðuna. Vitnið kvaðst hafa lánað á þessum tíma þremur einstaklingum kortið sitt en vitnið hafi ekki fengið upplýsingar um tilganginn fyrr en lögreglan hafði samband við vitnið.
Vitnið F kom fyrir dóminn. Kvað hann sig og ákærðu vera vini. Vitnið kvaðst hafa vitað af því að ákærði X hafi verið að flytja inn fíkniefni. X hafi sagt sér frá því en þeir hafi búið saman. Y hafi einhvern tímann einnig komið inn í umræðuna. Ætlunin hafi verið að fara til [...] og sækja tösku með fíkniefnum í. Það hafi verið X sem hafi átt að fara í ferðina. Y hafi boðið X að fara í þá ferð. Kvaðst vitnið vita að Y hafi beðið X að fara í seinni ferðina og X hafi þá boðið vitninu að koma með í þá ferð. Aðspurt hvert hafi átt að fara minnti vitnið að báðir hafi talað um [...]. X hafi verið búinn að ræða þá ferð við Y áður en hann fór í seinni ferðina. Vitnið kvaðst minna að X hafi rætt um að sækja e-töflur eða kókaín, vitnið mundi ekki hvort það var. Staðfesti vitnið framburð sinn hjá lögreglu.
Vitnið L prófessor kom fyrir dóminn og svaraði fyrir tvær matsgerðir frá 1. og 30. september 2011 þar sem sýni voru send til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Kvað vitnið lyfið fenasetín vera efni sem hafi verið á markaði áður, hitalækkandi og verkjadeyfandi lyf en hafi sennilega verið tekið af markaði um 1970 eða 1980. Parasetamol hafi tekið við af fenasetín. Lídókaín væri staðdeyfilyf sem væri mikið notað enn í dag. Þessum efnum hafi verið blandað saman, sem voru send til rannsóknar. Kvað vitnið Lídókaín og önnur staðdeyfilyf hafa verið notuð til að villa um fyrir mönnum sem keyptu kókaín. Það valdi staðdeyfingu en hafi hins vegar enga verkun á við kókaín. Þá hafi töflur með MDMA verið rannsakaðar. Kvað vitnið meðalstyrk MDMA-klóríðs á tímabilinu 2010 til 2012 hafa verið um 90 mg í hverri töflu. Fyrr á öldinni hafi meðaltalið verið eitthvað lægra. Á síðustu öld hafi meðalstyrkurinn verið hærri og upp í 100 mg. Sveiflur virðast því vera í þessu. Vitnið kvað sykuralkóhól vera efni náskylt sykrum og notað sem sætuefni.
Grein úr ritinu Addiction eftir John H. Halpern og fleiri var borin undir vitnið. Var vitnið innt eftir því hvort hættueiginleiki MDMA hafi verið ofmetinn á undanförnum árum. Kvað vitnið þessa rannsókn vera ágæta sem slíka en rannsóknin sneri eingöngu að því hvort neysla efnisins hefði áhrif á greind mannsins. Hafi mjög fáir einstaklingar tekið þátt í rannsókninni eða um fimmtíu. Erfitt væri því að draga sérstakar ályktanir af þessari grein einni og sér. Nokkrir tugir greina væru ritaðir á ári hverju um skaðsemi MDMA og skyldra efna þannig að ýmislegt nýtt gæti hafa komið fram sem hugsanlega styddi þessa niðurstöðu og einnig sem styddi gagnstæða niðurstöðu. Vissulega væri ástæða til að rannsaka skaðsemi MDMA frekar og endurmeta hana.
Rannsókn birt í tímaritinu Articles, „Drug harms in the UK“ eftir David J. Nutt og fleiri, var borin undir vitnið og ávanabindandi þáttur MDMA. Kvaðst vitnið aldrei hafa talið efnið neitt sérstaklega ávanabindandi né hafa gögn um það, en ávanabindandi væri það samt ef ákveðnar skilgreiningar væru notaðar á ávana- og fíkniefnum en ekki neitt í líkingu við kókaín eða t.d. nikótín. Aðspurt um þá niðurstöður í greininni að ecstacy flokkist með minnst ávanabindandi fíkniefnum sagði vitnið að það merkilega við þessa niðurstöðu væri að verið sé að búa til einhvern mælikvarða um skaðsemi fíkniefna. Þetta væri fyrsta stóra tilraunin í þá átt sem vitnið hefði séð en það sé hins vegar ekki orðinn neinn alþjóðlegur viðurkenndur mælikvarði né heldur hér á landi. Þá sé spurning hvort þessi mælikvarði myndi gilda hér á landi. Benti vitnið á að alkóhól væri efst á listanum og t.d. tóbak skoraði nokkuð hátt. Skýringar á því hversu ávanabindandi efnin reyndust í þessum mælikvarða gæti verið menningarleg. Aðspurt hvort tímabært væri að yfirvöld létu fara fram nýtt skaðsemimat á ecstacy kvaðst vitnið ekki geta svarað því, erfitt væri að finna einhvern mælikvarða og raða þessu efni miðað við önnur og slík rannsókn væri afar erfið. Hins vegar væri kannski tímabært að skoða hvort það, sem fyrir áratug voru taldar mjög sterkar vísbendingar, hafi styrkst eða jafnvel sannast eða hvort það hafi jafnvel verið hrakið. Aðspurt um skýrslu M um skaðsemi ecstacy, sem hann gaf fyrir dómi fyrir aldamótin síðustu, þar sem hann kvað ecstacy vera ef ekki það vafasamasta þá næstvafasamasta efni sem hafi komið til landsins, hvort það hafi ekki verið heldur djúpt í árinni tekið, kvað vitnið það fara eftir því hvaða mælikvarðar séu notaðir. Ef miðað væri við dauðsföll þá væri ekki djúpt í árinni tekið en á þessari öld hafa orðið þrjú dauðsföll þar sem MDMA er talinn eitrunarvaldurinn eða náskylt efni. Það hafi ekki orðið önnur dauðsföll hér á landi af öðrum fíkniefnum á þessum tíma nema af kókaíni. Vegna kókaíns séu tvö dauðsföll á þessari öld. Það sé því afstætt hvaða mælikvarðar séu notaðir við rannsóknir. Ef mælikvarði í rannsókn Davids J. Nutt væri notaður þá hefðu þessi dauðsföll skorað gífurlega hátt hér á landi. Heróín er sennilega það efni sem valdi flestum dauðsföllum í Bretlandi en hér á landi ekki. Tvær manneskjur hafi látist hér á landi af völdum Heróíns frá upphafi. Kvað vitnið að á meðan ekki væri til mælikvarði til að meta skaðsemi efnisins væri erfitt að meta skaðsemina en alltaf væri rétt að endurskoða fyrri álit til að sjá hvort það sem menn töldu vega þungt áður vegi eins þungt í dag. Staðfesti vitnið matsgerðir sínar sem liggja fyrir í málinu.
Vitnið I kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið ekki hafa vitað um ferðir X vegna fíkniefna. Framburður vitnisins hjá lögreglu var borinn undir vitnið. Vitnið kvaðst ekki hafa talið að ákærði Y ætti von á e-töflum heldur hafi Y sagt að það mætti búast við e-töflum á markaðnum. Y hafi ekki sagt að hann sjálfur ætti von á töflum. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að Y hafi sagt því að hann hafi átt von á kókaíni en e-töflur kæmu í staðinn. Kvaðst vitnið sjálft hafa verið í neyslu á þessum tíma og muna lítið eftir þessu.
Vitnið C kom fyrir dóminn og kvaðst aðspurt ekki hafa haft upplýsingar um að X hafi farið utan að sækja fíkniefni fyrr en eftir á. Aðspurt kvað vitnið Y einu sinni hafa boðið vitninu að fara í ferð til að sækja fíkniefni en vitnið hafnað því. Mundi vitnið ekki hvenær það var. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að Y hafi sagst eiga von á e-töflum. Aðspurt um framburð vitnisins hjá lögreglu um að Y hafi boðið vitninu að fara út að sækja fíkniefni milli jóla og nýárs, kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu, langt væri síðan. Vitnið kvaðst muna til þess að Y hafi talað um e-töflur en ekki að hann væri að fá sjálfur slíkt því að það hafi verið mikið um þessi efni í kringum þá á þessum tíma. Þá var framburður hans hjá lögreglu um að Y hafi átt von á 400-500 kúlum, borinn undir vitnið. Kvaðst vitnið kannast við að Y hafi rætt um það en vitnið ekki vitað hvaðan það væri að koma.
Vitnið O lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa tekið þátt í rannsókn þessa máls frá upphafi, húsleitum, yfirheyrslum, hlustunum og fleiru. Kvað vitnið að um hafi verið að ræða burðardýrsmál en lögreglan hafi náð að tengja burðardýrið við þá sem stæðu honum ofar í ferlinu. Kvað vitnið málið hafa komið upp 23. ágúst 2011. Handtökur og yfirheyrslur í [...] hafi verið í nóvember 2011. Þá hafi tekið einhvern tíma að koma Z til skýrslutöku sem hafi tekist í mars 2012, en hann hafi þá búið í [...]. Málinu hafi síðan verið skilað í lok mars 2012. Vitnið hafi fengið málið endursent til sín í september 2012 og því verið skilað aftur þrem dögum síðar. Ástæðan hafi verið upplýsingar sem hafi vantað og hafi snúið að báðum ákærðu. Vitnið var innt eftir því hvort vitnin C og I hafi verið í annarlegu ástandi þegar skýrslur voru teknar af þeim. Kvað vitnið að ef svo hafi verið hefðu skýrslur ekki verið teknar af þeim. Aðspurt hvers vegna skýrslur hafi ekki verið teknar af ákærða Y á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi nema í september og síðast 24. september 2011 og þar til 22. nóvember s.á., kvað vitnið aðila sem hafi tengst málinu, Z, hafa búið í [...] og hafi húsleit og skýrslutaka af honum þar tekið þennan tíma. Kvað vitnið rannsókn lögreglu einnig hafa snúið að því að finna þann sem aflaði burðardýrsins, ákærða X, og hafi Z verið til rannsóknar vegna málsins.
Vitnið P lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa stýrt lögreglurannsókninni. Vitnið kvaðst muna að hafa skilað málinu frá sér í mars 2012. Ástæða fyrir þessum tíma hafi verið að skýrslur hafi þurft að taka af mörgum aðilum og m.a. hafi þurft að fá húsleitarúrskurð í [...] og hafi það tekið langan tíma. Vitnið var innt eftir skýrslutökum af ákærða Y þar sem Y hafi sagt að tónleikaferð X hafi hljómað vel. Kvaðst vitnið muna eftir því að Y hafi sagt að það hafi verið gott að nota tónleikana í [...] sem yfirskin. Þá mundi vitnið eftir því að Y hafi rætt um að upphaflega planið hafi verið að fíkniefnin yrðu afhent í [...]. Þá mundi vitnið eftir því að Y hafi sagt að X hafi þrýst á að fara þessa ferð en X hafi aftur á móti sagt að hann hafi alls ekki viljað fara í þessa ferð í skýrslutökum hjá lögreglu. Þá var vitnið innt eftir því hvort það myndi eftir framburði vitnanna I, J og C um að Y hafi rætt við þau, á meðan X var erlendis, að Y ætti von á ecstacy-töflum. Kvaðst vitnið muna eftir því að þau hafi sagt þetta við skýrslutöku en mundi ekki eftir því hvaðan lögreglan hafði fengið þær upplýsingar. Þá kvaðst vitnið ekki muna til þess að I hafi verið neitt athugaverður í skýrslutökunni. Ef svo hafi verið hefði lögreglan ekki tekið skýrslu af honum. Vitnið kvaðst muna að málinu hafi verið skilað til lögfræðinga 30. mars 2012 en málið hafi komið til þeirra aftur í september og þá verið nokkra daga í rannsókn áður en því var skilað til lögfræðinganna, vitnið hafi ekki verið í vinnu þá.
Vitnið J gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst ekki hafa vitað til þess að ákærði X hafi farið út til að sækja fíkniefni. Vitnið kvað rétt að ákærði Y hafi boðið vitninu að fara utan til að sækja fíkniefni og sagt við vitnið að hann þekkti einhvern sem vantaði aðila til að fara út í slíka ferð til [...] að sækja kókaín og hafi vitnið átt að fá um eina milljón fyrir. Vitnið kvaðst ekki vita hvort það hafi tengst ferðinni sem X fór í. Vitnið var spurt um það hvort Y hafi sagt frá því að hann ætti von á ecstacy-töflum, og kvað vitnið það vera rétt ef það hafi sagt svo frá í lögregluskýrslu, það hefði ekki farið að búa slíkt til.
Ákæruliður II.
Ákærði kvaðst kannast við þau efni sem ákært er fyrir og þau hafi verið til einkaneyslu. Ákærði játaði þá háttsemi. Mótmælti hann ekki upptökukröfu ákæruvaldsins.
Forsendur og niðurstöður.
Í máli þessu eru ákærðu ákærðir fyrir að hafa, í samráði, flutt inn mikið magn fíkniefna eins og greinir í ákæru. Ákærði X viðurkennir að hafa farið í þessa ferð eins og lýst er í ákæru en að ásetningur hans hafi ekki vaknað fyrr en hann var kominn til [...] en þá hafi ónefndur maður hringt í sig og neytt hann til ferðarinnar. Þá hafi hann ætlað að sækja eitt kíló af kókaíni en ekki e-töflur.
Ákærði X játaði fyrir lögreglu og dóminum að hafa farið í umrædda ferð en í þeim tilgangi að koma með til Íslands eitt kíló af kókaíni. Honum hafi ekki orðið ljóst fyrr en hann tók við töskunni á hótelherberginu að um meira magn var að ræða vegna þyngdar töskunnar en þá hafi hann talið vera orðið of seint að snúa við.
Ákærði X lýsti atvikum og ferðalagi sínu fyrir lögreglu og dóminum og verður ekki annað séð en að ákærði hafi verið sjálfum sér samkvæmur í framburði sínum utan að hann reyndi að halda meðákærða utan við verknaðinn í upphafi og öll frásögn hans um skipulag hefur verið misvísandi. Þá hefur ákærði X verið missaga um það hvort ákveðið hafi verið að fara í ferðina áður en hann fór í tónleikaferðina eða eftir að hann var kominn til [...]. Kvað X í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi fengið símtal 15. ágúst 2011 þar sem honum var gert að sækja eitt kíló af kókaíni. Það hafi verið sami aðili og bauð honum að fara í ferð mánuðinum á undan. Sá aðili hafi sagt sér að fara á ákveðið hótel í [...]. Þá kvað X að það hafi verið sami vinur sem lánaði honum greiðslukortið og bauð honum að taka fíkniefnin heim en það er meðákærði Y. Þessu neitaði ákærði fyrir dóminum. Þá liggja fyrir samskipti ákærða Y og Z á sama tíma og X var í [...].
Framburður ákærða X hefur verið reikull um það hvenær hann hafi tekið ákvörðun um að sækja töskuna en af framburði ákærða Y hjá lögreglu um að tónleikaferðin hafi verið gott yfirvarp, vitneskju vitnisins F um að hann hafi vitað að Y hafi boðið X að fara í seinni ferðina og X boðið sér með í hana og með tilliti til reikuls framburðar X sjálfs um það hvernig ferðin hafi komið til, svo og framburðar ákærða Y hjá lögreglu, meðan hann sætti einangrun í gæsluvarðhaldi, um að X hafi upphaflega átt að fá tösku afhenta á flugvellinum í [...], þykir dóminum lögfull sönnun hafa verið færð fram um að ákærði X hafi haft ásetning um að flytja inn fíkniefni áður en hann fór til [...] 11. ágúst 2011. Styður það sú háttsemi ákærðu beggja að ákærði X fór út með greiðslukort ákærða Y, hann keypti bara farmiða aðra leiðina en ekki báðar leiðir eins og vinir hans og ótrúverðugs framburðar X fyrir lögreglu og dóminum um þetta. Telur dómurinn framburð ákærða X allan ótrúverðugan um það hvenær ákveðið var að fara út og sækja efnin.
Telur dómurinn sannað að ákærði X hafi, að beiðni ákærða Y, farið til [...] í þeim tilgangi að sækja tösku með einu kílói af kókaíni og koma með til Íslands. Þá telur dómurinn einnig að fullnægjandi sannanir hafi verið færðar fram um að ákærði Y hafi verið í símasambandi við ákærða X í [...] og gefið honum fyrirmæli um að fara til [...] og bíða frekari fyrirmæla. Þá hafði ákærði Y símasamband við X þann 16. ágúst og telur dómurinn ákærða Y hafa gefið X upplýsingar um hótel og staðsetningu í [...] þar sem X hitti Z. Þá telur dómurinn einnig sannað að ákærði Y hafi vitað af Z í [...] þar sem þeir sannanlega ræddu saman í síma daginn áður en Z flaug út til [...] og skýringar ákærða Y um að hann hafi ætlað að ræða við H, konu hans, eru afar ótrúverðugar. Þá var Y sannanlega í sambandi við X til 17. ágúst svo að allur framburður ákærða Y er með ólíkindum og ótrúverðugur hvað varðar samskipti hans við X og Z fram að því að ákærði kom til landsins. Að auki er framburður ákærða Y um innlagnir á greiðslukort, símareikning og bankareikning X afar ótrúverðugur og að engu hafandi.
Þá telur dómurinn fullsannað, bæði með því að ákærði fékk greiðslukort hjá meðákærða Y til að greiða fyrir ferðina, að hann var með síma sem hann sagðist hafa fengið hjá meðákærða fyrir fyrri ferðina og með því að hann keypti ekki flugmiða til baka til Íslands eftir tónleikana eins og félagar hans höfðu gert að hans sögn, að ákærði X hafi farið út til [...] í upphafi með þann ásetning að taka við einu kílói af kókaíni og flytja til Íslands. Fyrirkomulagið hafi síðan breyst og hann fengið fyrirmæli um að fara til [...] og síðan til [...]. Telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærði X ætlaði sér að flytja inn eitt kíló af kókaíni en lét sér í léttu rúmi liggja að hann var með mörgum sinnum meira magn efna er hann lagði af stað til Íslands. Ekkert er annað fram komið í málinu en að hlutur ákærða X hafi verið sá að flytja efni inn til landsins eins og segir í ákæru en hann látið sér í léttu rúmi liggja að það var miklu meira efni en í upphafi stóð til og ber hann ábyrgð á því. Verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í ákæru og verður honum gerð refsing fyrir.
Ákærði Y neitar sök í málinu. Með vísan til framburðar meðákærða X, sem rakinn er hér að ofan, símtala á tímabilinu á milli þeirra og millifærslna frá Y á reikning X, greiðslukort og símakort, og allra þeirra samskipta sem ákærðu höfðu á meðan ákærði X dvaldi erlendis, telur dómurinn hafi yfir allan vafa að ákærði Y hafi átt þá aðild að brotinu sem honum er gefin að sök í ákæru. Telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði Y hafi beðið meðákærða X að fara í umrædda ferð áður en X fór til [...]. Þá hafði ákærði Y áður útvegað meðákærða X síma og sá um að senda honum peninga til uppihalds á meðan hann dvaldi erlendis. Þá liggur fyrir framburður vitnanna C, I, F og J, bæði fyrir lögreglu og dóminum að þau hafi heyrt hjá ákærða Y að það mætti búast við ecstacy-töflum á landinu bráðum. Telur dómurinn því sannað að ákærði Y hafi haft vitneskju um það áður en meðákærði kom til landsins með fíkniefnin að hann kæmi með e-töflur en ekki kókaín. Þá telur dómurinn sannað að ákærði Y hafi verið í samráði við Z við skipulagningu, fyrirkomulag og kostnað vegna ferðar ákærða X. Með þessari háttsemi telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði Y hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I.
Ákærði Y játaði brot sitt eins og því er lýst í ákærulið II og er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi.
Eru brot ákærðu í báðum ákæruliðum réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákvörðun refsingar.
Ákærðu byggja varakröfu sína um vægustu refsingu á því að efnið ecstacy sé ekki eins hættulegt fíkniefni og talið hefur verið. Var vitnið L inntur eftir því. Kvað hann þrjú andlát hafa orðið frá aldamótum af völdum ecstacy og þrjú andlát vegna neyslu kókaíns og skyldra efna. Andlát hafi ekki orðið af neyslu annarra fíkniefna á sama tíma. Að þessu virtu tekur dómurinn ekki undir þessa málsástæðu ákærðu og verður tekið tillit til hættueiginleika efnisins við ákvörðun refsingar. Þá verður það metið ákærðu til refsiþyngingar að um samverknað var að ræða.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Y hefur honum átta sinnum verið gerð refsing frá árinu 2010 fyrir ýmis umferðarlagabrot, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og áfengislögum. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann áður en hann gekkst undir sátt þann [...]. febrúar 2012 vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá hefur ákærða fimm sinnum verið gerð refsing eftir það. Fyrri brot ákærða hafa ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Verður ákærða því gerð refsing eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Brotavilji ákærða var einbeittur og reyndi hann að hylja slóð sína. Þá hefur ákærði ekki verið samvinnufús við rannsókn málsins, sem verður að meta honum til refsiþyngingar. Þá telur dómurinn sannað að ákærði Y hafi haft vitneskju um að meðákærði kæmi með e-töflur til landsins með vísan til framburðar vitna hjá lögreglu sem dómurinn telur áreiðanlegan en framburður þeirra fyrir dómi var á reiki og báru vitnin við löngum tíma sem frá var liðinn. Með hliðsjón af magni og styrkleika þeirra fíkniefna sem ákærði kom með til landsins og með hliðsjón af því að hann hefur neitað að gefa upp samverkamenn, sem metið er ákærða til refsiþyngingar, og því að sannað þykir að ákærði hafi í það minnsta sinnt fyrirmælum um að aðstoða meðákærða X við að koma fíkniefnunum til landsins, ásamt dómaframkvæmd, ungum aldri ákærða þegar brotið átti sér stað og þeim drætti sem orðið hefur á málinu og ákærða verður ekki kennt um og metið verður honum til refsilækkunar, þar sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex ár. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 7. september til 21. nóvember 2011 skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.
Ákærði X var tæplega átján ára þegar hann framdi brotið. Ákærði hafði áður farið út í þeim tilgangi að koma með fíkniefni til landsins en sú ferð misheppnaðist. Þá er brotavilji ákærða einbeittur. Ákærða hafði ekki áður verið gerð refsing þegar hann framdi brot það sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Eftir þann tíma hefur ákærða þrisvar verið gerð refsing vegna umferðarlagabrota. Ákærði gekkst undir sekt þann [...]. október 2012 vegna fíkniefnaaksturs og var gerð sekt og sviptur ökurétti. Verður ákærða nú gerður hegningarauki við þá refsingu samkvæmt reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til þess magns sem ákærði flutti til landsins og þess að honum mátti vera ljóst áður en hann fór með töskuna frá [...] að það væri miklu meira af fíkniefnum í henni en eitt kíló af kókaíni en taskan vó 20,67 kíló tóm. Mátti ákærða því vera fullljóst að hann var með miklu meira magn en eitt kíló af fíkniefnum í töskunni. Þrátt fyrir það fór ákærði með töskuna til Íslands. Ber ákærði X ábyrgð á því.
Með hliðsjón af magni, hættueiginleika og styrkleika þeirra fíkniefna sem ákærði kom með til landsins og með hliðsjón af því að hann hefur neitað að gefa upp samverkamenn, sem metið er ákærða til refsiþyngingar, og því að sannað þykir að ákærði hafi verið svokallað burðardýr, ásamt dómaframkvæmd, ungum aldri ákærða þegar brotið átti sér stað og þeim drætti sem orðið hefur á málinu og ákærða verður ekki kennt um og metið verður honum til refsilækkunar, þar sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex ár. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 24. ágúst til 16. nóvember 2011 skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.
Að þessum niðurstöðum fengnum og með vísan til 2. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008 verða ákærðu dæmdir in solidum til að greiða allan sakarkostnað sem er samkvæmt yfirliti 562.924 krónur. Þá verður ákærði X dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Árnasonar hdl., 753.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði Y greiði verjanda sínum, Sigurði Sigurjónssyni hrl., málsvarnarlaun að fjárhæð 753.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærðu sæti einnig upptöku efna eins og greinir í dómsorði.
Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans. Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 við uppkvaðningu dómsins.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði X skal sæta fangelsi í sex ár. Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 24. ágúst til 16. nóvember 2011, skal koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu.
Ákærði Y skal sæta fangelsi í sex ár. Gæsluvarðhald, er ákærði sætti frá 7. september til 22. nóvember 2011, skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærðu sæti báðir upptöku á 30.225 töflum með fíkniefninu MDMA (ecstacy), 1.756,08 g af staðdeyfilyfinu Lídókaín og 2.951,35 g af alkóhólsykri.
Ákærði Y sæti upptöku á 1,6 g af amfetamíni og einni töflu af MDMA (ecstacy).
Ákærðu greiði in solidum sakarkostnað, samtals 562.924 krónur.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Árnasonar hdl., 753.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 753.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.