Hæstiréttur íslands

Mál nr. 2/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Gjaldþrotaskipti


                                                                                              

Þriðjudaginn 17. janúar 2012.

Nr. 2/2012.

FI fjárfestingar ehf.

(Gísli Hall hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Kærumál. Aðför. Gjaldþrotaskipti.

Bankinn G hf. fór fram á að bú F ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms. F ehf. taldi að ekki mætti verða við kröfu G hf. þar sem skilyrðum laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 6. tölulið 3. mgr. 21. gr. og 3. mgr. 24. gr., hefði ekki verið fullnægt. Héraðsdómur féllst ekki á þau rök, meðal annars með vísan til leiðrétts endurrits gerðarbókar sýslumanns, og kvað upp úrskurð um að bú F ehf. skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Í dómi Hæstaréttar sagði að fjárnámið hefði verið viðhlítandi grundvöllur kröfu G hf. um töku bús F ehf. til gjaldþrotaskipta samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. svo sem ákvæðinu var breytt með 17. gr. laga nr. 95/2010. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2011, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í l. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt ljósrit af gerðarbók sýslumanns. Af því og öðrum gögnum málsins er fram komið að umþrætt fjárnám fór fram á starfstöð sóknaraðila að Faxafeni 12, Reykjavík í samræmi við ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og var því lokið án árangurs að kröfu varnaraðila samkvæmt 3. tölulið 62. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 95/2010. Var fjárnám þetta viðhlítandi grundvöllur kröfu varnaraðila um töku bús sóknaraðila til gjaldþrotaskipta samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 svo sem henni var breytt með 17. gr. laga nr. 95/2010. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2011.

Sóknaraðili, Glitnir banki hf., kt. 550500-3530, Kirkjusandi 2, Reykjavík, krafðist þess með bréfi sem barst dóminum 7. júlí 2011, að bú varnaraðila, FI fjárfestinga ehf., kt. 640398-2489, Faxafeni 12, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Er ágreiningsmál þetta var flutt krafðist hann einnig málskostnaðar. 

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sér verði úrskurðaður málskostnaður. 

Krafa sóknaraðila var tekin fyrir í dómi 2. nóvember sl.  Komu þá fram mótmæli og var ágreiningsmál þetta tekið til úrskurðar 5. desember sl. 

Í gjaldþrotabeiðni segir að varnaraðili skuldi sóknaraðila samtals 6.026.617.846 krónur.  Skuldin hafi verið viðurkennd með dómi héraðsdóms 8. febrúar 2011. 

Reynt var fjárnám hjá varnaraðila.  Frammi liggur endurrit fjárnámsgerðar er gerð var 30. júní 2011.  Þar segir:  „Ekki hefur tekist að boða fyrirsvarsmann [varnaraðila] til gerðarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  Fyrirsvarsmaður [varnaraðila] hittist ekki fyrir á lögheimili [varnaraðila] nokkur annar sem málstað hans getur tekið.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem fulltrúi sýslumanns hefur fengið er fyrirsvarsmaður [varnaraðila] óþekktur í húsinu.  Fyrirsvarsmaður [varnaraðila] í þjóðskrá skráður í Bretlandi.  [Sóknaraðili] segist ekkert vita um lögheimili fyrirsvarsmanns.  Skilyrðum 2. gr. laga nr. 90/1989 er fullnægt til að gerðin fari fram, þótt ekki sé mætt fyrir [varnaraðila].  [Sóknaraðila] er ekki kunnugt um að [varnaraðili] sé skráður fyrir neinum eignum sem tryggt geta kröfu [sóknaraðila] þrátt fyrir ítarlega eignakönnun.  Að kröfu [sóknaraðila] er fjárnámi lokið án árangurs …“ 

Í endurriti fjárnámsins, sem fylgdi beiðni sóknaraðila, stóð að málið hefði verið tekið fyrir á skrifstofu sýslumanns að Skógarhlíð 6.  Við upphaf aðalmeðferðar lagði sóknaraðili fram endurrit þar sem þetta er leiðrétt.  Segir að málið hafi verið tekið fyrir að Faxafeni 12 í Reykjavík. 

Varnaraðili bendir í fyrsta lagi á að stuttur tími hafi liðið frá því að dómur var kveðinn upp í héraðsdómi og þar til fjárnámi var lokið, en dómurinn var kveðinn upp 8. febrúar 2011, en fjárnáminu lokið 30. júní.  Þetta bendi ótvírætt til þess að ferli laganna um upphafsaðgerðir við fjárnám, fyrirtöku, birtingu, frestun, lögregluboðun o.s.frv. hafi ekki verið fylgt.  Segir hann að skiptum verði ekki fram komið á grundvelli ólögmætra aðfarargerða. 

Varnaraðili segir að endurrit úr gerðarbók vísi ekki til 21. gr. aðfararlaga.  Þannig sé ekki tekinn af vafi um það hvort gerðinni hafi verið lokið án tilkynningar samkvæmt undantekningarreglu 6. tl. 3. mgr. 21. gr.  Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila.  Þá tekur varnaraðili fram að ekki hafi verið skilyrði til að ljúka gerðinni án tilkynningar. 

Varnaraðili segir að þegar gerð hefjist án tilkynningar séu ekki skilyrði til að hefja gerðina annars staðar en á skráðu heimili gerðarþola.  Því hafi verið óheimilt að hefja gerðina á skrifstofu sýslumanns.  Ósannað sé að reynt hafi verið að hefja gerðina annars staðar en á skrifstofu sýslumanns.  Er sóknaraðili lagði fram leiðrétt endurrit gerðarinnar við upphaf aðalmeðferðar mótmælti varnaraðili því sem ósönnuðu og of seint fram komnu.  Þá hefði fulltrúi sóknaraðila verið við gerðina og staðfest með undirritun sinni að hún hefði hafist og henni verið lokið á skrifstofu sýslumanns. 

Varnaraðili byggir á 3. mgr. 24. gr. aðfararlaga.  Ekki hafi verið reynt að fresta gerðinni áður en henni var lokið sem árangurslausri, án þess að varnaraðili kæmi nærri.  Ekki hafi verið reynd lögregluboðun.  Ekki hafi verið gerðar nægar tilraunir til að birta varnaraðila fyrirkall.  Þá hafi varnaraðili haft skráð heimili hér á landi.  Því hafi ekki verið skilyrði til að ljúka gerðinni sem árangurslausri að varnaraðila fjarverandi. 

Niðurstaða

Eins og áður segir lagði sóknaraðili fram við upphaf aðalmeðferðar leiðrétt endurrit úr gerðabók sýslumanns.  Þetta skjal var ekki lagt fram of seint og dugar sem staðfesting þess að umrædd fjárnámsgerð hafi farið fram að Faxafeni 12 í Reykjavík, á lögheimili varnaraðila. 

Fram kemur í endurriti að reynt hafði verið ítrekað að boða varnaraðila til gerðarinnar.  Þá er skýrt af bókun að reynt var að ná til fyrirsvarsmanna varnaraðila á lögheimili félagsins, en árangurslaust.  Við svo búið var heimilt að ljúka gerðinni sem árangurslausri, en varnaraðili hefur ekki bent á eignir er sóknaraðila hafi verið kunnugt um og dugað hefðu til lúkningar kröfum hans.  Þá er ósannað að framkvæmd gerðarinnar hafi verið í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 89/1989. 

Að þessu virtu er fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.  Verður bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. 

Hæfilegt er að varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Að kröfu sóknaraðila, Glitnis banka hf., er bú varnaraðila, FI fjárfestinga ehf., tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.