Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2007
Lykilorð
- Skuldamál
- Áfrýjunarstefna
- Kröfugerð
- Afdráttarlaus málflutningur
- Áskorun
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2007. |
|
Nr. 93/2007. |
Jökull Tómasson og Kathy Clark (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Sigurði Hilmari Ólasyni (Jón Gunnar Zoëga hrl.) |
Skuldamál. Áfrýjunarstefna. Kröfugerð. Afdráttarlaus málflutningur. Áskorun.
S krafði J og K um greiðslu níu reikninga vegna viðgerða og endurbóta á húsnæði þeirra. Talið var ljóst að aðilar hefðu ekki samið sérstaklega um hvernig greitt skyldi fyrir verkið, en að S ætti rétt á að fá greitt fyrir það samkvæmt reikningi. Þeir reikningar sem S byggði á voru almennt taldir trúverðugir, en ekki var fallist á að hann ætti rétt á greiðslu reiknings vegna umsjónar með verkinu og var fjárhæð tveggja reikninga lækkuð. Fyrir Hæstarétti kröfðust J og K þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, en í héraði hafði þeirri kröfu verið synjað með úrskurði. Þar sem málskot fyrir Hæstarétti hafði ekki beinst sérstaklega að úrskurðinum kom þessi krafa ekki til skoðunar, en sem endranær gætti rétturinn að því að á málinu væru ekki annmarkar sem ættu að valda frávísun þess frá héraðsdómi án kröfu. Talið var að athugasemd J og K, sem kom fram við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti, um að ekki hefðu verið lögð fram fullnægjandi gögn um vinnuliði í reikningum S væri of seint fram komin. Héraðsdómur var staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2007. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfum stefnda. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í greinargerð sinni í héraði kröfðust áfrýjendur aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi. Í samræmi við 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tók héraðsdómari þessa kröfu sérstaklega til úrlausnar. Að loknum munnlegum málflutningi kvað hann upp úrskurð 27. júní 2006, þar sem kröfunni var hafnað. Í áfrýjunarstefnu er þess ekki getið sérstaklega að þessum úrskurði sé skotið til Hæstaréttar jafnhliða hinum áfrýjaða dómi, en hins vegar er þar á ný gerð aðalkrafan, svo sem að framan greinir, um frávísun málsins frá héraðsdómi. Til þess að geta fyrir Hæstarétti krafist endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms um synjun á frávísun máls verður málskot að beinast sérstaklega að slíkum úrskurði. Sú er ekki raunin hér og kemur aðalkrafa áfrýjenda því ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að rétturinn gætir að því sem endranær, hvort á máli séu annmarkar sem eigi að valda frávísun þess frá héraðsdómi án kröfu.
Við þingfestingu málsins í héraði lagði stefndi fram níu reikninga dagsetta 1. febrúar 2005 sem hann sagði kröfur sínar byggjast á. Í greinargerð áfrýjenda í héraði var skorað á stefnda að leggja fram þá reikninga, sem kröfur hans „um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, sbr. reikninga ... á framlögðum dómskjölum númer ..., byggjast á“, og var þar vísað til reikninganna sem stefndi hafði lagt fram við þingfestinguna. Stefndi varð við þessu með því að leggja fram ýmsa bakreikninga þessara reikninga við fyrirtöku málsins 3. október 2006. Var þá bókað að lögð væri fram „umbeðin sundurliðun“. Í hinum áfrýjaða dómi er farið yfir þessi skjöl við mat á réttmæti reikningsgerðar stefnda og málið dæmt á grundvelli þeirra. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti gerðu áfrýjendur athugasemd um að ekki hefðu við framlagninguna 3. október 2006 verið lögð fram fullnægjandi gögn um vinnuliði í reikningum stefnda, og töldu þau að ekki nyti í málinu nægilegra upplýsinga um grundvöll þessara kröfuliða til að á þá yrði lagður dómur. Með fyrrgreindri bókun 3. október 2006 var ljóst að stefndi taldi sig þá verða við áskorun áfrýjenda um öflun gagna. Var brýnt að áfrýjendur gerðu í framhaldinu athugasemd ef þau töldu að svo væri ekki, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, til að stefnda gæfist þá tækifæri til þess að bæta úr því sem þau töldu að á vantaði. Nefnd athugasemd fyrir Hæstarétti telst því of seint fram komin og verður henni ekki sinnt frekar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Jökull Tómasson og Kathy Clark, greiði stefnda, Sigurði Hilmari Ólasyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 25. október sl., höfðaði Sigurður Ólason vegna einkafyrirtækis sín, Vatnslagna, Álfheimum 32, Reykjavík gegn Kathy Clark og Jökli Tómassyni, báðum til heimilis að Bergstaðastræti 3, Reykjavík með stefnu birtri 3. mars 2006.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að greiða honum skuld að fjárhæð kr. 6.824.838 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð kr. 5.500.000, svo og málskostnað.
Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar.
Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Hinn 27. júní sl. var kveðinn upp úrskurður í málinu og frávísunarkröfu stefndu hafnað.
II
Fyrirtækið Vatnslagnir er einkafyrirtæki Sigurðar Ólasonar og hann því stefnandi málsins.
Málavextir eru í stuttu máli eftirfarandi samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins og skýrslum stefnanda og stefnda, Jökuls, fyrir dómi.
Með kaupsamningi, dags. 9. nóvember 2004, seldi stefnandi stefndu húseignina Bergstaðastræti 3 í Reykjavík en eignina fengu stefndu fyrr til afnota eða 1. sama mánaðar. Ekki kemur fram í gögnum málsins að séð verði hvenær hús þetta var byggt, en ljóst má telja að um er að ræða gamalt hús. Húsið skiptist í framhús og bakhús. Viðgerðir á bakhúsinu tók stefnandi að sér samkvæmt verksamningi sem dagsettur er sama dag og kaupsamningurinn. Ekki er deilt um þann samning í þessu máli. Stefnandi mun hafa verið byrjaður á viðgerðum og endurbótum á framhúsinu áður en hann seldi stefndu, en þær framkvæmdir koma hér ekki við sögu. Það er sammæli stefnanda og stefnda, Jökuls, að þeir hafi gert samkomulag um að stefnandi héldi áfram viðgerðum og endurbótum á húsinu sem miðuðu að því að innrétta eina íbúð á fyrstu hæð hússins og aðra íbúð á annarri hæð og risi þar sem stefndu ætluðu sjálf að búa. Stefnandi kvaðst hafa talið að húsið þyrfti ekki svo mikilla lagfæringa við en stefndu hefðu krafist æ meiri endurbóta og á endanum hafi verið búið að rífa allt innan úr húsinu. Óumdeilt er að stefnandi lauk ekki að fullu viðgerðum og endurbótum á húsinu og að það hafi verið að ósk stefndu.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á 9 reikningum fyrir vinnu og efnisútvegun að Bergstaðastræti 3. Reikningarnir eru allir gefnir út 1. febrúar 2005 með gjalddaga sama dag og eru þessir:
|
nr. 39 |
kr. |
1.788.713 |
|
nr. 40 |
kr. |
464.600 |
|
nr. 41 |
kr. |
385.000 |
|
nr. 42 |
kr. |
1.363.695 |
|
nr.43 |
kr. |
1.399.464 |
|
nr. 44 |
kr. |
103.500 |
|
nr. 45 |
kr. |
40.000 |
|
nr. 46 |
kr. |
323.700 |
|
nr.47 |
kr. |
956.166 |
|
Samtals kr. |
6.824.838 |
|
í stefnu er gerð grein fyrir því að inn á reikningsskuldina hafi verið greiddar hinn 17. nóvember 2004 kr. 1.500.000, 1. desember s.á. kr. 1.500.000 og 3. mars 2005 kr. 2.500.000 eða samtals kr. 5.500.000. Til stuðnings framangreindum reikningum hefur stefnandi lagt fram reikninga eða handritaðar skýringar, sem eiga að sýna hvernig fjárhæðir þeirra eru fundnar, við hvað var unnið og hvað var keypt til verksins.
Reikningur nr. 39 er studdur 11 reikningum fyrir raflagnaefni og raflagnavinnu og eru fjórir þeirra ljóslega frá fyrirtækinu Rafstuði ehf. Nema þeir samtals kr. 1.474.098 í stað 1.555.403 auk 15% álagningar verktaka, kr. 221.114,70, eða samtals kr. 1.695.212. Fylgireikningarnir eru því kr. 93.501 lægri en útgefinn reikningur stefnanda.
Reikningur nr. 40, kr. 464.000, er studdur reikningi frá Vatni ehf. kr. 403.993. Þá er 15% álagning verktaka reiknuð kr. 60.600 og nema því fjárhæðirnar tvær samtals kr. 464.593 eða hærri fjárhæð en reikningur stefnanda.
Reikningur nr. 41, kr. 385.000, er fyrir leigu á gámum hjá íslenska gámafélaginu, kr. 335.000 og álagning verktaka kr. 50.250. Fylgireikningar eru tveir. Annar kr. 162.334, þegar kr. 6.672 afsláttur hefur verið dreginn frá, og kr. 59.033 eða samtals kr. 221.367. Sé reiknað 15% álag á þessar fjárhæðir verður þessi kröfuliður kr. 254.572 og því kr. 130.428 lægri en útgefinn reikningur stefhanda.
Reikningur nr. 42, kr. 1.363.695, er studdur handritaðri lýsingu stefnanda á efniskaupum og vinnu. Einn reikningur frá IKEA fylgir að fjárhæð kr.71.595.
Reikningur nr. 43, kr. 1.399.464, er studdur svipaðri lýsingu og á reikningi nr. 42. Þar er og endurbótunum lýst í stórum dráttum og sagt, þegar flestir störfuðu að þeim, hafi það verið tveir pípulagningamenn, tveir rafvirkjar, fimm smiðir, 2 málarar og einn sendill.
Reikningur nr. 44, kr. 103.500, er studdur fjórum reikningum fyrir akstur sendi- og vörubifreiða sem nema samtals kr. 91.700 eða hærri fjárhæð en útgefinn reikningur stefhanda, þegar frá er dregin 15% álagning, kr. 13.500.
Reikningur nr. 45, kr. 40.000, fyrir tækjaleigu er studdur jafnháum reikningi.
Reikningur nr. 46, kr. 323.700, er fyrir umsjónarkostnaði stefnanda. Engin tímaskýrsla eða undirgögn fylgja þeim reikningi.
Reikningur nr. 47, kr. 956.166 (efni kr. 831.449 og 15% álagning kr. 124.717), styðst við handritað blað yfir efniskaup og einn reikning fyrir tvær hurðir, kr. 94.000.
Samkvæmt framangreindri lýsingu er ekki að finna í gögnum málsins fylgireikninga eða lýsingu með útgefnum reikningum stefhanda, nr. 39 og 41, sem sýni að fullu hvernig fjárhæð þeirra er fundin. Munar þannig kr. 93.501 á reikningi nr. 39 og kr. 130.428 á reikningi nr. 41 eða samtals kr. 223.929. Þá fylgja ekki undirgögn reikningi fyrir umsjónarkostnað sem er að fjárhæð kr. 323.700.
Stefnandi heflir lagt fram vottorð verkfræðistofunnar Línuhönnunar, dags. 13. september 2006, þar sem fram kemur að reynsla fyrirtækisins sé sú að hefðbundið sé og almennt tíðkað „að álag aðalverktaka er á bilinu 10-18%, algengast 12-15%. Álag þetta á m.a. að „dekka" kostnað aðalverktaka við samninga við undirverktaka, samskipti við verkkaupa, hlutdeild undirverktaka í sameiginlegri aðstöðu verkstaðar, fjárhagslega umsýslu verksins, ábyrgð aðalverktaka o.fl."
Þá hefur stefnandi og lagt fram ódagsett vottorð frá Meistarafélagi húsasmiða sem ber yfirskriftina „Verðskrá húsasmiða." í þessu vottorði segir orðrétt:
„Eins og nafnið bendir til er um að ræða verðskrá sem mælir vinnu húsasmiða. Ofan á sveinamælingu bætist við þóknun til húsasmíðameistarans, aðilans sem ber ábyrgð á verkinu. Þóknun (meistaraálag) er algengt 18%."
IV
Stefnandi lýsti því fyrir dómi að þeir stefndi, Jökull, hefðu ekki samið sérstaklega um greiðslu fyrir verkið en hann hafi gert ráð fyrir því að greitt yrði samkvæmt útseldri vinnu iðnaðarmanna. Á þeim forsendum hefði hann tekið verkið að sér. Greiða hafi átt í áföngum sem og hafi verið gert. Á verkinu kvaðst stefnandi hafa byrjað í október. Hinn 22. nóvember 2004 hafi hann gert stefndu grein fyrir greiðslustöðunni, afhent þeim lýsingu á stöðu verksins og sundurliðaða greiðslustöðu. Þá hafi kostnaðurinn numið kr. 5.639.059. Greiðslurnar sem stefndu hafi innt af hendi 17. nóvember og 1. desember hafi verið greiðslur inn á verkið, en ekki vegna einstakra þátta þess. Stefndu hafi að fengnum þessum upplýsingum óskað eftir því að hann yfirgæfi húsið þegar í stað vegna þess að kostnaður hafi þá verið orðinn mun meiri en þau hafi haldið að hann yrði. Stefnandi kvaðst hafa reynt að gera stefndu grein fyrir kostnaðinum sem þau hafi ekki tekið mark á. Vinnu við framhúsið hafi hann hætt tveimur dögum síðar. Stefnandi kvaðst ekki kannast við að talað hafi verið um að verkið myndi kosta 2 milljónir. Stefnandi sagði ekki hafa verið samið um að greitt yrði 15% álag á vinnu- og efniskostnað. Hann hafi lagt út fé fyrir framkvæmdinni og eðlilegt teljist að fyrir það sé tekið 15% álag eins og hann hafi gert. Stefnandi kvað bæði starfsmenn sína og verktaka hafa unnið við framhúsið, en hann hefði ekki gert sérstaka verksamninga við þá. Hins vegar hafi starfsmenn sínir, Davíð og Lárus, verið á verktakalaunum, þ.e. þeir hafi sjálfir greitt launatengd gjöld.
Reikning nr. 46, kr. 323.700, sagði stefnandi vera fyrir vinnulaunum sínum í einn mánuð og kynni það að vera ranglega orðað að segja þennan reikning fyrir umsjónarkostnaði.
Stefnandi sagði um reikning nr. 39, sem er fyrir raflagnaefni og vinnu, að hann kynni ekki aðra skýringu á því, að reikningurinn er kr. 93.501 hærri en undirgögnin sýna, en þá að reikningur frá rafvirkja hefði ekki skilað sér til lögmanns síns. Hann hefði fengið endurútprentaða reikninga frá rafvirkjanum og væntanlega
hefði einn reikning vantað. Þann reikning hefði hann haft undir höndum þegar hann samdi umræddan reikning.
Um reikning nr. 41, kr. 385.00 fyrir gámaleigu, gegndi sama máli. Einn reikningur frá gámafélaginu hefði fallið niður, en þann reikning hefði hann haft sjálfur þegar hann samdi reikninginn.
Stefnandi kvaðst hafa sent stefndu umkrafða reikninga áður en hann hafi fengið þá lögfræðingi til innheimtu, en hann hefði átt miklar og flóknar viðræður við stefndu um reikningana og uppgjörshætti á þeim.
Stefndi Jökull kvaðst hafa fengið húsasmíðameistara til þess að skoða framhúsið að Bergstaðastræti 3 og hafi hann talið að endurbætur á því myndu kosta um fimm milljónir. Stefnandi hafi verið byrjaður á endurbótum á húsinu og talið sig geta framkvæmt endurbæturnar fyrir lægra verð, eða um tvær milljónir. Ekki hafi verið gerður verktakasamningur um framhúsið, sem stefndi sagði sig alltaf hafa beðið eftir að yrði gerður, og það ástand hafi haldið allt of lengi áfram. Þegar stefnandi hafi gert sér grein fyrir því 22. nóvember, en þeir hafi hist daglega, hvað verkið þá kostaði, sem hann hafi ekki fengið á blaði, þá hafi kostnaðurinn verið kominn 150% fram úr áætluninni, 2 milljónir, eða upp í fimm milljónir. Þá kvaðst stefndi hafa beðið stefhanda að hætta vinnu við framhúsið. Stefndi kvaðst hafa litið á vinnu stefhanda sem verktakavinnu. Ekkert hafi verið talað um 15% álag á vinnu. Stefndi kvaðst iðulega hafa leitað eftir því við stefhanda að fá reikninga frá honum en ekki fengið. Umstefnda reikninga kvaðst stefndi fyrst hafa séð hjá lögmanni sínum.
IV
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ekki sé fyllilega ljóst um hvaða greiðslur aðilar málsins fyrir viðgerðir og endurbætur á framhúsinu að Bergstaðastræti 3 hafi samið. Stefnandi mótmæli því alfarið að hafa tekið að sér verkið fyrir 2 milljónir og sé engum sönnunum fyrir því til að dreifa. Stefndi hafi viðurkennt að sér hafi verið gerð grein fyrir því í nóvember 2004 að kostnaður við verkið hafi þá numið rúmum 5 milljónum króna, en það hafi verið sú fjárhæð sem trúnaðarmaður stefndu hafi talið að verkið myndi kosta. Á þeim tíma hafi endanleg reikningsgerð ekki verið hafin, en í ljós hafi komið að kostnaður við verkið hafi numið stefnufjárhæðinni. Þessa reikninga haldi stefnandi fram að hann hafi afhent stefnda áður en til málsóknarinnar hafi komið og hafi stefndi neitað að greiða þá. Reikningar stefnanda séu trúverðugir og í flestum tilvikum séu þeir studdir undirgögnum. Reikningana beri því að leggja til grundvallar og miða dóm í málinu við fjárhæð þeirra. Hafa beri í huga að stefndu hafi greitt stefhanda kr. 2,5 milljónir eftir að málsókn þessi hafi byrjað. Reikningur nr. 45 fyrir tækjaleigu sé ekki studdur undirgögnum af þeim sökum að stefnandi eigi sjálfur tækin sem þar sé um að ræða.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að reikningsgerð stefnanda sé ótrúverðug. Allir reikningar séu gefnir út sama dag, þ.e. 1. febr. 2005, og því löngu eftir að stefnandi hafi lokið vinnu sinni við framhúsið fyrir stefndu. Þessa reikninga hafi stefndu aldrei fengið að sjá fyrir málsóknina. Þessi aðferð stefnanda brjóti í bága við 2. mgr. 6. gr., 8. og 29. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup.
Því sé alfarið mótmælt af hálfu stefndu að samið hafi verið um eða stefnandi eigi rétt á því að leggja 15% álag á umkrafða reikninga, en reiknað álag stefnanda nemi samtals kr. 810.730. Hann eigi heldur ekki rétt á því að fá greitt sérstaklega fyrir umsjónarkostnað, kr. 323.700, eins og hann geri reikning fyrir.
Þá sé reikningur fyrir raflagnavinnu, nr. 39, ekki studdur viðunandi undirgögnum nema að hluta og muni þar um kr. 93.501.
Sama máli gegni um reikning nr. 41 fyrir gámaleigu, reikningur stefhanda sé kr. 130.428 hærri en undirgögn sýni.
Reikningur nr. 45 fyrir tækjaleigu, að fjárhæð kr. 40.000, sé ekki studdur neinum undirgögnum.
Fjárhæðir þeirra reikningsliða sem stefndu mótmæli sérstaklega að þau eigi að greiða stefnanda nemi þannig samtals kr. 1.398.359. Mismunur á umkröfðum reikningum stefhanda og innborgunum nemi kr. 1.324.838 og sé það því í raun stefnandi sem skuldi stefndu. Eigi þannig að sýkna stefndu af öllum kröfum stefhanda.
Stefndu mótmæla sérstaklega að stefnandi eigi rétt á því að fá virðisaukaskatt dæmdan af málskostnaði og ekki eigi hann rétt á að fá tildæmda dráttarvexti frá þeim tíma sem krafa hans nái til.
V
Telja verður í ljós leitt að aðilar máls þessa hafi ekki samið sérstaklega um það hvernig greitt skyldi fyrir það verk sem aðilar eru þó sammála um að stefnandi hafi tekið að sér að vinna fyrir stefndu, þ.e. viðgerðir og endurbætur á framhúsinu að Bergstaðastræti 3 í Reykjavík. Það er þó ljóst að stefnandi tók verkið ekki að sér í verktöku, eins og raunin var um framkvæmdir við svokallað bakhús, og ósannað er að stefnandi hafi fallist á að vinna verkið fyrir kr. 2.000.000. Ekki er deilt um það að stefnandi stóð straum af þeim kostnaði sem samfara var því verki sem hann vann, en sú vinna stóð frá því seint í október til 24. nóvember 2004 eftir því sem helst er upplýst. Óumdeilt er að stefndu óskuðu eftir því 22. nóvember 2004 að stefnandi hætti vinnu við húsið, hvað hann og gerði. Því er ekki haldið fram að sú vinna sem stefnandi lagði til verksins hafi ekki verið faglega unnin og engar gagnkröfur gerðar af hálfu stefndu. Þegar svo háttar til, eins og að framan hefur verið lýst, verður að byggja á því að stefnandi eigi rétt á því að fá greitt fyrir verkið samkvæmt reikningi. Þeir reikningar sem stefnandi byggir kröfur sínar á verður að telja trúverðuga almennt séð þegar haft er í huga hvert verkið var sem hann vann. Þó verður að taka tillit til þess að stefndu hafa mótmælt reikningunum í einstökum atriðum og verður hér á eftir gerð grein fyrir því að hve miklu leyti mótmæli þeirra verða tekin til greina.
Stefndu hafa mótmælt því að stefnandi eigi rétt á því að leggja á reikninga sína 15% álag, sem á reikningunum er kallað álag verktaka, en um það hafi ekki verið samið. Að því er varðar þetta atriði þá er rétt að ekki var um það samið á milli aðila. Hins vegar verður að telja upplýst að stefnanda var nauðsynlegt að ráða menn til að vinna verkið og hlaut hann að hafa umsjón með vinnu þeirra. Auk þess þurfti að afla efnis og að sjá um annað það sem nauðsynlegt er samfara verki af þessu tagi. Þetta mátti stefndu vera ljóst. Þá hefur stefnandi lagt fram gögn sem þykja sýna að álag af þessu tagi sé tíðkanlegt við verk af þessu tagi. Þykir samkvæmt þessu rétt að taka til greina það álag á reikningana sem stefnandi hefur áskilið sér. Að mati dómsins hefur stefnandi hins vegar ekki sýnt fram á það, gegn mótmælum stefndu, að hann geti jafnframt óumsamið reiknað sér sérstaka þóknun fyrir umsjón með verkinu. Stefnandi hefur heldur ekki sýnt fram á hvernig sú þóknun sé fundin, nema þá helst með því að kalla hana vinnulaun sín. Þykir því ekki unnt að taka reikning stefnanda fyrir umsjónarkostnað til greina.
Eins og fyrr greinir er reikningur nr. 39, fyrir raflagnaefni og raflagnavinnu, kr. 1.555.403 auk 15% álags, kr. 233.310. Sá reikningur þykir nægjanlega studdur fylgireikningum nema að því leyti að fylgireikning vantar fyrir kr. 81.305. Þykir því verða að taka þann reikning til greina með kr. 1.474.098 í stað kr. 1.555.403. Álagning
verktaka á þá fjárhæð, 15%, nemur kr. 221.115. Reikningur þessi verður því tekinn til greina. 1.695.213.
Reikningur nr. 41, kr. 385.000, er fyrir leigu á gámum hjá íslenska gámafélaginu, kr. 335.000, og álagning verktaka kr. 50.250 eða samtals kr. 385.000. Fylgireikningar eru tveir. Annar er kr. 162.334, þegar 6.672 króna afsláttur hefur verið dreginn frá, og hinn er kr. 59.033 eða samtals kr. 221.367. Hefur stefnandi ekki gefið nægjanlega skýringu á þessum mun. Þykir því ekki unnt að taka þennan reikning til greina með hærri fjárhæð en kr. 221.367 að við bættu 15% álagi, kr. 33.205, eða samtals kr. 254.572.
Að öðru leyti en að framan segir verða reikningar stefhanda teknir til greina og er þannig samanlögð fjárhæð þeirra kr. 6.277.210. Stefnandi segir í stefnu að hann hafi fengið greiddar kr. 5.500.000 frá stefnu vegna þessa verks. Eiga því stefndu ógreiddar kr. 772.210.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af stefnukröfu frá útgáfudegi reikninganna 1. febrúar 2005 til greiðsludags og er þeirri kröfu mótmælt af stefndu. í málinu er umdeilt hvort og þá hvenær stefndu fengu reikninga stefhanda í hendur þannig að ljóst væri hverjar kröfur hann gerði. Gegn mótmælum stefndu þykir stefnandi ekki hafa sannað með nægjanlegum hætti að hann hafi krafið stefndu um reikninga fyrr en með tilstuðlan lögmanns. I málinu hefur ekki verið lagt fram innheimtubréf lögmanns og ekki er því lýst að slíkt bréf hafi verið sent. Stefna málsins er birt stefndu 3. mars 2006. Þykir rétt með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 að stefndu greiði dráttarvexti af tildæmdri fjárhæð frá 3. apríl 2006.
Málskostnaður, sem stefndu greiði stefhanda, þykir hæfilega ákveðinn kr. 300.000.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð.
Stefndu, Jökull Tómasson og Kathy Clark, greiði in solidum stefnanda, Sigurði Ólasyni, kr. 772.210 með dráttarvöxtum frá 3. apríl 2006 til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.