Hæstiréttur íslands
Mál nr. 164/2006
Lykilorð
- Líkamsárás
- Fíkniefnalagabrot
|
|
Fimmtudaginn 18. janúar 2007. |
|
Nr. 164/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Júlíusi Sverri Sverrissyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás. Fíkniefnalagabrot.
J var sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir og vörðuðu tvær þeirra við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en hin þriðja við 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Með vísan til 8. töluliðar 74. gr. og með hliðsjón af 75. gr. almennra hegningarlaga, svo og með vísan til forsendna héraðsdóms fyrir refsingu J að öðru leyti, þótti mega ákveða refsingu hans fangelsi í níu mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd. Fallið er frá kröfu um greiðslu skaðabóta til C þar sem ákærði hefur gert hana upp.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Hann krefst þess til vara að sakargiftum samkvæmt I. og II. kafla ákæru verði vísað frá héraðsdómi en að hann verði ella sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til þrautavara, að refsing hans verði milduð.
Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ekki er tilefni til að hnekkja mati héraðsdóms að þessu leyti. Kröfu ákærða er því hafnað.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi voru brot ákærða gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 framin í júlí, október og desember 2004. Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum II. og III. voru bæði framin að morgni sunnudags í íbúð fyrrum sambúðarkonu hans og barnsmóður. Hún var brotaþoli í því fyrra en nefndur C í því síðara. Í báðum tilvikum kom ákærði á heimili stúlkunnar en þá voru þar fyrir í svefnherbergi sinn hvor maðurinn. Viðbrögð ákærða við þessu voru mikil afbrýðisemi, heift og reiði og bar stúlkan fyrir dómi að hún hafi alveg skilið það. Eftir uppsögu héraðsdóms náði ákærði sáttum við brotaþolann C og hefur verið lögð fyrir Hæstarétt yfirlýsing hans um að þeir ákærði hafi sæst vegna átaka þeirra 12. desember 2004 og ákærði gert upp bætur vegna tjóns hans. Þegar til þessa er litið þykir með vísan til 8. töluliðar 74. gr. og hliðsjón af 75. gr. almennra hegningarlaga og þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn þeim lögum, svo og með vísan til forsendna héraðsdóms fyrir refsingu ákærða að öðru leyti, mega ákveða refsingu hans fangelsi í níu mánuði. Ekki þykir unnt að skilorðsbinda hana að neinu leyti.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Júlíus Sverrir Sverrisson, sæti fangelsi níu mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 246.437 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 23. ágúst 2005 á hendur Júlíusi Sverri Sverrissyni, kt. 170577-5669, Tunguvegi 1, Hafnarfirði, fyrir eftirgreind brot framin árið 2004 nema annað sé tekið fram:
I.
Líkamsárás, með því að hafa föstudaginn 16. júlí, í félagi við tvo óþekkta menn, ráðist að A, kt. [..], inni á heimili hans að [..], Hafnarfirði, og slegið hann nokkur högg með barefli víða í líkamann, með þeim afleiðingum að A marðist og skrámaðist ofan við vinstra herðablað, marðist og roðnaði á hægra herðablaði og á mjöðm vinstra megin, marðist yfir þumalrót öðru megin og hliðlægt á vinstra læri og hlaut nokkrar skrámur á aftanverða vinstri síðu.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
II.
Líkamsárás, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 10. október, í íbúð að [..] Reykjavík, rifið í andlit B, kt. [..], og hrint henni svo hún féll í gólfið, með þeim afleiðingum að B rófubeinsbrotnaði, marðist á vinstri síðu og hlaut tvær skrámur á vinstri kinn.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
III.
Líkamsárás, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 12. desember, í íbúð að [..] Reykjavík, slegið C, kt. [..], nokkur hnefahögg í andlit og brjóst svo hann féll í gólfið og tekið hann hálstaki, með þeim afleiðingum að C hlaut nefbrot, kinnbeinsbrot og höfuðkúpubrot, hann bólgnaði og marðist um bæði augu, hlaut skrapsár á enni, mar og sár á vinstra eyra og fjölmarga maráverka á hálsi og efri hluta brjóstkassa, bæði að framan og aftan.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
IV.
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 17. júlí 2005, utan við iðnaðarhúsnæði að [..], Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 0,53 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða.
Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 0,53 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá krefst nefndur C þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 281.250 krónur.
Verjandi ákærða krefst þess að sakarefnum samkvæmt I. og II. kafla ákæru verði vísað frá dómi. Að öðrum kosti verði ákærða dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
I. kafli ákæru.
Föstudaginn 16. júlí 2004 kl. 17.47 var lögreglunni í Hafnarfirði tilkynnt um að þrír aðilar hefðu ráðist inn á heimili að [..] í Hafnarfirði og gengið þar í skrokk á íbúa. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að þremenningarnir hafi hlaupið á brott er húsráðandi hafi ógnað þeim með sleggju. Er lögreglumenn komu á staðinn hafi verið haft tal af íbúum að [..]. Í máli þeirra hafi komið fram að þrír menn vopnaðir hafnarboltakylfu hafi ruðst inn í húsið og ráðist á A. Á leið þeirra frá heimilinu hafi einn þessara einstaklinga brotið framrúðu í bifreiðinni [..] með hafnarboltakylfunni, en bifreiðin hafi staðið fyrir utan [..]. Bifreiðin hafi verið í eigu A. Í viðræðum við A hafi komið fram að hann hafi grunað hvert væri tilefni árásarinnar, en það tengdist sennilega kæru er hafi verið lögð fram hjá lögreglu á hendur A. Hafi A virst tregur til að segja frá því hverjir árásarmennirnir gætu verið af ótta við frekari árásir. Hafi hann lýst því að hann myndi sjálfur fara á slysadeild til að láta huga að áverkum sínum.
Guðjón Baldursson læknir á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 23. ágúst 2004 ritað læknisvottorð vegna komu A á slysadeild 16. júlí 2004. Í vottorðinu kemur fram að við skoðun hafi A verið aumur yfir þumalrót og með mar. Þá hafi hann verið með verki í öxl og með skerta hreyfingu við fráfærslu í vinstri axlarlið og framhreyfingu í liðnum. Þá hafi hann verið með verki í axlarhyrnulið við hreyfingu í öxl. Við skoðun á baki hafi hann verið með mar ofan við vinstra herðablað, auk þess að vera þar marinn og skrámaður. Ofan á hægra herðablaði hafi hann verið með mar og roða um 12 cm að lengd og 3-4 cm að breidd. Hafi marið verið með rauðum útlínum og hvítri miðju líkt og ílangur kleinuhringur. Samskonar mar hafi verið ofan við mjöðm vinstra megin. Þá hafi sést nokkrar skrámur á aftanverðri vinstri síðu. Einnig hafi verið mar hliðlægt á vinstra læri. Ekki hafi verið talin sérstök þörf á meðferð vegna áverkanna. Um hafi verið að ræða yfirborðslæga áverka sem ættu að geta jafnað sig á 1-2 vikum án fylgikvilla.
Mánudaginn 19. júlí 2004 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna líkamsárásar vegna atburðanna að [..]. Lýsti hann atvikum svo að hann hafi verið á heimili sínu þennan dag ásamt móður sinni, fósturföður og bróður sínum. Er knúið hafi veri dyra hafi fósturfaðir sinn svarað. Þrír ,,skuggalegir menn” hafi spurt eftir A. Fósturfaðir sinn hafi náð í sig og er mennirnir hafi séð til A hafi þeir ruðst óboðnir inn í húsið og gert tilraun til að draga A út. Hafi A náð að verjast og leitað skjóls inni í húsinu. Þá hafi mennirnir elt sig inn í herbergi. Þar hafi þeir ráðist að sér og einn mannanna verið með hafnarboltakylfu í hendi sem hann hafi ítrekað slegið A með víða um líkamann. Hafi megnið af höggunum lent á baki A og síðu, en A hafi lagt áherslu á að verja höfuð sitt og því snúið sér undan höggunum. Einn mannanna hafi beitt kylfunni en hinir tveir hafi einnig veist að sér og m.a. haldið sér. Einn mannanna hafi skyndilega sagt ,,út” en um leið hafi þeir allir látið af árásinni og hlaupið út. Hafi A orðið eftir í herberginu og því ekki séð er mennirnir hafi fari úr húsinu. Einn mannanna hafi slegið hafnarboltakylfunni í framrúðu bifreiðar A og brotið hana. Ekki hafi þeir valdið neinum skemmdum á innanstokksmunum á heimilinu. Eftir árásina hafi fósturfaðir A komið inn í herbergið og í framhaldi verið hringt á lögreglu. Kvaðst A vita að einn ársarmannanna hafi verið Júlíus Sverrir Sverrisson, ákærði í máli þessu. Hina mennina kvaðst A ekki hafa kannast við.
Ákærði var boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu 29. júlí 2004. Kvaðst hann hafa átt óuppgerð mál við A, en A hafi verið staðinn að ,,óeðlilegri framkomu í fjölskyldu sakbornings”. Hafi ákærði því ákveðið að ,,veita manninum refsingu.” Hafi hann komið að [..] í Hafnarfirði daginn fyrir árásina. Hafi það verið gert í því skyni að komast að því hvar A byggi. Hafi ákærði síðan fengið tvo kunningja sína til þess að koma með sér daginn eftir að [..]. Hafi ákærði lagt bifreið sinni í nágrenni við [..]. Hafi þremenningarnir því næst gengið upp að húsinu. Hafi ákærði haft hafnarboltakylfu í hendi. Hafi hann því næst knúið dyra. Ætlan ákærða hafi verið að ná A út úr húsinu og veita honum ,,ofanígjöf” með því að berja hann. Húsbóndi á heimilinu hafi komið til dyra og ákærði þá spurt eftir syni hans. Hafi A síðan komið til dyra en ekki hafi tekist að draga hann út úr húsinu. Af þeim ástæðum hafi ákærði og félagar hans ruðst inn í húsið. A hafi hlaupið á undan þeim og komist inn í herbergi sitt þar sem hann hafi reynt að loka hurðinni. Hafi ákærði þó náð að slá hann einu höggi með hafnarboltakylfunni og höggið lent á handlegg A. Hafi ákærði stokkið á herbergishurðina og með því komist inn í herbergið. Félagar ákærða hafi ekkert aðhafst en ákærði sjálfur séð um að ráðast að A og veita honum áverka. Hafi ákærði m.a. náð að grípa A hálstaki. Í sömu mund hafi móðir A sagt að það væru börn í húsinu. Kvaðst ákærði þá þegar hafa losað takið og ásamt félögum sínum farið út úr húsinu. Á leið sinni frá húsinu kvaðst ákærði hafa slegið hafnarboltakylfunni í framrúðu bifreiðar A og brotið hana. Ákærði kvaðst ekki hafa veitt A nema eitt högg með hafnarboltakylfunni. Þá kvaðst hann ekki hafa slegið eða sparkað í A. Kvaðst ákærði telja að áverkar A hafi stafað af því er ákærði hafi stokkið á hurð herbergis hans, sem hafi leitt til þess að A hafi fallið við inn í herbergið.
Fimmtudaginn 29. júlí 2004 mætti A á lögreglustöð í Hafnarfirði. Kvaðst hann óska eftir að draga kæru sína á hendur ákærða til baka. Kvaðst A óttast ákærða og hefndaraðgerðir af hans hálfu. Væri það hans vilji að lögregla myndi ekkert frekar aðhafast í málinu.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði játa að hafa við þriðja mann farið inn á heimili A að [..] Hafnarfirði föstudaginn 16. júlí 2004. Ekki kvaðst ákærði vilja greina frá hverjir hafi verið með honum í för þennan dag. Kvaðst hann hafa knúið dyra. Er hurðin hafi verið opnuð hafi ákærði spurt eftir A. Er A hafi komið til dyra hafi ákærði spurt hann hvort hann væri A. Í framhaldinu hafi hann gripið í handlegg A og ætlað að kippa honum út. Það hafi ekki tekist og ákærði þá gripið til þess ráða að fara á eftir A inn í húsið. Kvaðst ákærði hafa verið með hafnarboltakylfu í hendi. Hafi hann slegið A með kylfunni eitt högg í vinstri öxlina. Hafi A þá náð að hlaupa inn í herbergi til sín og reynt að loka hurðinni. Í því hafi ákærði stokkið á hurðina sem hafi leitt til þess að A hafi fallið í gólfið. Móðir A hafi þá komið að og ákærði í kjölfarið farið út úr húsinu. Ákærði kvað tvo kunningja sína hafa verið í för með sér umrætt sinn. Þeir hafi ekkert aðhafst. Ákærði kvað A hafa gert á hlut fjölskyldu sinnar, sem hafi leitt af sér sorg og reiði í fjölskyldunni. Hafi ákærði ekki þekkt A persónulega fyrir þetta og í raun séð hann í fyrsta sinn að [..]. Ekki kvaðst ákærði vita af hverju A hafi dregið kæru sína hjá lögreglu til baka. Ekki hafi ákærði haft samband við hann eftir þessa atburði sem hafi getað leitt til þess. Ekki kvaðst hann telja að A hefði ástæðu til að óttast ákærða.
Fyrir dómi bar A að þrír menn hafi komið að [..] í Hafnarfirði 16. júlí 2004. Þar hafi hann kannast við ákærða, en hann hafi hitt hann einhverju sinni áður. Hina mennina hafi A aldrei séð áður. Fósturfaðir A hafi opnað hurðina. Er A hafi komið fram hafi þremenningarnir allir ruðst inn og elt A inn í húsið. Hafi einn þeirra verið með hafnarboltakylfu í hendi. Ekki kvaðst A geta fullyrt hvort þeir hafi náð að koma höggi á A áður en hann hafi komist inn í herbergi til sín. Þar inni hafi þremenningarnir ráðist á A og m.a. slegið hann með kylfunni. Ekki kvaðst A geta borið um fjölda högga. A kvaðst telja að ákærði hafi komið á heimili hans vegna atviks er hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu. Kvaðst A hafa dregið kæru sína til baka, en honum hafi fundist óþarfi að ganga í gegnum málið. Hafi verið reynt að hafa áhrif á A með að draga kæruna til baka. Hafi það verið gert með því að hótað hafi verið að farið yrði með það mál sem væri til rannsóknar í blöðin að öðrum kosti. Þau skilaboð hafi A borist frá ákærða í gegnum annan mann. Hafi það verið skömmu eftir atburðina að [..].
D kvaðst hafa verið heima hjá sér að [..]umræddan dag. Dyrabjöllu hafi verið hringt og D farið til dyra. Fyrir utan hafi staðið þrír menn er spurt hafi eftir A. Er þremenningarnir hafi séð A hafi þeir umsvifalaust ráðist inn og einn þeirra verið með kylfu í hendi. Hafi þeir elt A inn í herbergi og a.m.k. einn farið á eftir honum þar inn. Hafi D þá farið rakleiðis út á verönd til að ná í barefli. Hafi hann komið inn og þá heyrt öskur úr herbergi A. Hafi hann því næst ógnað mönnunum með bareflinu og þeir þá horfið á brott. E hafi verið inni í svefnherbergisálmu hússins. Hafi hún komið fram um leið og mennirnir hafi ruðst inn í húsið. Ungir frændur E hafi verið á heimili þeirra. Á leið sinni frá húsinu hafi aðkomumennirnir brotið rúðu í bifreið A. Ekki kvaðst D hafa kannast við neinn mannanna. Vegna þess að hann hafi farið rakleitt út á verönd hússins hafi hann ekki séð aðkomumennina slá A. Ekki kvaðst F D vita af hverju A hafi dregið kæru sína á hendur ákærða til baka. Hafi A verið meiddur eftir árásina og hugsanlega verið hræddur við ákærða. Hafi hann skolfið lengi eftir atlöguna.
E bar að dyrabjöllu hafa verið hringt heima hjá sér 16. júlí 2004. Þrír menn hafi staðið fyrir utan og spurt eftir A. Við svo búið hafi E farið inn í herbergi til sín. Hafi hún skömmu síðar heyrt læti er mennirnir hafi ruðst inn í húsið, en þeir hafi farið inn í herbergi á eftir A. Hafi hún þá hlaupið fram og séð einn þremenningana með kylfu í hendi. Sá hafi verið á leið út. Hafi hún bent mönnunum á að hún væri með lítil börn í húsinu og þeir þá farið út. Ekki kvaðst E hafa séð þremenningana ráðast á A. Einhver hafi eftir þetta hringt í E og sagt henni að yrði kæran ekki dregin til baka yrði nafn A sett í blöðin. Hafi A verið hræddur lengi eftir árásina, sem og heimilisfólk annað. Hafi hún farið með hann á slysadeild til aðhlynningar eftir árásina. Ekki kvaðst E hafa vitað um tilefni árásarinnar á sínum tíma. A hafi hins vegar gert henni grein fyrir tengslum ákærða við mál sem væri til rannsóknar og varðaði A.
Jón Haukur Hafsteinsson lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst hann hafa sinnt tilkynningu um árásina að [..] í Hafnarfirði. Er lögreglumenn hafi komið að [..] hafi maður, er Jón Haukur hafi talið vera föður A, tekið á móti lögreglumönnum. Hafi hann greint frá því að þrír menn hafi ráðist inn á heimilið. Lögreglumenn hafi rætt við A, sem hafi viljað ræða atburðina í einrúmi á lögreglustöð. Fram hafi komið að þremenningarnir hafi elt A inn í herbergi þar sem þeir hafi lamið hann. Allir hafi verið í áfalli á heimilinu og þá sérstaklega foreldrar A. Í máli A hafi komið fram sú skoðun hans að um væri að ræða hefndaraðgerðir vegna annars máls er væri til rannsóknar og tengdist A.
Niðurstaða:
Verjandi ákærða hefur aðallega krafist þess að þessum ákærulið verði vísað frá dómi. Þá frávísun byggir verjandi á því að A, brotaþoli í ákæruliðnum, hafi dregið kæru sína á hendur ákærða til baka. Krafa um frávísun þessa ákæruliðar kom fyrst fram hjá verjanda við munnlegan flutning málsins fyrir dómi. Leiðbeindi dómari sakflytjendum um að réttast væri að krafa um frávísun yrði tekin fyrir áður en málflutningur um efnishlið málsins færi fram, þar sem krafa um frávísun varðaði formhlið máls en ekki efnis. Leituðu sakflytjendur eftir að ekki yrði frestað málflutningi um efnishlið af þessum sökum. Hefur dómurinn fallist á að haga úrlausn málsins með þeim hætti.
Samkvæmt 2. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 er málsókn út af brotum gegn 1. mgr. 217. gr. laganna opinber og skal einungis höfða mál vegna brota á ákvæðinu ef almannahagsmunir krefjast þess. Ákæruvald höfðar opinbert mál með útgáfu ákæru, sbr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 og á mat um hvort almannahagsmunir séu til staðar til útgáfu ákæru, sbr. 2. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Verður ekki við því hróflað í þessum dómi, enda liggur að mati dómsins ljóst fyrir að A dró kæru sína á hendur ákærða til baka af ótta við hefndaraðgerðir. Verður því ekki fallist á kröfu verjanda um að vísa þessum þætti málsins frá dómi.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa föstudaginn 16. júlí 2004, í félagi við tvo menn sem hann hefur ekki viljað nafngreina, farið að heimili A að [..] í Hafnarfirði. Hafi þeir þremenningarnir ruðst inn á heimilið og ákærði verið með hafnarboltakylfu í hendi. Hefur ákærði jafnframt viðurkennt að hafa slegið A með hafnarboltakylfunni eitt högg í handlegg. Að öðru leyti hefur hann leitt að því líkur að A hafi einnig hlotið áverka við að falla í gólfið eftir að ákærði réðst til inngöngu inn í herbergi hans, en A varnaði honum inngöngu með því að reyna að loka herbergishurðinni. Hefur ákærði ekki viðurkennt afdráttarlaust að þeir áverkar er A hlaut umrætt sinn hafi komið til fyrir hans tilstilli. Hefur ákærði greint frá því að hann hafi ætlað að veita A ráðningu vegna framferðis hans í garð fjölskyldu ákærða. Hafi hann fyrirfram lagt á ráðin um þetta, m.a. með því að fara að [..] deginum á undan til að kanna aðstæður. Hefur ákærði jafnframt borið að A hafi hann ekki séð fyrir þennan atburð.
A hefur lýst atlögu ákærða umræddan dag þannig að ákærði og tveir aðkomumenn hafi ruðst inn á heimili hans. Hafi þeir elt hann inn í herbergi og veitt honum fjölmarga áverka með hafnarboltakylfu. Hafi hann reynt að verjast atlögunni með því að verja höfuð sitt og láta höggin flest lenda í líkama sínum og þá sér í lagi baki. Hafi atlagan staðið um hríð uns ákærði og samferða menn hans hafi yfirgefið húsið. Fósturfaðir A og móðir hans hafa staðfest framburð A að mestu fyrir utan að þau bera að þau hafi ekki séð atburðarásina alla og ákærða ekki slá A með kylfunni. Hefur fósturfaðir ákærða borið að hann hafi farið út á verönd til að ná í barefli til að hrekja aðkomumennina á brott. Þá hefur móðir A borið að hún hafi verið á öðrum stað í húsinu og ekki komið fram fyrr en eftir að hún hafi orðið vör við þremenningana ryðjast inn í herbergi til A.
A gekkst undir læknisskoðun síðar þennan dag. Hefur áður verið gerð grein fyrir læknisvottorði er getur um áverka er A hlaut. Svo sem þar kom fram var A við komu með verki í öxl og með skerta hreyfingu í vinstri axlarlið. Þá var hann með verki í axlarhyrnulið við hreyfingu í öxl. Var hann með mar ofan við vinstra herðablað, auk þess að vera þar marinn og skrámaður. Ofan á hægra herðablaði var hann með mar og roða. Var marið með rauðum útlínum og hvítri miðju líkt og ílangur kleinuhringur. Samskonar mar var ofan við mjöðm vinstra megin. Þá var hann með nokkrar skrámur á aftanverðri vinstri síðu. Einnig var hann með mar hliðlægt á vinstra læri. Af hálfu dómsins er slegið föstu að áverka þessa hafi A hlotið af framferði ákærða og félaga hans. Þegar til áverkanna er litið og hafður í huga yfirlýstur tilgangur farar ákærða á heimili A eru engin efni til annars en að leggja til grundvallar framburð A um framgöngu ákærða þetta sinn, sem að hluta sækir stoð í framburð fósturföður A og móður. Áverkar þessir eiga undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru.
II. kafli ákæru.
Sunnudaginn 10. október 2004 kl. 11.38 barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að maður hafi ráðist inn í íbúð að [..] í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafði lögregla tal af B á vettvangi. Tjáði hún lögreglu að barnsfaðir hennar, ákærði í máli þessu, hafi komið á heimili hennar með tveggja ára barn hennar og ákærða. Hafi B ekki viljað hafa ákærða í íbúðinni og bent honum á að fara er hann hafi verið búinn að skila barninu. Hann hafi neitað því og haldið í útidyrahurðina er B hafi reynt að ýta honum út. Hafi hann síðan veist að henni og hent henni í gólfið. Því næst hafi ákærði farið inn í svefnherbergi B þar sem vinur hennar hafi verið. Hafi ákærði ráðist á þann mann í svefnherberginu. Hafi gesturinn verið með sjáanlega áverka á tám og olnboga. Hafi hann ekkert viljað aðhafast í málinu. Í skýrslunni kemur fram að B hafi verið í þó nokkru uppnámi.
Jón Baldursson yfirlæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 16. apríl 2005 ritað áverkavottorð vegna komu B á slysadeild 10. október 2004. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun hafi verið tvö för á vinstri kinn sem útlits vegna hafi hæglega getað verið eftir klór með nöglum. Um hafi verið að ræða grunn fleiður og ekki neina aðskotahluti eða óhreinindi að sjá í þeim. B hafi greinilega verið dálítið stirt um hreyfingar. Eymsli hafi aðallega verið fyrir miðjum spjaldhrygg og yfir rófubeini. Í vinstri síðu rétt ofan við mjaðmarkamb hafi verið nýlegur marblettur um 2-3 cm í þvermál. Sjúkdómsgreining hafi verið brot á rófubeini, mar á neðanverðu baki og skrámur í andliti.
B lagði 11. október 2004 fram kæru hjá lögreglu á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Kvað hún ákærða hafa komið heim til hennar til að afhenda dóttur þeirra um kl. 10.30 að morgni sunnudagsins 10. október 2004. Er ákærði hafi afhent dóttur þeirra hafi hann spurt B hvort einhver hafi verið hjá henni um nóttina. Hafi hún játað því. Við það hafi hann orðið mjög reiður og reynt að komast inn í íbúðina. Hafi B án árangurs reynt að varna því. Þegar ákærði hafi verið kominn inn hafi þau rifist heiftarlega sem hafi endað með því að ákærði hafi rifið í andlit hennar og hent henni í gólfið. Hafi hann því naust hlaupið inn í svefnherbergi íbúðarinnar og ráðist þar á F, vin B. Hafi ákærði hent F fram úr rúminu og sparkað í hann. Hafi hann að því loknu hlaupið út úr íbúðinni. Lögregla hafi komið á vettvang og B í framhaldinu farið á slysadeild til skoðunar.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 30. maí 2005 var símleiðis haft samband við B þann dag. Hafi henni ítrekað verið bent á að bótakrafa væri ekki komin fram af hennar hálfu vegna málsins. Hafi hún tjáð lögreglu að hún vildi afturkalla kæruna. Hafi hún greint frá því að komin væri á ,,nokkur sátt” á milli hennar og ákærða, en ef hún héldi málinu áfram myndi hún annars ,,fá það tvöfalt til baka” frá ákærða.
Ákærði var boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu 4. ágúst 2004. Kvaðst hann hafa komið á heimili B með dóttur þeirra umræddan morgun. Þegar hún hafi komið til dyra hafi hún verið klædd í slopp einn fata. Hafi ákærði þröngvað sér inn um dyr íbúðarinnar og farið að rífast við B. Hafi hann ýtt við henni þannig að hún hafi fallið á rassinn. Þá hafi hann farið inn í svefnherbergi íbúðarinnar þar sem hann hafi ýtt manni úr rúmi og í framhaldinu stigið á hann. Ekki hafi hann sparkað í manninn. Er undir ákærða voru bornar rispur í andliti B kvaðst hann ekki hafa valdið þeim áverkum. Þá kvaðst hann ekki vita til þess að hún hafi verið með rispur í andliti er hann hafi komið heim til hennar.
Fyrir dómi bar ákærði á sama veg. Hafi hann og B verið í sambúð og eignast dóttur saman. Kvað hann B hafa dottið aftur fyrir sig og á rassinn er hann hafi opnað hurð íbúðar á heimili hennar. Ekki hafi verið ætlun hans að meiða hana. Þá kvaðst ákærði ekki hafa rifið í andlit B, svo sem honum væri gefið að sök. Þá kvað hann enga áverka hafa verið í andliti hennar er hann hafi komið í íbúðina. Ekki kvaðst ákærði hafa ráðist á F í íbúðinni, heldur hafi hann einungis stjakað við honum. Ekki kvaðst hann hafa þekkt F á þeim tíma. Ekki kvaðst ákærði vita af hvaða ástæðu B hafi dregið kæru sína á hendur honum til baka. Hafi hann talið að hún hafi ekki haft ástæðu til að óttast ákærða.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi leitaði B eftir því að skorast undan því að bera vitni í málinu á grundvelli 2. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem hún og ákærði hafi verið í sambúð fyrir og eftir þann atburð sem sakarefnið varðaði. Með úrskurði dómsins frá 23. nóvember 2005 var því hafnað að hún yrði leyst undan vitnaskyldu í málinu. Leitaði hún ekki endurskoðunar á þeim úrskurði. Um atvik bar hún með þeim hætti að hún hafi kynnst ákærða þegar hún hafi verið 15 eða 16 ára gömul. Hafi hún flust til ákærða að [..] í Hafnarfirði. Þar hafi þau búið saman í um eitt ár. Þaðan hafi þau flutt að [..] í Reykjavík. Síðar hafi þau flutt saman að [..] í Reykjavík. Þar hafi þau búið saman í ríflega eitt ár. Sambandi þeirra hafi síðan lokið. Hún hafi vaknað að morgni sunnudagsins 10. október 2004 við það að bankað hafi verið á dyr íbúðar hennar að [..] í Reykjavík. Hafi hún opnað og ákærði verið þar kominn. Hafi hann verið mjög reiður, en þau hafi ,,ekki alveg” verið hætt saman á þeim tíma. Hafi ákærða grunað að einhver annar væri kominn í hans stað á heimili hennar. Hafi ákærði séð B,,hálf nakta”. Hafi hann komið inn í íbúðina og þau farið að rífast. Úr því hafi orðið ,,smá fætingur”. Þá hafi ákærði séð F í íbúðinni og orðið mjög reiður. Hafi ákærði tekið um andlit B og hrint henni í gólfið. Við það hafi hún fengið ör í andlit, auk þess að hafa rófubeinsbrotnað við fallið. Kvaðst B telja að G, sem einnig hafi búið í íbúðinni á þessum tíma, hafi hringt í lögreglu eftir þetta. B kvaðst hafa dregið kæru sína á hendur ákærða til baka þar sem hann hafi verið barnsfaðir hennar. Þá hafi hún einnig óttast að ákærði gæti hugsanlega tekið dóttur sína frá sér ef hún héldi kærunni við. Hafi hún verið hrædd vegna þess. B kvaðst hafa jafnað sig að mestu af rófubeinsbrotinu. Þó fengi hún verk í beinið við það að sitja lengi.
F kvaðst hafa verið á heimili B 10. október 2004. Hafi hann vaknað við læti, en hann hafi heyrt öskur og skarkala fyrir framan svefnherbergið. Hafi hann farið fram úr rúmi til að aðgæta hvað væri um að vera. Hann hafi hins vegar ekki farið út úr svefnherberginu. Ákærði, sem F hafi ekki fyrr séð eða hitt, hafi komið inn í svefnherbergið og hafi þeir eitthvað ,,ást við”, en ákærði hafi veist að F. Ekki hafi F séð samskipti ákærða og B eða áverka á henni að því er hann myndi. Eftir að ákærði hafi verið horfinn á brott hafi lögregla komið að [..] og tekið skýrslur af þeim er voru á staðnum.
G kvaðst hafa leigt íbúð að [..] ásamt B. Að morgni 10. október 2004 hafi G vaknað við háreisti og læti. Hafi hún heyrt B segja ákærða að fara út úr íbúðinni, en hann hafi sennilega verið þangað kominn til að skila dóttur þeirra. Ákærði og B hafi farið að rífast. Hafi hún séð ákærða hrinda B. Þar sem langt væri um liðið síðan atburðir áttu sér stað kvaðst G ekki muna hvort B hafi fallið í gólfið við þetta. Hafi G farið fram, tekið litlu stelpuna í fang sitt, en hún hafi verið grátandi og farið með stúlkuna inn í stofu. G kvaðst hafa verið búin að leigja íbúðina með B í um tvo mánuði er þessir atburðir hafi átt sér stað. Á þeim tíma hafi ákærði aldrei komið í íbúðina á meðan G hafi verið þar og hafi hún ekki orðið þess vör að ákærði og B væru í sambandi.
Katrín Eva Erlendsdóttir lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvað hún lögreglu hafa verið kallaða að [..] í Reykjavík 10. október 2004. Á staðnum hafi lögregla haft tal af ungri stúlku með barn. Hafi stúlkan borið að barnsfaðir hennar hafi komið á heimilið og ýtt við henni. Hafi barnsfaðirinn verið horfinn á brott er lögreglu hafi borið að garði. Stúlkan hafi verið grátandi. Ekki kvaðst Katrín muna eftir áverkum í andliti stúlkunnar.
Niðurstaða:
Verjandi ákærða hefur aðallega krafist þess að þessum ákærulið verði vísað frá dómi. Þá frávísun byggir verjandi á því að B, brotaþoli í ákæruliðnum, hafi dregið kæru sína á hendur ákærða til baka. Krafa um frávísun þessa ákæruliðar kom fyrst fram hjá verjanda við munnlegan flutning málsins fyrir dómi. Leiðbeindi dómari sakflytjendum um að réttast væri að krafa um frávísun yrði tekin fyrir áður en málflutningur um efnishlið málsins færi fram, þar sem krafa um frávísun varðaði formhlið máls en ekki efnis. Leituðu sakflytjendur eftir að ekki yrði frestað málflutningi um efnishlið af þessum sökum. Hefur dómurinn fallist á að haga úrlausn málsins með þeim hætti.
Samkvæmt 111. gr. laga nr. 19/1991 skal sérhver refsiverður verknaður sæta ákæru, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum. Í II. kafla ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Hefur sá sem misgert er við ekki forræði á því hvort slíkur verknaður sæti ákæru eða ekki. Verður því ekki fallist á kröfu verjanda um að vísa þessum þætti málsins frá dómi.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa komið á heimili B að [..] í Reykjavík að morgni sunnudagsins 10. október 2004. Er ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu vegna málsins bar hann að B og ákærði hafi farið að rífast, en það hafi leitt til þess að ákærði hafi þröngvað sér inn um dyr íbúðarinnar. Við það hafi B fallið ,,á rassinn.” Synjaði hann fyrir að hafa veitt henni áverka í andliti. Fyrir dómi bar ákærði á sama veg. Er B gaf skýrslu hjá lögreglu lýsti hún atburðarásinni þannig að ákærði hafi spurt sig að því hvort einhver hafi verið hjá henni um nóttina. Er hún hafi játað því hafi hann orðið mjög reiður og reynt að komast inn í íbúðina. Hafi hún án árangurs reynt að varna því. Þegar ákærði hafi verið kominn inn hafi þau rifist heiftarlega sem hafi endað með því að ákærði hafi rifið í andlit hennar og hent henni í gólfið. G kvaðst hafa vaknað þennan dag við háreisti og læti. Hafi hún heyrt B segja ákærða að fara út úr íbúðinni. Ákærði og B hafi farið að rífast og hafi hún séð ákærða hrinda B. Þar sem langt væri um liðið síðan atburðir áttu sér stað treysti hún sér hins vegar ekki til að fullyrða hvort hún hafi séð B falla í gólfið.
Þegar til framburða ákærða sjálfs, B og G er litið verður slegið föstu að ákærði hafi umrætt sinn hrint B þannig að hún féll í gólfið. B fór á Landspítala háskólasjúkrahús síðar sama dag. Samkvæmt læknisvottorði var hún þá rófubeinsbrotin. Verður ekki við annað miðað en að þá áverka hafi hún fengið fyrir tilstilli ákærða, en þeir eru líkleg afleiðing af því að falla aftur fyrir sig niður á gólf og á sitjanda. Áverkavottorðið greinir frá því að B hafi verið með tvær skrámur á vinstri kinn, sem útlits vegna hafi hæglega verið taldar geta verið eftir klór með nöglum. Áverkarnir hafi verið grunn fleiður. Er þeim lýst sem ferskum áverkum. Ákærði bar sjálfur að hann hafi ekki tekið eftir því að B hafi verið með áverka í andliti er hann kom að [..]. Með vísan til framburðar B og ákærða, sem og framanritaðs læknisvottorðs telur dómurinn sannað að ákærði hafi veitt B þessa áverka, enda var hann þá orðinn mjög reiður vegna þess að honum var þá ljóst að næturgestur lá í rúmi B. Áverkar þeir er fram koma í verknaðarlýsingu ákæru eiga undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Með vísan til þess verður ákærði sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru.
III. kafli ákæru.
Sunnudaginn 12. desember 2004 kl. 15.06 var lögreglu tilkynnt um líkamsárás að [..] í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu fylgdu boðum að sá er hefði orðið fyrir líkamsárásinni væri staddur að [..] í Reykjavík. Að [..]hafi lögregla haft tal af C. Hafi hann gert grein fyrir því að hann hafi verið staddur á heimili B að [..]aðfaranótt sunnudagsins 12. desember. Hafi hann rumskað um morguninn við einhvern hávaða og er hann hafi verið að setjast upp í rúmi hafi verið ráðist á hann. Hann hafi ekki verið að fullu vaknaður og því ekki náð að átta sig á hvað hafi verið að gerast. Af þeim ástæðum hafi hann illa náð að verjast árásinni. C kvað árásarmanninn hafa verið Júlíus Sverri Sverrisson, ákærða í máli þessu. Hafi C borið að ákærði hafi kýlt sig ítrekað, hent honum í gólfið og tekið hann hálstaki þannig að þrengt hafi að öndunarvegi. Með ákærða hafi verið H. H hafi ekki tekið þátt í árásinni. Eftir árásina hafi ákærði og H yfirgefið íbúðina. Í framhaldi hafi C farið heim til sín og sofnað þar. Faðir hans hafi vakið hann og eftir að hafa séð áverka á C hafi verið ákveðið að hafa samband við lögreglu. Í frumskýrslunni kemur fram að C hafi verið með talsverða sjáanlega áverka. Hægri auga hafi verið mikið bólgið, blóð í vinstra eyra, auk þess sem hann hafi verið bólginn og rauður víðsvegar á höfði og hálsi. Þá hafi hann verið rauður á bringunni og baki, auk þess að vera rauður á höndum. C hafi verið færður á slysadeild til skoðunar og aðhlynningar.
Geir Tryggvason læknir á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 9. febrúar 2005 ritað áverkavottorð vegna komu C á slysadeild 12. desember 2004. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun hafi C verið með mikla bólgu og mar í kringum hægra auga þannig að það hafi nánast verið sokkið. Hafi hann átt í verulegum erfiðleikum með að opna það. Einnig hafi hann verið með glóðarauga vinstra megin. Skrapsár hafi verið á enni hægra megin um 4 x 3 cm. Hafi hann verið með fjölmarga maráverka á hálsi og efri hluta brjóstkassa bæði framan og aftaná. Áverkamerki hafi bent til að hann hafi verið tekinn kröftugu hálstaki og verið laminn endurtekið í brjóstkassa. Fengin hafi verið sneiðmynd af höfði og andlitsbeinum. Þar hafi komið í ljós brot á ennisbeini yfir ennisskúta hægra megin án mikillar millifærslu. Það séu loftbólur innankúpu framan til hægra megin undir broti á ennisbeinum sem bendi til brots gegnum höfuðkúpu. Einnig brot án millifærslu á kinnbeini sem liggi yfir kinnbeinsskútanum. Brot á nefbeini vinstra megin. Hafi C komið í endurmat 16. desember 2004. Þá hafi bólga og mar í andliti verið á hröðu undanhaldi. Þá hafi komið betur í ljós hversu innfallið nefbrotið vinstra megin hafi verið. Skoðun á andlitsbeinum sérstaklega með tilliti til brota leiði ekki í ljós misgengi á brotalínum. Sár í eyrnagangi sé ekki gróið.
C lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás 15. desember 2004. Kvað hann sig og B hafa verið að ,,slá sér saman öðru hverju.” Kvaðst C hafa vaknað að [..] í Reykjavík sunnudaginn 12. desember 2004. Hafi hann tyllt sér á rúmstokkinn þegar hann hafi skyndilega og án nokkurra orðalenginga orðið fyrir árás af hálfu ákærða. Ákærði hafi komið inn í herbergið við annan mann, en í för með honum hafi verið H. H hafi hins vegar ekkert aðhafst á meðan ákærði hafi ráðist á C. C kvað ákærða hafa kýlt sig mörg högg í andlit og hafi þau flest lent við augu C, sérstaklega það hægra. Hafi C tvisvar sinnum fallið í gólfið. Þar hafi ákærði reynt að kyrkja C tvívegis með báðum höndum og hafi C sortnað fyrir augum í síðara skiptið. Árásinni hafi lokið með því að H hafi kallað til ákærða að nóg væri komið. Hafi ákærði og H yfirgefið íbúðina við svo búið. C bar að hann hafi vankast það mikið við fyrsta högg ákærða að hann hafi nær engum vörnum komið við, þó svo hann hafi með einhverju móti getað varist kyrkingartilraunum ákærða. Eftir árásina hafi C verið í íbúðinni í einhvern tíma ásamt B. Hafi hann verið í einhvers konar móki en myndi eftir að hafa þrifið sig í framan. Hann hafi klætt sig og síðar farið heim til sín að [..]. Faðir sinn hafi kallað eftir lögreglu þegar honum hafi orðið ljóst í hvaða ástandi C væri. Lögregla hafi komið að [..] og farið með C á slysadeild.
Ákærði var boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu 30. júní 2005. Kvaðst hann hafa verið í sambandi með B í um 5 ár og ættu þau saman 3ja ára dóttur. Fyrir atvikið 12. desember 2004 hafi þau verið búin að hætta saman og byrja aftur nokkrum sinnum. Þau hafi verið hætt saman er ákærði hafi komið í heimsókn til hennar að morgni sunnudagsins 12. desember, þó svo ákærði hafi sofið hjá B aðfaranótt laugardagsins 11. desember 2004. Sunnudagsmorguninn 12. desember hafi ákærði ætlað að hitta B um kl 8.00 um morguninn. Hafi ákærði bankað á hurð heima hjá henni en enginn svarað. Með ákærða í för hafi verið H. Hafi ákærði talið sig vita að B væri heima og því tekið stiga sem hafi verið við húsið og ,,prílað” upp í glugga og bankað á hann. Þar hafi ákærði náð tal af B og beðið hana um að opna fyrir sér. Hafi hún orðið við því og ákærði farið inn í íbúð hennar og þar inn í svefnherbergi. Þar hafi ákærði hitt fyrir C, sem ákærði kvaðst hafa þekkt lengi. Ákærði hafi nefnt C með nafni en C hafi án frekari orðaskipta ráðist á ákærða. Hafi C tekið ákærða hálstaki á þann veg að hann hafi sett höfuð ákærða undir handarkrika og slegið í höfuð hans ítrekað með krepptum hnefa. Einnig hafi C slegið ákærða nokkrum sinnum með krepptum hnefa í síðuna. Hafi ákærði náð að toga í fætur C með þeim afleiðingum að þeir hafi báðir fallið í gólfið. Við það hafi C sleppt hálstakinu. Hafi ákærði þá slegið C í andlitið með krepptum hnefa tvisvar til þrisvar sinnum. Eftir högg ákærða hafi átökunum linnt. Blætt hafi úr annarri augabrún C. B hafi verið í miklu uppnámi og hafi ákærði og H yfirgefið íbúðina. Hafi ákærði hlotið glóðarauga eftir árás C, auk þess sem hann hafi verið með áverka á annarri síðu. Einnig hafi blætt smávegis úr nefi ákærða og hafi ákærði kastað mikið upp eftir þetta. Ekki hafi hvarflað að ákærða að kæra C fyrir árásina þar sem áverkar hafi ekki verið það miklir, auk þess sem ákærði og C hafi þekkst. Er undir ákærða voru bornir áverkar í áverkavottorði frá 9. febrúar 2005 varðandi C kvað ákærði þar um frekar mikla áverka að ræða og væri ekki ólíklegt að C hafi hlotið einhverja áverka eftir umrædd átök þeirra á milli.
Fyrir dómi bar ákærði á sama veg um atvik. Kvaðst hann telja að B hafi átt von á sér að morgni sunnudagsins, en ákærði hafi komið að heimili hennar snemma þennan morgun. Hafi þau rætt saman kvöldið áður. Með ákærða í för þennan morgun hafi verið H. Hafi ákærði knúið dyra en enginn svarað. Hafi hann þá reist upp stiga við húsið og verið komin hálfa leið upp er B hafi opnað glugga og rætt við ákærða. Í framhaldinu hafi hún opnað íbúðina fyrir ákærða og H. Hafi B ekki átt von á að einhver væri ákærða samferða. Ákærði hafi farið inn í svefnherbergi íbúðarinnar og þar hitt fyrir C er hafi staðið úti á miðju gólfi. C hafi ákærði þekkt vel. Hafi ákærði nefnt nafn C um leið og hann hafi ,,bölvað”. Um leið hafi C stokkið á höfuð ákærða og lamið hann hnefahögg í síðuna. Hafi ákærði þá náð í fætur C sem hafi leitt til þess að þeir hafi fallið í gólfið. Í beinu framhaldi hafi ákærði náð að slá C þrisvar sinnum hnefahögg í andlitið. Ekki kvaðst ákærði vita af hvaða ástæðu C hafi að fyrrabragði ráðist á sig. Samferðamaður ákærða, H, hafi verið fyrir framan svefnherbergið á meðan á þessu hafi staðið, sem og B. Ákærði kvað sér hafa verið illa við að C væri á heimili B og hafi ákærði orðið afbrýðissamur vegna þess. Kvaðst ákærði telja að þeir áverkar er C hafi borið eftir þetta hafi sennilega hlotist af völdum ákærða. Ákærði hafi einnig fengið ,,hálfgert” glóðarauga og mar á síðu. Ekki hafi hann látið skoða þá áverka. Hann hafi hins vegar kastað upp eftir þetta og liðið illa lengi á eftir.
C kvaðst hafa vaknað snemma að morgni sunnudagsins 12. desember. Hafi hann heyrt einhver læti frammi í íbúðinni og verið að rísa upp úr rúmi er ákærði hafi komið inn um dyr svefnherbergisins. Í framhaldinu hafi högg dunið á C frá ákærða og hafi C rotast við það. Ákærði hafi verið mjög æstur og engin orðaskipti átt sér stað á milli þeirra. Aðdragandi árásarinnar hafi verið enginn. Með ákærða í för hafi verið H, en H hafi ekkert aðhafst á meðan ákærði hafi gengið í skrokk á C. C kvað það alfarið rangt að hann hafi að fyrra bragði ráðist á ákærða í svefnherberginu. C hafi verið hálfrotaður í atlögunni og reynt að verja sig. Kvaðst C muna að H hafi sagt við ákærða að nóg væri komið. Í kjölfarið hafi C dottið út. Einhverju síðar hafi hann rankað við sér og farið heim til sín. Þar hafi hann sofnað og sofið í um 2 til 3 tíma. Foreldrar C hafi hringt á lögreglu áður en C hafi vaknað. Faðir hans hafi vakið hann, en þá hafi lögreglumenn verið komnir á staðinn. C kvaðst hafa jafnað sig á áverkunum en hafa verið í talsverðum vandræðum með lykt- og bragðskyn. C kvaðst hafa þekkt B fyrir þennan atburð og hafa vitað að hún hafi áður verið unnusta ákærða.
B kvaðst hafa verið með ákærða í langan tíma en í fyrri hluta desember 2004 hafi þau verið hætt saman. Við það hafi ákærði verið ósáttur. Þennan morgun hafi B sofið í herbergi að [..] í Reykjavík ásamt C. Hafi hún vaknað um kl. 11.00 við að ákærði hafi staðið í stiga fyrir utan húsið og horft inn um glugga hjá henni. Hafi hún beðið ákærða um að fara en hann komið inn stigaganginn, bankað og barið á dyrnar með svo miklu afli að hún hafi haldið að hurðin myndi brotna. Hafi B opnað hurðina og ákærði þá ruðst inn og hent B í gólfið. Með ákærða í för hafi verið H. Ákærði hafi farið inn í svefnherbergi. Í skýrslu hennar hjá lögreglu er fært eftir henni að C hafi rétt verið vaknaður og staðinn upp. Fyrir dómi bar hún hins vegar að C hafi verið búinn að klæða sig er ákærði hafi komið inn í herbergið. Hjá lögreglu bar B að ákærði hafi ráðist á C og náð honum niður. Fyrir dómi bar hún hins vegar að C hafi sennilega átt upptökin að átökum þeirra, en hann hafi sennilega slegið til ákærða. Atburðarásin hafi verið mjög hröð en hún hafi séð ákærða slá C í andlitið nokkrum sinnum með krepptum hnefa. Við það hafi blætt úr andliti C. Hafi hún farið fram í stofu til að verða ekki sjálf fyrir barsmíðum og því ekki séð framhald átakanna. Hafi hún öskrað á ákærða, auk þess sem H hafi reynt að tala við hann líka. Hafi ákærði þá stoppað. Hann hafi hins vegar ráðist aftur á C frammi í stofu. Hafi ákærði slegið C með krepptum hnefa í andlitið nokkrum sinnum með þeim afleiðingum að C hafi fallið í gólfið. Í framhaldinu hafi ákærði yfirgefið íbúðina. Stuttu síðar hafi B ekið C til síns heima. B kvaðst ekki hafa séð áverka á andliti ákærða eftir átökin.
H var boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu 18. maí 2005. Kvaðst hann alfarið neita að tjá sig um atburðina hjá lögreglu. Var hann boðaður til skýrslugjafar fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Mætti H ekki til þinghaldsins þrátt fyrir boðun og var gefin út vitnakvaðning fyrir hann til að mæta fyrir dóminn. Er H mætti fyrir dóminn í síðar ákveðnu þinghaldi gaf hann þá skýringu á fjarvist sinni að hann hefði gleymt því að mæta í dóminn við aðalmeðferð málsins. Um atvik að morgni 12. desember 2004 bar H með þeim hætti að hann hafi orðið ákærða samferða að heimili B. Hafi ákærði og B farið að rífast. H kvaðst telja að B hafi verið að skemmta sér aðfaranótt sunnudagsins og ekki átt von á ákærða í heimsókn. Er H og ákærði hafi komið inn í íbúðina hafi B verið hálf ber og maður uppi í rúmi hjá henni. Ekki kvaðst H hafa þekkt þann er hafi verið í svefnherberginu hjá B, en þangað inn hafi H ekki farið. Ákærði og gesturinn hafi farið að rífast, gesturinn í framhaldinu ráðist á ákærða og veitt honum högg, auk þess sem hann hafi tekið ákærða hálstaki. Ákærði hafi náð að snúa upp á sig. H hafi síðar gengið á milli þeirra. Ákærði hafi hlotið einhverja áverka við átökin, en hann hafi m.a. verið með glóðarauga. Þá hafi hann kastað upp síðar þann sama dag. Ekki kvaðst H hafa séð áverka á gestinum.
Ríkharður Örn Steingrímsson lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Er haft hafi verið tal af tilkynnanda á [..] hafi komið fram að árásarþoli hafi lent í átökum við annan mann á öðrum stað í bænum. Faðir þess er lent hafi í átökunum hafi hringt á lögreglu. Brotaþoli hafi verið með mikla sýnilega áverka, en hann hafi m.a. verið með miklar bólgur í andliti. Hafi komið fram í máli hans að ákærði hafi ráðist á sig að [..] í Reykjavík. Hafi brotaþoli verið þar sofandi áður en atburðirnir hafi átt sér stað. Það sem ritað hafi verið í frumskýrslu lögreglu hafi verið byggt á frásögn hlutaðeigandi á vettvangi.
Niðurstaða:
Ákærði hefur viðurkennt að hafa komið að [..] í Reykjavík að morgni sunnudagsins 12. desember 2004. Með honum í för hafi verið H. Eftir að B hafi opnað fyrir ákærða hafi hann farið inn í svefnherbergi íbúðarinnar. Þar inni hafi hann hitt fyrir C, sem hann hafi kannast við. Hafi ákærða verið ljóst að C hafi sofið um nóttina í íbúðinni og því orðið afbrýðisamur. Hafi hann nefnt nafn C og um leið farið með blótsyrði. Hafi C þá stokkið á ákærða og veitt honum hnefahögg. Eftir nokkra stund hafi ákærði náð að fella C í gólfið. Í framhaldinu hafi hann náð að slá hann þrjú hnefahögg í andlitið. Eftir það hafi ákærði og H yfirgefið íbúðina.
C hefur lýst atburðarásinni svo að hann hafi vaknað þennan morgun við hávaða. Hafi hann sest upp í rúminu og tyllt sér á rúmstokkinn. Ákærði hafi komið inn í herbergið og slegið C hnefahögg í andlitið. Hafi C vankast við höggið og átt erfitt með að verjast ákærða, sem hafi margsinnis slegið hann hnefahögg í andlitið. Að auki hafi ákærði þrengt að öndunarvegi C þannig að honum hafi legið við yfirliði. Hefur C alfarið synjað fyrir að hafa veist að ákærða að fyrra bragði og veitt honum hnefahögg.
Tvö vitni voru á vettvangi er atburðir þessir áttu sér stað. Framburður B hefur verið nokkuð á reiki um atburði í svefnherberginu. Í skýrslu hennar hjá lögreglu er fært að C hafi rétt verið vaknaður og staðinn upp er ákærði hafi komið inn í herbergið. Ákærði hafi ráðist á C og náð honum niður. Fyrir dómi bar hún hins vegar að C hafi verið búinn að klæða sig er ákærði hafi komið inn í herbergið og að C hafi sennilega átt upptökin að átökum þeirra, en hann hafi sennilega slegið til ákærða. Atburðarásin hafi verið mjög hröð en hún hafi séð ákærða slá C í svefnherberginu í andlitið nokkrum sinnum með krepptum hnefa. Hafi hún farið fram í stofu til að verða ekki sjálf fyrir barsmíðum og því ekki séð framhald átakanna. Hann aftur hafi ráðist á C frammi í stofu. Hafi ákærði þar slegið C með krepptum hnefa í andlitið nokkrum sinnum með þeim afleiðingum að C hafi fallið í gólfið. H neitaði að gefa skýrslu hjá lögreglu. Fyrir dómi bar hann að C hafi átt upphafið af átökum við ákærða og slegið hann að fyrra bragði.
C fór á slysadeild sunnudaginn 12. desember 2004. Í læknisvottorði kemur fram að hann hafi verið með mikla bólgu og mar í kringum hægra auga þannig að það hafi nánast verið sokkið. Hafi hann átt í verulegum erfiðleikum með að opna það. Einnig hafi hann verið með glóðarauga vinstra megin. Skrapsár hafi verið á enni hægra megin. Hafi hann verið með fjölmarga maráverka á hálsi og efri hluta brjóstkassa bæði framan og aftaná. Áverkamerki hafi bent til að hann hafi verið tekinn kröftugu hálstaki og verið laminn endurtekið í brjóstkassa. Komið hafi í ljós brot á ennisbeini yfir ennisskúta hægra megin. Loftbólur innankúpu hafi bent til brots gegnum höfuðkúpu. Einnig brot á kinnbeini yfir kinnbeinsskúta og brot á nefbeini vinstra megin. Ekki verður við annað miðað en að áverka þessa hafi C alla hlotið í átökum við ákærða. Ljóst má vera að ákærði hefur gengið fram af miklu offorsi þetta sinn. Kom ákærði í íbúðina að [..]í fylgd með öðrum karlmanni. Verður að telja ólíklegt að C, sem var nývaknaður í íbúðinni, hafi átt frumkvæði að átökum við ákærða. Er framburður ákærða um það ósennilegur, auk þess sem lítið hald er í framburði vitnisins H sem ekki vildi gefa skýrslu um atvik hjá lögreglu og mætti ekki við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Fær ekki staðist sá framburður H fyrir dómi að hann hafi ekki séð neina áverka á andliti C eftir atlöguna í íbúðinni. Þá hefur framburður B verið á reiki og því ekki að fullu marktækur. Þeir áverkar er C hlaut við árásina og lýst er í áverkavottorði samræmist þeim framburði hans af atvikum að hann hafi verið laminn margsinnis í andlitið með krepptum hnefa og að hann hafi verið tekinn hálstaki. Er að mati dómsins nægjanlega ljóst að ákærði veitti C áverka þá er í ákæru greinir, en þeir eiga undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Verður hann því sakfelldur samkvæmt III. kafla ákæru.
IV. kafli ákæru.
Ákærði hefur játað háttsemi samkvæmt IV. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samræmist gögnum málsins, verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í maí 1977. Samkvæmt sakavottorði var hann í júní 1997 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í júlí 1999 gekkst hann undir sektargreiðslu hjá sýslumanni fyrir brot gegn umferðarlögum. Loks var hann 21. júní 2004 dæmdur í sektargreiðslu fyrir brot gegn umferðarlögum. Brot ákærða í þessu máli eru alvarleg og þá sér í lagi samkvæmt I. og III. kafla ákæru. Var framferði hans einkar ófyrirleitið og ljóst að hann sótti fram gegn einstaklingum sem áttu erfitt með varnir. Með vísan til þessa, sem og 1., 3., 6. og 7. tl., 1. mgr., sbr. og 2. mgr., 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Verður hún að engu leyti skilorðsbundin.
C hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 281.250 krónur. Ekki hefur verið krafist vaxta af fjárhæðinni. Er krafan sundurliðuð þannig að miskabóta er krafist að fjárhæð 250.000 krónur. Þá er krafist 31.250 króna vegna lögmannsaðstoðar. Kærandi á rétt á miskabótum. Með hliðsjón af þeim alvarlegu áverkum er hann hlaut og lýst er í læknisvottorði sem höfðu í för með sér veruleg óþægindi þykja þær hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða kæranda kostnað, sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Lögmannskostnaður telst hæfilega ákveðinn 31.250 krónur.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 0,53 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Júlíus Sverrir Sverrisson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði C, kt. [..], 200.000 krónur í skaðabætur og 31.250 krónur í lögmannskostnað.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 0,53 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði 249.040 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns 199.040 krónur.