Print

Mál nr. 136/2003

Lykilorð
  • Samkeppni
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldssekt

Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. desember 2003.

Nr. 136/2003.

Heilsa ehf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

samkeppnisráði

(Karl Axelsson hrl.)

 

Samkeppni. Stjórnsýsla. Stjórnvaldssektir.

Talið var að með ófullnægjandi verðmerkingum í verslun H ehf. hafi félagið brotið gegn 31. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. einnig 5. gr. reglna um verðmerkingar nr. 580/1993. Staðfest var niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sektargreiðslu H ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2003. Hann krefst þess aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 1. ágúst 2002 í málinu nr. 13/2002: Heilsa ehf. gegn samkeppnisráði. Til vara krefst áfrýjandi þess að úrskurðinum verði breytt þannig að felld verði úr gildi stjórnvaldssekt að fjárhæð 400.000 krónur, sem áfrýjanda var gert að sæta með honum. Að því frágengnu er þess krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að sektin verði lækkuð. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með ákvörðun samkeppnisráðs 31. maí 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að með ófullnægjandi verðmerkingum í verslun áfrýjanda að Skólavörðustíg 12 í Reykjavík hafi verið brotið gegn 31. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. einnig 5. gr. reglna um verðmerkingar nr. 580/1993. Var áfrýjanda jafnframt gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 400.000 krónur. Áfrýjandi kærði þessa ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem staðfesti hana með úrskurði sínum 1. ágúst 2002. Höfðaði áfrýjandi síðan málið með stefnu 24. september 2002 til að fá úrskurðinn felldan úr gildi, en að öðrum kosti breytt þannig að sektin yrði felld niður eða lækkuð. Málavextir eru nánar raktir í héraðsdómi, sem og málsástæður aðilanna.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti gaf Kristín Færseth, starfsmaður hjá samkeppnisstofnun, skýrslu fyrir héraðsdómi, en hún hafði einnig gefið skýrslu við aðalmeðferð málsins í héraði. Hefur endurrit skýrslutökunnar verið lagt fyrir Hæstarétt.æstaHHHHHHæstskjfjkeikjjdjkjkjiekjiek Taldi áfrýjandi nauðsyn bera til að spyrja vitnið nánar um atriði, sem kom fram hjá því við fyrri skýrslugjöf, og laut að óformlegri undanþágu, sem veitt hafi verið um 1990 þess efnis að verð vöru mætti merkja á hillur í stað þess að varan sjálf væri verðmerkt. Verður ekki séð að þessi gagnaöflun áfrýjanda skipti máli við úrlausn um ágreining aðilanna.

II.

Samkvæmt 31. gr. samkeppnislaga skal fyrirtæki, sem selur vörur til neytenda, merkja vöru sína með söluverði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Er samkeppnisstofnun jafnframt veitt heimild í lagagreininni til að setja nánari ákvæði um verðmerkingar með opinberri tilkynningu. Það hefur stofnunin gert með reglum um verðmerkingar nr. 580/1998. Er tekið fram í 3. mgr. 5. gr. þeirra að verðið skuli setja á vöruna sjálfa, á viðfestan miða eða á umbúðirnar. Ef ekki sé unnt að gera þetta megi verðmerkja með hillumerki, skilti eða verðlista, enda sé ávallt tryggt að neytendur eigi auðvelt með að sjá merkið. Efni reglnanna er nánar rakið í héraðsdómi.

Áfrýjandi verðmerkti hluta söluvarnings síns ekki með þeim hætti, sem mælt er fyrir um í samkeppnislögum og áðurnefndum reglum. Þess í stað kom hann fyrir í verslun sinni svokölluðum verðskanna, en með því að bera strikamerkingu á söluhlut að skannanum kom söluverð hlutarins fram á honum. Þessi aðferð áfrýjanda gat ekki komið í stað þeirra aðferða við verðmerkingar, sem lög og reglur mæla fyrir um, þar sem grundvallaratriði er að verð hverrar vöru sé sýnilegt. Ekki er heldur hald í þeirri málsvörn áfrýjanda að skanninn sé ígildi verðlista, sem getið sé um í reglum nr. 580/1998. Ekki er í ljós leitt að meðferð á máli áfrýjanda hafi verið áfátt hjá stjórnvöldum. Þá gaf samkeppnisstofnun áfrýjanda ítrekað kost á að bæta úr því, sem úrskeiðis fór hjá honum áður en málinu var vísað til samkeppnisráðs, án þess að því væri sinnt á nokkurn hátt. Að því virtu, sem að framan er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður niðurstaða hans staðfest um annað en málskostnað. Verður áfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Heilsa ehf., greiði stefnda, samkeppnisráði, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2003.

                Mál þetta var höfðað 25. september 2002 og dómtekið 10. þ.m.

Stefnandi er Heilsa ehf., Sundaborg 1, Reykjavík.

Stefndi er samkeppnisráð, Rauðarárstíg 10, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 1. ágúst 2002 í máli nr. 13/2002; Heilsa ehf. gegn samkeppnisráði, verði felldur úr gildi.

Varakrafa stefnanda er að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 1. ágúst 2002 í máli nr. 13/2002; Heilsa ehf. gegn samkeppnisráði, verði breytt þannig að felld verði úr gildi stjórnvaldssekt að fjárhæð 400.000 krónur.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnis­mála frá 1. ágúst 2002 í máli nr. 22(svo)/2002; Heilsa ehf. gegn samkeppnisráði, verði breytt þannig að stjórnvaldssekt að fjárhæð 400.000 krónur verði lækkuð.

Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Samkeppnisstofnun sendi stefnanda bréf, dags. 18. apríl 2002, þar sem segir að ábendingar hafi borist um ófullnægjandi verðmerkingar  í verslun hans, Heilsuhúsinu, Skólavörðustíg 12, Reykjavík.  Stofnunin hafi kannað hvernig staðið væri að verðmerkingum í versluninni og í ljós hafi komið að verulega hafi skort á að allar vörur væru verðmerktar.  Í bréfinu er bent á að samkvæmt 31. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 séu fyrirtæki skylduð að lögum til að verðmerkja vörur eða þjónustu, sem seld sé til neytenda, þannig að auðvelt sé fyrir þá að sjá verðmerkinguna.  Jafnframt er bent á að viðurlög við brotum á nefndri grein hafi verið hert til muna með breytingu sem hafi tekið gildi 6. desember 2000, sbr. 51. gr. laganna.  Var stefnanda gefinn frestur til 6. maí s.á. til þess að koma verðmerkingum í verslun sinni í rétt horf. 

Stefnandi sendi framangreint bréf til Samtaka verslunarinnar með bréfi, dags. 19. apríl 2002.  Þar segir m.a. að hjá Samkeppnisstofnun “virðast menn ekki líta svo á að skanninn dugi, gagnstætt því sem við höfðum lesið út úr reglugerðinni.”  Þess er  síðan farið á leit að Samtök verslunarinnar sendi erindi til Samkeppnisstofnunar og skýri sjónarmið sín á reglugerðarákvæðinu.  Samtök verslunarinnar sendi Sam­keppnis­­­stofnun símbréf, dags. 17. maí 2002, þar sem segir að stefnandi hafi valið þá leið varðandi verðmerkingar í Heilsuhúsinu að setja upp strikamerkjaskanna í stað beinna verðmerkinga í hillum.  Þeim tilmælum er beint til stefnda að reglur um verð­merkingar vara verði túlkaðar rúmt en ekki verði séð að reglur um verðmerkingar komi í veg fyrir ofangreinda aðferð.

Í stefnu er aðstæðum lýst á þessa leið:  “Um var að ræða 3 rekka þar sem aðallega voru vörur í flöskum, glösum og pakkamatur s.s. þurrkaðir ávextir og pasta.  Lengd rekkanna var á bilinu 2,7 – 4,5 metrar og heildarbreidd þeirra var ca. 3,7 metrar og því var um að ræða vörur í rekkum á samtals um eða innan við 12 fermetra svæði.  Allar aðrar vörur voru verðmerktar með merkimiðum á hillum eins og gert er nánast allsstaðar annars staðar þar sem matvörur eru seldar í smásölu.” 

Í bréfi Samkeppnisstofnunar til stefnanda 8. maí 2002 er vísað til framan­greinds bréfs, dags. 18. apríl s.á.  Síðan segir að samkvæmt athugun 7. maí hafi ekki verið farið að tilmælum stofnunarinnar um að koma verðmerkingum í rétt horf.  Virðist verðmerkingarnar brjóta í bága við 31. gr. samkeppnislaga og sbr. 5. gr. reglna um verðmerkingar nr. 580/1998.  Stefnanda er að lokum gefinn kostur á að koma að athugasemdum eða skýringum fyrir kl. 16 þ. 15 maí en að þeim tíma liðnum verði málið lagt fyrir samkeppnisráð (stefnda í máli þessu) til ákvörðunar og megi búast við að viðurlögum samkvæmt 51. gr. samkeppnislaga verði beitt.

Í greinargerð stefnda segir  að starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafi farið í þriðja sinn á vettvang í verslun stefnanda þann 17. maí.  Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli til stefnanda um úrbætur hafi ekki enn verið búið að koma verðmerkingum í rétt horf.  Málið hafi því verið sent til samkeppnisráðs.

Ákvörðun stefnda nr. 22/2002 frá 31. maí 2002 ber fyrirsögnina “Ófull­nægjandi verðmerkingar Heilsuhússins.”  Ákvörðunarorð eru svohljóðandi:

“Verðmerkingar í versluninni Heilsuhúsinu við Skólavörðustíg 12, Reykjavík brjóta gegn 31. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. 5. gr. reglna um verðmerkingar nr. 580/1998.

Með heimild í 51. gr. samkeppnislaga skal Heilsa ehf. greiða stjórnvaldssekt að upphæð kr. 400.000.

Sektin skal greiðast ríkissjóði eigi síðar en þremur mánuðum eftir dagsetningu þessarar ákvörðunar.”

Samtök verslunarinnar kærðu framangreinda ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála með bréfi 27. júní 2002.  Samkeppnisráð skilaði greinargerð og stefnanda var gefinn frestur til að koma að athugasemdum sem Samtök verslunarinnar gerðu f.h. stefnanda með bréfi 29. júlí 2002.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála kvað upp úrskurð 1. ágúst 2002 (mál nr. 13/2002).  Í úrskurðinum segir m.a. að áfrýjunarnefnd samkeppnismála fallist á rök samkeppnisráðs í hinn áfrýjuðu ákvörðun fyrir því að verðmerkingar með svonefndum skönnum fullnægi ekki 31. gr. samkeppnislaga sbr. 5. gr. reglna nr. 580/1998.  Beri því að staðfesta hina áfrýjuðu ákvörðun um þetta atriði.  Þá telji nefndi ákvörðun sektarfjárhæðar vera í hóf stillt miðað við atvik málsins og  er hún staðfest svo og gjalddagi hennar.

Örn Svavarsson, aðaleigandi stefnanda, bar fyrir dóminum að strikamerkja­skönnun, sem um ræðir, hafi tekið til varnings í þremur frístandandi rekkum með tveimur göngum á milli þeirra.  Áberandi skanni hafi verið á gafli miðhillu, rækilega merktur og blasað við viðskiptavinum.  Varan hafi verið sett undir skannann sem hafi lesið verðið á einni vöru í einu.  Þetta hafi verið skemmtileg nýjung sem hafi verið komið á við opnun verslunarinnar 1. september 2001 og yfirleitt mælst vel fyrir.  Hann kvað skannann hafa átt að þjóna sem verðlisti,  þ.e. rafrænn verðlisti, beintengdur við vörulagerskerfi verslunarinnar og kvaðst hann hafa talið sig ekki þurfa undanþágu.  Hann kvaðst ekki hafa verið í vafa um hvaða vörur átt var við í bréfi stefnda 18. apríl 2002.  Eftir móttöku síðara bréfsins, 8. maí 2002, hafi hann beðið verslunarstjórann um að verðmerkt yrði á venjulegan hátt.

Þrír starfsmenn Samkeppnisstofnunar báru vætti við aðalmeðferð málsins; Kristín Færseth deildarstjóri, sem ritaði framangreind bréf til stefnanda, og fulltrúarnir Kristín Margrét Hafsteinsdóttir og Steinunn Friðriksdóttir.

Kristín Færseth kvað sér hafa borist tvær kvartanir í byrjun mars 2002 varðandi verðmerkingar í verslun stefnanda og hafi verið farið á staðinn.  Í ljós hafi komið að allar vörur, sem hafi verið á járnhillum, hafi verið óverðmerktar.

Kristín Margrét Hafsteinsdóttir kvað Kristínu Færseth hafa sent sig að athuga verðmerkingar í verslun stefnanda Skólavörðustíg 12 vegna kvörtunar.  Hún kvaðst hafa farið fimm sinnum í verslunina.  Verðmerkingar hafi ekki verið í lagi í járnhillum á gólfinu en hins vegar hafi allar vörur verið verðmerktar á tréhillum á veggjum.   Hún kvaðst hafa látið vita hvaða vörur um var að  ræða og skilið eftir reglur.  Hún kvað umræddan verðskanna hafa verið áberandi, beint á móti þegar inn var komið, og hafi hann sýnt verð vöru.

Steinunn Friðriksdóttir kvaðst hafa farið a.m.k. tvisvar með Kristínu Margréti Hafsteinsdóttur í verslun stefnanda.  Á járnhillum (- rekkum) hafi allar vörur verið ómerktar.  Um hafi verið að ræða meira en helming af hilluplássi í versluninni og sennilega allt að því helming alls varnings.  Hún kvað starfsmönnum verslunarinnar hafa verið gert kunnugt hvaða vörur um var að ræða og þeim afhentar reglur um verð­merkingar.  Hún kvað verðskannann hafa verið áberandi þegar bent var á hann en slíkir skannar séu ekki notaðir hér á landi og fólk þekki þá ekki.

Samkvæmt 31. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 skal fyrirtæki, sem selur vörur eða þjónustu til neytenda, merkja vöru sína og þjónustu með söluverði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það.  Samkeppnisstofnun getur sett nánari ákvæði um verðmerkingar með opinberri tilkynningu.

Í 2. gr. reglna um verðmerkingar nr. 580/1998 segir m.a.:  “Skylt er að verðmerkja vöru og þjónustu með söluverði.  Veðmerking skal vera skýr svo greinilegt sé til hvaða vöru verðmerkingin vísar.  Auðvelt á að vera að sjá verð vöru og þjónustu á sölustað.  Ef fleiri en ein verðmerking er á vöru skal koma skýrt fram hvaða verð neytendur eiga að greiða.”  Í 5. gr. segir m.a.:  “Verðið skal setja á vöruna sjálfa, á viðfestan miða eða á umbúðirnar.  Ef framangreint er ekki hægt má verðmerkja með hillumerki, skilti eða verðlista enda sé ávallt tryggt að neytendur eigi auðvelt með að sjá verðið.  Auk söluverðs er skylt að gefa upp mælieiningarverð samkvæmt reglum sem gilda þar um.”  Samkvæmt 7. gr. getur Samkeppnisstofnun veitt undanþágu frá reglum þessum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Aðalkrafa stefnanda er í fyrsta lagi byggð á því að ákvörðun stefnda, dags. 31. maí 2002, hafi verið haldin svo miklum ágöllum að ekki verði við unað af stjórnvaldi sem hafi alla möguleika á að rannsaka og tilgreina málsatvik með nákvæmum hætti.  Beri að taka kröfuna til greina þegar af þeirri ástæðu að verulega skorti á tilgreiningu málsatvika, ætlaðs brot stefnanda og rökstuðning.  Í stefnu segir síðan að stefnandi viti ekki betur en að ákvörðun stefnda hafi einvörðungu lotið að merkingu á söluvörum í hinum þremur frístandandi rekkum í versluninni Heilsuhúsinu sem hafi verið verðmerktar þannig að bera þurfti þær undir skanna, sem áfastur var miðjurekkanum, til að sjá verð þeirra.  Aðalkrafa stefnanda er einnig reist á því, annars vegar að vörurnar hafi verið merktar söluverði, hið eina sem þurft hafi að gera hafi verið verið að bera þær undir skannann, og hins vegar að skanninn sé ekkert annað en rafrænn verðlisti og falli hvað sem öðru líður undir hugtakið “verðlisti” í skilningi 5. gr. reglna nr. 580/1998.  Þá er á því byggt að óhjákvæmilegt sé að skýra hinar framangreindu “sérstöku reglur um tilgreiningu verðs” með hliðsjón af 4. gr. tilskipunar nr. 79/581/EB (“Söluverð, sem birt er á sölustað, verður að vera einfalt að átta sig á og skýrlega læsilegt.  Sérhver samkeppnisyfirvöld geta sett sérstakar reglur um tilgreiningu verðs”) svo og tilskipun 98/6/EB, sem hafi leyst hina fyrri af hólmi, um til­slakanir varðandi kröfur til verðmerkinga í smáum fyrirtækjum.

Varakrafa og þrautavarakrafa stefnanda eru á því byggðar að augljóst sé að sektarákvörðunin brjóti gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda hefði Sam­keppnis­stofnun eða eftir atvikum stefndi augljóslega getað náð sama markmiði með öðru og vægara móti.   Kröfurnar verða einnig taldar byggjast á því að stefnda hefði verið í lófa lagið að eyða óvissu með því  að gera breytingu á reglum nr. 580/1998 sem kvæði skýrt og greinilega á um að verðmerkingar af því tagi, sem stefnandi viðhafði, væri ekki nægileg.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að ákvörðun hans hafi verið haldin ágöllum.  Þá verði með engu móti séð á hvern hátt rannsókn Samkeppnisstofnunar hafi verið ábótavant.  Bæði stefndi og áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi komist að þeirri niðurstöðu að notkun verðskanna á borð við þann, sem stefnandi hafi notað, brjóti í bága við 31. gr. samkeppnislaga og 5. gr. reglna um verðmerkingar.  Verðskanni, eins og hér um ræðir, teljist ekki miði eða umbúðir í skilningi reglugerðarinnar og ekki heldur hillumerki eða skilti.  Einnig sé ljóst að hann geti ekki fallið undir hugtakið verðlisti í skilningi reglna um verðmerkingar.  Stefndi kveður tilskipun nr. 79/58/EB ekki hafa þýðingu í máli þessu þar sem reglur nr. 580/1998 hafi verið settar í september 1998 með stoð í samkeppnislögum og með hliðsjón af tilskipun nr. 98/6/EB frá 16. febrúar 1998.  Þá er því haldið fram að jafnvel þótt talið yrði að verðskanninn félli undir hugtakið verðlisti sé engu að síður um brot að ræða þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að ómögulegt hafi verið að nota viðfestan miða á vöruna sjálfa eða umbúðir hennar.

Varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda er mótmælt af hálfu stefnda sem og þeim sjónarmiðum sem kröfurnar byggjast á og verði ekki séð hvernig sektarákvæði samkeppnisyfirvalda hafi getað brotið í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. 

Forsvarsmönnum stefnanda var ljóst umfang og eðli þeirrar háttsemi sem honum var gefin að sök af Samkeppnisstofnun þegar við upphaf afskipta hennar.  Grein var gerð fyrir  sjónarmiðum og skýringum stefnanda áður en ákvörðun stefnda (nr. 22/2002) var tekin 31. maí 2002 og enn frekar áður en kom til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála (nr. 13/2002) 1. ágúst 2002. 

Málsatvik eru ljós og óumdeild.  Þau eru rakin og niðurstöður rökstuddar á fullnægjandi hátt í framangreindri ákvörðun og úrskurði.

Enginn vafi, sem þörf hafi verið að eyða, leikur á því að verðskanni telst ekki  merking á miða eða umbúðir, hillumerki eða skilti í skilningi reglna nr. 580/1998.  Ekki þarf að leysa úr því hvort verðskanninn geti talist “verðlisti” þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að ógerlegt hafi verið nota viðfestan miða á vöruna sjálfa eða umbúðir hennar.

Af hálfu stefnanda hefur ekki verið bent á neitt ákvæði í tilskipunum nr. 79/581/EB og 98/6/EB, sem hugsanlega þýðingu gætu haft við úrlausn málsins, en um “tilslakanir varðandi kröfur til verðmerkinga í smáum fyrirtækjum” virðist skírskotað til 6. gr. hinnar síðargreindu tilskipunar.  Þar er kveðið á um að aðildarríki geti kveðið á um að ekki sé skylt að tilgreina einingarverð vara, sem eru seldar í litlum smásölu­fyrirtækjum, ef það skapar óhóflegt álag.

Eigi er fallist á að það brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að lögð var  stjórnvaldssekt á stefnanda samkvæmt 51. gr. samkeppnislaga, sem kveður á um sektir allt að 10 millj. kr., eða að hún skyldi ekki vera ákvörðuð lægri upphæð en 400.000 krónur.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 400.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

                Stefndi, samkeppnisráð, er sýknaður af kröfum stefnanda, Heilsu ehf.

                Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.