Hæstiréttur íslands
Mál nr. 448/2008
Lykilorð
- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
|
|
Fimmtudaginn 19. mars 2009. |
|
Nr. 448/2008. |
Franklín Kristinn Stiner(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Trausta Hafsteinssyni og Sigurjóni Magnúsi Egilssyni (Jón Magnússon hrl.) |
Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi.
F höfðaði mál á hendur T og S vegna ummæla, um að hann hafi haft vörslur fíkniefna og selt þau og verið umsvifamikill í þeirri sölu, sem birtust í dagblaðinu Blaðinu. Krafðist F þess að ummælin yrðu ómerkt og honum dæmdar miskabætur og fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum. Talið var að T og S bæru ábyrgð á ummælunum í Blaðinu sem höfundar greina sem þau birtust í, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Var talið að ummælin snéru öll að atvikum sem hafi gerst fyrir um áratug og hafi öll vísað til F í þátíð. Hafi sum ummælanna verið sama efnis og hafi birst um F í öðru tímariti 1997. Ekki var talið unnt að fallast á að ummælin væru hreinn uppspuni og tilhæfulaus þar sem fyrir lá að F hafði ítrekað verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni. Yrðu ummælin ekki talin óviðurkvæmileg og til þess fallin að sverta ímynd F, þegar fyrir lægi hvaða ímynd hann hefði sjálfur skapað sér með háttsemi þeirri sem hann hafi verið margdæmdur fyrir. Þá hafi greinarnar að meginstefnu fjallað um starfsaðferðir lögreglu og F nefndur í dæmaskyni um þær. Hafi sú umræða verið þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og átt þannig erindi til almennings. Var kröfum F um ómerkingu því hafnað og T og S sýknaðir af kröfum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. júní 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 23. júlí 2008 og var áfrýjað öðru sinni 15. ágúst 2008. Áfrýjandi krefst þess að nánar tilgreind ummæli í dagblaðinu Blaðinu 9., 10. og 11. nóvember 2006 verði dæmd dauð og ómerk og að stefndu verði hvor um sig dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2006 til 28. júlí 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða sér 480.000 krónur til þess að standa straum af kostnaði við birtingu forsendna og dómsorðs í málinu í tilteknum dagblöðum. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Franklín Kristinn Stiner, greiði stefndu, Trausta Hafsteinssyni og Sigurjóni Magnúsi Egilssyni, hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2008.
Mál þetta sem dómtekið var 22. febrúar sl. er höfðað með birtingu stefnu 21. júní 2007.
Stefnandi er Franklín Kristinn Stiner, Austurgötu 27b, Hafnarfirði.
Stefndu eru Trausti Hafsteinsson, Æsuborgum 1, Reykjavík og Sigurjón Magnús Egilsson Perlukór 3a, Kópavogi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til F, sem er að finna í opnugrein á blaðsíðum 20 og 29 í dagblaðinu Blaðinu, fimmtudaginn 9. nóvember 2006, sem stefndi Trausti Hafsteinsson er höfundur að, verði dæmd dauð og ómerk:
A .„Mesti fíkniefnasali landsins vann í skjóli lögreglunnar“
B „Þeir voru grunaðir um að hafa verið í upplýsinga- og trúnaðarsambandi við fíkniefnasalann Franklín K. Steiner og í skjóli þess hafi hann náð að verða umsvifamesti eiturlyfjasali landsins.“
C .„Þrátt fyrir að Franklín Steiner væri einn umsvifamesti eiturlyfjasali landsins hafði fíkniefnadeildin lítil afskipti af honum.“
D „15. febrúar 1988 var gerð húsleit heima hjá Franklín Steiner þar sem fundust 134 grömm af hassi og 4 grömm af amfetamíni. Við yfirheyrslur viðurkenndi hann að eiga efnin.“
E .„Heimildarmenn Mannlífs og Blaðsins fullyrða að allt hafi verið vaðandi í fíkniefnum á heimili hans og því sé útilokað að engin efni hafi fundist.“
F .„Ég veit að það hafa verið fjölmörg tækifæri til að taka Franklín með fangið fullt af fíkniefnum.“
2. Þess er einnig krafist að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem er að finna í opnugrein á blaðsíðum 18 og 19 í dagblaðinu Blaðinu, föstudaginn 10. nóvember 2006, sem stefndi Trausti Hafsteinsson er höfundur að, verði dæmd dauð og ómerk:
A. „Franklín Steiner var stöðvaður í miðbænum, af umferðarlögreglunni, með fullan bíl af fíkniefnum. Hann fékk hins vegar að hringja símtal og í kjölfarið hafði yfirmaður fíkniefnadeildarinnar samband við lögregluþjónana. Franklín var sleppt í kjölfarið og keyrði burtu með efnin, ...“
3. Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem er að finna á blaðsíðu 2 í dagblaðinu Blaðinu, laugardaginn 11. nóvember 2006, sem stefndi Trausti Hafsteinsson er höfundur að, verði dæmd dauð og ómerk:
A. „Hið óeðlilega við handtökuna var að drengurinn hafði nefnilega upphaflega keypt fíkniefnin af Franklín en hann var algjörlega friðhelgur.“
4. Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem er að finna í leiðara á blaðsíðu 14 í dagblaðinu Blaðinu, fimmtudaginn 9. nóvember 2006, sem stefndi Sigurjón M. Egilsson er höfundur að, verði dæmd dauð og ómerk:
A. „ ... Franklín Steiner, afkastamikill fíkniefnasali, ...“
Gerð er krafa um að stefndu, verði hvor um sig dæmdur til að greiða stefnanda krónur 1.000.000,- í miskabætur og beri dómkröfurnar vexti frá 11. nóvember 2006 til 28. júlí 2007, en dráttarvexti frá þeim degi skv. IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, til greiðsludags.
Þess er einnig krafist stefndu, verði in solidum, dæmdir til að greiða stefnanda krónur 480.000, til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í þremur dagblöðum.
Þá er þess einnig krafist að stefndu verði dæmdir, in solidum, til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.
Stefndi, Trausti, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi, Sigurjón, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málsatvik.
Í máli þessu er krafist ómerkingar ummæla sem birtust í umfjöllun Blaðsins um óhefðbundnar starfsaðferðir lögreglu, í nóvember 2006. Í umfjöllun þessari var stefnanda getið, sem og nokkurra lögreglumanna. Þar er fjallað um að fyrir tíu árum hafi farið fram ítarleg rannsókn á starfsemi lögreglunnar í Reykjavík þar sem fjörutíu lögreglumenn hefðu haft stöðu grunaðra vegna meints upplýsinga- og trúnaðarsambands við stefnanda og í skjóli þess hafi stefnandi náð að verða umsvifamesti fíkniefnasali landsins. Þar er einnig greint frá umfjöllun tímaritsins Mannlífs, undir ritstjórn Hrafns Jökulssonar, frá 1997, sem orðið hafi til þess að þáverandi dómsmálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, hafi skipað sérstakan rannsóknarlögreglustjóra, Atla Gíslason hrl., sem skilað hafi skýrslu til ríkissaksóknara. Greint er frá heimildum um að stefnandi hafi hlotið sérstaka meðferð hjá lögreglu og verið hlíft við handtöku, jafnvel þótt fyrir lægi að hann hefði í vörslum sínum fíkniefni. Þau ummæli sem krafist er ómerkingar á, vísa öll til fortíðar og þeir atburðir sem skýrt er frá í umfjöllun Blaðsins eru hluti af atburðarás sem á að hafa átt sér stað fyrir meira en tíu árum síðan.
Málástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveður öll þau ummæli sem krafist er ómerkingar á, varða við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Ljóst sé að ummæli stefndu séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.
Varðandi miskabótakröfu sína bendir stefnandi á að tilvitnuð ummæli stefndu, sem viðhöfð hafi verið í dagblaðinu Blaðinu, hafi fengið mjög á stefnanda andlega, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða, sem bæði séu rangar og bornar fram án þess að stefndu hafi nokkuð haft fyrir sér. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki sem og æra hans og persóna, þar sem því sé haldið fram um stefnanda að hann sé mesti fíkniefna- og eiturlyfjasali landsins og allt hafi verið vaðandi í fíkniefnum á heimili hans og í bifreið hans.
Sú háttsemi stefndu að bera út þau ósannindi um stefnanda að hann sé stærsti eiturlyfja- og fíkniefnasali landsins og það að heima hjá honum og í bifreið hans sé allt vaðandi í fíkniefnum hafi valdið stefnanda umtalsverðu tjóni. Fjöldi fólks lesi dagblaðið Blaðið, sem er dreift frítt um allt land og því hafi útbreiðsla ummæla sem stefndu hafi viðhaft um stefnanda verið mikil og náð til fjölda fólks, enda ummælin endurtekin. Blaðið sé gefið út í hagnaðarskyni og hvatinn að baki frétt stefndu einungis aukin hagnaðarvon. Almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna standi því til þess að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur. Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á miskabótum vísi stefnandi einnig til grunnraka að baki 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga.
Um málsaðild er vísað til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt varðandi varnaraðild stefndu, Trausta Hafsteinssonar og Sigurjóns M. Egilssonar, en þeir séu ótvírætt höfundar þeirra ummæla sem krafist sé ómerkingar á.
Málsástæður og lagarök stefnda, Sigurjóns.
Stefndi, Sigurjón, bendir á að í málinu sé krafist ómerkingar ákveðinna ummæla sem segir í stefnu að meðstefndi, Trausti Hafsteinsson, beri ábyrgð á. Það eigi við um stefnukröfur samkvæmt 1., 2. og 3. tölulið stefnu en auk þess er þess krafist að ummæli í leiðara stefnda, Sigurjóns, 9. nóvember 2006, þar sem vísað er í skýrslu nafngreinds lögreglumanns „Franklín Steiner, afkastamikilli fíkniefnasali“ verði dæmd dauð og ómerk. Þá er þeim dómkröfum einnig beint að stefnda, Sigurjóni, að honum verði gert að greiða stefnanda miskabætur, vegna birtingar dóms í máli þessu og til greiðslu málskostnaðar. Bendir stefndi, Sigurjón, á að miðað við málatilbúnað í stefnu sé ekki vikið að því að stefndi, Sigurjón, beri ábyrgð á ummælum sem tilgreind eru í töluliðum 1-3 í stefnu. Kröfugerð stefnanda hvað varðar þessa töluliði stefnu vísi eingöngu til meðstefnda, Trausta, í málinu og séu því ekki rök til þess að fjallað verði um þær kröfur vegna stefnda, Sigurjóns. Varðandi kröfu um að ummæli í kröfulið 4(A) verði dæmd dauð og ómerk þar sem fjallað er um stefnanda sem afkastamikinn fíkniefnasala, þá séu þau orð ekki stefnda, Sigurjóns, heldur sé um beina orðrétta tilvitnun í skýrslu nafngreinds lögregluþjóns að ræða. Fyrir liggi að stefnandi hafi hlotið refsidóma og ítrekað verið ákærður fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni þannig að stefndi, Sigurjón, telji að þau ummæli sem höfð eru eftir nafngreindum lögreglumanni í leiðara hans eigi við full rök að styðjast og sé raunsönn frásögn af málum eins og þau komu þeim lögreglumanni sem vísað var til fyrir sjónir.
Eigi að dæma ummælin dauð og ómerk hefði því verið þörf á að stefna lögreglumanninum til að þola ómerkingu ummæla sinna. Kröfu stefnanda í málinu hvað þetta varði sé því beint að röngum aðila og hefðu átt að beinast að þeim sem ummælin viðhafði en ekki þeim sem vísi til þeirra með beinni tilvísun orðrétt.
Að öðru leyti standi stefndi við þau ummæli sem krafist er ógildingar á og telji þau rétt miðað við þær upplýsingar, sem sá sem viðhafði ummælin bjó yfir, þegar hann viðhafði ummælin. Að ætla sér að ómerkja ummæli þessi eins og krafist er af stefnanda feli í sér kröfu um að dómurinn ómerki niðurstöðu fjölmargra refsidóma sem stefnandi hafi hlotið fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni.
Af ofangreindum ástæðum er krafist sýknu af þeirri kröfu stefnanda að ummæli sem stefndi, Sigurjón, viðhafði í umræddum leiðara sbr. kröfulið 4 (A) verði ómerkt.
Hvað miskabótakröfu varði hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir miska. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu stefnanda. Þá sé stefna í málinu byggð upp með þeim hætti að greint er á milli þátta og aðkomu stefndu hvors um sig og ljóst að þáttur þeirra í málinu og ábyrgð er með mismunandi hætti. Þess er hins vegar krafist að báðir stefndu verði dæmdir in solidum til miskabóta en þess ekki getið á hvaða rökum eða sjónarmiðum solidarísk ábyrgð stefndu gæti birst. Í stefnu er ekki byggt á því að stefndi, Sigurjón, beri ábyrgð á þeim ummælum sem höfð eru eftir og krafist ómerkingar á, í greinum meðstefnda, Trausta, og af sjálfu leiði að þegar af þeirri ástæðu sé krafa um solidaríska ábyrgð á miskabótakröfu órökrétt og beri að hafna henni.
Af hálfu stefnda, Sigurjóns, sé að öðru leyti vísað til þess að í ummælum hans í tilgreindum leiðara komi ekki annað fram en það sem hafi ítrekað verið vísað til í fjölmiðlum um stefnanda auk þess sem það sé haft eftir í beinni tilvísun í orð nafngreinds lögreglumanns. Ekki verði séð að stefnandi hafi orðið fyrir miska vegna þeirra ummæla sem stefndi, Sigurjón, vísi til í leiðaranum, m.a. vegna þess að þau ummæli hafi áður verið viðhöfð á prenti og það ítrekað. Stefndi hafi því ekki vegið að æru stefnanda.
Stefnandi hafi hlotið refsidóma fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni fyrir sölu og dreifingu ólöglegra fíkniefna. Þeir dómar séu opinberir og aðgengilegir. Því sé ekki ljóst á hvaða grunni stefnandi byggi kröfu sína um miskabætur á hendur stefndu vegna ummæla og atriða sem almennt eru þekkt eða auðvelt er að afla sér upplýsinga um í opinberum gögnum hvað stefnanda varði. Af ofangreindum ástæðum er krafist sýknu af miskabótakröfu stefnanda.
Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar til birtingar dóms í máli þessu. Ítrekað hafi kröfum sem þessum verið hafnað og ljóst að í nútíma fjölmiðlun fái dómur í máli sem þessu umfjöllun.
Þá bendir stefndi á að þess sé krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu ofangreindrar fjárhæðar til birtingar dómsins en sú krafa sé með engum hætti rökstudd. Ekki sé eðlilegt að dæma stefndu in solidum að neinu leyti í máli þessu vegna þess að aðkoma þeirra að málinu sé með mismunandi hætti.
Varðandi málsaðild vísi stefnandi til 15. gr. laga um prentrétt og er í því sambandi vísað til þess að stefndi sé ótvíræður höfundur þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á. Stefndi kveðst ekki vera höfundur þeirra ummæla heldur nafngreindur lögreglumaður og krafa um ómerkingu ummælana beinist því að röngum aðila. Í stefnu sé því haldið fram að stefndu beri refsi- og fébótaábyrgð á efni umfjöllunar í dagblaðinu Blaðinu svo sem vísað er til í stefnu. Í stefnu sé ekki krafist refsingar og komi slíkt því ekki til álita í málinu. Þá sé hvergi í málatilbúnaði stefnanda vísað til þess að stefndi beri sérstaka ábyrgð sem ritstjóri og ábyrgðarmaður Blaðsins á þeim tíma sem umfjöllun þessi var í Blaðinu. Af þeim sökum sé ekki fjallað um atriði sem gætu tengst ábyrgð stefnda sem ritstjóra og ábyrgðarmanns. Auk heldur væri það fráleitt þar sem ákveðinn blaðamaður nafngreini sig sem höfund þeirrar umfjöllunar sem um ræðir.
Það sem beinist að stefnda séu því einungis tilvísuð ummæli í leiðara og fráleitt að stefndi beri refsi- og fébótaábyrgð á tilvitnuðum ummælum í lögregluskýrslu svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda í málinu.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að sú umfjöllun sem hann viðhafði og ber ábyrgð á sé innan marka þess tjáningarfrelsis sem markað er í stjórnarskrá lýðveldisins og að sú umfjöllun hafi hvergi farið út fyrir þau mörk sem tjáningarfrelsinu eru sett í lýðfrjálsu landi hvað varði opinbera umfjöllun um atriði sem eigi erindi til almennings.
Málsástæður og lagarök stefnda, Trausta.
Sýknukrafa stefnda, Trausta, byggir á því að hann hafi greint frá þeim staðreyndum sem hann aflaði sem blaðamaður og hvergi hallað réttu máli. Stefndi kveður að texti blaðagreinarinnar að undanskildum fyrirsögnum og myndatextum séu staðreyndir sem hann hafi traustar heimildir fyrir. Í þessu efni gildi því reglan exceptio veritas og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Í grein þeirri sem stefndi skrifaði og birtist í Blaðinu 9. til 11. nóvember 2006 sé fjallað um mál sem hafði verið til umfjöllunar um það bil 10 árum áður og ástæða umfjöllunar Blaðsins þ. 9., 10., og 11. nóvember 2006 hafi verið að rifja upp atriði sem urðu vegna þess að lögreglan var talin hafa beitt óhefðbundnum rannsóknaraðferðum við rannsókn sakamála þ.á.m. mála sem tengdust stefnanda. Þau mál fóru í hámæli á þeim tíma og meginefni greinar stefnda er í samræmi við það sem á þeim tíma kom fram í fjölmiðlum á þeim tíma. Krafa stefnanda nú um ómerkingu ummæla í grein stefnda varði í nánast öllum tilvikum atriði sem áður höfðu birst opinberlega og verði gömul ummæli sem vísað er til 10 árum síðar ekki ómerkt nú eða refsað fyrir að greina frá þeim á nýjan leik.
Í blaðagrein í Blaðinu sem Arnar Jensson skrifaði í Blaðið 22. nóvember 2006 fjallaði hann einmitt um málið undir fyrirsögninni ,,Uppvakningar og særingar“ og vísaði þá til þess að sú umfjöllun sem var í greinum þeim sem hér um ræðir og stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, hafi farið fram um áratug áður.
Vegna þeirra óhefðbundnu aðgerða lögreglu sem um er fjallað í blaðagreinum stefnda, hafi Atli Gíslason hrl., verið skipaður sérstakur saksóknari til að rannsaka hvort ummæli fjölmiðla um lögregluna og samband hennar við stefnanda ættu við rök að styðjast.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi skýrt frá atvikum sem áður hafi komið fram á prenti og hafi hann vísað til þeirra. Þá hafi hann hvergi vegið að æru stefnanda eða skrifað um hann með öðrum hætti en þeim sem varði tilvísun í það sem áður hafi komið fram á prenti um hann og/eða hann hefur verið dæmdur fyrir. Hvorki séu því efni til að sakfella stefnda eða ómerkja ummæli um stefnanda í umræddum blaðagreinum. Stefndi beri ekki ábyrgð á fyrirsögnum greinanna og hann hafi ekki samið myndatexta eða millifyrirsagnir. Honum séu þeir hlutir óviðkomandi.
Fyrir liggi að stefnandi hafi ítrekað hlotið refsidóma og ítrekað verið ákærður fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni þannig að stefndi telji að þau ummæli sem höfð eru eftir nafngreindum lögreglumanni eigi við full rök að styðjast og séu sannleikanum samkvæm. Því séu ekki efni til að ómerkja þau ummæli.
Hvað miskabótakröfu varði, hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir miska vegna umfjöllunar þeirrar sem um ræðir. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af miskabótakröfu. Ekki hafi verið skýrt frá öðrum atriðum en þeim sem þegar hafði verið fjallað um ítrekað í prentmiðlum. Hafi stefnandi orðið fyrir miska þá hafi sá miski orðið þegar fjölmiðlar fjölluðu hvað mest um mál hans og samstarf hans við lögreglu fyrir um 10 árum síðan.
Stefnandi hafi hlotið refsidóma fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni fyrir sölu og dreifingu ólöglegra fíkniefna. Þeir dómar séu sumir hverjir aðgengilegir í dómasöfnum. Með vísan til þess sé ekki ljóst á hvaða grundvelli stefnandi byggi kröfu sína um miskabætur eða með hvaða hætti hann rökstyðji þá fjárhæð sem krafist er. Nánast öll þau atriði sem um er fjallað í þeim greinum sem stefndi kom að, megi nálgast í prentuðum heimildum frá fyrri tíma.
Stefndi krefst sýknu af þeirri kröfu stefnanda að stefnda verði gert að greiða ákveðna fjárhæð til birtingar dóms í máli þessu. Sams konar kröfu hafi ítrekað verið hafnað af dómstólum. Þá bendir stefndi á að kröfugerð stefnanda um að stefndi og meðstefndi Sigurjón, verði dæmdir in solidum til greiðslu ofangreindrar fjárhæðar til birtingar dómsins sé með engum hætti rökstudd, en ekki sé eðlilegt að dæma stefnda og meðstefnda, Sigurjón, in solidum í málinu enda komi þeir að því með mismunandi hætti. Af hálfu stefnda er því haldið fram að þau ummæli sem frá honum eru komin og eru ekki úr eldri heimildum sem þegar hafi birst á prenti, eða þar sem vísað er til nafngreindra heimildarmanna, séu innan þeirra marka sem tjáningarfrelsinu eru mörkuð í stjórnarskrá lýðveldisins. Stefndi heldur því fram að hann hafi ekki farið út fyrir þau mörk sem heimil eru í umfjöllun af því tilefni sem um er að ræða. Stefndi heldur því fram að umfjöllunin hafi að mati ritstjórnar Blaðsins átt erindi til almennings og hafi hann af þeim sökum verið fenginn til að vinna upp heimildir og skrifa umræddar blaðagreinar.
Stefndi telur málatilbúnað stefnanda fráleitan þar sem hann hafi ekkert aðhafst þegar þau ummæli sem um ræði birtust fyrst á prenti og krafðist þá hvorki ómerkingar né refsingar gagnvart þeim sem stóðu að þeim umfjöllunum. Krafa um refsingu og ómerkingu sé því fráleit.
Niðurstaða.
Stefnandi hefur krafist ómerkingar á ummælum sem birtust í dagblaðinu Blaðinu 9. nóvember 2006, 10. nóvember 2006 og 11. nóvember 2006. Um er að ræða sex ummæli í 1. tl. stefnu undir stafliðum A-F, sem og ein ummæli í 2. og 3. tl. stefnu sem öll lúta að því með einum eða öðrum hætti að stefnandi hafi stundað fíkniefnasölu, átt fíkniefni og verið umsvifamikill í sölu fíkniefna. Höfundur þeirra er tilgreindur stefndi, Trausti. Þá er krafist ómerkingar á ummælum sem birtust í Blaðinu 9. nóvember 2006, en höfundur þeirra er sagður vera stefndi, Sigurjón, sbr. 4. tl. stefnu.
Stefndu bera ábyrgð á efni greina þeirra sem ummælin birtust í, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.
Ummæli þau um stefnanda sem krafist er ómerkingar á undir stafliðum A-F í 1 tl. stefnu birtust í umfjöllun Blaðsins 9. nóvember 2006 undir yfirskriftinni: ,,Óhefðbundnar og vafasamar aðferðir lögreglunnar kortlagaðar: Mesti fíkniefnasali landsins vann í skjóli lögreglunnar.“ Í umfjöllun þessari er getið um nýja greiningardeild, sem hafi heimild til óhefðbundinna lögreglustarfa. Þar er rakið að fyrir tíu árum hafi farið fram ítarleg rannsókn á starfsemi lögreglunnar í Reykjavík, að frumkvæði þáverandi dómsmálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, þar sem fjörutíu lögreglumenn hafi fengið stöðu grunaðra og talið hafi verið að þeir hefðu gerst sekir um brot í opinberu starfi og brotlegir við refsilög. Rannsóknin hafi einkum beinst að tveimur nafngreindum lögreglumönnum sem hafi verið grunaðir um að hafa verið í upplýsinga- og trúnaðarsambandi við stefnanda. Í umfjöllun þessari er jafnframt tilvitnun í tímaritið Mannlíf, en í 2. tbl. tímaritsins frá 1997 birtist afar ítarleg grein um stefnanda, þar sem fjallað er um stefnanda sem fíkniefnasala, fíkniefnagróða hans, eignir, fjárhagsstöðu og meint tengsl við lögreglu, svo fátt eitt sé rakið.
Ummæli þau sem birtust í Blaðinu 10. nóvember 2006, koma fram í umfjöllun Blaðsins um það sem Blaðið telur vafasamar og óhefðbundnar aðferðir lögreglu. Í greininni eru rakin nokkur dæmi þess sem Blaðið telur vera vafasamar aðferðir lögreglu og í lok greinarinnar er rakið að deginum áður hafi verið greint frá viðamikilli rannsókn þar sem fjörutíu lögreglumenn hafi fengið stöðu grunaðra. Þar eru jafnframt rakin viðskipti stefnanda og lögreglu sem greinir í ummælum sem krafist er ómerkingar á undir 2. tl. í stefnu.
Einnig er krafist ómerkingar á ummælum sem birtust í Blaðinu 11. nóvember 2006, en þar er enn á ný verið að fjalla um það sem Blaðið telur vafasamar starfsaðferðir lögreglunnar og nafn stefnanda nefnt, að því er virðist í dæmaskyni um slíkar starfsaðferðir.
Að lokum er krafist ómerkingar ummæla er birtust í leiðara Blaðsins 9. nóvember 2007, þar sem enn og aftur er fjallað um óhefðbundnar starfaðferðir lögreglu og rannsókn sem gerð var fyrir um áratug á því sem Blaðið telur vafasamar aðferðir lögreglu við að upplýsa mál og að rannsókn hafi ekki síst lotið að vitneskju um að stefnandi nyti sérréttinda lögreglu. Stefndi, Sigurjón, er talinn höfundur þeirra ummæla.
Stefnandi byggir mál sitt á því að ljóst sé að ummæli stefndu séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda.
Öll þau ummæli sem krafist er ómerkingar á, lúta að því með einum eða öðrum hætti, að stefnandi hafi haft vörslur fíkniefna og selt þau og verið umsvifamikill í þeirri sölu. Ummælin snúa öll að atvikum sem gerðust fyrir um áratug og þau vísa öll til stefnanda í þátíð. Sum ummælanna eru sama efnis og birtust um stefnanda í afar ítarlegri grein í tímaritinu Mannlíf árið 1997. Í málsástæðum stefndu í greinargerð er vísað til þess að stefnandi hafi ítrekað komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnaviðskipa og vísaði lögmaður stefndu í málflutningi sínum til dóms Hæstaréttar frá 16. desember 1999 í málinu nr. 219/1999 því til stuðnings, en sá dómur birtist á netinu og er því öllum aðgengilegur. Þá er að finna í dómasafni Hæstaréttar dóma, þar sem stefnandi er dæmdur til þungrar fangelsisvistar, vegna ítrekaðra brota á fíkniefnalöggjöfinni, þar á meðal sölu fíkniefna, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 4. desember 1997 í máli nr. 252/1997. Því er ekki unnt að fallast á með stefnanda að ummæli stefndu séu hreinn uppspuni og tilhæfulaus. Þá er ekki unnt að fallast á að ummæli stefndu séu óviðurkvæmileg og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda, þegar fyrir liggur hvaða ímynd hann skapaði sér sjálfur með háttsemi þeirri sem hann hefur verið margdæmdur fyrir. Hér ber að leggja áherslu á að af ofangreindri umfjöllun Blaðsins verður glögglega ráðið að um áratugur er liðinn frá þeim atburðum er Blaðið greinir frá í umfjöllun sinni og nafn stefnanda er nefnt í því samhengi.
Þá verður einnig að horfa til þess að í umfjöllun Blaðsins þar sem ummælin birtust, er rakin rannsókn sem fram fór á starfsháttum lögreglu. Meginkjarni umfjöllunar Blaðsins lýtur að gagnrýni á starfsaðferðir lögreglu og nafn stefnanda nefnt, að því er virðist í dæmaskyni, um vafasamar og óhefðbundnar starfsaðferðir lögreglu. Stefnandi er því sjálfur ekki miðdepill umræðunnar, heldur starfsaðferðir lögreglu. Það er mat dómsins að þessi umfjöllun Blaðsins sé þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings, en talið hefur verið að þegar metnar eru skorður sem friðhelgi einkalífsins setur tjáningarfrelsinu skipti grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu.
Þegar allt framangreint er virt er hafnað kröfu stefnanda um ómerkingu framangreindra ummæla og stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála greiði stefnandi stefnda, Trausta Hafsteinssyni, 250.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti og stefnda, Sigurjóni M. Egilssyni 250.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndu, Trausti Hafsteinsson og Sigurjón M. Egilsson, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Franklins Stiner.
Stefnandi greiði 250.000 krónur í málskostnað til hvors stefndu um sig.