Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-31
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lögheimili
- Útlendingur
- Börn
- Stjórnvaldsákvörðun
- Stjórnarskrá
- Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 15. janúar 2020 leita B og C f.h. ólögráða dóttur þeirra A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. desember 2019 í málinu nr. 187/2019: A gegn Þjóðskrá Íslands, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þjóðskrá Íslands leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu lögheimilisskráningar í Evrópu ótilgreint og viðurkenningu á því að lögheimili hennar verði skráð sem nánar tilgreint heimilisfang þar sem leyfisbeiðandi hefur haft fasta búsetu. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda með vísan til þess að ákvörðun gagnaðila hefði verið í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 21/1990 um lögheimili. Með framangreindum dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur.
Leyfisbeiðandi rökstyður beiðni sína með vísan til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Byggir hún meðal annars á því að Landsréttur hafi túlkað þágildandi lög um lögheimili með röngum hætti auk þess sem dómurinn hafi samsamað leyfisbeiðanda við foreldra sína með ólögmætum hætti. Þá samræmdist dómur Landsréttar ekki ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulegt almennt gildi, auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Vilji leyfisbeiðanda standi til þess að búa hér á landi með lögmætum hætti og þegar af þeirri ástæðu sé þetta verulegt hagsmunamál. Þá felist verulegir hagsmunir í kröfu leyfisbeiðanda þar sem ýmis félagsleg réttindi ráðist af lögheimilisskráningu á meðan á dvöl hennar stendur á Íslandi, auk þess sem félagsleg og menningarleg sjónarmið búi að baki kröfunni.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.