Hæstiréttur íslands

Mál nr. 29/2008


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Skilorð


                                     

Fimmtudaginn 6. nóvember 2008.

 

Nr. 29/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari)

gegn

Sigurði Kristni Erlingssyni

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

 

Skjalafals. Skilorð.

S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa selt L tryggingarbréf að fjárhæð 2.000.000 króna en á bréfið hafði S falsað áritun útgefanda og samþykkjenda fyrir veðsetningu fasteignar og vitundarvotts. Einnig með því að hafa selt L víxil að fjárhæð 2.000.000 króna en á víxilinn hefði S falsað áritun samþykkjanda víxilsins. Fyrir dómi játaði S sök og samþykkti bótakröfu vegna víxilsins. Með játningu S, sem samrýmdist framburði S hjá lögreglu og öðrum gögnum málsins taldist brot S sannað og var refsing hans ákveðin fangelsi í átta mánuði en fullnustu fimm mánaða af refsingunni var frestað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson prófessor.  

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð og þá að öllu leyti skilorðsbundin. 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Sigurður Kristinn Erlingsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 200.764 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2007.

Ár 2007, föstudaginn 16. nóvember, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dóm­húsinu við Lækjartorg af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og dómur kveðinn upp í málinu nr. S-1281/2007: Ákæruvaldið gegn Sigurði Kristni Erlingssyni, sem dóm­tekið var í gær sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um með­ferð opinberra mála.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði málið með ákæru útgefinni 11. september 2007 á hendur ákærða, Sigurði Kristni Erlingssyni, kt. 230861-7069, Loga­fold 68, Reykjavík, til refsingar fyrir skjalafals samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, með því að hafa:

1.

Í apríl 2004, selt Landsbanka Íslands tryggingarbréf nr. 0153-63-3503, að fjárhæð 2.000.000 króna, útgefið 14. apríl 2004 fyrir hönd PC Secure ehf., en á bréfið hafði ákærði falsað áritun eiginkonu sinnar Ingibjargar Sigurþórsdóttur, sem útgefanda, nöfn Sigurðar Ingvarssonar og Vélaugar Steinsdóttur, sem samþykkjendur fyrir veðsetningu fast­eignarinnar Grænahlíð 4, Reykjavík og nafn sonar síns, Erlings Jóns Sigurðssonar, sem vitundarvotts að áritun hinna, allt svo sem nánar er lýst í ákæru.

2.

Í júlí 2006, selt Landsbankanum víxil að fjárhæð 2.000.000 króna, útgefinn 21. þess mánaðar af ákærða, fyrir hönd PC Secure ehf., með gjalddaga 30. ágúst 2006, en á víxilinn hafði ákærði falsað áritun Magnúsar Jónatanssonar, fyrir hönd PC Mapper International, sem samþykkjanda víxilsins.

Landsbankinn krefst þess að ákærði verði jafnframt dæmdur til greiðslu 1.943.308 króna með vöxtum sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2006 til 9. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags.

Ákærði játar sök fyrir dómi, samþykkir bótakröfu vegna 2. töluliðs ákæru og krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Með greindri játningu, sem samrýmist fram­burði ákærða hjá lögreglu og öðrum gögnum málsins er ofangreind háttsemi sönnuð og þykir hún rétt færð til refsi­ákvæða í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða hátt­semi. Ber honum að njóta þessa við ákvörðun refsingar, sem og þess að hafa játað brot sín greiðlega og gengist við bótaskyldu gagnvart Landsbankanum vegna 2. ákæru­­liðs. Á hinn bóginn horfir til refsiþyngingar að í báðum tilvikum er um háar fjár­hæðir að ræða og að fjártjón er óbætt. Að þessu öllu gættu, með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningar­laga og loks að teknu tilliti til aldurs ákærða, sem er 46 ára, þykir refsing hæfi­lega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Eftir atvikum þykir mega ákveða að fresta fullnustu fimm mánaða refsingarinnar þannig að sá hluti hennar falli niður að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð, svo sem greinir í dóms­orði.

Samkvæmt greindum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 172. gr. laga um með­ferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða Landsbankanum umkrafðar bætur, með vöxtum sam­kvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2006 til 6. júlí 2007, þá er mánuður var liðinn frá því að krafan var honum birt, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags.

Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laganna um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæsta­­réttar­lögmanns og þykir hún hæfilega ákveðin 92.628 krónur að meðtöldum virðis­­­auka­skatti.   

Guðjón Magnússon fulltrúi lögreglu­stjóra sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Sigurður Kristinn Erlingsson, sæti fangelsi átta mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Landsbankanum 1.943.308 krónur með vöxtum sam­kvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2006 til 6. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðslu­dags.

Ákærði greiði 92.628 króna þóknun Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlög­manns.