Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit


         

Þriðjudaginn 29. apríl 2008.

Nr. 195/2008.

Írena Rut Sigríðardóttir

(Ívar Pálsson hdl.)

gegn

Cu2 ehf. og

(enginn)

Biðskýlinu Njarðvík ehf.

(Erlendur Gíslason hrl.)

 

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.

Í máli sem Í höfðaði til greiðslu skaðabóta á hendur C og B vegna tjóns sem Í hefði orðið fyrir við neyslu sælgætis, sem C hafði flutt inn en B selt, krafðist B þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði. Var fallist á þá kröfu í héraði og var sú úrlausn til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Talið var að í þeim spurningum sem B óskaði eftir að lagðar yrðu fyrir EFTA-dómstólinn væri byggt á þeirri forsendu að nánar tilgreind skaðabótaskylda hvíldi á dreifingaraðila vöru í skilningi laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð, en leitað væri svara við því hvernig sú skipan samræmdist nánar tilgreindum reglum sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. B taldist ekki hafa fært fyrir því viðhlítandi rök, hvernig svör við umræddum spurningum, sem kynnu að fela í sér það álit að íslensk lög væru í einhverjum þessum atriðum eða öllum í andstöðu við reglur á Evrópska efnahagssvæðinu, fengju einhverju breytt um réttarstöðu aðilanna í skiptum þeirra innbyrðis. Þá lá fyrir í málinu dómur EB-dómstólsins þar sem fjallað var um sambærilegt álitaefni í dönskum rétti. Var kröfu B því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2008, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðilans Biðskýlisins Njarðvík ehf. um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri beiðni varnaraðilans verði hafnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Biðskýlið Njarðvík ehf. krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðilinn Cu2 ehf. hefur ekki látið þetta ágreiningsefni til sín taka.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila keypti hún 19. ágúst 2003, þá fimm ára að aldri, svokallaðan sælgætisúða af gerðinni Sour Blast í söluturni varnaraðilans Biðskýlisins Njarðvík ehf. Þessum sælgætisúða lýsir hún á þann veg að um hafi verið að ræða mjög súran vökva í úðabrúsa, sem ætlast hafi verið til að neytt væri með því að úða í munn sér hverju sinni afar litlum skammti beint úr umbúðunum, en hann hafi verið framleiddur í Bandaríkjum Norður Ameríku og fluttur inn til landsins af varnaraðilanum Cu2 ehf. Eftir að hafa keypt sælgætisúðann fyrrgreindan dag hafi sóknaraðili náð að opna umbúðirnar og tekið sopa af vökvanum, en sökum þess hve súr hann var hafi henni svelgst á og hluti hans borist ofan í lungu hennar. Þetta hafi valdið margvíslegum meinsemdum í lungum og hafi dómkvaddir menn metið varanlegan miska hennar af þessu 8% og varanlega örorku þá sömu. Í málinu krefur sóknaraðili varnaraðila um skaðabætur vegna þessa, en kröfu sína á hendur þeim reisir hún á ákvæðum laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Um ábyrgð varnaraðilanna vísar sóknaraðili nánar til ákvæðis 2. mgr. 4. gr. og 6. gr. laganna að því er varðar Cu2 ehf., sem hafi í atvinnuskyni flutt sælgætisúðann til landsins til þess að selja hann og teljist þar með framleiðandi vörunnar í skilningi laganna, en til 3. mgr. 4. gr. og 10. gr. þeirra að því er Biðskýlið Njarðvík ehf. varðar, enda hafi sá varnaraðili dreift vörunni í atvinnuskyni án þess að teljast framleiðandi hennar.

Í þinghaldi í héraði 28. janúar 2008 lagði varnaraðilinn Biðskýlið Njarðvík ehf. fram beiðni um að leitað yrði í málinu ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um þrjú atriði. Í fyrsta lagi hvort það „samrýmist ... túlkun á 1. og 3. gr. tilskipunar nr. 85/374/EBE, sbr. c-lið 23. gr. og III. viðauka EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé byggt á því að dreifingaraðili skuli bera hlutlæga ábyrgð á skaðsemistjóni beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum“. Yrði svo talið, þá í öðru lagi hvort það „samrýmist ... 1. og 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. c-lið 23. gr. og III. viðauka EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé byggt á því að dreifingaraðili skuli bera hlutlæga ábyrgð á skaðsemistjóni, án sakar, gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum, ef vitað er hver umræddur framleiðandi, eða eftir atvikum innflytjandi, vörunnar er“. Í þriðja lagi hvort það „samrýmist ... túlkun á 1., 3. og 13. gr. tilskipunarinnar, sbr. c-lið 23. gr. EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé byggt á því að dreifingaraðili skuli ábyrgjast bótaskyldu framleiðanda sem sá síðarnefndi ber á grundvelli almennra skaðabótareglna er byggja á sök hans“. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á að þessi atriði yrðu lögð fyrir EFTA-dómstólinn til að fá ráðgefandi álit hans.

Eins og háttað er orðalagi framangreindra atriða, sem varnaraðilinn Biðskýlið Njarðvík ehf. óskar eftir að EFTA-dómstóllinn verði fenginn til að láta uppi álit á, er í öllum þremur tilvikum byggt á þeirri forsendu að skaðabótaskylda hvíli eftir íslenskum lögum á þeim, sem telst dreifingaraðili vöru í skilningi laga nr. 25/1991, en leitað sé svara við því hvort sú skipan samrýmist nánar tilteknum reglum, sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Varnaraðilinn hefur engin viðhlítandi rök fært fyrir því hvernig svör við þessu, sem kynnu að fela í sér það álit að íslensk lög væru í einhverjum þessum atriðum eða öllum í andstöðu við reglur á Evrópska efnahagssvæðinu, fengju einhverju breytt um réttarstöðu aðilanna í skiptum þeirra innbyrðis. Að auki er til þess að líta að varnaraðilinn hefur í málatilbúnaði sínum vísað til dóms dómstóls Evrópubandalaganna 10. janúar 2006, þar sem afstaða hafi verið tekin til þess hvort tiltekin ákvæði danskra laga um skaðsemisábyrgð, sem hann kveður efnislega samhljóða íslenskri löggjöf um sömu efni, samrýmist reglum tilskipunar nr. 85/374/EBE, en eintak af þeim dómi hefur verið lagt fram í málinu. Að þessu virtu eru ekki efni til að verða við beiðni þessa varnaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Varnaraðilanum Biðskýlinu Njarðvík ehf. verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðilinn Biðskýlið Njarðvík ehf. greiði sóknaraðila, Írenu Rut Sigríðardóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2008.

Mál þetta er höfðað 17. ágúst 2006. Það var tekið til úrskurðar 15. febrúar sl. um ágreining málsaðila hvort leita skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, sbr. lög nr. 21/1994.

Stefnandi er Sigríður Anna Jónsdóttir, Baldursgötu 8, Reykjanesbæ, f.h. ófjárráða dóttur sinnar, Írenu Rutar Sigríðardóttur.

Stefndu eru CU2 ehf., Stangarhyl 6, Reykjavík og Biðskýlið Njarðvík ehf., Hólagötu 20, Reykjanesbæ.

          Hinn 15. febrúar sl. fór fram munnlegur málflutningur um þá kröfu stefnda, Biðskýlisins Njarðvík ehf., að leitað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Stefnandi gerði þá kröfu að fyrirliggjandi beiðni yrði hafnað og að stefnanda verði úrskurðaður málskostnaður í þessum þætti málsins. Stefndi Cu2 mótmælir ekki framkominni kröfu og lætur hana ekki til sín taka. Er einungis þessi ágreiningur málsaðila hér til úrlausnar.

II

Málavextir eru þeir helstir að hinn 19. ágúst árið 2003 neytti Írena Rut svokallaðs „Sour Blast“ sælgætisúða sem stefnandi staðhæfir að hafi verið keyptur í  söluturni stefnda, Biðskýlisins Njarðvík ehf. Um er að ræða eldsúran vökva sem seldur er í úðabrúsa og er eingöngu ætlaður til notkunar í afar smáum skömmtum hverju sinni í formi úða. Er gert ráð fyrir að vökvans sé neytt með þeim hætti að neytandinn sprauti honum upp í sig beint úr umbúðunum.

Írenu Rut, sem á þessum tíma var 5 ára gömul, tókst að opna umbúðir sælgætisúðans þannig mögulegt var að súpa á vökvanum. Saup Írena Rut í kjölfarið á vökvanum. Þar sem vökvinn er eldsúr, enda eingöngu ætlaður til notkunar í afar smáum skömmtum í formi úða, svelgdist Írenu Rut á vökvanum. Varð það til þess að hluti hins súra vökva rann ofan í lungu barnsins.

Hefur Írena Rut haft þrálát einkenni frá lungum síðan og ekki náð fullum bata þrátt fyrir umfangsmikla læknismeðferð. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Þorsteins Blöndal yfirlæknis og Stefáns Más Stefánssonar prófessors, dags. 29. júní 2007, segir að Írena Rut hafi ekki náð fyrri heilsu af völdum þess heilsutjóns sem hún hlaut vegna þessa  atviks. Hún hafi hlotið varanlegt mein þannig að miðblað hægra lunga loftist ekki eðlilega og muni ekki nýtast henni til öndunar. Þar að auki sé hætta á endurteknum sýkingum þarna. Í ljósi þessa meta matsmenn varanlegan miska Írenu Rutar 8%. Varanleg öroka hennar er einnig metin 8%.

Stefndi, CU2 ehf., er innflutningsaðili úðans hingað til lands en sælgætisúðinn er framleiddur í Bandaríkjum Norður Ameríku

Með bréfi til stefnda Cu2 ehf., dags. 9. júní 2004, var félaginu gerð grein fyrir ástandi stefnanda á þeim tíma og óskað eftir upplýsingum um hvert tryggingafélag stefnda Cu2 ehf. væri. Engin viðbrögð bárust af hálfu stefnda Cu2 ehf. við því bréfi.

Með bréfi til stefnda, Biðskýlisins Njarðvík ehf., var stefnda, Biðskýlinu Njarðvík ehf., gerð grein fyrir ástandi stefnanda og leitað eftir upplýsingum um það hvort stefndi, Biðskýlið Njarðvík ehf., hefði keypt sælgætisúðann hjá stefnda, Cu2 ehf. Var beiðnin ítrekuð með bréfi 23. febrúar 2005. Stefnandi kveður forsvarsmann stefnda, Biðskýlisins Njarðvík ehf., hafa munnlega upplýst að félagið hefði keypt sælgætisúðann hjá stefnda Cu2 ehf. Þáverandi framkvæmdastjóri stefnda Cu2 ehf., Valdimar Hermannsson, hafi gert grein fyrir því í viðtali við DV, þann 28. ágúst 2003, að stefndi Cu2 ehf. hefði flutt inn sælgætisúðann. Það hafi þó ekki verið fyrr en þann 21. júní 2006 að forsvarsmenn stefnda, Biðskýlisins Njarðvík ehf., hafi sent lögmanni stefnanda afrit af reikningi frá stefnda þar sem fram komi að  Biðskýlið Njarðvík ehf. hafi keypt 36 stk. sælgætisúða/súrt spray af stefnda Cu2 ehf. 31. júlí 2003.

Stefnandi krefur stefndu í máli þessu in solidum um skaðabætur að fjárhæð 3.388.255 krónur ásamt vöxtum. Báðir stefndu hafna bótaskyldu.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á ákvæðum laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Hann vísar til þess að samkvæmt 1. gr. laganna gildi lögin um skaðabótaábyrgð framleiðanda og dreifingaraðila sem hljótist af ágalla vöru sem þeir hafa framleitt eða dreift. Í 2. gr. komi m.a. fram að greiða skuli bætur vegna líkamstjóns og fyrir missi framfæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna um skaðsemisábyrgð teljist hver sá aðili framleiðandi, í skilningi laganna, sem í atvinnuskyni flytji vöru til landsins í þeim tilgangi að selja hana eða versla með hana á annan hátt. Stefndi Cu2 ehf. teljist því framleiðandi sælgætisúðans í skilningi laganna þar sem sælgætisúðinn sé framleiddur í Bandaríkjunum Norður Ameríku. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. teljist dreifingaraðili hver sá sem í atvinnuskyni dreifi vöru án þess að teljast framleiðandi. Stefndi, Biðskýlið Njarðvík ehf., teljist því dreifingaraðili í skilningi laganna um skaðsemisábyrgð.

Samkvæmt 6. gr. laga um skaðsemisábyrgð skuli framleiðandi greiða bætur fyrir tjón sem rakið verði til ágalla á vöru sem hann hafi framleitt eða dreift. Dreifingaraðilar beri og beina ábyrgð á skaðsemistjóni gagnvart tjónþola samkvæmt 10. gr. laganna.

Hugtakið ágalli sé skilgreint í 1. mgr. 5. gr. laga um skaðsemisábyrgð. Samkvæmt greininni teljist vara haldin ágalla:

„... þegar hún sé ekki svo örugg sem með réttu mátti vænta eftir öllum aðstæðum, einkum eftirfarandi:

Hvernig hún var boðin og kynnt.

Notkun þeirri sem með sanngirni mátti gera ráð fyrir.

Hvenær vöru var dreift.“

Stefnandi telur að hinn margumræddi sælgætisúði og umbúðir hans hafi ekki verið svo öruggar sem vænta mátti eftir öllum aðstæðum. Sælgætisúðinn sé framleiddur og markaðssettur sem neysluvara til barna auk þess sem hann sé seldur í söluturnum þar sem stór hluti viðskiptavina séu börn. Telur stefnandi að gera verði sérstaklega ríkar kröfur til þeirra sem framleiða og dreifa sælgæti og vörum sem beint er að börnum um að varan sé ekki haldin hættulegum eiginleikum hvað varðar innihald, umbúðir og kynningu vörunnar. Jafnframt verði að telja það mikið gáleysi af söluturni stefnda, Biðskýlisins Njarðvík ehf., að selja 5 ára gömlu barni slíka vöru.

Stefnandi bendir á að fyrir liggi, m.t.t. afleiðinga á heilsufar stefnanda, að innihald sælgætisúðans sé mjög hættulegt og geti haft í för með sér varanlegt líkamlegt tjón lendi vökvinn í lungum. Sælgætisúðanum hafi ekki fylgt upplýsingar til að tryggja skaðlausa notkun úðans, s.s. eins og viðvörun um að hættulegt sé að opna flöskuna og drekka af henni. Þá séu umbúðir sælgætisúðans, þrátt fyrir gallsúrt innihald hans og þá tilhneigingu barna að taka hluti í sundur og prófa notkun þeirra með ýmsum hætti, ekki útbúnar þannig að þær komi í veg fyrir að vökvans sé neytt með þeim hætti sem gerðist í tilfelli stefnanda. Þannig sé auðvelt, jafnvel fyrir ung börn, að opna flöskuna og innbyrða innihald hennar í stórum skömmtum.

Með vísan til framangreinds telur stefnandi að umræddur sælgætisúði og umbúðir hans hafi ekki verið svo öruggur sem neytandi mátti með réttu vænta. Sælgætisúðinn hafi þannig verið haldinn ágalla í skilningi 5. gr. laga um skaðsemisábyrgð sem stefndu beri óskipta skaðbótaábyrgð á samkvæmt 6., 10. og 11. gr. laga um skaðsemisábyrgð.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi einnig til sakarreglu skaðabótaréttar og strangra óskráðra bótareglna um tjón sem almennur neytandi verði fyrir af völdum varnings sem seldur sé almenningi m.a. vísan til óskráðra réttarreglna og sjónarmiða um neytendavernd, sem stefnandi telur að eigi sér fordæmi í dómum Hæstaréttar.

IV

Stefndi Cu2 ehf. reisir sýknukröfu sína í málinu aðallega á aðildarskorti. Verði ekki á hann fallist er byggt á því að stefndi beri hvorki hlutlæga bótaábyrgð á tjóni Írenu Rutar né ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar. Ósannað sé að umrædd vara hafi verið haldinn ágalla í skilningi 5. gr. laga nr. 25/1991.

Helstu málsástæður stefnda, Biðskýlisins Njarðvík ehf., í málinu eru eftirfarandi:

Ábyrgð stefnda á grundvelli laga um skaðsemisábyrgð

Stefndi fellst á skilning stefnanda um að stefndi teljist vera dreifingaraðili í skilningi laga um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991, en ekki framleiðandi. Stefnandi rökstyðji bótaskyldu stefnda og meðstefnda Cu2 ehf. samhliða og geri engan greinarmun á ábyrgð þeirra.

Stefnandi byggi kröfu sína gagnvart stefnda aðallega á 10. gr. laga um skaðsemisábyrgð, þ.e. meintri hlutlægri bótaábyrgð stefnda. Í 10. gr. laganna komi eftirfarandi fram:

„Dreifingaraðili ber ábyrgð á skaðsemistjóni beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum.“ Í athugasemdum með þessu ákvæði í greinargerð laganna komi fram að um sé að ræða hlutlæga bótaábyrgð þeirra dreifingaraðila sem ekki teljist vera framleiðendur samkvæmt 4. gr. laganna. Einnig komi fram að ábyrgð dreifingaraðila samkvæmt 10. gr. sé háð því að framleiðandi, eða fyrri dreifingaraðilar, beri bótaábyrgð á skaðsemistjóni. Þannig megi álykta út frá þessu að eingöngu ef framleiðandi eða innflytjandi (með ábyrgð framleiðanda) séu bótaskyldir komi bótaábyrgð dreifingaraðila samkvæmt 10. gr. til greina.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína m.a. á því að ekki sé lagagrundvöllur til að leggja hlutlæga bótaskyldu á hann sem dreifingaraðila samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð og samkvæmt almennum skaðabótareglum. Byggist það annars vegar á því að 10. gr. laga um skaðsemisábyrgð sé ekki í fullu samræmi við tilskipun Evrópusambandsins frá 25. júlí 1985, nr. 85/374/EBE, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum vegna skaðsemisábyrgðar á gölluðum vörum, sem íslenska ríkið hafi innleitt samkvæmt skuldbindingum sínum, og hins vegar á því að ákvæði 10. gr. laganna uppfylli ekki þau skilyrði sem gerð séu til reglna sem leggi miklar kvaðir á (ákveðinn hóp) aðila, s.s. ákvæði um hlutlæga bótaábyrgð.

Orðalag 10. gr. laganna gefi ekki til kynna hlutlæga bótaábyrgð dreifingaraðila en orðalag greinargerðarinnar geri ráð fyrir því. Þarna sé því ósamræmi á milli orðalags ákvæðisins í 10. gr. laganna og athugasemda með því. Texti laganna gangi framar athugasemdum í greinargerð samkvæmt hefðbundnum lögskýringarreglum.

Gera verði þær kröfur til skýrleika lagaákvæða að einstaklingar og lögaðilar geti gert sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum með því einu að lesa lagagreinina, sérstaklega þegar um sé að ræða verulega íþyngjandi ákvæði eins og t.d. ákvæði sem leggi á herðar einstaklinga eða lögaðila hlutlæga skaðabótaábyrgð. Ákvæði 10. gr. laga um skaðsemisábyrgð skorti þennan skýrleika og sé því ekki um nægilega skýra lagaheimild að ræða til að leggja hlutlæga bótaábyrgð á stefnda. Ljóst sé enn fremur að skýra beri svona íþyngjandi ákvæði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum.

Samningurinn um Evrópska Efnahagssvæðið hafi fengið lagagildi á Íslandi þann 1. janúar 1994, sbr. lög nr. 2/1993. Hafi samningurinn fylgt með lögunum sem fylgiskjal I. Samkvæmt 119. gr. samningsins séu viðaukar, svo og gerðir, sem vísað sé til í þeim og aðlagaðar séu vegna samningsins, óaðskiljanlegur hluti hans. Í III. viðauka með samningnum sé að finna tilvísun í tilskipun ráðsins 85/374/EBE frá 25. júlí 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum vegna skaðsemisábyrgðar á gölluðum vörum (Stjtíð. EB nr. L210, 7.8.1985, bls. 29), eins og henni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/34/EB frá 10. maí 1999 (Stjííð. EB m. L141, 4.6.1999, bls. 20), sbr. einnig c. lið 23. gr. samningsins. Ljóst sé því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að innleiða efni tilskipunarinnar og aðlaga að íslenskri löggjöf. Líklega hafi verið talið af hálfu íslenska ríkisins að lög um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991 uppfylltu efnisákvæði tilskipunarinnar og væru henni samrýmanleg. Því er mótmælt af hálfu stefnda.

Eina ákvæðið í tilskipuninni sem fjalli um dreifingaraðila vöru sé að finna í 3. mgr. 3. gr. hennar. Þar segi:

„Sé ekki hægt að komast að því hver hafi búið til vöru telst hver dreifingaraðili hennar framleiðandi nema hann skýri þeim sem fyrir tjóni varð án óþarfs dráttar frá nafni og heimilisfangi framleiðanda eða þess sem afhenti honum vöruna. Þetta á líka við þegar um innflutta vöru er að ræða, beri hún ekki nafn innflytjanda, jafnvel þótt nafns framleiðanda sé getið.“

Hér sé um svokallaða varaábyrgð að ræða, þ.e. varaábyrgð dreifingaraðila ef ekki er vitað um framleiðanda eða innflytjanda. Því sé hafnað að um sé að ræða ábyrgð in solidum. Ef vitneskja sé til staðar um framleiðanda og/eða innflytjanda beri dreifingaraðili ekki ábyrgð samkvæmt þessu ákvæði tilskipunarinnar.

Þetta ákvæði tilskipunarinnar (3. mgr. 3. gr.) sé í samræmi við ákvæði 4. og 5. mgr. 3. gr. laganna um skaðsemisábyrgð. Aftur á móti sé það ekki í samræmi við 10. gr. laga um skaðsemisábyrgð enda eigi 10. gr. laganna sér enga fyrirmynd í tilskipuninni. Ákvæði 4. og 5. mgr. 3. gr. laganna og 10. gr. laganna stangist þar af leiðandi einnig á.

Ákvæði 10. gr. laga um skaðsemisábyrgð eigi sér fyrirmynd í dönsku lögunum um skaðsemisábyrgð frá 1989, þ.e. lög nr. 371/1989 frá 7. júní 1989 (produktansvar). Eins og komi fram í greinargerð með íslensku lögunum um skaðsemisábyrgð hafi frumvarpið verið sniðið eftir löggjöf EB-ríkjanna. Efni og uppsetning frumvarpsins hafi að mestu verið í samræmi við dönsku lögin um skaðsemisábyrgð, enda tilgangurinn í samræmi við löggjöf annarra Evrópuríkja. Ákvæði 10. gr. dönsku laganna hljóði svo:

 

„En mellemhandler hæfter for produktansvar umiddelbart over for skadelidte og senere mellemhandler i omsætningskæden.“

 

Ljóst sé að reglur 10. gr. beggja laga séu nákvæmlega eins.

Ætlunin með 10. gr. laganna hafi verið að leggja á dreifingaraðila hlutlæga bótaábyrgð eins og gert hafi verið við framleiðendur og innflytjendur.

Í máli Mikkelsen og Nielsen gegn Bilka Lavprishus og Bilka Lavprishus gegn Skov Æg hafi danski Landsrétturinn Vestra skotið nokkrum spurningum til EB-dómstólsins til forúrskurðar (mál nr. C-402/03). Spurt hafi verið fimm spurninga en mikilvægastar séu þær niðurstöður dómstólsins að tilskipunin feli í sér kröfu um fullkomna samræmingu (complete harmonisation), að ábyrgir aðilar séu tæmandi taldir í 1. og 3. gr. hennar og að hún útiloki tilvist reglu í landsrétti einstakra ríkja þar sem dreifingaraðili (supplier) sé gerður ábyrgur, að öðru leyti en komi fram í 3. mgr. 3. gr. hennar, með hlutlægri bótaábyrgð, en á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar framleiðanda. Dómstóll EB hafi þó komist að þeirri niðurstöðu að tilskipunin útilokaði ekki reglu í landsrétti þar sem dreifingaraðili bæri ótakmarkaða ábyrgð á grundvelli sakarábyrgðar framleiðanda. Það hafi þó ekki áhrif í þessu máli.

Þess megi geta að dönsku lögunum um skaðsemisábyrgð hafi verið breytt í kjölfar forúrskurðar dómsins.

Í bókun 35 með EES-samningnum um framkvæmd EES-reglna komi eftirfarandi fram:

„Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig;

Stök grein

Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“

 

Talið sé að þessari skyldu hafi íslenska ríkið fullnægt með 3. gr. EES-laga nr. 2/1993, en þar komi fram að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Með hliðsjón af framansögðu sé ljóst að skýra verði 10. gr. íslensku laganna um skaðsemisábyrgð til samræmis við 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. bókun 35 með EES-samningnum og 3. gr. eesl, svo og almennu óskráðu lögskýringarregluna um að skýra beri landsrétt til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands. Misræmið á milli laganna og tilskipunarinnar sé ekki mikið ef eingöngu sé litið til orðalags 10. gr. en verði þeim mun meira þegar athugasemdir með 10. gr. í greinargerðinni séu skoðaðar. Þar af leiðandi sé ekkert því til fyrirstöðu að skýra 10. gr. laganna til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að skýra ákvæði landsréttar (lög um skaðsemisábyrgð) í samræmi við títtnefnda tilskipun vegna of mikils ósamræmis eða vegna annarra atriða, er á því byggt að ákvæði tilskipunarinnar eigi að ganga framar ákvæðum laganna um skaðsemisábyrgð. Byggi þetta m.a. á því að EES-samningnum sé í ríkum mæli ætlað að vera til hagsbóta einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Framkvæmd samningsins velti því á því að einstaklingar og lögaðilar í atvinnurekstri, sem tryggð séu réttindi samkvæmt samningnum, geti byggt á þeim.

Miðað við framangreinda umfjöllun, um kröfu stefnanda sem byggi á hlutlægri bótaábyrgð samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð, sé ljóst, að mati stefnda, að ekki sé til staðar lagagrundvöllur til þess að leggja á herðar stefnda beina hlutlæga bótaábyrgð. Beri því að taka kröfur stefnda til greina og sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

 

Ábyrgð stefnda á grundvelli sakarreglunni og ströngum óskráðum bótareglum

Stefnandi byggi enn fremur á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar og samkvæmt ströngum óskráðum bótareglum um tjón sem almennur neytandi verði fyrir af völdum varnings sem seldur sé almenningi. Þessu sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda.

Þessi málsástæða stefnanda sé vanreifuð. Stefnandi geri ekki reka að því að rökstyðja í stefnu af hverju stefndi eigi að bera ábyrgð á þessum grundvelli. Þannig sé ómögulegt fyrir stefnda að svara þessari málsástæðu með fullnægjandi hætti.

Þrátt fyrir framangreint verði stefndi að taka eftirfarandi fram:

Ósannað sé að stefndi hafi hagað sér á saknæman og ólögmætan hátt. Sönnunarbyrðin fyrir því hvíli á stefnanda málsins og sé því hafnað að slík sönnun hafi tekist.

Stefndi sé verslun sem selji m.a. sælgæti. Panti hann vörur frá framleiðendum, innflytjendum og/eða öðrum dreifingaraðilum til þess að selja beint til neytenda. Vörurnar komi, eins og í þessu máli, í umbúðum sem stefndi fjarlægi ekki, heldur sé neytendum ætlað að fjarlægja þær. Stefndi fái því engu ráðið um framleiðslu og gerð hennar, pökkun hennar eða flutning. Allt sé þetta á hendi annarra aðila. Þessu til stuðnings megi benda á skilgreiningu á „dreifingaraðila“ í lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu nr. 134/1995, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra teljist dreifingaraðili vera hver sá í aðfangakeðjunni sem stundar starfsemi sem hefur ekki áhrif á öryggiseiginleika vöru. Það sé því með engu móti hægt að halda því fram að stefndi eða starfsmenn hans hafi hagað sér með saknæmum hætti.

Fram sé komið að það hafi verið stefnandi sem keypti sælgætisúðann handa dóttur sinni Írenu Rut, en ekki Írena sjálf. Því sé hafnað að stefndi hefði selt fimm ára barni sælgætisúðann án nærveru foreldris. Það hafi því verið á ábyrgð stefnanda að leiðbeina dóttur sinni um hvernig ætti að neyta þessa sælgætis, en það hafi verið sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að það hafi verið gert ráð fyrir að neytendur gætu keypt áfyllingu á brúsann.

Enn fremur hefði stefnandi átt að leiðbeina Írenu Rut um notkun sælgætisúðans betur þar sem á umbúðunum komi fram að leita skuli til læknis ef pirringur í auga sé viðvarandi eftir 15 mínútna skol, fari innihald úðans í auga neytandans eða annarra. Enn fremur að sælgætið geti valdið óþægindum í tungu hjá viðkvæmum aðilum og varað sé við neyslu í of stórum skömmtum.

Ósannað sé að ólögfestar strangar bótareglur séu til staðar sem leggi bótaábyrgð á stefnda í þessu máli. Lögin um skaðsemisábyrgð hafi tekið gildi 1. janúar 1992 en frá þeim tíma hafi ekki gilt neinar ólögfestar reglur á þessu sviði skaðabótaréttarins.

 

Varan haldin ágalla samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð

Stefndi hafni því að umræddur sælgætisúði hafi verið haldin ágalla í skilningi 5. gr. laga um skaðsemisábyrgð. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna hvíli sönnunarbyrðin á tjónþola og stefndi hafnar því að slík sönnun hafi tekist.

Samkvæmt 5. gr. laganna teljist vara vera haldin ágalla þegar hún er ekki svo örugg sem með réttu mátti vænta eftir öllum aðstæðum en svo séu tilteknar þrjár aðstæður í ákvæðinu sem verði að skoða sérstaklega. Í athugasemdum með ákvæðinu í greinargerð laganna komi fram að matið á því hvað teljist vera nægilega örugg vara verði að fara eftir almennum hlutlægum mælikvarða, en ekki sérstökum hugmyndum tjónþola um hvernig nota eigi vöruna.

Hættan á tjóni hafi ekki verið meiri en almennt megi búast við um vörur af þessari tegund. Notkunin hafi einfaldlega ekki verið hefðbundin af hálfu Írenu Rutar og í raun röng, sbr. 2. tl. 1. mgr. 5. gr. Ofan á þessa röngu notkun svelgdist henni á, sem geti gerst við neyslu hvaða matvæla sem er, en hefði henni ekki svelgst á hefði Írena Rut aldrei orðið fyrir líkamstjóni. Stefndi beri ekki skaðabótaábyrgð á líkamstjóni Írenu Rutar vegna þess að henni svelgdist á.

Nafnið á sælgætisúðanum gefi til kynna að um súrt sælgæti sé að ræða. Rannsóknir á pH-gildi svipaðrar vöru gefi ekki til kynna að varan sem slík sé hættuleg. Benda verði á að margir lime-drykkir séu með pH-gildið 2,0 og þyki ekki hættulegir. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að matvæli eða drykkir með lágt pH-gildi séu hættulegir mönnum. Innihaldið hafi ekki verið hættulegt.

Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn um önnur sambærileg mál vegna líkamstjóns sem eigi að hafa orsakast vegna neyslu á Sour-blast sælgætisúðanum. Sé um að ræða einstakan atburð með mjög óheppilegum afleiðingum.

Stefnandi byggi ekki á því að varan sjálf hafi brotið í bága við lög og reglugerðir um öryggiskröfur, s.s. lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu nr. 134/1995 eða reglugerð um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla nr. 588/1993.

Með vísan í framangreint sé ljóst að sýkna verði stefnda.

V

Stefndi, Biðskýlið Njarðvík ehf., telur nauðsynlegt að aflað verði álits EFTA dómstólsins um skýringu tilskipunar Evrópusambandsins nr. 85/374/EBE, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum vegna skaðsemisábyrgðar á gölluðum vörum, sem tekin hefur verið upp í III. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. c-lið 23. gr. hans, vegna þessa máls.

Er þess krafist, í samræmi við 1. gr. laga nr. 21/1994, að Héraðsdómur Reykjavíkur leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og leggi fyrir hann neðangreindar spurningar:

1.  Samrýmist það túlkun á 1. og 3. gr. tilskipunar nr. 85/374/EBE , sbr. c-lið 23. gr. og  III. viðauka EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum    byggt á  því að  dreifingaraðili  skuli  bera  hlutlæga  ábyrgð  á skaðsemistjóni

       beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum?

 

2.              Ef svar við spurningu nr. 1 er játandi, samrýmist það 1. og 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. c-lið 23. gr. og III. viðauka EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé byggt á því að dreifingaraðili skuli bera hlutlæga ábyrgð á skaðsemistjóni, án sakar, gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum, ef vitað er hver umræddur framleiðandi, eða eftir atvikum innflytjandi, vörunnar er?

 

3.              Samrýmist það túlkun á 1., 3. og 13. gr. tilskipunarinnar, sbr. c-lið 23. gr. EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé byggt á því að dreifingaraðili skuli ábyrgjast bótaskyldu framleiðanda sem sá síðarnefndi ber ágrundvelli almennra skaðabótareglna er byggja sök hans?

 

Í máli því sem hér sé til meðferðar hafi Biðskýlinu Njarðvík ehf., ásamt Cu2 ehf., verið stefnt til greiðslu bóta vegna líkamstjóns stefnanda.

Bótaskylda Biðskýlisins Njarðvíkur ehf., sem dreifingaraðila, sé annars vegar byggð á grundvelli 10. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð, en þar segir:

„Dreifingaraðili ber ábyrgð á skaðsemistjóni beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum.“

Í athugasemdum með þessu ákvæði í greinargerð laganna komi fram að um sé að ræða hlutlæga bótaábyrgð þeirra dreifingaraðila sem ekki teljast vera framleiðendur samkvæmt 4. gr. laganna. Hvorki í lögunum sjálfum né greinargerðinni sé gerður fyrirvari um þessa ábyrgð dreifingaraðila gagnvart tjónþola. Bótaábyrgð dreifingaraðilans sé því ekki skilyrt því að ekki sé vitað um hver umræddur framleiðandi vörunnar er, heldur virðist tjónþoli geta valið hvort hann sækir bætur sínar til dreifingaraðila og/eða framleiðanda.

Í tilskipun Evrópusambandsins nr. 85/374/EBE virðist dreifingaraðili þó aðeins bera skaðsemisábyrgð á tjóni sé ekki vitað hver framleiðandi vörunnar er eða upplýsingar þess efnis ekki veittar án óþarfs dráttar. Hafi þessi túlkun verið staðfest í forúrskurði Evrópudómstólsins nr. C-402/03 frá 10. janúar 2006 og regla dansks landsréttar, er kvað á um annað, talin ósamrýmanleg tilskipuninni.

Þar sem umrædd tilskipun Evrópusambandsins hafi verið tekin upp í III. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. c-lið 23. gr. hans, sé talin rík ástæða til þess að óska ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á því hvort íslenska löggjöfin kunni að brjóta í bága við skuldbindingar íslenska ríkisins hvað varðar reglur um skaðsemisábyrgð dreifingaraðila.

Er því óskað eftir því að Héraðsdómur Reykjavíkur beini spurningum nr. 1 - 2 til dómstólsins.

Hins vegar sé bótaskylda Biðskýlisins Njarðvíkur ehf. byggð á því að dreifingaraðili skuli ábyrgjast bótaskyldu Cu2 ehf., framleiðanda, á grundvelli sakarreglunnar gagnvart stefnanda.

Þar sem EFTA dómstóllinn hafi ekki svarað því hvort slík ábyrgð samræmist tilskipun Evrópusambandsins nr. 85/374/EBE, sbr. III. viðauka EES samningsins, sé óskað eftir því að Héraðsdómur Reykjavíkur beini spurningu nr. 3 til dómstólsins.

Ljóst sé með hliðsjón af ofangreindu og þeim staðreyndum sem liggi fyrir í málinu að skýring umræddra reglna EES samningsins kann að hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins.

 

Eins og áður greinir krefst stefnandi þess að fyrirliggjandi beiðni, um ráðgefandi álit EFTA dómstólsins verði hafnað.  Byggir hann kröfu sína á því að ákvæði íslenskra laga um skaðsemisábyrgð, um ábyrgð dreifingaraðila, séu skýr og afdráttarlaus og ekki andstæð neinum reglum í íslenskum lögum sem sett hafi verið á grundvelli EES-samningsins.  Slíkri lagareglu verði ekki vikið til hliðar með lögskýringu eða á grundvelli ólögfestra reglna EES-samningsins.  Ráðgefandi álit EFTA dómstólsins hafi því ekki efnislega þýðingu varðandi lögskipti aðila málsins.  Sjálfstætt úrlausnarefni sé hvort íslenska ríkið hafi með setningu laganna brotið gegn EES-samningnum og hagsmunum stefndu.

VI

Í máli þessu er þess krafist af hálfu stefnda Biðskýlisins Njarðvík ehf., með vísan til 1. gr. laga nr. 21/1994, að héraðsdómur leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins en þeirri kröfu er mótmælt af hálfu stefnanda.

Sýnt hefur verið fram á í málinu að vafi kunni að leika á því hvort 10. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð fái samrýmst Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. tilskipun ráðsins nr. 85/374/EBE.  Telja verður að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sé til þess fallið að varpa skýrara ljósi á ágreiningsefni þau sem uppi eru í málinu og niðurstöður þess þykja geta haft verulega þýðingu fyrir úrslit málsins, eins og það hefur verið lagt fyrir dóminn. Þykir því rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim álitaefnum sem í úrskurðarorði greinir.

Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Leita ber ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi:

          1.          Samrýmist það túlkun á 1. og 3. gr. tilskipunar nr. 85/374/EBE , sbr. c-      lið 23. gr. og  III. viðauka EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum    byggt á  því að  dreifingaraðili  skuli  bera  hlutlæga  ábyrgð  á skaðsemistjóni beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum?

          2.          Ef svar við spurningu nr. 1 er játandi, samrýmist það 1. og 3. gr.   tilskipunarinnar, sbr. c-lið 23. gr. og III. viðauka EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé byggt á því að dreifingaraðili skuli bera hlutlæga ábyrgð á skaðsemistjóni, án sakar, gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum, ef vitað er hver umræddur framleiðandi, eða eftir             atvikum innflytjandi, vörunnar er?

          3.          Samrýmist það túlkun á 1., 3. og 13. gr. tilskipunarinnar, sbr. c-lið 23. gr. EES samningsins, að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé byggt á því að dreifingaraðili skuli ábyrgjast bótaskyldu framleiðanda sem sá síðarnefndi ber á grundvelli almennra skaðabótareglna er byggja sök hans?

Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.