Hæstiréttur íslands

Mál nr. 322/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. mars 2005.

Nr. 322/2004.

Guðrún Lára Guðmundsdóttir

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Skaðabætur.

G krafðist að viðurkennd yrði skaðabótaskylda O á tjóni, sem varð á bókum og listaverkum, sem geymd voru í bílskúr í húsnæði hennar, af völdum hitaveituvatns, sem flæddi um húsnæðið þegar lögn í hitaveitugrind sprakk. Talið var að stífla hefði myndast í leiðslukerfi bílskúrsins og valdið því að hiti hefði farið af bílskúrnum. Hvorki var talið að starfsmaður O, sem las af umræddum mæli skömmu áður, hefði sýnt af sér slíkt gáleysi að varðaði bótaskyldu O né að O bæri ábyrgð á því að stífla hefði myndast í hitakerfi bílskúrsins þótt O teldist eigandi þess búnaðar sem virtist hafa gefið sig. Hins vegar var talið að G hefði borið að tryggja nægilegt rennsli um hitakerfi bílskúrsins, svo að vatn frysi ekki í leiðslum, og tilkynna O um bilanir í veitukerfi hans, sbr. 7. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 793/1998 um Orkuveitu Reykjavíkur. Var O því sýknað af kröfum G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 2004. Hún krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni, sem varð á bókum og listaverkum, sem geymd voru í bílskúr í húsnæði áfrýjanda að Langholtsvegi 42 í Reykjavík, 13. janúar 2001, af völdum hitaveituvatns, sem flæddi um húsnæðið þegar lögn í hitaveitugrind sprakk. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni var veitt í héraði.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt í málinu og málskostnaður í því tilviki felldur niður.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Guðrún Lára Guðmundsdóttir, greiði stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2004.

Stefnandi málsins er Guðrún Lára Guðmundsdóttir, kt. [...], Langholts­vegi 42, Reykjavík, en stefndi er Orkuveita Reykjavíkur, kt. 551298-3029, Bæjarhálsi 1, Reykjavík. Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 9. desember 2003, sem árituð er um birtingu af lögmanni stefnda. Það var þingfest hér í dómi 16. sama mánaðar.

Málið var dómtekið 13. maí sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda á tjóni, sem varð á bókum og listaverkum, sem geymd voru í bílskúr í húsnæði stefnanda að Langholtsvegi 42, Reykjavík, 13. janúar 2001, af völdum hitaveituvatns, sem flæddi um húsnæðið, þegar lögn í hitaveitugrind sprakk.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkju­málaráðuneytisins, sem dagsett er 25. febrúar sl.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til vara krefst stefndi þess, að sök verði skipt í málinu og málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

Málavextir.

Stefnandi er eigandi íbúðarhússins nr. 42 við Langholtsveg í Reykjavík og bílskúrs, sem því fylgir. Bílskúrinn er ekki sambyggður íbúðarhúsinu og er búinn sérhitalögn og sérstökum rennslismæli. Hún rekur verslun í hluta húsnæðisins og býr þar einnig. Verslunarrekstur stefnanda felst einkum í sölu gamalla bóka og listaverka. Í bílskúrnum geymdi hún vörulager verslunarinnar. Hinn 13. janúar 2001 sprakk hitaveiturör í bílskúrnum, sem olli því að allt eyðilagðist, sem þar var geymt. Alls var um að ræða 5 smálestir (tonn) af bókum, auk listaverka, að sögn stefnanda. Lögregla var kvödd á staðinn og gerði skýrslu um atburðinn. Þar kemur fram, að vaktmaður stefnda hafi komið á staðinn og einnig hafi fulltrúi frá Sjóvá-Almennum hf. (Sjóvá) verið tilkvaddur til að meta tjónið, en Reykjavíkurborg væri með tryggingar sínar hjá því tryggingafélagi. Í tjónalýsingu Guðjóns Sigurðssonar, starfsmanns stefnda, segir svo: Einhverra hluta vegna hafði rennsli á hitakerfi stöðvast og frosið í mælagrind. Þegar þiðnaði sprautaðist vatn um allan skúr. Skúrinn var fullur af gömlum bókum. Ég kallaði til vaktmann Sjóvá/almennra og þeir settu björgunaraðgerðir í gang. Ég endurnýjaði grindina og setti hita á kerfið aftur (Nýr mælir, sía og stillikrani). Gerð var lögregluskýrsla á staðnum. Fyrir liggur, að starfsmenn stefnda lásu á mæli, sem sýnir notkun á heitu vatni í bílskúrnum 30. ágúst 2000 og einnig þann 22. desember s.á. Mælirinn sýndi sömu stöðu í bæði skiptin, þannig að notkun á heitu vatni til upphitunar bílskúrsins var ekki mælanleg.

Stefndi taldi sig ekki bera skaðabótaábyrgð á atburðinum þar sem að samkv. álestrarsögu sést að lokað hefur verið fyrir heitavatnið af öðrum en Orkuveitu Reykjavíkur frá því að a.m. k. 30. ágúst. Þar sem ekkert rennsli hefur verið í gegnum mælinn þá hefur inntakið frosið og frostsprungið.   Sjóvá hafnaði bótaskyldu á sömu forsendum.  Stefnandi fór þess á leit við Iðntæknistofnun, að starfsmaður hennar skoðaði síu úr mæligrind hitaveitukerfisins. Niðurstaða Einars Jóns Ásbjörns­sonar verkfræðings, starfsmanns stofnunarinnar, var sú, að vatn hefði frosið inni í síunni, þanist út og sprengt út húsið. Síðan segir í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar: Ástand síunnar bendir til að mjög lítið vatn hafi verið að renna í gegn, sem eykur líkur á að það geti frosið í grindinni. Ekki er talið líklegt að hátt þrýstingsskot í vatnskerfinu hafi valdið þessu.

Stefnandi lagði málið því næst fyrir Tjónanefnd tryggingafélaganna, sem hafnaði greiðsluskyldu stefnda með eftirfarandi ályktun: Bætist ekki. Ekki verður lögð sök á Orkuv. Rvk. samkv. reglugerð um Orkuveitu Rvk. Sjá 7. mgr. 9. gr. rgl. nr. 793/1998, samanber 11. gr. áðurnefndrar rgl.

Stefnandi leitaði því næst til Sigurðar Grétars Guðmundssonar pípulagningar­meistara, sem kannaði orsakir bilunarinnar. Í niðurstöðu hans segir, að líklegasta orsök þessa óhapps er að hemill á hitaveitugrind hafi stíflast og stöðvað rennsli inn á hitakerfið. Í kjölfar skýrslu Sigurðar Grétars skaut stefnandi málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum (eftirleiðis Úrskurðarnefnd), sem hafnaði bótaskyldu stefnda á þeirri forsendu, að ekki liggi fyrir í málinu sönnun um atvik eða atriði sem leiðir til skaðabótaskyldu O eða starfsmanna O á ofangreindu óhappi og á M því ekki rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu O hjá V. Niðurstaða. Tjón M er ekki bótaskylt úr frálsri ábyrgðartryggingu O. hjá V. Álitsgerð Úrskurðarnefndar er dags. 30. október 2001.  Stefnandi fór fram á dómkvaðningu matsmanna með mats­beiðni, dags. 28. júní 2002. Héraðsdómur Reykjavíkur dómkvaddi Frey Jóhannesson tæknifræðing og Kristján Gunnarsson pípulagningarmeistara, til að segja fyrir um orsakir þess, að umrædd hitaveitulögn í bílskúrnum sprakk. Matsmenn komust að þeirri niðurstöðu, að allar líkur bentu til þess að rekja mætti frostsprengingu í síu til stíflu í hemli, sem stafaði af útfellingu frá hitaveituvatninu. Bentu þeir á, að samfelldur frostakafli hafi verið frá 22. desember 2000 til 9. janúar 2001 og hafi frost mest farið niður í -11,8°C og í 7 daga hafi meðalhiti verið undir -5°C.

Stefnandi óskaði eftir því að Úrskurðarnefnd endurskoðaði fyrri niðurstöðu á grundvelli matsgerðarinnar, með bréfi, dags. 21. október 2002. Úrskurðarnefndin taldi ekki ástæðu til að taka málið fyrir á ný, þar sem viðbótargögn þau, sem stefnandi lagði fyrir nefndina, hefðu ekki áhrif á fyrri niðurstöðu hennar.

Lögmaður stefnanda og stefndi áttu síðan í bréfaskiptum, sem ástæðulaust þykir að gera sérstaka grein fyrir.  Þess ber þó að geta, að fram kom í þessum bréfaskiptum, að settur var nýr rennslismælir á hitalögn í bílskúrnum, en sá sem fyrir var hefur ekki fundist.

Þá skal þess einnig getið, að meðal málskjala eru yfirlýsingar þriggja viðskiptamanna stefnanda, sem erindi áttu í bílskúrinn í október, nóvember og desember 2000. Ein er gefin af Jóni Blöndal, dags. 23. mars 2001, önnur af Birni Stefáni Bjartmars, dags. sama dag og hin þriðja af Jóhannesi B. Sigurðssyni, sem dagsett er í mars s.á. Í yfirlýsingu sinni segist Jóhannes oft hafa komið í bílskúrinn til að leita bóka, síðast líklega á tímabilinu 12. til 16. desember s.á. Hann hafi ekki veitt því athygli, að kalt hafi verið í skúrnum, þegar hann kom þangað síðast, þótt kalt væri í veðri. Hann hafi snert ofn í skúrnum og hafi hann verið vel volgur. Síðar verður fjallað um yfirlýsingar hinna tveggja.

Málsástæður stefnanda og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að tjónið hafi orðið fyrir vanrækslu stefnda á eftirliti með heitavatnslögnum bílskúrsins. Sá hluti kerfisins, sem gaf sig, hafi verið á ábyrgð og háður eftirliti stefnda. Kerfið hafi verið innsiglað af starfsmönnum stefnda, sem hafi verið eini aðilinn, sem stefnandi átti kost á að kaupa af heitt vatn, og hafi stefndi séð um uppsetningu heitavatnskerfisins og eftirlit með því.

Í 7. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 793/1998 um Orkuveitu Reykjavíkur, sem stefndi starfi eftir, sé sú skylda lögð á viðskiptavini stefnda, að þeir gæti þess að ekki sé hætta á, að vatn frjósi í tengigrind eða inntaki og skuli viðskiptavinur tryggja nægilegt rennsli til að það komi ekki fyrir.  Sé þess ekki kostur, skuli tilkynna stefnda það, svo að unnt sé að aftengja viðkomandi húseign. Búnaður skuli settur upp af starfsmönnum stefnda samkvæmt 12. gr. sömu reglugerðar og eigi þeir ætíð rétt á aðgangi að honum og þeir einir megi rjúfa innsigli á mælum. Því hafi hér verið um búnað að ræða, sem stefnandi hafi ekki mátt eiga við. Á árinu 1999 hafi öllum pípulagningarmeisturum verið sent bréf frá stefnda, þar sem fram hafi komið, að þeim væri einnig heimilt að rjúfa innsiglið, en notendum hafi ekki verið tilkynnt um þessa breytingu.  Í 11. gr. reglugerðarinar sé ábyrgð stefnda takmörkuð, m.a. vegna tjóns af völdum frosts.  Aftur á móti séu þau tilvik undanskilin í 5. mgr. sömu greinar, sem rakin séu til mistaka starfsmanna stefnda. Þau ákvæði reglugerðarinnar, sem takmarki skaðabótaábyrgð stefnda, skorti lagastoð. Stefnandi bendir á, að starfsmenn stefnda hafi lesið af notkunarmæli bílskúrsins 30. ágúst 2000 og aftur 22. desember s.á. og hafi mælirinn sýnt sömu töluna í bæði skiptin. Hafi þetta átt að gefa starfsmönnum stefnda tilefni til að ætla, að eitthvað væri að kerfinu og kanna nánar hvað þessu ylli, og grípa til viðeigandi ráðstafana. Tjónið hafi orðið 21 degi eftir síðari álesturinn.  Stefnanda hafi aftur á móti ekkert fengið um þetta að vita, fyrr en eftir að tjónið átti sér stað.  Starfsmenn stefnda hafi tekið mælinn í sínar vörslur og hafi síðan ekkert til hans spurst og því hafi hinir dómkvöddu matsmenn ekki fengið hann til skoðunar.

Stefnandi kveðst hafa fylgst vel með hita í bílskúrnum og gert sér m.a. sérstakar ferðir til að hækka þar hita, þegar spáð var köldu veðri, eins og átt hafi sér stað u.þ.b. tveimur vikum áður en tjónið varð. Stefnandi bendir einnig á, að hún og faðir hennar hafi geymt í skúrnum ýmsa hluti, sem viðkvæmir séu fyrir kulda og hafi áratuga reynslu af umönnun slíkra hluta og vitað að þeir yrðu fyrir skemmdum, ef kalt yrði í skúrnum. Stefnandi kveðst því hafa gert allt, sem hún gat til koma í veg fyrir að tjón yrði.  Eina leiðin til að afstýra því hafi verið í valdi starfsmanna stefnda, sem brugðist hafi eðlilegri eftirlitsskyldu sinni.

Stefnandi kveðst hafa varðveitt þá muni, sem skemmdust og geyma þá enn í bílskúrnum. Því sé enn hægt að meta þá til fjár síðar, ef ástæða þyki.  Um sé að ræða nokkur þúsund hluti, bæði bækur og listaverk. Stefndi hafi alfarið mótmælt bótaskyldu og því hafi ekki verið unnt að komast að samkomulagi um mat á tjóninu og greiðslu kostnaðar, sem matsgerð hefði í för með sér.  Stefnandi kveðst ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa ein straum af þeim kostnaði og því hafi sú leið verið farin að óska fyrst eftir ákvörðun dómsins um bótaskyldu stefnda. Verði niðurstaða stefnanda í hag muni mats verða aflað, náist ekki samkomulag við stefnda um bótafjárhæð.

Stefnandi kveðst byggja málshöfðun sína á almennum reglum skaðabótaréttar. Til stuðnings kröfu sinni um skiptingu sakarefnis á þann hátt að fyrst verði kveðið á um bótaábyrgð og í framhaldi af því um fjárhæð skaðabóta, falli dómur á þann veg, vísar stefnandi til 31. gr. laga nr. 91/1991 (eml.).

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ósannað sé, að tjónið verði rakið til mistaka starfsmanna hans eða annarra atvika, er hann beri ábyrgð á að lögum. Frumorsök tjónsins megi rekja til þess, að rennsli um hitaveitugrind í bílskúr stefnanda hafi ekki verið nægjanlegt og hafi því frosið.  Ekkert bendi til þess í gögnum málsins, að starfsmenn stefnda hafi átt við umrædda hitaveitugrind og lokað fyrir rennsli heitavatnsins.  Því verði að telja að stefnandi hafi sjálf skrúfað fyrir rennsli í hitalögn bílskúrsins eða um stíflu hafi verið að ræða, eins og fram komi í matsgerð dómkvaddra matsmanna og álitsgerð Sigurðar Grétars Guðmundssonar í rennslishemli eða síu í tengigrind veitukerfis bílskúrsins.

Stefndi byggir einnig á því, að ekki verði sú skylda á hann lögð að lögum að fylgjast með því hjá hverjum og einum notanda, hvort nægjanlegt rennsli sé um tengigrind í húsi hans, enda væri slíkt óframkvæmanlegt og mjög ósanngjarnt að mati stefnda að gera slíka kröfu til starfsmanna hans. Orkukaupandi verði sjálfur að fylgjast með hita í húsakynnum sínum.  Í þessu sambandi bendir stefndi á, að orkukaupanda beri að gæta þess, að ávallt sé nægjanlegt rennsli um tengigrind í húsi hans til að tryggja að vatn frjósi ekki í henni, samkvæmt skilmálum þeim, sem giltu um afhendingu á heitu vatni, þegar umrætt tjón varð. Vísar stefndi í því sambandi á 7. mgr. 9. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Af gögnum málsins megi ráða, að mjög takmarkað rennsli hafi verið um tengigrind bílskúrsins á tímabilinu 30. ágúst 2000 til þess dags, er óhappið varð. Stefnanda hafi því verið þetta kunnugt eða mátt vera það og borið skylda til þess að gera nauðsynlegar lagfæringar eða óska eftir því við stefnda, að bílskúrinn yrði aftengdur, sbr. tilvitnað reglugerðarákvæði.  Þar sem stefnandi hafi hvorugt gert, hljóti hún ein að bera hallann af því.

Stefndi byggir enn fremur á því, að hann hafi undanþegið sig öllu tjóni beinu sem óbeinu, sem notendur verði fyrir og sem rakið verði til frosts, bilana eða takmarkana á orkuvinnslunni, o.s.frv., sbr. 3. mgr. 11. gr. fyrrnefndar reglugerðar, enda verði beint tjón orkukaupanda ekki rakið til mistaka starfsmanna hans. Í þessu sambandi mótmælir stefndi því sérstaklega, að ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar eigi ekki lagastoð, eins og stefnandi haldi fram. Reglugerðin sé sett með stoð í lögum um Hitaveitu Reykjavíkur nr. 38/1940 og orkulögum nr. 58/1967, sbr. lög nr. 53/1985. Í 1. gr. fyrrnefndra laga segi, að „Bæjarstjórn (setji) reglugerð um rekstur hitaveitunnar, sem ríkisstjórn staðfestir.“

Loks mótmælir stefndi því, að á honum hafi hvílt sérstök skylda til athafna, þar sem sama staða hafi verið á mæli í bílskúr stefnda 30. ágúst og 22. desember 2000. Af þessu tilefni bendir stefndi á, að notkun á heitu vatni sé mjög einstaklingsbundin og mismunandi frá einum tíma til annars, enda sé það orkukaupandinn sjálfur, sem stýri notkuninni. Stefndi geri ekki athugasemd við óbreytta vísun milli álestra.

Varakröfu sína styður stefndi þeim rökum, að skipta beri sök í máli þessu, þar sem ljóst sé, að tjón stefnanda verði að verulegu leyti rakið til eigin sakar hennar sjálfrar, eins og sýnt hafi verið fram á í umfjöllun um aðalkröfu hennar.

Stefndi vísar til fyrrgreindra laga um Hitaveitu Reykjavíkur og orkulaga. Einnig vísar stefndi til ólögfestra reglna skaðabótaréttarins og skaðabótalaga nr. 50/1993. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á ákvæðum XXI. kafla eml.

Niðurstaða.

Við aðalmeðferð málsins gáfu eftirtaldir einstaklingar skýrslu, auk stefnanda: Guðmundur Axelsson, faðir stefnanda, Freyr Jóhannesson, byggingatæknifræðingur og matsmaður, Jón Blöndal, Björn Stefán Bjartmarz, Sigurður Grétar Guðmundsson, pípulagningarmeistari, Ívar Þorsteinsson og Jón Rafn Gunnarsson, starfsmenn stefnda.

Verður getið þess helsta, sem fram kom hjá þessum einstaklingum í vætti þeirra fyrir dóminum.

Stefnandi sagði að farið hefði verið í bílskúrinn, þegar þurft hafi að ná í bækur eða sortera þær. Hún hafi einnig leyft mönnum að leita þar bóka. Sjálf sagðist hún hafa farið í bílskúrinn öðru hverju, en faðir hennar, sem starfi með henni, hafi verið þar mikið með bókaáhugamönnum.  Hún kvaðst hafa gert sér sérstaka ferð í bílskúrinn milli jóla og nýárs þetta ár til að auka við hitann þar með því að skrúfa meira frá krana á hitagrindinni við hliðina á rennslismælinum. Spáð hafi verið miklu frosti og fólk hafi verið varað sérstaklega við. Hún kvaðst hafa heyrt þegar rennslið jókst, en hafi ekki athugað, hvort ofnar skúrsins hitnuðu.

Guðmundur Axelsson sagðist aðstoða dóttur sína við rekstur fornbókasölu hennar og sjá um að allt væri í lagi, enda taldi hann sig vita meira um bækur en hún. Sagðist hann hafa starfað við bækur og málverk í meira en 35 ár. Hann kvaðst oft hafa átt erindi í bílskúrinn frá ágúst til og með desember á árinu 2000 og farið þangað með menn, sem voru að leita að sérstökum bókum. Einnig hafi mönnum verið leyft að fara þangað og gramsa. Hann hafi fylgst vel með hita í bílskúrnum, enda væru bækur viðkvæmar fyrir kulda og væru fljótar að verpast. Engin vandamál hafi verið í sambandi við hita í skúrnum, en yfir sumarið hafi hiti verið stilltur lægra en að vetri til. Engar kvartanir hafi borist um kulda í bílskúrnum frá viðskiptavinum, sem þangað var leyft að fara. Sjálfur hafi hann stillt hita í skúrnum, þegar honum þótti ástæða til. Einnig minntist hann þess, að dóttir hans hafi farið út í skúrinn milli jóla og nýárs þetta ár til að hækka þar hita vegna fréttar í sjónvarpi um væntanlegar frosthörkur. Hann kvaðst ekki muna fyrir víst, hvort hann hafi farið í skúrinn frá því fyrir áramót og þar til óhappið henti, en taldi það líklegt. Að hans mati hafi alltaf verið hiti í skúrnum. Hann taldi sig muna eftir hreyfingu á skífu mælisins, sem sýnir rennsli um hann, þegar hann stillti hita í skúrnum á tímabilinu frá ágúst 2000 til desember s.á. Hann kvaðst alltaf hafa litið á mælinn, þegar hann átti leið í skúrinn.

Freyr Jóhannesson staðfesti undirritun sína undir framlagða matsgerð. Hann sagði aðspurður, að rennslismælar, eins og sá, sem var í umræddum bílskúr, entust að jafnaði ekki mjög lengi, stundum aðeins örfá ár. Þeir virtust með tímanum stíflast af útfellingu og hætta að virka, eins og væntanlega hafi átt sér stað um umræddan mæli. Þetta gangi þannig til, að fyrst hætti mælar að mæla og síðan stíflist þeir. Hitaveitan uppgötvi þetta í næsta álestri og skipti um mæli.  Því hefði verið upplýsandi að fá tækifæri til að skoða mælinn, en hann hafi ekki verið tiltækur.  Rennslistregða um mæli hafi áhrif á rennsli um aðra hluta lagnar og geti valdið þar stíflu, s.s. í hemli og síum. Hemillinn hafi verið veikur hlekkur í kerfinu, ásamt mælinum, og mestar líkur á því, að frostsprengingar í síu í hemli hafi valdið tjóninu,  eins og segi í matsgerðinni.

Vitnið Jón Blöndal staðfesti yfirlýsingu sína frá 23. mars 2001. Hann kvaðst aðspurður hafa samið skjalið. Hann sagðist hafa átt talsverð viðskipti við stefnanda og föður hennar og oft komið þangað í leit að bókum og fengið þar að gramsa. Hann hafi nánast ekkert komið þangað eftir tjónið. Síðast hafi hann komið 1. nóvember 2000. Hann hafi fengið að ganga í bókastafla í skúrnum og hafi þurft að færa til bókakassa. Áður en hann færði kassana aftur á sama stað hafi hann tekið á ofni til að ganga úr skugga um, hvort hann væri svo heitur, að bækurnar kynnu að skemmast. Svo hafi ekki verið en ofninn hafi verið vel volgur. Hann kvaðst hafa verið í skúrnum á annan klukkutíma og ekki orðið var við neitt óvenjulegt að því er hitann snerti.

Vitnið Björn Stefán Bjartmarz staðfesti yfirlýsingu sína, frá 23. mars 2001, sem liggur frammi í málinu. Hann taldi sig muna eftir að hafa farið inn í bílskúrinn með Guðmundi Axelssyni, en hann hafi verið að leita að bók fyrir sig. Hann kvaðst ekki muna eftir því nú, hvernig hita í skúrnum hafi verið háttað.

Vitnið Sigurður Grétar Guðmundsson staðfesti að hafa unnið skýrslu, dags. 7. ágúst 2001, sem liggur frammi í málinu, og hafa undirritað hana. Hann sagðist hafa unnið skýrsluna að beiðni gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands, sem stefnandi hafði leitað til. Hann gaf dóminum skýringu á því, hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu, sem í skýrslu hans greinir. Hann upplýsti, að mjög oft hafi myndast stíflur í rennslishemlum, eins og þeim sem var á hitakerfi bílskúrsins.  Nú sé hætt að nota slíka hemla. Hann hafi prófað hemilinn með því að blása í gegnum hann og hafi hann þá verið nær algjörlega stíflaður. Taldi hann, að ekki hefði verið átt við hemilinn frá þeim tíma, er hann var aftengdur, þar til athugun hans fór fram. Hann upplýsti að mun meiri hætta væri á stíflu í litlum kerfum, eins og því sem var í bílskúrnum, þar sem hemillinn sé þar mjög lítið opinn. Slík stífla myndist yfirleitt á löngum tíma, en einnig geti stífla myndast á stuttum tíma, ef óhreinindi komist í leiðslu, eða fari skyndilega af stað.

Ívar Þorsteinsson kvaðst hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra dreifingarsviðs hjá stefnda, þegar umrætt tjón átti sér stað. Málið hafi því fallið undir hans starfssvið. Hann upplýsti, að lesið væri að jafnaði á mæla viðskiptavina einu sinni á ári, en vissi ekki um ástæðu þess, að lesið var á mæli í bílskúr stefnanda í ágúst og desember 2000. Hann kvað þá vinnureglu gilda hjá stefnda, þegar í ljós kæmi, að mælir teldi ekki eða sýndi óvenjulega notkun, að mælaálesarar komi þeim upplýsingum til starfmanns, sem sjái um mæla viðskiptavina. Síðan sé venjan sú, að starfsmaður sé sendur á staðinn til að kanna, hvort mælirinn sé bilaður. Þetta byggist fyrst og fremst á viðskiptalegum ástæðum. Honum sé ókunnugt um, hvort slík tilkynning hafi borist í tilviki stefnanda. Hann kvað viðskiptavinum vera heimilt að hreinsa síur, eins og þá, sem stíflaðist án sérstaks leyfis Orkuveitunnar. Orkuveitan annaðist ekki reglubundið eftirlit með þeim búnaði, sem hún setji upp í híbýlum viðskiptavina, enda myndi það hafa mikinn kostnað í för með sér. Viðskiptamaður stýri rennslinu og það sé í hans þágu að hiti sé fullnægjandi.  Að sögn Ívars sýndu mælar oft enga hreyfingu, ef mjög lítið rennsli færi um þá. Ef á hinn bóginn hreyfing væri á skífu mælisins, væri rennsli um kerfið.

Jón Rafn Gunnarsson, starfsmaður stefnda, upplýsti, að sennilega hafi þeim mæli verið fargað, sem tekinn var úr bílskúr stefnanda, þegar gert var við bilun í hitakerfi hans.  Hann hafi verið ónýtur, frostsprunginn. Aðspurður sagði hann ekki óalgengt, og sérstaklega áður fyrr, að mælar stöðvuðust, þótt rennsli væri um þá. Skífan, sem sýni vatnsrennsli, snúist þá ekki. Þetta ástand hringi engum viðvörunarbjöllun hjá starfsmönnum stefnda.  Þegar álestrarmenn láti vita um óvirkan mæli eða óvenjulega notkun, séu viðeigandi ráðstafanir gerðar í kjölfarið. Hann kvaðst aldrei á sínum starfsferli vita til þess, að stífla hafi myndast í sjálfum mælinum. Hann sagði, að ávallt væri brugðist við, ef viðskiptamaður kvartaði um kulda og væri sólarhringsvakt hjá stefnda til að sinna slíkum kvörtunum.

Álit dómsins.

Ráða má af framburði stefnanda, Guðmundar Axelssonar, föður hennar, og vætti vitnanna Jóns Blöndals og Björns Stefáns Bjartmarz og yfirlýsinga þeirra, að fullnægjandi hiti hafi verið í bílskúr stefnanda a.m.k. til desemberloka 2000. Einnig vísast í þessu sambandi til yfirlýsingar Jóhannesar B. Sigurðssonar um heimsókn hans í bílskúrinn í desember 2000, sem áður er getið. Gera má enn fremur ráð fyrir, að hitastig í bílskúrnum hafi ekki verið óeðlilegt hinn 22. desember, þegar starfsmaður stefnda las af rennslismæli í hitakerfi bílskúrsins. Ella hefði hann að líkindum látið vita um það. Hann myndi væntanlega hafa veitt því athygli, ef leiðsla sú, sem rennslismælirinn var tengdur við, hefði verið köld, þegar hann las af mælinum. Stefnandi kvað hita hafa verið á skúrnum milli jóla og nýárs, þegar hún gerði sér ferð þangað út til að auka þar við hitann vegna viðvarana í sjónvarpi um yfirvofandi frosthörkur. Telja verður fullvíst, að stefnandi hefði gert viðeigandi ráðstafanir, hefði ónógur hiti þá verið í skúrnum, en ekki síst hefði hún orðið þess vör, að enginn hiti var á hitagrindinni eða þeim hluta leiðslunnar, þar sem sá krani er, sem stýrir innstreymi á ofna bílskúrsins og stefnandi segist hafa skrúfað frá.

Því er ljóst, að stífla hefur myndast í leiðslukerfi bílskúrsins (sennilega í hemli, sbr. matsgerð) eftir ferð stefnanda þangað út í desemberlok og valdið því að hiti hefur farið af bílskúrnum með fyrrgreindum afleiðingum.  Ógerlegt er, að mati dómsins, að tímasetja með nákvæmni, hvenær það hefur gerst, en ljóst þykir, að nokkur tími hefur liðið frá því kerfið stíflaðist og þar til hitastig í bílskúrnum hefur farið niður fyrir frostmark og valdið áðurnefndum frostskemmdum. Gögn málsins sýna, að stöðugt frost var frá 23. desember 2000 til og með 9. janúar 2001, en tjónið varð 13. sama mánaðar.

Þær réttarheimildir, sem einkum reynir á við úrlausn þessa máls, eru lög um Hitaveitu Reykjavíkur nr. 38/1940 og reglugerð nr. 793/1998 um Orkuveitu Reykjavíkur.

Í 7. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar er sú skylda lögð á viðskiptavin að gæta þess að ekki sé hætta á að vatn frjósi í tengigrind eða inntaki og skal hann tryggja nægjanlegt rennsli til að hindra að það eigi sér stað.

Óhapp það, sem átti sér stað í bílskúr stefnanda, fellur beint undir orðalag þessa reglugerðarákvæðis.

Dómurinn telur, að með ákvæðinu séu ekki lagðar á viðskiptavini stefnda þyngri skyldur en eðlilegt geti talist, enda hljóti það að standa húseiganda eða notanda nær að fylgjast með hita og vatnsnotkun í húsakynnum sínum en stefnda, enda séu þarfir og óskir manna misjafnar að þessu leyti sem öðru.  Tilvitnað reglugerðarákvæði, sem og önnur ákvæði reglugerðarinnar, er sett með stoð í fyrrnefndum lögum um Hitaveitu Reykjavíkur, sbr. 1. gr. laganna.  Því er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda, að reglu­gerðin eigi sér ekki lagastoð.

Stefnandi styður málsókn sína einnig þeim rökum, að tjón hennar megi rekja til mistaka starfsmanna, sbr. 5. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar. Stefnandi byggir enn fremur á því, að undanþáguheimildir frá bótaábyrgð í 3. mgr. sömu greinar fái ekki staðist að lögum. Að mati stefnanda liggja mistök starfsmanna stefnda í því, að þeir hafi ekkert aðhafst, þegar þeim var ljóst við álesturinn 22. desember, að rennslismælir í bílskúrnum sýndi sömu stöðu og við fyrri álestur.

Eins og fyrr er lýst komst dómurinn að þeirri niðurstöðu, að hiti hafi verið í bíl­skúrnum fram undir áramótin 2000/2001. Af því leiðir að sá starfsmaður stefnda, sem las af umræddum mæli í bílskúrnum í desember, hafði ekki ástæðu til að ætla annað en mælirinn væri bilaður, hafi hann á annað borð haft upplýsingar um fyrri mælisstöðu, sem ekki liggur fyrir í málinu.

Því verður ekki talið, að umræddur starfsmaður stefnda hafi sýnt af sér slíkt gáleysi að valdi bótaskyldu stefnda.

Ekki verður heldur talið, að stefndi beri ábyrgð á því, að stífla hafi myndast í hitakerfi bílskúrsins, þótt hann teljist eigandi þess búnaðar, sem virðist hafa gefið sig. Stefnanda bar að tryggja nægilegt rennsli um hitakerfi bílskúrsins, svo að vatn frysi ekki í leiðslum, og tilkynna stefnda um bilanir í veitukerfi hans, eins og áður er getið.

Dóminum virðist sem stefnandi hafi brugðist þessari eftirlits- og umönnunar­skyldu, þar sem hvorki hún né neinn á hennar vegum sýnist hafa gert sér ferð í bílskúrinn til eftirlits á tímabilinu milli jóla og nýárs fram til 13. janúar 2001, þrátt fyrir það að hörkufrost var allt til 9. janúar og að í bílskúrnum væri geymt mikið af viðkvæmum munum, s.s. bókum og listaverkum, sem illa þola kulda. Verðmæti þessara muna nam tæplega 17 milljónum króna að mati stefnanda.

Stefnandi hefur engin rök fært fram fyrir þeirri málsástæðu sinni, að ákvæði 3. mgr. 9. gr. rgl. 793/1998 fari í bága við lög og verður því ekki fjallað sérstaklega um hana.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykir verða að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

Stefnanda var veitt gjafsókn til að reka mál þetta á hendur stefnda, eins og fyrr er getið.

Lögmaður stefnanda hefur lagt fram málskostnaðarreikning að fjárhæð 1.099.086 kr., ásamt fylgigögnum. Þar af nemur útlagður kostnaður stefnanda vegna matsgerðar og álitsgerðar Sigurðar Grétars Guðmundssonar, samkvæmt framlögðum reikningum, 164.340 kr. en lögmannsþóknun að viðbættum virðisaukaskatti nemur 934.746 kr.  Dómurinn hefur yfirfarið tímaskráingu lögmanns stefnanda, sem fylgdi málskostnaðarreikningi, og telur 500.000 krónur hæfilega þóknun lögmanns stefnanda fyrir rekstur málsins að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ríkissjóði ber því að greiða stefnanda samtals 664.340 krónur, þar af til lögmanns stefnanda 500.000 krónur.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari og meðdómendurnir Guðmundur Halldórsson verkfræðingur

og Páll Bjarnason pípulagningarmeistari kváðu upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðrúnar Láru Guðmundsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Ríkissjóður greiði stefnanda 664.340 krónur í málskostnað, þar af 500.000 krónur í lögmannsþóknun til Sigríðar Elsu Kjartansdóttur hdl.