Hæstiréttur íslands

Mál nr. 357/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 15. júní 2011.

Nr. 357/2011.

Guðrún Sæmundsdóttir

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Halldór Jónsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

G kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hennar gegn A hf. var vísað frá dómi. Í málinu krafði G A hf. um skaðabætur í tengslum við vörslur A verðbréfavörslu hf. á skuldabréfum í eigu G. Í úrskurði héraðsdóms sagði m.a. að lýsing á málsástæðum væri takmörkuð og óljós í stefnu. Ekki væri útskýrt með nægjanlega skýrum hætti á hvaða forsendum G teldi að A hf. ætti að bera skaðabótaábyrgð á ætlaðri vangeymslu A verðbréfavörslu hf., dótturfélags A hf., en því félagi væri ekki stefnt. Þá væri rökstuðningi fyrir fjárhæð bótakröfunnar ábótavant. Taldi héraðsdómur að þegar á heildina væri litið væri samhengi málsatvika, málsástæðna og lagaröksemda í stefnunni óskýrt auk þess sem á það skorti að viðhlítandi rök hefðu verið færð fyrir kröfugerð G og hvers vegna henni væri beint að A hf. Stangaðist málatilbúnaður G á við fyrirmæli e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Staðfesti Hæstaréttur úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en við ákvörðun hans er litið til þess að samhliða þessu máli eru rekin fjögur önnur samkynja kærumál, sem beinast að varnaraðila.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðrún Sæmundsdóttir, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2011.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. apríl 2011, er höfðað 16. nóvember 2010 af Guðrúnu Sæmundsdóttur, Mosgerði 16 í Reykjavík, gegn Arion banka hf., Borgartúni 19 í Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 25.445.458 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2008 til greiðsludags. Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti til greiðsludags, í fyrsta sinn 31.desember 2009. Þá krefst stefnandi að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, sbr. heimild í 3. töluliði 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eða að skaðlausu eftir mati réttarins, ásamt virðisaukaskatti lögum samkvæmt.

Stefndi krefst aðallega frávísunar á kröfum stefnanda auk málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Að því frágengnu krefst stefndi að krafa stefnanda verði lækkuð og að málskostnaður verði felldur niður.

Málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda 18. apríl sl. og er einungis sá þáttur málsins hér til umfjöllunar. Þar krefst stefnandi að frávísunarkröfunni verði hafnað og að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

II.

1. Málsatvik, málsástæður og lagarök stefnanda

Í stefnu greinir svo frá að stefnandi hafi í mörg ár átt fjármálaviðskipti við stefnda og forvera hans. Þar kemur og fram að þau viðskipti hafi ávallt farið í gegnum nafngreindan, fyrrum starfsmann stefnda, sem hafi fyrst starfað hjá Fjárvangi hf., síðan Frjálsa fjárfestingabankanum hf. og loks hjá Kaupþingi banka hf. Í síðastgreinda fyrirtækinu hafi umræddur starfsmaður verið ráðinn til starfa sem ráðgjafi í deild einstaklingsráðgjafar á sölu- og markaðssviði Kaupþings hf. 9. febrúar 2001. Samkvæmt starfslýsingu hafi hann þar meðal annars átt að veita almenna ráðgjöf um þá fjárfestingarmöguleika sem í boði voru hverju sinni.

Þess er jafnframt getið í stefnu að Arion verðbréfavarsla hf. hafi verið stofnuð 30. apríl 2002 af Kaupþingi banka hf. og Sigurði Einarssyni. Hafi tilgangur þessa félags verið að starfrækja verðbréfaþjónustu samkvæmt lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, einkum verðbréfavörslu og þjónustu henni tengdri.

Í stefnu er gerð grein fyrir því að í október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið stofnað Nýja Kaupþing banka hf., sem er stefndi í málinu, er hafi tekið við öllum eignum Kaupþings banka hf., svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum. Hafi fyrrgreindur starfsmaður verið ráðinn til hins nýja banka sem sérfræðingur og viðskiptastjóri í einkabankaþjónstu stefnda. Hinn 18. mars 2009 hafi stefndi og starfsmaðurinn gert samkomulag um starfslok hans hjá bankanum.

Í stefnu segir síðan orðrétt í kafla sem ber yfirskriftina „Málavextir, málsástæður og önnur atvik“:

„Samkvæmt sundurliðun á verðbréfaeign stefnanda, með Eignastýringaryfirliti frá Kaupþingi , hinn 31.12.2008, er nafnverð verðbréfa stefnanda á Hraunbæ 107 ehf. kr. 2.863.000.- og YL-Hús ehf.,kr. 7.950.000.-.samtals kr.10.813.000-en markaðsvirði. samtals kr. 25.445.458.-, sbr. dskj. nr. 10, sem er stefnufjárhæð máls þessa

Samkvæmt sundurliðun á sömu verðbréfaeign, á bréfsefni frá stefnda Arion banka hf., hinn 31.12.2009, er nafnverð verðbréfanna kr. 10.813.000.-, en markaðsvirði talið kr.19.365.402-, þar sem skuld, samkvæmt skuldabréfum á Hraunbæ 107 ehf. hefur verið  núllfærð, sbr. dskj. nr. 11, sem gert hefur verið án vitundar, samráðs eða vilja stefnanda.

Samkvæmt yfirliti frá PwC, sem unnið er fyrir Eignastýringarsvið Nýja Kaupþings banka hf. á grundvelli gagna frá bankanum, er skuldabréfa/víxla-eign stefnanda pr.30.júní 2009 að nafnvirði kr.10.813.000.-, en eiginmanns hennar, Eiríks Sigurðssonar, kr. 95.360.000.-, eða sameiginlega kr. 106.173.000.- og bókfært verð hjá þeim sameiginlega kr.238.929.005.-, sbr. dskj. nr. 12.

Í stefnu er síðan gerð grein fyrir bréfaskiptum lögmanns stefnanda við stefnda þar sem hann leitaði m.a. upplýsinga um eignastöðu stefnanda „til útborgunar, afsetningar og innlausnar verðbréfa“ sem bankinn hafi haft „og stjórnað með fjárumsýslu … um liðna tíð“, sbr. bréf hans, dags. 16. nóvember 2009. Í bréfi lögmannsins til stefnda 10. desember 2009 óskaði hann enn fremur eftir skriflegri afstöðu bankans „varðandi þær viðskiptakröfur, hverju nafni sem nefnast, sem umbjóðendur mínir kunna að eiga á hendur bankanum vegna fjármálaviðskipta þeirra við bankann eða afleiddra viðskipta hans frá þeim bönkum sem á undan eru gengnir og staðið hafa um mörg undanfarin ár“. Í svarbréfi frá stefnda 15. desember sama ár kemur fram að öll viðskiptabréf stefnanda, ásamt öðrum bréfum umbjóðenda lögmannsins, sem hafi verið í vanskilum í janúar 2009, hafi verið send í lögfræðiinnheimtu.Varðandi hugsanlega kröfu stefnanda á hendur bankanum kom fram að þau atvik, sem stefnandi byggi bótakröfu sína á, hafi átt sér stað á starfstíma Kaupþings banka hf. áður en hinn stefndi banki var stofnaður 22. október 2008.

Af hálfu stefnanda var lýst kröfu við slit Kaupþings banka hf. með kröfulýsingu, dags. 17. desember 2009. Höfuðstóll kröfunnar var 27.375.060 krónur en með dráttarvöxtum, innheimtukostnaði og virðisaukaskatti nam krafan 32.128.005 krónum. Samkvæmt bréfi slitastjórnar Kaupþings banka hf. 23. mars 2010 var krafa þessi ekki viðurkennd við slitin „eins og henni var lýst, m.a. með vísan til þess að bótaskylda Kaupþings banka hf. liggur ekki fyrir og málsatvik eru enn óljós“. Af hálfu stefnanda var þessari afstöðu mótmælt og bárust mótmælin slitastjórn bankans 12. maí 2010.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Sigurmars K. Albertssonar hrl., dags. 29. mars 2010. Þar kemur fram að hann hafi til innheimtu víxla og skuldabréf þar sem greiðendurnir eru félögin YL-hús ehf. og Hraunbær 107 ehf. Innheimta þessara bréfa hafi verið árangurslaus. Í yfirlýsingunni er eignastöðu félaganna og ábyrgðarmanna á skjölunum lýst. Þá segir í yfirlýsingunni: „Kröfurnar sem Lagastoð er með í innheimtu eru víxlar og skuldabréf. Margt er að þessum skuldaskjölum. Mörg eru ekki stimpluð og víxlarnir margir fyrndir og gallaðir að öðru leyti m.a. hafa þeir aldrei verið sýndir þannig að útgefendur og ábyrgðarmenn eru lausir undan ábyrgðum. Líkur á innheimtu krafnanna eru að mati undirritaðs engar og er unnið að því að ljúka innheimtu með árangurslausu fjárnámi hjá sýslumanninum í Reykjavík á félögin, YL-Hús ehf. og Hraunbæ 107 ehf., og hjá ábyrgðarmönnunum Ágústi og Sigurði.“

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2010, krafðist lögmaður stefnanda að stefndi viðurkenndi bótaábyrgð sína „vegna óforsvaranlegrar umsjónar Arion verðbréfavörslu hf. … og vítaverðrar meðferðar bankans … á fé og verðbréfum eftirtalinna viðskiptamanna bankans“. Meðal umræddra viðskiptamanna var stefnandi í máli þessu. Í bréfinu er því haldið fram að starfsmaður bankans hafi sýnt af sér hirðuleysi eða afglöp í fjárumsýslu vegna umbjóðenda lögmannsins. Málavöxtum og röksemdum stefnanda er síðan lýst frjá sjónarhóli hans. Í stefnu segir að dómskjal þetta „skoðist sérstaklega sem hluti málavaxta, málsástæðna og annarra atvika í stefnu máls þessa“.

Þessu bréfi var af hálfu stefnda svarað með bréfi, dags. 21. september 2010. Þar er því hafnað að stefndi hafi tekið yfir skuldbindingar sem lúti að mögulegum bótarétti þriðja aðila á hendur Kaupþingi banka hf. óháð því á hvaða grundvelli slík skaðabótaskylda byggist. Þá segir eftirfarandi í svarbréfinu: „Í bréfi þínu er farið fram á að Arion banki bæti umbj. þínum tjón sem þeir urðu fyrir vegna fyrningar á víxilkröfum og sjálfskuldarábyrgð. Þær kröfur sem nefndar eru í bréfinu og sagðar fyrndar voru allar fyrndar áður en Arion banki tók til starfa og ber Arion banki því ekki ábyrgð á því tjóni sem umbj. þínir telja sig hafa orðið fyrir vegna þessa.“

Í stefnu vísar stefnandi til bréfs Eiríks S. Svavarssonar hdl. til Sigurmars K. Albertssonar hrl. frá 14. apríl 2009. Í bréfi þessu er því haldið fram að flestir þeir víxlar á hendur YL-húsum ehf., sem verið væri að innheimta, séu fyrndir auk þess sem nánar tilgreindum innborgunum félagsins hafi átt að ráðstafa til uppgreiðslu á skuldabréfum og víxilskuldum félagsins. Í stefnu kemur fram að sé málum svona háttað hafi uppgreiðslur nefndra verðbréfa ekki runnið til stefnanda. Þá sé réttur stefnanda til greiðslna samkvæmt víxlum þeim „sem í máli þessu greinir“ fyrndur fyrir vangeymslu Arion verðbréfavörslu hf. Þá sé fyrndur réttur stefnanda á hendur þeim sjálfskuldarábyrgðarmönnum sem ritað höfðu á „skuldabréf þau sem í máli þessu greinir“ fyrir vangeymslu Arion verðbréfavörslu hf., dótturfélags stefnda, sem hafi alfarið „og frá upphafi viðskipta aðila annast vörslur verðbréfa í eigu stefnanda, fyrir stefnda“.

Í stefnunni er því haldið fram að með gagnályktun frá 8. lið í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþingsbanka hf., verði ekki annað ráðið en að stefndi hafi „yfirtekið ábyrgðir vegna dótturfélaga sinna og áður Kaupþings banka hf. hér á landi“.

Stefnandi telur ljóst að fjártjón stefnanda sé vegna saknæmrar háttsemi stefnda og dótturfélags hans, Arion verðbréfavörslu hf., sem hafi leitt til þess að stefnandi geti ekki og muni ekki geta innheimt fjárkröfur sínar úr hendi sjálfskuldarábyrgðarmanna skuldabréfa sinna, „sem í máli þessu greinir, vegna reglna um viðskiptabréf og vangeymslu lögum samkvæmt“. Hafi frumrit allra verðbréfanna verið og séu í vörslu Arion verðbréfavörslu hf. fyrir stefnda, Arion banka hf. „og áður forvera þess og hafa verið frá upphafi viðskipta með þau“. Því megi ljóst vera að stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna eigin gjörða og á aðgerðar- eða athafnaleysi dótturfélags síns, Arion verðbréfavörslu hf., sem hafi leitt til þess að stefnandi hafi glatað rétti sínum til fjárkrafna á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnum á skuldabréfunum og sem stefnda beri að bæta stefnanda.

Fram kemur í stefnu að stefnandi styðji kröfur sínar m.a. við almennu skaðabótaregluna og við reglur íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Í stefnu er listi yfir „lagatilvitnanir“ þar sem eftirtalin lög eru tilgreind:

„Lög um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.

Lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Lög um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði nr. 30/2003.

Lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Lög um vexti og verðtryggingu rn. 38/2001.

Lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988, með síðari breytingum.“

Þá kemur þar fram að kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum og að varnarþing fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur styðjist við 33. gr. sömu laga.

2. Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun málsins

Stefndi telur að málatilbúnaður stefnanda sé verulega vanreifaður og uppfylli ekki kröfur einkamálaréttarfars og um skýran og glöggan málatilbúnað eins og þær birtist einkum í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi vísar í þessu sambandi í fyrsta lagi til þess að ranglega sé á því byggt að Kaupþing banki hf. og stefndi séu sami lögaðilinn. Ekki sé ljóst hvort aðalkrafa stefnanda byggi á því að stefndi hafi yfirtekið hugsanlega skaðabótaábyrgð Kaupþings banka hf. gagnvart stefnanda eða hvort á því sé byggt að stefndi hafi sjálfur bakað sér ábyrgð gagnvart stefnanda. Þá sé ekki getið um það í stefnu hvenær stefnandi telji að hin ætlaða bótaskylda háttsemi eigi að hafa átt sér stað. Stefndi vísar til þess að stefnandi virðist að einhverju leyti byggja á því að kröfur hans hafi fyrnst á meðan viðskiptabréf, sem þær grundvölluðust á, hafi verið í vörslum dótturfélags stefnda. Ekki sé þó gerð tilraun til þess að fjalla um það hvenær fyrningartími einstakra krafna hafi verið liðinn, þ.e. hvort það hafi verið fyrir eða eftir að stefndi var stofnaður. Þá sé óljóst hvort það skipti einhverju máli fyrir grundvöll bótakröfunnar.

Í stefnu sé enn fremur tekið fram að málið sé höfðað á hendur stefnda „… sjálfstætt og sem eiganda dótturfélags [stefnda], Arion verðbréfavörslu hf. …“ Stefndi byggir á því að þar sé þó ekki reynt að gera grein fyrir því að hve miklu leyti eða með hvaða hætti ábyrgð stefnda byggi á því að stefndi sé móðurfélag Arion verðbréfavörslu hf. eða að hve miklu leyti ábyrgðin byggist „sjálfstætt“ á bótaskyldri háttsemi stefnda. Þá sé ekki vikið að því í stefnu á hvaða grundvelli stefndi geti borið bótaábyrgð á ætlaðri saknæmri háttsemi dótturfélags síns.

Stefndi vísar enn fremur til þess að ekki séu lagðir fram neinir samningar eða önnur gögn um réttarsamband stefnanda við stefnda eða Kaupþing banka hf. áður. Ekki liggi fyrir hvort um hafi verið að ræða eignastýringarsamninga eða vörslusamninga – þ.e. hvort stefnandi hafi þurft að eiga frumkvæði að viðskiptum eða ekki – svo dæmi sé tekið. Þá leggi stefnandi ekki fram nein gögn um það hver hafi átt að sinna innheimtu á þeim viðskiptabréfum sem rætt sé um í stefnu eða á hvaða grundvelli. Þessi atriði skipti þó verulega máli fyrir málatilbúnað stefnanda og þar af leiðandi fyrir varnir stefnda.

Þá sé umfjöllun í stefnu um bótagrundvöllinn jafnframt óskýr. Fram komi í stefnu að stefnandi byggi bótagrundvöll á saknæmri háttsemi stefnda og áðurnefnds dótturfélags stefnda, en lítil umfjöllun og óskýr sé um það hvaða háttsemi það sé nákvæmlega sem stefnandi telji að sé saknæm eða hvernig sú háttsemi leiddi til tjóns fyrir stefnanda. Þetta eigi sérstaklega við um „sjálfstæða“ ábyrgð stefnda. Þá virðist stefnandi byggja á húsbóndaábyrgð stefnda án þess þó að skýra það með hvaða hætti háttsemi tilgreinds starfsmanns hafi verið saknæm eða hvernig sú háttsemi hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda.

Stefndi vísar jafnframt til þess að í stefnu sé ætlast til að tiltekið dómskjal eigi að „skoðast sértsaklega sem hluti málavaxta, málsástæðna og annarra atvika í stefnu máls þessa“. Stefndi telur að þessi tilvísun samrýmist ekki kröfu 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þess efnis að málatilbúnaður stefnanda skuli vera skýr og koma fram í stefnu.

Stefndi telur enn fremur að rökstuðningi fyrir fjárhæð bótakröfu sé verulega ábótavant. Virðist stefnandi byggja á því að markaðsverð umræddra viðskiptabréfa hafi á ákveðnum tíma verið 25.445.458 krónur en að þau séu nú verðlaus. Þrátt fyrir það geri stefnandi litlar tilraunir í stefnu til að rökstyðja að viðskiptabréfinu séu verðlaus. Stefnandi virðist að einhverju leyti byggja það á því að kröfur samkvæmt bréfunum séu fyrndar. Ekki komi þó fram hvaða kröfur séu fyrndar eða hvenær þær hafi fyrnst.

Stefndi vísar enn fremur til þess að í kafla um lagatilvitnanir sé vísað til nokkurra laga sem þó sé ekki hægt að sjá að byggt sé á í málsástæðum stefnanda. Sé það fallið til þess að gera málatilbúnað stefnanda ennþá óskýrari.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála beri stefnanda að leggja grunn að málsókn sinni með stefnu svo stefndi geti áttað sig á málatilbúnaði stefnanda, haldið uppi vörnum í greinargerð og byggt varnir sínar á þeim grundvelli sem markaður sé í stefnu. Ljóst sé að umfjöllun um þau atriði sem hér hafi verið gerð grein fyrir geti skipt verulegu máli hvað varnir stefnda áhræri. Með því að málatilbúnaður stefnanda sé jafn óskýr og raun beri vitni sé stefnda gert mjög erfitt um vik að halda uppi vörnum. Að sama skapi hljóti að vera erfitt að fella dóm á kröfur stefndanda. Telur stefndi að stefnandi geti í samræmi við meginreglur einkamálaréttarfars ekki bætt úr þessum annmörkum síðar undir rekstri málsins, þar sem stefndi muni þá þegar hafa lagt fram greinargerð sína. Af þessum sökum telur stefndi að það beri að vísa málinu frá dómi.

3. Sjónarmið stefnanda um frávísunarkröfu stefnda

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að annmarkar séu á málatilbúnaði hans er varði frávísun málsins. Telur hann að málsatvikum og málsgrundvellinum hafa verið lýst með skýrum hætti í stefnu. Á því sé byggt að stefndi og forveri hans hafi falið Arion verðbréfum hf. vörslu umræddra viðskiptabréfa án atbeina stefnanda. Þeim vörslum hafi ekki verið sinnt og þess ekki gætt að halda bréfunum til laga. Umræddu félagi hafi verið ráðstafað til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skilyrðislaust og án fyrirvara.

Skaðabótakrafan taki mið af stöðu umræddra lána á viðmiðunardegi samkvæmt yfirlitum frá stefnda. Telur stefnandi ljóst að réttur samkvæmt umræddum viðskiptabréfum sé nú glataður. Um sé að ræða vangeymslu á vegum stefnda sem hann beri ábyrgð á, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 2. febrúar 1995 í máli nr. 61/1993. Telur hann að allt það sem hægt hafi verið að fjalla um í stefnu hafi komið þar fram með skipulegum hætti þannig að stefnda eigi að vera unnt að grípa til varna.

III.

Niðurstaða

Í máli þessu er stefnda einum stefnt til greiðslu skaðabóta í tengslum við vörslur á nánar tilgreindum skuldabréfum í eigu stefnanda sem hann telur að ekki sé unnt að innheimta. Á sjö blaðsíðum í stefnu er í einu lagi gerð grein fyrir málavöxtum, málsástæðum stefnanda og öðrum atvikum. Málavaxtalýsingin einkennist af upptalningu tiltekinna atriða úr framlögðum dómskjölum. Eftir sem áður er ekki gerð grein fyrir því hvernig stofnast hafi til réttarsambands milli stefnanda og stefnda og á hvaða grundvelli réttindi aðila skyldur þeirra byggðust.

Lýsing á málsástæðum stefnanda er takmörkuð og óljós í stefnu. Ekki er þar með viðhlítandi hætti gerð grein fyrir þeirri skyldu, sem hvílt hafi á stefnda, forvera hans eða dótturfélagi, sem þessir aðilar eiga að hafa vanrækt þannig að það hafi valdið stefnanda tjóni. Einungis kemur þar fram að víxlar þeir „sem í máli þessu greinir“ séu fyrndir „fyrir vangeymslu Arion verðbréfavörslu hf.“ og að réttur stefnanda á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnum sé einnig fyrndur „fyrir vangeymslu Arion verðbréfavörslu hf.“

Ekki heldur útskýrt með nægjanlega skýrum hætti í stefnunni á hvaða forsendum stefnandi telji að stefndi eigi að bera skaðabótaábyrgð á ætlaðri vangeymslu Arion verðbréfavörslu hf., dótturfélags stefnda, en því félagi er ekki stefnt. Í ljósi atvika mátti stefnanda enn fremur vera ljóst, áður en málið var höfðað, að stefndi teldi sig ekki geta borið skaðabótaábyrgð á tjóni sem Kaupþing banki hf. og starfsmenn hans hefðu valdið í tengslum við vörslur á verðbréfum viðskiptavina bankans. Í stefnu er því ekki lýst hvenær hin bótaskylda háttsemi, sem stefnandi telur að leiði til skaðabótaábyrgðar stefnda, eigi að hafa átt sér stað. Hafi til hennar stofnast áður en stefnda var komið á fót er því heldur ekki lýst með viðhlítandi hætti hvers vegna hann eigi að axla þá ábyrgð. Aðild stefnda að málinu er því ekki reifuð sem skyldi í stefnu.

Þá er rökstuðningi fyrir fjárhæð bótakröfunnar ábótavant í stefnu. Tekið er mið af stöðu viðskiptakrafna, eða svokölluðu markaðsvirði, samkvæmt nánar tilgreindum skuldaskjölum 31. desember 2008 án þess að útskýrt sé nægjanlega í stefnu hvers vegna miðað sé við þá dagsetningu og án þess að gerð sé viðhlítandi grein fyrir á hverju stefnandi byggi þá afstöðu sína að það tjón, sem hin ætlaða, bótaskylda háttsemi á að hafa valdið honum, svari til þeirrar fjárhæðar sem stefnandi krefst.

Í stefnu er vísað í bréf lögmanns stefnanda til stefnda 17. ágúst 2010 og tekið fram að það „skoðist sérstaklega sem hluti málavaxta, málsástæðna og annarra atvika í stefnu máls þessa“. Þessi framsetning á málatilbúnaði stefnanda á sér ekki stoð í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 80. gr. laganna. Þá er upptalning lagabálka í stefnu undir yfirskriftinni „Lagatilvísanir“ ekki í samræmi við f-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Enn fremur er á ýmsan hátt óljóst hvernig þessi upptalning lagabálka samræmist lýsingu málavaxta og málsástæðna í stefnu.

Þegar á heildina er litið er samhengi málsatvika, málsástæðna og lagaröksemda í stefnunni óskýrt að mati dómsins auk þess sem á það skortir að viðhlítandi rök hafi verið færð fyrir kröfugerð stefnanda og hvers vegna henni er beint að stefnda. Stangast málatilbúnaður stefnanda á við fyrirmæli e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 þar sem fram kemur að lýsing málsástæðna og annara atvika skuli vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Með vísan til þess sem að framan greinir ber að fallast á kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað. Samhliða máli þessu eru rekin fjögur önnur mál um sams konar ágreiningsefni. Þykir málskostnaðurinn hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Guðrún Sæmundsdóttir, greiði stefnda, Arion banka hf., 100.000 krónur í málskostnað.