Hæstiréttur íslands
Mál nr. 759/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2014. |
|
Nr. 759/2014.
|
Kaupþing hf. (Þröstur Ríkharðsson hrl.) gegn UBS AG (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Frestur.
Máli um viðurkenningu á kröfu U við slit K hf. var frestað, með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar til lokið væri meðferð máls KSF á hendur U fyrir áfrýjunardómstóli í Bretlandi, um kröfu sömu fjárhæðar. Í dómi Hæstaréttar var m.a. rakið að fyrir mistök hefði U greitt fjárhæðina inn á reikning K hf. í stað þess að leggja hana inn á reikning dótturfélags þess, KSF, til að efna skuldbindingu sína samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi við KSF, en óumdeilt var að K hf. átti ekki tilkall til fjárins. K hf. hefði frestað að taka endanlega afstöðu til kröfu sem KSF hefði lýst á hendur honum af þessu tilefni þar til niðurstaða fengist í málið milli KSF og U fyrir breskum dómstólum þar sem ágreiningi um kröfuna yrði „sjálfhætt“ ef dómur gengi KSF í vil. Taldi Hæstiréttur að sömu röksemdir ættu við um kröfu U, enda hefði komið fram í málatilbúnaði hans að krafan væri eingöngu höfð uppi til að hægt væri að láta á hana reyna ef dómur í málinu fyrir breskum dómstólum gengi honum í óhag.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að frestað yrði máli um viðurkenningu kröfu, sem hann lýsti við slit sóknaraðila, þar til fyrir lægi niðurstaða í dómsmáli milli Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. og varnaraðila, sem rekið er fyrir breskum dómstólum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um frestun málsins. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að varnaraðili gerði gjaldmiðlaskiptasamning við dótturfélag sóknaraðila í Bretlandi, Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. Á lokadegi samningsins 3. október 2008 hafi síðastnefnt félag efnt skyldur sínar samkvæmt honum, en varnaraðili fyrir mistök innt af hendi greiðslu sína samkvæmt samningnum með því að leggja 65.000.000 bandaríkjadali inn á reikning sóknaraðila, sem þá hét Kaupþing banki hf., í nánar tilteknum banka í Bandaríkjunum. Mun hafa orðið uppvíst um þessi mistök sama dag og Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. strax leitað eftir því að fá greiðsluna færða af reikningi sóknaraðila yfir á sinn reikning. Áður en af því hafi orðið neytti Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Að þessu gerðu mun ekkert hafa orðið af leiðréttingu fyrrgreindra mistaka og deila aðilarnir um hvort sóknaraðili hafi hindrað það, en samkvæmt málatilbúnaði hans var ekki næg innstæða á áðurnefndum reikningi hans í Bandaríkjunum til að standa straum af þessu á því tímabili, sem hér um ræðir. Óumdeilt er á hinn bóginn að sóknaraðili hafi ekkert tilkall átt til greiðslunnar úr hendi varnaraðila.
Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. mun hafa lýst kröfu 8. desember 2009 við slit sóknaraðila að fjárhæð samtals 695.308.475 sterlingspund og krafist að hún yrði viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þar mun hafa verið meðtalin krafa félagsins vegna fyrrgreindra atvika um greiðslu á 65.000.000 bandaríkjadölum, sem hafi svarað til 36.649.826,93 sterlingspunda. Sóknaraðili kveðst hafa náð samkomulagi í maí 2012 við þetta félag um viðurkenningu einstakra liða í lýstri kröfu þess, en þó ekki um þennan þátt hennar, sem hann hafi hafnað. Standi deila um þetta óleyst, þar sem sóknaraðili og Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. hafi verið einhuga um að fresta því að beina ágreiningi sínum til héraðsdóms á meðan rekið væri það mál fyrir breskum dómstólum milli félagsins og varnaraðila, sem getið er um hér á eftir. Í málatilbúnaði sóknaraðila hefur sú skýring verið gefin á þessu að ljóst hafi þótt „að ágreiningi um kröfuna yrði sjálfhætt“ ef krafa Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. á hendur varnaraðila yrði tekin til greina í máli þeirra fyrir breskum dómstólum.
Varnaraðili kveður Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. hafa krafið sig 29. ágúst 2012 um greiðslu skuldar að fjárhæð 65.000.000 bandaríkjadalir ásamt vöxtum frá 3. október 2008. Í framhaldi af því hafi félagið höfðað mál á hendur varnaraðila 27. nóvember 2012 fyrir High Court of Justice í London til heimtu þeirrar fjárhæðar. Áður en til þeirrar málshöfðunar kom lýsti varnaraðili kröfu 2. október 2012 við slit sóknaraðila að fjárhæð 65.000.000 bandaríkjadalir auk vaxta, 51.651.087 bandaríkjadala, og kostnaðar af lögfræðiþjónustu, 55.400.625 króna. Í kröfulýsingu varnaraðila var þess aðallega krafist að kröfunni yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 og til vara 3. tölulið 110. gr. sömu laga, en tekið var þar fram að hann liti svo á að koma mætti kröfu hans að í skjóli 4. eða eftir atvikum 5. töluliðar 118. gr. laganna þótt kröfulýsingarfresti við slit sóknaraðila hafi lokið 30. desember 2009. Þá var þess sérstaklega getið að krafan væri eingöngu höfð uppi til að gæta réttinda varnaraðila ef svo færi að honum yrði gert að greiða Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. kröfu sömu fjárhæðar. Sóknaraðili hafnaði 23. október 2012 að viðurkenna kröfu varnaraðila og mun hafa reist þá afstöðu á því að ekki væri fullnægt skilyrðum til að skipa henni í réttindaröð samkvæmt 109. gr. eða 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, en af þeim sökum yrði kröfunni ekki komið að vegna vanlýsingar. Þessari afstöðu mótmælti varnaraðili, en að undangengnum árangurslausum tilraunum að jafna ágreining um kröfuna beindi sóknaraðili honum til héraðsdóms 26. apríl 2013, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 29. maí sama ár.
Með dómi 18. júlí 2014 sýknaði High Court of Justice varnaraðila af kröfu Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. í málinu, sem áður var getið. Félaginu var veitt leyfi 27. október sama ár til að áfrýja þeim dómi til Court of Appeal í London. Sama dag beindi varnaraðili kröfu til héraðsdóms um að máli þessu yrði frestað um óákveðinn tíma þar til dómur gengi í máli Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. á hendur sér fyrir breska áfrýjunardómstólnum. Þeirri kröfu andmælti sóknaraðili, en með hinum kærða úrskurði var hún tekin til greina.
II
Varnaraðili hefur engin haldbær rök fært fyrir aðalkröfu sinni um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
Eins og að framan greinir liggur fyrir í málinu að varnaraðili hafi fyrir mistök greitt 65.000.000 bandaríkjadali 3. október 2008 inn á bankareikning sóknaraðila í stað þess að leggja þá fjárhæð inn á reikning Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. til að efna skuldbindingu sína samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi við félagið. Óumdeilt er að sóknaraðili eigi ekki tilkall til fjárins, en óleyst er hvor hinna tveggja, varnaraðili eða Kaupthing Singer & Friedlander Ltd., kunni að geta kallað eftir því. Úr ágreiningnum milli þeirra tveggja um þetta verður ekki leyst í máli þessu. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila hefur hann frestað að taka endanlega afstöðu til kröfu, sem Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. hefur lýst á hendur honum af þessu tilefni, með vísan til þess að rétt sé að bíða niðurstöðu málsins milli þess félags og varnaraðila fyrir breskum dómstólum, enda yrði ágreiningi um viðurkenningu kröfunnar „sjálfhætt“ ef dómur gengi Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. í vil. Þó svo að sóknaraðili hafi að því er virðist varist lýstri kröfu varnaraðila, sem mál þetta snýst um, á þeim grunni einum að hún hafi fallið niður vegna vanlýsingar standa engin haldbær rök til annars en að eins verði farið með hana að þessu leyti, enda hefur skýrlega komið fram í málatilbúnaði varnaraðila að hann hafi þessa kröfu eingöngu uppi til að geta látið á hana reyna ef dómur í málinu fyrir breskum dómstólum gengi honum í óhag. Að því gættu að frestun máls þessa af framangreindri ástæðu á sér stoð í undantekningarreglu síðari málsliðar 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er þó rétt að fresti verði sett þau mörk að hann standi ekki lengur en til þess að lokið verði meðferð máls Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. gegn varnaraðila fyrir áfrýjunardómstóli í Bretlandi, sem leyfi var veitt til 27. október 2014.
Eftir þessum úrslitum málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu um viðurkenningu kröfu varnaraðila, UBS AG, við slit sóknaraðila, Kaupþings hf., er frestað þar til lokið er meðferð máls Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. á hendur varnaraðila fyrir áfrýjunardómstóli í Bretlandi á grundvelli leyfis frá 27. október 2014.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2014.
Sóknaraðili hefur krafist þess að dómari neyti heimildar sinnar samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að fresta aðalmeðferð í málinu þar til endanleg niðurstaða hefur fengist í mál Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. (hér eftir KSF) gegn sóknaraðila sem nú er rekið fyrir dómstólum í Bretlandi. Koma röksemdir hans fyrir kröfu þessari fram á bókunum á dómskjali nr. 127 og 147 í málinu. Varnaraðili hefur mótmælt því að málinu verði frestað einkum á þeim grunni að ágreiningur sá sem borinn hafi verið undir dóminn lúti að því hvort krafa sóknaraðila geti komist að við slitameðferðina á grundvelli 4. eða 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Geti niðurstaða umrædds dómsmáls í Bretlandi ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins, enda sé um að ræða slitameðferð fjármálafyrirtækis sem fari fram samkvæmt íslenskum lögum. Þá vísar hann og til þess að hraða skuli meðferð mála eftir föngum og að umrædd heimild til frestunar sé undantekningarregla sem skýra skuli þröngt.
Sóknaraðili lýsti kröfu sinni eftir lok kröfulýsingarfrests og byggir á því aðallega að krafan sé sértökukrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, sem unnt sé að lýsa eftir lok kröfulýsingarfrests samkvæmt 4. tl. 118. gr. sömu laga. Til vara byggir hann á því að krafan skuli njóta stöðu samkvæmt 3. tl. 110. gr. sömu laga og að slíkri kröfu megi lýsa eftir lok kröfulýsingarfrests, sbr. 5. tl. 118. gr. laganna. Byggir sóknaraðili m.a. á því í málinu að tilteknar athafnir sem slitastjórn beri að lögum ábyrgð á styðji síðasttöldu kröfuna.
Krafa sóknaraðila er þannig til komin að 65.000.000 bandaríkjadalir sem honum bar að greiða KSF 3. október 2008 voru vegna mistaka lagðir inn á reikning varnaraðila hjá nafngreindum banka erlendis. Ekki er um það deilt í málinu að varnaraðili átti ekki tilkall til umræddra fjármuna og að þeir voru enn í vörslum varnaraðila þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn hans og honum var skipuð skilanefnd 9. október 2008. Einnig liggur fyrir að KSF lýsti kröfu við slitameðferð varnaraðila vegna umræddar greiðslu.
Sóknaraðili hefur lagt fram upplýsingar um að KSF hafi stefnt honum fyrir enskan dómstól til greiðslu framangreindrar fjárhæðar sem ekki barst umræddum aðila. Dómur er nú fallinn á fyrsta dómstigi og var kröfum KSF hafnað. KSF hefur fengið leyfi til áfrýjunar þess dóms. Fyrir liggur að varnaraðili hefur ákveðið að ágreiningur um kröfulýsingu KSF verði látinn bíða niðurstöðu umrædds máls fyrir dómstólum í Bretlandi.
Í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 segir m.a. að dómari geti af sjálfsdáðum frestað meðferð máls m.a. ef einkamál hafi verið höfðað út af efni sem varði úrslit þess máls verulega.
Þegar horft er til þess hvort skilyrði séu til að beita umræddri heimild, er það mat dómsins að ekki sé unnt að líta framhjá því að verði það endanleg niðurstaða hins enska dómsmáls að sóknaraðili verði sýknaður af kröfum KSF þá hafi það óhjákvæmilega veruleg áhrif á niðurstöðu þess máls sem hér er til meðferðar. Lúta þau áhrif augljóslega að sjálfri tilvist kröfunnar og eftir atvikum álitamálum um hvort tjón hafi orðið sem varnaraðili geti borið ábyrgð á samkvæmt íslenskum lögum. Getur það ekki haft áhrif á mat á vægi framangreindra sjónarmiða þó einnig séu uppi í málinu álitamál um hugsanleg vanlýsingaráhrif, en hafa verður hér í huga að eins og hér stendur á fléttast skilyrði 4. og 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, sem í eðli sínu eru formskilyrði, mjög saman við efnislegan ágreiningu sem uppi er í málinu.
Að framangreindu virtu telur dómari rétt að fallast á kröfu sóknaraðila um frestun málsins þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í framangreindu dómsmáli fyrir dómstólum í Bretlandi.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Máli þessu er frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í dómsmáli milli Kaupthing Singer og Friedlander Ltd. og sóknaraðila, UBS AG, sem rekið er fyrir breskum dómstólum og varðar þá peningagreiðslu sem um er deilt í máli þessu.