Hæstiréttur íslands

Mál nr. 228/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Erlend réttarregla
  • Lagaskil


                                     

Föstudaginn 17. apríl 2015.

Nr. 228/2015.

Kaupþing hf.

(Grímur Sigurðsson hrl.)

gegn

Merrill Lynch International og

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Cambridge International Securities Inc.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Fjármálafyrirtæki. Slit. Erlend réttarregla. Lagaskil.

K hf. höfðaði mál á hendur M og C til riftunar á nánar tilgreindum greiðslum sem K hf. innti af hendi árið 2008 og eftir að hafa lýst yfir riftun þeirra í júní 2012. Við meðferð málsins í héraði fór M fram á að dómkvaddur yrði maður til að meta réttaráhrif viðskipta málsaðila samkvæmt enskum rétti þar sem hann taldi að þarlendar réttarreglur ættu að hafa þýðingu fyrir úrslit málsins, sbr. síðari málslið n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Í fyrrgreindu ákvæðinu er tekið fram að löggerningur verði ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var fallist á beiðni M varðandi 1. spurningu beiðninnar og 4. spurningu hennar, að því marki sem hún skírskotaði til 1. spurningarinnar, en henni hafnað að öðru leyti þar sem fyrrgreindu ákvæði laga nr. 161/2002, sem leitt hefði verið í lög með 1. gr. laga nr. 78/2011, yrði ekki beitt með afturvirkum hætti um réttarstöðu aðilanna sem hefði verið fullmótuð og komin í endanlegt horf eftir að K hf. hafði verið skipuð slitastjórn í maí 2009. Því væri við úrlausn málsins bersýnilega óþarft að færa sönnur á efni reglnanna sem getið væri í 2. og 3. spurningu beiðninnar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt K hf. hefði eftir maí 2009 verið heimilt samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 að krefjast riftunar á umræddum ráðstöfunum eftir reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hefði skort lagaheimild til þess á þeim tíma að höfða mál í því skyni á hendur M og C hér á landi, þannig að óvíst hefði verið að riftunin hefði fengist staðfest fyrir dómi. Slík heimild hefði fyrst verið lögfest með lögum nr. 146/2011 sem tóku gildi tæpum fjórum mánuðum eftir að síðari málsliður n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 hafði verið leiddur í lög. Væri ekki í lögum kveðið á um lagaskil gilti sú meginregla samkvæmt íslenskum rétti að réttarstaða manna réðist af lögum eins og þau væru hverju sinni. Með vísan til framangreinds yrði litið svo á að síðastgreindu ákvæði laga nr. 161/2002 yrði eftir atvikum beitt um heimild K hf. til umræddrar riftunar. Af þeim sökum stæðu hvorki rök til þess að hafna beiðni M um dómkvaðningu matsmanns til að svara 2. og 3. spurningu í matsbeiðni hans né 4. spurningunni að því leyti sem hún vísaði til þeirra. Loks var staðfest niðurstaða héraðsdóms að fallast á dómkvaðningu matsmanns til að svara 1. spurningu matsbeiðninnar og 4. spurningu að því marki sem hún skírskotaði til hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2015 þar sem fallist var á beiðni varnaraðilans Merrill Lynch International um dómkvaðningu matsmanns til að svara 1. spurningu beiðninnar og 4. spurningu hennar, að því marki sem hún skírskotaði til 1. spurningarinnar, en beiðninni hafnað að öðru leyti. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðilans um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Merrill Lynch International hefur einnig kært úrskurðinn fyrir sitt leyti með kæru 26. mars 2015. Hann krefst þess að fallist verði á beiðni sína um dómkvaðningu matsmanns til að svara öllum þeim spurningum sem þar greinir. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Cambridge International Securities Inc. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins lét varnaraðilinn Cambridge International Securities Inc. mál þetta ekki til sín taka í héraði. Af þeim sökum hefur hann fyrirgert rétti til að hafa uppi kröfur og málsástæður við úrlausn þess hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

II

Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram leitast varnaraðilinn Merrill Lynch International við með 2. og 3. spurningu í matsbeiðni sinni að varpa ljósi á efni enskra réttarreglna í því skyni að sýna fram á að engin úrræði séu fyrir hendi samkvæmt þar gildandi lögum til að vefengja þær ráðstafanir sem sóknaraðili krefst riftunar á. Samkvæmt síðari málslið n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana, telur varnaraðilinn að það hafi þýðingu við úrlausn þess máls, sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur honum og varnaraðilanum Cambridge International Securities Inc., að leiða í ljós efni enskra réttarreglna að þessu leyti, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Leit héraðsdómur svo á að umræddu ákvæði laga nr. 161/2002, sem leitt var í lög með 1. gr. laga nr. 78/2011, yrði ekki beitt með afturvirkum hætti um réttarstöðu aðilanna sem hefði verið fullmótuð og komin í endanlegt horf eftir að sóknaraðila hafði verið skipuð slitastjórn 25. maí 2009. Því væri bersýnilega óþarft að færa sönnur á efni reglnanna við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Við gildistöku laga nr. 161/2002 sagði í 1. mgr. 99. gr. þeirra að þegar skylt væri að slíta fjármálafyrirtæki eða þegar Fjármálaeftirlitið teldi að óvíst væri að eignir fjármálafyrirtækis hrykkju til greiðslu skulda þess skyldi Fjármálaeftirlitið senda héraðsdómara kröfu um að bú fyrirtækisins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Eftir 1. mgr. 100. gr. laganna giltu um skipti á búi fjármálafyrirtækis almennar reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem við gat átt, að því undanteknu að ákvæði þeirra um riftun ráðstafana giltu ekki um skipti sem komin voru til samkvæmt 2. mgr. 99. gr. þar sem Fjármálaeftirlitið hafði talið sýnt að eignir hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis hrykkju fyrir skuldum. Eftir að ákvæðum laga nr. 161/2002 um slit fjármálafyrirtækja var breytt með lögum nr. 44/2009 er það ekki lengur gert að skilyrði fyrir slitum að bú fjármálafyrirtækis verði tekið til gjaldþrotaskipta þótt óvíst sé að eignir fyrirtækisins hrökkvi til greiðslu skulda þess. Samkvæmt 3. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, skal kröfu um slit fjármálafyrirtækis beint til héraðsdóms og þegar dómsúrlausn hefur gengið um að fyrirtækið sé tekið til slita skipar héraðsdómari því slitastjórn. Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, er nú sérstaklega kveðið á um að sé ekki sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. 

Með lögum nr. 130/2004 voru gerðar breytingar á lögum nr. 161/2002 sem ætlað var að innleiða í íslenskan rétt áðurgreinda tilskipun nr. 2001/24/EB. Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 9. gr. laga nr. 130/2004, skal um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um fjárhagslega endurskipulagningu lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki fara að íslenskum lögum, með frávikum sem talin eru upp í fjórtán stafliðum. Þá er tekið fram í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 11. gr. laga nr. 130/2004, að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slit lánastofnunar með höfuðstöðvar hér á landi og útibú í öðru EES-ríki skuli fara að hérlendum lögum með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002.

 Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir markmiði og efni nokkurra ákvæða tilskipunar nr. 2001/24/EB, þar á meðal 1. mgr. 30. gr. hennar. Í þeirri málsgrein kemur meðal annars fram að sú meginregla 10. gr. tilskipunarinnar, að lög heimaaðildarríkis skuli gilda, eigi ekki við „um reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd“ ef sá, sem hefur hag af þeim löggerningum, leggur fram sannanir um að gerningurinn sem um ræðir falli undir lög annars aðildarríkis en heimaaðildarríkis og lögin bjóða engin úrræði til að vefengja gerninginn. Með 1. gr. laga nr. 78/2011, sem tóku gildi 29. júní 2011, var nýjum málslið bætt við n. lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 þar sem tekið er fram að löggerningur verði ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 78/2011, sagði meðal annars að vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu tilskipunar nr. 2001/24/EB væri í frumvarpinu lagt til að gerðar yrðu frekari breytingar á lögum nr. 161/2002 í þeim tilgangi að innleiða tilskipunina að fullu í íslenskan rétt.

Hinn 17. október 2014 kvað EFTA-dómstóllinn upp dóm í máli nr. E-28/13 í tilefni af beiðni um ráðgefandi álit er beint hafði verið til dómstólsins í öðru máli, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, samhliða þessu máli. Í dóminum var komist að þeirri niðurstöðu að orðalagið um ógildi, ógildanleika eða skort á réttarvernd löggerninga í 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB „vísi einnig til riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti á grundvelli reglna um undanskot eigna frá gjaldþrotaskiptum eins og þeirra sem er að finna í XX. kafla laga nr. 21/1991“.

III

Í máli því, sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðilum, krefst hann aðallega riftunar á þremur greiðslum, sem hann kveðst hafa innt af hendi til varnaraðilans Cambridge International Securities Inc. 12. september 2008 og hafi numið samtals 12.737.997,13 bandaríkjadölum, svo og endurgreiðslu á þeirri fjárhæð. Til vara krefst sóknaraðili riftunar á greiðslu til varnaraðilans Merill Lynch International, sem hafi numið 3.643.289,59 bandaríkjadölum og farið fram sama dag, auk endurgreiðslu á þeirri fjárhæð. Svo sem að framan greinir hefði þá verið heimilt samkvæmt 1. mgr. 100. gr., sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 að rifta þessum ráðstöfunum eftir reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 að því tilskildu að bú sóknaraðila hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Til þess kom þó ekki, heldur var sóknaraðili tekinn til slita 22. apríl 2009 samkvæmt 2. tölulið ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009 og honum síðan skipuð slitastjórn 25. maí sama ár á grundvelli 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. tölulið fyrrgreinds bráðabirgðaákvæðis. Þótt sóknaraðila hafi eftir það verið heimilt samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 að krefjast riftunar á umræddum ráðstöfunum eftir sömu reglum og að framan greinir skorti lagaheimild til þess á þeim tíma að höfða mál í því skyni á hendur varnaraðilum hér á landi, sbr. dóm Hæstaréttar 7. júlí 2011 í máli nr. 379/2011. Að teknu tilliti til 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, eins og hún hefur verið skýrð af EFTA-dómstólnum, var því alls óvíst að riftun sóknaraðila á umræddum ráðstöfunum hefði fengist staðfest fyrir dómi og hann getað knúið fram endurgreiðslu úr hendi varnaraðila með atbeina dómstóla. Á þessu var ekki gerð breyting fyrr en með 1. gr. laga nr. 146/2011 þegar nýjum málslið var bætt við 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 þar sem kveðið er á um að mál, sem slitastjórn höfðar á grundvelli þess ákvæðis, skuli þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita. Lög nr. 146/2011 tóku gildi 26. október 2011 eða tæpum fjórum mánuðum eftir að síðari málsliður n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 hafði verið leiddur í lög. Það var svo fyrst með bréfum til beggja varnaraðila 14. júní 2012 að sóknaraðili krafðist riftunar á framangreindum greiðslum og endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem innt hefði verið af hendi til hvors þeirra um sig.

Sé ekki í lögum kveðið á um lagaskil gildir sú meginregla samkvæmt íslenskum rétti að nýjum lögum verður beitt um lögskipti, sem undir þau falla, þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, enda ræðst réttarstaða manna af lögum eins og þau eru hverju sinni, sbr. dóma Hæstaréttar 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011 og 21. september 2012 í máli nr. 485/2012. Samkvæmt því og með vísan til þess sem áður greinir verður litið svo á að síðari málslið n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 verði eftir atvikum beitt um heimild sóknaraðila til riftunar á þeim ráðstöfunum sem mál hans gegn varnaraðilum snýst um. Af þeim sökum standa hvorki rök til þess að hafna beiðni varnaraðilans Merrill Lynch International um dómkvaðningu matsmanns til að svara 2. og 3. spurningu í matsbeiðni hans né 4. spurningu að því leyti sem hún vísar til þeirra.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að fallast á dómkvaðningu matsmanns til að svara 1. spurningu í matsbeiðni varnaraðilans og 4. spurningu að því marki sem hún skírskotar til hennar.

Eftir þessum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilanum Merrill Lynch International kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Fallist er á kröfu varnaraðilans Merrill Lynch International um dómkvaðningu matsmanns á grundvelli matsbeiðni hans.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði varnaraðilanum 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2015.

I.

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 27. febrúar sl. um beiðni um dómkvaðningu matsmanns, er höfðað af Kaupþingi banka hf., Sóltúni 26 í Reykjavík, með stefnu birtri 20. júní 2013 á hendur aðalstefnda, Cambridge International Securities, Inc., 518 Riverside Avenue Westport, Connecticut, Bandaríkjum Norður Ameríku, og með stefnu birtri 19. júní 2013 á hendur varastefnda, Merryl Lynch International, 2 King Edward Street, Lundúnum, Englandi.

         Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til aðalstefnda, Cambridge International Securities, Inc:

         1.   Greiðslu 12. september 2008 að fjárhæð 3.643.289,59 Bandaríkjadollara vegna viðskipta 9. september 2008.

         2.   Greiðslu 12. september 2008 að fjárhæð 4.547.353,77 Bandaríkjadollara vegna viðskipta 9. september 2008.

         3.   Greiðslu 12. september 2008 að fjárhæð 4.547.353,77 Bandaríkjadollara vegna viðskipta 8. september 2008.

         Í öðru lagi krefst stefnandi þess að aðalstefndi greiði stefnanda 12.737.997,13 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2012 til greiðsludags.

         Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

         Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur í varaaðild á hendur varastefnda, Merril Lynch International:

         Í fyrsta lagi að rift verði greiðslu stefnanda til varastefnda 12. september 2008 að fjárhæð 3.643.289,59 Bandaríkjadollara vegna viðskipta 9. september 2008.

         Í öðru lagi að varastefndi greiði stefnanda 3.643.289,59 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2012 til greiðsludags.

         Í þriðja lagi að varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

         Aðalstefndi, Cambridge International Securities, Inc., sem og varastefndi, Merryll Lynch International, kröfðust þess aðallega í öndverðu að öllum kröfum stefnanda á hendur þeim yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2013. Að því frágengnu krefjast báðir stefndu aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Aðalstefndi krefst málskostnaðar í báðum tilvikum, en varastefndi krefst málskostnaðar verði fallist á aðalkröfu hans um sýknu en að öðrum kosti að hann verði felldur niður.

         Í þinghaldi í málinu 22. janúar sl. lagði varastefndi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Stefnandi mótmælti því að dómkvaddur yrði matsmaður í samræmi við beiðnina og var málinu frestað til munnlegs málflutnings um ágreininginn til 13. febrúar sl. Í því þinghaldi féll varastefndi frá því að óska dómkvaðningar matsmanns á grundvelli fyrrgreindrar beiðni og boðaði að lögð yrði fram ný og endurskoðuð matsbeiðni í málinu sem væri í vinnslu. Málinu var frestað til 25. febrúar sl. og lagði varastefndi þá fram nýja matsbeiðni, sem stefnandi mótmælti. Málflutningur fór fram um ágreininginn 27. febrúar sl. Þar fór varastefndi fram á að dómkvaðning færi fram í samræmi við beiðnina auk þess sem hann krafðist málskostnaðar. Stefnandi krafðist þess að dómkvaðningu yrði hafnað og að varastefndi yrði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar.

II.

         Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á nánar tilgreindum greiðslum sem stefnandi innti af hendi 12. september 2008 sem endurgjald fyrir ákveðna hagsmunaeign eða hlutdeild í allsherjarskuldabréfum sem stefnandi gaf út árið 2004, eins og nánar er lýst í stefnu og greinargerðum aðila. Fyrir liggur að gjalddagi skuldabréfanna var ekki kominn þegar stefnandi innti þessar greiðslur af hendi, en hann kveðst hafa bókfært greiðslurnar til lækkunar á útistandandi skuldum sínum. Stefnandi reisir kröfu sína um riftun greiðslnanna á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en honum var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, sem gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009. Stefnandi var síðan tekinn til formlegrar slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010. Hann krefst enn fremur endurgreiðslu á framangreindum greiðslum á grundvelli 142. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991.

         Stefndu reisa báðir sýknukröfur sínar á aðildarskorti. Auk þess telja þeir að umræddar greiðslur hafi ekki falið í sér greiðslu skuldar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 í ljósi þeirra skilmála og erlendu réttarreglna (bandarískra og enskra) sem giltu um viðskipti með þau verðmæti sem stefnandi greiddi fyrir í umrætt sinn. Þá er hluti af málsástæðum varastefnda á því byggður að af n-lið 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og skýra beri þann lið í ljósi 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, leiði að einungis megi rifta þeirri greiðslu, sem tengist viðskiptum varastefnda, ef lög á Englandi heimila það. Byggir varastefndi á því að lög þar í landi heimili ekki slíka riftun og því beri að sýkna hann af kröfu stefnanda.

         Í XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum er fjallað um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja. Í 99. gr. laganna er vikið að fjárhagslegri endurskipulagningu lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um að veita lánastofnun heimild til greiðslustöðvunar eða að leita nauðasamninga skuli fara að íslenskum lögum með frávikum sem nánar er lýst í fjórtán stafliðum. Frá gildistöku laganna og fram á mitt ár 2011 sagði í n-lið þessarar málsgreinar að þrátt fyrir ákvæði d- og e-liðar væri „heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt“. Með 1. gr. laga nr. 78/2011 var bætt við þennan staflið svohljóðandi setningu: „Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu um fjármálafyrirtæki sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.“ Í 1. mgr. 104. gr. laganna kemur fram að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, en er með útibú í öðru EES-ríki, skuli fara að íslenskum lögum með þeim takmörkunum sem greini í 2. mgr. 99. gr. laganna.

         Með ákvæðum laga nr. 130/2004 voru gerðar breytingar á XII. kafla fyrrgreindra laga nr. 161/2002 sem var ætlað að innleiða tilskipun nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana í íslenskan rétt. Af aðfaraorðum tilskipunarinnar má ráða að hún var einkum sett til að tryggja að ráðstafanir sem yfirvöld samþykkja að grípa til vegna rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækja hafi réttaráhrif á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þá á hún á að stuðla að því að lánardrottnar slíkra fyrirtækja njóti jafnræðis hvar sem þeir eru á svæðinu. Í 10. gr. tilskipunarinnar, sbr. enn fremur 3. gr. hennar, er mælt fyrir um þá meginreglu að lög heimaaðildarríkis gildi, m.a. um það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd, nema kveðið sé um annað í tilskipuninni. Í IV. bálki tilskipunarinnar eru ákvæði sem eru sameiginleg endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð. Þar segir orðrétt í 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar:

Ákvæði 10. gr. skal ekki gilda um reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd, í þeim tilfellum þegar sá sem hefur hag af  þessum löggerningum leggur fram sannanir um að:

- gerningurinn, sem er skaðlegur öllum lánardrottnum, fellur undir lög aðildarríkis annars en heimaaðildarríkis, og

         - lögin bjóða engin úrræði til að vefengja gerninginn sem um ræðir.

         Í þinghaldi í máli þessu 25. nóvember og 19. desember 2013 var á það bent að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði með úrskurði 7. nóvember sama ár leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli nr. E-1880/2012 (Landsbankinn gegn Meryll Lynch International) um það hvernig bæri að skýra fyrrgreinda 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB. Lýstu stefndu þeirri afstöðu sinni að ekki væri rétt að ákveða aðalmeðferð þessa máls fyrr en eftir að gengnum dómi EFTA-dómstólsins.

         Hinn 17. október 2014 kvað EFTA-dómstóllinn upp dóm í tilefni af fyrrgreindri beiðni héraðsdóms. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að orðalag 1. mgr. 30. gr. framangreindrar tilskipunar um ógildi, ógildanleika eða skort á réttarvernd vísaði einnig til riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti á grundvelli reglna um undanskot eigna frá gjaldþrotaskiptum eins og þeirra sem væru í XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sá sem hefði hag af löggerningi, sem teldist skaðlegur öllum lánardrottnum, bæri samkvæmt ákvæðinu að sanna að engin úrræði væru tiltæk, eða að engin úrræði væru lengur tiltæk, til að vefengja viðkomandi gerning, hvort sem efnislegar ástæður eða ástæður er lúta að málsmeðferð valda því. Þyrfti sérstakt mat að fara fram á viðkomandi löggerningi hverju sinni. Þótt almennt séð væri unnt að vefengja gerninginn samkvæmt lögum þess EES-ríkis sem ætti við um hann, myndi þeim sem hag hefur af honum nægja að sýna fram á að skilyrði fyrir slíkri vefengingu væru ekki uppfyllt í þessu tiltekna máli. Það færi hins vegar eftir reglum heimaaðildarríkis hvort þeim sem hefur hag af löggerningnum hefði tekist að sanna að lögin, sem eigi við um gerninginn, veiti engin úrræði til að vefengja hann.

         Varastefndi boðaði í þinghaldi 4. desember 2014 að matsbeiðni yrði lögð fram í málinu í því augnamiði að færa sönnur á efni þess erlenda réttar sem hann teldi þýðingu hafa í ljósi 30. gr. fyrrgreindrar tilskipunar og n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002. Eins og þegar hefur verið vikið að lagði varastefndi fram matsbeiðni á íslensku og ensku í þinghaldi 22. janúar sl. en féll frá dómkvaðningu samkvæmt þeirri beiðni í þinghaldi 13. febrúar sl. Varastefndi lagði fram nýja matsbeiðni í málinu 25. febrúar sl. Þar er óskað eftir því að dómkvaddur verði einn hlutlaus og óvilhallur kunnáttumaður í enskum gjaldþrotalögum til þess að svara eftirfarandi spurningum um réttaráhrif viðskipta málsaðila á árinu 2008 samkvæmt enskum rétti:

1.   Í samhengi við útgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um stofnun skuldasambands og niðurfellingu kröfu vegna samruna réttinda og skyldna?

2.   Hvaða reglur gilda í enskum rétti um það hvenær löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum?

3.   Ef löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti sem heimila að slíkir gerningar séu vefengdir?

4. Þess er óskað að matsmaður geri sérstaka grein í svörum sínum við spurningum nr. 1, 2 og 3, fyrir tilvist og efni framangreindra enskra réttarreglna við þær kringumstæður þegar fjármálafyrirtæki, sem er útgefandi allsherjarskuldabréfs, með sömu skilmálum og greinir í dómskjali nr. 9, hefur keypt hlutdeildarkröfur í eigin allsherjarskuldabréfi fyrir lokauppgjörsdag þess.

         Í umfjöllun sinni um tilgang matsbeiðninnar vísar varastefndi til málsástæðna sinna um efni ensks réttar og þá þýðingu sem hann telur að þær reglur eigi að hafa fyrir úrslit málsins. Þar vísar hann öðrum þræði til þeirrar málsástæðu sinnar að samkvæmt enskum lögum geti kaup stefnanda á hlutdeildarkröfu í umræddu allsherjarskuldabréfi fyrir lokauppgjörsdag ekki talist endurgreiðsla á skuld hans samkvæmt skuldabréfinu. Auk þess vísar hann til þess að enskar réttarreglur veiti engin úrræði til að vefengja þau viðskipti sem málið lýtur að. Ákvæði n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, eins og skýra beri það með hliðsjón af 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, komi því í veg fyrir að riftunarkröfur stefnanda nái fram að ganga. Telur hann fyrrgreindan dóm EFTA-dómstólsins gefa til kynna að hann beri sönnunarbyrðina fyrir því að ekki sé unnt að vefengja umrædd viðskipti samkvæmt enskum lögum, sbr. enn fremur 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Við munnlegan málflutning um ágreining aðila um dómkvaðninguna vísaði varastefndi til tiltekinna dóma Hæstaréttar Íslands um nauðsyn þess að sanna efni erlendra réttarreglna með matsgerð dómkvadds matsmanns, sbr. dóma Hæstaréttar frá 30. maí 2006 í málinu nr. 261/2006, frá 25. nóvember 2010 í málinu nr. 620/2010, frá 4. desember 2013 í málinu nr. 739/2013 og frá 8. maí 2014 í málinu nr. 120/2014. Ekki séu lagaskilyrði til að meina honum að færa sönnur á að enskar lagareglur séu með þeim hætti sem hann haldi fram.

         Stefnandi reisir mótmæli sín við dómkvaðningu matsmanns í þessu skyni á því að matsgerð sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála auk þess sem beiðnin komi fram of seint. Þá gerir hann athugasemdir við einstakar matsspurningar. Stefnandi rökstyður þá afstöðu sína að matsgerð sé tilgangslaus meðal annars með því að ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 gildi um riftun gerninga við slit fjármálafyrirtækja. Ákvæði n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 geti ekki tekið til riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti, hvorki samkvæmt orðalagi ákvæðisins né þegar litið sé til lögskýringargagna. Ekki sé unnt að breyta þessu inntaki ákvæðisins með því að leggja ákvæði fyrrnefndrar tilskipunar nr. 2001/24/EB til grundvallar. Þá verði síðari málslið n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 78/2011, ekki beitt afturvirkt um fullmótað réttarsamband aðila, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Óháð þessu leiði lagaskilareglur til þess að íslensk lög gildi um gerninginn í skilningi 30. gr. fyrrgreindrar tilskipunar, en ekki hafi verið samið um lagaval á greiðslu skuldar samkvæmt því skuldabréfi sem um ræðir.

III.

         Aðili að máli, sem rekið er fyrir dómstólum á grundvelli laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, á að meginstefnu til rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á til stuðnings málatilbúnaði sínum. Það er því almennt hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema að matsbeiðni fullnægi ekki skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðni lúti einvörðungu að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróður matsmaður, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.

         Stefnandi er fjármálafyrirtæki í slitameðferð samkvæmt II. kafla laga nr. 161/2002 og krefst riftunar á þeim greiðslum sem að framan greinir á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 má fjármálafyrirtæki í slitameðferð krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti, enda sé sýnt að eignir þess muni ekki nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Þar er berum orðum sagt að þá gildi öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, en fyrrgreint ákvæði 134. gr. laganna er í þeim kafla. Af 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 leiðir að sömu reglur gilda einnig um riftun á gerningi fjármálafyrirtækis í slitameðferð, sem hefur haft útibú í öðru EES-ríki, en þó með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna.

         Krafa stefnanda á hendur varastefnda lýtur að kaupum stefnanda á hlutdeild í skuldabréfi sem stefnandi gaf út á grunni útgáfulýsingar 28. apríl 2004. Bar útgáfulýsing þessi yfirskriftina „€4,000,000,000 Euro Medium Term Note Programme“. Í henni er meðal annars fjallað um skilmála og skilyrði skuldabréfa sem gefin eru út á grundvelli hennar. Í 7. grein þeirrar umfjöllunar eru skilmálar er gilda um innlausn og kaup slíkra skuldabréfa. Þar er vikið að kaupum útgefanda á skuldabréfum á frjálsum markaði og niðurfellingu þeirra í kjölfarið, sbr. h- og i-liði greinarinnar. Í a-lið 18. gr. útgáfulýsingarinnar er mælt fyrir um það að ýmsir samningar og skjöl, sem vikið er að í útgáfulýsingunni, sem og skuldabréfin sjálf, skuli lúta og túlkast í samræmi við ensk lög. Ein undantekning er gerð frá því í ákvæðinu, en þar kemur fram að túlka beri skilmála í b-lið 2. gr. í samræmi við íslensk lög.

         Stefndu byggja á því að viðskiptin, sem voru tilefni þess að stefnandi innti 3.643.289,59 Bandaríkjadollara af hendi 12. september 2008, sem stefnandi ætlar að hafi runnið til varastefnda sem eiganda tiltekins skuldabréfs eða hlutdeildar í slíku bréfi, lúti framangreindum skilmálum og þar með enskum lögum. Þó að ganga verði út frá því að við úrlausn á kröfum stefnanda í málinu beri að fara eftir 134. gr. laga nr. 21/1991 er í ljósi þess sem að framan er rakið ekki bersýnilegt að þeir skilmálar og þær ensku reglur, sem áttu að gilda um lögskipti aðila í umræddum viðskiptum, geti ekki haft þýðingu við mat á því hvort stefnandi hafi með hinni umdeildu ráðstöfun greitt skuld fyrr en eðlilegt var sem og við mat á því hvort greiðslan geti virst eðlileg eftir atvikum. Fyrsta matsspurningin miðar að því að færa sönnur á hvert sé efni enskra reglna um „stofnun skuldasambands“ við útgáfu á allsherjarskuldabréfi og hvaða reglur gildi þar í landi um niðurfellingu krafna vegna samruna réttinda og skyldna í því samhengi. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er á það fallist að það geti skipt máli við úrlausn á sakarefninu að fá svar við þessari matsspurningu og kemur 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í veg fyrir að varastefndi færi sönnur á þau atriði sem þar er óskað svara við. Matsspurningin, sem lýtur að efni enskra laga sem varastefndi ber að færa sönnur á samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, er ekki sett fram með þeim hætti að þar sé óskað mats á atriði sem dómara ber einvörðungu að leggja mat á. Þá fullnægir matsbeiðni að þessu leyti skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Gagnaöflun hefur ekki verið lýst lokið. Þó að matsbeiðni komi fram á þessu stigi hamlar það ekki því að dómkvaðning fari fram til þess að leita svara við umræddri spurningu. Því er ekki efni til annars en að fallast á dómkvaðningu matsmanns í því skyni.

         Með annarri og þriðju matsspurningunum leitast varastefndi í meginatriðum við að varpa ljósi á efni enskra reglna í því skyni að sýna fram á að engin úrræði séu fyrir hendi samkvæmt þar gildandi lögum til að vefengja þá ráðstöfun sem stefnandi krefst riftunar á. Varastefndi telur fyrirmæli enskra laga hafa þýðingu að þessu leyti í ljósi n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 og 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB sem að framan er getið.

         Líta verður svo á að slitameðferð stefnanda hafi hafist þegar honum var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli 4. töluliðar ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Frá þeim tíma átti stefnandi lögbundinn rétt á því að leita riftunar á ráðstöfunum samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, sem átt höfðu sér stað innan þeirra tímamarka sem þar er kveðið á um, þar á meðal á greiðslu stefnanda á skuld fyrr en eðlilegt var, nema greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum. Átti stefnandi kost á því að fá greiðslu, sem riftanleg var á þessum grunni, endurheimta með atbeina dómstóla þannig að andvirði hennar kæmi til skipta milli kröfuhafa í samræmi við almennar reglur laga nr. 21/1991. Þessi réttarstaða milli slitabúsins og fyrrum kröfuhafa, sem fengið hafði slíka greiðslu innan nánar tilgreindra tímamarka fyrir frestdag, var fullmótuð og komið í endanlegt horf þegar við upphaf slitameðferðar árið 2009. Á þeim tíma varð ekki ráðið af 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 að takmarkanir gætu verið á rétti slitabús í þessu efni í ljósi réttarreglna í öðru ríki þótt fyrirtækið hafi verið með útibú annars staðar innan evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 1. mgr. 104. gr. sömu laga. Eins og rakið hefur verið bættu lög nr. 78/2011 nýjum málslið við n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2001. Eftir þá breytingu má á það fallast að tilefni sé til þess að túlka ákvæðið til samræmis við 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB. Lög nr. 78/2011 tóku hins vegar ekki gildi fyrr en 29. júní 2011. Þar var engin ráðagerð um að beita mætti þeim um atvik sem voru liðin. Sé túlkun varastefnda á þessum málslið lögð til grundvallar, og verði ákvæðinu þannig beitt við úrlausn á sakarefni málsins, leiðir það til þess að ólík skilyrði gilda um riftun ráðstafana og endurheimt á greiðslum stefnanda eftir því hvaða lög hverra ríkja gilda um þær greiðslur. Verður ákvæði af þessum toga ekki beitt afturvirkt um þá fullmótuðu réttarstöðu sem að framan greinir.

         Í þessu ljósi verður á það fallist að bersýnilega sé óþarft að færa sönnur á efni enskra réttarreglna um það hvenær löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum og hvaða reglur gildi þar í landi um vefengingu slíkra gerninga, eins og spurt er um í annarri og þriðju matsspurningu. Því ber með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 að hafna dómkvaðningu matsmanns til þess að svara þeim.

         Fjórða matsspurningin felur ekki í sér beina spurningu heldur er þar óskað eftir því að matsspurningum nr. 1, 2. og 3 verði svarað í ljósi tiltekinna aðstæðna sem uppi eru í því máli sem hér er til úrlausnar. Dómurinn telur að lög hamli því ekki að fyrstu matsspurningunni sé svarað að teknu tilliti til þeirra atriði sem lýst er í fjórðu matsspurningu. Það leiðir hins vegar af niðurstöðu dómsins um aðra og þriðju matsspurningu að fjórða spurningin nær ekki til þeirra.

         Samkvæmt framansögðu verður fallist á beiðni varastefnda um dómkvaðningu matsmanns til þess að svara fyrstu matsspurningunni sem og þeirri fjórðu að því marki sem þar er skírskotað til fyrstu matsspurningarinnar. Að öðru leyti er beiðni varastefnda hafnað. Ekki er efni til þess á þessu stigi málsins að taka afstöðu til kröfu aðila um málskostnað í tilefni af ágreiningi um hvort dómkveðja eigi matsmann í samræmi við matsbeiðni varastefnda.

         Af hálfu varastefnda flutti málið Margrét Anna Einarsdóttir hdl. v. Hróbjarts Jónatanssonar hrl. Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðsson hrl. Aðalstefndi lét þennan þátt málsins ekki til sín taka.

         Ásmundur Helgason kveður upp úrskurð þennan.

         Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Fallist er á að hlutlaus og óvilhallur matsmaður verði dómkvaddur til þess að svara matsspurningu nr. 1 sem og matsspurningu nr. 4, að því marki sem hún skírskotar til matsspurningar nr. 1, á matsbeiðni á dskj. nr. 295 sem lögð var fram í þinghaldi 25. febrúar sl. Að öðru leyti er kröfu varastefnda, Meryll Lynch International, um dómkvaðningu matsmanns hafnað.

         Ekki er skorið úr um kröfu aðila um málskostnað.