Hæstiréttur íslands

Mál nr. 388/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 388/2011.

A

(Magnús Brynjólfsson hrl.)

gegn

X

Y og

Z

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var gert að setja málskostnaðartryggingu í nánar tilgreindu máli á hendur X, Y og Z. Í kæru A voru ekki greindar ástæður sem hún var reist á, sbr. c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Úr þeim annmarka var ekki bætt þótt málsástæðum A hefði verið gerð skil í greinargerð fyrir réttinum og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. júní 2011, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu, en til vara að sér verði ekki gert að setja hana gagnvart varnaraðilanum X. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í kæru sóknaraðila var því lýst að með henni væri kærður til Hæstaréttar úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. júní 2011, þar sem honum hafi verið gert að setja tryggingu að fjárhæð 1.000.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í nánar tilteknu máli á hendur varnaraðilum, ásamt því að vísað var til áðurgreinds lagaákvæðis sem heimildar fyrir málskoti. Þar var einnig getið fyrrgreindrar aðalkröfu, sem sóknaraðili gerir fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti var meginmál þessa skjals svohljóðandi: „Sóknaraðili mun skila greinargerð til hæstaréttar þegar gögn málsins hafa verið send réttinum og mun leggja sem ný gögn fyrir dóminn dóma héraðsdóms í máli nr. S-[...] ákæruvaldið gegn Y og S-[...] ákæruvaldið gegn X og Z. Kærugjald kr. 50.000 fylgir.“ Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 skal í kæru meðal annars greina ástæður, sem hún er reist á. Þessa gætti sóknaraðili í engu. Úr þeim annmarka var ekki bætt þótt málsástæðum hans hafi verið gerð skil í greinargerð hér fyrir dómi og verður því ekki komist hjá að vísa málinu frá Hæstarétti, sbr. meðal annars dóm réttarins 7. desember 2010 í máli nr. 656/2010.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilum, X, Y og Z, hverjum fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.