Hæstiréttur íslands
Mál nr. 339/1999
Lykilorð
- Samningur
- Riftun
- Aðildarhæfi
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2000. |
|
Nr. 339/1999. |
Öflun ehf (Reynir Karlsson hrl.). gegn Félagi framhaldsskólanema Jafningjafræðslunni 96 og Hinu húsinu (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Samningur. Riftun. Aðildarhæfi. Vanreifun. Frávísun máls að hluta. Sératkvæði.
Ö bauð F, J og H að taka þátt í útgáfu á tímariti, sem dreifa skyldi til ungs fólks um verslunarmannahelgina 1997. Var ætlun Ö að hann annaðist útgáfu ritsins og söfnun auglýsinga, en F, J, H auk B legðu til efni í það. Fékk Ö hjá fyrirsvarsmanni J merki F, J og H í tölvutæku formi og setti þau á sérstakt kynningarbréf, sem sent var þeim er kynnu að hafa hug á því að auglýsa í ritinu. Af hálfu F, J og H var talið að Ö hefði með heimildarlausri notkun á merki þeirra vakið þá hugmynd, að þeir væru þátttakendur í útgáfunni og myndu njóta fjárhagslegs ávinnings af henni. Eftir viðræður við Ö höfnuðu þeir því að leggja til efni í tímaritið, en Ö taldi þá með þessu hafa vanefnt saming þeirra. Talið var að H væri aðeins nafngift á tiltekinni starfsemi Reykjavíkurborgar og skorti það með öllu skilyrði til að geta borið skyldur eða átt réttindi að landslögum. Þá þótti ekki unnt að leggja mat á hvort J væri persóna að lögum, sem gæti átt sjálfstæða aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var kröfum Ö á hendur H og J því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Sýnt þótti að framsetning efnis í kynningarbréfinu hefði hæglega getað vakið hugmyndir viðtakenda um að hugsanlegur ágóði kæmi meðal annars í hlut F. Var fallist á með F, að það hefði mátt rifta samningnum við Ö af þessum sökum, en þá riftun hefði F ekki þurft að fá viðurkennda með málsókn. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna F af kröfum Ö.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 1999. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 4. ágúst 1999 og áfrýjaði hann því öðru sinni 25. sama mánaðar með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða sér 6.422.134 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. nóvember 1998 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að fyrri hluta árs 1997 leitaði starfsmaður stefnda Jafningjafræðslunnar 96 til áfrýjanda um öflun auglýsinga í rit, sem sá stefndi hugðist gefa út. Ekki varð af þeirri útgáfu. Nokkru síðar bauð áfrýjandi þeim stefnda að taka þátt í útgáfu á tímariti, sem sá fyrrnefndi ætlaði að gefa út um verslunarmannahelgi 1997 undir heitinu Létt stemmning. Átti meðal annars að senda það endurgjaldslaust öllum landsmönnum á aldrinum 17 til 19 ára. Mun áfrýjandi hafa gefið slíkt tímarit út ári fyrr í samvinnu við Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Umferðarráð, en ætlun hans að þessu sinni hafi verið að beina til ungmenna tímariti, sem yrði helgað bættri umferðarmenningu og baráttu gegn fíkniefnum. Var ætlun áfrýjanda að hann annaðist útgáfu tímaritsins og söfnun auglýsinga, en að stefndi legði til efni í það. Að frumkvæði þessa stefnda mun hafa orðið að ráði að stefndu myndu allir taka þennan þátt í útgáfu tímaritsins. Var þá miðað við að þeir myndu afhenda efni í tímaritið um miðbik júlí 1997. Aðilarnir gerðu ekki skriflegan samning um samstarf sitt.
Í framhaldi af því, sem að framan greinir, fékk áfrýjandi hjá fyrirsvarsmanni Jafningjafræðslunnar 96 merki allra stefndu í tölvutæku formi. Greinir aðilana á um hver hafi verið tilgangurinn með þessu. Áfrýjandi kveður þetta hafa verið gert til þess að setja mætti merkin á sérstakt kynningarbréf, sem var útbúið til að senda þeim, sem kynnu að hafa hug á að auglýsa í tímaritinu eða fá birta þar svokallaða sumarkveðju. Eintak af þessu kynningarbréfi liggur fyrir í málinu. Á því eru með áberandi hætti merki stefndu og Félags íslenskra bifreiðaeigenda og tekið fram að þessi samtök ættu fulltrúa í ritnefnd tímaritsins, sem yrði gefið út af áfrýjanda og á ábyrgð hans. Neðst í hægra og vinstra horni kynningarbréfsins er einnig merki áfrýjanda sjálfs, en verulega minna en hin merkin. Stefndu segja á hinn bóginn að merkin hafi eingöngu verið látin í té til að birta mætti þau með efni í tímaritinu, sem stafaði frá þeim. Við áfrýjanda hafi þeir allt frá byrjun lagt áherslu á að þeir myndu ekki vilja taka þátt í útgáfu tímaritsins og að skýrt yrði gagnvart þeim, sem kynnu að leggja auglýsingar eða styrki til útgáfunnar, að það væri ekki á vegum stefndu.
Stefndu kveðast hafa um sumarið 1997 orðið varir við að áfrýjandi kynnti fyrirhugað tímarit við söfnun auglýsinga á hátt, sem hafi vakið hugmynd um að stefndu væru þátttakendur í útgáfunni og myndu njóta fjárhagslegs ávinnings af henni. Varð þetta tilefni til fundar með aðilunum 15. júlí 1997, þar sem áfrýjandi lagði í fyrsta sinn fyrir stefndu eintak af kynningarbréfinu, svo og texta, sem hann hafði gert handa sölumönnum til afnota þegar þeir buðu símleiðis rými fyrir auglýsingar eða kveðjur í tímaritinu. Stefndu munu á fundinum hafa látið í ljós að þessi háttur á kynningu tímaritsins væri andstæður vilja þeirra. Í kjölfarið bauðst áfrýjandi til að greina nánar frá þætti stefndu í útgáfunni með sérstökum athugasemdum í leiðara tímaritsins og á gíróseðlum, sem yrðu sendir til innheimtu greiðslu fyrir auglýsingar og kveðjur. Stefndu felldu sig ekki við tillögu áfrýjanda um orðalag þessara athugasemda og settu fram tillögu fyrir sitt leyti. Áfrýjandi óskaði síðan eftir að orðalagi í tillögu stefndu yrði breytt á nánar tiltekinn veg. Því höfnuðu stefndu og tjáðu þeir áfrýjanda 18. júlí 1997 að þeir hyrfu frá því að leggja til efni í tímaritið.
Áfrýjandi kveður þá afstöðu stefndu, sem að framan greinir, hafa leitt til þess að ekkert hafi orðið af útgáfu tímaritsins. Telur hann stefndu hafa með þessu vanefnt samning þeirra um útgáfuna. Í málinu krefur hann þá um bætur vegna kostnaðar, sem hann hafi orðið að bera vegna undirbúnings að útgáfu tímaritsins, samtals 422.134 krónur. Því til viðbótar krefst áfrýjandi greiðslu á 6.000.000 krónum í bætur vegna missis framtíðartekna af tímaritinu, enda sé útilokað að leitast við að gefa það út á ný vegna þess hvernig fór um útgáfu á árinu 1997.
II.
Samkvæmt málatilbúnaði stefndu er Hitt húsið heiti á upplýsinga- og menningarmiðstöð á vegum Reykjavíkurborgar, sem heyrir undir íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar. Kveða stefndu Reykjavíkurborg bera fjárhagslega ábyrgð á þessari starfsemi og að þeir, sem vinni við hana, þiggi laun úr borgarsjóði. Áfrýjandi hefur ekki andmælt staðhæfingum stefndu um þetta efni. Í því ljósi verður að líta svo á að Hitt húsið sé aðeins nafngift á tiltekinni starfsemi Reykjavíkurborgar, sem verði hvorki talið sjálfstætt fyrirtæki hennar né stofnun. Skortir því með öllu skilyrði til að Hitt húsið geti borið skyldur eða átt réttindi að landslögum og átt þannig aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því verður kröfum áfrýjanda á hendur Hinu húsinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, en málskostnaður verður ekki dæmdur þeim stefnda, enda skortir hann eftir framansögðu hæfi til að eignast slík réttindi.
III.
Í málatilbúnaði stefnda er skipulagi Jafningjafræðslunnar 96 lýst þannig að um sé að ræða verkefnahóp, sem berjist gegn fíkniefnavanda ungs fólks. Sé verkefnastjóri tilnefndur af menntamálaráðherra, en að öðru leyti lúti starfsemin stjórn fulltrúa frá Félagi framhaldsskólanema, Skólameistarafélagi Íslands, samtökum kennara og samtökum námsráðgjafa. Stefndu kveða Jafningjafræðsluna 96 hafa verið skráða sem félagasamtök hjá Hagstofu Íslands á árinu 1996. Ekkert liggur hins vegar nánar fyrir í málinu um stofnun Jafningjafræðslunnar 96, skipulag hennar, starfsemi eða fjárhagslega ábyrgð. Eins og málið er úr garði gert er því ekki unnt að leggja mat á hvort hér sé um að ræða persónu að lögum, sem geti sjálfstætt átt aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Er málið því að þessu leyti svo vanreifað af hendi áfrýjanda að óhjákvæmilegt er að vísa sjálfkrafa frá héraðsdómi kröfum hans á hendur Jafningjafræðslunni 96. Er hins vegar rétt að málskostnaður á milli þeirra falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
IV.
Stefndi Félag framhaldsskólanema mótmælir því ekki að samningur hafi komist á milli hans og annarra stefndu annars vegar og áfrýjanda hins vegar um að þeir fyrrnefndu legðu til efni í tímarit á þann hátt, sem áður er lýst. Hann mótmælir heldur ekki að áfrýjandi hafi um miðbik júní 1997 leitað eftir og fengið afhent merki þeirra allra í tölvutæku formi. Hann heldur því hins vegar fram að áfrýjanda hafi verið óheimilt að nota merki þeirra á þann veg, sem hann gerði. Ekki hafi verið samið um að hann mætti nýta þau til að afla sjálfum sér hagnaðar. Vegna þeirrar misnotkunar á merkjunum hafi þessi stefndi ekki lengur verið bundinn af samningnum.
Í skýrslum forráðamanna tveggja stefndu fyrir dómi kom fram að þeim hafi verið ljóst að áfrýjandi hygðist standa straum af kostnaði við útgáfu tímaritsins með söfnun auglýsinga. Merki stefndu voru afhent strax eftir samningsgerð og um einum mánuði áður en þeir þurftu að afhenda áfrýjanda til prentunar efni í tímaritið. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að stefnda Félagi framhaldsskólanema hafi mátt vera ljóst að nöfn allra stefndu yrðu með einhverjum hætti kynnt við söfnun auglýsingja og kveðja í tímaritið og að áfrýjandi myndi þar sérstaklega höfða til velvilja í garð stefndu og stuðnings við starfsemi þeirra. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að á fyrrnefndu kynningarbréfi, sem áfrýjandi lét búa til fyrir væntanlega auglýsendur, er talsvert rými lagt undir merki stefndu og Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sem mynda að auki eins konar umgerð kringum yfirlit um verð fyrir auglýsingar og kveðjur í tímaritinu. Í kynningarbréfinu segir að vísu að áfrýjandi hafi átt að vera útgefandi og svokallaður ábyrgðaraðili tímaritsins, en hvergi er þar vikið frekar að fjárhagslegri áhættu af útgáfunni eða hvernig ágóða kynni að verða varið. Sýnt má telja að framsetning efnis í þessu bréfi geti hæglega hafa vakið hugmyndir viðtakenda þess um að ágóði, ef einhver yrði, kæmi í hlut stefndu og eftir atvikum Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Áfrýjandi hefur að eigin sögn atvinnu af útgáfumálum og söfnun auglýsinga fyrir fyrirtæki og félagasamtök. Verður að ætla að hann búi þannig yfir viðhlítandi reynslu af viðskiptum á því sviði, sem mál þetta varðar. Hann gat hins vegar ekki búist við að sama máli gegndi um forráðamenn stefnda Félags framhaldsskólanema. Skriflegur samningur var ekki gerður um útgáfu tímaritsins og lítið eða ekkert virðist hafa verið rætt um þá kynningu, sem þörf yrði á til að afla fjár til útgáfunnar. Áfrýjandi sýndi heldur ekki stefnda kynningarbréf sitt fyrr en nýtingu þess var nánast lokið og þá að gefnu tilefni frá honum. Að gættu öllu framangreindu verður að fallast á með stefnda Félagi framhaldsskólanema að hann hafi mátt rifta samningi við áfrýjanda. Þá riftun þurfti stefndi engan veginn að fá viðurkennda með málsókn á hendur áfrýjanda, svo sem sá síðarnefndi hefur haldið fram. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfum áfrýjanda.
Í ljósi atvika málsins er rétt að áfrýjandi og stefndi Félag framhaldsskólanema beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Kröfum áfrýjanda, Öflunar ehf., á hendur stefndu, Hinu húsinu og Jafningjafræðslunni 96, er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, Félag framhaldsskólanema, er sýkn af kröfum áfrýjanda.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Gunnlaugs Claessen
Ég er sammála meirihluta dómenda aftur að IV. kafla dómsins og þeirri niðurstöðu að vísa beri frá héraðsdómi kröfum áfrýjanda á hendur stefndu, Hinu húsinu og Jafningjafræðslunni 96.
Stefndu var ljóst að áfrýjandi hygðist safna auglýsingum til að standa straum af kostnaði við útgáfu tímaritsins. Þeir afhentu honum jafnframt merki sín þegar eftir samningsgerð og þar með um einum mánuði áður en þeir þurftu að afhenda til prentunar efni í tímaritið. Stefnda, Félagi framhaldsskólanema, hefur því mátt vera fullljóst, að nöfn allra stefndu yrðu með einhverjum hætti kynnt við söfnun auglýsinga og þá höfðað til velvilja auglýsenda gagnvart þeim málefnum, sem allt ritmál tímaritsins yrði helgað og stefndu og Félag íslenskra bifreiðaeigenda skyldu leggja til. Þótt áfrýjandi hafi í þessu skyni gengið nokkuð lengra í kynningarblaði sínu en stefndu máttu vænta, felst ekki í því slík vanefnd á samningi aðila að stefndi, Félag framhaldsskólanema, hafi mátt rifta samningnum fyrirvaralaust. Með ólögmætri riftun hefur þessi stefndi því orðið skaðabótaskyldur gagnvart áfrýjanda vegna tjóns, sem hinn síðastnefndi kann að hafa orðið fyrir af þeim sökum.
Eftir þessum úrslitum tel ég að dæma eigi stefnda, Félag framhaldsskólanema, til að greiða áfrýjanda skaðabætur auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Með því að meirihluti dómenda hefur komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri stefnda gerist ekki þörf á að taka afstöðu til einstakra kröfuliða áfrýjanda.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. þ.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Öflun ehf., kt. 650895-2239, Einholti 2, Reykjavík, á hendur Félagi framhaldsskólanema, kt. 540193-2589, Aðalstræti 2, Reykjavík, Jafningjafræðslunni 96, kt. 620196-2829, Grensásvegi 16, Reykjavík og Hinu Húsinu, kt. 490695-2229, Aðalstræti 2, Reykjavík, með stefnu, sem birt var 21. október 1998.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu á 6.422.134 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987, frá 24. febrúar 1998 til greiðsludags og málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðar-reikningi.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins.
I.
Stefnandi lýsir málsatvikum með eftirfarandi hætti: Jóhannes Kr. Kristjánsson, starfsmaður Jafningjafræðslunnar, hafði samband við stefnanda varðandi auglýsingaöflun í rit samtakanna. Þeirri útgáfu var slegið á frest.
Nokkru síðar hafði Sveinn Kjartansson, framkvæmdastjóri stefnanda, samband við Jóhannes og spurði hann, hvort hann teldi áhuga innan Jafningjafræðslunnar að félagið tæki með einhverjum hætti þátt í útgáfu á tímariti stefnanda, Léttri stemmningu, sem áður hafði verið gefið út fyrir verslunarmannahelgina 1996 í samvinnu við Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Stefnt væri að því að blaðið höfðaði til ungs fólks og það mundi mæla með bættri umferðarmenningu en gegn notkun fíkniefna. Stefnandi sæi alfarið um útgáfu og auglýsingasöfnun í ritið en stefnda, Jafningjafræðslan, fengi verulegt rými fyrir sitt efni.
Stefnandi segir að Jóhannesi hafi litist vel á hugmyndina og talið víst að stjórn félagsins myndi fallast á hana.
Stefnandi segir að 11. júní 1997 hafi forsvarsmaður stefnanda haft samband við Jóhannes. Jóhannes hafi tjáð honum að Jafningjafræðslan vildi gjarnan taka þátt í útgáfu tímaritsins og leggja til efni í það sem tæki 8-12 bls. í A4 broti. Og Jóhannes hafi þá spurt, hvort mögulegt væri að Hitt Húsið og Félag framhaldsskólanema kæmu að blaðinu með sama hætti og Jafningjafræðslan. Hafi stefnandi talið að ekkert væri því til fyrirstöðu.
Stefnandi kveðst nú hafa mælst til þess að fá svonefnt logo merki félaganna þriggja í tölvutæku formi. Hafi honum verið tjáð að logo merkin yrðu sett á upplýsingablað (faxblað) til að senda þeim fyrirtækjum, sem vildu nánari upplýsingar um verð á auglýsingum og um ritið almennt, en slíkt myndi gera verkefnið áhugaverðara fyrir auglýsendur. Samkomulag hafi orðið um þetta og hafi forsvarsmaður stefnanda hitt Jóhannes niðri í Hinu Húsinu þar sem Jóhannes hafi afhent honum diskling með logo merkjunum.
Enda þótt forsvarsmenn stefnanda hafi ítrekað óskað eftir ritnefndarfundi með aðilum varð aldrei af því að sögn stefnanda. Jóhannes hafi borið fyrir sig tímaskorti en hann hafi beðið forsvarsmenn stefnanda að hafa engar áhyggur, efnið yrði tilbúið er á þyrfti að halda. En fyrirhugað hafi verið að blaðið færi í umbrot helgina 19.- 20. júlí 1997.
Þá segir stefnandi að á fundi aðila 15. júlí 1997 hafi komið fram að stefndu töldu sig ekki hafa gefið stefnanda leyfi til að nota logo merki sín til auglýsingaöflunar. Stefnanda hafi þá orðið ljóst að verulegt sambandsleysi var milli Jóhannesar og annarra forsvarsmanna félaganna. Að tillögu stefndu hafi orðið að samkomulagi að jafna ágreininginn með því að prenta texta á gíróseðil þann, er sendur yrði út til auglýsenda, auk þess sem á þessu yrði tekið í leiðara blaðsins.
Stefnandi kveðst 16. júlí hafa sent stefndu eftirfarandi tillögu um texta, sem nota mætti í þessu sambandi:
Texti í leiðara Léttrar Stemmingar:
Útgefandi Léttrar stemmningar, Öflun ehf., vill þakka eftirtöldum aðilum gott samstarf við efnisöflun og skrif í blaðið sem gerði útgáfu þess möguleg: Jafningjafræðslunni, Hinu Húsinu, Félagi framhaldsskólanema og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.
Texti á A-gíróseðli:
Útgefandi og ábyrgðaraðili: Öflun ehf.
Stefnandi segir að 17. júlí hafi stefndu í bréfi sent stefnanda breytingatillögur að textanum, sem efnislega hafi verið á þá leið að bætt yrði við framangreinda setningu í leiðara blaðsins þessum orðum: Það skal tekið fram að þessi félög hljóta engan beinan fjárhagslegan ágóða af útgáfu þessa blaðs. En texti á gíróseðli umorðaður þannig: Eini útgefandi og ábyrgðaraðili að blaðinu Létt stemmning er Öflun ehf. Eftirfarandi orð hafi verið skráð í lok bréfsins: Við vonum að þú skiljir afstöðu okkar. Ef við komumst að samkomulagi getum við verið tilbúnir með 12 síðna efni á mánudaginn 21. júlí kl. 12.00.
Talsmaður stefnanda kveðst hafa verið sáttur við textann en gert tillögur um tvær breytingar, sem hann hafi talið vera betra mál, en sem breyttu í engu merkingu textans. Hafi þær falist í því að í síðustu setningu í texta leiðarans myndu falla niður orðin: það skal tekið fram að, og engan yrði breytt í ekki og í texta á A- gíróseðli yrði fellt niður fyrsta orðið þ.e. eini.
Föstudaginn 18. júlí 1997 hafi forsvarsmaður stefnanda haft samband við Ketil hjá Hinu húsinu og spurt hvort "allir væru ekki sáttir". Hafi Ketill þá tjáð honum að stjórn félaganna hefðu fundað kvöldið áður og ákveðið að draga þátttöku sína að ritinu til baka.
Fulltrúi stefnanda hafi þá farið á fund Ketils hjá Hinu húsinu og Lárusar hjá Félagi framhaldsskólanema og tjáð þeim undrun sína á sinnaskiptum sem hér höfðu átt sér stað. Hafi hann sagt þeim að búið væri að leggja í mikinn undirbúningskostnað og fyrirsjánlegt væri að mikið tjón hlytist ef ekki yrði af útgáfu blaðsins. Hafi hann boðið stefndu hlut í hagnaði blaðsins, ef einhver yrði, afslátt af þjónustu stefnanda við auglýsingaöflun, að senda bréf með A-gíróseðlum, að setja texta í leiðara blaðsins og hvaðeina annað sem greitt gæti götu útgáfunnar. Hafi þeir Ketill og Lárus þá óskað eftir skriflegri yfirlýsingu stefnanda í þessa veru og hafi þeim samdægurs verið sent bréf þess efnis.
Mánudaginn 21. júlí hafi forsvarsmaður stefnanda haft samband við Ketil og Ketill hefði tjáð honum að ekkert yrði að þátttöku þeirra í blaðinu og mætti hann vænta bréfs frá lögfræðingi stefndu.
II.
Stefndu rekja aðdraganda að þessu máli með eftirfarandi hætti: Vorið 1997 hafði Sveinn Kjartansson, framkvæmdastjóri stefnanda, samband við Jóhannes Kr. Kristjánsson, starfsmann Jafningjafræðslunnar. Bauð hann Jafningjafræðslunni að birta 8-12 blaðsíðna efni í tímaritinu Létt stemmning, sem stefnandi hugðist gefa út fyrir verslunarmannahelgina það ár. Jóhannes hafi þá haft samband við forsvarsmenn stefndu, Hins hússins og Félags framhaldsskólanema og hafi þeir ákveðið að bjóða sameiginlega fram 8-12 blaðsíðna efni í væntanlegt tímarit. Jóhannes hafi síðan greint Sveini frá þessu, en jafnframt hafi hann lagt áherslu á að stefndu myndu ekki vilja koma nálægt útgáfu tímaritsins; það yrði að vera skýrt gagnvart þeim, sem myndu vilja auglýsa í blaðinu eða styrkja útgáfuna með öðrum hætti, að stefndu væru ekki útgefendur. Enginn skriflegur samningur hafi þó verið gerður um þetta.
Skömmu eftir að stefndu hefðu ákveðið að leggja til efni í tímaritið hefði Sveinn Kjartansson haft samband við Loga Sigurfinnsson, forstöðumanns Hins hússins, og farið fram á að fá afhent á tölvutæku formi merki logo allra stefndu er fylgja ætti efninu frá þeim í tímaritið. Logi hafi ekkert talið því til fyrirstöðu en ljóst væri að nota ætti merkin með efni frá stefndu.
Þegar líða tók á sumarið er því haldið fram af stefndu, að aðilar á vegum Jafningjafræðslunnar hafi leitað eftir stuðningi fyrirtækja. Hafi þá komið í ljós að fyrirtæki, sem leitað var til, töldu sig þegar hafa veitt Jafningjafræðslunni fjárstuðning til útgáfu blaðs á þeirra vegum og vísuðu í því sambandi til tímaritsins Létt stemmning. Af þessum sökum hafi Ketill B. Magnússon, verkefnastjóri hjá Hinu húsinu, haft samband við Svein Kjartansson og boðað hann til fundar við sig og fulltrúa frá Félagi framhaldsskólanema og Jafningjafræðslunnar til að upplýsa með hvaða hætti staðið hefði verið að auglýsinga- og styrktaröflun fyrir tímaritið. Fundurinn hafi verið haldinn 15. júlí 1997. Á fundinum hefði Sveinn lagt fram kynningarbréf, sem stefnandi hafði sent ætluðum auglýsendum og styrktaraðilum tímaritsins. Einnig hafi hann afhent texta á blaði, sem notaður hafði verið af símsölufólki á vegum stefnanda. Þegar fulltrúar stefndu hafi fengið þessi blöð í hendur hafi þeim samstundis orðið ljóst að stefnandi hafði reynt að láta í það skína að stefndu stæðu að útgáfunni og nytu þar með fjárhagslegs ávinnings af henni.
Þrátt fyrir að stefnandi hefði með framangreindum hætti misnotað merki og ímynd stefndu til að villa um fyrir væntanlegum auglýsendum og styrktaraðilum tímaritsins, hafi fulltúar stefndu ákveðið að útvega efni í tímaritið gegn því að stefnandi léti prenta leiðréttingartexta með gíróseðlum til auglýsenda og styrktaraðila, þar sem fram kæmi að stefndu myndu engan fjárhagslegan ágóða njóta af útgáfu tímaritsins. Það sama yrði tekið fram í leiðara tímaritsins. Sveinn Kjartansson hafi samþykkt að gera tillögu að slíkum texta og að senda hann fulltrúum stefnda næsta dag. Fulltrúarnir hafi hins vegar ekki sætt sig við orðalag þess texta sem hafi borist frá Sveini. Hafi þeir því sent stefnanda bréf 17. júlí 1997 þar sem tekin hafi verið fram ákveðin skilyrði þess að þeir legðu til efni í tímaritið. Stefnandi hafi ekki gengið að skilyrðum stefndu. Þegar málum hafi verið svo komið, hafi stjórnir stefndu ákveðið sameiginlega á fundi að kvöldi hins sama dags að stefndu myndu ekki senda efni í tímaritið Létt stemmning. Sveinn Kjartansson hafi verið látinn vita um þetta daginn eftir eða 18. júlí 1997. Þátt fyrir þetta hafi Sveinn ákveðið að leggja fyrir stefndu nýtt tilboð sama dag, fyrst munnlega og síðan skriflega. Hafi fulltrúar stefndu tjáð Sveini að ólíklegt væri að stjórnir stefndu myndu breyta afstöðu sinni úr því sem komið væri, en mikil óánægja væri með framkomu stefnanda gagnvart stefndu í málinu. Og þegar ekki hafi verið gengið að skilyrðum þeirra, hafi endanleg ákvörðun verið tekin um að hætta við að senda efni í tímaritið. Síðasta tilboð Sveins var þó tekið til skoðunar og honum tjáð að því yrði svarað mánudaginn 21. júlí. Þann dag hafi Sveini síðan verið tilkynnt að afstaða stefndu væri óbreytt og að honum yrði sent bréf frá lögfræðingi vegna málsins. Síðastnefnt bréf hafi síðan verið sent stefnanda daginn eftir.
III.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndu hafi vanefnt samning við hann og hafi þau þannig valdið honum tjóni sem þeim beri að bæta skv. reglum um skaðabætur innan samninga. Hann eigi rétt til að verða eins settur og hann hefði fengið fullar efndir samningsins. Þá eigi hann kröfu á skaðbótum vegna tjóns, sem lýsi sér í skertri ímynd og glataðri viðskiptavild, vegna þess að hætt var við útgáfu á síðustu stundu en þannig hafi traust viðskiptavina (auglýsenda) til hans beðið hnekki.
Af hálfu stefnanda er haldið fram að félagið geti ekki haldið útgáfu áfram með sama hætti og áður. Stefnandi eigi því að auki rétt til skaðabóta vegna missis framtíðartekna. Og stefnandi gerir tölulega grein fyrir þessu með eftirgreindum hætti: "Missir framtíðartekna er reiknuð þannig, að miðað er við árlegan hagnað kr. 437.587.00 að frádregnum fjármagnskostnaði og fyrningu kr. 137.587.00 eða samtals kr. 300.000.00. Síðan er miðað við 5% ávöxtunarkröfu sem gefur höfuðstól uppá kr. 6.000.000.00. Laun til sölumanna eru 13% af seldum auglýsingum þ.e. 0,13 x 1.955.568.00 eða kr. 254.224.00. Ritstjórnarlaun eru kr. 150.000.00 en voru kr. 180.000.00 á árinu 1996 vegna sama tímarits. Annar kostnaður er samkv. reikningum."
Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína með eftirfarandi hætti:
|
1. Laun til sölumanna |
kr. 254.224.00 |
|
2. Ritstjórnarlaun |
kr.150.000.00 |
|
3. Litgreining |
kr. 28.000.00 |
|
4. Póstburðargjöld |
kr. 16.310.00 |
|
5. Umslög |
kr. 1.600.00 |
|
6. Skaðabætur v/missis framtíðart. |
kr. 6.000.000.00 |
|
7. Bætur v/skertrar ímyndar og glataðrar viðskiptavildar |
kr.300.000.00 |
|
Samtals |
kr.6.750.134.00 |
Við flutning málsins féll stefnandi frá kröfu um 28.000 kr. vegna litgreiningar og 300.000 kr. vegna skertrar ímyndar og glataðrar viðskiptavildar. Endanleg kröfufjárhæð varð því 6.422.134 kr.
Stefnandi telur stefndu vera lögpersónur er borið geti skyldur og staðið að samningum með bindandi hætti.
Svo sem áður sagði kveðst stefnandi byggja á því að samningur hafi tekist með honum og stefndu um þátttöku þeirra í blaðinu. Stefndu hafi vanefnt samninginn og valdið á þann hátt stefnanda verulegu tjóni.
Afhending stefndu á svokölluðum logo merkjum til stefnanda sýni svo ekki verði um villst að þeir hafi ætlað að taka þátt í blaðinu. Þeim hafi verið fullljóst frá byrjun að stefnandi ætlaði m.a. að nota merkin við öflun auglýsinga í blaðið enda hafi samstarf stefnanda við stefndu verið byggt á þeim forsendum. Þannig gæfi stefnandi stefndu kost á að birta endurgjaldslaust áróðursefni þeirra í blaðinu en stefnandi nyti á móti við öflun auglýsinga þeirrar velvildar, sem stefndu og málstaður þeirra nyti í augum forráðamanna fyrirtækja og í augum almennings. Eðli málsins samkvæmt hafi öllum hlutaðeigandi verið ljóst að við öflun auglýsinga og öflun styrkja vegna útgáfunnar yrði lögð áhersla á það efni sem í blaðinu yrði og hin stefndu félög stæðu fyrir. Þetta hafi Jóhannesi Kr. Kristjánssyni hlotið að vera ljóst þegar hann afhenti logo merkin.
Þá byggir stefnandi á því að bréf, dags. 17. júlí 1997 og liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 4, gefi ljóslega til kynna að samningur hafi verið með aðilum um þátttöku stefndu í blaðinu. Að vísu setji stefndu í bréfinu einhliða skilyrði fyrir birtingu efnis frá þeim í blaðið. En þrátt fyrir nýja skilmála, sem ekki höfðu legið til grundvallar samkomulagi aðila í upphafi, hafi stefnandi án skyldu fallist á þá til að koma til móts við stefndu. Raunar hafi stefnandi sjálfur komið með tillögu að texta í upphafi en síðan komið með tillögu að orðalagsbreytingu, þegar breytingartillaga á textanum frá stefndu hafði borist honum.
Stefnandi heldur fram að með engu móti verði með réttu sagt að þær breytingar sem hann gerði á textanum hafi verið verulegar. Þvert á móti séu þær óverulegar og breyti merkingu textans ekki efnislega. Fráleitt sé að halda því fram að stefnandi hafi með þeim sett stefndu einhverja úrslitakosti; hann hafi í raun verið tilbúinn til þess að gera allt sem í hans valdi stóð til að leysa málið, ekki síst vegna undirbúnings og kostnaðar sem hann hafði þegar lagt til útgáfunnar. Nægi um þetta að vísa til bréfs stefnanda til stefndu 18. júlí 1997, þar sem stefnandi lýsi því yfir að stefndu sé frjálst að birta þann texta sem þau telji nauðsynlegan "til að bæta fyrir þann misskilning sem átt hefur sér stað". Auk þess sé í bréfinu tilboð um 50% hlutdeild stefndu í hugsanlegum hagnaði af útgáfu blaðsins og afsláttur af þjónustu stefnanda við öflun auglýsinga fyrir stefndu. Þetta sýni svo ekki verði um villst að stefnandi gerði allt sem í hans valdi stóð til þess að af útgáfu blaðsins yrði.
Stefnandi mótmælir þeirri staðhæfingu stefndu að hann hafi notað merki "logo" stefndu í heimildarleysi og svikið stefndu með nokkrum hætti. Þá sé fráleitt að halda því fram að samningurinn - eins og hann haldi fram að efni hans sé - sé óvenjulegur og beri stefnanda því sönnunarbyrði fyrir því að samkomulagið hafi verið með þeim hætti, sem fram er haldið af stefnanda. Þvert á móti sé um venjulegan samning að ræða, þar sem allir aðilar beri nokkuð úr býtum. Og augljóslega beri stefndu að sanna að hafa ekki samþykkt notkun stefnanda á logo merkjum stefndu, sem þau hefðu afhent stefnanda áður en greinar í tímaritið frá þeim voru tilbúnar, og hafi því ekki verið tengdar greinunum með órjúfanlegum hætti svo sem stefndu haldi fram.
IV.
A.Lögmaður stefndu telur að vísa beri málinu frá dómi án kröfu af eftirfarandi ástæðum: Stefndi, Hitt húsið, sé upplýsinga- og menningarmiðstöð á vegum Reykjavíkurborgar og heyri beint undir Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Reykjavíkurborg beri fjárhagslega ábyrgð á rekstri Hins hússins og starfsmenn þess séu starfsmenn Reykjavíkurborgar og fái laun sín greidd úr borgarsjóði. Þá fái Hitt húsið árlega fjárveitingu frá Reykjavíkurborg til að standa undir rekstri sínum. Sjálfstæði Hins hússins gagnvart Reykjavíkurborg sé því ekki með þeim hætti að það geti talist njóta aðildarhæfis, sbr. ákv. 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála. Beri því að vísa kröfu stefnanda á hendur Hinu húsinu frá dómi ex officio.
Varðandi Jafningjafræðsluna 96 þá hafi hún upphaflega verið skráð í þjóðskrá 1996 sem félagasamtök. En þrátt fyrir það þá hafi í raun einungis verið um að ræða verkefnahóp, sem hafi að markmiði að berjast gegn fíkniefnaneyslu ungs fólks. Verkefnastjóri hafi verið skipaður af menntamálaráðherra og síðan skipa hópinn fulltrúar frá Félagi framhaldsskólanema, frá Skólameistarafélagi Íslands, einn fulltrúi kennara og einn fulltrúi námsráðgjafa. Þessi verkefnahópur hafi hvorki sjálfstæðan tekjustofn né fjárhagsleg markmið. Stefna verkefnahópsins sé að stuðla að fíkniefnavörnum ungs fólks með stuðningi fyrirtækja og opinberra aðila. Styrkir séu fengnir til tiltekinna verkefna og þá eyrnamerktir Jafningjafræðslunni. Verkefnahópurinn hafi engan sjálfstæðan tekjustofn og njóti ekki fjárhagslegs sjálfstæðis. Þýðingarlaust sé að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur slíkum aðila. Beri því að vísa kröfum stefnanda á hendur Jafningjafræðslunni frá dómi, sbr. ákv. 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.
Af hálfu stefndu er haldið fram að stefndi, Félag framhaldsskólanema, sé regnhlífasamtök flestra nemendafélaga framhaldsskóla á Íslandi, samstarfsvettvangur framhaldsskólanna á sviði félagsmála. Félagið láti sig varða sameiginleg hagsmuna-mál framhaldsskólanema og framhaldsskólarnir eigi flestir hver sinn fulltrúa í stjórn félagsins. Félagið hafi engan fjárhagslegan tilgang og fjárframlög hvers framhaldsskóla, sem aðild á að félaginu, fari einungis til að greiða einum starfsmanni laun til að vinna að þeim hagsmunamálum, sem félagið taki sér fyrir hendur á hverjum tíma. Félag framhaldsskólanema sé því ekki aðildarhæft í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.
B.Stefndu byggja sýknukröfu á því að stefndu hafi ekki verið bundir við samkomulag við stefnanda eftir að komið hafi í ljós, að stefnandi hafði misnotað merki og ímynd stefndu til að afla auglýsinga og styrkja fyrir útgáfu tímaritsins. Stefnanda hafi frá upphafi verið gert það ljóst, að stefndu vildu ekki koma nálægt útgáfunni; á engan hátt mætti hann gefa annað í skyn gagnvart þeim fyrirtækjum, sem hugsanlega fengjust til að birta auglýsingar í tímaritinu eða styrkja útgáfu þess á annan hátt. Fráleitt sé að ætla að stefndu hafi viljað tryggja stefnanda tekjur af úgáfu tímarits á kostnað þeirra.
Rangt sé að stefnanda hafi verið afhent merki logo stefndu til að nota í kynningarblaði til væntanlegra auglýsenda og styrktaraðila. Notkun merkjanna með þeim hætti hafi aldrei verið samþykkt af stefndu. Merkin hafi verið afhent stefnanda til að nota með efni, sem stefndu ætluðu að senda í tímaritið, og hafi það skýrt verið tekið fram við stefnanda. Það hafi verið í algeru heimildarleysi og grófleg misnotkun á trúnaði við stefndu þegar stefnandi sendi væntanlegum auglýsendum og styrktaraðilum kynningarbréf, þar sem glöggt megi sjá merkiseinkenni stefndu en lítið beri á merki stefnanda sjálfs. Jafnframt hafi ranglega verið tekið fram að stefndu væru í ritnefnd blaðsins. Þá hafi í kynningartexta símasölufólks verið tjáð að tímaritið væri gefið út í samvinnu við stefnu. Með þessari misnotkun á merkjum og ímynd stefndu hafi augljóslega verið ætlað að villa um fyrir væntanlegum auglýsendum og styrktaraðilum, látið í það skína að menn væru að styrkja stefndu en ekki stefnanda með því að auglýsa í tímaritinu.
Stefndu telja ljóst að stefnandi hafi fengið stefndu til að senda efni í tímaritið Létt stemmning á fölskum forsendum. Stefnandi sé fyrirtæki sem sérhæfi sig í sölu auglýsinga. Framkvæmdastjóra stefnanda hafi verið ljóst að stefndu höfðu ekki að markmiði að stefnandi græddi á útgáfu tímarits og það á kostnað stefndu. Þeir, sem áttu samskipti við framkvæmdastjóra stefnanda vegna stefndu, hafi ekki verið vanir viðskiptum og framkvæmdastjóri stefnanda hafi gætt þess að gera enga skriflega samninga við stefndu varðandi útgáfuna. Þegar ljóst var að stefnandi hafði reynt að telja væntanlegum auglýsendum og styrktaraðilum trú um að stefndu nytu góðs af útgáfu tímaritsins og að stefnandi hafði notað merki stefndu í heimildarleysi, telja stefndu, að þeim hafi verið fullkomlega heimilt að hætta við að senda efni í tímarit stefnanda. Stefndu hafi verið svikin, hafi þá loforð stefndu um efni til tímaritsins verið ógilt með vísan til 1. mgr. 30. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Stefndu telja að bréf þeirra til stefnanda 17. júlí 1997 staðfesti að eina þátttaka þeirra í tímariti stefnanda hafi falist í að útvega að ákveðnu marki efni í tímaritið. Bréfið staðfesti að stefndu var þá orðið ljóst að stefnandi hafði misnotað merki þeirra og hafi stefndu þá ákveðið að senda ekki efni í tímaritið nema með ákveðnum skilyrðum. Stefnandi hafi ekki fallist á þessi skilyrði. Stefndu hafi þá endanlega hætt við að senda efni frá sér í tímaritið.
Stefndu taka fram að áritun á dskj. nr. 4 "mjög gott en ath nokkur orð" sé ekki frá þeim komið, því hafi verið nauðsynlegt að leggja fram dskj. nr. 23. Stefndu telja að efni bréfsins frá 17. júlí 1997 hefði breyst með tillögum stefnanda að orðalagi þess, enda hafi framkvæmdastjóra stefnanda verið það ljóst, þegar hann gerði stefndu nýtt tilboð 18. júlí 1997, sem stefndu hefðu að vísu heldur ekki fallist á.
Stefndu byggja sýknukröfu sína að auki á því að enginn grundvöllur sé fyrir skaðabótakröfu stefnanda. Þá hafna stefndu fjárhæð kröfunnar sérstaklega. Stefnandi hafi sjálfur átt sök á því að stefndu hættu við að senda efni í tímaritið og fráleitt sé að kenna stefndu um að tímaritið kom ekki út.
Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda mótmæla stefndu sem ósannaðri og órökstuddri. Stefnandi hafi lagt fram lista með nöfnum fyrirtækja og stofnana ásamt krónutölum. Samtala þessa lista sé sögð vera heildarsala. Listi þessi sé gerður af stefnanda og segi ekkert til um það, fyrir hvað umræddar fjárhæðir standi, og raunar ekkert sem staðfesti trúverðugleika þeirra. Af hálfu stefndu er bent á að ritstjórnarlaun, 150.000 kr., hafi ekki verið innt af hendi af hálfu stefnanda samkvæmt framburði Sveins Kjartansson framkvæmdastjóra stefnanda fyrir réttinum. Ekkert hafi komið fram um að stefnandi hafi reynt að takmarka tjón sitt með því m.a. að fá aðra aðila en stefndu til að leggja til efni í tímaritið. Þá hafi hann ekki reynt að gefa tímaritið út án framlags stefndu.
Kröfu stefnanda vegna missis tekna í framtíðinni telja stefndu ódómhæfa. Ekki komi fram í útreikningum stefnanda við hvaða tímamörk er átt. Því sé ekki unnt að átta sig á tölulegum forsendum. Þá sé sett fram krafa um 5% ávöxtun á gefnar framtíðartekjur, þegar með réttu ætti að afvaxta bótafjárhæðina með tilliti til eingreiðsluhagræðis. Þá sé fráleitt að reikna sér framtíðartekjur vegna tímarits sem algerlega séu háðar því að aðilar á borð við stefndu leggi til ókeypis efni. Skilyrðum skaðabótaréttarins um sök, orsakatengsl og sennilega afleiðingu af athöfn eða athafnaleysi sé ekki fullnægt varðandi kröfu stefnanda um bætur fyrir tapaðar tekjur í framtíðinni. Beri því að hafna slíkri kröfu.
Stefndu vísa á bug kröfu um bætur til stefnanda fyrir að hafa skert ímynd hans og hnekkt viðskiptavild hans. Væri eitthvað hæft í því að stefnandi hafi orðið fyrir slíkum áföllum vegna þess að stefndu sendu ekki efni í tímaritið Létt stemmning sé ekki við neinn annan að sakast í þeim efnum en stefnanda sjálfan.
Upphafstíma vaxta kröfufjárhæðar er sérstaklega mótmælt með vísan til ákv. 15. gr. vaxtalaga.
Af hálfu stefndu er varakrafa um að kröfufjárhæð verði lækkuð verulega studd sömu málsástæðum og rökum og stefndu byggja aðalkröfu sína á.
V.
Niðurstaða:
Forráðamenn stefndu, Hins hússins, Jafningjafræðslunnar 96 og Félags framhaldsskólanema, hafa ómótmælanlega fyrir þeirra hönd gengið til samninga við stefnanda - enda þótt deilt sé um ákveðin atriði varðandi heimildir stefnanda og framkvæmdir á grundvelli samningsins og viðbrögð stefndu við þeim. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins, skriflegum og munnlegum, en stefndu séu félög, sem borið geti skyldur og gert löggerninga. Þótt félögin hafi hvorki sjálfstæða tekjustofna né fjárhagsleg markmið, eins og stefndu halda fram, breytir það litlu um aðildarhæfi. Því er ekki efni til að vísa málinu frá dómi án kröfu svo sem stefndu láta í veðri vaka.
Sveinn Sigurður Kjartansson, framkvæmdastjóri stefnanda, sagði m.a. fyrir réttinum að ætlað hefði verið að efni tímaritsins Létt stemmning yrði frá stefndu að mestu leyti eða 70 - 80 % af efni þess. Dreifing á efninu yrði án áhættu stefndu við útgáfuna en í stað þess fengi útgefandinn, stefnandi, Öflun ehf., heimild til að láta væntanlega auglýsendur vita af því að efni tímaritsins yrði frá stefndu. Hann kvaðst hafa gert munnlegt samkomulag við Jóhannes Kristján Kristjánsson í þessa veru og haldið að Jóhannes hefði til þess heimild. Síðar hafi annað komið í ljós. Aðspurður kvaðst hann enn ekki hafa gert stefnanda reikning fyrir vinnu sína sem ritstjóri tímaritsins.
Jóhannes Kristján Kristjánsson, en hann starfaði hjá stefnda, Jafningja-fræðslunni, á þeim tíma sem hér um ræðir, bar m.a. fyrir rétti að Sveinn Sigurður Kjartansson hafi haft samband við hann og boðið Jafningjafræðslunni að setja kynningarefni í tímaritið Létt stemmning upp á 8 til 12 síður. Honum hafi þótt það mikið fyrir eitt félag og varpað þeirri hugmynd fram að Hitt húsið og Félag framhaldsskólanema tækju einnig þátt í þessu og tjáð honum að hann yrði að tala við forsvarsmenn þeirra til að fá samþykki. Hafi hann rætt um það við Svein, hvernig félögin kæmu að þessu, og sagt Sveini að þeir myndu ekkert vilja tengjast tímaritinu fjárhagslega eða koma að útgáfu þess heldur einungis leggja fram efni til kynningar á félögunum. Svonefnd logo merki stefndu hefði hann afhent stefnanda að beiðni Sveins til að merkja greinar þær, sem stefndu myndu birta í tímaritinu. Hann hafi ekki veitt leyfi til að merkin yrðu notuð til að afla auglýsinga fyrir tímaritið né að félögin yrðu orðuð við ritnefnd blaðsins, sbr. dskj. nr. 17.
Ketill Berg Magnússon, verkefnastjóri hjá Hinu húsinu, sagði m.a. fyrir rétti að stefnanda hafi aldrei verið veitt leyfi til að nota logo merki félagsins til að afla auglýsinga fyrir tímaritið. Hann sagði að mikil óánægja hefði verið hjá stefndu um það á hvern hátt merki félaganna hefðu verið notuð af stefnanda. Af þessu tilefni hefðu stefndu sett stefnanda úrslitakosti með hvaða skilyrðum þau myndu birta efni í tímaritinu úr því sem komið var. Sveinn Sigurður Kjartansson hafi ekki sætt sig við þessi skilyrði. Fundi hans með málsvörum stefndu hefði þá lokið án samkomulags. Stjórnir félaganna hefðu síðan ákveðið að þau myndu ekki leggja til efni í tímaritið. Sveinn hefði í framhaldi lagt fram nýjar tillögur en þeim hefði við svo búið verið hafnað.
Lárus Rögnvaldur Haraldsson, ritari Félags framhaldsskólanema, tjáði réttinum að félagið hefði samþykkt að leggja til efni í tímaritið Létt stemmning. Skýrt hefði verið tekið fram af Jóhannesi Kr. Kristjánssyni að í samkomulaginu við stefnanda fælist ekkert annað.
Svo sem greint var frá reyndu aðilar að ná samkomulagi eftir að ljóst var í hverju þeim bar á milli. Ekki varð af samkomulagi. Og hafa tilraunir þeirra í þá átt enga þýðingu fyrir úrslit málsins.
Stefnandi er fyrirtæki sem rekur útgáfustarfsemi. Það var því frekar stefnanda en stefndu að sjá til þess að efni samkomulags aðila orkaði ekki tvímælis. Annað verður ekki ráðið af dskj. nr. 17 og 18 en að stefndu séu í ritnefnd tímaritsins Létt stemmning og að tímaritið sé gefið út af stefnanda í samvinnu við stefndu. Þeir, sem höfðu ekki annað að byggja á, gátu auðveldlega ætlað að stefndu nytu tekna fyrir birtar auglýsingar í tímaritinu - að frádregnum kostnaði við útgáfuna. Stefndu halda fram að stefnandi hafi ekki haft heimild til að nýta svokölluð logo merki stefndu með þeim hætti sem fram kemur á dskj. nr. 17. Stefnandi hafi einungis haft heimild til að nota merkin með væntanlegum greinum frá stefndum. Stefnanda hefur ekki tekist að sanna hið gagnstæða.
Verður því litið svo á að stefnandi hafi af fyrra bragði brotið samkomulag aðila með þeim hætti að stefndu varð tækt að hafna því að leggja til efni í tímaritið eins og um hafði verið samið.
Samkvæmt þessu verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að stefnandi greiði stefndu 150.000 kr. alls í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndu, Félag framhaldsskólanema, Jafningjafræðslan 96 og Hitt húsið, eru sýkn af kröfum stefnanda, Öflun ehf.
Stefnandi greiðir stefndu 150.000 kr. alls í málskostnað.