Hæstiréttur íslands
Mál nr. 206/1999
Lykilorð
- Hlutafélag
- Ábyrgð stjórnarmanna
- Aflahlutdeild
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 1999. |
|
Nr. 206/1999. |
Glitnir hf. (Ólafur Garðarsson hrl.) gegn Jónasi Frímanni Árnasyni og Elenoru Katrínu Árnadóttur (Jón Magnússon hrl.) |
Hlutafélög. Ábyrgð stjórnarmanna. Aflahlutdeild.
GE gaf út veðskuldabréf að fjárhæð 7.000.000 krónur til F, sem síðar var sameinað G, vegna kaupa á bát og var skuldabréfinu þinglýst á 1. veðrétt bátsins. GE afsalaði bátnum, án veiðiheimilda, til hlutafélagsins H, en í stjórn þess sátu J og E auk Á, sem var formaður og framkvæmdastjóri. Við nauðungarsölu á bátnum, vegna vanskila á veðskuldabréfinu, kom í ljós að aflahlutdeild, sem færð hafði verið á bátinn eftir söluna til H, hafði verið skilin frá honum án samþykkis F. Hafði aflahlutdeildin verið færð eftir beiðni H til Fiskistofu, sem undirrituð var af J, E og Á, en í beiðninni sagði, að með henni fylgdi nýtt veðbókarvottorð og skriflegt samþykki þeirra aðila, sem veð áttu í skipinu 1. janúar 1991. Opinbert mál var höfðað gegn Á og var hann meðal annars sakaður um skilasvik með því að hafa selt aflahlutdeild bátsins án þess að leita samþykkis F, en við útgáfu sýslumanns á veðbókarvottorði bátsins hafði láðst að geta um veðrétt F. Með dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var Á sakfelldur fyrir verknaðinn, þar sem talið var, að veðréttur F hefði náð til aflahlutdeildar bátsins og hefði ráðstöfun Á ekki getað samrýmst þessum réttindum F. Vísað var til þess, að samkvæmt ákvæði V til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða hefði verið óheimilt að framselja aflahlutdeild skips nema fyrir lægi samþykki þeirra aðila, sem samningsveð ættu í skipinu, er lögin kæmu til framkvæmda 1. janúar 1991. Talið var, að ákvörðun H um að framselja aflahlutdeildina hefði verið mikils háttar ákvörðun í skilningi 2. mgr. 52. gr. þágildandi laga um hlutafélög nr. 32/1978. J og E hefðu vitað um veðrétt F og því mátt vita, að veðbókavottorðið sem fylgdi beiðninni til Fiskistofu um framsal aflahlutdeildar væri rangt. Þeim hefði jafnframt borið að ganga úr skugga um, að samþykki veðhafa væri fengið fyrir framsalinu. Þóttu þau hafa brugðist skyldum sínum sem stjórnarmenn samkvæmt 52. gr. þágildandi hlutafélagalaga og bæru þau skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem rakið yrði til þessarar vanrækslu. Voru þau samkvæmt þessu dæmd til þess að greiða F bætur, sem námu þeim eftirstöðvum veðskuldabréfsins, sem ekki höfðu greiðst við nauðungarsölu bátsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 1999. Hann krefst þess, að stefndu verði gert að greiða sér in solidum 3.694.848 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. apríl 1995 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Féfang hf. var sameinað Glitni hf. 1. október 1995 og er síðarnefnda félagið réttur aðili málsins.
I.
Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins og þar greinir lánaði Féfang hf. Guðmundi Erni Einarssyni 7.000.000 krónur í júlí 1990 fyrir bát, er hann hugðist kaupa. Lántakandinn gaf 2. júlí 1990 út veðskuldabréf til Féfangs hf. til tryggingar skuldinni. Var bréfinu þinglýst á 1. veðrétti mb. Snærúnar SH-101. Með kaupsamningi 8. mars 1991 var mb. Ásberg KE-111, eins og báturinn hét þá, seldur Árna Jónassyni. Með afsali 28. ágúst 1991 var bátnum afsalað til Hafalds hf. í Garði, sem Árni Jónasson hafði stofnað með fjölskyldu sinni 23. mars 1991. Í báðum þessum gerningum var tekið fram, að kaupandi yfirtæki áhvílandi veðskuldir á bátnum, en með yfirlýsingu 7. mars, sem árituð var um samþykki fyrir hönd Féfangs hf., hafði Árni Jónasson tekið við af Guðmundi Erni sem greiðandi að skuldabréfinu frá 2. júlí 1990. Þá kom einnig fram í kaupsamningi og afsali, að aflahlutdeild bátsins hefði verið skilin frá honum og seldist hann ”án aflakvóta en með veiðiheimild.” Undir afsalið rita fyrir hönd Hafalds hf. stjórnarmennirnir Árni Jónasson formaður og framkvæmdastjóri og stefndu sem meðstjórnendur, en þau eru börn hans. Samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár 16. ágúst 1994 voru ekki fleiri í stjórn félagsins, en stefnda Elenora Katrín hafði prókúruumboð fyrir það.
Vanskil urðu á veðskuldabréfinu og var báturinn að kröfu Féfangs hf. seldur nauðungarsölu 11. janúar 1995. Hæstbjóðandi var stefnda Elenora Katrín með boð að fjárhæð 5.200.000 krónur og fékk Féfang hf. greiddar 3.821.956 krónur upp í kröfu sína. Eftir að fram var komin beiðni um nauðungarsölu 6. september 1994, en áður en til lokasölu kom, var aflahlutdeild bátsins skilin frá honum án vitundar Féfangs hf. Með beiðni til Fiskistofu um framsal aflahlutdeildar 5. október 1994 fylgdi veðbókarvottorð, þar sem veðskuldabréfs Féfangs hf. frá 2. júlí 1990 á 1. veðrétti í bátnum var ekki getið. Fiskistofu var því ókunnugt um veðkröfuna og samþykkti framsalið, án þess að fyrir lægi samþykki Féfangs hf. Undir framsalsbeiðnina ritaði Árni Jónasson sem umsækjandi og hann ásamt báðum stefndu sem þinglýstir eigendur fyrir hönd Hafalds hf. Í beiðninni sagði meðal annars, að með henni fylgdi nýtt veðbókarvottorð og skriflegt samþykki þeirra aðila, sem veð áttu í skipinu 1. janúar 1991. Í sérstöku vitnamáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. september 1999 lýstu stefndu því bæði yfir, að þau hefðu enga hugmynd haft um það, hvað þau voru að undirrita, og enga vitneskju haft um veðbókarvottorðið.
Bú Árna Jónassonar var tekið til gjaldþrotaskipta 12. apríl 1994 og lauk skiptum 12. júlí sama ár. Bú Hafalds hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 19. júlí 1995 og lauk skiptum 26. október sama ár.
II.
Ákæra var gefin út á hendur Árna Jónassyni 29. apríl 1997 og var hann meðal annars sakaður um skilasvik samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í október 1994 selt aflahlutdeild mb. Ásbergs KE-111 án þess að leita samþykkis Féfangs hf. til flutnings hennar af bátnum. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness 13. október 1997 sagði meðal annars:
„Þó að báturinn hafi verið án aflahlutdeildar, þegar ákærði eignaðist hann með yfirtöku veðskuldar Féfangs hf., var þó síðar færð aflahlutdeild yfir á skipið, og er rétt að líta svo á, að veðréttur Féfangs hafi náð til þeirra. Með því að ákærði seldi aflahlutdeild bátsins Ásbergs, KE-111, til fjárhagslegs ávinnings Hafaldi hf. og fjölskyldu sinni án þess að leita samþykkis Féfangs braut hann gegn brýnu lagaboði og kom í veg fyrir, að Féfang hf. gæti varið veðrétt sinn. Verknaður ákærða gat ekki samrýmst þeim réttindum, sem veðhafinn, Féfang hf., átti.“
Samkvæmt ofangreindu var ákærði sakfelldur fyrir skilasvik og dæmdur til að greiða Féfangi hf. skaðabætur að fjárhæð 3.719.747 krónur, en krafa félagsins sætti ekki andmælum tölulega. Með dómi Hæstaréttar 19. mars 1998, bls. 1082 í dómasafni, var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
III.
Þegar Hafald hf. eignaðist bátinn mb. Ásberg KE-111 á árinu 1991 voru komin til framkvæmda lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sem öðlast höfðu gildi 18. maí 1990. Í 6. mgr. 11. gr. laganna var heimilað að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða öllu leyti og sameina hana aflahlutdeild annars skips, enda leiði flutningur aflahlutdeildar ekki til þess, að veiðiheimildir þess skips, sem flutt er til, verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Samkvæmt ákvæði nr. V til bráðabirgða var óheimilt að framselja aflahlutdeild skips samkvæmt 6. mgr. 11. gr. laganna, án þess að skip hyrfi varanlega úr rekstri og væri afmáð af skipaskrá, nema fyrir lægi samþykki þeirra aðila, sem samningsveð ættu í skipinu, er lögin kæmu til framkvæmda, en það var 1. janúar 1991.
Ótvírætt er, að ákvörðun um að framselja aflahlutdeild mb. Ásbergs KE-111 í október 1994 var mikils háttar ákvörðun í skilningi 2. mgr. 52. gr. þágildandi laga um hlutafélög nr. 32/1978, enda var hér um eina skip Hafalds hf. að ræða. Hún var því á verksviði stjórnar félagsins en ekki framkvæmdastjóra eins. Þótt framkvæmdastjórinn ritaði undir framsalsbeiðnina sem umsækjandi, skráðu stefndu nöfn sín jafnframt á hana til samþykktar sem stjórnarmenn fyrir hönd hlutafélagsins sem þinglýsts eiganda. Ekki liggur annað fyrir en að félagið hafi einnig verið eigandi aflahlutdeildarinnar. Í samræmi við áðurnefnda 52. gr. hlutafélagalaga varð sú krafa gerð til stefndu sem stjórnarmanna, að þau hefðu í meginatriðum vitneskju um rekstur félagsins og mikils háttar ráðstafanir. Þeim stoðar hvorki að bera fyrir sig ókunnugleika í þeim efnum né heldur á þeirri löggjöf, sem á hverjum tíma gildir um starfsemi og ákvarðanatöku hlutafélaga. Verða ekki gerðar síðri kröfur til þeirra um þetta, þó að félagið hafi að öllu leyti verið í eigu fjölskyldunnar, en saman áttu þau helming hlutafjár á móti foreldrum sínum.
Eins og áður segir var þess sérstaklega getið á framsalsbeiðninni til Fiskistofu, að með henni fylgdi nýtt veðbókarvottorð og skriflegt samþykki þeirra aðila, sem veð áttu í skipinu 1. janúar 1991. Með framangreindum dómi sínum 19. mars 1998 hefur Hæstiréttur staðfest, að áfrýjandi hafi notið veðréttar í þeirri aflahlutdeild, sem flutt var á mb. Ásberg KE-111 eftir kaup Hafalds hf. á bátnum á árinu 1991. Stefndu bar að gæta þess sem stjórnarmönnum í því hlutafélagi, sem var að láta aflahlutdeild af hendi, að réttra aðferða og lagaskilyrða væri gætt. Þau skrifuðu undir afsal bátsins sem kaupendur fyrir hönd hlutafélagsins 28. ágúst 1991 og vissu þannig um kröfu áfrýjanda á 1. veðrétti, sem getið var í afsalinu. Þau máttu því vita, að veðbókarvottorðið, sem fylgdi framsalsbeiðninni, var rangt. Jafnvel þótt þau hafi ekki séð þetta vottorð, eins og þau halda fram, bar þeim engu að síður að ganga úr skugga um, að ekki væri gengið á lögvarinn rétt veðhafa með framsalinu, enda var samþykki þeirra áskilið í framsalsbeiðninni.
Samkvæmt framansögðu brugðust stefndu skyldum sínum sem stjórnarmenn í Hafaldi hf. samkvæmt 52. gr. þágildandi hlutafélagalaga, þegar ákvörðun var tekin um að framselja aflahlutdeild mb. Ásbergs KE-111, án þess að fyrir lægi samþykki Féfangs hf. sem 1. veðréttarhafa í bátnum. Verður tjón áfrýjanda rakið til þessarar vanrækslu. Á því bera þau óskipta fébótaábyrgð samkvæmt 1. mgr. 132. gr. þágildandi hlutafélagalaga, sbr. nú 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, ásamt föður sínum, sem var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins. Það stendur kröfu áfrýjanda í þessu máli ekki í vegi, að Árni Jónasson var með áðurnefndum dómi Hæstaréttar dæmdur til að greiða áfrýjanda þá kröfu, sem hann hefur uppi í þessu máli, en óumdeilt er, að ekkert hafi greiðst af þeirri dómkröfu.
Eftir þessum úrslitum verða stefndu dæmd til að greiða áfrýjanda in solidum 3.694.848 krónur, en í málinu er ekki ágreiningur um fjárhæð kröfunnar. Rétt þykir, að fjárhæðin beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þingfestingu málsins í héraði, en skaðabótakröfu var ekki fyrr en þá beint að stefndu.
Stefndu skulu greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, Jónas Frímann Árnason og Elenora Katrín Árnadóttir, greiði in solidum áfrýjanda, Glitni hf., 3.694.848 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. apríl 1996 til greiðsludags.
Stefndu greiði áfrýjanda sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 1999.
Mál þetta var fyrst dómtekið 8. desember sl. en var síðan endurflutt og dómtekið í dag. Málið er höfðað með stefnu þingfestri 18. apríl 1996 af Glitni-Féfangi hf., Fjármálamiðstöðinni, Kirkjusandi, Reykjavík, gegn Jónasi Frímanni Árnasyni, Silfurtúni 14b, Garði og Elenoru Katrínu Árnadóttur, Silfurtúni 20a, Garði.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði gert að greiða stefnanda, in solidum, 3.694.848 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 30. apríl 1995 til greiðsludags.
Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 30. apríl 1996, en síðan árlega þann dag.
Þá er krafist málskostnaðar að mati réttarins. Einnig er krafist virðisaukaskatts á málflutningsþóknun en stefnandi kveðst ekki reka virðisaukaskattskylda starfsemi.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins, sem beri dráttarvexti 15 dögum frá uppkvaðningu dóms í málinu, auk virðisaukaskatts á málskostnað þar sem stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir.
Málavextir
Í júlí 1990 lánaði Féfang hf. Guðmundi Erni Einarssyni 7.000.000 króna fyrir bát er hann hugðist kaupa. Þann 2. júlí 1990 gaf Guðmundur út veðskuldabréf til Féfangs hf. að höfuðstól 7.000.000 króna til tryggingar skuldinni. Bréfinu var þinglýst á 1. veðrétt á MB Snærúnu SH-101, skipaskráningarnúmer 1939 og skyldi bréfið greiðast með 21 afborgun á 4 mánaða fresti, í fyrsta skipti þann 15. október 1990. Bréfið var vísitölutryggt með lánskjaravísitölu og var grunnvísitalan 2905 stig.
Guðmundur seldi bátinn síðan til Hafalds hf., Melabraut 10, Garði. Kaupsamningur var dagsettur 8. mars 1991 en afsal er dagsett 28. ágúst 1991. Í báðum þessum gerningum er tekið fram að kaupandi yfirtaki áhvílandi veðskuld við stefnanda, upphaflega að fjárhæð 7.000.000 króna. Þá kemur þar einnig fram að aflahlutdeild bátsins hafi verið skilin frá honum og að hann seljist því án aflakvóta en með veiðiheimild. Undir afsalið ritar stjórn Hafalds hf. fyrir hönd kaupanda, þ.e. stefndu, Jónas og Elenora, auk Árna Jónassonar. Fékk báturinn þá nafnið Ásberg KE-111 en síðar nafnið Katrín GK-98, skipaskrárnúmer 1939.
Í kjölfarið, eða þann 7. mars 1991, varð að samkomulagi milli stefnanda og framkvæmdastjóra og stjórnarformanns Hafalds hf., Árna Jónassonar, Melabraut 10, Garði, að Árni tæki við af Guðmundi sem greiðandi að skuldabréfinu. Jafnframt var samið um breytta greiðsluskilmála.
Stefnandi kveður Árna ekki hafa staðið við greiðsluskuldbindingar sínar. Fljótlega hafi komið í ljós að yfirvofandi var nauðungarsala á bátnum, Katrínu GK-98, skipaskráningarnúmer 1939, og hafi framhaldssala verið fyrirhuguð í byrjun desember 1994. Rétt fyrir uppboðið hafi uppgötvast að selja átti bátinn kvótalausan. Kvótastaða bátsins hafi komið stefnanda í opna skjöldu því í ákvæði til bráðabirgða nr. V í lögum nr. 38/1990, sem komið hafi til framkvæmda eftir 1. janúar 1991, sbr. 23. gr., segi að ekki sé hægt að selja aflahlutdeild skips “nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu er lög þessi koma til framkvæmda”. Hafi uppboði bátsins verið frestað í u.þ.b. 1 mánuð vegna þessa.
Lögmaður stefnanda hafi ritað Fiskistofu bréf þann 13. desember 1994 og óskað skýringa á því hvers vegna aflahlutdeild bátsins hafi verið seld án þess að stefnandi hefði gefið fyrir því samþykki sitt, sbr. dskj. nr. 9. Svarið hafi borist með bréfi dags. 16. desember 1994, sbr. dskj. nr. 10. Í svarbréfi Fiskistofu komi fram að leggja þurfi fram veðbókarvottorð þess skips er aflahlutdeild er flutt frá ásamt samþykki allra aðila sem átt hafi þinglýst veð í skipinu 1. janúar 1991, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 405/1994 um veiðar í atvinnuskyni. Í bréfi Fiskistofu komi enn fremur fram að þegar aflahlutdeild hafi verið flutt frá Katrínu GK-98 í októbermánuði 1994 hafi verið lagt fram veðbókarvottorð. Á því hafi ekki verið getið um veðskuldarbréf stefnanda, sbr. meðfylgjandi ljósrit á dskj. nr. 6. Því hafi hlutdeildarflutningurinn verið staðfestur þótt samþykki stefnanda hafi ekki legið fyrir, enda Fiskistofu ókunnugt um veðkröfuna.
Í bréfi, dags 21. desember 1994, hafi verið óskað eftir upplýsingum um kvótastöðu umrædds báts við sölu aflahlutdeildar í október 1994, sbr. dskj. nr. 11. Í svari Fiskistofu, sjáist að aflahlutdeild bátsins hafi verið veruleg, bæði hvað varðar þorsk og ufsa en einnig hvað varðar ýsu og karfa. Á dskj. nr. 8, sem unnið sé af stefnanda skv. upplýsingum frá Fiskistofu sjáist að verðmæti hinnar seldu aflahlutdeildar hafi í október 1994, á söludegi, numið u.þ.b. 5.829.725 krónum.
Þann 6. janúar 1995 hafi lögmaður stefnanda sent bréf til sýslumannsins í Keflavík vegna þessa máls og vakið athygli embættisins á mistökum við útgáfu veðbókarvottorðs og einnig á því að embættinu gæfist rúmur tími til þess að verja hagsmuni sína á uppboðinu. Báturinn hafi verið seldur þann 11. janúar 1995 og hafi 3.821.956 krónur komið í hlut stefnanda. Hæstbjóðandi hafi verið stefnda, Elenora, og hafi henni verið sleginn báturinn á 5.200.000 krónur.
Sýslumanninum í Keflavík hafi verið ritað bréf þann 30. mars 1995 þar sem fjárhagstjón stefnanda hafi verið kynnt en eftirstöðvar kröfu stefnanda eftir greiðslu hafi numið 3.694.848 krónum. Nákvæmur útreikningur fylgi á dskj. nr. 17. Svar hafi borist frá ríkislögmanni, þar sem bótaskyldu hafi ekki verið vísað á bug heldur vakin athygli á því að það sé m.a. skilyrði bótaábyrgðar ríkissjóðs, skv. 49. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, að mistök þinglýsingarstjóra hafi leitt til þess að bótakrefjandi hafi orðið fyrir tjóni. Hafi embætti ríkislögmanns talið að áður en reyndi á bótaábyrgð ríkissjóðs þyrfti að liggja fyrir að stefnandi hefði ekki fengið fullnustu hjá Hafaldi hf. annars vegar eða stjórnarmönnum Hafalds hf. hins vegar sem beitt hafi fyrir sig röngu veðbókarvottorði við öflun heimildar fyrir framsali á aflahlutdeild. Ríkislögmaður hafi talið einsýnt að stefndu, Jónas og Elenora, ásamt Árna Jónassyni, hafi vitað að veðbókarvottorðið frá því í október 1994, sem fylgdi beiðni þeirra um framsal á aflahlutdeild, veitti rangar upplýsingar um áhvílandi skuldir og að þau hafi þar með bakað sér persónulega ábyrgð á greiðslu skuldarinnar við stefnanda. Í ljósi þessa þótti ekki önnur leið fær en að stefna stjórnarmönnum Hafalds hf.
Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá séu í stjórn Hafalds hf. þau Árni Jónasson, Jónas Frímann Árnason og Elenora Katrín Árnadóttir. Árni sé framkvæmdastjóri og Elenora með prókúruumboð.
Árna Jónassyni sé ekki stefnt þar sem bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 12. apríl 1994 og hafi skiptum lokið þann 12. júlí 1994. Hafaldi hf. hafi ekki verið stefnt þar sem bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 19. júlí 1995 og hafi skiptum lokið þann 26. október 1995.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndu hafi verið í stjórn Hafalds hf. frá stofnun félagsins árið 1991 og sé stefnda, Elenora, prókúruhafi félagsins. Stefndu riti bæði undir kaupsamninginn á dskj. nr. 4 f.h. Hafalds hf. en í kaupsamningnum sé skýrt tekið fram að Hafald hf. yfirtaki áhvílandi veðskuldir við stefnanda að höfuðstól 7.000.000 milljónir. Þá sjáist á dskj. nr. 17 að það sé stefnda, Elenora, sem er hæstbjóðandi á uppboði bátsins þann 11. janúar 1995.
Með hliðsjón af málavöxtum, eins og þeir eru raktir hér að framan, telur stefnandi ljóst að stefndu hafi vitað eða hafi mátt vita að veðbókarvottorð, sem hafi verið fram við öflun samþykkis veðhafa við sölu aflahlutdeildar og einnig hjá Fiskistofu, var rangt og gaf ekki réttar upplýsingar um áhvílandi skuldir á bátnum. Með því að framvísa þessu vottorði telur stefnandi að stefndu hafi bakað sér persónulega bótaábyrgð á greiðslu skuldarinnar við stefnanda. Einnig telur stefnandi að stefndu hafi með þessu bakað sér refsiábyrgð og kærði þess vegna verknað stefndu til rannsóknarlögreglu ríkisins. Það hafi einnig nokkrir veðhafar í umræddum bát gert.
Féfang hf. hafi verið sameinað Glitni hf. þann 1. október 1995 og sé Glitnir hf. því réttur aðili málsins.
Stefnandi styður kröfur sínar um greiðslu skaðabóta aðallega við almennar skaðabótareglur. Hann vísar einnig í almenn hegningarlög nr. 19/1940, XVII. kafla, einkum 155. gr.
Stefnandi styður kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti með vísan í III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og krefst þess því að stefndu verði gert að greiða honum virðisaukaskatt af málskostnaði.
Málinu er stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur á grundvelli ákvæðis í skuldabréfinu á dskj. nr. 3 og á grundvelli 41. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er fjallar um brotavarnarþing.
Málsástæður stefndu og lagarök
Af hálfu stefndu er á því byggt að Árni Jónasson hafi annast um rekstur fyrirtækisins Hafalds hf. og sinnt einnig öllum fjármálalegum atriðum og gengið frá beiðnum, t.d. um tilfærslur á aflakvóta, en slíkar beiðnir hafi verið algengar á tímabilinu 1991-1994 bæði um aflakvóta til Ásbergs KE-111 og frá honum. Aflakvóti Ásbergs KE-111 hafi því verið mjög breytilegur milli tímabila.
Stefndu hafi hvorki fylgst með daglegum rekstri Árna Jónassonar persónulega eða hlutafélagsins Hafalds hf. Nefndur Árni hafi annast allan daglegan rekstur og gengið frá öllum beiðnum í nafni útgerðarinnar og öðru því sem þurfti að gera í því sambandi. Þá hafi hann einnig séð um daglega fjármálastjórn. Árni Jónasson hafi leigt kvóta af Snorra Sturlusyni og fært yfir á Ásberg KE-111 og hafi auk þess fært kvóta sem hann átti persónulega yfir á bátinn. Árni telji að hann hafi átt allan kvóta sem fluttur hafi verið yfir á Ásberg KE-111 (Katrínu GK-98)
Stefndu hafi lítið vitað um tilfærslu, kaup og/eða sölu, á aflakvóta Ásbergs KE-111 og hafi ekki komið nálægt því að öðru leyti en að skrifa nöfn sín undir beiðnir, sem Árni Jónasson hafi útbúið. Árni Jónasson telji að hann hafi átt þann kvóta sem Ásberg KE-111 hafi fengið á þeim tíma, sem báturinn var eign Hafalds hf., eða þá að hann hafi leigt hann og endurleigt Hafaldi hf. síðan kvótann. Samkvæmt því hafi Hafald hf. aldrei átt aflakvóta vegna Ásbergs KE-111.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að þau hafi ekki skoðað veðbókarvottorð á dskj. nr. 6 og hafi ekkert vitað um að það væri rangt eða yfir höfuð ekkert um það fyrr en stefnandi hafði uppi kröfur sínar gagnvart þeim. Þá hafi þau ekki haft milligöngu um framvísun þess til Fiskistofu. Sá aflakvóti sem óskað hafi verið flutnings á hafi ekki verið seldur af hálfu Hafalds hf. og fyrirtækinu því málið óviðkomandi þar sem kvótinn hafi ekki verið eign fyrirtækisins. Hafald hf. hafi engin söluverðmæti aflakvóta fengið í sinn hlut vegna þessa. Ljóst sé að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir fullyrðingu sinni um vitneskju stefndu í þessu efni. Ekki komi fram í gögnum málsins eitt eða neitt sem styðji þessa fullyrðingu stefnanda eða tengi stefndu við öflun eða framvísun umrædds veðbókarvottorðs og beri því að sýkna stefndu þegar af þeirri ástæðu.
Þrátt fyrir það að stefndu hefðu vitað að veðbókarvottorðið væri rangt þá geti það ekki, eins og málum er háttað, varðað þau bótaábyrgð. Stefndu séu hluthafar og stjórnendur í félaginu Hafald hf. sem sé félag með takmarkaðri ábyrgð. Bent er á að stefnandi vísi ekki til eða reifi nokkur þau lagarök sem gætu fellt bótaábyrgð á stefndu, sem stjórnendur í hlutafélagi, í þessu sambandi.
Þá er á það bent að með kaupsamningi, dags. 8. mars 1991, hafi umræddur bátur verið seldur án aflahlutdeildar og samkvæmt afsali fyrir bátnum, dags. 28. ágúst 1991, þar sem bátnum hafi verið afsalað til Hafalds hf., sé einnig tekið fram að hann sé seldur án aflakvóta en með veiðiheimild. Veðtrygging stefnanda hafi því einungis verið umræddur bátur án aflakvóta og þannig hafi stefnandi samþykkt nýjan skuldara, þ.e. Árna Jónasson. Veðtrygging stefnanda nái því ekki til aflakvóta sem á tímabilinu kunni að hafa verið fluttur á bátinn tímabundið. Þá verði ekki séð að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni miðað við þessar forsendur, þar sem veðið hafi ekki verið verra þegar það var selt á nauðungaruppboði en það var þegar Hafald hf. keypti bátinn. Hafald hf. hafi þannig fullnægt öllum skuldbindingum sínum um að halda veðinu við og rýra það ekki umfram eðlilega notkun þess miðað við þær forsendur sem aðilar hafi gengið út frá þegar báturinn var keyptur og yfirtaka Árna Jónassonar á skuldinni átti sér stað. Stefnandi geti því ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um að hafa ekki gætt þess að hafa tryggari veð fyrir umræddri veðskuld. Einnig er á það bent að Hafald hf. sé ekki skuldari umræddrar skuldar, heldur Árni Jónasson persónulega, en þessi persónulega skuldbinding Árna Jónassonar sé tryggð með 1. veðrétti í eign Hafalds hf. Annað hafi Hafald hf. ekki með þessa skuldbindingu að gera.
Þann 22. mars 1991 hafi stefnandi, sem veðhafi, samþykkt varanlegt framsal aflahlutdeildar mb. Ásbergs KE-111. Ekki hafi því verið nauðsynlegt að leita til stefnanda eftir það um framsal aflahlutdeildar. Stefnandi hafi þá þegar samþykkt varanlegt framsal aflahlutdeildar bátsins og trygging sú sem stefnandi sætti sig við hafi því verið umræddur bátur án aflahlutdeildar. Málatilbúnaður stefnanda nú sé því fráleitur. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni. Hafald hf. eða einstakir stjórnendur þess hlutafélags hafi aldrei tekið á sig þær skyldur að auka verðmæti veðsins umfram það sem stefnandi hafi samþykkt við kaupin og síðar við varanlegt afsal aflahlutdeildar.
Stefndu halda fram að stefnandi hafi vitað eða mátt vita hvernig aflahlutdeild bátsins var háttað hverju sinni. Stefnandi hafi því átt þess kost að gera athugasemdir og halda fram rétti sínum hvenær sem var frá 1991, og einnig fyrir og við uppboðsmeðferð á bátnum, hefði hann talið sig eiga tryggingarréttindi sem tilheyrðu bátnum, en þetta hafi stefnandi ekki gert.
Stefndu byggja á því að þau hafi aldrei notað falsað skjal eða annað skjal til að blekkja með í lögskiptum, sbr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tilvísun til þess í málatilbúnaði stefnanda sé óskiljanleg þegar ekkert sé í gögnum málsins sem vísi til falsaðs skjals. Virðist sem stefnandi átti sig ekki fullkomlega á því hvað felist í hugtakinu fölsun.
Þar sem stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem stefndu beri að bæta honum á grundvelli almennra skaðabótareglna, beri honum að sýna fram á að stefndu hafi valdið honum tjóni af ásetningi eða gáleysi. Ekki sé sýnt fram á það í gögnum málsins. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að stefndu hafi með einum eða öðrum hætti valdið stefnanda tjóni. Þegar meta eigi tjón stefnanda í þessu sambandi verði að miða við þá veðtryggingu sem hann eigi. Stefndu rýri þá veðtryggingu ekki með neinum hætti. Þá megi einnig benda á það að hafi stefnandi talið að hinn veðsetti bátur væri meira virði en fékkst fyrir hann við nauðungarsölu hafi honum verið í lófa lagið að bjóða hærra verð í bátinn og krefjast þess síðar að þau réttindi, sem hann hafi talið sig eiga tilkall til vegna veðsins, fylgdu bátnum. Ekki verði séð að stefnandi gæti gert kröfu á stefndu á grundvelli almennra skaðabótareglna utan samninga nema hann sýni fram á að þau réttindi sem hann átti hafi verið rýrð eða eyðilögð af stefndu persónulega. Á þetta sé bent vegna þess að krafa stefnanda snúist um veðsetningu á bát sem seldur hafi verið nauðungarsölu og þegar hann hafi verið seldur nauðungarsölu hafi tilheyrt honum sömu réttindi, hvorki meiri né minni en þegar Hafald hf. festi kaup á honum. Trygging veðhafa hafi því verið sú hin sama og verið hafði, hvorki betri né verri. Vandséð sé því hvernig stefnandi komist að þeirri niðurstöðu að stefndu hafi bakað honum tjón með skírskotun til almennra skaðabótareglna.
Þá beri einnig að benda á að stefnandi byggir á almennum skaðabótareglum sem gildi utan samninga aðila. Í því sambandi er á það bent að stefnandi víki hvergi að því í málsástæðum sínum að stefndu hafi brotið samninga við stefnanda, hvorki þeir persónulega eða Hafald hf. En það sé mikilvægt að skoða það hvort um það geti verið að ræða, hvort Hafald hf. brjóti samninga við stefnanda hvað varðar umrædda veðsetningu. Sé niðurstaðan sú að Hafald hf. hafi ekki brotið samninga við stefnanda þá komi bótaábyrgð stefndu, sem stjórnarmanna í Hafaldi hf., ekki til álita. Bótaábyrgð þeirra kunni þá hugsanlega að vera reist á öðrum sjónarmiðum, sem að vísu séu ekki reifuð með einum eða neinum hætti í málatilbúnaði stefnanda. En hvað svo sem því líði verði bótaábyrgð þeirra sem stjórnenda í Hafaldi hf. ekki reist á öðru en því að Hafald hf. hafi með gjörðum sínum brotið samningsbundinn rétt stefnanda. Ekki sé hins vegar orði að því vikið í málatilbúnaði stefnanda og engin gögn lögð fram sem sýni fram á brot Hafalds hf. á samningnum við stefnanda. Á það megi síðan benda að stefnandi vísar í 41. gr. laga nr. 91/1991, lög um meðferð einkamála, en sú lagagrein vísi til málssóknar vegna réttindabrots utan samninga. Samkvæmt því byggi stefnandi ekki á samningum aðila, en væri það gert beri að vísa málinu frá ex officio því að það sé þá ekki höfðað í réttri dómsþinghá. Stefndu séu því ekki krafðir bóta á grundvelli samninga Hafalds hf. og stefnanda, en eins og áður er bent á komi bótaskylda stefndu ekki til greina sem stjórnarmanna í Hafaldi hf. nema á grundvelli samninga aðila. Samband stefndu og stefnanda sé ekkert annað en það sem leitt verði af kaupsamningi og afsali fyrir bátinn Ásberg KE-111. Þessi málatilbúnaður stefnanda sé illskiljanlegur. Bent er á að í stefnu sé tekið fram að Hafaldi hf. sé ekki stefnt þar sem bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og enn fremur er tekið fram að Árna Jónassyni sé ekki stefnt þar sem bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Með tilliti til þessara ummæla í stefnu verði ekki hjá því komist að líta svo á að stefnandi telji bæði Hafald hf. og Árna Jónasson bera jafnmikla bótaábyrgð og stefndu í máli þessu en ekki taki því að stefna þeim þar sem bú þeirra hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Með tilliti til þessara ummæla í stefnu verði ekki hjá því komist að líta svo á að stefnandi telji bæði Hafald hf. og Árna Jónasson bera jafnmikla bótaábyrgð og stefndu í máli þessu, en ekki taki því að stefna þeim þar sem bú þessara aðila hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta. Stefnandi verði þá að skýra það hvort hann telji að allir þessir aðilar beri ábyrgð in solidum og hvort bótaábyrgð þeirra allra byggist á sömu ástæðum. Einnig verði stefnandi að gefa yfirlýsingu um það að allir þessir aðilar, þ.e. stefndu, Hafald hf. og Árni Jónasson, hafi bakað sér bótaábyrgð utan samninga eða á grundvelli samninga við stefnanda.
Þá er því haldið fram að stefnandi hafi ekki átt tilkall til nokkurrar aflahlutdeildar bátsins Ásbergs KE-111, þar sem veð fyrir láni stefnanda á 1. veðrétti bátsins hafi ekki náð til aflahlutdeildar bátsins. Í því sambandi er bent á veðskuldabréf á dskj. nr. 3 en samkvæmt því sé einungis tekið fram að báturinn Særún-SH-101, skipaskrárnúmer 1939 sé veðsett með 1. veðrétti, en í nefndu veðskuldabréfi sé ekkert getið um aflakvóta eða nokkuð annað sem bátnum kunni að fylgja. Sama eigi einnig við hvað varðar yfirlýsingu Árna Jónassonar og Féfangs hf., dags. 7. mars 1991, sbr. dskj. nr. 5. Stefnandi hafi því sönnunarbyrði fyrir því að aflakvóti hafi fylgt bátnum bæði upphaflega og þegar hann var seldur Hafaldi hf. Slík sönnun sé stefnanda ekki tæk þar sem beinlínis sé tekið fram í þeim gögnum sem varði lögskipti stefnanda og Hafalds hf., svo og stefndu sem stjórnarmanna þess félags að enginn aflakvóti fylgi bátnum til tryggingar veðinu.
Sá sem heldur því fram að hann hafi orðið fyrir tjóni þurfi að sýna fram á það tjón. Nú liggi fyrir að hinum veðsetta bát hafi enginn aflakvóti fylgt við sölu hans til Hafalds hf. Stefnandi geti þess að aflakvóti hafi fylgt bátnum á ákveðnu tímabili en hann sýni hvergi fram á að sá aflakvóti hafi verið eign Hafalds hf. eða hvort Hafald hf. hafi haft hann á leigu. Þá sé ekki sýnt fram á hver aflakvóti bátsins hafi verið frá því að hann var keyptur og þar til hann var seldur nauðungarsölu og hvaða aflakvóti þar sé sem færist til bátsins og frá honum. Að þessu leyti sé málatilbúnaður stefnanda vanreifaður og það eitt út af fyrir sig leiði til þess að engin fullnægjandi sönnun hafi verið færð fram fyrir meintu tjóni stefnanda vegna meintra tilfærslna á aflakvóta frá umræddum bát.
Tilvísun stefnanda til 155. gr. alm. hegningarlaga sé gjörsamlega fráleit, eins og áður sé vikið að, og komi sú lagagrein máli þessu ekki við.
Þá er vaxtakröfu stefnanda mótmælt og í því sambandi er bent á 15. gr. laga nr. 25/1987, vaxtalaga, en samkvæmt þeirri lagagrein beri skaðabótakröfur ekki dráttarvexti fyrr en að liðnum mánuði frá þeim tíma að kröfuhafi sannanlega lagði fram upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Stefnandi hafi í máli þessu ekki lagt fram nauðsynleg gögn í þessu sambandi. Stefnandi geti því einungis gert vaxtakröfu á grundvelli 7. gr. vaxtalaga.
Stefndu telja að 41. gr. um meðferð einkamála eigi ekki við það tilvik sem hér um ræðir og máli þessu sé því ranglega stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Ekkert réttarbrot hafi verið framið.
Krafa stefndu um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á l. nr. 50/1988, en stefndu eru ekki virðisaukaskattskyld.
Niðurstaða
Með veðskuldabréfi, útgefnu 2. júlí 1990, skuldbatt Guðmundur Örn Einarsson sig til þess að greiða Féfangi hf. 7.000.000 króna með þar nánar tilgreindum hætti. Til tryggingar skuld þessari setti hann að veði bátinn M/B Snærúnu SH-101, skipaskrárnúmer 1939. Í veðskuldabréfinu eru engin ákvæði um að veðið taki til aflaheimildar bátsins.
Með kaupsamningi, dags. 8. mars 1991, seldi Guðumundur Örn Einarsson bátinn og kaupandi er Hafald hf. Skýrt er tekið fram í kaupsamningi aðila að báturinn seljist án aflahlutdeildar, sem skilin hafi verið frá bátnum, og hann því seldur án aflakvóta. Jafnframt yfirtekur Hafald hf. framangreinda veðskuld sem hvílir áfram á 1. veðrétti, en áður, eða 7. mars 1991, hafði svo um samist milli Féfangs hf. og Árna Jónassonar, stjórnarformanns Hafalds hf., að Árni tæki persónulega að sér greiðslu skuldarinnar samkvæmt veðskuldabréfinu. Veðið hvíldi samt áfram á bátnum, sem var í eigu Hafalds hf. eins og áður segir, og bar síðar nafnið Ásberg KE-111 og enn síðar nafnið Katrín GK-98.
Stefnandi byggir á því að tjón hans megi rekja til þess að á nauðungaruppboði í janúar 1995 hafi umræddur bátur verið seldur án aflakvóta og lægri fjárhæð því komið í hlut stefnanda en ella. Þegar litið er til framangreinds veðskuldabréfs, kaupsamnings, afsals, svo og annarra gagna málsins, þykir ekkert það komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að veði því, sem sett var til tryggingar skuld til stefnanda, hafi einnig verið ætlað að taka til aflaheimilda sem síðar kynnu að tilheyra bátnum með einum eða öðrum hætti, enda er þar ekki um að ræða óaðskiljanlegan hluta bátsins. Stefnandi hefur ekki fært að því rök að stefndu hafi rýrt það veð sem upphaflega var sett til tryggingar umræddri skuld eða að hann hafi orðið fyrir tjóni af þeirri ástæðu. Ber því, þegar af þeim sökum, að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst 350.000 krónur. Tekið er tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Jónas Frímann Árnason og Elenora Katrín Árnadóttir, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Glitnis-Féfangs hf, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 350.000 krónur í málskostnað.