Hæstiréttur íslands

Mál nr. 568/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Endurupptaka
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 20

 

Mánudaginn 20. nóvember 2006.

Nr. 568/2006.

Vélasalan ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Guðmundi Karvel Pálssyni

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Endurupptaka. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.

 

V ehf. kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist var á að endurupptaka mál, sem lokið hafði með úrskurði  um að bú G yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna kröfu B ehf. Þá kærði V ehf. ákvörðun héraðsdóms um að fella umrætt mál niður. Vísað var til þess að með ákvörðun um niðurfellingu málsins hefðu réttaráhrif úrskurðar um gjaldþrotaskiptin fallið úr gildi og að dómur nú þar sem endurupptöku málsins yrði hafnað myndi engu breyta um þá niðurstöðu, enda yrði ákvörðun  um niðurfellingu málsins ekki kærð til Hæstaréttar. Af þessum sökum var talið að V ehf. hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu úrskurðarins hnekkt og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 17. október 2006, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um endurupptöku á máli vegna kröfu Blikkrásar ehf. um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipa. Jafnframt er kærð ákvörðun Héraðsdóms Vestfjarða 20. október 2006 um að fella málið niður. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til q. og k. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. r. lið sama ákvæðis og 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt þannig að synjað verði um endurupptöku málsins og réttaráhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti sem upp var kveðinn þann 29. september verði látin standa.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur ásamt hinni kærðu ákvörðun. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Í framhaldi af því að hinn kærði úrskurður var upp kveðinn var málið tekið fyrir á dómþingi Héraðsdóms Vestfjarða 20. október 2006 og það fellt niður. Féllu þar með úr gildi réttaráhrif úrskurðar 29. september 2006 um að bú varnaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta. Efnisdómur nú þar sem endurupptöku málsins yrði hafnað myndi engu breyta um þá niðurstöðu, enda verður ákvörðun héraðsdómara um niðurfellingu málsins ekki kærð. Sóknaraðili hefur af þessum sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu úrskurðarins hnekkt. Þegar af þessari ástæðu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Vélasalan ehf., greiði varnaraðila, Guðmundi Karvel Pálssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 17. október 2006.

Skuldarinn, Guðmumdur Karvel Pálsson, [...], Hlíðarvegi 12, Suðureyri, Ísafjarðarbæ, krefst þess að mál þetta verði endurupptekið.

Krafa lánardrottins, Blikkrásar ehf., [...], Óseyri 16, Akureyri, um gjaldþrotaskipti á búi skuldarans var tekin fyrir 20. september sl.  Útivist varð af hálfu skuldarans og var krafan tekin til úrskurðar.  Úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp 29. september sl.  Með bréfi sem barst dómnum 12. október sl. er krafist endurupptöku málsins og að úrskurðinum verði breytt á þann veg að hafnað verði kröfu um gjaldþrotaskipti.  Við fyrirtöku beiðninnar var þess krafist til vara að málið yrði endurupptekið og meðferð þess frestað um einn mánuð.

Af hálfu lánardrottins var þing ekki sótt við fyrirtöku endurupptökubeiðninnar.

Um heimild til endurupptöku er vísað til 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 og XXIII. kafla sömu laga.  Tekið er fram að skuldara hafi orðið kunnugt um úrskurðinn 6. október sl.

Skuldarinn kveðst byggja á því að bú hans hefði ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta hefði hann mætt við fyrirtökuna 20. september sl.  Hefði lánardrottinn þá fallist á að fresta málinu um mánuð, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991.  Hefur hann lagt fram afrit tölvupósts frá lögmanni lánardrottins, þar sem staðfest er að fallist hefði verið á ósk þessa efnis.  Þá kveðst skuldarinn byggja á því að hann hefði greitt kröfu lánardrottins og kveðst munu gera svo, verði málið endurupptekið.  Lýsir lögmaður hans því yfir að fyrirframgreiðslum til sín frá skuldaranum vegna máls sem hann rekur fyrir hans hönd verði ráðstafað til greiðslu kröfunnar.

Þá tekur skuldarinn fram að lögmæt forföll í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 hafi valdið því að hann sótti ekki þing 20. september sl.  Verði að skoða þá málsástæðu sjálfstætt.  Muni hann leggja fram gögn til stuðnings henni á síðari stigum.  Gögn þessa efnis hafa ekki verið lögð fram.

Í lögum nr. 21/1991 er ekki að finna heimildir um endurupptöku máls eftir að úrskurður um gjaldþrotaskipti hefur gengið.  Litið hefur verið svo á að heimilt sé, ef útivist hefur orðið, að leita endurupptöku samkvæmt reglum laga nr. 91/1991, sbr. Hrd. 1992:2028 og síðari dóma sama efnis.  Þó verður einnig að líta til þess að reglum 137. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki beitt sjálfkrafa um endurupptöku meðferðar máls um gjaldþrotaskiptabeiðni, sbr. dóm Hæstaréttar 16. ágúst sl. í máli nr. 339/2006.

Að því gefnu samkvæmt framansögðu að ekki beri fortakslaust að synja um endurupptöku máls sem þessa, verður með tilliti til forsendna síðastgreinds dóms að líta svo á að miða beri við að niðurstaða máls hefði getað orðið önnur ef sótt hefði verið þing af hálfu skuldarans.  Það að lánardrottinn hefði í því tilviki samþykkt að meðferð kröfunnar yrði frestað um einn mánuð nægir ekki í því sambandi, en líta verður svo á að mál verði ekki endur­upptekið að úrskurði gengnum í því skyni einu að fresta meðferð þess, þótt að­ilar séu sammála um það.

Hins vegar verður að líta til þess að samkvæmt 2. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 verður bú skuldara ekki tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu lánardrottins bjóði þriðji maður fram greiðslu á kröfu hans.  Hefði getað reynt á þetta við fyrirtöku málsins og niður­staða þess hugsanlega orðið önnur, hefði skuldarinn þá sótt þing og komið á fram­færi yfirlýsingu lögmanns síns þess efnis að fyrrgreindum fyrirfram­greiðsl­­­­um yrði ráðstafað til greiðslu kröfu lánardrottins. 

Með þetta í huga þykir ekki verða synjað um endurupptöku málsins.  Verður því fallist á beiðni skuldarans um hana.  Hins vegar eru ekki skilyrði til þess að svo komnu máli að hafna beiðni lánardrottins um gjaldþrotaskipti á búi skuldarans.  Verður að reyna á það við næstu fyrirtöku málsins hvort nefnt skilyrði 2. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 girðir fyrir að krafa lánardrottins verði tekin til greina.  Þá eru ekki skilyrði til að fresta meðferð málsins svo lengi sem varakrafa skuldarans hljóðar um.  Verður boðað til fyrirtöku þess svo fljótt sem hægt þykir.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

Úrskurðarorð:

Mál þetta er endurupptekið.