Hæstiréttur íslands

Mál nr. 647/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Haldlagning


                                     

Fimmtudaginn 1. október 2015.

Nr. 647/2015.

Sérstakur saksóknari

(Finnur Þór Vilhjálmsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Gunnar Egill Egilsson hdl.)

Kærumál. Haldlagning.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að aflétta haldi á fjármunum á nánar tilgreindum bankareikningum. Var í dómi Hæstaréttar vísað til þess að rannsókn málsins væri umfangsmikil í ljósi fjölda sakborninga sem og fjölda þeirra gagna sem nauðsynlegt hefði verið að afla. Ekki var talið að sá tími sem ákærandi hefði haft til meðferðar málsins væri óhæfilega langur þannig að í bága færi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sóknaraðila um að leggja hald á fjármuni á nánar tilgreindum bankareikningum varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að haldi umræddra bankareikninga verði aflétt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnað á báðum dómstigum.

Við úrlausn á því hvort rannsókn máls hafi dregist verður að líta til umfangs hennar með tilliti til sakarefnisins. Verður fallist á með sóknaraðila að málið sé umfangsmikið í ljósi fjölda sakborninga sem og fjölda þeirra gagna sem nauðsynlegt hefur verið að afla, meðal annars erlendis frá, til að varpa ljósi á ætluð brot. Rannsókn málsins lauk í febrúar 2015 og voru rannsóknargögn við svo búið send ákæranda, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008. Verður ekki talið að sá tími, sem ákærandi hefur haft til meðferðar málsins sé óhæfilega langur, þannig að í bága fari við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærendum að hraða meðferð máls eftir því sem kostur er. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2015.

                Héraðsdómi Reykjavíkur barst 25. ágúst sl. sú krafa X að aflétt verði þeirri ákvörðun sérstaks saksóknara, 10. júlí 2013, að leggja hald á fjár­muni á banka­reikn­ingum félagsins nr. [...], [...], [...] og [...], sbr. 1. mgr. 68. gr. og 69. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

                Félagið krefst einnig málskostnaðar.

                Embætti sérstaks saksóknara krefst þess að báðum kröfum félagsins verði hafnað.

                Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi 11. september sl.

Málsatvik

                Það eru tildrög þeirrar ákvörðunar embættis sérstaks saksóknara sem hér er deilt um að embættinu barst, 27. júní 2013, kæra [...] á hendur [...], eiganda félagsins X, fyrir fjársvik. Tveimur vikum síðar, 10. júlí, ákvað embættið að leggja hald á fjármuni á bankareikningum félagsins hjá [...]banka, með vísan til 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr. laga nr. 88/2008, og til­kynnti bankanum þá ákvörðun sama dag.

                Skömmu síðar, 13. júlí 2013, barst embættinu kæra Seðla­banka Íslands á hendur þremur mönnum: [...], [...] og [...], vegna meintra brota gegn lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992. Embætt­inu barst 8. október 2013 við­bót­ar­kæra Seðla­bank­ans á hendur sömu aðilum fyrir fjár­svik.

                Samkvæmt fram lögðum gögnum beinist rannsókn embættisins að:

  1. meintum fjársvikum eða fjárdrætti kærða [...], með því að hafa á tímabilinu frá maí 2010 til september 2011, vakið og styrkt þá röngu hug­mynd hjá [...], [...] og [...], að [...] ræki hlutdeildarsjóð í Bandaríkjunum undir merkinu „X“, sem hafi orðið til þess að þau lögðu, í gegnum félög sín, samtals 30.000.000 króna til fjár­festingar í sjóðnum, með millifærslu á X,
  2. meintum fjársvikum kærðu [...] og [...], með því að hafa vakið og hag­nýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna Seðlabanka Íslands að X Capital uppfyllti skilyrði þess að mega taka þátt í fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­bank­ans og fengið að taka þátt í henni á grundvelli þeirra upplýsinga, og
  3. meintu peningaþvætti kærða [...] í tengslum við framangreint, fyrri hluta árs 2013, en brotaandlagið sé talið nema 87.718.000 krónum.

                Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að þrír sakborningar hafi sætt gæslu­varð­haldi við upphaf rannsóknarinnar. Þeir hafi verið yfirheyrðir dagana 10. til 13. júlí 2013, þar af hafi fjórar skýrslur verið teknar af kærða [...]. Húsleit hafi einnig farið fram á heimilum sakborninga og starfsstöðvum.

                Alls hafi sjö verið yfirheyrðir sem sakborningar á rannsóknartímanum, síðast [...] 13. janúar sl. Teknar hafi verið skýrslur af 18 vitnum á tíma­bil­inu frá 11. júlí 2013 til 6. janúar 2015. Með réttarbeiðni til bandarískra dóms­mála­yfir­valda 19. nóvember 2013 hafi embættið óskað eftir upplýsingum um X og banka­gögnum um X Group og X Capital, en þau gögn hafi borist 11. júní 2014. Með réttarbeiðni til lettneskra yfirvalda 19. nóvember 2013 hafi embættið óskað eftir banka­gögnum og öðrum upplýsingum um enn annað félag, [...], sem hafi borist 6. febrúar 2014. Embættið hafi lokið rannsókn meintra brota í lok febrúar sl. Unnið sé að ákvörðun um saksókn. 

                X krafðist afléttingar haldlagningarinnar [...]. júlí 2013 í Héraðsdómi Reykja­ness sem hafnaði þeirri kröfu með úrskurði [...]. ágúst 2013.

                X lagði [...]. júní sl. fram í Héraðsdómi Reykjavíkur kröfu um aflétt­ingu hald­lagn­ingar. Dómurinn hafnaði kröfunni, með úrskurði [...]. júní sl. Í forsendum sínum vísaði dómurinn til þess að svo virtist sem unnið hefði verið stöðugt í málinu og að ekki væru óútskýrðar eyður í rannsókninni.

Málsástæður og lagarök X

                Til stuðnings kröfu sinni vísar félagið X til þess að í fyrir­mælum ríkis­saksóknara, nr. 5/2009, segi að ákær­endur skuli taka ákvörðun um sak­sókn innan 30 daga frá því að mál berist embætti ríkissaksóknara. Þetta mál virðist hafa legið mán­uðum saman á borði ákærenda án þess að ákvörðun hafi verið tekin um saksókn. Svo óheyri­legur dráttur verði vart skýrður með því að málið sé umfangs­mikið, enda hafi vinna rannsakenda staðið í meira en eitt og hálft ár. Ekki verði séð að ákær­endur þurfi einnig að ráðast í sjálf­stæða rann­sókn máls­atvika.

                Í ljósi þess að ekkert virðist hafa þokast í málinu frá því að úrskurður Héraðs­dóms Reykjavíkur var kveðinn upp 11. júní sl. telji félagið að aflétta beri hald­lagn­ingu fjár­mun­anna án tafar.

                Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar beri öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfi­legs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í 1. mgr. 6. gr. mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sé hliðstætt ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 beri þeim sem rannsaki sakamál að hraða málsmeðferð eftir því sem kostur sé. Þeim sem sé borinn sökum sé því tryggður réttur til málsmeðferðar án óhæfi­legs dráttar á öllum stigum. Sérstök þörf sé á að hraða málsmeðferð þegar sak­born­ingur sæti þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarki frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum. Sérstaklega sé tekið fram í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 að þeir sem rannsaki sakamál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt sé eftir því sem á standi. Þetta eigi jafnt við um félög og menn, eðli máls­ins samkvæmt.

                Enda þótt ekki komi fram berum orðum í ákvæðum 68. og 69. gr. laga nr. 88/2008, að dráttur á rannsókn máls valdi því að haldlagning falli niður, leiði af fram­an­greindum ákvæðum stjórnarskrár og laga að hraða beri málsmeðferð svo og að þol­andi hald­lagningar geti átt réttmæta kröfu á því að aflétt sé þeim hömlum sem kyrr­setn­ing leggi á stjórnarskrárvarinn rétt hans til forræðis eigna sinna, dragist rann­sókn úr hófi.

                Það hafi haft gríðarleg áhrif á félagið að allt laust fé þess hafi, í einu vetfangi, verið fjar­lægt af banka­reikn­ingum þess, fyrir um tveimur árum. Ómögulegt sé að meta það tjón sem það hafi valdið félaginu, svo ekki sé talað um þá veru­legu rekstr­ar­örðug­leika sem þessu fylgi óhjákvæmilega. Fáir aðilar þoli að allt laust fé sé hald­lagt í eins langan tíma og þessi haldlagning hafi staðið. Ef sakamálinu ljúki ekki á þann hátt að fjár­mun­irnir verði gerðir upptækir, sé hið beina og óbeina tjón, sem þegar hafi hlot­ist af hald­lagn­ing­unni svo mikið að það kunni að reynast veru­lega erfitt að gera félagið eins sett og hefðu fjármunirnir ekki verið hald­lagðir.

                Félagið telji drátt á rannsókn ætl­aðra brota slíkan að brjóti gegn fyrr­greindum ákvæðum stjórn­ar­skrár og laga. Telja verði hafið yfir vafa að unnt hefði verið að koma rannsókn málsins frá á mun skemmri tíma og borið að haga henni þannig. Þótt fjár­svelti embætt­is sérstaks saksóknara og upp­sagnir fjölda starfsmanna hafi haft veru­leg áhrif á afköst þess sam­ræm­ist það ekki mann­rétt­inda­sjón­ar­miðum að láta sak­born­inga og þolendur þvingunar­aðgerða líða fyrir það.

Málsástæður og lagarök embættis sérstaks saksóknara

                Embættið vísar til þess að niðurstöður rannsóknar málsins bendi til þess að félagið hafi verið hluti af neti félaga, innlendra og erlendra, sem hafi verið notuð við fram­kvæmd ætlaðra brota. Þau hafi nánar tiltekið verið notuð við flutning fjármuna, sem ætluð brot varði, milli landa og innan Íslands. Þeirra á meðal sé einnig bandaríska félagið X Cap­ital LLC sem lúti stjórn og sé beint og óbeint í eigu fyrir­svars­manns félags­ins og helsta sakbornings í málinu, [...].

                Fjármunir á þeim bankareikningum sem voru haldlagðir við rannsókn málsins séu taldir tengjast ætluðum brotum í málinu. Þeir séu taldir ólögmætur ávinningur af brotum gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál og/eða ólögmætur ávinningur vegna ætl­aðra fjár­svika eða fjárdráttar sakborninga, helst þá [...], gagnvart ein­stak­lingum sem muni hafa látið honum og félögum hans í hendur fjármuni til fjár­fest­ingar eða ávöxtunar í þeirri trú að starfsemi hans undir merkjum X LLC og tengdra félaga í Bandaríkjunum væri eða yrði þess eðlis.

                Eins og segi í ákvörðun embættisins 10. júlí 2013 hafi hald verið lagt á féð til trygg­ingar kröfum um upptöku fjármunanna ef meðferð máls­ins lyki með höfðun saka­máls á hendur sakborningum í málinu og fyrir­svars­mönnum félagsins þar sem gerð yrði upptökukrafa, sbr. 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 í lokin (in fine). Þrír þeirra bankareikninga félagsins sem hald­lagn­ingin taki til séu gjald­eyris­reikn­ingar sem hafi reynst nánast tómir. Innstæða á einum bankareikningi félags­ins, nr. [...], hafi hins vegar numið [...] íslenskum krónum. Eins og vaninn sé við hald­lagn­ingu fjár­muna hafi verið stofn­aðir sérstakir reikningar í nafni embætt­isins til vörslu fjár­mun­anna.

                Lagðar hafi verið fram tvær bótakröfur á hendur [...] á grund­velli XXVI. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Aðra þeirra hafi lagt fram sá sem upphaflega kærði [...] fyrir fjársvik og hratt þar með rannsókn máls­ins af stað. Bótakrafa hans nemi samtals 30.000.000 kr. Annar ætlaður brota­þoli hafi lagt fram hina bótakröfuna vegna ætlaðra fjársvika [...] en sá sé raunar einnig sak­borningur í málinu. Bótakrafa hans nemi samtals 40.756.000 krónum að höfuð­stóli auk vaxta og málskostnaðar.

                Fram lögð tímalína sýni að illa hafi gengið að fá fyrirsvarsmann félagsins og aðal­sak­borninginn í málinu, [...], til að koma til skýrslutöku. Það hafi hvorki hraðað framgangi rannsóknar, því að sakarefni upplýstust né ákvörðun um fram­hald málsins á saksóknarstigi, að hann hafi nýtt sér rétt sinn til að neita að tjá sig um sak­ar­efni í síðustu skýrslutöku af honum í janúar sl. [...] hafi í fleiri atriðum ekki verið samvinnufús við rannsókn málsins. Hann hafi til að mynda virt að vett­ugi þá áskorun embættisins að afhenda hreyfingar­yfir­lit erlendra banka­reikn­inga erlendra félaga sem hann stýri sem og lykilorð fartölvu sinnar sem var haldlögð við hús­leit lög­reglu á dvalarstað hans við upphaf rannsóknar máls­ins. Þessi fartölva hafi verið læst með öfl­ugu læsingar­for­riti sem aldrei hafi tekist að opna við rannsókn máls­ins.

                Rannsókn málsins hafi lokið í lok febrúar sl. og sé nú unnið að ákvörðun um sak­sókn. Þar sem málið sé afar umfangsmikið, sak­ar­efni margþætt og flókin og sak­born­ingar margir, liggi niðurstaða um saksókn ekki fyrir. Þeirri vinnu miði vel og muni ákvörðun um saksókn verða tekin á næstu vikum.

                Embættið mótmæli þeirri fullyrðingu félagsins að fram lögð rannsóknargögn sýni að embættið hafi á árinu 2013 þegar fengið öll þau gögn sem varði starfsemi félags­ins sem frekast væri unnt að afla og að þessi gögn hafi að mestu leyti verið í fórum embættis sérstaks saksóknara frá því í sept­ember 2013 og fyrr. Hið rétta sé að rann­sókn málsins hafi verið viðvarandi og umfangs­mikil allt til loka hennar í febrúar sl. og fjöl­margra mikilvægra gagna í málinu hafi verið aflað frá því í september 2013. Þar sem fyrirsvarsmaður félagsins hafi neitað að afhenda banka­reikn­ings­yfir­lit erlendra félaga undir hans stjórn, sem rannsókn bendi til að hafi verið við­riðin ætluð brot, hafi embættið orðið að senda réttarbeiðnir til útlanda til að afla þeirra gagna. Fram lögð gögn sýni rannsóknaraðgerðir embættisins á árunum 2014 og 2015, þar á meðal samskipti við erlend yfirvöld og gagnaöflun frá þeim sem og einkaaðilum.

                Vegna þeirra fullyrðinga félagsins að þving­un­ar­aðgerðin valdi því tjóni og veru­legum rekstrarörðugleikum tekur embættið fram að rannsóknin bendi eindregið til þess að félagið sé í reynd ekki annað en skúffufélag sem stundi ekki eig­in­legan rekstur eða lögmæta starfsemi og hafi á tímabili ætlaðra brota að minnsta kosti ekki gegnt öðru hlutverki en því að vera hlekkur í framkvæmd þeirra ætl­uðu brota sem málið varði. Í sömu átt bendi einnig gögn um ársreikningsskil félagsins og banka­reikn­ings­yfir­lit þess sem aflað hafi verið við rann­sókn máls­ins. Félagið hafi ekki skilað árs­reikn­ingi síðastliðin þrjú ár. Þar áður hafi árs­reikn­ingi 2011 verið hafnað. Hann hafi þó fengist frá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra við rann­sókn máls­ins. Félagið hafi ekki heldur skilað ársreikningum 2009 og 2010. Af árs­reikn­ingi félags­ins 2011, síðasta til­tæka ársreikningi þess, sé ljóst að félagið hafi ekki stundað neinn rekstur það ár né næstu þrjú ár á undan. Yfir­lit þeirra banka­reikn­inga félags­ins sem voru haldlagðir við rann­sókn máls­ins sýni ekki heldur að félagið hafi á tíma­bili ætl­aðra brota haft neinn eig­in­legan lög­mætan rekstur með höndum. Hreyf­ingar á banka­reikn­ingum félags­ins á þessum tíma virðist næstum allar annaðhvort vera greiðslur til sak­borninga persónu­lega eða færslur sem varði fram­kvæmd ætl­aðra brota í málinu.

                Í ljósi þessa hafni embættið staðhæfingum félags­ins um lögmætan rekstur þess, svo og rekstr­ar­örð­ug­leika og tjón á lögmætum hagsmunum sem þvingunar­aðgerðin hafi valdið því.

                Embættið mótmæli einnig þeirri staðhæfingu félagsins að ekkert virðist hafa þok­ast í mál­inu frá því úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp [...] júní. Vinna að ákvörðun um saksókn í málinu sé komin vel á veg þótt hún hafi eðlilega, vegna fyrrgreindra ástæðna, reynst nokkuð margslungin og tíma­frek­ari en í einfaldari málum. Embættið byggi á því að því fari fjarri að meðferð málsins á saksóknarstigi hafi farið yfir eðlileg tímamörk í ljósi umfangs málsins.

                Embættið vísar einnig til úrskurðar Héraðs­dóms Reykjavíkur [...]. júní sl. vegna kröfu félagsins um afléttingu haldlagningarinnar og forsendna úrskurðarins í því máli. Í forsendum sínum hafi dómurinn hafnað þeim sjónarmiðum félagsins að óeðli­legar tafir og eyður séu í rann­sókn málsins og tekið fram, með vísan til nánar til­greindra atriða, að hún hefði verið umfangs­mikil. Embættið ítrekar hér þessar máls­ástæður úr fyrri greinargerð sinni og forsendum úrskurð­ar­ins en telur raunar um leið að gera megi ráð fyrir að með þessum úrskurði héraðsdóms hafi málsástæðum félagsins, varð­andi rannsókn máls­ins sem slíka, verið hafnað og endurnýjuð krafa þess nú hljóti aðeins að geta byggst á síðari atvikum, þ.e. eftir að fyrrnefndur úrskurður var kveðinn upp.

                Vegna hinnar nýju kröfu félagsins fyrir dóm­inum færi embættið svofelldar máls­ástæður. Félagið byggi kröfu sína á því ákvæði fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 5/2009 að ákær­endur skuli taka ákvörðun um saksókn innan 30 daga eftir að mál berist embætti rík­is­sak­sókn­ara. Í fyrsta lagi komi tilvitnuð orð fram í nið­ur­lagi fyrir­mæl­anna og eigi sam­kvæmt berum orðum og sam­hengi við um störf ákærenda við embætti ríkis­sak­sókn­ara, þar sem þeir fari lögum sam­kvæmt með ákæruvald í hér­aði í til­teknum málum og málaflokkum og taki við rann­sökuðum málum frá lög­reglu­stjórum til að taka ákvörðun um saksókn, sbr. nú 3. mgr. ákvæðis VII. til bráðabirgða við lög nr. 88/2008.

                Hafa verði í huga að meðal verkefna ríkissaksóknara séu ekki efna­hags­brot enda fari embætti sérstaks saksóknara lögum sam­kvæmt með rannsókn og ákæruvald á því sviði í héraði, sbr. 1. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks sak­sókn­ara. Til­vísað ákvæði í fyrirmælum ríkissaksóknara eigi því ekki við um störf ákær­enda hjá sér­stökum saksóknara, þótt embættið miði að sjálf­sögðu að því að taka ákv­arð­anir um sak­sókn eins fljótt og auðið sé miðað við eðli og umfang hvers máls.

                Í öðru lagi bendir embættið á að í umræddum fyrirmælum ríkissaksóknara, sé sér­stök umfjöllun um efnahagsbrot, svohljóðandi:

Rannsókn efnahagsbrota er annars eðlis en rannsókn ofbeldisbrota en sönnun­ar­gögn liggja þar mun meira skriflega fyrir en í hinum fyrrnefndu mála­flokkum. Efnahagsbrot eru hins vegar iðulega umfangsmikil og flókin og rann­sókn þeirra getur teygt sig á milli landa. Því er almennt viðurkennt að þau geti tekið mun lengri tíma en önnur mál. Mikilvægast er hins vegar að unnið sé að rann­sókn þessara mála með eðlilegum hraða og að ekki myndist óútskýrðar eyður í rannsókninni.

                Þessu til viðbótar segi sérstaklega um efnahagsbrot í umræddum fyrir­mælum þar sem fram komi viðmið um tímalengd við rannsókn þeirra:

Í efnahagsbrotum skal markmiðið vera að hefja rannsókn allra mála sem fyrst og eigi síðar en sex mánuðum eftir að kæra barst.

Rannsókn skal lokið innan tveggja ára nema sérstakar ástæður komi í veg fyrir það sem er að mál telst mjög umfangsmikið eða þegar afla þarf gagna erlendis frá. Í þeim til­vikum skal þess þó gætt að unnið sé stöðugt að málinu. […]

                Embættið bendi á að því hafi borist fyrsta kæra í þessu máli 24. júní 2013 og þá þegar hafi rann­sókn hafist. Rannsókn hafi lokið 20. febrúar sl. eða vel innan tveggja ára viðmiðsins, enda þótt málið væri mjög umfangs­mikið svo sem áður sé lýst. Ákvörðun um sak­sókn í umfangsmiklu efna­hags­brota­máli hljóti einnig að taka nokkurn tíma, eins og almennt sé viðurkennt um rann­sókn slíkra mála. Það hafi ekki verið fyrr en í sumar að öll með­ferð máls­ins hjá embætt­inu hafi farið yfir það tveggja ára tímamark sem einungis rann­sókninni sé almennt sett sam­kvæmt til­vitn­uðum fyrir­mælum ríkis­saksóknara. Þá hafi ekki verið litið til þeirra rýmri tímamarka sem umfangs­miklum og flóknum málum sem kalli á gagna­öflun erlendis frá séu ætluð sam­kvæmt sömu fyrir­mælum.

                Embættið byggi á því að sá tími sem sé liðinn frá því að rannsókn málsins lauk og málið færðist á saksóknarstig verði ekki talinn óeðlilega langur í ljósi umfangs máls­ins, hvað þá svo langur að til greina geti komið að fella úr gildi hald sem lagt var á þá fjár­muni sem málið varði. Að mati embættisins geti 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, engan veginn leitt til þess að talið verði að með­ferð lög­reglu og ákæru­valds á málinu hafi dregist óeðli­lega og úr hófi.

                Embættið ítrekar einnig það sem áður kom fram að félagið hafi í reynd hvorki á tímabili ætlaðra brota né síðar haft með höndum neinn lögmætan rekstur eða starf­semi sem geti lagt grunn að lög­vörðum hags­munum þess af því að fá haldi aflétt. Í því sam­hengi hafi loks afgerandi þýð­ingu að mati embættisins að rannsókn málsins bendi til þess að haldlagðir fjár­munir séu ólög­mætur ávinningur af ætluðum brotum og jafn­framt það að við með­ferð málsins hjá embættinu hafi komið fram tvær bótakröfur frá ætl­uðum brota­þolum sem saman­lagt nemi um það bil hinni haldlögðu fjárhæð. Óháð rétt­mæti bóta­krafn­anna, sem engin afstaða sé tekin til nú, liggi fyrir, eftir rann­sókn máls­ins, að bóta­krefj­endur báðir eða fólk sem þeir leiði rétt sinn frá hafi lagt [...] til veru­lega fjár­muni, að sögn á þeim forsendum sem lýst er í kæru [...] og bóta­kröfum hans og [...]. Þeir fjármunir hafi þrátt fyrir inn­heimtu­til­raunir aldrei verið endur­heimtir.

                Að mati embættisins bendi niðurstöður rannsóknar málsins og fyrrnefnd gögn til þess að félagið eða fyrirsvarsmaður þess eigi í reynd ekkert lögmætt tilkall til þess­ara fjár­muna. Fari svo að gefin verði út ákæra og einkaréttarkröfurnar teknar upp í hana muni eftir atvikum verða skorið úr um hugsan­lega upp­töku­kröfu. Hagsmunir sem teng­ist hugsanlegri upptöku hinna haldlögðu fjármuna með dómi í saka­máli, sbr. ákvæði VII. kafla A almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og eftir atvikum end­ur­heimtum ætlaðra brotaþola á sömu fjármunum séu þannig einir og sér sjálfstæð og rík ástæða til að hafna kröfu félagsins um afléttingu haldlagningar. Niðurstöður rann­sóknar bendi til þess að refsivörsluhagsmunir til tryggingar hugsanlegri upptöku, sbr. 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008, séu ríkir í málinu og síst minni nú þegar rann­sókn sé lokið og ákvörðunar um saksókn að vænta innan skamms heldur en þegar hald var lagt á féð í upphafi rannsóknarinnar.

                Með vísan til alls framangreinds ítrekar embættið þá kröfu að kröfum félags­ins um afléttingu haldlagningarinnar og um málskostnað verði hafnað.

Niðurstaða

                Embætti sérstaks saksóknara rannsakar nú ætluð brot félagsins X. Annars vegar ætlaðan fjárdrátt og/eða fjársvik sakborninga og hins vegar ætluð brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Rannsókn embættisins hefur einnig beinst að ætluðu pen­inga­þvætti og ætluðum bókhalds- og skattalagabrotum.

                Vegna kæru sem embættinu barst 27. júní 2013 ákvað það 10. júlí sama ár að leggja hald á fjármuni á bankareikningum félagsins hjá [...]banka, með vísan til 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr. laga nr. 88/2008.

                Félagið hefur í tvígang reynt að fá dómstól til að fella þá ákvörðun úr gildi en án árangurs. Í síðara sinnið byggði félagið einkum á því að rannsókn málsins hefði tafist fram úr hófi. Héraðsdómur féllst ekki á það og taldi fram lögð gögn sýna að unnið hefði verið í málinu stöðugt frá upphafi og að ekki væru óútskýrðar eyður í rann­sókn málsins.

                Með beiðni sem barst dóminum 25. ágúst sl. reynir félagið í þriðja sinn að fá hald­lagningunni aflétt. Fyrst með þeim rökum að rannsóknin hefði dregist úr hófi en einnig með vísan til þess að ákærendur hafi einungis 30 daga til þess að taka ákvörðun um saksókn frá því að þeim berst mál.

                Með vísan til fram lagðra gagna fellst dómurinn á það að rannsókn málsins hafi ekki dregist úr hófi og sú málsástæða geti ekki leitt til þess að ákvörðun embættis sérstaks saksóknara um hald á fjármunum félagsins í vörslum [...]banka verði felld úr gildi.

                Til stuðnings síðari málsástæðu sinni vísar félagið til fyrirmæla Ríkis­sak­sókn­ara nr. 5/2009 um hámarkstíma meðferðar líkamsárásarmála, nauðgunarmála og efna­hags­brota hjá lögreglu og ákærendum.

                Samkvæmt berum orðum sínum eiga þessi fyrirmæli ekki við um rannsakendur og ákær­endur hjá embætti sérstaks saksóknara. Þó má fallast á það að hafa megi þessi við­mið um málshraða til hliðsjónar þegar mat er lagt á málshraða hjá sérstökum sak­sókn­ara. Jafnframt ber að horfa til reglu 1. mgr. 70. gr. stjórn­ar­skrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, svo og þeirrar reglu 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 að ákærendum beri að hraða með­ferð máls eftir því sem kostur er.

                Í fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 5/2009 er áréttað að rannsókn efna­hags­brota geti verið talsvert tímafrekari en rannsókn líkamsárásar- og kyn­ferðis­brota­mála. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að endurspeglast að einhverju leiti í ákvörðun um saksókn vegna efnahagsbrota og verður að játa því að fyllilega geti verið réttmætt að hún taki lengri tíma en 30 daga.

                Dæmin sýna að málavextir efnahagsbrota geta verið afar flóknir. Rannsókn þessa máls hefur verið mjög umfangsmikil. Við hana hefur safnast mikill fjöldi skjala en rannsóknargögn munu nú fylla 13 skjalamöppur. Sjö ein­stak­lingar hafa verið yfir­heyrðir sem sakborningar í málinu, þar af fimm ítrekað. Auk þess hafa verið teknar skýrslur af 18 vitnum. Því verður að fallast á að málið sé nokkuð umfangsmikið.

                Þegar litið er til þessa svo og þess að meginreglan um málshraða má aldrei verða til þess að vinnubrögð verði óvandaðri en ella þykir dóminum sá tími sem hefur liðið frá því að rannsókn máls­ins lauk ekki enn svo langur að varði því að fella skuli ákvörðun embætt­is­ins 10. júlí 2013 úr gildi með vísan til þeirra laga­ákvæða um máls­hraða sem tilgreind hafa verið en embættið fullyrðir að ákvörðun um sak­sókn verði tekin innan fárra vikna.

                Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er þeirri kröfu X að felld verði úr gildi sú ákvörðun sér­staks saksóknara, 10. júlí 2013, að leggja hald á fjár­muni á banka­reikn­ingum félagsins nr. [...], [...], [...] og [...].

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.