Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. júní 2006.

Nr. 341/2006.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jóns Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. júlí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Allmargir þeirra sem hafa verið yfirheyrðir vegna málsins hafa borið að þeir hafi látið varnaraðila í té upplýsingar um bankareikninga sína og að hann hafi beðið þá um að taka við greiðslum og láta honum þær síðan í té er greitt hafði verið inn á reikningana. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2006.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 10 daga eða til föstudagsins 7. júlí n.k. klukkan 16.00. 

Kærði mótmælir kröfunni, en krefst þess til vara að varðhaldinu verði markaður skemmri tími. 

Móðir kærða var í gærdag úrskurðuð til að sæta gæsluvarðhaldi vegna gruns um fjárdrátt eða fjársvik gagnvart Tryggingastofnun ríkisins.  Er hún undir grun um að hafa náð með óréttmætum hætti allt að 75 milljónum króna frá stofnuninni frá árinu 2002. 

Kærði X er talinn hafa látið í té bankareikning sinn og að móðir hans hafi látið millifæra frá stofnuninni umtalsverðar fjárhæðir.  Sumpart hafi hún fengið féð til baka frá kærða, sumpart hafi hann nýtt sér það sjálfur. 

Kærði er undir rökstuddum grun um aðild að fjársvikum eða fjárdrætti, hugsanlega hylmingu.  Brot hafa verið framin á löngum tíma og eru umtalsverðir fjármunir taldir hafa verið sviknir af stofnuninni.   Nauðsynlegt er að hindra að kærði geti haft áhrif á aðra sem málinu kunna að tengjast, en rannsókn er á frumstigi.  Verður honum gert, samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að sæta gæsluvarhaldi.  Er varðhaldinu markaður hæfilegur tími í samræmi við kröfugerð lögreglu. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. júlí n.k. klukkan 16.00.