Hæstiréttur íslands

Mál nr. 444/2002


Lykilorð

  • Eignarnám
  • Skipulag
  • Stjórnsýsla
  • Sveitarstjórn
  • Lóðarleigusamningur


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. mars 2003.

Nr. 444/2002.

Einar Pálmason

Erlingur Lúðvíksson

Jakobína Ingadóttir

Stella Berglind Hálfdánardóttir

Viðar Guðmundsson og

Þórsbakarí ehf.

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

Kópavogsbæ

(Þórður Clausen Þórðarson hrl.)

og

Óðni Gunnsteini Gunnarssyni

Járnsmiðju Óðins ehf.

Lakksmiðjunni ehf.

Kristjáni S. Ólafssyni

Blikksmiðju Einars ehf.

Global ehf.

Bessa hf. og

Hagbarða ehf.

 

 Eignarnám. Skipulag. Stjórnsýsla. Sveitarstjórn. Lóðarleigusamningur.

Krafist var viðurkenningar á því að ákvörðun K um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 4 b-e við Smiðjuveg í Kópavogi væri ógild og að ákvörðun K um eignarnám á hluta af sameiginlegum leigulóðarréttindum fasteignanna á umræddri lóð og öll eftirfarandi málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og úrskurður nefndarinnar í matsmálinu væru ógild. Þá var þess krafist að K yrði gert skylt að afmá af malbiki lóðarinnar málningu sem auðkennir götu á svæði sem taka skyldi eignarnámi. Tekið var fram að ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um breytingu á deiliskipulagi hefði verið nægjanlega gætt en ekki væri efni til annars en að líta svo á að lögmæt og málefnaleg sjónarmið hefðu ráðið því að breytingin var gerð. Við þessar aðstæður og að fenginni jákvæðri umsögn Skipulagsstofnunar var K heimilt samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 32. gr. fyrrnefndra laga að taka eignarnámi þann lóðarhluta sem stóð nýrri lóðaskiptingu í vegi, enda hafði áður verið leitast við að ná samningum við eigendur þeirra réttinda sem eignarnámið beindist að, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í ákvæðinu væru engin þau skilyrði sett fyrir eignarnámi sem beinlínis væru háð mati sveitarstjórnar og þar með endurskoðunarvaldi dómstóla en ekki hafði verið sýnt fram á að gallar hefðu verið á málsmeðferð bæjarstjórnar K um eignarnámið. Var því hvorki fallist á kröfu um viðurkenningu á ógildi hennar né þá kröfu að K yrði gert að afmá fyrrnefndar merkingar. Þá væri ekkert komið fram sem leitt gæti til þess að ógilda bæri eftirfarandi málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og úrskurð nefndarinnar. Voru K o.fl. því sýknuð af kröfum E o.fl.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 23. september 2002. Þeir gera eftirtaldar dómkröfur gegn stefnda Kópavogsbæ:

1.             Að viðurkennt verði með dómi, að ákvörðun stefnda Kópavogsbæjar, um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 4 b-e við Smiðjuveg í Kópavogi þar sem vesturmörk lóðarinnar færðust sjö metra til austurs, sem tekin var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 22. febrúar 2000, sé ógild,

2.             að viðurkennt verði með dómi, að ákvörðun stefnda Kópavogsbæjar, um eignarnám á 569 fermetrum af sameiginlegum leigulóðarréttindum fasteignanna nr. 4 b-e við Smiðjuveg, sem tekin var á fundi bæjarstjórnar 9. janúar 2001 og öll eftirfarandi málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og úrskurður nefndarinnar frá 2. apríl 2001 í matsmálinu nr. 1/2001 séu ógild,

3.             að stefnda Kópavogsbæ verði gert skylt að afmá af malbiki lóðar eignarinnar nr. 4 b-e við Smiðjuveg málningu, sem auðkennir götu á svæði, sem taka skyldi eignarnámi.

Áfrýjendur gera þá kröfu gegn öðrum stefndu í málinu, að þeim verði gert að þola dóm um framangreindar dómkröfur gegn stefnda Kópavogsbæ. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar úr hendi stefnda Kópavogsbæjar í héraði og fyrir Hæstarétti. Þeir krefjast ekki málskostnaðar úr hendi annarra stefndu, en krefjast sýknu af hugsanlegum málskostnaðarkröfum þeirra sem og málskostnaðarkröfu stefnda Kópavogsbæjar.

Stefndi Kópavogsbær krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti in solidum úr hendi áfrýjenda. Aðrir stefndu hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Áfrýjendur greiði in solidum stefnda Kópavogsbæ málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir, en málskostnaður gagnvart öðrum stefndu dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Einar Pálmason, Erlingur Lúðvíksson, Jakobína Ingadóttir, Stella Berglind Hálfdánardóttir, Viðar Guðmundsson og Þórsbakarí ehf., greiði in solidum stefnda Kópavogsbæ 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2002.

   Mál þetta, sem dómtekið var 29. f.m., er höfðað 21., 26., 27. og 28. febrúar og 2. mars 2002.

   Stefnendur eru Einar Pálmason, Sóltúni 5, Reykjanesbæ, Erlingur Lúðvíksson og Jakobína Ingadóttir,  Hrauntungu 103, Kópavogi, Stella Berglind Hálfdánardóttir og Viðar Guðmundsson, Brúnalandi 15, Reykjavík, og Þórsbakarí ehf., Borgarholtsbraut 19, Kópavogi.

   Stefndu er Kópavogsbær, Lakksmiðjan ehf., Smiðjuvegi 4c, Kópavogi, Kristján S. Ólafsson, Hléskógum 19, Reykjavík, Blikksmiðja Einars ehf., Smiðjuvegi 4b, Kópavogi, Óðinn Gunnsteinn Gunnarsson, Fögruhæð 5, Garðabæ, Járnsmiðja Óðins ehf., Smiðjuvegi 4b, Kópavogi, Global hf., Einholti 6, Reykjavík, Bessi hf., Sóleyjargötu 8, Vestmannaeyjum og Hagbarði ehf., Kringlunni 7, Reykjavík. 

   Í málinu gera stefnendur eftirfarandi kröfur á hendur stefnda Kópavogsbæ:

1.        Að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun Kópavogsbæjar um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 4b-4e við Smiðjuvegi í Kópavogi, sem tekin var á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2000 og fólst í því að vesturmörk lóðarinnar færðust sjö metra til austurs, sé ógild.

2.        Að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun Kópavogsbæjar um eignarnám á 569 fermetrum af sameiginlegum leigulóðarréttindum fasteignanna nr. 4b, c, d og e við Smiðjuveg í Kópavogi, sem tekin var á fundi bæjarstjórnar 9. janúar 2001, sé ógild.

3.        Að viðurkennt verði með dómi að öll málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta í málinu nr. 1/2001 sé ógild, svo og að úrskurður nefndarinnar í málinu frá 2. apríl 2001 sé ógildur.

4.        Að stefnda verði gert skylt að afmá málningu af malbiki lóðar sem framangreint eignarnám tók til. 

Gegn öðrum stefndu gera stefnendur þá dómkröfu að þeim verði gert að þola að kröfur þeirra á hendur stefnda Kópavogsbæ samkvæmt framansögðu verði teknar til greina.

Loks krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda Kópavogsbæjar.

Stefndi Kópavogsbær krefst sýknu af kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndu Óðinn Gunnsteinn Gunnarsson og Járnsmiðja Óðins ehf. krefjast sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra.

Af hálfu stefndu Blikksmiðju Einars ehf. og Bessa hf. var sótt þing í málinu við þingfestingu þess 7. mars sl., en þá var málinu frestað til greinargerðar af hálfu stefndu. Þessir stefndu hafa ekki látið málið frekar til sín taka.

Af hálfu annarra stefndu hefur þing ekki verið sótt.

I.

   Frá 9. september 1986 til 14. ágúst 1989 gerði Kópavogsbær samninga um leigu á lóðunum nr. 4b, c, d og e við Smiðjuveg þar í bæ undir atvinnuhúsnæði. Voru lóðirnar leigðar til 50 ára. Í samningunum var ákvæði þess efnis að auk sérlóðar hefðu húsin nr. 4b, c, d og e sameiginlega lóð vestan við þau með gagnkvæmum umferðarrétti. Í samningum frá 9. september 1986 og 31. júlí 1989 er þessi sameiginlega lóð sögð vera 1009 m². Fylgdi hverju húsi fjórðungshlutur í henni. Þannig er í samningi um leigu á lóðinni nr. 4c tekið fram að stærð hennar sé 1099 m² sem greinist í 847 m² sérlóð og 252 m² lóð sem sé hluti hússins af hinni sameiginlegu lóð.

   Leigulóðir fasteignanna nr. 2 og 4 við Smiðjuveg lágu saman þar til eignarnám það, sem mál þetta snýst meðal annars um, kom til. Lá hin sameiginlega lóð sem tilheyrði Smiðjuvegi 4 að austurmörkum leigulóðar Smiðjuvegar 2. Í stefnu er því lýst að árið 1998 hafi eigendur fasteignarinnar nr. 2 við Smiðjuveg farið þess á leit við Kópavogsbæ að mörkum lóðanna yrði breytt. Hafi ástæða þess verið sú að til ágreinings hafi komið á milli hluta eigenda Smiðjuvegar 4 og hluta eigenda Smiðjuvegar 2 um nýtingu lóðanna. Eigendur atvinnuhúsnæðis sem reist var að Smiðjuvegi 2 hafi á þessum tíma ráðið yfir mjög takmörkuðu athafnasvæði austan við húsið, eða 5 metra lóðarræmu. Húsið hafi upphaflega verið í eigu eins aðila, en síðar hafi því verið skipt upp og fleiri eigendur komið til. Aðkomu að húsinu hafi þá verið breytt frá því sem áður var og henni beint að austurhlið þess. Þar sem lóðamörk hafi verið skýr og til að koma í veg fyrir að hin sameiginlega lóð yrði nýtt í þágu Smiðjuvegar 2 hafi eigendur Smiðjuvegar 4 í verki og með samkomulagi sín á milli tekið hina sameiginlegu lóð undir bílastæði og geymslusvæði. Aðkoma að fyrirtækjum við Smiðjuveg 4b, c, d og e hafi vegna þessa færst til austurs og inn á sérgreinda lóðarhluta þeirra.

   Vegna þeirrar aðstöðu sem að framan er lýst og að undangengnum tilraunum til að leysa málið með samkomulagi, en samskiptum aðila er lýst í stefnu og greinargerð stefnda Kópavogsbæjar, samþykkti bæjarstjórn Kópavogs á fundi sínum 22. febrúar 2000 að breyta deiliskipulagi á svæðinu. Fólst breytingin í því að vesturmörk hinnar sameiginlegu lóðar Smiðjuvegar 4b, c, d og e breyttust þannig að þau færðust 7 metra í austur, það er nær húsunum. Í auglýsingu um breytinguna kemur fram að hún sé gerð til að rýma fyrir nýrri aðkomu frá Skemmuvegi. Óumdeilt er að með þessu nýja deiliskipulagi var hin sameiginlega lóð skert um 569 m². Í kjölfar þessa reyndi Kópavogsbær að ná samkomulagi við eigendur Smiðjuvegar 4 um bætur vegna þeirrar skerðingar á lóðarleiguréttindum þeirra sem hið nýja deiliskipulag hafði í för með sér. Þar sem samkomulag tókst ekki samþykkti bæjarstjórn Kópavogs á fundi sínum 9. janúar 2001, að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar, að taka þann hluta lóðarinnar sem hér um ræðir eignarnámi. Ákvörðun matsnefndar eignarnámsbóta um bætur til eigenda Smiðjuvegar 4b, c, d og e lá síðan fyrir 2. apríl 2001. Samkvæmt henni skal Kópavogsbær greiða samtals 4.200.000 krónur í eignarnámsbætur.

   Samkvæmt gögnum málsins er Smiðjuvegur 4e í eigu stefnanda Þórsbakarís ehf. og stefndu Lakksmiðjunnar ehf. og Kristjáns S. Ólafssonar og stefnandi Einar Pálmason er eigandi Smiðjuvegar 4c. Aðrir stefnendur eiga Smiðjuveg 4d ásamt Glitni hf., sem á hins vegar engan rétt til hinnar sameiginlegu lóðar. Fasteignin Smiðjuvegur 4b skiptist síðan í þrjá eignarhluta. Er stefndi Blikksmiðja Einars ehf. eigandi eins þeirra. Eigendur að hinum eignarhlutunum samkvæmt þinglýstum afsölum eru stefndi Bessi hf. annars vegar og stefndi Hagbarði ehf. hins vegar. Var eignarhlutur síðar nefnda félagsins í eigu stefnda Global hf. þá er atvik málsins gerðust. Þá liggur fyrir þinglýstur samningur frá 9. febrúar 2000 um kaup stefndu Járnsmiðju Óðins ehf. og Óðins Gunnsteins Gunnarssonar á eignarhlut Bessa hf., en afsal hafði ekki verið gefið út þegar málið var dómtekið.

Fyrir liggur að stefndu Járnsmiðja Óðins ehf., Óðinn Gunnsteinn Gunnarsson og Global hf. hafa móttekið eignarnámsbætur frá Kópavogsbæ. Stefnendur hafa hins vegar neitað því að veita eignarnámsbótum viðtöku. Hafa þeir höfðað mál þetta í því skyni að fá þær ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs sem hér að framan er gerð grein fyrir ógiltar. Þá krefjast þeir einnig ógildingar á framangreindum úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta.

II.

   Í stefnu er lýst í samræmi við framlögð gögn undanfara þess að stefndi Kópavogsbær tók eignarnámi hluta hinnar sameiginlegu leigulóðar sem þá tilheyrði fasteignum við Smiðjuveg 4. Þannig hafi eigendum eignarinnar með bréfi 28. maí 1998 verið kynnt tillaga bæjarskipulags að breyttum lóðamörkum Smiðjuvegar 2 og 4. Kemur fram í bréfinu að 24. apríl sama árs hafi verið lagt fyrir bæjarráð erindi þessa efnis frá eiganda fasteignarinnar nr. 2 við Smiðjuveg. Hafi bæjarráð tekið jákvætt í erindið og vísað því til umsagnar skipulagsnefndar. Nefndin hafi tekið málið fyrir á fundi og ákveðið að kynna það fyrir hlutaðeigandi. Þessu næst er í bréfinu gerð grein fyrir tillögu bæjarskipulags að breyttum lóðamörkum. Um hana segir svo í bréfinu: „Í henni felst að lóð Smiðjuvegar 2 er stækkuð um 3 m til austurs og séreignalóðir Smiðjuvegar 4b, 4c, 4d og 4e eru stækkaðar 3 m í vestur. Sameiginleg lóð fyrir 4b, 4c, 4d og 4e, með kvöð um gagnkvæman umferðarrétt, er felld út og gerð að húsagötu í eigu bæjarins. Hvað þetta varðar er vísað til 12. gr. lóðarleigusamninga fyrir Smiðjuveg 4b, 4c, 4d og 4e en þar segir: „Hvenær sem bæjarstjórn telur sér þörf á að taka lóðina í sínar hendur að nokkru eða öllu leyti er leigutaka skylt að láta leigurétt sinn og lóðina af hendi. Fyrir byggingar og önnur mannvirki á lóðinni skal bæjarsjóður þá greiða leigutaka eftir mati, nema öðruvísi semjist. Fyrir leiguréttinn greiðist ekkert leigugjald. [...]” Þessari tillögu var mótmælt af eigendum Smiðjuvegar 4b og 4c, enda væri ekki lögmætt að gera breytingu á lóðamörkum án samþykkis lóðahafa þar sem sveitarfélagið hefði ekki hagsmuni af henni, hún væri ekki nauðsynleg vegna almannahagsmuna og um væri að ræða óbein eignarréttindi sem varin væru af ákvæðum stjórnarskrár. Voru í framhaldi af þessu haldnir fundir að tilhlutan Kópavogsbæjar þar sem bærinn reyndi að ná samkomulagi í málinu sem miðaði að því að eigendur Smiðjuvegar 4 sættu sig við ákveðna skerðingu á lóðarréttindum sínum. Þeir báru ekki árangur. Hafði bærinn þá sett fram nýja tillögu sem fól það í sér að felld var niður hugmynd um götu og út frá því gengið að lóðarmörk Smiðjuvegar 2 yrðu á kostnað hinnar sameiginlegu lóðar að Smiðjuvegi 4 færð 5 metra til austurs. Þar sem ekki náðist samkomulag um breytt lóðamörk lagði bæjarverkfræðingur það til við bæjarráð í bréfi 19. janúar 1999 að fallið yrði frá áformum um breytingu á lóðamörkum. Samþykkti bæjarráð þá tillögu á fundi sínum 21. sama mánaðar, enda hefðu ítrekaðar sáttaumleitanir bæjarins engan árangur borið. Munu í framhaldi af þessu hafa átt sér stað þreifingar af hálfu eigenda Smiðjuvegar 2 um kaup á afnotarétti þeirra að 7 metra breiðri götu við lóðamörk til aðgengis að húsum þeirra. Þeirri málaleitan mun þegar hafa verið hafnað.

   Málið kom að nýju til umfjöllunar í bæjarráði Kópavogsbæjar 9. september 1999. Var þá lagt fram bréf frá bæjarlögmanni þar sem hann lagði til að haldið yrði til streitu framangreindri tillögu bæjarskipulags frá 28. maí 1998 um að gera þann hluta leigulóðanna að Smiðjuvegi 4, sem kvöð um gagnkvæman umferðarrétt tæki til, að húsagötu í eigu bæjarins. Segir í inngangi þessa bréfs bæjarlögmanns að bæjarráð hafi óskað eftir því að hann legði fram tillögu að lausn málsins. Bæjarráð vísaði málinu til skipulagsnefndar. Með bréfi 14. október 1999 var stefnanda Einari tilkynnt að á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 26. sama mánaðar yrði til afgreiðslu svofelld tillaga bæjarskipulags: „Með vísan til 12. gr. lóðarleigusamninga Smiðjuvegar 4b frá 25. ágúst 1987, Smiðjuvegar 4c frá 24. ágúst 1987, Smiðjuvegar 4d frá 11. ágúst 1989 og Smiðjuvegar 4e frá 9. september 1986, er hér með lögð fram til kynningar tillaga bæjarskipulags að breyttu deiliskipulagi ofangreindra lóða. Í tillögunni felst að vesturmörk sameiginlegrar lóðar húsanna breytist þannig að þau færast 7 metra í austur þ.e. nær húsunum til að rýma fyrir nýrri aðkomu frá Smiðjuvegi.” Þessari ráðagerð mótmæltu stefnendur með bréfum sem þau sendu Kópavogsbæ 25. október 1999. Allt að einu var tillagan samþykkt á fundi bæjarstjórnar og skipulagsstjóra falið að auglýsa hana, sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Birtist auglýsing um tillögu að breyttu deiliskipulagi í Morgunblaðinu 18. nóvember 1999 og Lögbirtingablaðinu 24. sama mánaðar. Ritaði lögmaður stefnenda Kópavogsbæ bréf af því tilefni 17. desember 1999, og 10. janúar og 21. febrúar 2000, þar sem fyrri mótmæli voru áréttuð. Daginn eftir að síðast talda bréfið var ritað var tillaga að breyttu deiliskipulagi tekin til síðari umræðu í bæjarstjórn. Var tillagan samþykkt ásamt umsögn um fram komnar athugasemdir. Í umsögninni sagði meðal annars svo: „Notkun húsnæðis á athafnasvæðum tekur sífelldum breytingum. Fyrirtæki hverfa og ný koma í þeirra stað. Þarfir fyrirtækja eru jafnframt með misjöfnum hætti. Bæjaryfirvöld líta svo á að það sé m.a. hlutverk þeirra að sjá svo um að þau fyrirtæki sem starfrækt eru í bænum þrífist sem best. Núverandi fyrirkomulag á svæðinu geri það ekki og því er breytinga þörf. Fasteignin að Smiðjuvegi 2 var byggð utan um eitt fyrirtæki sem var síðar lagt niður og mörg stærri komu í staðinn. Með samþykkt bæjaryfirvalda var á sínum tíma opnað fyrir þann möguleika að nýta austurhluta hússins sem séreignir m.a. með því að heimilað var að setja þrennar aðkeyrsludyr á þá hlið hússins. Lóðamörk Smiðjuvegar 2 til austurs hafa verið óbreytt í 5 metra fjarlægð frá húsvegg. Aðgengi að fyrrnefndum aðkeyrsludyrum er því takmarkað. Lóðamörk Smiðjuvegar 2 og Smiðjuvegar 4b, c, d og e liggja saman. Næst lóðamörkunum er um 1000 m² sameiginleg lóð Smiðjuvegar 4b, c, d og e með kvöð um gagnkvæman umferðarrétt. Þessi gagnkvæmi umferðarréttur nær ekki til Smiðjuvegar 2. Núverandi lóðarhafar Smiðjuvegar 4b, c, d og e hafa um allnokkurt skeið nýtt hluta hinnar sameiginlegu lóðar sem geymslusvæði og bílastæði og það án þess að slík notkun sé heimiluð í lóðarleigusamningi. Auglýst deiliskipulagstillaga miðast við það að vesturmörk sameiginlegrar leigulóðar Smiðjuvegar 4b, c, d og e breytist þannig að þau færast 7 metra í austur þ.e. nær húsunum, til að rýma fyrir nýrri aðkomu (húsagötu) frá Skemmuvegi. Ljóst er að hin nýja húsagata mun nýtast jafnt fyrirtækjum í austurhluta Smiðjuvegar 2 og 4b, c, d og e.”

Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda 28. apríl 2000 sem auglýsing nr. 267/2000. Ritaði skipulagsstjóri Kópavogsbæjar lögmanni stefnenda bréf í tilefni af hinu nýja deiliskipulagi 4. maí 2000. Því svaraði lögmaðurinn með bréfi 31. sama mánaðar. Var þar tekið fram að breytt deiliskipulag hefði að svo stöddu engin áhrif á nýtingu þeirra lóða sem um ræðir, enda væru enn í gildi um þær lóðarleigusamningar sem heimiluðu stefnendum að nýta þær. Breytt afnot af lóðunum eða breytt nýting þeirra kæmi þannig ekki til álita nema að til kæmi samningur við stefnendur og/eða að lóðirnar yrðu teknar af þeim. Í framhaldi af þessu óskaði Kópavogsbær í bréfi eftir viðræðum við eigendur Smiðjuvegar 4 um breytingar á lóðamörkum „þannig að aðkomugata skv. nýsamþykktu skipulagi verði utan lóða”. Er í niðurlagi bréfsins lagt til að bætur vegna skerðingar á hinni sameiginlegu lóð skuli nema 2000 krónum á hvern fermetra. Tilraunir sem í kjölfar þessa voru gerðar til að ná samkomulagi báru ekki árangur. Varð af þeim sökum úr að Kópavogsbær leitaði í bréfi 18. nóvember 2000 eftir umsögn Skipulagsstofnunar um þau áform sín „að taka eignarnámi 569 m² sameiginlegrar lóðar lóðanna nr. 4b, 4c, 4d og 4e við Smiðjuveg í Kópavogi á grundvelli gildandi skipulags og til framkvæmda á því, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997”. Í bréfi Skipulagsstofnunar til Kópavogsbæjar 5. desember 2000 var lýst því áliti stofnunarinnar að skilyrði 2. og 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga fyrir heimild til eignarnáms væru uppfyllt, þar sem bærinn fyrirhugaði í samræmi við gildandi deiliskipulag önnur afnot af viðkomandi svæði en lóðarhafar. Gerði stofnunin því ekki athugasemd við fyrirhugað eignarnám. Tillögu um að Kópavogsbær tæki umrædda spildu eignarnámi var síðan á fundi bæjarráðs 13. desember 2000 vísað til bæjarstjórnar. Á fundi hennar 9. janúar 2001 var tillagan samþykkt. Í þeirri samþykkt fólst jafnframt að bæjarlögmanni var falið að vísa málinu til matsnefndar eignarnámsbóta „varðandi ákvörðun um hæfilegar bætur vegna eignarnámsins”. Var það gert 12. sama mánaðar. Lá niðurstaða nefndarinnar fyrir 2. apríl 2001. Samkvæmt henni skal Kópavogsbær svo sem áður greinir greiða eignarnámsþolum sameiginlega 4.200.000 krónur í eignarnámsbætur.

III.

Stefnendur halda því fram að tilgangur þeirrar breytingar á deiliskipulagi sem hér er til umfjöllunar hafi verið ólögmætur. Tilgangurinn hafi frá upphafi verið sá að byggja undir ákvörðun um töku leigulóðarréttinda án hagsmuna sveitarfélagsins og ganga þannig gegn lögvörðum eignarréttindum stefnenda og fleiri aðila. Er á því byggt að slík breyting sé ekki og hafi ekki verið nægjanlegt skilyrði fyrir ákvörðun um eignarnám. Ákvörðunin sé þegar af þessari ástæðu ólögmæt og því ógildanleg.

Að því er eignarnámið varðar vísa stefnendur sérstaklega til 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í ákvæðinu séu sett skilyrði fyrir því að eignarnám geti náð fram að ganga. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi þessi skilyrði ekki verið uppfyllt. Þótt gengið væri út frá því að staðið hefði verið að breytingu á deiliskipulagi með lögmætum hætti nægi það ekki eitt og sér til þess að eignarnámi verði við komið. Hin sjálfstæðu skilyrði 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga geti staðið því í vegi. Í þessu máli liggi fyrir að þau leigulóðarréttindi sem tekin voru eignarnámi nýtist ekki sveitarfélaginu, enda ekki á því byggt að eignarnám hafi verið nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Um sé að ræða töku leigulóðar undir götu í eigu bæjarins sem þjóna eigi leigulóðarhöfum sem eru með rekstur á aðliggjandi lóð og geri eignir þeirra verðmætari en rýri eignir stefnenda. Hafi Kópavogsbær fært þau rök fyrir eignarnáminu að það væri nauðsynlegt til að tryggja aðkomu að húsinu nr. 2 við Smiðjuveg að austanverðu, en áður en eignarnámið kom til hafi aðkoma að þessum hluta hússins verið nægilega tryggð með því að tilheyrandi leigulóð hafi náð 5 metra austur fyrir húsið.

Stefnendur byggja dómkröfur sínar að auki á því að stjórnsýslulög hafi verið brotin við töku þeirra ákvarðana sem þeir krefjast ógildingar á. Hvort sem ákvörðun um eignarnám hafi verið byggð á ákvæðum lóðarleigusamninga eða skipulags- og byggingarlaga hafi Kópavogsbær verið bundinn af 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og stjórnsýslulögum við afgreiðslu málsins. Kópavogsbær hafi enga augljósa hagsmuni af því hvernig hið eignarnumda svæði sé notað og óheimilt sé að taka eignarréttindi eignarnámi nema almannahagsmunir krefji. Lóðarskiki sá, sem eignarnámið tekur til, eigi að mynda lokaða „götu” til afnota fyrir eigendur tveggja eigna án endurgjalds til bæjarins. Skikinn hafi áður tilheyrt leigulóðum stefnenda og hafi þeir nýtt hann á þeim grunni og átt að hafa afnot af honum samkvæmt leigusamningum til 50 ára frá 1. janúar 1985 að telja. Ákvörðun um að taka skikann eignarnámi skerði þannig réttindi stefnenda án þess að sveitarfélagið hafi af því hagsmuni, en feli hins vegar í sér ívilnun til handa eigendum aðliggjandi lóðar. Feli ákvörðunin í þessu ljósi í sér að með henni hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Ljóst sé að sveitarfélagið hafi enga heimild til að gera með þessum hætti upp á milla eigenda fasteigna, heldur eigi gildir samningar þess við einstaka lóðarhafa að standa. Skipti þá ekki máli hvort ákvörðun um eignarnám sé rökstudd með tilvísun til lóðarleigusamninga eða breytts deiliskipulags, enda þurfi í báðum tilvikum að vera fyrir hendi sú staða að sveitarfélagið hafi raunverulega hagsmuni af eignarnámi.

Auk þess sem að framan greinir halda stefnendur því fram að ekki liggi fyrir að staðið hafi verið með lögmætum hætti að ákvörðun um eignarnám og málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Þannig sé óljóst gegn hverjum eignarnámið hafi beinst og óljóst sé hvaða aðilum hafi verið gert mögulegt að gæta réttar síns. Verði þannig ekki séð að gætt hafi verið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá tiltaka stefnendur sérstaklega að eigendum fasteigna að Smiðjuvegi 4 hafi ekki verið gefinn kostur á að vera viðstaddir vettvangsgöngu sem matsnefndin hafi staðið fyrir.

IV.

   Sýknukrafa stefnda Kópavogsbæjar er á því byggð að í einu og öllu hafi verið staðið rétt að undirbúningi og samþykkt breytts deiliskipulags í bæjarstjórn Kópavogs þann 22. febrúar 2000. Ágreiningslaust sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að stefnendur hafi fengið að koma á framfæri athugsemdum sínum við deiliskipulags-tillöguna. Fyrir liggi að nauðsynlegt hafi verið að tryggja eðlilega aðkomu að fyrirtækjum á því svæði sem um ræðir, en stefnendur hefðu með óheimilli nýtingu á hinni sameiginlegu lóð torveldað umferð um það. Hafi Kópavogsbær leitað allra leiða til að leysa málið með samningum, en stefnendur aldrei ljáð máls á því. Er þannig alfarið mótmælt staðhæfingum stefnenda um að geðþótti hafi ráðið ákvarðanatöku stefnda í málinu. Þvert á móti hafi brýnir skipulagshagsmunir ráðið því að nauðsynlegt hafi reynst að fara þá leið sem farin var og ákvörðun þar um verið tekin og grundvölluð á faglegu mati á aðstæðum. Nýting stefnenda á hinni eignanumdu spildu hafi hins vegar verið skýlaust brot á 19. gr. lóðarleigusamninga. Þá sé það svo að samkvæmt samhljóða ákvæði í 12. gr. allra lóðarleigusamninga fyrir Smiðjuveg 4 geti bæjarstjórn hvenær sem hún telur þörf á tekið lóðirnar í sínar hendur. Nýting stefnenda á hinni umræddu spildu hafi girt fyrir almenna umferð að fyrirtækjum á svæðinu. Með því að tryggja eðlilega umferð um það hafi ótvíræðir almannahagsmunir verið tryggðir.

   Þá telur stefndi að lögformlega hafi verið staðið að hinu umdeilda eignarnámi. Áður en ákvörðun um það var tekin hafi legið fyrir jákvæð umsögn Skipulagsstofnunar. Eignarnámið beinist að aðilum sem hafi óskipt haft afnotarétt af þeirri spildu sem það tók til. Hafi þeim öllum verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum áður en tillaga að breyttu deiliskipulagi hafi verið samþykkt. Stefnendur hafi notfært sér þann rétt sinn. Þá hefðu þeir skilað greinargerð til matsnefndar eignarnámsbóta. Engar athugasemdir hafi hins vegar verið gerðar af hálfu stefnenda við boðun til matsfundar föstudaginn 2. febrúar 2001 eða við matsbeiðni, enda enginn ágreiningur um það hvað skyldi metið og hverjir væru matsþolar. Fullyrðingum stefnenda um að ekki hafi legið fyrir að hverjum eignarnámið beindist sé því mótmælt. Þá er jafnframt á því byggt að mótmæli á þessum forsendum hefðu stefnendur átt að hafa uppi fyrir matsnefndinni. Þar sem það hafi ekki verið gert sé þau of seint fram komin. Í greinargerð stefnenda til matsnefndarinnar sé því eingöngu haldið fram að stefndi hafi ekki virt reglur stjórnsýsluréttar ,,varðandi ákvarðanatöku hverju sinni” án þess að þar sé gerð tilraun til að rökstyðja þá fullyrðingu frekar. Í greinargerðinni skýri lögmaður stefnenda síðan sjónarmið varðandi verðrýrnun fasteigna stefnenda og lóðarskerðinguna og fari fram á bætur vegna kostnaðar við jarðvegsskipti og malbikun lóðarhlutans. Engar athugsasemdir hafi þannig verið gerðar við framkvæmd eignarnámsins og stefnendur hafi fengið að koma að athugasemdum á öllum stigum ákvarðanatöku. Gögn málsins beri þetta skýrlega með þér. Þá liggi það fyrir að aðrir eignarnámsþolar hafi fengið boð um að koma að athugasemdum. Þeir hafi kosið að gera ekki athugasemdir, enda hafi afstaða þeirra legið fyrir. Þessir aðilar hafi móttekið eignarnámsbætur og uni þeirri niðurstöðu sem orðin er.

   Með vísan til þess sem hér að framan er rakið telur stefndi Kópavogsbær að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnenda.

   Krafa stefndu Járnsmiðju Óðins ehf. og Óðins Gunnsteins Gunnarssonar um sýknu er byggð á því að lögformlega hafi verið staðið að breytingu á deiliskipulagi því sem stefnendur krefjast ógildingar á. Hafi stefnendum gefist kostur á að koma að athugasemdum við breytingartillögu eins og öðrum lóðarhöfum á svæðinu. Deiliskipulagsbreytingin hafi fyllilega átt rétt á sér þar sem ófremdarástand hafi ríkt að því er varðaði aðkomu að fyrirtækjunum á svæðinu. Hafi ekki verið unnt að leysa það ófremdarástand með öðrum hætti. Þá telja stefndu að lögformlega hafi verið staðið að hinu umdeilda eignarnámi. Hafi þeir þegar móttekið bætur í samræmi við niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta.

V.

Í 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um þá meginreglu að ákveði sveitarstjórn að breyta gildandi deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Svo framarlega sem breytingin telst ekki óveruleg skal tillaga um hana þannig uppfylla skilyrði 23. gr. laganna og haga ber málsmeðferð í samræmi við 25. gr. þeirra. Er í síðarnefnda ákvæðinu mælt fyrir um hvernig staðið skuli að kynningu á tillögu að deiliskipulagi og því lýst hvernig haga eigi málsmeðferð í kjölfar þess að frestur til athugasemda við tillöguna er liðinn. Við þá breytingu á deiliskipulagi, sem þetta mál snýst öðrum þræði um, var þessara ákvæða nægilega gætt. Öðlaðist breytingin gildi við birtingu auglýsingar um hana í B-deild Stjórnartíðinda 28. apríl 2000, sbr. 3. mgr. 26. gr. tilvitnaðra laga. Í henni fólst svo sem fram er komið að vesturmörk sameiginlegrar lóðar húsanna við Smiðjuveg 4 í Kópavogi voru færð 7 metra í austur í þeim tilgangi að rýma fyrir nýrri aðkomu frá Skemmuvegi. Gerði hið nýja deiliskipulag þannig ráð fyrir því að 7 metra breið og tæplega 80 metra löng gata (húsagata) myndi skilja í sundur austurmörk lóðarinnar að Smiðjuvegi 2 og vesturmörk 438 m² spildu, sem þá stæði eftir af hinni sameiginlegu lóð Smiðjuvegar 4.

Samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga er sveitarstjórn heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags að taka eignarnámi vegna framkvæmdar skipulagsins lóð eða lóðarhluta sem stendur í vegi fyrir nýrri lóðaskiptingu sem ákveðin er í deiliskipulagi. Með bréfi 18. nóvember 2000 leitaði Kópavogsbær umsagnar Skipulagsstofnunar um þá fyrirætlun sína að taka eignarnámi „569 m² sameiginlegrar lóðar lóðanna nr. 4b, 4c, 4d og 4e við Smiðjuveg í Kópavogi á grundvelli gildandi deiliskipulags og til framkvæmda á því”. Skipulagsstofnun svaraði erindinu með bréfi 5. desember 2000, þar sem því var lýst yfir að stofnunin gerði ekki athugasemd við hið fyrirhugaða eignarnám. Var ákvörðun um eignarnám tekin á fundi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar 9. janúar 2001. Fyrir liggur að áður en til þess kom hafði Kópavogsbær leitast við að ná samningum við eigendur þeirra réttinda sem það beindist að, sbr. 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Með því að heimilt er samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga að taka eignarnámi lóð eða lóðarhluta sem stendur í vegi fyrir nýrri lóðaskiptingu sem ákveðin er í deiliskipulagi hefur löggjafinn metið það svo að þegar þessi aðstaða er uppi sé uppfyllt það stjórnarskrárbundna skilyrði eignarnáms að almenningsþörf standi til þess. Sætir það mat ekki endurskoðun dómstóla. Það er hins vegar í verkahring dómstóla að skera úr um það hvort skilyrðum heimildarlaga fyrir eignarnámi hverju sinni sé fullnægt, svo og að leggja mat á hvort málsmeðferðarreglna hafi verið gætt.

Dómurinn telur í ljós leitt og raunar óumdeilt að þegar sú ákvörðun var tekin að breyta deiliskipulagi lóðarinnar nr. 4 við Smiðjuveg hafi ákveðið ófremdarástand ríkt varðandi aðkomu að austurhluta hússins að Smiðjuvegi 2. Má um þá aðstöðu sem hér var uppi vísa í umsögn skipulagsnefndar Kópavogsbæjar um athugasemdir sem gerðar voru við tillögu að breyttu deiliskipulagi, en umsögnin er tekin orðrétt upp í kafla II hér að framan. Þótt þær ráðstafanir sem stefndi Kópavogsbær greip til vegna þessa hafi aðallega verið til hagsbóta fyrir þá eigendur fasteignarinnar að Smiðjuvegi 2 sem stunda atvinnurekstur í austurhluta hússins verður ekki annað séð en að þær hafi verið aðkallandi og eðlilegar í ljósi breyttra aðstæðna frá gerð upphaflegs deiliskipulags. Er beinlínis undir þetta tekið af stefndu Óðni Gunnsteini og Járnsmiðju Óðins ehf. og aðrir þeir sem hinar umdeildu ákvarðanir stefnda Kópavogsbæjar beindust að og stefnt er í málinu hafa kosið að aðhafast ekki vegna þeirra. Verður að fallast á það með stefnda Kópavogsbæ að hann hafi með aðkomu sinni að málinu sinnt skyldum sem á sveitarstjórn hvíla um gerð deiliskipulags samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998 með síðari breytingum. Með hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu var að mati dómsins ekki gengið lengra en nauðsyn bar til, enda ná sérgreindar leigulóðir einstakra eignarhluta að Smiðjuvegi 4 samkvæmt henni ekki skemra en 17,25 metra vestur fyrir húsið sem á lóðinni stendur og þar tekur hin 438m² sameiginlega lóð við. Eru að þessu virtu ekki efni til annars en að líta svo á að lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að breytingin var gerð. Eins og fram er komið var farið með tillögu um hana eftir 1. mgr. 26. gr., sbr. 23. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Er með vísan til þessa ekki fallist á þá kröfu stefnenda að viðurkennt verði að sú ákvörðun að breyta deiliskipulagi lóðarinnar nr. 4 við Smiðjuveg í Kópavogi, sem tekin var á fundi í bæjarstjórn Kópavogsbæjar 22. febrúar 2000, sé ógild.

Þegar hið nýja deiliskipulag hafði öðlast gildi með birtingu auglýsingar um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðinda fékk það ekki samrýmst lóðarleigu-samningum sem þá voru í gildi við eigendur atvinnuhúsnæðis að Smiðjuvegi 4. Við þessar aðstæður og að fenginni jákvæðri umsögn Skipulagsstofnunar var Kópavogsbæ heimilt samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga að taka eignarnámi þann lóðarhluta sem stóð nýrri lóðaskiptingu í vegi, enda hafði áður verið leitast við að ná samningum við eigendur þeirra réttinda sem eignarnámið beindist að, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Er hér sérstaklega til þess að líta að í tilvitnuðu heimildarákvæði eru engin þau skilyrði sett fyrir eignarnámi sem beinlínis eru háð mati sveitarstjórnar og þar með endurskoðunarvaldi dómstóla. Stefnendur hafa ekki sýnt fram á að gallar hafi verið á málsmeðferð í undanfara ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar 9. janúar 2001 um eignarnámið. Ákvörðunin var samkvæmt þessu fyllilega lögmæt. Er því hafnað kröfu stefnenda um viðurkenningu á ógildi hennar, svo og þeirri kröfu að Kópavogsbæ verði gert að afmá merkingar sem nú afmarka þá húsagötu sem nýtt deiliskipulag gerir ráð fyrir og eignarnámið tekur til. Þá er ekkert það komið fram í málinu sem leitt getur til þess að ógilda beri eftirfarandi málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og úrskurð nefndarinnar í málinu frá 2. apríl 2001.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefndu af öllum dómkröfum stefnenda.

Rétt þykir að gera stefnendum óskipt að greiða stefndu Óðni Gunnsteini Gunnarssyni og Járnsmiðju Óðins ehf. sameiginlega 80.000 krónur í málskostnað, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Stefndu, Kópavogsbær, Lakksmiðjan ehf., Kristján S. Ólafsson, Blikksmiðja Einars ehf., Óðinn Gunnsteinn Gunnarsson, Járnsmiðja Óðins ehf., Global hf., Bessi hf., og Hagbarði ehf., eru sýknuð af dómkröfum stefnenda, Einars Pálmasonar, Erlings Lúðvíkssonar, Jakobínu Ingadóttur, Stellu Berglindar Hálfdánardóttur, Viðars Guðmundssonar og Þórsbakarís ehf.

Stefnendur greiði óskipt stefndu, Óðni Gunnsteini Gunnarssyni og Járnsmiðju Óðins ehf., sameiginlega 80.000 krónur í málskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.