Hæstiréttur íslands

Mál nr. 110/2003


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. október 2003.

Nr. 110/2003.

Hjalti Björnsson og

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.          

(Aðalsteinn Jónasson hrl.)

gegn

Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

K varð fyrir slysi í september 2000 og viðurkenndu H og S hf. bótaskyldu vegna þess. Var varanlegur miski K metinn 10% en varanleg örorka 5% vegna slyssins. K var 19 ára og hafði lokið 115 einingum af 162 einingum í námi í rafeindavirkjun þegar slysið átti sér stað. Í málinu deildu aðilar um það hvort beita ætti ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku eða lágmarkstekjuviðmiði 3. mgr. sömu lagagreinar. Í héraðsdómi var talið að K hefði ekki verið kominn í framtíðaratvinnu, er hann slasaðist og atvinnutekjur hans síðustu þrjú ár fyrir tjónsatburð gæfu því ekki rétta mynd af framtíðartekjum hans. Töldust námslok K fyrirsjáanleg á slysdegi og því bæri að meta árslaun hans á grundvelli sérreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og sanngjarnt og eðlilegt væri í því sambandi að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með þeirri athugasemd að ekki væri lagastoð fyrir því að við ákvörðun árslauna samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga væri tekið tillit til áhrifa aldurs í stuðli samkvæmt 6. gr. sömu laga eins og H og S hf. höfðu byggt á. Var því fallist á bótakröfur K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 28. mars 2003. Þeir krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af kröfu stefnda og þeim dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ekki verður á það fallist með áfrýjendum að lagastoð sé fyrir því að við ákvörðun árslauna samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, verði tekið tillit til áhrifa aldurs í stuðli samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga með áorðnum breytingum. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur með skírskotun til forsendna hans.

Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Hjalti Björnsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnda, Kristjáni Þórði  Snæbjarnarsyni, óskipt 225.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2003.

         Mál þetta, sem dómtekið var 21. þessa mánaðar, er höfðað 3. maí 2002 af Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, Berjarima 24, Reykjavík, gegn Hjalta Björnssyni, Tröllaborgum 23, Reykjavík og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

         Stefnandi krefst greiðslu 925.788 króna, ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 19. desember 2000 til 2. maí 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

         Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.

I.

         Þann 19. september 2000 ók stefnandi bifreiðinni TS-185 norður Höfðabakka í Reykjavík og þar yfir á grænu ljósi, er bifreiðinni R-7057 var ekið í veg fyrir stefnanda, þannig að árekstur varð milli bifreiðanna.  Stefnandi leitaði þegar í stað á slysadeild vegna óþæginda, er hann fann fyrir í kjölfar slyssins, og reyndist hafa hlotið háls- og baktognun. Læknarnir Guðmundur Björnsson og Jónas Hallgrímsson gerðu örorkumat á stefnanda samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Samkvæmt matsgerð þeirra, dagsettri 15. febrúar 2001, er varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 10%  og varanleg örorka 5%. Stefnandi krafði hið stefnda tryggingafélag um bætur á grundvelli örorkumatsins. Var þar byggt á því að taka bæri mið af meðaltekjum iðnaðarmanna, þar sem tekjur stefnanda síðastliðin þrjú almanaksár fyrir slysið séu ekki viðmiðunarhæfar, en stefnandi hafi verið langt kominn með nám í rafeindavirkjun, er hann slasaðist. Í tillögu tryggingafélagsins að lokauppgjöri hafnaði það sjónarmiðum stefnanda um að leggja meðaltekjur iðnaðarmanna til grundvallar bótauppgjöri og taldi að miða ætti við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Tók stefnandi við bótum úr hendi tryggingafélagsins, að fjárhæð 2.302.240 krónur, með fyrirvara um tekjuviðmiðun vegna varanlegrar örorku.

II.

         Stefnandi byggir kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku á 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og matsgerð Guðmundar Björnssonar og Jónasar Hallgrímssonar, dagsettri 15. febrúar 2001. Samkvæmt l. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og lögunum var breytt með lögum nr. 37/1999, skuli við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miða við árslaun, sem nemi meðalvinnutekjum tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs síðustu þrjú almanaks-árin fyrir þann dag, er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma, er upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segi síðan, að árslaun skuli þó metin sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Telur stefnandi, að beita eigi þessu ákvæði við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda. Í tilviki stefnanda séu aðstæður að því leyti óvenjulegar, að síðustu árin fyrir slysið hafi hann verið í námi, auk þess að vera tímabundið í ýmsum störfum, einkum tengdum iðnnámi hans. Þá hafi breytingar á atvinnuhögum hans verið tíðar, en það helgist væntanlega m.a. af því, að stefnandi hafi verið ungur að árum á slysdegi og ekki búinn að móta sér framtíðarbraut í atvinnulegu tilliti. Er stefnandi lenti í slysinu hafi hann verið langt kominn með rafiðnaðarnám. Sé því rétt að leggja til grundvallar bótakröfu meðaltekjur iðnaðarmanna með vísan til 2. mgr. 7. gr., enda verði að ætla að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola en sá, sem um ræðir í 1. gr. laganna. Sé krafa stefnanda um bætur á grundvelli meðaltekna iðnaðarmanna í  samræmi við athugasemdir með 8. gr. skaðabótalaga. Megi augljóst vera af orðalagi þeirra, að bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku skuli meta sérstaklega. Stefnandi hafi verið búinn að ljúka 115 einingum af 162 í námi sínu, er hann slasaðist.

Sé því ljóst, að starfsferill eða starfsréttindi megi teljast fyrirsjáanleg í skilningi ákvæðisins. Hafi stefnandi nú lokið náminu að fullu. Þá beri jafnframt til þess að líta, að meðaltekjur iðnaðarmanna séu nálægt almennum meðaltekjum hér á landi og sé því eðlileg og sanngjörn viðmiðun.

         Stefnandi sundurliðar kröfu sína sem hér segir:

         (1999) 2.335.400 x 1.06/182,0 x 198,0 =        2.693.152 kr.

         (1998) 2.256.400 x 1.06/170,4 x 198,0 =        2.779.185 kr.

         (1997) 1.887.000 x 1.06/157,9 x 198,0 =        2.508.192 kr.

                                                                                                                     7.980.529 kr.

         7.980.529/3 = 2.660.176 x 17,49 x 5%           2.326.326 kr.

         Að frádreginni innborgun 18.4.2002          1.400.535 kr.

                                                                                  Samtals            925.788 kr.

         Stefndu byggja sýknukröfu í fyrsta lagi á því, að bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku beri að ákvarða á grundvelli 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 3. mgr. sama ákvæðis. Stefnandi hafi því fengið tjón sitt að fullu bætt með greiðslu bóta þann 18. apríl 2002. Beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því, að umfang tjóns hans sé meira en hann hafi þegar fengið bætt.

         Stefnandi hafi ekki sannað, að annar mælikvarði en meginregla skaðabóta­laganna í 1. mgr., sbr. 3. mgr. 7. gr., gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Sé nám stefnanda í rafeindavirkjun og að hann hafi verið búinn að ljúka 115 einingum af 162 ekki fullnægjandi sönnun þess. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé undan-tekningarregla, sem skýra beri þröngt. Við mat á, hvort að beita beri ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna, beri að miða við aðstæður tjónþola á slysdegi.

         Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að árslaun, ákveðin á grunni l. mgr. 7. gr., sbr. 3. mgr. nefndra laga, gefi ranga eða ósanngjarna mynd af framtíðartekjum hans. Grunnfjárhæðin sé 1.601.500 krónur, en taka verði tillit til þess, að í margföldunar-stuðli 6. gr. laganna sé tekið tillit til þeirrar staðreyndar, að launatekjur manna dreifist ójafnt á starfsævina. Í stuðlinum sé því reiknað 30% álag á tekjur þess, sem slasast 18 ára gamall eða yngri, en álagið stiglækki síðan fram til loka 29. aldursárs. Stefnandi hafi verið rúmlega tvítugur, er stöðuleikapunkti hafi verið náð. Sé stefnandi því að krefja um meðaltekjur iðnaðarmanna, auk fyrrgreinds álags.

         Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu er varakrafa stefndu byggð á því, að árslaun þau, sem stefnandi byggir kröfu sína á, gefi ekki rétta mynd af líklegum tekjum stefnanda. Taka beri tillit til þess álags, sem stuðull 6. gr. skaðabótalaga geri ráð fyrir, þegar bætur til stefnanda eru ákveðnar. Að öðrum kosti sé stefnandi að hagnast á tjóninu, en það sé í andstöðu við meginreglur skaðabótaréttar.

         Að lokum er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt.

III.

         Ágreiningur aðila lýtur aðallega að því, hvort beita skuli ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku eða lágmarkstekjuviðmiði 3. mgr. 7. gr. laganna, svo sem stefndu byggja á. Þá er deilt um við hvaða tekjuviðmið eigi að miða útreikning bóta, verði byggt á umræddri 2. mgr.

         Þegar bætur eru ákvarðaðar fyrir varanlega örorku, verður að meta annars vegar hvaða atvinnutækifærum tjónþoli hefði átt kost á, hefði hann ekki orðið fyrir tjóni og hins vegar hverra kosta hann á völ í því efni, eftir að tjónið er orðið staðreynd. Jafnframt verður að líta til þess, hvort líkur séu á, að framtíðartekjur tjónþola muni aukast vegna menntunar, menntunaráforma eða starfsþjálfunar.

         Er slys það, sem mál þetta á rætur að rekja til, átti sér stað, var stefnandi 19 ára að aldri og nemandi í rafeindavirkjun við Iðnskólann í Reykjavík. Hafði hann lokið 115 einingum af 162 eininga námi, eða 71% af náminu, en vann hlutastörf samhliða því. Lauk stefnandi náminu á haustönn árið 2001 og hefur starfað við iðnina upp frá því.

         Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 37/1999, skal meta árslaun sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi hjá tjónþola og ætla má, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola, en sá, er um ræðir í 1. mgr. 7. gr. sömu laga, það er meðalatvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag. Telja verður, að stefnandi hafi ekki verið búinn að móta sér framtíðaratvinnubraut, er hann slasaðist. Þykja laun hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið því ekki geta gefið rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Verður í því sambandi að hafa í huga, að ákvæði 1. mgr 7. gr. laganna eiga aðallega við um launþega en ekki námsmenn.

         Í athugasemdum með 6. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 37/1999, segir, að launatekjur liðinna ára séu ekki góður mælikvarði, ef fullyrða má, að breytingar á högum tjónþola standi fyrir dyrum. Sé í slíkum tilvikum eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaunin miðað við nýjar aðstæður. Í athugasemdum með 7. gr. laga nr. 37/1999, sem breytti 8. gr. skaðabótalaga, kemur fram, að við þær aðstæður, að námslok, tengd starfsferli eða starfsréttindum, megi teljast fyrirsjáanleg, verði að meta möguleika námsmannsins til að gegna því starfi, sem hann stefndi að með menntun sinni. Eigi þetta við, hvort heldur slys valdi því, að hann verði að hætta námi eða það dragi úr starfsgetu í fyrirhuguðu starfi. Færi tekjuviðmið í slíku tilviki eftir sérreglunni í 2. mgr. 7. gr. Með því að námslok stefnanda voru fyrirsjáanleg á þeim degi, sem slysið varð og að öðru leyti með vísan til þess, er að framan greinir, verður að telja, að þær aðstæður séu fyrir hendi í máli þessu, að uppfyllt séu skilyrði til að meta árslaun stefnanda eftir nefndri sérreglu skaðabótalaga.

         Stefnandi gerir kröfu um, að við ákvörðun bóta verði lagðar til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna. Er það að mati dómsins sanngjarn og eðlilegur mælikvarði á framtíðartekjur stefnanda, enda var hann langt á veg kominn í rafiðnaðarnámi, er hann slasaðist, og hefur starfað sem rafeindavirki eftir að námi lauk. Þá er á það bent, að meðaltekjur iðnaðarmanna eru nærri almennum meðal-tekjum launþega hérlendis.

         Samkvæmt framansögðu er fallist á kröfur stefnanda í máli þessu, þar með talda vaxtakröfu.

         Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

         Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

 

 

Dómsorð:

         Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Hjalti Björnsson, greiði stefnanda, Kristjáni Þórði Snæbjörnssyni, 925.788 krónur, ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 19. desember 2000 til 2. maí 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.