Hæstiréttur íslands
Mál nr. 404/2000
Lykilorð
- Ölvunarakstur
|
|
Fimmtudaginn 15. febrúar 2001. |
|
Nr. 404/2000. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Ólafi Hallgrímssyni (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Ölvunarakstur.
Ó var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Lauk ökuferð hans með því að hann ók bifreiðinni utan í jarðgöng og yfirgaf hana að því búnu. Fékk hann bílfar með fólki sem kom að og tilkynnti lögreglunni ekki um óhappið fyrr en um klukkustund síðar. Var hann handtekinn í kjölfarið og reyndist hann þá nokkuð ölvaður. Fyrir dómi bar Ó að hann hefði neytt áfengis eftir óhappið en neitaði að hafa verið ölvaður er hann ók bifreiðinni. Lögreglumenn, sem yfirheyrðu Ó, báru hins vegar að hann hefði staðfest við yfirheyrslur að hafa ekki neytt áfengis eftir óhappið. Þá staðfesti Ó í lögregluskýrslu að hafa drukkið nokkuð fyrir óhappið. Með hliðsjón af 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var ekki talið að sakfelling Ó yrði reist á því, sem skráð hefði verið eftir honum í lögregluskýrslu, nema önnur atriði styddu þann framburð í verulegum atriðum. Var ekki talið breyta neinu þar um þótt þeir lögreglumenn, sem í hlut áttu, hefðu fyrir dómi skýrt frá samtölum sínum við Ó og framburði hans við skýrslutöku hjá lögreglu. Þótt frásögn Ó þætti lítt trúverðug voru ekki talin liggja fyrir óyggjandi gögn um að ákærði hefði neytt áfengis fyrir óhappið og að hann hefði ekki neytt áfengis eftir óhappið og fram til þess tíma er hann var handtekinn. Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. október 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til nýrrar meðferðar fyrir fjölskipuðum héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvalds, en til þrautavara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.
I.
Málavöxtum er rækilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir var lögreglunni tilkynnt um umferðarslys í Hvalfjarðargöngum kl. 8.13 að morgni 20. apríl 2000. Hafði bifreið verið ekið utan í jarðgöngin skammt frá suðurmunna þeirra. Bifreiðinni, sem var stórskemmd, hafði verið lagt í útskot í göngunum, en loka þurfti fyrir umferð um þau vegna braks úr henni, sem dreifst hafði um veginn. Ákærði, sem var ökumaður og eigandi bifreiðarinar, fékk far með vegfarendum af vettvangi til Akraness, en lét hjá líða að tilkynna um óhappið í gjaldskýli norðan við göngin. Klukkan 9.12 tilkynnti hann lögreglunni símleiðis að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar. Var hann handtekinn á heimili sínu á Akranesi kl. 9.48 og færður á lögreglustöð, þar sem Viðar Einarsson varðstjóri tók af honum skýrslu. Í framhaldi af skýrslutökunni dró læknir ákærða blóð og reyndist vínandi í því vera 0,87. Hefur sú niðurstaða ekki verið rengd.
II.
Ákærða er gefið að sök að hafa verið undir áhrifum áfengis er hann ók bifreiðinni umrætt sinn. Hann neitar sakargiftum.
Í áðurnefndri lögregluskýrslu, sem varðstjóri tók af ákærða strax eftir handtöku og sá síðarnefndi undirritaði, kemur fram að hann hafi verið við drykkju frá því kl. 23.00 að kvöldi 19. apríl 2000 og fram til kl. 2.30 aðfaranótt 20. apríl. Þá báru lögreglumennirnir Viðar Einarsson og Jóhanna Heiður Gestsdóttir fyrir héraðsdómi að ákærði hafi við þetta sama tækifæri verið spurður um það hvort hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk og hann svarað því neitandi, en af tæknilegum ástæðum hafi texti þessa efnis ekki komið fram í lögregluskýrslunni, sem ákærði las og undirritaði. Þá bar Jóhanna Heiður Gestsdóttir fyrir héraðsdómi að ákærði hafi eftir handtökuna á leið til skýrslugjafar sagst hafa verið að drekka bjór um nóttina. Hafi hann verið spurður hvort hann hafi neytt áfengis eftir að akstri lauk og hann neitað því.
Ákærði telur framangreind ummæli í lögregluskýrslu um áfengisneyslu nóttina fyrir óhappið á misskilningi byggð og hefur mótmælt framangreindum framburði lögreglumannanna. Fyrir héraðsdómi bar hann að kvöldið fyrir óhappið hafi hann drukkið tvö 33 cl glös af bjór fyrir miðnætti. Hann hafi unnið til kl. 2.30 um nóttina á vínveitingastað í Reykjavík. Síðan hafi hann lagt sig en haldið heimleiðis upp á Akranes kl. 7.30 að morgni 20. apríl 2000. Hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis þá, en á þeirri leið hafi óhappið orðið. Bar hann einnig fyrir héraðsdómi að eftir að hann tilkynnti lögreglunni um að hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar og áður en hann var handtekinn hafi hann drukkið þrjú til fjögur glös af sterku áfengi blönduðu með vatni og einn bjór.
Samkvæmt framansögðu stangast framburður ákærða fyrir dómi í verulegum atriðum á við það, sem eftir honum er haft í lögregluskýrslu, og það, sem lögreglumenn bera fyrir dómi að hann hafi skýrt þeim frá. Með hliðsjón af 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður sakfelling ákærða ekki reist á því, sem skráð var eftir honum í lögregluskýrslu, nema önnur atriði styðji þann framburð í verulegum atriðum. Breytir þar engu um þótt lögreglumenn þeir, sem í hlut áttu, hafi fyrir dómi skýrt frá samtölum sínum við ákærða og framburði hans við skýrslutöku hjá lögreglu. Verður því hvorki lagt til grundvallar að ákærði hafi á fyrri stigum sjálfur borið um drykkju sína aðfaranótt 20. apríl 2000 né að hann hafi þá neitað að hafa neytt áfengis eftir óhappið og áður en blóðsýni var tekið til vínandagreiningar.
Vegfarendur þeir, sem ákærði fékk far með af slysstað, Ásmundur Jónsson og Gunnar Snorri Gunnarsson, báru fyrir héraðsdómi að áfengislykt hefði verið af ákærða og hann sagst hafa drukkið tvo til þrjá bjóra, svo og að hann hafi beðið þá um að aka framhjá gjaldskýlinu norðan við göngin. Bar Gunnar að ákærði hafi sagst vera hræddur um að „það gæti mælst í sér“ og „að hann ætlaði bara að láta konuna tilkynna að hún hafi verið á bílnum“. Ákærði tilkynnti lögreglunni ekki um óhappið og að hann hefði ekið bifreiðinni fyrr en klukkan 9.12, klukkustund eftir að það varð, en áður hafði eiginkona hans tilkynnt lögreglu að hún hafi ekið bifreiðinni. Af þessu er ljóst að ákærði reyndi að komast hjá því, eða að minnsta kosti fresta því, að tilkynna lögreglunni um þátt sinn í óhappinu. Þótt frásögn ákærða um áfengisneyslu eftir að akstri lauk sé lítt trúverðug og hann hafi ekki skýrt frá henni fyrr en í lögregluskýrslu tæpum mánuð eftir óhappið, liggja ekki fyrir samkvæmt því, sem að framan greinir, óyggjandi gögn um að ákærði hafi ekki neytt áfengis á þeim tíma, sem leið frá því að akstri hans lauk og þar til blóðsýni var tekið úr honum til vínandagreiningar. Þótt háttsemi ákærða að öðru leyti sé samkvæmt framansögðu fremur til styrktar sakfellingu en sýknu, er allt að einu varhugavert með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 að telja nægilega sannað að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við akstur að morgni 20. apríl 2000. Verður ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Hallgrímsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Jóns Einars Jakobssonar héraðsdómslögmanns, samtals 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 6. september 2000.
Sýslumaðurinn á Akranesi gaf út ákæru í máli þessu 26. maí 2000, og var málið höfðað með birtingu hennar og fyrirkalls fyrir ákærða 2. júlí. Það var þingfest 6. júlí, tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 23. ágúst sl.
Ákærður er Ólafur Hallgrímsson, kt. 090857-4369, Kirkjubraut 2 Akranesi, “fyrir ölvunarakstur, með því að hafa, að morgni fimmtudagsins 20. apríl 2000, ekið bifreiðinni OM-943, undir áhrifum áfengis, norður þjóðveg nr. 1 frá Reykjavík um Hvalfjarðargöng, en í syðri hluta ganganna missti ákærði stjórn á bifreiðinni og keyrði utan í hægri gangavegginn með þeim afleiðingum að bifreiðin skemmdist en af því tilefni stöðvaði ákærði aksturinn um 1 kílómeter norðan við syðri gangamunnann.
Brot ákærða þykja varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr 45. gr. sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.”
Svo segir í ákæruskjali. Við aðalmeðferð krafðist sækjandi þess að ákærði yrði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.
Af hálfu ákærða var þess krafist við aðalmeðferð málsins að hann yrði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður allur lagður á ríkissjóð, en til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og sakarkostnaði þá skipt milli ákærða og ríkissjóðs. Verjandi krafðist málsvarnarlauna sér til handa að mati réttarins.
Í frumskýrslu lögreglunnar á Akranesi, sem Jóhanna Heiður Gestsdóttir lögreglumaður ritaði, segir um atvik máls, að 20. apríl 2000 kl. 08:13 hafi starfsmaður gjaldskýlisins við Hvalfjarðargöng hringt og tilkynnt um umferðaróhapp sem orðið hefði við suður-gangamunna Hvalfjarðarganganna. Bifreiðinni OM-943 hafi verið lagt í einu af útskotum ganganna. Væri hún stórskemmd og brak út henni dreift um langan vegarkafla í göngunum. Starfsmaðurinn hafi sagst hafa lokað fyrir umferð um göngin vegna hættu af brakinu.
Lögreglan á Akranesi hafði samband við lögregluna í Reykjavík út af þessu máli og fór síðan á vettvang. Lögreglumaðurinn Jóhanna Heiður Gestsdóttir var þar ein á ferð. Við gjaldskýli hafði hún tal af starfsmanninum sem tilkynnti um óhappið [Hreggviði Hendrikssyni. Sjá síðar]. Hjá honum voru þá staddir þeir Ásmundur Jónsson og Gunnar Snorri Gunnarsson, starfsmenn Norðuráls í Hvalfirði. Þeir höfðu komið að bifreiðinni OM-943 og ökumanni hennar eftir óhappið, og að beiðni ökumanns ekið honum út á Akranes. Lögreglukonan hafði tal af þeim Ásmundi og Gunnari Snorra og hefur eftir þeim, að þeir “hefðu verið á leið norður þjóðveg 1, og fljótlega eftir að þeir komu í sunnanverðan gangamunna Hvalfjarðarganganna hefðu þeir orðið varir við mikið rykkóf. Er þeir hefðu ekið sem leið lá norður göngin hefðu þeir orðið varir við bifreiðabrak á veginum. Fljótlega hefðu þeir veitt bifreiðinni OM-943 eftirtekt þar sem henni var ekið inn í eitt af útskotum ganganna, og hefðu þeir afráðið að kanna ástand ökumanns þar sem að greinilegt hefði verið að bifreiðin hefði lent í tjóni og hugsanlega væri ökumaður slasaður. Að sögn þeirra Ásmundar og Gunnars hefði ökumaður virst ómeiddur og hefði hann eindregið óskað eftir því að þeir myndu aka honum til Akraness sem þeir og gerðu.” Þeir félagar sögðu lögreglu, aðspurðir, að áfengisþef hefði lagt frá vitum ökumanns.
Í frumskýrslu er vettvangi svo lýst að bifreiðinni OM-943 hafi verið lagt í útskot u.þ.b. 1 km frá gangamunna að sunnan. Brak úr henni hafi verið dreift um “þó nokkuð svæði”. Greinilegt hafi verið að bifreiðinni hafi fyrst verið ekið utan í hægri gangavegginn 600 m frá gangamunna. Ökumaður hafi náð að aka henni um 50 m áður en hún lenti aftur út í hægri vegg. Eftir hjólförum að dæma hafi ökumaður síðan misst bifreiðina yfir á vinstri vegarhelming þar sem hún enn á ný hafi lent út í gangavegg. Eitthvert tjón hafi orðið á vegmerkingum og ljósvegmerkingum, en ekki virðist hafa orðið verulegt tjón á veggklæðningu. Bifreiðinni hafi verið læst tryggilega.
Þá segir í frumskýrslunni að kl. 09:12 hafi ákærði haft samband við lögreglustöð og tilkynnt að hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar OM-943 þegar óhappið varð. Orðrétt segir í skýrslunni: “Að sögn Ólafs hefði hann misst stjórn á bifreið sinni í göngunum og hefði hann “í paník” farið af vettvangi þar sem hann hefði haft áhyggjur af afskiptum lögreglu af óhappinu þar sem að hann hefði drukkið nokkra bjóra síðastliðna nótt.”
Kl. 09:48 fóru Jón Þórir Leifsson og Jóhanna Heiður Gestsdóttir lögreglumenn á heimili ákærða og handtóku hann vegna gruns um ölvun við akstur. Var hann færður á lögreglustöð. Viðar Einarsson varðstjóri tók þar af honum skýrslu, varðstjóraskýrslu. Læknir var fenginn til að draga úr honum blóð til alkóhólgreiningar. Síðan var ákærði frjáls ferða sinna.
Starfsmenn Spalar hf. hreinsuðu göngin, og voru þau opnuð fyrir umferð kl. 09:59.
Endanleg niðurstaða alkóhólákvörðunar í blóði ákærða var 0,87 o/oo.
Varðstjóraskýrslan, sem Viðar Einarsson varðstjóri tók af ákærða, er tímasett kl. 09:55 20. apríl 2000. Hún er í stöðluðu formi svo sem tíðkast um slíkar skýrslur. Þar kemur fram að að ákærði er grunaður um ölvun við akstur á bifreiðinni OM-943. Hann játar að hann hafi ekið bifreiðinni, að hann hafi drukkið áfengi og segir að drykkja hafi hafist kl. 23:00 19. apríl og staðið til 02:30 20. apríl. Í reit eða línu sem er á hinni fram lögðu varðstjóraskýrslu fyrir athugasemdir ökumanns stendur skráð: “Ökumaður kveðst hafa verið að koma frá vinnu sinni sennilega dottað, lent uta”. Þannig frá gengin er skýrslan undirrituð af varðstjóranum, ákærða og Jóhönnu Heiði lögreglumanni sem votti.
Af hálfu ákæranda hefur verið lagt fram vottorð ríkislögreglustjóra, undirritað af Guðmundi Andrési Jónssyni lögreglufulltrúa og “staðfest rétt” af Árna E. Albertssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni. Það er ódagsett, stílað til Viðars Stefánssonar lögreglufulltrúa á Akranesi, en hann stjórnaði framhaldsrannsókn lögreglu á máli þessu. Í vottorðinu segir í upphafi: “Varðar skýrslu Viðars Einarssonar, varðstjóra í lögreglunni á Akranesi þann 20.04.2000 kl 09:55. Viðar skráir eftir ökumanni í reitinn “athugasemdir ökumanns” “Ökumaður kveðst hafa verið að koma frá vinnu sinni sennilega dottað, lent utaní vegkanti og misst stjórn á bílnum. Ökumaður kveðst aðspurður ekki hafa drukkið áfengi eftir að hann hætti að aka”. Einungis prentast út hluti textans þar sem þessi reitur er ekki gerður fyrir svo marga stafi sem þar koma fyrir.” Síðan er í vottorðinu staðfest að textinn sem Viðar skráði í skýrslugerðarkerfinu, hafi verið sá sem hér er að framan hafður innan tilvitnunarmerkja.
Í málflutningi sækjanda, sýslumannsins á Akranesi, kom fram “að öll tölvukerfi lögregluembætta séu undir umsjá og eftirliti ríkislögreglustjóra, og því hafi verið leitað eftir vottorði þess embættis.” Verjandi mótmælti vottorðinu sem óstaðfestu.
Ákærði hefur neitað sakargiftum. Það gerði hann við þingfestingu málsins, en fyrst þó er tekin var af honum framburðarskýrslu fyrir lögreglu 16. maí 2000. Í upphafi þeirrar skýrslu gerir hann þá athugasemd við varðstjóraskýrsluna, sbr. hér að framan, að hann hafi ekki sagt frá drykkju sinni eins og þar kemur fram. Þar segir að drykkja hafi hafist kl. 23:00 19. apríl og staðið til kl. 02:30 20. apríl. Nú segir ákærði að hann hafi aðeins drukkið tvo litla bjóra fram til miðnættis. Hann er þá spurður af hverju hann hafi undirritað fyrrgreindan framburð sinn skv. varðstjóraskýrslunni. “Hann segir að það hafi verið einhver misskilningur. Hann segist hafa hætt að vinna kl. 02:30.”
Í framburðarskýrslu þessari kemur fram hjá ákærða að hann hann hafi fipast við aksturinn í göngunum. Hann kveðst ekki vita um orsakir þess, en heldur að birtuskilyrðum sé um að kenna og segir líka að það hafi verið “eins og eitthvað færi fyrir hjólið”. Hann kveðst ekki hafa verið illa fyrir kallaður og segist ekki gera sér grein fyrir að neitt hafi verið að bílnum. Hann er spurður hvers vegna hann hafi horfið af vettvangi áður en lögregla kom á staðinn. “Hann segir að hann hafi sjokkerast, m.a. vegna þess að hann hafi velt þessum sama bíl um mánaðamótin nóv. des. og verið búinn að aka bílnum í mánuð eftir það óhapp.”
Hann er spurður hvort hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk. “Hann kveðst hafa drukkið fjögur glös af Vodka í vatni eftir að hann kom heim og einnig einn bjór.”
Hann gefur þá skýringu á áfengisþef sem vitnin Ásmundur Jónsson og Gunnar Snorri Gunnarsson sögðu í skýrslum sínum fyrir lögreglu að þeir hefðu fundið af honum, “að hann hafi verið við vinnu á vínveitingastað fram til kl. 02:30 og m.a. verið að hrista “kokteila” Hann segir að áfengislykt gæti hafa verið af fötum hans.”
Ennfremur kemur fram í lögregluskýrslunni að ákærði telur að Jóhanna Heiður lögreglumaður hafi séð hann drekka úr síðasta vodkaglasinu á heimili hans þegar hann var handtekinn.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði hafið vinnu í Reykjavík milli kl. 17 og 18 á barnum Ingólfsbrunni. Hann kvaðst hafa unnið til að ganga þrjú um nóttina, líklega 02:30, þá hefði hann lokað veitingastaðnum og farið “upp að sofa, ég er með herbergi þarna á annarri hæðinni, og lagði mig þar. Þetta var síðasti dagur fyrir kærkomið frí, því að ég var búinn að vinna þarna allar helgar síðan í nóvember.” Hann kvaðst hafa lagt af stað heim, þ.e. upp á Akranes, um kl. hálfátta um morguninn. Þegar hann hefði rétt verið kominn inn í Hvalfjarðargöngin, “þá finnst mér eins og eitthvað verði fyrir eða eitthvað slíkt, því ég lendi utan í. Og síðan er eins og ég hafi vankast eitthvað, því að ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvað skeður meðan bíllinn er að hendast þarna til og frá í göngunum.” Hann sagði nánar spurður um þetta, að það kynni að hafa verið vegbrúnin sem hann lenti á, hann gerði sér ekki grein fyrir því; það hefði komið eins og hnykkur á bílinn. Hann kvaðst hafa verið á innan við 70 km/klst. hraða. Eftir að bíllinn stöðvaðist hefði hann gert sér grein fyrir að hann væri fyrir umferð, og þar sem bíllinn hefði verið í gangi hefði hann ekið að næsta útskoti og lagt honum þar.
Ákærði sagði að hann hefði farið “í algjört paník”. Hann hefði ekki hugsað rökrétt, “fyrst og fremst af því að ég hafði lent í tjóni á þessum sama bíl haustið áður, miklu tjóni . . .” Hann hefði stundað vinnu í Reykjavík og treyst á lánsbíl, og nú hefði hann kviðið fyrir að þurfa að gera það aftur. Hann kvaðst og hafa gert sér grein fyrir því að hann hefði getað valdið einhverju tjóni í göngunum og það væri kannski sakarefni. “Og þar sem ég lenti í vandræðum fyrir nokkrum árum og var með skilorðsbundinn dóm, þá fór ég alveg í flækju út af því.” Þess vegna hefði hann viljað komast heim. Hann hefði verið “alveg í rusli”.
Ákærði kvaðst, aðspurður, ekki hafa tilkynnt óhappið starfsmönnum Spalar hf., ekki fyrr en hann hefði verið kominn heim til sín. Hann gaf á því þær skýringar sem hér eru skráðar að framan; sagðist auk þess hafa verið með eymsli í hnakka og baki og sér hefði liðið virkilega illa. Þetta hefði jafnað sig á tveim þrem dögum. Hann hefði ekki leitað læknis út af þessu.
Ákærði bar að stuttu eftir að hann hefði lagt bílnum í útskotið hefði bíll verið stöðvaður fyrir aftan hann og maður hefði komið til sín og spurt hvort hann væri slasaður, en hann hefði neitað því. Þeir [svo] hefðu spurt hvort þeir gætu gert eitthvað fyrir hann, hvort þeir gætu ekið honum. Hann hefði þegið það, farið yfir í bílinn til þeirra og beðið þá að aka sér heim á Akranes. Ákærði sagði aðspurður, að hann hefði gefið þeim þá ástæðu fyrir þessari beiðni, að hann hefði drukkið tvo bjóra kvöldið áður, “og fyrst og fremst held ég að ég hafi gert það vegna þess að mér fannst ég ekki geta farið að útskýra það fyrir bláókunnugum mönnum, að ég væri með skilorðsbundinn dóm og liði illa þess vegna, ef þetta væri sakarefni, þessi útafakstur.”
Mennirnir hefðu síðan ekið honum út á Skaga og látið hann út við hringtorgið, og hann hefði síðan gengið heim. Hann kvaðst ekki muna nákvæmleg hvenær hann hefði komið heim, það hefði getað verið um kl. hálfníu. Hann kvaðst hafa setið um stund inni í stofu. Eiginkona sín hefði verið heima, sofandi. Hún hefði vaknað að stundu liðinni og komið “þarna fram og sér að ég er alveg í rusli og fer að spyrja mig út í það, og ég segi henni að ég hafi lent í útafakstri í göngunum og bíllinn væri hálfónýtur. Og hún fór alveg í kerfi yfir því . . .” Ákærði sagði að kona hans hefði farið í símann “eitthvað að forvitnast um þetta og hringdi inn í Göng og hringdi svo á lögreglustöðinni, og þá heyrðist mér hún eitthvað vera að segja að hún hefði verið á bílnum. Og þá fór ég aftur í símann og hringdi bæði inn í Göng og í lögregluna og leiðrétti það.” Hann hefði látið vita að hann hefði verið ökumaður. Hann kvaðst ekki hafa átt von á að af þessu yrðu frekari eftirmálar þann dag.
Ákærði var spurður hvort hann hefði drukkið eitthvað um kvöldið, áður en hann hóf aksturinn. Svar: “Kvöldið áður hafði ég aðeins smakkað bjór, kannski tvo litla bjóra, eitthvað svoleiðis.” Nánar spurður sagði ákærði að drykkjan hefði ekki verið meiri en þessi, tvö lítil glös, 33ja sl., af bjór. Þetta hefði verið fyrir miðnætti, kannski kl. 10:00 til 11:30. Þetta hefði verið venjulegur bjór, Viking, að styrkleika 4-5%.
Ákærði sagði að annaðhvort starfsmaður Spalar eða lögreglan hefði sagt sér að gerðar hefðu verið ráðstafanir til að fjarlægja bílinn. Eftir að hann hefði talað við lögregluna, hefði hann sótt sér “smávodka í glas inn í eldhús og fékk mér í glas, bara til að róa taugarnar, því ég var í algjöru rusli.” Ákærði var spurður hve mikið hann hefði drukkið. Svar: “ Ég held ég hafi drukkið svona smáslurk af vodka í vatni, a.m.k. fjögur glös og lítinn bjór sem var til þarna í ísskápnum.” Nánar spurður sagði ákærði að um hefði verið að ræða einfaldan vodka í hvert skipti, kannski rúmlega það. Hann bætti við að hann héldi að glösin hefðu verið fjögur fremur en þrjú. Að þessari drykkju hefðu ekki verið önnur vitni en konan hans.
Eftir dágóða stund, sagði ákærði, hefðu komið tveir lögregluþjónar og tilkynnt honum að þeir væru að sækja hann til yfirheyrslu út af þessu máli. Þá hefði hann átt eftir drykk í síðasta glasinu. Hann kvaðst hafa gengið fram til móts við lögreglumennina, snúið svo við og klárað úr glasinu, áður en hann hefði farið með þeim. Hann kvaðst telja að lögreglumaðurinn Jóhanna Heiður hefði séð þetta. Hún hefði komið á eftir honum inn í stofu.
Á lögreglustöðinni hefði verið tekin af honum skýrsla. Hann kvaðst muna “nokkurn veginn” eftir þeirri skýrslutöku. Til þess var vitnað að í varðstjóraskýrslunni væri eftir honum haft að hann hefði drukkið áfengi, drykkja hefði hafist kl. 23:00 23. apríl og staðið til kl. 02:30 24. apríl. Í síðari skýrslu fyrir lögreglu og fyrir dómi hefði hann lýst þessu á annan veg. Ákærði var spurður um skýringu á þessu ósamræmi. Svar: “Ég held að það hljóti að hafa orðið einhver misskilningur, því að ég sagði þeim að ég hefði hætt vinnu kl. 02:30, en drukkið fyrir miðnætti.” Rétt væri að hann hefði drukkið tvo litla bjóra fyrir miðnætti og hætt vinnu kl. 02:30. Hann kvaðst aðspurður ekki minnast þess að hafa verið spurður af varðstjóra hvort hann hefði drukkið áfengi eftir að akstri lauk. Hann sagði hins vegar að sig rámaði í að hafa verið spurður um aðdraganda óhappsins og að hann hefði sagt varðstjóra að hann hefði dottað og lent utan í göngunum. Síðar sagðist hann hafa áttað sig á því að hann hefði ekki dottað, heldur hefði eitthvað farið fyrir dekkið eða “eitthvað skeði sem varð þess valdandi að hann lenti þarna utan í”. Hann hefði ekki verið syfjaður eða illa fyrirkallaður. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt varðstjóra að hann hefði ekki drukkið áfengi eftir að akstri lauk. Hann hefði ekki sagt lögreglu frá því að hann hefði drukkið áfengi eftir að hann kom heim til sín. Eftir á að hyggja sagði hann, aðspurður, að ástæða hefði verið til þess, “ætli ég hafi ekki bara skammast mín fyrir það”. Hann kvaðst ekki hafa átt von á að hann yrði sóttur. Það hefði verið athugunarleysi af sér að geta ekki um drykkju sína.
Undir ákærða var borinn framburður fyrir lögreglu þeirra tveggja manna sem hittu hann í göngunum eftir óhappið og óku honum út á Skaga. Þeir báru báðir að áfengisþefur hefði verið af honum. Ákærði sagði að barinn sem hann ynni á væri lítill og loftlaus og sérhæfði sig í að selja kokteila. Hann þyrfti þar að hrista drykki og oft slettist á fötin sín, og hann hefði verið í sömu fötum og hann hefði verið um kvöldið áður. Hann sagði og að það væri alrangt sem fram kemur hjá vitninu Gunnari Snorra Gunnarssyni, að hann hefði drukkið tvo eða þrjá bjóra um morguninn.
Ákærði sagði að bifreiðin OM-943 hefði verið kaskótryggð. Hann hefði ekki fengið tjónið bætt. Tryggingarfélagið vildi fyrst sjá niðurstöðu þessa máls. Tjónsbætur væru ekki greiddar vegna gruns um ölvunarakstur.
Lögreglumaðurinn Jóhanna Heiður Gestsdóttir bar vitni fyrir lögreglu og fyrir dómi. Framurðarskýrsla var tekin af henni fyrir lögreglu 17. maí 2000. Þar kemur m.a. þetta fram: “Hún segir að þegar hún kom á vettvang hafi verið búið að loka göngunum. Hafi starfsmaður í gjaldkýli þá verið á tali við tvo menn, sem síðar kom í ljós að höfðu hitt ökumanninn og ekið honum til Akraness. Hún kveðst hafa rætt við mennina og fengið greinagóða lýsingu á ökumanninum og upplýsingar um að áfengislykt hefði verið af honum.” Síðar er skráð í þessa skýrslu: “Jóhanna er spurð um það hvort hún hafi séð Ólaf drekka eitthvað heima að Kirkjubraut 2. Hún segir að hann hafi ekkert drukkið á meðan hún sá til. Hún er spurð um hvort hún hafi séð einhver ummerki eftir áfengisdrykkju þar heima. Það kveðst hún ekki hafa séð. Hún kveðst hafa svipast um eftir því, en engin ummerki hafi verið um það. Hún segir að þegar þau ræddu við Ólaf þarna á vettvangi óformlega og á leiðinni á lögreglustöð hafi hann sagt þeim að hann hafi verið að drekka nóttina áður, þ.e. að sulla í bjór. Hún er spurð um hvort hún hafi verið viðstödd skýrslutökuna af Ólafi. Hún kvaðst hafa verið það. Aðspurð skýrir hún frá því að Ólafur hafi verið spurður nákvæmlega um drykkju og hafi hann skýrt frá því að hann hafi verið að drekka bjór fram á nótt. Hún er spurð um hvort hann hafi verið spurður um hvort hann hafi drukkið eftir aksturinn. Hún segir að Viðar Einarsson hafi gert það og Ólafur hafi svarað því að það hefði hann ekki gert.”
Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi vitnið Jóhanna Heiður frá atvikum mjög á líkan veg og í frumskýrslu lögreglu og í framburðarskýrslu sinni fyrir lögreglu.
Vitnið kvaðst hafa kannað vettvang þar sem óhappið varð í göngunum. Bíllinn hefði verið mikið skemmdur og mikið brak í göngunum. Göngunum hefði verið lokað. Hún kvaðst hafa mælt þær vegalengdir sem fram koma í frumskýrslu. Aðspurð sagði vitnið að allt brakið í göngunum hefði verið úr bifreiðinni, nema hvað eitthvað hefði verið úr umferðarskiltum.
Eftir vettvangskönnun kvaðst vitnið hafa farið út á Skaga. Hefði hún þá frétt að ákærði væri búinn að hringja og tilkynna sig sem ökumann og að Sigþóra, eiginkona hans, hefði hringt á undan honum og tilkynnt að hún hefði verið ökumaður. Á lögreglustöðinni hefði þá verið Jón Þórir Leifsson lögreglumaður, og Viðar Einarsson varðstjóri hefði verið að koma til vinnu. Strax hefði verið farið heim til ákærða og hann handtekinn vegna meints ölvunaraksturs.
Vitnið Jóhanna Heiður var spurð um atvik við handtökuna á heimili ákærða. Hún sagði að ákærði og eiginkona hans hefðu komið til móts við lögreglumennina, sig og Jón Þóri Leifsson, fram í anddyrið. Ákærði hefði síðan vikið aðeins inn fyrir, og hún hefði tekið “tvö skref á eftir honum inn”. Hún hefði þá séð stofuna og vel inn í eldhúsið. Hún sagði að ákærði hefði verið að seilast eftir einhverju, hún héldi að það hefðu verið sígarettur, hún gæti ekki fullyrt hvað það var. Hún sagðist, aðspurð, ekki hafa séð ákærða með glas í hendi og ekki ummerki eftir áfengisdrykkju. Kaffibollar og glös hefðu verið á eldhúsborði, en engar áfengisumbúðir; hún hefði svipast um eftir slíku.
Vitnið sagði að áfengisþefur hefði verið af ákærða, en hann hefði ekki verið mjög ölvaður. Hann hefði verið samvinnufús, og henni hefði fundist að hann iðraðist gjörða sinna. Hann hefði nefnt það að hann hefði haft áhyggjur af afskiptum lögreglu af málinu, þar sem hann hefði verið að drekka bjór um nóttina. Hann hefði sagt þetta aðspurður.
Vitnið Jóhanna Heiður kvaðst hafa verið viðstödd þegar varðstjórinn Viðar Einarsson tók skýrslu af ákærða. Hún kvaðst muna að ákærði hefði verið spurður um hvort hann hefði drukkið áfengi eftir að akstri lauk, bæði í lögreglubifreiðinni á leið á lögreglustöðina og svo í varðstjóraskýrslunni. Viðar Einarsson hefði spurt hann skýrt að þessu. Hún kvaðst hafa staðið við skrifborðið þegar Viðar skráði þetta í tölvuna og hefði lesið þetta af skjánum. Hún kvaðst hafa lesið skýrsluna en ekki tekið eftir að vantaði á um þetta útprentunina. Ákærði hefði svarað að hann hefði ekki neytt áfengis eftir að akstri lauk. Hún sagðist hafa séð Viðar Einarsson skrifa þetta í varðstjóraskýrsluna, en það hefði ekki prentast út.
Vitnið sagðist hafa reynslu af að umgangast fólk sem hefði drukkið áfengi, bæði sem fyrrum barþjónn og síðar sem lögreglumaður, og lyktin af ákærða hefði ekki verið þess konar að hann hefði verið nýbúinn að drekka áfengi.
Viðar Einarsson varðstjóri lögreglu gaf skýrslu fyrir dómi og áður fyrir lögreglu.
Fyrir dómi sagðist vitnið hafa verið á frívakt þennan morgun sem atvik máls gerðust, en það hefði verið hringt í sig “eitthvað milli 9 og 10” og hann þá farið niður á lögreglustöð. Lögreglumennirnir Jóhanna Heiður og Jón Þórir hefðu verið á vakt. Þegar hann hefði verið kominn þangað hefði verið ákveðið að fara heim til ákærða til að fá hann til að koma á stöðina. Þar hefði vitnið tekið af honum varðstjóraskýrslu.
Vitnið sagði að ákærði hefði verið rólegur, prúður, snyrtilegur, en svolítið sleginn yfir því sem gerst hafði. Það hefði verið af honum áfengislykt.
Ákærði hefði skýrt svo frá að hann hefði verið að koma heim frá vinnu, hefði verið að vinna á bar fram eftir nóttu “og verið á leiðinni heim þegar þetta gerðist” Hann hefði verið spurður um áfengisneyslu fyrir aksturinn og hann hefði orðað svarið þannig, að hann hefði verið að sulla í bjór um kvöldið og nóttina. Ákærði hefði ekki svarað því hve mikið hann hefði drukkið.
Vitnið minnti að ákærði hefði nefnt það að hann hefði lagt sig áður en hann hóf akstur heim.
Aðspurður sagði vitnið Viðar að ákærði hefði verið spurður um neyslu áfengis eftir að akstri lauk, og ákærði hefði svarað spurningunni neitandi, hefði sagt að hann hefði ekki neytt áfengis eftir að akstri lauk.
Vitnið var spurt af hverju ekki hefði verið tekið þvagsýni úr ákærða. Viðar svaraði að segja mætti að það hefði verið klaufaskapur, en þar hefði spilað inn í að ákærði hefði verið þægilegur og samvinnufús við skýrslutökuna, “þannig að við töldum að það væri kannski ekki ástæða til að gera það”. Þeir hefðu talið málið liggja það ljóst fyrir.
Vitnið Viðar kvaðst, aðspurður, hafa slegið spurningar og svör skýrslunnar inn í skýrslugerðarkerfi lögreglunnar, en spurning og svar um drykkju eftir akstur hefði ekki prentast á skýrslu-eyðublaðið, einhverra hluta vegna. Hann kvaðst ekki hafa áttað sig nógu fljótt á þessu, en hefði svo farið inn í forritið aftur, og þá hefði þetta verið þar.
Vitnið sagði að lögreglumaðurinn Jóhanna Heiður hefði verið viðstödd skýrslutökuna af ákærða. Hún hefði lesið skýrsluna af tölvuskjánum eftir að hún hefði verið skrásett þar. Hann kvaðst ekki hafa lesið skýrsluna upp fyrir ákærða, en hann hefði sjálfur lesið útprentunina. Sjálfur hefði hann bara lesið skýrsluna af tölvuskjánum.
Undir vitnið var borið vottorð embættis ríkislögreglustjóra um það hvað í umrædda skýrslu var skráð í tölvunni. Vitnið kvaðst ekki áður hafa séð þetta skjal.
Hinn 16. maí 2000 tekur Viðar Stefánsson lögreglufulltrúi skýrslu af vitninu Viðari Einarssyni. Þar er þetta eftir honum haft: “Viðar tekur það fram að hann hafi spurt Ólaf um það hvort hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk. Ólafur hafi svarað því neitandi. Mætti kveðst haf áréttað spurninguna við hann, þar sem Ólafur hafi hváð við spurningunni. Kveðst mætti hafa útskýrt fyrir honum spurninguna og ekkert hafi farið á milli mála að Ólafur skildi hana og svaraði henni neitandi. Mætta er bent á að þessi spurning komi ekki fram í nefndri varðstjóraskýrslu. Mætti svarar því að hún sé þar rituð, en hafi ekki prentast út. Hann segir að hann hafi ekki tekið eftir þessu fyrr en um var talað nokkru eftir þennan atburð. Hann segir að svar kærða sé í beltinu Vímuakstur Ölvunarakstur undir liðnum: Athugasemdir ökumanna. Þar prentist aðeins hluti af málsgreininni sem þar er rituð, en við skoðun í tölvuforritinu sjáist að þar stendur: Ökumaður kveðst hafa verið að koma frá vinnu sinni sennilega dottað, lent utan í ökumaður kveðst aðspurður ekki hafa drukkið áfengi eftir að hann hætti að aka”.
Jón Þórir Leifsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir lögreglu og fyrir dómi.
Vitnið var á vakt umræddan morgun með lögreglumanninum Jóhönnu Heiði.
Í skýrslu sem vitnið Jón Þórir gaf fyrir lögreglu 17. maí 2000, er þetta eftir honum haft: “Jón segir að laust eftir kl. 09:00 hafi Sigþóra Gunnarsdóttir eiginkona Ólafs Hallgrímssonar hringt á lögreglustöðina og hafi hún sagt mætta sem varð fyrir svörum að hún hefði verið ökumaður bifreiðarinnar þegar óhappið varð. Jón kveðst hafa spurt hana um það hvers vegna hún hafi ekki tilkynnt óhappið strax, eins og henni hefði borið að gera. Hún hafi svarað því að sér hafi orðið svo mikið um að hún hafi ekki áttað sig á því (panikerað), en síðan fengið far með einhverjum að norðan, sem hefðu skutlað sér út eftir. Jón kveðst hafa rætt við Sigþóru um bílinn og hafi þau rætt um að það þyrfti að fjarlægja bílinn. Jón segir að skömmu síðar eða kl. 09:12 hafi Ólafur Hallgrímsson síðan hringt á lögreglustöðina og skýrt frá því að hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar. Hann hafi sagst hafa panikerað og þess vegna farið af vettvangi. Jón kveðst hafa spurt Ólaf um það hvort hann hafi verið að drekka. Hann hafi jánkað því og sagst hafa drukkið tvo bjóra.”
Fyrir dóminum skýrði vitnið Jón Þórir svo frá að hann hefði farið heim til ákærða ásamt Jóhönnu Heiði. Þau hefðu bæði farið inn fyrir dyr. Ákærði hefði verið þar fyrir framan þau. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa séð nein merki þess að ákærði hefði verið að drekka áfengi.
Ákærði hefði verið í þokkalegu ástandi. Það hefði verið af honum áfengisþefur. Þau, lögreglumennirnir, hefðu spurt hann að því á leiðinni á lögreglustöðina hvort hann hefði verið að drekka áfengi, og hann hefði sagst hafa verið að drekka bjóra um nóttina.
Vitnið Jón Þórir kvaðst ekki hafa verið viðstaddur skýrslutöku af ákærða og gæti ekki borið um hvort ákærði hefði verið spurður um áfengisneyslu eftir að akstri lauk. Ákærði hefði ekki minnst á það svo hann heyrði, að hann hefði verið að drekka áður en lögreglumennirnir komu á heimili hans.
Viðar Stefánsson lögreglufulltrúi bar vitni fyrir dómi. Hann kvaðst hafa komið að málinu sem rannsakandi, annast framhaldsrannsókn málsins. Hann hefði tekið skýrslur af vitnum og ákærða.
Ásmundur Jónsson bar vitni fyrir lögreglu og fyrir dómi.
Í skýrslu sem tekin var af honum fyrir lögreglu 17. maí 2000 greinir hann frá því að hann hafi verið á leið til vinnu sinnar [hjá Norðuráli á Grundartanga] ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni. “Hann kveðst hafa ekið inní Hvalfjarðargöngin og þá ekið inn í rykský. Hann segir að þeir hafi síðan séð drasl á veginum og síðan komið að Lancruser [svo] jeppanum, þar sem honum var ekið á felgunum inní útskot sem er í göngunum. Hann kveðst hafa ekið á eftir honum og stöðvað til að þess að bjóða fram aðstoð. Maðurinn hafi komið inn í bílinn til þeirra og hafi hann beðið þá um að gera sér greiða að keyra sig heim. Hann hafi sagt að hann væri hræddur um að það mældist í sér, þar sem hann væri búinn að drekka tvo eða þrjá bjóra. Mætti segir að maðurinn hafi verið ákveðinn og kveðst mætti hafa ekið með hann til Akraness og sett hann út við fyrstu gatnamótin. Ásmundur er spurður um útlit mannsins. Hann segir að hann hafi virst sljór og áfengislykt hafi verið af honum . . . hann hafi ekki borið nein greinileg ölvunarmerki önnur en að hann virtist sljór og áfengislykt var af honum.”
Fyrir dómi greindi vitnið Ásmundur frá á mjög svipaðan hátt og í skýrslu sinni fyrir lögreglu. Hann hefði ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni komið að ákærða í bíl hans í Hvalfjarðargöngum. Ákærði hefði beðið sig að aka sér út á Akranes. Sér hefði fundist þetta skrýtið. Ákærði hefði gefið þá skýringu að hann hefði verið búinn að drekka tvo-þrjá bjóra. Vitnið hefði fundið áfengislykt af honum strax og hann kom inn í bílinn. Hann kvaðst aðspurður ekki geta gert sér grein fyrir hvort hún hefði verið af fötum ákæðra eða andardrætti. Vitnið sagði að ákærði hefði verið sljór þegar hann kom út úr bíl sínum.
Gunnar Snorri Gunnarsson gaf skýrslu sem vitni fyrir lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslu lögreglu sem tekin var af honum 17. maí 2000, er þetta eftir honum haft: “Hann segir að þegar hann [þ.e. ákærði] kom inn í bílinn hafi hann strax fundið af honum áfengisþef. Maðurinn hafi spurt þá hvort þeir væri til í að gera sér greiða. Mætti kveðst hafa svarað honum að það færi eftir því hvað það væri. Maðurinn hafi þá sagt að hann væri hræddur um að það gæti mælst í sér, þar sem hann hefði drukkið tvo eða þrjá bjóra um morguninn og hann ætlað[i] að láta konuna sína tilkynna óhappið, þar sem þetta væri svo mikið tjón. Mætti segir að þeir hafi sagt honum að þeir myndu ekki ljúga neitt fyrir hann. Frekar spurður kveðst mætti telja víst að áfengisþefurinn hafi verið af andardrætti mannsins. Segir að lyktin hafi verið eins og af fólki sem hefur verið við drykkju. Mætti tekur það fram að maðurinn hafi lýst því að hann grunaði að hann væri ölvaður.”
Vitnið Gunnar Snorri skýrði fyrir dómi svo frá að þeir Ásmundur hefðu tekið ákærða upp í bíl sinn í göngunum og ekið honum upp úr þeim að norðan. Ákærði hefði þá spurt hvort þeir væru tilbúnir að gera sér þann greiða að aka sér heim. Hann hefði gefið þá skýringu að hann væri búinn að drekka tvo eða þrjá bjóra og væri hræddur um að gæti mælst í sér og ætlaði að láta konuna sína tilkynna að hún hefði ekið bílnum. Vitnið sagði að ákærði hefði ekki tiltekið tíma, hvenær hann hefði drukkið þessa tvo eða þrjá bjóra.
Vitnið kvaðst hafa fundist áfengislykt af ákærða strax og hann settist inn í bílinn til þeirra. Hann kvaðst telja að sú lykt hefði verið af andardrætti.
Vitnið sagði að Ásmundur hefði stýrt bifreið þeirra. Þeir Ásmundur hefðu báðir verið starfsmenn Norðuráls þegar þetta var.
Hreggviður Hendriksson, gangavörður og innheimtumaður við Hvalfjarðargöng, bar vitni fyrir lögreglu og fyrir dómi. Í lögregluskýrslu sem tekin var af honum 22. maí 2000, skýrir hann svo frá að þennan umrædda morgun hafi vegfarandi komið í gjaldskýlið og skýrt frá því að jeppabifreið hafi verið ekið á vegg ganganna og síðan skilin eftir í útskoti í göngunum. Hann kveðst strax hafa hringt í lögregluna á Akranesi að tilkynna um óhappið. Starfsmaður við göngin, sem verið hafi á næturvakt og ekki verið farinn af vinnustað, hafi farið niður í göngin til að skoða aðstæður. Ökumaður hafi þá verið farinn af vettvangi. Síðar segir: “Hann segir að um svipað leyti og lögreglan kom á vettvang hafi tveir menn komið og tilkynnt honum að þeir hefðu tekið ökumann jeppans upp og ekið honum til Akraness. Hann segir að hann hafi kallað í lögregluna og bent henni á mennina og hafi lögreglan rætt við þá. Hreggviður skýrir frá því að í millitíðinni, þ.e. áður en mennirnir komu, hafi Sigþóra Gunnarsdóttir eiginkona Ólafs Hallgrímssonar hringt og sagt mætta að hún hafi ekið bifreiðinni. Hann kveðst þá hafa spurt hana hvers vegna hún hefði ekki komið til hans og sagt honum frá því strax, en hún hafi svarað því að það hafi komið á hana panik og hún farið í kerfi og ekki vitað hvað hún átti að gera. Hún hafi síðan rætt um það hvernig hún gæti látið fjarlægja bílinn.” Vitnið Hreggviður skýrir síðan frá því í lögregluskýrslunni að á að giska hálftíma síðar hafi ákærði hringt í hann og sagt honum að hann hefði ekið bílnum, “það þýddi ekkert að þræta fyrir það. Hreggviður kveðst þá hafa spurt hann að því sama og hafi Ólafur sagt að hann hefði farið í panik og ekki vitað hvað hann ætti að gera. Hann hafi verið búinn að fá sér bjór og fundið eitthvað á sér, en ekki verið fullur.”
Fyrir dóminum bar vitnið Hreggviður alveg á sama veg og í skýrslu sinni fyrir lögreglu. Hann sagði að ákærði hefði sagt sér að hann hefði verið búinn að fá sér einn bjór, þarna um morguninn að því er sér hefði skilist, en ákærði hefði ekki tilgreint neinn tíma.
Sigþóra Gunnarsdóttir, eiginkona ákærða, var kvödd til þess 22. maí 2000 að gefa vitnaskýrslu fyrir lögreglu. Hún kaus þá með vísan til 50. gr. laga nr. 19/1991 að gefa ekki skýrslu.
Sigþóra gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð máls.
Vitnið Sigþóra var spurð hvers vegna hún hefði skorast undan því að gefa skýrslu fyrir lögreglu. Hún sagði að Viðar Stefánsson lögreglufulltrúi hefði sóst eftir að taka af henni skýrslu. Hún hefði þá haft samband við verjanda. Samkvæmt ráðleggingum hans, hefði hún ekki viljað svara spurningum lögreglu, þar sem verjandi gat ekki verið viðstaddur skýrslutökuna. Viðar hefði verið búinn að gefa einhvern frest til þessarar skýrslugjafar, en henni hefði fundist hann vera mjög stífur, hann hefði ýtt mjög á sig að koma að gefa þessa skýrslu.
Vitnið Sigþóra var spurð í hvað skyni hún hefði hringt í starfsmann Spalar við Hvalfjarðargöng og lögregluna á Akranesi að morgni 24. apríl 2000. Hún sagði að ákærði, eiginmaður hennar, hefði setið í stofunni þeirra þegar hún kom á fætur um morguninn. Þetta hélt hún að hefði verið kl. hálfníu til níu. Hann hefði verið “í miklu sjokki”. Hann hefði sagt sér að hann hefði eyðilagt bílinn inni í göngum. Hún hefði þá ákveðið að hringja inn í gjaldskýli til að spyrja út í bílinn, ástand hans og hvort hann væri fyrir. Þau Hreggviður hefðu rætt saman um það hvernig best væri að fjarlægja bílinn. Hann hefði sagt sér að lögreglan væri komin í málið og hefði ráðlagt sér að tala við hana. Það hefði hún gert. “Og hafi ég hugsanlega sagt að ég hefði ekið bílnum, þá hefur það sjálfsagt verið til þess að komast að því, ég vildi reyna að komast að því hvað væri í gangi.” Hún sagðist ekki hafa talið að hún hefði verið að gefa Hreggviði neina skýrslu. Hún hefði talað við Jón Leifsson lögreglumann, og hann hefði sagt sér að búið væri að gera ráðstafanir til að sækja bílinn. Ef hún hefði hugsanlega sagt að hún hefði ekið bílnum, þá hefði ákærði hringt stutt síðar til að leiðrétta þann misskilning, “sem okkur fór á milli”. Vitnið Sigþóra var síðar spurð hvort hún hefði sagt Hreggviði að hún hefði verið ökumaður bílsins OM-943 þegar óhappið varð. Svar: “Ég get hugsanlega hafa sagt eitthvað í þá veru, ég get ekki fullyrt um það.” Enn nánar spurð sagði hún að hún hefði getað gefið það í skyn til að komast að því í hvaða ástandi bíllinn var í. “Ég get hvorki sagt af eða á um það að ég hafi sagt við hann að ég keyrði bílinn.” Þegar hér var komið skýrslutöku var borinn undir vitnið framburður vitnanna Hreggviðar Hendrikssonar og Jóns Þóris Leifssonar um þetta atriði. Jafnframt var sannleiksskyldan og vitnaábyrgðin brýnd fyrir vitninu. Síðan var sama spurning enn borin upp við vitnið; þ.e. hvort hún hefði sagt Hreggviði að hún hefði verið ökumaður bílsins. Vitnið svaraði: “Hugsanlega get ég hafa sagt honum það já...” Vitnið bætti við að það gæti ekki borið um það nákvæmlega hvað hún sagði þennan morgun. Hún hefði verið í miklu andlegu ójafnvægi. Vitnið Sigþóra var síðan spurð hins sama um símtal sitt við Jón Þóri Leifsson lögreglumann, hvort hún hefði sagt honum að hún hefði verið ökumaður bílsins þegar óhappið varð. Svar:”Ég man ekki eftir því.”
Vitnið Sigþóra var spurð hvort ákærði hefði verið undir áhrifum áfengis þegar hún kom fram í stofuna. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við það. Hún kvaðst ekki hafa séð hann drekka áfengi þá, en hún hefði séð hann hella sér vodka í glas “þarna einhvern tíma á eftir, eftir að ég var búinn að tala við Jón [Þóri Leifsson] og Hreggvið og Óli [ákærði] líka búinn að hringja upp eftir.” Hún kvaðst hafa séð eina bjórflösku inni í stofu og vodkaflösku í eldhúsi. Trúlega hefði ákærði drukkið einhver glös þarna, en kvaðst ekki geta svarað því hve mikið hann hefði drukkið. Það sem hún hefði séð hann drekka hefði hann drukkið inni í stofu.
Vitnið sagðist hafa spurt ákærða að því hvort hann hefði verið fullur undir stýri og hann hefði neitað því, og hún hefði ekki séð áfengi á honum. Hún var spurð hvort verið hefði áfengisþefur af ákærða. Hún sagði að það hefði ekki verið meira en gengur og gerist, af fötunum hans þegar hann kæmi heim úr þessari vinnu sem hann væri í, þung reykingalykt og áfengislykt af fötum. Hún hefði ekki merkt áfengislykt af andardrætti.
Vitnið var spurt hvort þau hjón hefðu búist við að lögregla kæmi heim til þeirra. “Ekkert frekar, nei,” svaraði vitnið, og bætti við að þau hefðu ekki átt von á henni heim.
Vitnið sagði að þau hjón hefðu rætt um óhappið, að ákærði hefði valdið tjóni á göngunum og að þau hefðu haft áhyggjur af þessu vegna þess að hann væri á skilorði.
Forsendur og niðurstöður.
Eftir að ákærði var handtekinn fimmtudagsmorguninn 20. apríl 2000 var honum dregið blóð á lögreglustöðinni á Akranesi. Greining á alkóhólinnihaldi blóðsins sýndi endanlega niðurstöðu vera 0,87 o/oo. Sú tala hefur ekki verið rengd.
Sannað er með vætti vitnanna Jóhönnu Heiðar Gestsdóttur og Viðars Einarssonar að ákærði var um það spurður, þegar tekin var af honum svokölluð varðstjóraskýrsla, hvort hann hefði drukkið áfengi eftir að akstri lauk og að hann svarði þessu neitandi. Vottorð embættis ríkislögreglustjóra um það hvað skráð var við skýrslutökuna í skýrslugerðarkerfi lögreglu, er þessu til staðfestingar.
Um ölvunarakstur ákærða að morgni 20. apríl 2000 eru fjölmargar vísbendingar í málinu. Vitnið Ásmundur Jónsson og Gunnar Snorri Gunnarsson bera báðir að af honum hafi verið áfengisþefur, og Gunnar Snorri taldi að sú lykt hefði verið af andardrætti. Samkvæmt vætti þessara vitna sagði ákærði þeim að hann hefði verið að drekka bjór og væri hræddur um að gæti mælst í sér. Vitnið Hreggviður Hendriksson hefur eftir ákærða að hann hafi verið búinn að fá sér bjór og hafi fundið eitthvað á sér, en ekki verið fullur. Vitnið Jóhanna Heiður Gestsdóttir sagði í skýrslu fyrir lögreglu, sem hún staðfesti fyrir dómi, að ákærði hefði sagt henni og Jóni Þóri Leifssyni “óformlega og á leiðinni á lögreglustöð” að hann hafi verið að drekka nóttina áður, þ.e. að sulla í bjór. Vitnið bar fyrir dómi að áfengisþefur hefði verið af ákærða, en hann hefði ekki verið mjög ölvaður. Hann hefði nefnt það að hann hefði haft áhyggjur af afskiptum lögreglu af málinu, þar sem hann hefði verið að drekka bjór um nóttina. Vitnið Jón Þórir bar að þau, lögreglumennirnir, hefðu spurt ákærða að því á leiðinni á lögreglustöðina hvort hann hefði verið að drekka áfengi, og hann hefði sagst hafa verið að drekka bjóra um nóttina.
Í varðstjóraskýrsluna er skráð að eftir ákærða að drykkja hans hafi hafist kl. 23:00 19. apríl og staðið fram til 02:30 20. apríl. Undir þetta ritar ákærði og lögreglumaðurinn Jóhanna Heiðar vottar, enda var hún stödd við skýrslutökuna. Síðar, í framburðarskýrslu fyrir lögreglu 16. maí og fyrir dómi, hélt ákærði öðru fram, sagði að þarna hefði verið um misskilning að ræða. Getur sá framburður hans engan veginn talist sannverðugur.
Ákærði heldur því fram fyrir lögreglu 16. maí og síðar fyrir dómi, að hann hafi hafið drykkju heima hjá sér eftir að hann hringdi í lögreglu, kl. 09:12, og drukkið fjögur glös af vodka blandað í vatn, fjóra einfalda sjússa eða ríflega það, og að auki einn bjór. Síðar dró hann lítilleg úr þessu, kvaðst ekki viss um hvort glösin hefðu verið þrjú eða fjögur. Þetta kveðst hann hafa gert á tímanum sem leið frá því hann hringdi og þangað til lögreglumenn komu að handtaka hann kl. 09:48, þ.e.a.s. á 36 mínútum. Að mati dómara verður framburður þessi að teljast fjarstæðukenndur, enda hefur ákærði enga skynsamlega skýringu gefið á því, hvers vegna hann gat ekki þessarar drykkju þegar honum var dregið blóð litlu síðar á lögreglustöðinni.
Vitnið Sigþóra Gunnarsdóttir, eiginkona ákærða, hefur með vætti sínu stutt framburð ákærða. Að mati dómara getur framburður hennar ekki talist trúverðugur. Til þess bendir einkar greinilega framburður hennar um það hvað henni annars vegar og hins vegar Hreggviði Hendrikssyni og síðar Jóni Þór Leifssyni fór á milli í síma að morgni 20. apríl. Ber að meta framburð hennar í ljós þess að hún er nákomin ákærða.
Þegar virt er það sem hér að framan er saman dregið, er það að mati dómara hafið yfir vafa að fram er komin lögfull sönnun fyrir því að háttsemi ákærða er rétt lýst í ákæru. Hann er sannur að sök. Brot hans er í ákæru rétt fært undir lagaákvæði.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til sakaferils hans. Samkvæmt fram lögðu sakavottorði hefur hann 6 sinnum sætt refsingu. Fyrst var það á árinu 1975, þá lögreglustjórasekt fyrir brot á áfengislögum. Aftur gekkst hann undir lögreglustjórasátt, sekt vegna sams konar brots 1988. Enn lögreglustjórasótt, sekt, 1992 fyrir brot á 231. gr. og 209 gr. almennra hegningarlaga og laga nr. 53/1966. Á árinu 1993 gekkst hann undir dómsátt fyrir brot á siglingalögum o.fl. Í apríl 1998 var hann dæmdur í 2ja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot á 231. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Í september sama ár var hann dæmdur í 3ja mánaða fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands. Þeim dómi var áfrýjað, og með dómi Hæstaréttar 18. mars 1999 var hann sakfelldur fyrir brot á 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. alm. hgl. og dæmdur í 3ja mánaða fangelsi, þar af voru tveir mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár. Með broti þessa máls hefur ákærði rofið það skilorð. Ber því nú að taka upp skilorðshluta Hæstaréttardómsins og dæma hann með í þessu máli, sbr. sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Verður refsing tiltekin með hliðsjón af 77. gr. sömu laga.
Refsing ákærða þykir dómara hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi, en rétt þykir honum, að frestað verði fullnustu 2ja mánaða af þeirri refsivist og að sá hluti refsingarinnar falli niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 ber verða við kröfu ákæruvaldsins um að ákærði verði sviptur ökurétti. Þykir dómari hæfilegt að sviptingin standi 6 mánuði frá lögbirtingu dómsins.
Sakarkostnað allan ber að dæma ákærða til að greiða, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda hans, Jóns Einars Jakobssonar hdl., sem skulu vera 160.000 krónu auk virðisaukaskatts.
Við þingfestingu máls lagði ákærandi fram yfirlit yfir sakarkostnað. Er þar um að ræða kostnað vegna töku blóðsýnis og greiningar á alkóhólmagni í blóði. Við aðalmeðferð málsins lagði ákærandi og sækjandi málsins skjal sem ber yfirskriftina “Viðbótaryfirlit yfir sakarkostnað”. Er þar um að ræða kostnað, kr. 59.536, sem sýslumannsembættið á Akranesi hefur haft af því að láta flytja bifreið ákærða úr Hvalfjarðargöngum. Með fylgir ljósrit reiknings fyrir þennan flutning, og virðist bifreiðin hafa verið flutt út á Akranes. Við aðalmeðferð málsins krafðist verjandi ákærða þess að kröfu þessari yrði vísað frá dómi, en til vara að ákærði yrði sýknaður af henni. Taldi verjandi að hér væri ekki um sakarkostnað að ræða. Í 164. gr. sakamálalaganna nr. 19/1991 segir, að til sakarkostnaðar teljist “óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og meðferðar þess”. Fyrir því hefur engin grein verið gerð af hálfu ákæranda hvernig kostnaður við flutning bifreiðarinnar má teljast óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar eða meðferðar málsins. Hefur ekki verið sýnt fram á að hér sé um sakarkostnað að ræða. Ber því að verða við kröfu verjanda um að vísa þessari kröfu frá dómi.
Ólafur Þór Hauksson sýslumaður sótti málið.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Ákærði, Ólafur Hallgrímsson, sæti þriggja mánaða fangelsi, en fullnustu 2ja mánaða af þeirri refsivist skal fresta og að sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði er sviptur ökurétti í 6 mánuði frá lögbirtingu dóms þessa.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Jóns Einar Jakobssonar hdl., 160.000 krónur auk virðisaukaskatts. Vísað er frá dómi kröfu ákæranda um sakarkostnað á hendur ákærða að fjárhæð kr. 59.536 vegna flutnings bifreiðar.