Hæstiréttur íslands

Mál nr. 82/2005


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. október 2005.

 

Nr. 82/2005.

Sigurður og Júlíus ehf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Tómasi Þór Kárasyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

og

Tómas Þór Kárason

gegn

Sigurði og Júlíusi ehf.

Ó. Pét. ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Áferð ehf. og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting. Gjafsókn.

T slasaðist þegar hann var við vinnu í nýbyggingu, sem S ehf. hafði í byggingu. Varð slysið rakið til þess að plata á vinnupalli gaf sig undan þunga T með þeim afleiðingum að hann féll um 5,4 metra niður á gólf á neðstu hæð í stigahúsi byggingarinnar. Krafði hann félögin S ehf., Ó ehf. og Á ehf. um skaðabætur vegna slyssins. Deilt var um hver hefði átt að bera ábyrgð á frágangi vinnupallsins. Talið var að fyrirsvarsmaður S ehf. hafi á umræddum tíma í raun gegnt hlutverki byggingarstjóra við smíði hússins. Því hefði honum borið, samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að sjá um samhæfðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys í húsinu, sem margir verktakar voru að starfa við. Því bæri S ehf. skaðabótaábyrgð gagnvart T vegna slyssins. Ó ehf. og Á ehf. voru hins vegar sýknaðir af kröfu T. Hann var sjálfur látinn bera þriðjung af tjóninu þar sem honum mátti vera ljóst að pallurinn væri varhugaverður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2005. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 6. apríl 2005. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi og gagnstefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér 8.953.154 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.127.759 krónum frá 10. október 2001 til 1. ágúst 2002 og af 8.953.154 krónum frá þeim degi til 4. apríl 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 644.577 krónum. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Gagnstefndu, Ó. Pét. ehf. og Áferð ehf., krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður. Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu.

Eins og rakið er nánar í hinum áfrýjaða dómi leitar gagnáfrýjandi skaðabóta vegna líkamstjóns, sem hann hlaut í slysi 10. október 2001 þegar hann var í vinnu við nýbyggingu í eigu aðaláfrýjanda að Kríuási 17b í Hafnarfirði. Gagnáfrýjandi var þá ásamt Ingvari Þór Ólasyni að sandsparsla loft og veggi á efstu hæð í stigagangi hússins þegar vinnupallur, sem gagnáfrýjandi stóð á, lét undan og hann féll um 5,4 m niður á gólf á neðstu hæð. Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda starfaði hann á grundvelli verksamnings síns við gagnstefnda Ó. Pét. ehf., sem hafði tekið að sér að annast frágang veggja innanhúss undir málningu með verksamningi við gagnstefnda Áferð ehf., en það félag hafði með verksamningi við aðaláfrýjanda tekið að sér að sandsparsla og mála í húsinu að Kríuási 17.

Fallist verður á með héraðsdómi að slys gagnáfrýjanda verði rakið til þess að plata, sem nýtt var sem gólf á vinnupallinum, gaf sig undan honum vegna þess að sagað hafði verið upp í neðra borð hennar. Eins og málið liggur fyrir verður að líta svo á að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hafi á umræddum tíma í raun gegnt hlutverki byggingarstjóra við smíði hússins. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum bar honum af þessum sökum að sjá um að samhæfðar væru ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys í húsinu, sem margir verktakar voru að starfa við. Vegna þessa hvíldi á honum meðal annars að tryggja að vinnupallurinn, sem upphaflega var reistur af starfsmönnum aðaláfrýjanda, væri ekki notaður af öðrum, sem unnu í húsinu, nema hann væri í fullnægjandi horfi. Gagnáfrýjandi hefur neitað því að hann hafi komið plötunni, sem brast undan honum, fyrir á vinnupallinum og gegnir sama máli um áðurnefndan Ingvar. Þótt ósannað sé að menn á vegum aðaláfrýjanda hafi látið plötuna á þennan stað, var fyrirsvarsmanni hans skylt sökum þess, sem áður greinir, að koma í veg fyrir hættuna, sem af þessu leiddi. Vegna þessa ber aðaláfrýjandi skaðabótaábyrgð gagnvart gagnáfrýjanda, en með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu gagnstefndu Ó. Pét. ehf. og Áferðar ehf. af kröfu gagnáfrýjanda.

Gagnáfrýjandi er menntaður málari og hafði unnið um árabil við þá iðngrein þegar hann varð fyrir fyrrnefndu slysi. Með vísan til þess, sem greinir í héraðsdómi, mátti gagnáfrýjanda vera ljóst að varhugavert væri að notast við vinnupallinn eins og hann var úr garði gerður. Eins og málið liggur fyrir verður á hinn bóginn ekki litið fram hjá því að annmarkar á pallinum, sem slys gagnáfrýjanda verður samkvæmt áðursögðu rakið til, blöstu ekki við þegar hann hóf verk sitt á umræddum stað. Verður honum ekki metið út af fyrir sig til gáleysis að hafa ekki snúið plötunni á pallinum við til að gæta að neðra borði hennar. Að þessu virtu er hæfilegt að gagnáfrýjandi beri þriðjung tjóns síns sjálfur, en aðaláfrýjandi beri það að 2/3 hlutum.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að heildartjón gagnáfrýjanda af völdum slyssins nemi 5.621.902 krónum. Verður aðaláfrýjandi samkvæmt framansögðu dæmdur til að bæta þetta tjón með 3.747.935 krónum. Í samræmi við kröfugerð gagnáfrýjanda bera bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska, samtals 689.097 krónur, 4,5% ársvexti frá 10. október 2001 til 1. ágúst 2002, en heildarfjárhæðin frá þeim degi til 4. apríl 2003, þegar liðinn var mánuður frá því að gagnáfrýjandi beindi kröfu um skaðabætur vegna slyssins til aðaláfrýjanda. Ber aðaláfrýjanda að greiða dráttarvexti frá þeim degi eins og nánar greinir í dómsorði.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem í dómsorði segir. Rétt er að málskostnaður milli gagnáfrýjanda og gagnstefndu Ó. Pét. ehf. og Áferðar ehf. í héraði falli niður, en dæma verður hann til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Gagnáfrýjandi hefur notið gjafsóknar í héraði og fyrir Hæstarétti. Málflutningsþóknun lögmanns hans ákveðst í einu lagi á báðum dómstigum eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu gagnstefndu, Ó. Pét. ehf. og Áferðar ehf., af kröfu gagnáfrýjanda, Tómasar Þórs Kárasonar.

Aðaláfrýjandi, Sigurður og Júlíus ehf., greiði gagnáfrýjanda 3.747.935 krónur með 4,5% ársvöxtum af 689.097 krónum frá 10. október 2001 til 1. ágúst 2002 og af 3.747.935 krónum frá þeim degi til 4. apríl 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði í ríkissjóð samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málskostnaður milli gagnáfrýjanda og gagnstefndu fellur niður í héraði, en greiða skal hann hvorum þeirra 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 600.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2004.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 8. og 25. ágúst 2003 og dómtekið 15. nóvember sl. Stefnandi er Tómas Þór Kárason, Knarrarbergi 1, Þorlákshöfn.  Stefndu eru Áferð ehf., Sigurhæð 12, Garðabæ, Ó. Pét. ehf., Laufrima 23, Reykjavík og Sigurður og Júlíus ehf., Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði. Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu. Eru engar kröfur gerðar gegn réttargæslustefnda sem hefur ekki uppi kröfur gegn öðrum aðilum.

       Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd sameiginlega til greiðslu 8.953.154 króna ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 10. október 2001 til 4. apríl 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 644.577 krónum. Hann krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

         Stefnda Áferð ehf. krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda, en til vara að krafan verði lækkuð verulegra. Stefnda Áferð ehf. krefst einnig málskostnaðar.

         Stefndi Ó. Pét. ehf. krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda, en til vil vara að krafan verði lækkuð verulegra. Stefndi Ó. Pét. ehf. krefst einnig málskostnaðar.

         Stefndu Sigurður og Júlíus ehf. krefjast sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.

         Málið var upphaflega einnig höfðað gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf. Í þinghaldi 16. janúar 2004 óskaði stefnandi eftir því að aðild félagsins yrði breytt þannig að það hefði einungis réttargæsluaðild og væru engar kröfur gerðar á hendur félaginu. Af hálfu félagsins var fallist á þessa breytingu og var þá fallið frá öllum kröfum gegn stefnanda.

         Í tilefni af áskorunum stefndu óskaði stefnandi álits örorkunefndar undir meðferð málsins. Örorkunefnd lét uppi álit sitt 4. maí 2004 og eru endanlegar dómkröfur stefnanda miðaðar við álitið, eins og nánar greinir síðar.

I.

Málsatvik

         Stefnandi var að vinna við sandspörtlun í húsi nr. 17b við Kríuás í Hafnarfirði. Eigendur byggingarinnar voru stefndu Sigurður og Júlíus ehf. og höfðu þeir samið við stefndu Áferð ehf. um málningarvinnu. Það fyrirtæki er tryggt ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda. Stefnda Áferð ehf. hafði samið við stefnda Ó. Pét. ehf. um að sjá um sandspörtlun fyrir málningu. Starfaði stefnandi fyrir það félag samkvæmt verksamningi. Í málinu er ágreiningur um aðkomu stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf. að byggingarframkvæmdunum, einkum fyrirsvarsmanns félagsins, Júlíusar Júlíussonar byggingarmeistara.

       Hinn 10. október 2001 var stefnandi við störf sín ásamt samstarfsmanni sínum, Ingvari Ólafssyni, þegar hann féll af vinnupalli á þriðju hæð 5,4 m niður stigagang framangreindrar byggingar. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins sem skoðaði aðstæður samdægurs er aðstæðum lýst með eftirfarandi hætti:

„Hinn slasaði stóð ofan á vinnupalli sem hafði verið útbúinn þannig að hann var tengdur steyptum stigapalli annars vegar og hins vegar stigahandriði úr timbri, sem hafði verið framlengt til að útbúa pall á efstu hæðinni. Þessi pallur var sem framlenging á steyptu gólfi efstu hæðar. Lóðréttu stoðirnar voru úr 2x4 timbur­uppistöðum. Dregari úr 1x6 mótaviðvar fest lágrétt á uppistöðurnar og komu bitarnir  úr 1x6 þvert á hann og lágu upp á kant. Hins vegar sátu þessir bitar ofan á steypta stigapallinn ca 0,08-0,10 m inn á gólfið. Ofan á bitana hafði verið komið dokaplötu ca 3,0 m á lengd og 0,5 m á breidd. Samkvæmt upplýsingum vitnisins hafði verið sagað upp í dokaplötuna og virtist hún gefa undan þegar hinn slasaði steig út á plötuna þar sem sárið var. Hinn slasaði var að teygja sig að veggnum tröppumegin í ganginum. Engar fallvarnir voru á þessum palli. Fallhæðin var 5,4 m.  Engin niðurstaða fékkst um það hver hefði komið pallinum fyrir.“

 

Í lögregluskýrslum sem teknar voru 7. desember 2000 af stefnanda og 7. janúar 2002 af samstarfsmanni hans, Ingvari Þór Ólasyni, kemur fram að Júlíus Júlíusson, fyrirsvarsmaður Sigurðar og Júlíusar ehf., hafi bent þeim á að nota umræddan vinnupall eftir að þeir höfðu kvartað yfir vinnuaðstæðum í stigaganginum við hliðina og hafi þeir því ekki haft ástæðu til annars en treysta pallinum. Þá kemur fram í lögregluskýrslu stefnanda að nefndur Ingvar hafi verið við vinnu á pallinum áður en stefnandi steig út á hann og hafi stefnandi því ekki haft ástæðu til að efast um traustleika hans. Er þessi framburður í samræmi við skýrslur stefnanda og nefnds Ingvars fyrir dómi. Í skýrslum þeirra fyrir dómi kom einnig fram að þeir hefðu ekki rifið handrið til að komast út á pallinn eða gert breytingar á honum. Þeir hafi ekki séð sárið sem var í pallinum þar sem það snéri niður. Í skýrslu nefnds Ingvars fyrir dómi kom fram að platan sem var lögð niður sem gólf pallsins hafi ekki fyllt út í gólfflötinn og jafnframt ekki verið negld niður eða fest með öðrum hætti. Í umræddum skýrslum kom fram að stefnandi og Ingvar hafi litið á Júlíus Júlíusson, fyrirsvarsmann Sigurðar og Júlíusar ehf., sem hæstráðanda á byggingarstað.

         Í lögregluskýrslu, sem tekin var nefndum Júlíusi 5. maí 2003, kemur fram að umræddur pallur hafi verið byggður svo unnt yrði að slípa veggi og loft efst í stigahúsinu. Pallurinn hafi þjónað tilgangi sínum en hindrað eðlilega umferð upp á efsta stigapallinn. Því hafi Júlíus eða menn á hans vegum rifið pallinn að hálfu þegar slípun var lokið svo unnt yrði að ganga á efsta stigapallinn. Eftir hafi staðið stoðir út á opið milli stiganna og hafi aldrei átt að fara þar út á eða setja þar vinnupalla. Hafi þetta verið lokað rými. Hafi verið handrið til þess að hindra að menn færu út á stigaopið, en stefnandi og samstarfsmaður hans virðast hafa rifið þetta handrið frá til þess að komast út á pallinn og vinna við spörtlunina. Þegar unnið hafi verið  við að slípa stigahúsið í húsi nr. 17b hafi slípararnir notast við vinnupallinn og pall sem var lagður þar ofan á til frekara öryggis. Þann pall segir hann að stefnandi og samstarfsmaður hans hafi tekið og farið með í stigahús hússins 17a, en ekki komið með til baka og ekki notast við hann að neinu leyti. Í skýrslunni segir Júlíus það ekki rétt að hann hafi bent þeim á að nota pallinn. Í aðilaskýrslu Júlíusar fyrir dómi kom fram efnislega sami framburður og nú hefur verið greint frá. Auk þess kom fram að hann hefði upphaflega sjálfur smíðað umræddan vinnupall fyrir slípun veggja og lofts sem fyrirtækið Litli Klettur ehf. tók að sér. Eftir að Júlíus reif pallinn niður að hálfu sagðist hann hafa skilið þannig við hann að engin plata var yfir bitunum sem lágu þvert yfir stigaopið. Júlíus upplýsti að hann hefði ekki verið skráður byggingarstjóri á þeim tíma sem slysið varð heldur Jóhann Hlöðversson sem tók við byggingarstjórn þegar uppsteypa byggingarinnar hófst, en um hana hafi séð verktakafyritækið FRM bygging ehf. Hann staðfesti þó að hann hafi daglega verið á byggingarstað. Samkvæmt skýrslu Júlíusar var það ekki hans hlutverk eða fyrirtækisins að sjá málurum fyrir vinnupöllum eða öðru slíku og hafði hann enga skoðun á því hvernig þeir stæðu að verki sínu.

         Í stefnu segir að við fallið hafi stefnandi ekki misst meðvitund en vankast. Hann hafi verið fluttur á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss með sjúkrabifreið. Við slysið hafi stefnandi brotnað á hægra herðarblaði, rifbeinsbrotnað, tognað á mjóbaki, tognað á hægri úlnlið og einnig fundið fyrir óþægindum í hálsi. Þessir áverkar hafi leitt til óþæginda í mjóbaki sem leiði út í mjaðmagrind og læri og aftanverðan kálfa hægra megin. Jafnframt hafi stefnandi fundið fyrir dofa í báðum stórutám.

         Í áliti örorkunefndar 4. maí 2004 segir að skoðun leiði í ljós eðlilega hreyfigetu í hálsi og baki en eymsli yfir hryggtindum, einkum neðst í brjóstbaki og lendhrygg, svo og í vöðvum baks og herða og einnig í hálsvöðvum. Þá sé tjónþoli með nokkra hreyfiskerðingu í hægri úlnlið og eymsli við réttu og beygju en einnig komi fram dofi á ríflega lófastóru svæði á hægri rasskinn sem líklega sé eftir maráverka þar á vöðvum. Í álitinu er stöðugleikapunktum vegna slyssins talinn vera 1. ágúst 2002 og er stefnandi einnig talinn hafa verið að fullu óvinnufær og veikur fram að þeim degi, þar af tvo daga með rúmlegu. Þá er varanlegur miski og varanleg öroka metin 15% í áliti örorkunefndar. Er sú niðurstaða í samræmi við örorkumat Atla Þórs Ólafssonar læknis 20. janúar 2003. Eins og sakarefni málsins hefur verið afmarkað af aðilum er ekki ástæða til að rekja frekar heilsufarssögu stefnanda eða afleiðingar slyssins.

         Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu stefnandi, Júlíus Júlíusson fyrirsvarsmaður stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf.,  Sumarliði Aðalsteinsson fyrirsvarsmaður stefndu Áferðar ehf., Ólafur Pétursson fyrirsvarsmaður stefndu Ó. Pét. ehf. Þá gáfu skýrslu sem vitni Ingvar Ólafsson sem var við störf með stefnanda á slysdegi og Jóhann Guðni Hlöðversson skráður byggingarstjóri framkvæmdanna á slysdegi. Í skýrslu Sumarliða Aðalsteinssonar kom fram að stefnda Áferð ehf. hefði selt verkið að mestu út til undirverktaka, meðal annars til stefnda Ó. Pét. ehf. Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur við stefnda Ó. Pét. ehf., en ætlast hefði verið til þess að félagið sæi sjálft um sín öryggismál. Samkvæmt skýrslunni voru engir starfsmenn stefndu Áferðar ehf. við störf eða á byggingarstað þegar slysið varð. Aðspurður hver hefði verið byggingarstjóri framkvæmdanna taldi Sumarliði að það hefði verið Júlíus Júlíusson. Samkvæmt skýrslu Ólafs Pétussonar fól samningur stefnda Ó. Pét. ehf. við stefnanda í sér að stefnandi fengi greitt samkvæmt einingarverðum en stefnda Ó. Pét. ehf. sæi um efni og tæki. Ekki hafi verið um verkstjórn að ræða með stefnanda sem hafi verið með sveinspróf í málaraiðn. Aðspurður taldi Ólafur að stefndu Sigurður og Júlíus ehf. hefðu átt að sjá um að fullnægjandi vinnupallar væru fyrir hendi. Jóhann Guðni Hlöðversson staðfesti að hann hefði verið skráður byggingarstjóri á slysdegi. Aðkoma hans að verkinu hafi hins vegar takmarkast af uppslætti og uppsteypu og hafi það því verið mistök af hans hálfu að láta ekki skrá sig af verkinu. Hann taldi að Júlíus Júlíusson hefði séð um verkstjórn á svæðinu eftir að hann hvarf frá verkinu.

         Ekki er ekki ástæða til að rekja munnlegar skýrslur frekar.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi reisir málatilbúnaðs sinn á því að orsakir slyssins sé að finna í því að vinnupallurinn sem hrundi hafi verið alvarlega vanbúinn og er um það atriði vísað í framangreinda skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, þar sem meðal annars komi fram að áðurgreindur Júlíus Júlíusson hafi sagst ætla að sjá til þess að allir vinnupallar á staðnum yrðu yfirfarnir og lagaðir. Eftir slys stefnanda hafi hann frétt að þrátt fyrir athugasemdir Vinnueftirlits ríkisins hafi sami vinnupallur verið notaður og aðeins sett á hann ný plata í stað þeirrar sem brotnaði og nokkrar stoðir verið styrktar.

         Stefnandi byggir einnig á því að nefndur Júlíus hafi tjáð stefnanda að búið væri að reisa handrið og við handriðið væri búið að útbúa vinnupalla sem þeir gætu notað. Telur stefnandi að Júlíus hafi verið byggingarstjóri á vinnusvæðinu, verið þar mikið og séð að miklu leyti um daglega stjórnun. Er lýsingu Júlíusar á atvikum mótmælt að því leyti sem hún stangast á við framburð stefnanda og samstarfsmanns hans.

         Hvað varðar verkstjórn á vinnustað stefnanda er vísað til gr. 7.0. í framlögðum verksamningi milli stefnda Sigurðar og Júlíusar ehf. og stefnda Áferðar ehf. Þar komi fram að verktaki (Áferð ehf.) skuli sjá um verkstjórn eigin manna, en jafnframt komi fram að byggingarstjóri verkkaupa hafi úrslitavald ef upp komi ágreiningur um vinnubrögð eða vinnutilhögun á vinnusvæðinu. Í grein 10.0. í sama samningi komi fram að verktaki beri ábyrgð á því tjóni eða slysum sem hann kann að valda þriðja aðila meðan á framkvæmdum stendur og honum beri m.a. að hafa tryggingar í því skyni. Í grein 11.0. sé svo fjallað um öryggismál, en þar segi að verktaka sé skylt að fara eftir reglum, m.a. Vinnueftirlits ríkisins, varðandi útbúnað og umgang sem þarf að viðhafa í verki sem þessu. Tekið sé fram að ef það er ekki gert sé það alfarið á ábyrgð verktaka.

         Kröfum sé beint að stefndu þar sem telja verði að verkstjórn á vinnustað stefnanda hafi verið mjög ábótavant. Óljóst sé á hverjum skylda til verkstjórnar hvíldi. Þannig hafi Júlíus Júlíusson byggingarstjóri oftast verið til staðar á vinnusvæðinu og jafnframt sé tekið fram í verksamningi aðila að byggingarstjóri verkkaupa hafi úrslitavald, ef upp kemur ágreiningur um vinnubrögð eða vinnutilhögun á vinnusvæðinu. Af sama samningi sjáist að undirverktakinn Áferð ehf. hafi átt að sjá um alla almenna verkstjórn sinna manna á svæðinu. Þrátt fyrir það hafi ekki verið neinn á svæðinu frá stefndu Áferð ehf. og ekki heldur neinn frá stefnda, Ó. Pét. ehf.

         Stefnandi vísar til 14. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en þar komi fram að atvinnurekandi skuli gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kann að vera bundin við starf þeirra. Jafnframt eigi atvinnurekandi að sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín þannig að ekki stafi hætta af. Í 37. gr. sömu laga segi að vinnu skuli haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Á grundvelli þessara laga hafi svo verið settar reglur nr. 547/1996, en þær séu um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Í B-hluta IV. viðauka reglnanna sé m.a. fjallað um vinnupalla og þar komi fram í grein 16.1. að vinnupallar skuli hannaðir, byggðir og notaðir og þeim viðhaldið þannig að m.a. sé tryggt að þeir falli ekki niður. Í grein 16.2. segi að vinnupallar, gangbrýr og stigar fyrir vinnupalla skuli vera þannig hannaðir, byggðir, notaðir og þeim viðhaldið, að fólk falli ekki af þeim né verði fyrir fallandi hlutum. Í grein 16.3. sé svo fjallað um skyldu til að láta skoða vinnupalla. Ljóst sé að þessum reglum hafi ekki verið fylgt, hvorki að því leyti sem varðar vinnupall þann sem stefnandi og samstarfsmaður hans notuðust við né hvað varðar verkstjórn á svæðinu.

         Stefnandi beinir kröfu sinni að öllum stefndu á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Óljóst sé í málinu hver hafi staðið að byggingu þeirra vinnupalla sem stefnandi og  samstarfsmaður hans notuðu þegar slysið varð. Þá virðist einnig óljóst hver hafi farið með verkstjórn á slysstað en af lögregluskýrslu yfir stefnanda og Ingvari Ólafssyni virðist mega ráða að Júlíus Júlíusson hafi að mestu leyti séð um verkstjórn, en skv. samningi stefnda, Sigurðar og Júlíusar ehf. og stefnda, Áferðar ehf., hafi dagleg verkstjórn átt að vera í höndum hins síðarnefnda fyrirtækis. Að lokum hafi stefndi Ó. Pét. ehf. verið sá aðili sem stefnandi starfaði fyrir og því verði að telja að þeim aðila hafi borið að sinna verkstjórn sinna manna.

         Stefnandi byggir kröfur sínar um bætur við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 og gerir nánar grein fyrir kröfu sinni sem hér segir:

Tímabundin örorka:

Krafa stefnanda um tímabundna örorku byggir á 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og áliti örorkunefndar 4. maí 2004 þar sem stefnandi er talinn hafa verið óvinnufær frá 10. október 2001 til 1. ágúst 2002. Miðað er við þær tekjur sem stefnandi hafði árið fyrir slysið en þær námu, skv. skattframtali, kr. 2.526.129. Samkvæmt þessu nemur tímabundið atvinnutjón stefnanda alls 2.035.639 krónum (2.526.129 kr. / 12 x 9 2/3 ).

         Þjáningarbætur stefnanda eru reiknaðar á grundvelli 3. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt áðurgreindu áliti örorkunefndar var stefnandi rúmliggjandi í tvo daga og óvinnufær í 292 daga. Samkvæmt þessu nema þjáningarbætur alls 280.920 krónum (1.760 krónur- x 2 + 950 krónur x 292).

         Varanlegur miski stefnanda var metinn 15% og reiknast því 15% af 5.408.000, sem er uppreiknuð fjárhæð, sbr. 4. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt þessu nemur varanlegur miski 811.200 krónum.

         Við útreikning á varanlegri örorku stefnanda er miðað við tekjur síðustu tveggja ára en ekki síðustu þriggja ára. Ástæða þess er að tekjur ársins 1998 voru mun lægri en tekjur áranna 1999 (2.255.400 krónur / 182 x 226,7 eða 2.809.336 krónur að teknu tilliti til verðlagsbreytinga) og 2000 (2.526.197 krónur / 194,1 x 226,7 eða 2.950.404 krónur að teknu tilliti til verðlagsbreytinga), en þau ár voru tekjur stefnanda sambærilegar. Vísað er til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og telja verði að þær tekjur séu mun líklegri mælikvarði á framtíðarlaun stefnanda en tekjur ársins á undan. Miklar sveiflur hafi verið á launum hans, enda stefnandi oft og tíðum að vinna sem verktaki en ekki launamaður. Síðustu tvö ár fyrir slys hafi þó verið orðinn ákveðinn stöðugleiki í tekjum hans sem líklegt er að hefði haldist, ef ekki hefði komið til slyssins sem hér um ræðir. Meðaltekjur nemi því 2.879.870 krónum og við þær bætist 6 % framlag í lífeyrissjóð að fjárhæð 172.792 krónur. Varanleg örorka nemi því 5.825.395 krónum (15% x 12,722 x 3.052.662 krónum).

         Samkvæmt kröfugerð stefnanda dragast frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð  39.600 krónur og 45.919 krónur. Frá bótum fyrir varanlega örorku dragast greiðslur frá sömu stofnun að fjárhæð 559.058 krónur.

       Krafa stefnanda um vexti byggir á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og er gerð krafa um vexti frá 10. október 2001, en þann dag varð stefnandi fyrir slysinu. Krafist er dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. apríl 2003, en þann dag var liðinn mánuður frá því að stefnandi sendi stefnda, Sigurði og Júlíusi ehf., sundurliðaða bótakröfu.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

         Stefndu Sigurður og Júlíus ehf. telja grundvöll kröfugerðar stefnanda vanreifaðan, enda þótt ekki sé gerð sjálfstæð krafa um frávísun málsins. Að öðru leyti vísar þessi stefndi til þess að stefnandi hafi verið sjálfstæður verktaki samkvæmt samningi við undirverktaka þessa stefnda. Ekki hafi verið um að ræða samningssamband milli þessa stefnda og stefnanda eða skyldur þessa stefnda gagnvart stefnanda á grundvelli samnings. Þvert á móti hafi þessi stefndi samið um það við undirverktaka sinn, stefnda Áferð ehf., að hann sæi alfarið um alla framkvæmd umrædds verks, þ.á m. um nauðsynlega vinnuaðstöðu, verkpalla, öryggismál, ábyrgð, tryggingar.  Stefnandi verði því að sækja meinta bótakröfu sína á hendur þessum aðila eða eftir atvikum þeim aðilum sem hann hafi samið við.  Sú staðreynd ein að þessi stefndi hafi átt fasteign á byggingarstigi leiði ekki til sjálfkrafa bótaábyrgðar hans á vinnuslysum, sbr. meginreglu skaðabótaréttar um að verkkaupi beri ekki ábyrgð á saknæmum athöfnum sjálfstæðra framkvæmdaaðila nema skilyrði vinnuveitandaábyrgðar séu uppfyllt. Í þessu sambandi er mótmælt öllum staðhæfingum stefnanda um að Júlíus Júlíusson hafi farið með einhverskonar verkstjórn á staðnum eða gengt starfi byggingarstjóra. 

         Stefndu Sigurður og Júlíus ehf. telja að skoða verði þýðingu laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í því ljósi að stefnandi var ekki starfsmaður í skilningi laganna, sbr. t.d. 24. gr., heldur verktaki, og stefndu ekki atvinnurekandi, sbr. 4. kafla laganna. Hvað þetta varðar séu tilvísanir stefnanda til 14. gr. og 37. gr. laganna hrein  markleysa. Með sama hætti sé vangaveltum stefnanda um verkstjórn og fyrirkomulag hennar á staðnum mótmælt og enn minnt á stöðu stefnanda sem verktaka en ekki starfsmanns.  Stefnandi hafi þess utan enga tilburði haft uppi í þá veru að sýna fram á í hverju verkstjórn og þá meintur skortur á henni hefði mögulega breytt í þessu tilviki. Slys stefnanda, faglærðs verktaka, verði ekki rakið til skorts á verkstjórn heldur þeirrar stórkostlega gálausu ákvörðunar hans sjálfs og samverkamanns hans að nýta algjörlega óforsvaranlegan búnað sem vinnupall við verk sitt.  Að því marki sem ákvæði laga nr. 46/1980 verði mögulega talin koma til álita við sakarmat í málinu, þá varðar slíkt alfarið ábyrgð annarra stefndu. Við þá aðila hafi stefndu Sigurður og Júlíus ehf. samið og á þeirra herðum hafi hvílt öll verkstjórn og umsjón með þeim öryggisþáttum sem nánar sé gerð grein fyrir í lögum nr. 46/1980, þ.m.t. gerð og smíði verkpalla.

         Stefnda Áferð ehf. byggir málatilbúnað sinn á því að stefnandi hafi ekki sannað saknæma háttsemi manna eða önnur atvik sem þessi stefnda beri ábyrgð á. Því er alfarið mótmælt að verkstjórnarskylda gagnvart stefnanda hafi hvílt á starfsmönnum stefndu. Stefnandi hafi ekki verið starfsmaður félagsins heldur sjálfstæður verktaki sem starfaði fyrir stefnda Ó. Pét. ehf. sem var undirverktaki hjá félaginu. Stefnandi hafi því hvorki lotið skipunarvaldi né eftirliti starfsmanna stefndu. Ákvæði í verksamningi stefndu og stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf. um að stefnda skuli sjá um verkstjórn sinna manna breyti þessu ekki, enda hafi stefnandi ekki verið starfsmaður stefndu heldur sjálfstæður verktaki. Stefnda mótmælir einnig að starfsmenn félagsins hafi með nokkrum hætti valdið meintu tjóni stefnanda. Starfsmenn stefndu hafi hvorki sett upp umræddan vinnupall né átt nokkurn þátt í að stefnandi og samstarfsmaður hans kusu að nota vinnupallinn. Sé þannig ekkert komið fram um að starfsmenn stefndu Áferðar ehf. hafi átt sök á slysinu.

         Telji dómurinn hins vegar að orsök tjóns stefnanda sé að einhverju leyti að rekja til missmíðar eða vanbúnaðar á vinnupallinum, sem ekki sé á ábyrgð stefnanda, telur þessi stefnda að ábyrgð á því sé alfarið hjá stefndu Sigurði og Júlíusi ehf., en starfsmenn þess félags hafi reist pallinn. Þá hafi annar eiganda félagsins, Júlíus Júlíusson, verið byggingarstjóri á verkstað og verið daglega á staðnum. Hafi hann sem slíkur haft eftirlitsskyldur á verkstað, þar á meðal að því er varðar umræddan pall.

         Stefndi Ó. Pét. ehf. byggir sýknukröfu sína á sambærilegum sjónarmiðum og stefnda Áferð ehf. Telur þessi stefndi þannig að stefnandi hafi verið sjálfstæður verktaki sem þessi stefndi hafi ekki borið ábyrgð á. Stöðu hans verði ekki jafnað til stöðu launamanns. Hann hafi ekki fengið greitt tímakaup, ekki hafi verið um að ræða verkstjórn með honum eða eftirlit af hálfu þessa stefnda. Þá hafi þessi stefndi ekki komið að byggingu umrædds vinnupalls eða haft með höndum verkstjórn eða eftirlit á byggingarstað.

         Allir stefndu byggja á því að verði talið að fyrir hendi sé bótaskylda þeirra upphefji eigin sök stefnanda hana alfarið. Stefndu vísa þannig til þess að stefnandi hafi verið  29 ára gamall verktaki, faglærður málari, sem starfað hafði við málun um árabil.  Enginn hafi verið betur til þess fallinn en hann sjálfur að meta þá augljósu og stórfelldu slysahættu sem hafi falist í því að nýta umrædda aðstöðu sem vinnuaðstöðu. Eigi þetta við jafnvel þótt ekki sé litið til þeirrar staðreyndar að stefnandi og samverkamaður hans virðast hafa rifið niður handrið sem komið hafði verið fyrir og komið fyrir þeirri plötu sem síðan gaf sig. Stefnanda hafi borið sem sjálfstæðum verktaka að ganga úr skugga um að vinnupallur sem hann notaðist við væri traustur og uppfyllti kröfur laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna nr. 547/1996. Verði ekki talið að eigin sök upphefji bótaskyldu alfarið er á því byggt að sök verði skipt í málinu.

         Í upphaflegum málatilbúnaði stefndu var fyrirliggjandi örorkumati mótmælt, en undir meðferð málsins aflaði stefnandi, í tilefni af áskorun stefndu, álits örorkunefndar sem er dagsett 4. maí 2004. Við munnlegan flutning málsins var því hreyft af hálfu stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf. að álitið byggði á ófullnægjandi upplýsingum og væri grundvöllur kröfugerðar stefnanda því enn sem fyrr vanreifaður. Að öðru leyti voru ekki gerðar athugasemdir við álitið af hálfu stefndu sem töldu ekki þörf á sérfróðum meðdómendum við úrlausn málsins. Málsástæður og lagarök stefndu um fjárhæðir, eins og þau liggja fyrir eftir aðalmeðferð málsins, fara efnislega saman og verða þær því raktar í einu lagi.

         Stefndu mótmæla kröfu um tímabundna óvinnufærni sem ósannaðri. Telja þeir í fyrsta lagi sannað að stefnandi hafi í raun hafið störf mun fyrr en hann byggi kröfu sína á. Þá telja þeir tjón stefnanda ósannað fyrir þetta tímabil. Ekkert liggi fyrir um það hvaða störf honum stóðu til boða á umræddu tímabili og þá á hvaða kjörum. Það fái ekki staðist að miða kröfu fyrir tímabundið atvinnutjón við meðaltekjur næstliðinna ára svo sem við eigi um varanlega örorku.  Ekki hafi því verið sannað að stefnandi hafi orðið af raunverulegum atvinnutekjum.

         Kröfu um þjáningarbætur er mótmælt með vísan til þess að stefnandi hafi orðið vinnufær fyrir 1. ágúst 2002, eins og áður segi.

       Að því er varðar kröfu um varanlega örorku telja stefndu það ekki standast að víkja frá því lögboðna viðmiði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 að miða útreikning bóta fyrir varanlega örorku við tekjur þriggja síðustu almanaksára og miða þess í stað við tvö síðustu almanaksár. Þess utan er bent á að slysið gerist síðla árs og því nauðsynlegt að stefnandi upplýsi hvaða tekjur hann hafði á slysárinu, á árinu 2002 og jafnframt á árunum 1996 og 1997. Af hálfu stefndu Sigurðar og Júlíusar var skorað á stefnanda að leggja fram skattframtöl sín vegna umræddra ára. Í tilviki sakarskiptingar krefjast stefndu þess að komi til greiðslu úr slysatryggingu sem einhver meðstefndu kunni að hafa keypt stefnanda til hagsbóta, þá dragist slíkar bætur frá eftir að bætur hafa verið lækkaðar vegna sakarskiptingarinnar. Upphafsdegi dráttarvaxta er mótmælt af stefndu og þess krafist að dráttarvextir verði ekki dæmdir frá fyrra tímamarki en dómsuppsögu í málinu.

IV.

Niðurstaða um sök og sakarskiptingu

         Í máli þessu liggur fyrir að meginorsök slyss stefnanda var sú að svokölluð dokaplata, sem stefnandi stóð á við vinnu sína, gaf eftir með þeim afleiðingum að hann féll niður 5,4 m. Er jafnframt komið fram að ástæða þess að platan gaf eftir er sú að sagað hafði verið upp í plötuna þannig að hún þoldi miklu minni þyngd en ella þegar stigið var á plötuna nálægt sárinu. Orsaka slyssins er þannig ekki að leita í skorti á fallvörnum við þann vinnupall, eða leifar af vinnupalli, sem hér um ræðir. Þá eru orsakirnar ekki heldur þær að ekki hafi nægilega vel verið gengið frá bitum sem lágu undir plötunni. Jafnvel þótt sú vinnuaðstaða, sem hér um ræðir, hafi verið óforsvaranleg með ýmsum hætti var það þannig aðeins umræddur veikleiki í plötunni sem orsakaði slysið. Verður að telja plötuna, eins og henni var fyrir komið við þær aðstæður sem áður er lýst, hafa verið hreina slysagildru.

         Í málinu er óupplýst um það atriði hver eða starfsmaður hvers kom umræddri plötu fyrir. Stefnandi og sá maður sem var við vinnu með honum á slysdag hafa báðir neitað að hafa komið plötunni fyrir og verður að telja þann framburð trúverðugan. Samkvæmt framburði Júlíusar Júlíussonar, fyrirsvarsmanns stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf., reisti hann vinnupalla í húsinu að Kríuási 17b vegna vinnu við steinslípun, sem fram fór nokkrum mánuðum fyrir slysið, og reif þá að nokkru leyti niður eftir að því verki var lokið. Stóðu þá eftir stoðir og bráðabirgðahandrið í tröppum sem verkuðu sem fallvarnir í stigaganginum. Nefndur Júlíus neitaði því hins vegar að hafa komið fyrir umræddri plötu eða að hann hafi ætlast til þess að umræddur staður yrði notaður sem vinnupallur við málningarvinnu. Gegnum neitun Júlíusar verður að telja ósannað að hann hafi komið plötunni fyrir á umræddum stað. Þá hafa ekki verið leiddar líkur að því að ótilgreindir starfsmenn tiltekinna verktaka sem unnu að framkvæmdum í húsinu hafi komið plötunni fyrir. Eru þannig ekki efni til þess að fella bótaábyrgð á stefndu með vísan til þess að starfsmenn þeirra hafi sýnt af sér gáleysi með því að koma plötunni fyrir.

         Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda og vitnisburði Ingvars Ólafssonar benti áðurgreindur Júlíus Júlíusson þeim á að nota umræddan pall við sandspörtlun í húsinu að Kríuási 17b eftir að þeir höfðu kvartað yfir vinnuaðstæðum í húsinu að Kríuási 17a  þar sem þeir höfðu notast við stiga. Í aðilaskýrslu sinni neitaði Júlíus því að hafa bent stefnanda og samstarfsmanni hans á að nota umræddan pall. Gegn neitun Júlíusar verður ekki talið sannað að stefnanda og samstarfsmanni hans hafi beinlínis verið bent á að nota umræddan pall við vinnu sína í húsinu að Kríuási 17b. Hins vegar verður að ganga út frá því að hvorki stefnandi, stefndi Ó. Pét. ehf., né Áferð ehf. hafi átt að sjá um uppsetningu vinnupalla fyrir málningarvinnu í húsinu, ef uppsetning slíkra palla yrði nauðsynleg. Var því ekki óeðlilegt að stefnandi og samstarfsmaður hans að notuðu þá vinnupalla sem þegar voru fyrir hendi á byggingarstað við vinnu sína. Í samræmi við þetta verður einnig að ganga út frá því að það hafi ekki verið sérstaklega í verkahring stefnanda eða stefndu Áferðar ehf. og Ó. Pét. ehf. ganga sérstaklega úr skugga um að vinnupallar fullnægðu öryggiskröfum, enda hvíldi sú skylda fyrst og fremst á þeim sem byggði pallana og breytti þeim.

         Að mati dómara verður stöðu stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf. ekki jafnað til stöðu fasteignareiganda sem ræður sjálfstæðan verktaka til framkvæmda á eða við fasteign. Þannig liggur fyrir að stefndu Sigurður og Júlíus ehf. skipulögðu framkvæmdirnar og fólu einstökum verktökum tiltekna þætti þeirra auk þess að sjá þeim fyrir byggingarefni að einhverju leyti. Verður þannig að telja að yfirumsjón framkvæmda hafi heyrt undir stefnda Sigurð og Júlíus ehf., enda þótt tilteknir þættir framkvæmda hafi verið faldir öðrum verktökum, eins og áður segir. Að mati dómara leiddi af þessari yfirumsjón skylda stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf. til að sjá til þess að öryggismál væru almennt með forsvaranlegum hætti. Dómara er þó ljóst að aðkoma Sigurðar og Júlíusar ehf. var mismunandi mikil eftir byggingarstigum og má þannig ganga út frá því að við ýmsa þætti verksins, t.d. uppslátt og uppsteypu, hafi undirverktakar nánast alfarið borið ábyrgð á öryggismálum.

         Í málinu er upplýst að framangreindur Júlíus Júlíusson, fyrirsvarsmaður stefnda Sigurðar og Júlíusar ehf., var byggingarstjóri framkvæmda þegar byggður var sökkull umræddra húsa. Samkvæmt því sem fram kom í aðilaskýrslu nefnds Júlíusar og vitnaskýrslu Jóhanns Guðna Hlöðverssonar mun sá síðarnefndi hafa tekið við formlegri byggingarstjórn þegar vinna við uppslátt og uppsteypu hófst, en Jóhann Guðni starfaði fyrir Ris hf. sem annaðist þennan hluta framkvæmdanna. Af skýrslu Jóhanns Guðna er ljóst að eftir að uppsteypu var lokið taldi hann hlutverki sínu sem byggingarstjóra lokið. Kom fram í skýrslu hans að það hefði verið yfirsjón af hans hálfu að tilkynna ekki um þetta til byggingaryfirvalda. Skýrslum í málinu ber og saman um að á þeim tíma sem slysið varð hafi framangreindur Jóhann Guðni hvorki verið á byggingarstað né komið fram sem byggingarstjóri gagnvart undirverktökum eða byggingaryfirvöldum. Hins vegar bar skýrslum saman um að á þessum tíma hefði Júlíus Júlíusson verið með daglega viðveru á staðnum og haft raunverulega yfirumsjón framkvæmda fyrir hönd verkkaupans, stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf.

         Samkvæmt framangreindu telur dómari að á þeim tíma sem slysið varð hafi stefndu Sigurður og Júlíus ehf. ekki aðeins haft yfirumsjón með framkvæmdum heldur hafi fyrirsvarsmaður þess, Júlíus Júlíusson, í raun stýrt verkinu og þannig verið hæstráðandi á byggingarstað. Ekki aðeins stýrði Júlíus verkinu heldur greip hann inn í verkið þar sem á þurfti að halda. Er þannig upplýst að það var Júlíus sem bæði byggði vinnupall í stigagangi hússins við Kríuás 17b vegna vinnu við steinslípun og breytti honum áður en málningarvinna hófst. Að mati dómara bar Júlíusi, sem hæstráðanda á byggingarstað þar sem fleiri verktakar komu að máli, að tryggja samhæfingu öryggismála, sbr. grunnrök 36. gr. laga nr. 46/1980 sem hér eiga við. Fólst í þessu meðal annars skylda til að sjá til þess að verksvið einstakra undirverktaka væru skýr með tilliti til vinnuaðstöðu og öryggis. 

         Í ljósi stöðu Júlíusuar Júlíussonar á byggingarstað telur dómari að honum hafi mátt vera ljóst að umræddur vinnupallur, eða leifar af honum, kynni að verða notaður sem vinnuaðstaða. Jafnframt telur dómari að Júlíusi hafi verið fullljóst að gerð og umbúnaður pallsins fullnægði engan veginn kröfum um vinnupalla. Er þá horft til þess að Júlíus bæði byggði pallinn og reif hann niður. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómara að nefndum Júlíusi hafi borið skylda til að ganga úr skugga um að pallurinn, eins og hann var eftir þær breytingarnar, yrði ekki notaður sem vinnuaðstaða þegar stefnandi og samstarfsmaður hans hæfu vinnu við sandspörtlun í húsinu að Kríuás 17b. Verður Júlíusi því metið til sakar að stefnandi notaði pallinn við vinnu sína með þeim afleiðingum sem að framan greinir. Bera stefndu Sigurður og Júlíus ehf. skaðabótaábyrgð á þessum mistökum fyrirsvarsmanns síns.

         Stefnandi starfaði fyrir stefnda Ó. Pét. ehf. á grundvelli munnlegs verksamnings og fékk greitt samkvæmt einingaverðum, svo sem títt er um þá menn sem starfa sem undirverktakar. Enda þótt stefndi Ó. Pét. ehf. hafi tekið að sér að sjá stefnanda og samstarfsmanni hans fyrir efni og tækjum er ljóst að stefnandi naut sjálfstæðis í starfi og hafði stefndi Ó. Pét. ehf. ekki með hendi verkstjórn með stefnanda. Verður því ekki talið að stefndi Ó. Pét. ehf. hafi borið skyldur atvinnurekanda gagnvart stefnanda samkvæmt lögum nr. 46/1980 eða reglum nr. 547/1996. Sama niðurstaða á enn frekar við um samband stefnanda við stefndu Áferð ehf. Áður er rakið að það hafi ekki verið í verkahring þessara stefndu, eins og skipulagi framkvæmdanna var háttað, að ganga sérstaklega úr skugga um að vinnupallar fullnægðu öryggiskröfum. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki talið að þessum stefndu verði gefið að sök hvernig umræddri vinnuaðstöðu var fyrir komið. Verða þeir sýknaðir af kröfu stefnanda.

       Stefnandi er lærður málari með áralanga reynslu af húsamálun. Í málinu er komið fram að við stigapallinn, sem vinnupallurinn, eða leifar hans, lágu upp að, var bráðabirgðahandrið sem hindraði för út á pallinn. Lá því í augum uppi að hér var ekki um fullkominn vinnupall að ræða. Þá liggur fyrir að stefnanda og samstarfsmanni hans var ljóst að plata sú, sem komið hafði verið fyrir, var laus og fyllti auk þess ekki út í grunnflöt pallsins. Að mati dómara mátti stefnanda því vera ljóst í krafti starfsþjálfunar sinnar og reynslu að umrædd vinnuaðstaða væri fullkomlega óforsvaranleg án þess að úr væri bætt, meðal annars með því að ganga betur frá plötum eða borðum í gólfi pallsins. Telur dómari þannig sýnt að ef stefnandi hefði einfaldlega neglt niður umrædda plötu, í stað þess að láta hana vera lausa, hefði verið komið í veg fyrir slysið. Verður slysið því að verulegu leyti rakið til eigin sakar stefnanda og verður hann af þessum sökum látinn bera tjón sitt að hálfu.

V.

Niðurstaða um fjárhæðir, o.fl.

         Fjárhæð kröfu stefnanda grundvallast á áliti örorkunefndar 4. maí 2004, en af hálfu stefndu hafa engin gögn verið lögð fram sem hnekkt geta umræddu áliti. Verður það lagt til grundvallar við ákvörðun bótafjárhæðar. Krafa stefnanda er í fjórum liðum og verður nú tekin afstaða til hvers liðar fyrir sig.

         Í fyrsta lagi krefst stefnandi bóta fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi 10. október 2001 til 1. ágúst 2002, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og greininni var breytt með 1. gr. laga nr. 37/1999. Stefndu Sigurður og Júlíus ehf. hafa mótmælt því að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu tekjutapi með vísan til þess að fram hafi komið að hann hafi á ný hafið störf skömmu eftir slysið. Þá er því mótmælt að stefnanda sé heimilt að miða tímabundið tekjutap sitt við tekjur ársins 2000.

         Af hálfu stefnanda hefur ekki verið lagt fram skattframtal vegna tekna ársins 2002, heldur eingöngu útskrift yfir staðgreiðslu af launatekjum. Skortir því á að stefnandi hafi lagt fram gögn sem varpað gætu ljósi á tekjur hans af sjálfstæðum atvinnurekstri á árinu 2002, svo sem þeim sem hann sinnti þegar hann varð fyrir slysinu. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af því að gert hefur verið líklegt að stefnandi hafi haft einhverjar tekjur á árinu 2002, telst stefnandi ekki hafa sýnt fram á tímabundið atvinnutjón vegna tímabilsins 1. janúar 2002 til 1. ágúst sama árs. Hins vegar verður að telja nægilega sannað að hann hafi orðið af tekjum í október, nóvember og desember 2001. Við ákvörðun á tímabundnu atvinnutjóni er rétt að hafa hliðsjón af tekjum stefnanda síðustu mánuðina fyrir slysið. Samkvæmt skattframtali fyrir tekjuárið 2001 var stefnandi með 600.000 krónur í tekjur fyrir utan greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem gera verður ráð fyrir að hafi komið til vegna slyssins. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi haft 67.250 krónur í tekjur á mánuði. Nemur sannað tímabundið atvinnutjón hans því 181.575 krónum, en frá því dragast greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 39.600 krónur. Samtals nemur því tímabundið atvinnutjón stefnanda 141.975 krónum.

         Í öðru lagi krefst stefnandi þjáningarbóta að fjárhæð 280.920 króna fyrir tímabilið 10. október 2001 til 1. ágúst 2002, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993, eins og greininni var breytt með 2. gr. laga nr. 37/1999. Þessum lið hefur verið mótmælt af hálfu stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf. með vísan til þess að stefnandi hafi hafið störf löngu fyrir 1. ágúst 2002.

         Leggja verður til grundvallar að stefnanda verði ekki dæmdar bætur fyrir þjáningar, ef fyrir liggur að hann var vinnufær, nema sérstaklega standi á, sbr. 2. málslið 3. gr. laga nr. 50/1993. Eins og áður greinir hefur stefnandi ekki lagt fram gögn um atvinnutekjur sínar á árinu 2002. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af því að gert hefur verið líklegt að stefnandi hafi verið við störf á árinu 2002, hefur stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að dæma honum bætur fyrir þjáningar á árinu 2002. Hins vegar verða honum dæmdar bætur fyrir þjáningar á árinu 2001 eða fyrir alls 83 daga, þar af tveir dagar þar sem stefnandi telst hafa verið rúmfastur. Samkvæmt þessu nema bætur fyrir þjáningar alls 80.470 krónum.

         Í þriðja lagi krefst stefnandi bóta fyrir 15% varanlegan miska að fjárhæð 811.200 krónur, sbr. 4. gr. laga nr. 50/1993. Um þessa fjárhæð er ekki tölulegur ágreiningur meðal aðila. Verður þessi liður tekinn til greina með vísan til röksemda stefnanda.

         Í fjórða lagi krefst stefnandi bóta fyrir 15% varanlega örorku að fjárhæð 5.825.395 krónur, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1993, eins og greininni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999 og 24. gr. laga nr. 111/2000. Eins og áður segir miðar stefnandi ákvörðun bóta eingöngu við tekjur áranna 1999 og 2000. Með hliðsjón af tekjum stefnanda á árinu 2001 fyrir slysið fellst dómari ekki á að sýnt hafi verið fram á að annar mælikvarði en kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1993, sé réttari á líklegar framtíðartekjur stefnanda. Ber því að miða við meðaltal tekna stefnanda fyrir almanaksárin 1998, 1999 og 2000. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að meðaltekjur stefnanda hafi verið 2.544.651 króna. Kröfu um að tekið sé tillit til 6% framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð hefur ekki verið sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda Sigurðar og Júlíusar ehf. og verður hún því tekin til greina. Nema því meðaltekjur stefnanda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 alls 2.697.330 krónum. Tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku nemur samkvæmt þessu 5.147.315 krónum. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr.  laga nr. 50/1993 dragast frá þeirri fjárhæð 559.058 krónur sem stefnandi fékk frá Tryggingastofnun ríkisins, en í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um frekari greiðslur til frádráttar. Alls nema bætur fyrir varanlega örorku því 4.588.257 krónum.

         Samkvæmt framangreindu nemur óbætt tjón stefnanda alls 5.621.902 krónum. Eins og áður segir verður stefnandi látinn bera tjón sitt að hálfu vegna eigin sakar. Verður stefndi Sigurður og Júlíus ehf. því dæmdur til að greiða stefnanda 2.810.951 krónu. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar og varanlegan miska að fjárhæð 516.823 krónur bera 4.5% vexti frá slysdegi 10 október 2001, en bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 2.294.128 krónur bera sömu vexti frá því ástand stefnanda varð stöðugt 1. ágúst 2002, allt í samræmi við 16. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999. Með vísan til úrslita málsins þykir skilyrðum 2. málsliðar 9. gr. laga nr. 38/2001 fullnægt til að dæma dráttarvexti aðeins frá dómsuppsögu að telja.

         Stefnanda var veitt gjafsókn 4. febrúar 2004. Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu Áferð ehf. og stefnda Ó. Pét. ehf. málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur til hvors aðila um sig. Stefndu Sigurður og Júlíus ehf. verða dæmdir til að greiða hluta af málskostnaði stefnanda eða 180.000 krónur sem renna til ríkissjóðs samkvæmt 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991. Rétt þykir að stefndu Sigurður og Júlíus ehf. beri útlagðan kostnað sinn sjálfir. Annar gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, hæfilega ákveðin 360.000 krónur, og útlagður kostnaður hans að fjárhæð 161.540 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján B. Thorlacius hdl.

         Af hálfu stefndu Áferðar ehf. og réttargæslustefnda flutti málið Tómas Eiríksson hdl.

         Af hálfu stefndu Sigurðar og Júlíusar ehf. flutti málið Eiríkur Elís Þorláksson hdl.

         Af hálfu stefnda Ó. Pét. ehf. flutti málið Einar Sigurjónsson hdl.

         Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndu Áferð ehf. og stefndi Ó. Pét. ehf. skulu vera sýkn af kröfum stefnanda.

         Stefndi, Sigurður og Júlíus ehf., greiði stefnanda, Tómasi Þór Kárasyni,  2.810.951 krónu með 4,5% vöxtum af 516.823 krónum frá 10. október 2001 til 1. ágúst 2002 og af 2.810.951 krónu frá þeim degi til 25. október 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá dómsuppsögu.

         Stefnandi greiði stefndu Áferð ehf. og Ó. Pét. ehf. hvoru um sig 200.000 krónur í málskostnað.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, að fjárhæð 521.540 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

         Stefndu Sigurður og Júlíus ehf. greiði 180.000 krónur í málskostnað sem renni til ríkissjóðs.