Hæstiréttur íslands

Mál nr. 124/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Mánudaginn 12. mars 2012.

Nr. 124/2012.

Stilla Útgerð ehf.

KG Fiskverkun ehf. og

Guðmundur Kristjánsson

(Daníel Isebarn Ágústsson hdl.)

gegn

Vinnslustöðinni hf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Elínborgu Jónsdóttur og

Eyjólfi Guðjónssyni

(Ragnar H. Hall hrl.)

Kærumál. Lögbann. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli S ehf., K ehf. og G á hendur V hf., EJ og EG. Í málinu var þess krafist að lagt yrði lögbann við því annars vegar að V hf. afhenti hluti í félaginu til EJ og EG, sem greiðslu vegna samruna V hf. og U ehf., og hins vegar að V hf. skráði EJ og EG sem hluthafa í hlutaskrá félagsins á grundvelli ákvörðunar um samrunann. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til þess S ehf., K ehf. og G hefðu ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum í málinu, þar sem athafnir þær, sem krafist var lögbanns við, hefðu þegar farið fram með afhendingu hlutafjár til EJ og EG og rafrænni skráningu hlutafjárins á nöfn þeirra.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2012, sem barst héraðsdómi þann dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og  kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var Ufsaberg-útgerð ehf. afskráð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 9. febrúar 2012 og sameinuð varnaraðilanum Vinnslustöðinni hf.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum. Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt hafa þær athafnir sem sóknaraðili krefst lögbanns við þegar farið fram með afhendingu hlutfjár samtals að fjárhæð 536.668 evrur til varnaraðilanna Elínborgar og Eyjólfs og rafrænni skráningu þess á nöfn þeirra. Hafa sóknaraðilar því ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum í málinu. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðilar greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Stilla Útgerð ehf., KG Fiskverkun ehf. og Guðmundur Kristjánsson greiði óskipt varnaraðilanum Vinnslustöðinni hf. 200.000 krónur en varnaraðilunum, Elínborgu Jónsdóttur og Eyjólfi Guðjónssyni 100.000 krónur hvoru um sig í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2012.

Mál þetta var þingfest 19. október sl. og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila 12. desember sl. Sóknaraðilar eru Stilla útgerð ehf., KG Fiskverkun ehf. og Guðmundur Kristjánsson. Varnaraðilar eru Vinnslustöðin hf., Ufsaberg-Útgerð ehf., Elínborg Jónsdóttir og Eyjólfur Guðjónsson.

Með bréfi dagsettu 6. október 2011 sem barst dóminum samdægurs var dóminum tilkynnt um kröfu um úrlausn héraðsdómara vegna lögbannsbeiðni sem sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafi hafnað þann 3. október sl. Sóknaraðilar lögðu fram greinargerð í málinu hér fyrir dómi 2. nóvember sl. og gera þær dómkröfur að lagt verði lögbann við því, í fyrsta lagi að Vinnslustöðin hf. afhendi samtals að nafnvirði EUR 536.668 hluti í félaginu til varnaraðilanna Elínborgar og Eyjólfs sem greiðslu vegna samruna Vinnslustöðvarinnar hf. og Ufsabergs-Útgerðar ehf. á grundvelli ákvörðunar hluthafafundar í Vinnslustöðinni hf. dags. 21. september 2011 og í öðru lagi að Vinnslustöðin skrái varnaraðilana Elínborgu og Eyjólf sem hluthafa samtals EUR 536.668 í hlutaskrá Vinnslustöðvarinnar hf., sem er rafrænt skráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf., á grundvelli ákvörðunar hluthafafundar í Vinnslustöðinni hf. dags. 21. september 2011 um samruna Vinnslustöðvarinnar hf. og Ufsabergs-Útgerðar ehf.

Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila sameiginlega en í þessum þætti málsins er þess krafist að ákvörðun um málskostnað bíði efnisúrlausnar. Varnaraðilar skiluðu greinargerðum 16. nóvember sl. og krefjast þess í þessum þætti málsins að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi og þeim verði úrskurðaður málskostnaður að mati dómsins.

I.

Málavöxtum er þannig lýst í greinargerð sóknaraðila að á hluthafafundi í Vinnslustöðinni hf. sem haldinn hafi verið 21. september 2011 hafi verið tekin ákvörðun um samruna hennar og Ufsabergs-Útgerðar ehf. Telja sóknaraðilar þá ákvörðun haldna verulegum form- og efnisannmörkum og vera ógilda og segjast munu höfða mál til ógildingar á ákvörðuninni á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Slíkur málarekstur taki fyrirsjáanlega langan tíma og verði samruni félaganna því um garð genginn þegar niðurstaða um lögmæti ákvörðunarinnar liggur fyrir. Verði niðurstaðan sóknaraðilum í hag væri því fyrirsjáanlegt að nær ómögulegt verði að vinda ofan af hinni ólögmætu ákvörðun. Hafi sóknaraðilar því krafist þess að lögbann verði lagt við samruna félaganna, enda yrði dómsniðurstaða um  ólögmæti samrunaákvörðunarinnar þeim að öðrum kosti haldlítil. Lögbannsbeiðni hafi verið send sýslumanninum í Vestmannaeyjum 23. september sl., málið hafi verið tekið þar fyrir 29. september sl. og gerðinni fram haldið 3. október sl., en þá hafi sýslumaður ákveðið að hafna lögbanni.

II.

Sóknaraðilar byggja á því að öll skilyrði lögbanns sem fram komi í 24. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt. Ekki sé deilt um það hvort athöfnin sem sóknaraðilar leitist við að stöðva með lögbanni sé hafin en varnaraðilar haldi því fram að samrunaferlinu sé lokið og því séu ekki skilyrði fyrir lögbanni. Sóknaraðilar telji aftur á móti að samrunaferlinu sé ekki lokið og því sé hægt að fá lagt lögbann við síðustu skrefum þess. Sé krafan byggð á því að samruna félaganna teljist ekki lokið fyrr en viðskipti þau sem krafist sé lögbann við séu um garð gengin. Í 127. gr. hlutafélagalaganna sé fjallað um lok samrunaferlis en lokahnykkur samruna sé að hluthafar í yfirteknu félagi, sem fái greiðslu með hlutum í yfirtökufélagi, verði hluthafar í yfirtökufélagi. Það sé því hugtaksskilyrði samruna að greiðsla fyrir hluti í yfirteknu félagi eigi sér stað með þeim hætti að hluthafar í yfirteknu félagi verði hluthafar í yfirtökufélagi, sbr. 2. mgr. 127. gr. laganna. Þessi breyting gerist um leið og réttaráhrif samrunans komi til skv. 1. mgr. 127. gr. laganna. Með lögbanni við afhendingu hlutafjár í Vinnslustöðinni hf. verði lagt bann við framkvæmd þessa síðasta skrefs í samruna félaganna. Verði því komið í veg fyrir að varnaraðilar geti uppfyllt það hugtaksskilyrði samruna sem greint sé frá í 2. mgr. 127. gr. laganna og sé samrunaferlinu við þær aðstæður ekki lokið. Ef því sé ekki lokið telja sóknaraðilar hafið yfir vafa að félögin teljist ekki hafa sameinast á grundvelli XIV. kafla laganna. Sé því ótvírætt að sóknaraðilar hafi af því lögvarða hagsmuni að fá lagt lögbann við þeirri athöfn fyrirsvarsmanna Vinnslustöðvarinnar hf. að afhenda þeim Elínborgu og Eyjólfi hlutafé í Vinnslustöðinni hf. og skrá þau í hlutaskrá félagsins, enda ljúki samrunaferli Vinnslustöðvarinnar hf. og Ufsabergs-Útgerðar ehf. með þeim gerningi. Fari sú athöfn ekki fram sé samruna félaganna ekki lokið. Þá benda sóknaraðilar á að samkvæmt almennum reglum félaga- og kauparéttar sé slíkum viðskiptum ekki lokið fyrr en gagngjaldið hafi verið afhent. Án afhendingar hlutabréfa verði samrunanum því ekki lokið. Þá séu bundin margvísleg réttindi við skráningu hluthafa í hlutaskrá, sbr. 31. gr. laganna. Þá öðlist hluthafi ekki lögformlega heimild fyrir þeim réttindum sem hlutabréfið veiti fyrr en við rafræna skráningu þess, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997.

Sóknaraðilar telja ákvörðun um samruna Vinnslustöðvarinnar hf. og Ufsabergs-Útgerðar ehf. sem tekin hafi verið á  hluthafafundi í Vinnslustöðinni hf. þann 21. september sl. ólögmæta. Sóknaraðilar séu allir hluthafar í Vinnslustöðinni hf. og hagsmunir þeirra af því að eign þeirra sé ekki rýrð eða henni breytt varanlega með samruna því verulegir. Í 96. gr. hlutafélagalaganna sé mælt fyrir um málsmeðferðarreglur til handa hluthöfum sem telji að hluthafafundur hafi tekið ólögmæta ákvörðun. Brjóti því slík ákvörðun augljóslega og með alvarlegum hætti gegn rétti sóknaraðila. Sé ákvörðunin ólögmæt þar sem í aðdraganda hennar hafi verið brotið með alvarlegum hætti gegn efnis- og formreglum hlutafélagalaganna. Þá telja sóknaraðilar að eigin hlutir Vinnslustöðvarinnar hf. hafi verið nýttir með ólögmætum hætti til að greiða atkvæði með samrunanum.

Sóknaraðilar telja óumdeilt að samruninn þurfi að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa sem ráði yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið sé með atkvæði fyrir á hluthafafundinum. Við atkvæðagreiðslu á hluthafafundinum 21. september sl. hafi 2,5% hlutur sem seldur hafi verið varnaraðilunum Elínborgu og Eyjólfi og félagi þeirra, Ufsabergi ehf., með kaupsamningi dags. 10. maí 2011, verði nýttur til að greiða atkvæði með samrunanum. Sóknaraðilar telja umræddan kaupsamning vera málamyndagerning gerðan í þeim tilgangi að sniðganga ákvæði hlutafélagalaganna um bann við atkvæðagreiðslu fyrir hönd eigin hluta hlutafélags. Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laganna njóti eigin hlutir hlutafélags ekki atkvæðaréttar. Umræddur hlutur hafi verið seldur með þeim forsendum að samruni félaganna gengi í gegn, en fram komi í samningnum að forsendur kaupenda fyrir gerð samningsins séu að framangreind fyrirtæki verði sameinuð eins fljótt og auðið er og eigi síðar en hinn 31. desember 2011. Gengi samruninn ekki í gegn væru kaupin óskuldbindandi fyrir báða aðila. Sóknaraðilar benda á tilkynningu Vinnslustöðvarinnar hf. til Samkeppniseftirlitsins þar sem segi að samrunann verði að framkvæma fyrir 31. desember ellegar myndu viðskipti aðila ganga til baka. Enginn fyrirvari hafi verið á þessari yfirlýsingu og því ljóst að samningurinn hafi verið óskuldbindandi og myndi ganga til baka ef ekki yrði af samruna félaganna. Án þessa óskuldbindandi samnings hefðu eigin hlutir Vinnslustöðvarinnar hf. ekki notið atkvæðisréttar á umræddum hluthafafundi og með framsalinu hafi stjórn félagsins því haft bein áhrif á atkvæðagreiðslu um samrunann, enda hafi eigin hlutir félagsins verið virkjaðir til að greiða atkvæði með samrunanum. Þar sem brotið hafi verið gegn 2. mgr. 82. gr. laganna sé ákvörðun hluthafafundarins um samrunann ógild.

Sóknaraðilar byggja á því að ótvírætt sé að hluthafar Vinnslustöðvarinnar hf. eigi forkaupsrétt að fölum hlutum við hlutafjáraukningu í félaginu, sbr. 4. gr. samþykkta félagsins og 34. gr. hlutafélagalaga. Til að falla frá forkaupsrétti þurfi sama samþykki á hluthafafundi og til breytinga á samþykktum, sbr. 3. mgr. 34. gr. laganna. Þá beri að gera grein fyrir ástæðum þess að vikið sé frá áskriftarréttindum í fundarboði, svo og rökstyðja tillögur um áskriftargengi, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna. Sóknaraðilar telja að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til forkaupsréttar að hinu nýja hlutafé með tvenns kona hætti. Í fyrsta lagi hafi ekki verið að finna í fundarboði umfjöllun um ástæður þess að vikið væri frá áskriftarréttindum hluthafa eða rökstuddar tillögur um áskriftargengi. Hafi formskilyrðum hlutafélagalaganna fyrir því að fallið sé frá forgangsrétti hluthafa því ekki fullnægt. Hafi hluthafafundi því verið óheimilt að taka ákvörðun um að falla frá forgangsrétti hluthafa. Í öðru lagi hafi tillaga um hlutafjáraukningu þar sem hluthafar féllu frá forgangsrétti ekki hlotið nægjanlega mörg atkvæði. Óheimilt hafi verið að telja 2,5% hlut varnaraðilanna Elínborgar, Eyjólfs og Ufsabergs ehf. með við atkvæðagreiðsluna og hafi tillagan því ekki hlotið samþykki tilskilins meirihluta, en tillagan hafi verið borin upp samhliða tillögum um samruna félaganna.

Sóknaraðilar telja að alvarlegir form- og efniságallar hafi verið á samrunagögnum sem útbúin hafi verið og kynnt hluthöfum í aðdraganda samruna félaganna. Leiði þessir ágallar einir og sér til þess að ákvörðun um samruna sé ógildanleg.

Í fyrsta lagi benda sóknaraðilar á 1. ml. 1. mgr. 121. gr. hlutafélagalaga en þar segi að félagsstjórn í hverju félaganna fyrir sig skuli semja greinargerð þar sem samrunaáætlunin sé skýrð og rökstudd. Stjórnir félaganna hafi skilað sameiginlegri greinargerð en alls ekki sé gert ráð fyrir því í lögunum. Samrunaáætlun sé sameiginleg fyrir samrunafélögin og eigi í henni að koma fram öll veigamestu atriðin er tengjast samrunanum. Greinargerðir stjórna eigi aftur á móti að fjalla um atriði sem snúi að hverju félagi fyrir sig og þar með þeim sérstöku breytingum á viðkomandi félagi sem verði við samþykki samrunans. Beri að tryggja að hluthafar hvers félags fyrir sig geti tekið yfirvegaða afstöðu til samrunans með hliðsjón af þeim sérstöku áhrifum sem samruninn muni hafa á viðkomandi félag. Verði talið í samræmi við ákvæði hlutafélagalaganna að stjórnir skili bæði sameiginlegri samrunaáætlun og sameiginlegri greinargerð um samrunann, sé ákvæði um greinargerð stjórnar augljóslega óþarft. Sóknaraðilar telja það augljóst brot á skýrum ákvæðum hlutafélagalaganna að sameiginleg greinargerð hafi verið lögð fram. Ekki sé um að ræða léttvægt tilvik, heldur hafi hluthafar verið sviptir mikilvægasta upplýsingamiðli sínum um samrunann. Sé ómögulegt að segja hvernig atkvæðagreiðsla um samrunann hefði farið ef stjórn Vinnslustöðvarinnar  hf. hefði birt hluthöfum sínum sjálfstæða greinargerð um áhrif og afleiðingar samrunans fyrir það félag eingöngu.

Sóknaraðilar benda á 1. ml. 1. mgr. 122. gr. hlutafélagalaganna þar sem segi að í hverju samrunafélaganna um sig skulu einn eða fleiri óháðir, sérfróðir matsmenn, sbr. 1. mgr. 7. gr., gera skýrslu um samrunaáætlunina. Sóknaraðilar telja ótvírætt af orðalagi ákvæðisins að sérstaka skýrslu skuli gera í hverju félagi fyrir sig. Það sé hlutverk matsmanns að veita hluthöfum hvers samrunafélags fyrir sig upplýsingar um þær fjárhagslegu afleiðingar sem samruni hafi í för með sér. Það sé hlutverk hans að greina hluthöfum frá þeim aðferðum sem notaðar hafi verið til verðmats á samrunafyrirtækjunum, taka afstöðu til þess hvort aðferðirnar og endurgjald í viðskiptunum sé sanngjarnt og hvort rökstuðningur fyrir aðferðum og niðurstöðum sé fullnægjandi. Sé ljóst að matsmaður geti ekki sinnt þessu hlutverki fyrir bæði félög í einni og sömu skýrslunni en hluthafar hvers samrunafélags eigi heimtingu á því að fá upplýst í skýrslu matsmanns um framangreind atriði út frá þeirra eigin hagsmunum sem hluthafar í einu samrunafélagi. Sóknaraðilar telja það brjóta gegn skýrum ákvæðum laganna að sameiginleg skýrsla matmanns hafi verið samin og lögð fram fyrir bæði samrunafélögin. Eigi það að leiða til þess að ákvörðun um samrunann sé ógild.

Sóknaraðilar benda á ákvæði 3. mgr. 122. gr. hlutafélagalaganna en þar segi að í skýrslu matsmanns skuli vera yfirlýsing um að hve miklu leyti endurgjaldið fyrir hlutina í yfirtekna félaginu sé sanngjarnt og efnislega rökstutt. Í skýrslu matsmanns komi hvergi fram mat hans á því hvort endurgjaldið sé sanngjarnt, það hljóti að vera grundvallaratriði í skýrslu hans. Verði því að telja að skýrslan gagnist ekki hluthöfum í Vinnslustöðinni hf. á nokkurn hátt og sé hún því haldin verulegum efnisannmörkum.

Þá segi enn fremur í framangreindri lagagrein að í yfirlýsingunni skuli enn fremur greina það verð sem aðferðirnar leiði hver um sig til, svo og hvaða innbyrðis þýðingu leggja skuli í aðferðir við verðákvörðun. Sóknaraðilar telja að ekki verði séð að þessi atriði komi fram í skýrslu matsmanns og sé þetta sérlega ámælisvert í ljósi þess að mismunandi verðmatsaðferðir hafi verið notaðar fyrir samrunafélögin. Verðmat Vinnslustöðvarinnar hf. hafi byggst á sjóðsstreymisverðmati en verðmat Ufsabergs-Útgerðar ehf. hafi byggst á svokölluðu upplausnarvirði. Um sé að ræða gjörólíkan verðmatsgrundvöll og nauðsynlegt að hluthöfum sé gerð skýr grein fyrir þeim mismun sem í verðmötunum felist.

Sóknaraðilar benda á 4. tl. 120. gr. hlutafélagalaganna en þar segi að í samrunaáætlun skuli koma fram frá hvaða tímamarki hlutirnir sem hugsanlega séu látnir í té sem greiðsla, veiti rétt til arðs og sérstök skilyrði varðandi þann rétt. Sóknaraðilar segja umræddar upplýsingar ekki koma fram í samrunaáætlun en það sé skýrt brot á ákvæðum laganna. Sé það alvarlegt þar sem á hluthafafundi 30. júní 2011 hafi verið tekin ákvörðun um útgreiðslu arðs. Vegna brots á þessari lagagrein sé ekki vitað hvort hlutirnir sem til standi að afhenda varnaraðilum veiti sambærileg réttindi. Samkvæmt samrunaáætlun standi til að afhenda hluthöfum Ufsabergs-Útgerðar ehf. bæði nýja hluti og eigin hluti Vinnslustöðvarinnar hf. Almenna reglan í 3. mgr. 36. gr. hlutafélagalanna um hlutafjárhækkun taki ekki til eigin hluta Vinnslustöðvarinnar hf. og bæti því ekki úr framangreindum annmarka á samrunagögnum.

Sóknaraðilar telja að verði af umræddum samruna sé ljóst að ómögulegt sé að vinda ofan af honum þó sigur vinnist í dómsmáli til ógildingar ákvörðunar um samrunann. Ástæðan sé sú að þegar samrunaferli félaganna lýkur teljist félaginu Ufsabergi-Útgerð ehf. slitið, sbr. 1. mgr. 127. gr. hlutafélagalaganna. Samruninn sé því óafturkræfur og dómstólar geti ekki undið ofan af honum. Sóknaraðilar segjast á móti umræddum samruna og telja þeir hagsmunum hluthafa Vinnslustöðvarinnar hf. betur borgið án samruna við Ufsaberg-Útgerð ehf. Samruninn sé ekki aðeins óafturkræfur heldur muni hann hafa í för með sér verulega skerðingu á lögvörðum hagsmunum sóknaraðila. Hafi fyrirtækin tvö verið rekin sem eitt í allan þann tíma sem taki að reka dómsmál um samrunann sé ómögulegt að aflétta hinu ólögmæta ástandi.

Sóknaraðilar byggja á því að með sama hætti og útilokað sé að rekja í sundur samruna félaganna tveggja eftir nokkur misseri eða ár sé næstum ómögulegt að meta það tjón sem sóknaraðilar munu verða fyrir, komi til samrunans. Samanburður og mat á gengi sameinaðs félags við gengi Vinnslustöðvarinnar hf. án samruna verði aldrei byggður á öðru en ágiskunum. Verði því ákvörðun um fjárhæð skaðabóta það miklum annmörkum háð að óhætt sé að fullyrða að réttarreglur um skaðabætur tryggi ekki hagsmuni sóknaraðila með fullnægjandi hætti, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Sóknaraðilar telja enga sérstaka hagsmuni fólgna í því fyrir varnaraðila að gerðin fari ekki fram. Félögin tvö séu nú rekin sem eitt, Vinnslustöðin hf. hafi lengi haft á leigu helstu eignir Ufsabergs-Útgerðar ehf., eins og fram komi í sameiginlegri tilkynningu stjórna félaganna um samrunann til Samkeppniseftirlitsins, en þar komi fram að Ufsaberg–Útgerð ehf. eigi eitt togskip sem það leigi Vinnslustöðinni ásamt öllum aflaheimildum. Allt rekstrarhagræði af sameiningu félaganna eigi því að vera komið fram en hagræði í rekstri og fjárfestingu séu einu rökin sem tilgreind séu fyrir samruna félaganna í greinargerð stjórna. Sé því með öllu óljóst hvaða tjóni varnaraðilar kunni að verða fyrir þó beðið sé með samruna félaganna meðan leyst sé úr lögmæti hans. Sóknaraðilar hafna fullyrðingum endurskoðanda félaganna um 527.000.000 króna fjárhagsgróða sem yrði við sameininguna sem rakalausum. Fullyrðingin lýsi þó ágætlega þeim gögnum og sjónarmiðum sem samruni félaganna hafi verið byggður á.

Sóknaraðilar vísa um fjárhæð tryggingar sem þeim beri að setja verði orðið við kröfu þeirra um lögbann til þeirra sjónarmiða sem að framan greinir. Ekki verði með nokkru móti séð að varnaraðilar verði fyrir fjártjóni þó ekki verði af samruna félaganna fyrr en niðurstaða um lögmæti hans liggur fyrir. Allt rekstrarhagræði af samrunanum sé komið fram, enda félögin rekin sem eitt á grundvelli leigusamninga. Sé fullyrðing endurskoðanda félaganna rétt að hluthafar Vinnslustöðvarinnar hf. muni græða 527.000.000 krónur við samrunann hljóti sú fullyrðing að eiga jafnvel við þegar fyrir liggi hvort samruninn sé lögmætur. Sé því tjón sem trygging sóknaraðila þurfi að bæta því ekkert.

III.

  Varnaraðilar byggja á því að samkvæmt 33. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann geti gerðarbeiðandi krafist úrlausnar héraðsdómara  um ákvörðun sýslumanns um synjun lögbannsgerðar með því að tilkynna það sýslumanni innan viku frá því honum verður ákvörðunin kunn. Í 35. gr. laganna segi að ákvæði 86.-91. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 taki til þess háttar mála og að ákvarðanir sýslumanns um lögbannsgerð sem ekki hafi verið bornar undir héraðsdóm samkvæmt þessum reglum verði það ekki síðar nema í máli til staðfestingar gerðinni. Mál þetta sæti því meðferð samkvæmt 86.-91. gr. aðfararlaga eftir því sem við á og samkvæmt 2. mgr. 90. gr. þeirra laga skuli í úrskurði héraðsdómara kveða á um staðfestingu eð ómerkingu ákvörðunar sýslumanns eða leggja fyrir sýslumann að framkvæma gerð með öðrum hætti en hann hafði áður ákveðið. Varnaraðilar byggja á því að kröfugerð sóknaraðila í þessu máli sé alls ekki hagað með þeim hætti sem áskilið sé í framangreindum lagagreinum. Kröfur sóknaraðila snúist ekki um ákvörðun sýslumannsins í Vestmannaeyjum að synja um lögbannið, heldur sé gerð krafa um lögbann með dómi. Ekki sé gerð krafa um að neinn annar en dómari leggi lögbannið á, en engin lagaheimild standi til að dómari geti orðið við slíkri kröfu. Kæmist dómari að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sýslumanns um synjun lögbannsgerðar hefði verið röng væri hægt að dæma þá ákvörðun ógilda og leggja fyrir sýslumann að taka beiðnina fyrir aftur en lögbanni verði ekki komið á með ákvörðun dómstóls.

IV.

Kröfugerð sóknaraðila í máli þessu er með þeim hætti að lagt verði lögbann við tilteknum athöfnum í tengslum við samruna fyrirtækjanna Vinnslustöðvarinnar hf. og Ufsabergs-Útgerðar ehf., en samkvæmt gögnum málsins hafnaði sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum því með ákvörðun 3. október 2011 að leggja lögbann við þessum athöfnum. Sóknaraðilar hafa nýtt sér heimild 33. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann og krafist úrlausnar héraðsdómara um synjun gerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laganna taka ákvæði 86.-91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til mála af þessum toga. Samkvæmt 2. mgr. 90. gr. þeirra laga skal í úrskurði héraðsdómara á grundvelli skýrslna og málflutnings aðila og framkominna skjala kveða á um staðfestingu eða ómerkingu sýslumanns eða leggja fyrir sýslumann að framkvæma með öðrum hætti en hann hafði áður ákveðið. Kröfur sóknaraðila verða eigi skýrðar á annan veg en þann að þess sé krafist að dómari leggi lögbann við þeim athöfnum sem mál þetta snýst um. Slík kröfugerð er í andstöðu við framangreind lagaákvæði og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá dómi.

Eftir þessum úrslitum ber að úrskurða sóknaraðila til að greiða varnaraðilum in solidum 500.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Sóknaraðilar, Stilla útgerð ehf., KG Fiskverkun ehf. og Guðmundur Kristjánsson greiði varnaraðilum, Vinnslustöðinni hf., Ufsabergi-Útgerð ehf., Elínborgu Jónsdóttur og Eyjólfi Guðjónssyni in solidum 500.000 krónur í málskostnað.