Hæstiréttur íslands
Mál nr. 488/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 1. nóvember 2002. |
|
Nr. 488/2002. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 30. október sl. var haft eftir Y, sem grunaður er um að eiga aðild að ætluðum brotum varnaraðila, að fyrir tilstuðlan þess síðarnefnda hafi verið unnt að nýskrá um tuttugu tjónabifreiðar án þess að viðgerð á þeim hafi verið lokið. Hann kvaðst hins vegar ekki vita með hvaða hætti það var gert. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2002.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X,
kt. [...], sem handtekinn var þriðjudaginn 29. október 2002 kl. 11.10, verði
með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinbera
mála gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember n.k. kl.
16.00.
Í kröfu ríkislögreglustjóra kemur fram að
efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans vinni nú að rannsókn á ætluðum brotum
kærða gegn ákvæðum XVII. og XXVI. kafla
alm. hgl. nr. 19/1940 einkum 248. gr. laganna.
Til rannsóknar sé kæra tollayfirvalda vegna ætlaðra tollsvika kærða við
innflutning á 24 bílum frá Bandaríkjunum og
kæra frá lögmönnum Sparisjóðs Hafnarfjarðar vegna ætlaðra stórfelldra og
skipulagðra svika kærða og viðskiptafélaga hans með því að fá með blekkingum
lán samtals að fjárhæð 11.575.000 krónur hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar út á
fimm bifreiðar (RF-679, RF-469, MR-159,
OI-630 og SL-482) sem ekki hafi verið í þeirra eigu eða skemmdar eða ónýtar.
Þrjár
þessara bifreiða, RF-679, RF-469 og
MR-159, hafi verið fluttar inn notaðar frá Bandaríkjunum og fram komi í
skráningarferli þeirra allra að um tjónabíla hafi verið að ræða. Kærði hafi,
samkvæmt gögnum málsins, haft milligöngu um innflutning og tollafgreiðslu
bifreiðanna sem hafi farið fram hjá embætti sýslumannsins á Selfossi. Að lokinni tollafgreiðslu hafi tvær þessara
bifreiða, RF-679 og RF-469, verið skráðar á nafn H ehf., kt. [...], [...],
Reykjavík, en forráðamenn félagsins hafi verið
þau Y kt. [...] og Z kt. [...], en félagið hafi verið úrskurðað
gjaldþrota. Í framhaldi af þessu hafi
fyrirtæki í eigu kærða, A ehf., kt. [...], [...], Reykjavík, gert tilboð í
viðgerð á bifreiðunum, en það félag hafi einnig verið úrskurðað gjaldþrota. Skömmu síðar hafi þær verið nýskráðar, samkvæmt
því sem komi fram í skráningarferli bifreiðanna í bifreiðaskrá, kaskótryggðar
hjá Sjóvá-Almennum hf. og veðsettar fyrir lánum að fjárhæð 5.825.000 krónur hjá
Sparisjóði Hafnarfjarðar. Ekkert hafi
verið greitt af framangreindum lánum og þegar ganga hafi átt að bifreiðunum og
bjóða þær upp hafi þær ekki fundist og forráðamenn H og kærði ekki viljað eða
getað bent á þær. Það hafi verið
skilyrði lánveitingar af hálfu Sparisjóðs Hafnarfjarðar að bifreiðarnar væru
nýskráðar og samkvæmt bifreiðaskrá hafi þær verið nýskráðar hjá
Bifreiðaskoðuninni Athugun hf. í Klettagörðum. Ekki sé ljóst á þessu stigi
málsins hvort starfsmaður Bifreiðaskoðunarinnar hafi verið blekktur eða verið
þátttakandi í þessum ætluðu brotum kærða og viðskiptafélaga hans. Kærði hafi sagt í yfirheyrslu hjá lögreglu
að hann hafi gert við báðar bifreiðarnar en viti síðan ekkert um afdrif þeirra.
Bifreiðin
MR-159 hafi verið flutt inn á vegum kærða en tollafgreidd og forskráð á nafn Z,
kt. [...]. Við tollafgreiðslu hjá embætti sýslumannsins á Selfossi hafi
skattflokki bifreiðarinnar verið breytt úr skattflokki 70 (tjónabíll) í
skattflokk 00 (nýr bíll). Bifreiðin hafi verið kaskótryggð hjá Sjóvá- Almennum
hf. og veðsett fyrir láni að fjárhæð 3.600.000 krónur hjá Sparisjóði
Hafnarfjarðar, en lánið hafi verið tekið í nafni Z. Ekki hafi verið greitt neitt af því láni og þegar ganga hafi átt
að bifreiðinni hafi þau Z og kærði ekki viljað eða getað vísað á hana.
Bifreiðin hafi svo fundist fyrir tilviljun á bílaverkstæði í Reykjavík þar sem
hún hafi verið öll í pörtum og alls ekki í skoðunarhæfu ástandi. Samkvæmt skráningarferli bifreiðarinnar í
bifreiðaskrá hafi tekist að fá hana nýskráða hjá Bifreiðaskoðuninni Athugun hf.
í Klettagörðum. Kærði segi í yfirheyrslu hjá lögreglu að til hafi staðið að
gera við bifreiðina en það hafi vantað varahluti og ekkert orðið af
fyrirhugaðri viðgerð. Hann neiti síðan
vitneskju um afdrif bifreiðarinnar.
Bifreiðina
OI-630 hafi kærði keypt í nafni A ehf. af Vátryggingafélagi Íslands hf. með
tjóni eftir umferðaróhapp. A ehf. hafi síðan selt Z bifreiðina og í framhaldi
af því hafi bifreiðin verið kaskótryggð hjá Sjóvá Almennum hf. og síðan veðsett
fyrir láni að fjárhæð 900.000 krónur hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Ekki hafi verið greitt neitt af láninu og
þegar ganga hafi átt að bifreiðinni hafi hún ekki fundist. Z hafi vísað á kærða en kærði neitað því að
bifreiðin væri í hans vörslu og ekki getað upplýst hvar bifreiðin væri
niðurkomin. Kærði segi í yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hafi afhent Z
bifreiðina án þess að viðgerð hafi farið fram og neiti vitneskju um afdrif
hennar.
Bifreiðina
SL-482 hafi kærði keypt í nafni H ehf. af Vátryggingafélagi Íslands hf. með
tjóni eftir umferðaróhapp. Í framhaldi af því hafi bifreiðin verið kaskótryggð
hjá Sjóvá-Almennum hf. og síðan veðsett fyrir láni að fjárhæð 1.250.000 krónur
hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Ekki hafi
verið greitt neitt af láninu og þegar hafi átt að ganga að veðinu þ.e.
bifreiðinni hafi hún ekki fundist og forráðamenn H og kærði hafi ekki getað eða
viljað upplýsa hvar hún væri niðurkomin. Kærði segi í yfirheyrslu hjá lögreglu
að hann hafi aldrei gert við bifreiðina.
Bílhræið hafi verið í húsnæði hans og telji hann helst að því hafi verið
hent.
Ríkislögreglustjóri
kveður rökstuddan grun vera um að kærði tengist öllum þessum fimm bifreiðum,
sem talið sé að hafi aldrei verið annað en bílhræ sem ekki hafi verið gert við,
og notaðar hafi verið sem andlag fjársvikanna með einum eða öðrum hætti. Hafi
frásögn kærða við yfirheyrslu hjá lögreglu ekki verið trúverðug um það að hann
tengist ekki ætluðum brotum kærðu Z og Y.
Kærði hafi haft milligöngu um innflutning og tollafgreiðslu innfluttu
bílanna og keypt tjónabílana ýmist í eigin nafni eða í nafni H ehf. Allir bílarnir hafi verið í vörslu kærða.
Suma þeirra segist hann hafa gert við en um það hafi hann ekki komið fram með
trúverðugar skýringar en hafa þurfi upp á bókhaldsgögnum kærða sem hann segist
ekki hafa í sínum vörslum. Þá þyki
liggja fyrir að eitt bílflak, sem notað hafi verið sem andlag veðsetningar,
hafi verið, þrátt fyrir að kærði hefði selt Z það, áfram í hans vörslu þar til
því hafi verið fargað, að því er virðist af kærða.
Rannsókn
vegna kæru tollayfirvalda beinist að ætluðu skjalafalsi og broti á tollalögum
vegna innflutnings 24 notaðra bíla þar sem kærða sé gefið að sök að hafa
framvísað röngum og eða fölsuðum vörureikningum og komist með þeim hætti hjá
því að greiða 10.219.481 krónu í aðflutningsgjöld. Rannsókn beinist að því m.a. að upplýsa um skráningu hjá tollyfirvöldum
á tveimur bifreiðum, sem samkvæmt gögnum frá Bandaríkjunum, þar sem þær voru
keyptar, hafi verið tjónlausar en í tollpappírum, þ.e. aðflutningsskýrslu séu
þær skráðar með tjóni. Grunsemdir séu einnig um að reikningar, sem
tollafgreiðsla hafi verið grundvölluð á, hafi verið falsaðir um kaupverð þar
sem það hafi verið miklu lægra en raunverulegt var. Grunsemdir beinist að þeim tollverði sem hafi tollafgreitt
bifreiðarnar um þátttöku í broti kærða
X.
Rannsókn
allra framangreindra brota sé á frumstigi og fyrir liggi að yfirheyra þá sem taldir
séu samsekir, þau Z, Y og S. Með vísan
til þess sem að framan sé rakið, rannsóknargagna og a.-liðar 1. mgr. 103. gr.
laga nr. 19/1991 sé þess krafist að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til
föstudagsins 8. nóvember n.k. þar sem hætta sé á að hann geti torveldað
rannsókn málsins svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka, ef hann fái
að fara frjáls ferða sinna.
Kærði er
grunaður um brot gegn ákvæðum XVII. og XXVI.
kafla alm. hgl. nr. 19/1940 einkum 248. gr. laganna., sem varðað geta fangelsisrefsingu.
Kærði hefur neitað sakargiftum. Rannsóknargögn, sem fyrir liggja, vekja hins
vegar grunsemdir um aðild hans að málinu þannig að telja verður að rökstuddur
grunur sé fram kominn um að hann tengist meintum brotum. Með hliðsjón af því að rannsókn málsins er á
byrjunarstigi og hætta á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins, fari
hann frjáls ferða sinna, með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast
meintum brotum og hann hefur tengsl við þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr.
laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi og ber að taka til
greina kröfu ríkislögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og hún er
fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari
kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal
sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8.
nóvember
2002, kl. 16:00.