Hæstiréttur íslands

Mál nr. 491/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 9

 

Þriðjudaginn 9. september 2008.

Nr. 491/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X  skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september, 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 5. september 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði  X, kt., [...], [heimilisfang], Akranesi sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. september, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær, 4. september, hafi X verið handtekinn grunaður um aðild að þjófnaði á skartgripum í verslun Franch Michelsen að Laugavegi 15 í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum starfsmanns í afgreiðslu hafi aðili koið inní verslunina og kíkti í einn glerskáp sem í hafi verið ýmsir skartgripir, en hann hafi gengið rakleiðis út, en komið  fljótlega aftur og beðið um að sjá armbönd en starfsmaðurinn hafi ekki getað sinnt honum, þar sem hún hafi verið sinna öðrum aðila, kærða, sem sem hafi dregið að sér athygli starfsmannsins. Í myndbandsupptökum, sem liggi fyrir, þekktist kærði X sem aðili í verslunni sem dragi að sér athygli afgreiðslukonunnar. Þegar sá fyrrnefndi, meðkærði, hafi farið út þá hafi verið búið að hreinsa úr einni skúffunni armbönd og fleira. Kærði X hafi upplýst að hafa farið með kærða Y í umrædda verslun á þeim tíma sem þjófnaðurinn var framinn.   Samkvæmt myndavélaupptökum sem liggi fyrir í málinu megi sjá hvar Y teygi sig yfir afgreiðsluborð verslunarinnar og taki þaðan skartgripi. Áætlað verðmæti þeirra hluta sem stolið var sé kr. 1.500.000 og séu þeir ófundnir.

X hafi í skýrslutöku hjá lögreglu neitað allri aðild að þjófnaðinum og sagst ekki hafa haft vitneskju um brot kærða Y.

Gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að unnt verði að vinna að rannsókn málsins án þess að kærði fái tækifæri til að torvelda henni, s.s. með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og eða aðra samseka eða spilla sönnunargögnum.

Rannsókn lögreglu sé á frumstigi og þurfi lögreglan ráðrúm til að vinna að rannsókn málsins og að mati lögreglu séu mjög miklir hagsmundir af því að orðið verði við kröfum hennar.

 X sé grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Með vísan til framnaritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.

Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 244 gr. laga nr. 19/1940 og sem varðar fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi og er, með vísan til framanritaðs og gagna málsins  sbr. a- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, eins og nánar kemur fram í úrskurðarorði.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

X, kt., [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. september nk., kl. 16:00.