Hæstiréttur íslands
Mál nr. 737/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. maí 2013. |
|
Nr. 737/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Magnús Björn Brynjólfsson hrl. Stefán Karl Kristjánsson hdl.) (Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A með því að hafa á heimili sínu með ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við hana er hún var 12 til 15 ára gömul, en X notfærði sér yfirburðastöðu sína gagnvart A vegna aldurs hennar og reynslu og fékk hana til kynmakanna með peningagreiðslum. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fram til 20. ágúst 2000, er A varð 14 ára, en eftir þann tíma við 3. mgr. 202. gr. laganna eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 61/2007. X var einnig sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn B með því að hafa á á heimili sínu, í kjallara í sama húsi, í bifreiðum sem hann hafði til umráða og á víðavangi með ólögmætri nauðung ítrekað látið B hafa við sig munnmök og haft munnmök við hann er B var 7 til 10 ára gamall og aftur frá því hann var 14 ára til 18 ára aldurs hans og ítrekað og stundum oft í viku látið B hafa við sig munnmök og haft munnmök og endaþarmsmök við B, en X notfærði sér yfirburðastöðu sína gagnvart B vegna aldurs og reynslu ennfremur sem hann fékk B til kynmaka með peningagreiðslum, gjöfum og áfengi er hann komst á unglingsaldur. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga fram til 4. október 2006, er B varð 14 ára, en eftir það og fram til 4. apríl 2007, er lög nr. 61/2007 tóku gildi, undir 3.mgr. 202. gr. laganna og eftir þann tíma einnig 1. mgr. 194. gr. þeirra. Með vísan til 1. mgr. 4. mgr. laga nr. 37/2013 var háttsemi X hins vegar ekki talin eiga ótvírætt undir 201. gr. almennra hegningarlaga. Gegn neitun X var hann sýknaður af ákæru um að hafa tekið af A kynferðislegar myndir og af B kynferðislegar ljós- og hreyfimyndir, en ekki tókst að opna dulkóðuð tölvugögn X og engar myndir fundust af brotaþolum í fórum hans. Var refsing X ákveðin fangelsi í 8 ár og honum gert að greiða skaðabætur til A að fjárhæð 1.600.000 krónur og til B að fjárhæð 4.000.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og krafist er í II. kafla ákæru en að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða verði að öðru leyti staðfest. Einnig er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Að því frágengnu krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins en ella refsimildunar. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi en til vara lækkunar þeirra.
A krefst staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína.
B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 4.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði en til vara staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína.
Krafa ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi er á því reist að ákæra sé ekki svo glögg sem mælt er fyrir um í c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt ákvæðinu skal greina í ákæru hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og heimfærslu þess til laga. Öll þessi skilyrði eru uppfyllt í ákæru og var vörn ákærða því í engu áfátt um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.
Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði á því að honum hafi verið boðið upp á ófullnægjandi aðstöðu til að hlýða á framburð brotaþola fyrir dómi. Meðferð málsins í héraði að þessu leyti er lýst í hinum áfrýjaða dómi og með vísan til þess sem þar kemur fram verður ekki fallist á þessa kröfu ákærða.
Þá reisir ákærði kröfu sína um ómerkingu á því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng og að áfellisdómur verði ekki á henni reistur, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hófst rannsókn málsins með kæru B á hendur ákærða þar sem fram kom að hann teldi líklegt að ákærði hefði einnig brotið gegn A. Vegna þessa hafði lögregla samband við hana og vildi hún í fyrstu ekki leggja fram kæru. Þá er meðal annars rakið að A hafði í marsmánuði 2003 sagt frænku sinni og trúnaðarvinkonu frá atferli ákærða í sinn garð. Hin síðarnefnda sagði vinkonu sinni frá og í kjölfarið var lögreglu tilkynnt um þetta án vitneskju A. Lögregla felldi þá rannsókn niður án þess að taka skýrslu af A eða ákærða. Er sú lýsing sem fram kom í umræddri tilkynningu til lögreglu frá árinu 2003 í samræmi við skýrslur A við meðferð þessa máls um atferli ákærða í hennar garð fram að þeim tíma. Í héraðsdómi eru reifuð ítarleg sérfræðigögn um slæmt heilsufarsástand beggja brotaþola sem rakið er til kynferðisbrota gagnvart þeim og af gögnum málsins verður ekki ráðið að brotaþolar hafi haft samráð um skýrslur sínar hjá lögreglu en þær samræmast framburði þeirra fyrir dómi. Er lýsing þeirra beggja mjög á sömu lund um samskipti við ákærða, meðal annars varðandi ummæli hans um hvað gerast myndi ef upp um hann kæmist og að hann hefði komið málum þannig fyrir að lögregla gæti aldrei opnað tölvugögn með kynferðislegum myndum sem hann sýndi þeim. Varð sú raunin að lögreglu tókst ekki að skoða öll tölvugögn ákærða, sem hefur kunnáttu á þessu sviði, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir meðal annars með aðstoð erlendis frá. Þá er fram komið að ákærði lét báða brotaþola margoft fá peninga á því tímabili sem ákæra tekur til auk þess sem fjölskipaður héraðsdómur tiltekur að ákærði hafi ekki gefið trúverðuga skýringu á hinum miklu samskiptum sínum við brotaþolann B eftir að hann komst á unglingsár og úr samskiptum hans og sonar ákærða dró. Að þessum atriðum virtum og öðru því sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi verða ekki vefengdar forsendur hans fyrir niðurstöðu um sakfellingu ákærða, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, sem verður þannig staðfest.
Niðurstaða héraðsdóms um heimfærslu háttsemi ákærða til refsiákvæða verður staðfest að öðru leyti en því að brot hans samkvæmt I. kafla ákæru varða ekki við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, áður 195. gr. sömu laga, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 562/2011 frá 19. janúar 2012. Háttsemi ákærða sem hann er fundinn sekur um samkvæmt II. kafla ákærunnar verður felld undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga fram til 4. október 2006, en þá varð brotaþoli 14 ára, en eftir það og fram til 4. apríl 2007, er lög nr. 61/2007 tóku gildi, undir 3. mgr. 202. gr. laganna og eftir þann tíma einnig 1. mgr. 194. gr. þeirra. Háttsemi ákærða á ekki ótvírætt undir 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga, sbr. nú 1. mgr. 4. gr. laga nr. 37/2013. Verður ákærði dæmdur í fangelsi í 8 ár. Ákvæði héraðsdóms um frádrátt gæsluvarðhalds verður staðfest sem og um sakarkostnað.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu A verður staðfest. Við ákvörðun bóta handa B verður að líta til þess langa tíma sem brot ákærða í hans garð stóð yfir og þær miklu andlegu afleiðingar sem það hefur haft. Að því virtu eru bætur til hans ákveðnar 4.000.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og dæmdir voru í héraði.
Dæma ber ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 ár, en til frádráttar refsingu hans komi gæsluvarðhald er hann sætti frá 16. nóvember til 25. nóvember 2010.
Héraðsdómur skal óraskaður um einkaréttarkröfu A.
Ákærði greiði B 4.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 938.314 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2012.
I
Málið, sem dómtekið var 2. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 13. apríl 2012 á hendur „X, kennitala [...], [...], [...], fyrir eftirfarandi kynferðisbrot:
I.
Gegn A, kt. [...], með því að hafa á tímabilinu 1998 2002, á heimili sínu að [...], [...], með ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við A er hún var 12-15 ára og tekið af henni kynferðislegar myndir, en ákærði notfærði sér yfirburðarstöðu sína gagnvart A vegna aldurs og reynslu og fékk hana til kynmakanna með peningagreiðslum. Brotin voru sem hér greinir:
1. Í a.m.k. 5 skipti látið A fróa sér með því að láta hana nudda getnaðarlim sinn.
2. Í a.m.k. 10 skipti látið A hafa við sig munnmök.
3. Skömmu fyrir 13 eða 14 ára afmælisdag hennar haft við hana samræði.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, áður 195. gr. sömu laga, og 1. mgr. 202. gr. sömu laga til 20. ágúst 2000, en eftir það við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, áður 195. gr. sömu laga, og 3. mgr. 202. gr. sömu laga, áður 2. mgr. 202. gr. sömu laga.
II.
Gegn B, kt. [...], með því að hafa á tímabilinu 1997 2010 á heimili sínu að [...], [...], og þar í kjallara í sama húsi, í bifreiðum sem hann hafði til umráða, og á víðavangi, með ólögmætri nauðung ítrekað látið B hafa við sig munnmök og haft munnmök við hann er B var 5-7 ára og frá þeim tíma og til 18 ára aldurs ítrekað og stundum oft í viku látið B hafa við sig munnmök og haft munnmök og endaþarmsmök við B og að auki í nokkur skipti tekið kynferðislegar ljós- og hreyfimyndir af B, en ákærði notfærði sér yfirburðarstöðu sína gagnvart B vegna aldurs og reynslu og að honum hafði verið trúað fyrir B sem dvaldi mikið á heimili ákærða ennfremur sem hann fékk B til kynmaka með peningagreiðslum, gjöfum og áfengi er hann komst á unglingsár.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., áður 195. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. til 4. október 2006 en eftir það við 1. mgr. 194. gr., áður 195. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 201. gr. og 3. mgr. 202. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á Ace borðtölvu og einum skrifanlegum DVD diski sem haldlagt var á heimili hans við húsleit þann 15. nóvember 2010.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.600.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1.1.2001 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu B er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 4.500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. nóvember 2010 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“
Ákæruvaldið féll frá upptökukröfunni við upphaf málflutnings.
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar.
II
Upphaf málsins má rekja til þess að þriðjudaginn 9. nóvember 2010 kom móðir síðargreinds brotaþola á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrota gagnvart syni sínum. Hún kvað son sinn hafa farið í meðferð í byrjun mánaðarins, en hann hefði misnotað áfengi og fíkniefni undanfarin ár. Hann hefði hringt í sig og sagst þurfa að tala við hana. Í samtali þeirra mæðginanna hefði komið fram hjá honum að ákærði hefði misnotað hann kynferðislega. Nokkrum dögum síðar var brotaþoli yfirheyrður af lögreglu og skýrði þar frá þeim atvikum sem II. kafli ákærunnar er byggður á. Við yfirheyrslu yfir brotaþolanum kom fram að hann taldi ákærða einnig hafa misnotað brotaþolann, sem er fyrrgreindur í ákærunni. Brotaþolinn var yfirheyrður og skýrði frá atvikum sem I. kafli ákærunnar er byggður á. Auk brotaþola voru allmörg vitni yfirheyrð. Ákærði var handtekinn og yfirheyrður, en hann neitaði sök. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald 16. nóvember 2010 og sat í því til 26. sama mánaðar. Lögreglan lagði hald á einn DVD disk með 4 skrám sem læstar voru með dulkóðunarkerfi. Ekki tókst að opna þessar skrár. Þá var og haldlögð tölvan, sem í ákæru greinir, en ekki tókst heldur að opna læst svæði í henni. Var það þó reynt með lykilorðum sem ákærði hafði gefið lögreglunni upp.
Brotaþolar hafa báðir gengið til sálfræðinga sem hafa gefið vottorð um líðan þeirra. Í vottorði vegna fyrri brotaþola, sem dagsett er 1. júní 2012, segir að hún hafi komið í viðtöl fjórum sinnum á árinu 2011 og einu sinni 2012. Haft er eftir brotaþola að allt hennar líf hafi mótast af meintu kynferðisofbeldi allt frá því að það hófst. Þetta komi fram í slakri sjálfsmynd, erfiðleikum við að treysta fólki og tengjast því tilfinningalega, þar með talið að verða ástfangin. Þegar brotaþoli kom fyrst til sálfræðingsins var hún með mjög alvarlegan kvíða sem hamlaði henni í öllu daglegu lífi, svo og töluverð þunglyndiseinkenni. Það var mat sálfræðingsins að brotaþoli væri nú óvinnufær vegna kvíða og muni langur tími líða þar til hún geti farið út á vinnumarkaðinn. Þá segir í vottorðinu að meint kynferðisofbeldi hafi haft áhrif á þróun kvíðasjúkdómsins. Sálfræðingnum fannst frásögn brotaþola trúverðug, „bæði vegna þess að samræmi er í frásögn hennar yfir langt tímabil og einnig að lýsing hennar af afleiðingum ofbeldisins eru sambærilegar við lýsingar margra annarra fórnarlamba kynferðisofbeldis sem undirrituð hefur talað við á margra ára tímabili. Það er ljóst að afleiðingar kynferðisofbeldisins eru miklar og þörf á langvarandi stuðningi og meðferð vegna þess.“
Í vottorði sálfræðings um síðari brotaþola segir að hann hafi komið í 8 viðtöl frá því í nóvember 2011 þar til í maí 2012. Hann hafi verið til meðferðar á geðdeild og í vímuefnameðferð. Auk greiningarmats hafi honum verið veittur sálrænn stuðningur og unnið að því að styrkja bjargráð hans til að takast á við streitu og vanlíðan sem hann hafi upplifað í kjölfar meintrar misnotkunar. Allt viðmót brotaþola bendi til þess að hann hafi endurtekið upplifað mikla lífsógn, ofsaótta og bjargarleysi þegar meint misnotkun átti sér stað. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að hann þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun í kjölfar meintrar misnotkunar og alvarlegs vímuefnavanda. Auk þess þjáist hann af almennum kvíða tengdum skynjun á líkama sínum. „Sálræn einkenni hans í kjölfar endurtekinna áfalla samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þá ber einnig að hafa í huga að þau bjargráð“ sem brotaþoli hafi notað til að takast á við meinta misnotkun eru vel þekkt hjá börnum og unglingum sem hafa orðið fyrir endurtekinni misnotkun. Sálfræðingurinn telur „ljóst að atburðurinn hefur haft víðtæk og langvarandi áhrif á hann. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum hans í viðtölum. Hann virðist ávallt hreinskilinn, trúverðugur og samkvæmur sjálfum sér.“ Þá segir að brotaþola hafi reynst erfitt að halda sér fá vímuefnum utan verndaðs umhverfis. „Þá hefur honum einnig reynst erfitt að takast á við einkenni áfallastreituröskunar, þá sérstaklega að draga úr forðunarhegðun og takast á við ágengar síendurteknar minningar um meinta misnotkun og sterkar neikvæðar tilfinningar sem hann upplifir í kjölfar meintrar misnotkunar.“ Í lokin segir að meðferð brotaþola sé á frumstigi og ekki hægt að segja til um hversu langan tíma hún taki, en hún miði að því að auka bjargráð hans og halda honum frá vímuefnum.
III
Í þessum kafla verður rakið það sem fram kom við aðalmeðferð málsins. Ákærði ítrekaði neitun sína. Hann kvað brotaþola í fyrri kafla ákæru vera systurdóttur eiginkonu sinnar. Hann kvaðst hafa kynnst henni 1998, en á því ári hefði hann fengið hana til að gæta sonar síns vegna veikinda eiginkonunnar. Ákærði kvaðst telja brotaþola hafa gætt drengsins í um tíu skipti og hefði hún ekki fengið greitt fyrir það í fyrstu en svo hefði það breyst. Þá kvað ákærði eiginkonu sína hafa verið mjög veika á þessum tíma og þess vegna hefði brotaþoli verið mikið á heimilinu. Undir ákærða var borið það sem brotaþoli ber á hann og í ákæru greinir. Ákærði neitaði þessu alfarið og eins að hafa greitt brotaþola fé nema fyrir að gæta sonar síns en það hafi ekki verið háar fjárhæðir, 500 krónur í hvert skipti. Hann neitaði einnig alfarið að hafa gefið henni 18.000 krónur sem hún hafi notað í afmælisveislu sína. Ákærði benti á að brotið hefði verið gegn brotaþola á þessum tíma af öðrum manni og hefði hann verið dæmdur fyrir það. Eins hefði stjúpi hennar beitt hana ofbeldi. Þá kvaðst hann hafa heyrt frá móður brotaþola að á árunum 2002 og 2003 hefði brotaþoli verið í „tómu rugli“ eins og hann orðaði það, en hann hefði ekki orðið var við það. Ákærði kannaðist við að hafa lánað brotaþola peninga og hefði það byrjað þegar hún byrjaði með barnsföður sínum. Hann hefði margsinnis lánað henni og honum peninga og hefðu þau oftast greitt til baka. Ákærði lýsti samskiptum sínum við þau vegna peningalána og annars sem miðaði að því að koma fótunum undir þau fjárhagslega, en ekki er ástæða til að rekja það frekar. Þó er rétt að geta þess að ákærði kvað brotaþola hafa hótað sér því á árinu 2005 að ef hann ekki lánaði þeim peninga myndi hún kæra hann fyrir að hafa misnotað sig. Hann kvað son sinn hafa orðið vitni að þessu. Ákærði kvaðst hafa sagt brotaþola og kærasta hennar að þau skyldu þá bara kæra sig. Skömmu síðar hefði brotaþoli hringt og beðið sig afsökunar. Í framhaldinu hefði hann hætt að lána þeim en þó hefði hann greitt upp lán sem hann var ábyrgðarmaður á. Ákærði neitaði alfarið að hafa tekið kynferðislegar myndir af brotaþola.
Varðandi brotaþola í síðari lið ákærunnar neitaði ákærði einnig sök. Hann kvaðst muna fyrst eftir brotaþola 1999, en hann hóf skólagöngu ásamt syni sínum haustið 1998. Ákærði kvað brotaþola hafa verið opinn og skemmtilegan strák og hefði sér strax líkað vel við hann. Hann kvaðst ekki muna eftir því að brotaþoli hefði verið meira á heimilinu en aðrir krakkar. Upp úr árunum 1999 til 2000 hefði brotaþoli farið að vera meira á heimili ákærða og gista þar. Þetta hefði verið í tengslum við vináttu hans og sonar ákærða. Þeir hefðu verið miklir vinir og hefði brotaþoli sóst eftir að fá að gista á heimili ákærða. Þá kvaðst ákærði minnast þess að brotaþoli hefði verið hjá þeim um jólin 2007 og hefði það verið vegna aðstæðna á heimili brotaþola, meðal annars deilna foreldra hans um hann, en þau hefðu verið skilin og móðirin hefði kynnst nýjum manni. Móðirin hefði spurt hvort brotaþoli mætti vera hjá þeim um jólin. Þá kvaðst ákærði minnast þess að móðir brotaþola hefði einu sinni beðið sig um að sækja hann til föður síns og hefði hann gert það, enda hefði brotaþoli ekki viljað vera hjá föður sínum. Þetta hefði verið á árinu 2004. Almennt kvað ákærði heimili sitt hafa verið eins og annað heimili brotaþola. Hann hefði gengið þar út og inn að vild, borðað þar, farið í sturtu, auk annars. Hann hefði meðal annars átt þar tannbursta. Þessi mikli umgangur hefði hafist á árinu 2006. Árið eftir kvaðst ákærði hafa komist að því að brotaþoli væri farinn að neyta kannabisefna og hefði hann þá gert honum grein fyrir að ef hann hætti því ekki mætti hann ekki koma oftar á heimilið. Þá kvaðst ákærða hafa vitað um áfengisneyslu brotaþola á þessum tíma og vita til þess að hann fór í meðferðir vegna þess. Á þessum tíma minnkuðu samskipti sonar ákærða við brotaþola. Brotaþoli og hann hefðu hins vegar haldið áfram samskiptum og meðal annars hefði brotaþoli hjálpað sér á árunum 2008 og 2009 við að endurnýja íbúð sína og fengið greitt fyrir það um eitt hundrað þúsund krónur hvort ár. Þá kvaðst ákærði hafa ætlað að bjóða brotaþola til útlanda með fjölskyldunni, en ekkert hefði orðið úr því þegar brotaþoli kærði hann. Þá kvaðst ákærði hafa lánað brotaþola peninga skömmu áður en hann var kærður. Ákærði kvað brotaþola hafa kært sig til að fá skaðabætur og eins hefði hann fundið skýringar á vandræðum sínum í meintri kynferðislegri misnotkun ákærða. Ákærði neitaði alfarið að hafa tekið kynferðislegar myndir af brotaþola, en hann hefði tekið myndir af honum berum að ofan. Ætlaði brotaþoli að setja myndirnar á netið þegar hann hafi verið að kynnast stúlku. Þá kvaðst ákærði geta opnað öll lokuð svæði í tölvu sinni. Ákærði kannaðist við að hafa farið í ökutúra með brotaþola og eins að hann hefði komið með sér í geymslu í kjallara íbúðar sinnar.
Brotaþoli, sem um getur í fyrri lið ákæru, bar að hún hafi verið 12 ára þegar ákærði hafi fyrst misnotað sig. Hún hefði verið á heimili hans þegar hún hefði komið að honum að horfa á klámmynd og fróa sér. Þau hefðu farið að ræða saman um að hún ætti að gera eitthvað fyrir hann og hefði umræðurnar leitt til þess að hún hefði fróað honum. Síðan hefði hún gert þetta aftur í nokkur skipti en síðan farið að veita ákærða munnmök. Í eitt skipti hefði hann svo haft samfarir við sig. Þessu hefði svo lokið þegar hún varð 15 ára. Brotaþoli kvaðst ekki muna nákvæmlega hversu oft hún hefði fróað ákærða en taldi það hafa verið oftar en 5 sinnum og oftar en 10 sinnum eins og hún orðaði það. Hún kvaðst ekki hafa tölu á þeim skiptum sem hún veitti ákærða munnmök en taldi þau hafa verið fleiri en 10 en kvaðst ekki muna hvernig þau byrjuðu. Eftir að munnmökin hófust hefði hún hætt að fróa honum, enda hefði hann þá bara viljað munnmökin. Hún kvað ákærða einnig hafa beðið sig um að leyfa sér að hafa við sig endaþarmsmök en það hefði hún aldrei viljað. Brotaþoli kvað ákærða einnig oft hafa spurt sig hvort hún vildi hafa við sig samfarir, en hún hafi ekki viljað það fyrr en hún hafði misst meydóminn 13 eða 14 ára gömul. Eftir það kvað hún það hafa verið auðveldara fyrir sig að leyfa ákærða að hafa við sig samfarir. Hún kvað sig hafa vantað peninga til að halda upp á afmæli sitt og ákveðið að hafa samfarir við ákærða og hefði hann greitt henni 18 til 20 þúsund krónur. Fyrir þessa fjárhæð hefði hún leigt límósínu og boðið félögum sínum út að borða. Þetta var rétt fyrir 14 ára afmæli hennar. Þá kvað hún ákærða hafa greitt sér fyrir í öll skiptin sem hún hafði mök við hann, svona 5 til 10 þúsund krónur í hvert skipti.
Brotaþoli kvaðst hafa verið mikið á heimili ákærða, enda væri eiginkona hans móðursystir sín. Hún kvaðst hins vegar aldrei hafa gætt sonar ákærða. Á þessum tíma hefði hún búið hjá móður sinni, en ákærði oft sótt sig. Hann hefði verið mjög duglegur að aka henni ef hana vantaði far. Brotaþoli kvaðst hins vegar ekki geta skýrt af hverju hún hefði sótt í að vera á heimili ákærða eftir að kynferðisleg samskipti þeirra hófust, en tók fram að ákærði hefði borgað sér. Stundum þegar hana vantaði pening hefði hún farið til hans. Þá tók hún fram að hún og ákærði hefðu verið ein á heimilinu þegar þetta gerðist. Ákærði sendi eiginkonu sína að heiman þegar þetta stóð til. Þá bar brotaþoli að ákærði hefði tekið myndir af sér nakinni þegar hún var 12 ára og kvaðst hún hafa séð þessar myndir í tölvu ákærða. Hún kvað ákærða hafa sagt að enginn, ekki einu sinni lögregla í útlöndum, gæti komist í þessar myndir.
Brotaþoli kvaðst engum hafa sagt frá þessu á þessum tíma en síðar hefði hún sagt vinkonu sinni, sem jafnframt er frænka hennar, frá þessu. Hún hefði líka sagt henni frá kynferðislegri misnotkun ákærða á stjúpsyni hans. Hún kvaðst einu sinni hafa séð ákærða hafa endaþarmsmök við stjúpsoninn. Ekki mundi hún hvenær þetta var en drengurinn hafi ekki verið orðinn kynþroska. Hún kvaðst hafa kynnst barnsföður sínum þegar hún var 15 ára og þá hefði þessum afskiptum ákærða af henni lokið. Hún kvaðst hafa sagt barnsföðurnum frá misnotkun ákærða en þó ekki í smáatriðum. Hjá brotaþola kom fram að hún hefði haldið áfram að veita ákærða munnmök eftir að hann hafði haft við hana samfarir eins og að framan sagði. Hún kvaðst ekki eingöngu hafa fengið peninga hjá ákærða fyrir kynmök heldur hefði hún leitað til hans þegar hana vantaði peninga og þá fengið þá án þess að eiga við hann mök í staðinn. Eftir að kynferðislegum samskiptum þeirra lauk kvaðst hún oft hafa leitað til ákærða og hann lánað henni peninga. Eins hefði ákærði skrifað upp á lán fyrir sig og barnsföður sinn sem þá var orðinn sambýlismaður hennar.
Brotaþoli kvaðst hafa leitað til sálfræðings út af ofsakvíða sem hrjái hana, en hún kvaðst ekki hafa getað kært ákærða. Henni hefði fundist að hún væri að gera móðursystur sinni, eiginkonu ákærða, illt með því en hún hafi verið veik. Brotaþola var bent á að lögreglu hefði borist nafnlaus tilkynning um misnotkun ákærða 2003 en hún kvaðst ekkert um hana hafa vitað. Þá kvaðst hún þjást af þunglyndi. Hún kvaðst rekja kvíðann til misnotkunarinnar og eins lélega sjálfsmynd sína. Hún kvaðst vera atvinnulaus í dag og vera í endurhæfingu vegna framangreinds sjúkleika. Hún kvaðst hins vegar ekki eiga við vímuefnavanda að etja.
Brotaþoli kvaðst hafa þekkt brotaþolann, sem síðari ákæruliður fjallar um, enda hefði hann verið mikið á heimilinu. Hún kvaðst þó engin samskipti hafa átt við hann og þau hefðu þar af leiðandi aldrei rætt um þessa hluti. Brotaþoli kvað sig þó hafa grunað að ákærði væri að misnota hinn brotaþolann, enda hefði mynstrið á samskiptum ákærða við hann verið það sama og á samskiptum hans við hana. Ákærði hefði verið að aka honum, gefa honum peninga og annað þess háttar. Þá kvaðst hún einu sinni hafa svarað síma á heimili ákærða og þá hefði hinn brotaþolinn verið að hringja og spyrja um ákærða en ekki son hans. Eftir að lögreglan hafði tekið skýrslu af sér og hinum brotaþolanum kvaðst hún þó hafa haft samband við hann á fésbókinni og sagst vera stolt af því sem hann hafði gert. Loks kvaðst brotaþoli einu sinni hafa gist á heimili ákærða eftir að hún skildi við sambýlismann sinn. Þá hefði sonur hennar gist þar, enda hefði þá eiginkona ákærða verið að gæta hans. Hún kvaðst aldrei hafa hótað ákærða að kæra hann ef hann léti hana ekki hafa peninga. Hún hefði hins vegar minnt hann stundum á hvað hann hefði gert og hann þá spurt hvað hann hefði gert henni. Hún kvaðst þó hafa litið svo á að hún gæti leitað til hans eftir það sem hann hafði gert henni. Þá kannaðist hún við að hafa í símtali 2005 minnt hann á samskipti þeirra en það hafi ekki verið í sambandi við beiðni hennar um peninga. Brotaþoli kvaðst einnig hafa verið misnotuð af öðrum manni sem hefði verið dæmdur fyrir það, en það hefði ekki verið líkt því eins gróft og misnotkun ákærða. Hún var spurð hvort hún hefði séð einhverja missmíð á líkama ákærða, áverka eða eitthvað slíkt, og kannaðist hún ekki við það.
Brotaþoli kom aftur fyrir dóm við lok aðalmeðferðar. Hún var spurð hvort ákærði hefði rætt við hana um að hún mætti ekki segja frá þessu og sagði hún að hann hefði sagt að ef hún segði frá þessu myndi hann drepa sig. Hún mundi ekki hvenær hann hefði sagt þetta en þau hefðu verið í bíl og það hefði verið á þeim tíma sem á brotunum stóð.
Brotaþoli, sem um getur í síðari lið ákæru, bar að hann hefði kynnst syni ákærða í gegnum bróður sinn og þeir orðið vinir. Þeir séu jafnaldrar og hafi orðið bestu vinir. Brotaþoli kvaðst hafa farið að gista heima hjá ákærða þegar hann var 5 eða 6 ára gamall. Hann kvað ákærða hafa farið að vekja sig á nóttunni og sýnt sér myndir og farið að láta hann „gera hluti“ eins og hann orðaði það. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir hvað þetta var en talið sig elska ákærða. Nánar spurður um hvað ákærði hefði gert kvaðst brotaþoli ekki almennilega muna eftir hvað gerðist í fyrstu skipti þegar ákærði vakti hann, en skömmu síðar hafi ákærði byrjað að misnota sig kynferðislega með því að láta sig hafa við sig munnmök. Þá kvaðst hann heldur ekki muna almennilega hvað hann var gamall þegar þetta byrjaði, en þetta hafi þróast hratt og ákærði hefði farið að láta hann hafa peninga. Brotaþoli kvaðst hafa farið að taka þátt í þessu með ákærða og hefði það staðið í mörg ár. Hann kvaðst vera alveg viss um að þetta hafi hafist þegar hann var 5 eða 6 ára. Alltaf hafi verið um sömu athafnir að ræða, það er gagnkvæm munnmök, en í fyrstu hefði hann ekki viljað láta ákærða „fikta“ í rassinum á sér. Hann kvaðst þó ekki vera viss um að ákærði hefði sogið liminn á sér í upphafi. Brotaþoli bar að þetta hefði gerst heima hjá ákærða þegar eiginkona hans var ekki heima. Brotaþoli kvað mökin hafa átt sér stað á heimili ákærða, bæði í hjónaherberginu og í geymslu, eins á vinnustað hans þegar þar var lokað. Eins hefði þetta gerst í bíl ákærða. Þá kvað hann ákærða hafa, þegar hann var 5, 6 eða 7 ára, eitthvað hafa átt við endaþarminn á sér en framburður hans um það var frekar óljós.
Brotaþoli kvað þessum samskiptum þeirra hafa lokið skömmu eftir að hann varð 18 ára. Þá bar brotaþoli um það að kynferðisleg misnotkun ákærða hefði hætt á tilteknu tímabili frá því að hann var 10 ára og þar til hann var 14 ára. Hann var þó ekki alveg viss um þetta og bar að það hefði eins getað verið frá því hann var 11 ára eða 12 ára, en hléið hefði varað til þess að hann varð 14 ára. Eftir að brotaþoli varð 14 kvaðst hann hafa farið að reykja kannabisefni og þurft peninga til að fjármagna neysluna. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða þegar hann var 12 ára, að því er hann taldi, að hann vildi þetta ekki lengur, en byrjað aftur 14 ára til að fá peninga fyrir kannabisefnum. Hann kvaðst einnig hafa fengið peninga fyrir þetta þegar hann var yngri. Eftir að hann varð 14 ára kvaðst hann hafa fengið 5000 krónur fyrir munnmök og 10.000 krónur fyrir endaþarmsmök. Hann kvað ákærða þó ekki hafa fengið að „ríða sér eitthvað fast“ eins og hann orðaði það, heldur hafi hann orðið að gera það varlega, enda hafi sér alltaf hafa þótt þetta vont. Brotaþoli var spurður hvort hann hefði séð einhverja missmíð á líkama ákærða, áverka eða eitthvað slíkt, og kannaðist hann ekki við það.
Brotaþoli kvað sér lengi hafa liðið illa og jafnvel verið farinn að hugsa um að fyrirfara sér. Hann kvað síðustu samskipti sín og ákærða hafa verið í bíl skömmu eftir að hann varð 18 ára. Eftir það hefði hann farið inn á Vog og brotnað þar saman. Hann hefði hringt í móður sína og sagt henni allt af létta. Þá kvað brotaþoli það hafa haldið aftur af sér með að segja frá þessu að ákærði hefði hótað að fyrirfara sér ef hann gerði það. Brotaþoli kvaðst hafa tekið þetta alvarlega og það hefði haldið aftur af honum, enda hefði hann talið sig elska ákærða. Þá kvaðst hann vita til þess að ákærði hefði misnotað stjúpson sinn. Hann kvað ákærða hafa tekið klámfengnar myndir af sér og væru þær í tölvu hans. Ákærði hefði sagt sér að engin leið væri að komast í þessar myndir. Þá kannaðist brotaþoli við að ákærði hefði tekið af sér myndir til að setja á netið og hefði hann verið ber að ofan. Hann kvaðst einnig hafa séð myndir af stjúpsyni ákærða en var ekki viss um að hafa séð myndir af hinum brotaþolanum.
Brotaþoli kvað misnotkun ákærða á sér hafa stundum verið tvisvar í viku og stundum tvisvar í mánuði. Svona hefði þetta verið á báðum tímabilunum. Hann kvað þetta hafa gerst mjög oft og hefði hann ekki tölu á því, en á tímabilinu frá 16 til 18 ára hefði það gerst mjög oft, enda hefði hann þá þurft peninga til að kaupa efni. Þá kvað brotaþoli ákærða hafa sagt við sig undir lokin að þeir yrðu að fara að hætta þessu, hann væri að verða fullorðinn og kominn með hár á rassinn og ákærða fyndist hann ekki „sexí“ lengur. Brotaþoli kvaðst hafa farið oft í meðferð við fíkniefnaneyslu frá því að hann var 14 ára, en aldrei gert sér grein fyrir vandamáli sínu fyrr en hann horfðist í augu við misnotkunina. Hann kvaðst aðeins kannast við hinn brotaþolann sem systurdóttur eiginkonu ákærða, en þau hefðu ekki rætt þessi mál. Hann kvaðst ekki kannast við að sonur ákærða hefði sagt sér að hinn brotaþolinn hefði hótað að kæra ákærða.
Brotaþoli kvaðst nú vera á geðdeild. Hann væri búinn að vera í viðtölum við sálfræðing og sæi nú líf sitt í öðru ljósi. Hann gerði sér grein fyrir hversu miklu tjóni misnotkun ákærða hefði valdið sér.
Stjúpsonur ákærða bar að hafa búið á heimili ákærða þar til í mars á þessu ári. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við að ákærði hefði brotið gegn brotaþolum. Þá kvaðst hann ekki hafa séð kynferðislegar myndir af þeim í vörslum ákærða. Hann kvað ákærða ekki hafa misnotað sig og hann hefði ekki tekið af sér kynferðislegar myndir. Framburður brotaþola var borinn undir hann og ítrekaði hann að ekkert af þessu hefði gerst. Brotaþolar hefðu hins vegar verið mikið á heimilinu og eins kvaðst hann minnast þess að fyrri brotaþoli hefði gætt sonar ákærða. Eins hefði ákærði og eiginkona hans gætt barna hennar.
Sonur ákærða bar að síðari brotaþoli væri æskuvinur sinn og hefðu þeir kynnst árið 1998 þegar þeir byrjuðu í skóla. Brotaþoli hefði mjög snemma farið að gista á heimili sínu og verið heimagangur þar. Hann kvað aldrei neitt hafa komið upp á í vináttu þeirra fyrr en brotaþoli fór að neyta áfengis og fíkniefna á unglingsárunum, en sér hefði ekki fallið það. Brotaþoli hefði þó haldið áfram að koma á heimilið, enda verið vinur allra þar. Sonurinn kvaðst aldrei hafa orðið var við að ákærði væri að brjóta gegn brotaþola. Þá kvað hann fyrri brotaþola einnig hafa oft komið á heimilið og hefði hún oft gætt sín og þau þá verið ein heima. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt varðandi hana en hún hefði hringt í ákærða 2005 og beðið um lán. Þegar ákærði neitaði hefði hún hótað að kæra hann, en hann kvaðst aðeins vita óljóst um það. Hann hefði sagt síðari brotaþola frá þessu sumarið 2010. Sonurinn bar um góð samskipti sín við ákærða og eins um góð samskipti ákærða við stjúpson sinn. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við kynferðislega misnotkun ákærða. Hann kannaðist við að síðari brotaþoli hefði fengið peninga hjá ákærða.
Eiginkona ákærða skoraðist undan því að bera vitni.
Móðir fyrri brotaþola bar að hún hefði einu sinni rætt við sig um meint kynferðisbrot ákærða og hefði hún þá verið um það bil 16 ára. Fyrst hefði hún sagt barnsföður sínum frá þessu. Hún hefði sagt sér að ákærði hefði misnotað sig en ekki farið nánar út í smáatriði. Móðirin kvað sér hafa brugðið og rætt við mann sinn en ekki við ákærða eða eiginkonu hans, sem er systir hennar. Þá kannaðist hún við að brotaþoli hefði haldið upp á afmæli sitt með því að leigja límósínu og hefði ákærði borgað hana. Þetta kvaðst hún fyrst hafa vitað þegar brotaþoli sagði henni frá misnotkuninni. Móðirin var spurð um ástand brotaþola þegar meint misnotkun átti að hafa átt sér stað og kvaðst hún engin merki hafa borið um vanlíðan. Henni hefði gengið vel í skóla og verið dugleg. Um 15 ára aldur hefði hins vegar komið ljós að hún var haldin ofsakvíða og henni liði illa. Hins vegar kvaðst hún ekki hafa talið að brotaþoli hefði verið í „tómu rugli“. Þá hefði brotaþoli ekki gætt barns ákærða og konu hans. Þau hefðu hins vegar gætt barna hennar en það væri langt síðan.
Eiginmaður móðurinnar og stjúpfaðir fyrri brotaþola bar að hann hefði á unglingsárum brotaþola veitt eftirtekt breytingum á henni sem hann hefði talið stafa af þroskabreytingum á unglingsárum. En þetta hefðu verið mjög miklar breytingar. Brotaþoli hefði breyst úr því að vera mjög þæg í að vera ódæl. Hins vegar kvað hann brotaþola ekki hafa opnað sig mikið og í raun lokast gagnvart sér. Þá hefði brotaþoli farið að neyta efna án þess að hann gæti lýst því frekar, en hún hefði farið í meðferð. Þetta hafi verið þegar brotaþoli hafi verið 13 til 14 ára. Í framhaldinu hefði hún kynnst barnsföður sínum og þá hefði komist jafnvægi á líf hennar. Hann kvaðst ekki hafa haft mikil samskipti við heimili ákærða og ekki vita um samskipti brotaþola við það.
Fyrrum sambýlismaður og barnsfaðir fyrri brotaþola bar að hafa búið með henni frá 2002 til 2009. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum fjölskyldu brotaþola og fundist undarlegt hvað brotaþoli átti greiðan aðgang að honum og átti auðvelt með að fá peninga hjá honum þegar henni hentaði. Hann kvaðst hafa spurt brotaþola hvernig á þessu stæði og fengið óljós svör í ýmsum útgáfum. Hann kvaðst ekki vera áreiðanlegt vitni, enda hefði brotaþoli í raun ekki sagt sér annað en að einhvern tíma hefði átt sér stað kynferðisleg áreitni. Hann kvaðst ekki geta skýrt þetta nánar að öðru leyti en því að þetta hafi gerst þegar hún var 12 til 14 ára. Hann kvað sig hafa grunað að ekki væri allt með felldu og spurt brotaþola hvort hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti sem tengdist ákærða. Brotaþoli hefði sagt sér þetta skömmu eftir að þau byrjuðu að vera saman og það með að hún vildi gleyma þessu og má úr minni sínu. Hún hefði verið með kvíðaröskun og loks fengist til að leita til sálfræðings þótt hann gæti ekki fullyrt að það tengdist ætlaðri kynferðislegri misnotkun. Hann kvaðst hafa verið mikið á heimili ákærða og þar hefði ekkert „undarlegt verið í gangi“ eins og hann orðaði það. Fjölskyldan hefði virst alveg eðlileg. Þá kvað hann ákærða hafa skrifað upp á lán fyrir þau að hans beiðni.
Móðir síðari brotaþola bar að 5. nóvember 2010 hefði brotaþoli hringt í sig frá meðferðarstofnun. Hann hefði sagt að hann þyrfti að koma heim og tala við sig. Hún kvaðst hafa sagt að það gengi ekki, hann yrði að klára meðferðina. Þá hefði hann sagt „mamma, ég þarf að segja þér svolítið“ og hún kvaðst hafa spurt hvort það mætti ekki bíða en hann hafi neitað því og viljað tala við hana strax. Síðan sagði hann við hana „mamma, ég hef verið misnotaður“ og hefði það komið henni algerlega á óvart, en hún hefði tengt það við neyslu brotaþola. Brotaþoli hefði svo farið að tala um að hann hefði verið misnotaður frá því hann var lítill. Móðirin kvaðst hafa fengið að koma og tala við brotaþola og það fyrsta sem hún hefði spurt hann hefði verið hvort það væri ákærði sem um væri að ræða og hefði hann játað því. Síðan hefði brotaþoli sagt að þetta væri mjög alvarlegt en þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hún hefði fengið að vita um þetta.
Móðir brotaþola kvað hann fyrst hafa farið að koma á heimili ákærða þegar hann hóf grunnskólanám. Hún kvaðst minnast þess að ákærði hefði fylgt brotaþola heim og hvað sér hefði fundist það almennilegt af honum. Þetta hefði gerst þegar brotaþoli var mjög lítill. Hann hefði alltaf verið mikið á heimili ákærða en sonur ákærða hefði ekki verið mikið á heimili brotaþola. Þar hefðu verið eldri og fyrirferðameiri strákar og þeir því haft meira næði heima hjá ákærða. Eins hefði sér fundist að ákærði veitti brotaþola stuðning og þar ætti hann bakhjarl, enda hefði faðir brotaþola ekki verið til staðar fyrir syni sína. Hún kvaðst hafa hugsað hvað brotaþoli væri heppinn að njóta stuðnings ákærða. Brotaþoli hefði gist á heimili ákærða og kvaðst hún hafa átt mikil samskipti við ákærða og sér hefði ekki dottið í hug að eitthvað misjafnt væri að eiga sér þar stað. Þegar brotaþoli og sonur ákærða hættu að vera daglegir félagar hefðu samskipti brotaþola og fjölskyldu ákærða haldið áfram. Ákærði og brotaþoli hefðu gert ýmislegt saman eins og að fara í sund og bíó og eins farið á skyndibitastaði. Kvaðst hún hafa talið að ákærði væri að styðja við brotaþola vegna aðstæðna á heimili hans. Hún kvaðst ekki hafa haft minnstu hugmynd um hvað gengi raunverulega á í samskiptum ákærða og brotaþola. Hún kvaðst hafa verið ein með syni sína og í kringum þau hafi ekki verið sterkt net, það er fólk sem var í samskiptum við þau.
Hún kvaðst hafa vitað til þess að brotaþoli var byrjaður að nota kannabis um 15 ára aldur. Um svipað leyti hefði hann verið á geðdeild. Hún kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hversu mikil neyslan væri en vitað að brotaþola leið illa. Honum hefði liðið illa í skóla en hún kvaðst ekki hafa tekið eftir að honum liðið illa heima. Eftir á kvaðst hún halda að vanlíðan brotaþola vegna misnotkunarinnar hafi komið fram í skólanum en ekki á heimilinu. Þá kom fram hjá henni að brotaþola hefði ekki liðið illa í leikskóla. Hann hefði einnig þjáðst af átröskun og gengið til sálfræðings vegna þess. Þá hefði hann verið í nokkur ár ofurnæmur á líkama sinn og hefði hann fundið ýmislegt að honum og sumt hefði ekki getað staðist, eins og til dæmis að hann hefði brotnað. Það hefði verið tekin af honum röntgenmynd sem hefði sýnt honum að hann hefði aldrei brotnað. Þá hefði hún farið með hann til kírópraktors sem hefði farið vel yfir ástand líkama hans með honum og hefði brotaþola liðið betur á eftir. Móðirin kvaðst hafa merkt miklar breytingar á líðan brotaþola eftir að hann hafði sagt frá þessu. Eftir það hefði honum liðið eins og hann væri frjáls og hefði fengið lífið til baka.
Vinkona fyrri brotaþola, sem einnig er systurdóttir eiginkonu ákærða, bar að brotaþoli hefði sagt sér frá misnotkun ákærða. Hún kvaðst upphaflega hafa tilkynnt um misnotkunina til lögreglu fyrir 8 eða 9 árum þegar brotaþoli var 16 ára gömul. Þá kvað vinkonan brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði misnotað sig og hefði hann oft látið hana hafa við sig munnmök og eins haft samfarir við hana einu sinni og greitt henni fyrir 15.000 krónur. Vinkonan kvaðst og hafa tekið eftir að brotaþoli var í miklum samskiptum við ákærða og var með peninga sem hann hafði látið hana hafa. Eins hefði brotaþoli sagt sér að ákærði hefði misnotað stjúpson sinn og brotaþola í sama skipti. Ákærði hefði haft endaþarmsmök við stjúpsoninn að henni viðstaddri. Þá hefði ákærði og tekið myndir af henni. Vinkonan kvað þær brotaþola vera nánar og hafi hún trúað henni fyrir þessu og hafi hún alls ekki mátt segja frá þessu. Eftir að hún tilkynnti þetta til lögreglu kvað hún brotaþola hafa verið mjög hrædda og ekki haft við sig samskipti í eitt og hálft ár. Málið hafi síðan verið tekið upp hjá lögreglu eftir að síðari brotaþoli kærði.
Vinkona framangreinds vitnis bar að hafa verið heima hjá vitninu þegar það hefði sagt sér að ákærði hefði misnotað brotaþola. Einnig að hann hefði misnotað fósturson sinn. Hún tók fram að vitnið hefði áður verið búið að segja sér þetta, en í þetta skipti hefði verið ákveðið að tilkynna þetta til lögreglunnar. Vinkonan kvað vitnið hafa beðið sig um að segja brotaþola ekki frá tilkynningunni. Hún kvaðst hafa hringt í lögregluna og hefðu lögreglumenn komið og tekið af þeim nákvæmar skýrslur. Vinkonan kvað misnotkunina hafa falist í myndatökum og að ákærði hefði gert eitthvað við brotaþola og hefði vitnið útskýrt það fyrir lögreglumönnunum. Vitnið kvaðst sjálft aldrei hafa rætt við brotaþola um þetta.
Persónulegur ráðgjafi síðari brotaþola sem starfar á vegum barnaverndaryfirvalda bar að brotaþoli hefði sagt sér frá því að hann hefði verið misnotaður kynferðislega. Þetta hafi verið nokkrum dögum fyrir 18 ára afmæli hans og hafi hún verið fyrsti maður sem hann sagði frá þessu. Hún kvað brotaþola hafa verið skjólstæðing sinn frá því hann var 14 ára. Hann hefði verið búinn að hringja í sig og segja sér að hann þyrfti að segja henni frá máli sem væri búið að liggja á honum í mörg. Þau hefðu síðan hist og hann sagt sér frá því að ákærði hefði misnotað sig allt frá 5 ára aldri. Á unglingsaldri hefði ákærði farið að láta hann hafa pening sem brotaþoli hefði notað til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Ráðgjafinn kvað brotaþola ekki hafa lýst því hvað ákærði gerði að öðru leyti en því að segja að hann hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Hún kvað brotaþola hafa verið niðurbrotinn og átt mjög erfitt með að segja frá þessu. Þá kvað brotaþoli ákærða hafa tekið myndir af sér og stúlku sem tengdist fjölskyldu ákærða. Eins hefðu verið teknar myndir af elsta syni ákærða.
Ráðgjafinn kvað brotaþola ekki hafa átt það til að ljúga. Hann væri jákvæður og brosmildur og alltaf komið hreint og beint fram. Hún kvað upphaf afskipta sinna af honum hafa verið að brotaþola hefði liðið illa, hann hefði verið með búlemíu og mætt illa í skóla. Barnaverndaryfirvöld hefðu hins vegar ekki haft afskipti af heimili hans. Hann var 14 ára þegar þetta var og taldi hún hann hafa verið byrjaðan að neyta kannabisefna. Þau hefðu farið nokkrum sinnum í viku í ræktina til að byggja hann upp líkamlega.
Varðandi samskiptin við ákærða kvað hún hann alltaf hafa verið góðan við brotaþola og þannig unnið sér inn traust hjá honum. Brotaþoli hefði alltaf talað vel um ákærða og sagt hann vera góðan mann. Hann kvaðst í fyrstu ekki hafa viljað kæra ákærða, en það hafi breyst eftir að hann hafði sagt móður sinni frá þessu. Ráðgjafinn kvaðst hafa verið í samskiptum við brotaþola þar til hann var að verða 19 ára og hefði það verið vegna þessa máls. Hún kvað líðan brotaþola hafa mikið breyst eftir að hann sagði frá þessu. Það var eins og þungu fargi væri af honum létt.
Sálfræðingur, sem kannaði síðari brotaþola og ritaði framangreinda skýrslu, staðfesti hana. Sálfræðingurinn kvað brotaþola hafa verið vísað til sín frá Neyðarmóttöku Landspítalans 11. nóvember 2010. Þar hefði hann skýrt frá kynferðislegri misnotkun sem hefði hafist þegar hann var 5 ára og ekki lokið fyrr en við 18 ára aldur. Sálfræðingurinn kvaðst hafa hitt brotaþola og móður hans og í kjölfarið byrjað að vinna við greiningu á honum sem hafi tekið langan tíma og verið flókin. Hann hafi síðan farið í meðferð. Í ljós hafi komið að brotaþoli á við fjölþættan geðvanda að stríða sem hefði krafist þess að sérfræðingar á ýmsum sviðum kæmu að málum hans. Í fyrstu kom í ljós mikill vímuefnavandi brotaþola sem hann hefði reynt að takast á við áður. Eins hefði hann verið á geðdeild fyrir unglinga. Í upphafi hafi verið reynt að fá hann til að átta sig á vanda sínum og halda sér frá vímuefnum. Greiningu brotaþola hafi lokið vorið 2011 og aðalniðurstaðan hafi verið sú að hann þjáðist af áfallastreituröskun og fíkniheilkennum af völdum kannabisefna auk áfengisneyslu. Þá hefði hann og verið greindur með líkamsskynjunarröskun sem lýsir sér í ranghugmyndum í skynjun hans á líkamanum. Honum hefði liðið illa í líkamanum og talið eitthvað vera að honum og tengt það kynlífi.
Varðandi málið, sem hér til umfjöllunar, kvað sálfræðingurinn brotaþola hafa skýrt frá því að hann hefði verið tíður gestur á heimili æskuvinar síns. Mjög snemma hefði ákærði, faðir vinarins, byrjað að misnota sig. Þetta hefði byrjað með því að ákærði sýndi honum klámfengið efni og snerti hann. Smám saman hefði þetta þróast út í tilraunir til endaþarmsmaka sem brotaþoli hefði lýst sem mjög sárri og erfiðri reynslu. Brotaþoli hefði lýst ótta sínum við að einhver kæmi að þeim, til dæmis eiginkona ákærða sem hefði verið í næsta herbergi. Þá hefði brotaþoli lýst munnmökum sem hann veitti ákærða og ákærði veitti honum og svo endaþarmssamförum. Í minningu brotaþola gerðist þetta mjög oft en hann gat ekki gert nánari grein fyrir því hversu oft. Brotaþoli hefði lýst því að honum hefði þótt mjög vænt um ákærða en væntumþykjan hefði þó verið blandin því sem tengdist misnotkuninni. Misnotkunin hefði staðið mjög lengi en þó hefði verið hlé á unglingsárum þegar brotaþoli var 12 eða 13 ára gamall. Síðan hefði regluleg misnotkun hafist aftur og staðið þar til hann varð 18 ára. Snemma hefði hann fengið greitt fyrir mökin og eins hefði hann fengið ýmislegt annað sem honum veittist ekki heima hjá sér, eins og að fara í bíó, í sund og út að borða. Brotaþoli hefði verið eins og heima hjá sér á heimili ákærða og verið velkominn þar. Sálfræðingurinn kvað brotaþola hafa sagt sér frá þessu smátt og smátt á meðferðartímanum og væru lýsingar hans trúverðugar og ekkert hefði komið fram sem benti til þess að eitthvað annað ætti þátt í vanlíðan hans og vandræðum. Hið sama hefði komið fram hjá honum þegar hann hafi verið hjá öðrum meðferðaraðilum.
Sálfræðingurinn kvaðst hafa greint brotaþola með áfallstreituröskun og lýsti því hvernig einkenni brotaþola kæmu heim og saman við einkenni streitunnar. Þá kvað sálfræðingurinn brotaþola vera með athyglisbrest sem gæti stafað af áfallastreituröskuninni. Brotaþoli hefði áður en mál þetta kom upp verið í meðferð og verið greindur en þá hefði aldrei allt komið í ljós, enda hefði hann þá ekki sagt frá misnotkuninni.
Sálfræðingur, sem kannaði fyrri brotaþola og ritaði framangreinda skýrslu, staðfesti hana. Sálfræðingurinn kvað brotaþola hafa leitað til sín vegna meints kynferðisbrots og hefði hún komið fjórum sinnum til sín. Brotaþoli hefði sagt sér frá því kynferðislega ofbeldi sem hún taldi sig hafa orðið fyrir. Sálfræðingurinn kvað hana hafa skýrt frá sömu reynslu og aðrir þeir sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og kvað frásögn hennar hafa verið trúverðuga. Fyrstu viðtölin hefðu verið vorið 2011 og svo hefði brotaþoli komið aftur til sín í maí 2012 og sagt sögu sína aftur og hefði sér fundist saga hennar trúverðug og í samræmi við þá sögu sem hún hafði áður sagt. Afleiðingarnar fyrir brotaþola séu mikill kvíði sem valdi því að hún sé óvinnufær. Taldi sálfræðingurinn öruggt að kvíðinn væri afleiðing af misnotkuninni enda kæmu tímasetningar heim og saman, það er hvenær meint misnotkun átti sér stað og hvenær hún byrjaði að finna fyrir kvíðanum. Sálfræðingurinn kvaðst ekki hafa sérstaklega leitað eftir öðrum orsökum hjá brotaþola, enda hafi bara verið ætlunin að vinna með ætlaða kynferðislega misnotkun. Brotaþoli hefði ætlað að þegja yfir þessu máli af hræðslu við að ganga í gegnum dómskerfið og eins til þess að valda ekki uppnámi í fjölskyldunni. Brotaþoli kvað gerandann vera kvæntan móðursystur sinni og hefðu meint brot verið framin frá því hún var 12 til 14 eða 15 ára. Þá kvað sálfræðingurinn það vera alþekkt að fólk sem yrði fyrir misnotkun af hendi einhvers nákomins tryði því ekki að það endurtæki sig og þess vegna léti það meinta gerendur til dæmis gæta barna sinna. Það væri eins og fórnarlömbin lokuðu á þetta.
Heimilislæknir ákærða staðfesti vottorð sitt um að hann hefði orðið fyrir [...]áverkum [...] og merki þess sæjust á lærum hans framanverðum og upp í hægri nára. [...] Læknirinn kvaðst hins vegar ekkert geta fullyrt um hvað aðrir sjái.
Lögreglufulltrúi, sem rannsakaði tölvu ákærða, staðfesti gögn varðandi hana og þar með að ekkert ólöglegt efni hefði fundist. Hins vegar hefðu fundist dulkóðuð svæði og eins hefði fundist geisladiskur með dulkóðuðum skrám. Þessi dulkóðunarkerfi væru mjög öflug og framleiðandinn segði að ekki væri hægt að brjóta þau upp. Tilraunir lögreglunnar til að brjóta kerfin upp hefðu ekki tekist. Eins hefðu gögnin verið send til lögreglu á Norðurlöndum en þeim hefði heldur ekki tekist að brjóta þessar dulkóðanir upp. Það hafi því ekki verið hægt að skoða innihald þessara skráa. Ákærði hefði verið kvaddur til og hefði hann gefið upp lykilorð og hefði eitt þeirra gengið að tölvunni, en dulkóðaða svæðið hefði verið lokað eftir sem áður. Ákærði hefði sagst hafa gefið upp lykilorð og hefði þau öll verið prófuð án árangurs. Hið sama hefði átt við um allar mögulegar útgáfur af lykilorðum sem lögreglan hefði reynt.
Í skýrslu ákærða hér að framan var þess getið að hann taldi sig geta opnað lokuð svæði á harða diskinum í tölvu sinni og á geisladiski. Í því skyni kom hann á lögreglustöð og reyndi að opna svæðin ásamt lögreglumanni og sérfræðingi lögreglunnar. Þeir unnu skýrslu þar sem fram kemur að tekist hafi að opna svæði á harða diskinum en ekki á geisladiskinum. Engar myndir hefðu fundist. Þeir komu fyrir dóm og staðfestu skýrslu um það.
IV
Ákærði hefur alfarið neitað að hafa brotið gegn brotaþolum. Hér verður fyrst komist að niðurstöðu um það sem honum er gefið að sök í I. kafla ákæru og síðan fjallað á sama hátt um II. kafla hennar.
Brotaþoli bar að hún hafi verið 12 ára þegar ákærði hafi fyrst misnotað sig og var framburður hennar um það rakinn í kaflanum hér að framan. Hún varð 12 ára árið 1998 og bar ákærði að hann hefði þá fyrst kynnst henni er hann hefði fengið hana til að gæta sonar síns í veikindum eiginkonu sinnar. Brotaþoli, sem er systurdóttir eiginkonu ákærða, kannaðist ekki við að hafa gætt sonarins og fær það stuðning í framburði móður hennar. Sonur ákærða kvað brotaþola hins vegar hafa gætt sín og á sama hátt bar stjúpsonur hans. Brotaþoli bar að ákærði hefði alltaf greitt sér fyrir þegar hann hafði mök við hana eins og rakið var. Ákærði hefur hins vegar borið að hann hafi greitt henni fyrir að gæta sonarins. Þá hefði hann lánað henni fé eftir að hún byrjaði með barnsföður sínum og eins hefði hann lánað þeim báðum fé og ábyrgst lán fyrir þau. Fyrrum sambýlismaður brotaþola, sem bjó með henni frá 2002 til 2009, bar að sér hefði þótt undarlegt hvað hún átti greiðan aðgang að ákærða og þar með að fá peninga hjá honum þegar henni hentaði. Hann bar einnig að brotaþoli hefði sagt sér frá kynferðislegri áreitni sem hún hefði orðið fyrir þegar hún var 12 til 14 ára en hún hefði helst viljað gleyma því. Þá bar frænka brotaþola, þær eru systradætur, að hún hefði sagt sér frá misnotkun ákærða. Hann hefði látið hana hafa munnmök við sig og haft við hana samfarir einu sinni. Hann hefði greitt henni fyrir mökin. Frænkan bar að brotaþoli hefði verið í miklum samskiptum við ákærða og fengið fé frá honum. Frænkan sagði vinkonu sinni frá misnotkuninni og greiðslunum þegar brotaþoli var 16 ára. Þær tilkynntu um þetta til lögreglu sem skráði tilkynninguna hjá sér, en ekki mun hafa verið talið tilefni til rannsóknar. Gögn málsins sýna að þetta var í ágúst 2003. Í II. kafla hér að framan var rakið vottorð sálfræðings sem brotaþoli leitaði til og í III. kafla framburður sálfræðingsins fyrir dómi. Eins og þar kemur fram var það niðurstaða sálfræðingsins að brotaþoli hefði verið trúverðug og einkenni hennar bæru þess merki að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun.
Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu við aðalmeðferð málsins. Var greinilegt að það reyndi mikið á hana að koma fyrir dóm en þrátt fyrir það var skýrsla hennar hiklaus og hún svaraði greiðlega öllum spurningum. Reyndar bar hún að ákærði hefði misnotað sig í mun fleiri skipti en ákært er fyrir. Þá bar hún í meginatriðum á sama hátt og hún hafði gert hjá lögreglu. Framburður brotaþola fær stuðning í vottorði og skýrslu sálfræðingsins. Þá ber og að nefna að hún hafði skýrt frænku sinni frá misnotkuninni og eins hafði hún tæpt á henni við sambýlismann sinn. Hins vegar er líka á það að líta að móðir brotaþola varð ekki vör við breytingar eða vanlíðan í fari hennar á þeim tíma sem ætluð misnotkun átti sér stað. Stjúpi hennar kvaðst hafa talið breytingar, sem urðu á brotaþola á unglingsárunum, vera þroskabreytingar og eins hefði hún verið að neyta efna á þessum tíma.
Á hinn bóginn er til þess að líta að ákærði var ekki ótrúverðugur í framburði sínum fyrir dómi. Þá hafa sonur hans og stjúpsonur borið á sama hátt og hann um einstök atvik eins og rakið var. Við mat á framburði þeirra verður þó að líta til tengsla þeirra við ákærða. Hér fyrr var um það getið að ákærði ber merki á líkama sínum eftir [...]sár sem hann fékk [...]. Hvorugur brotaþola kannaðist við að hafa séð þessi merki á líkama hans. Fyrir dóminn voru lagðar ljósmyndir í lit af ákærða og má þar greina óveruleg merki um litabreytingu á húð. Læknir ákærða bar að merkin sæjust með berum augum. Að mati dómsins dregur það ekki úr trúverðugleika brotaþola þótt hún hafi ekki séð þessi merki. Meðan á þessu stóð hefur athygli barnsins beinst að öðru en taka eftir smávægilegri missmíð á líkama ákærða. Þá þykir það heldur ekki draga úr trúverðugleika hennar að hún vildi ekki kæra ákærða í upphafi. Hún gaf þá skýringu að hún hefði ekki viljað gera móðursystur sinni það, en hún er eiginkona ákærða. Þegar allt framangreint er virt í heild sinni er það niðurstaða dómsins að leggja til grundvallar úrlausn málsins trúverðuga skýrslu brotaþola sem studd er framangreindum gögnum. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í I. kafla ákærunnar, nema að hafa tekið kynferðislegar myndir af brotaþola. Gegn neitun ákærða hafa ekki verið færðar sönnur á að hann hafi gert það, en engar myndir hafa fundist eins og rakið var. Þá er framburður beggja brotaþola um myndatökurnar ekki nægjanlega skýr til að sakfelling verði reist á honum. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Hér að framan var rakinn framburður brotaþola, sem greindur er í II. kafla ákæru, og móður hans, ákærða og sonar hans og annarra um samskipti ákærða og brotaþola allt frá því hann og sonurinn kynntust við upphaf skólagöngu þeirra. Framburður þessi er allur á eina lund um að brotaþoli hafi allt frá þessum tíma og fram til þess að hann var að verða 18 ára verið sem heimagangur á heimili ákærða. Þá kom og fram að úr samskiptum brotaþola og sonar ákærða hafi dregið á unglingsárunum en brotaþoli hafi, þrátt fyrir það, haldið áfram að eiga mikil samskipti við ákærða.
Við aðalmeðferð gaf brotaþoli skýrslu og var greinilegt að mati dómsins að skýrslutakan reyndi verulega á hann. Þá var og ljóst að þegar hann var að rifja upp elstu minningar sínar um ætlaða misnotkun ákærða voru þær ekki svo ljósar sem skyldi, enda vart von á öðru um minningar úr bernsku. Verður fjallað nánar um þetta atriði hér á eftir. Að mati dómsins var skýrsla ákærða trúverðug og var greinilegt að hann lagði sig fram um að segja ekki meira en hann gat staðið við og útskýra hvers vegna hann gat ekki verið nákvæmari um sum atriði eins og nákvæmlega hvenær ætluð misnotkun átti sér stað. Í II. kafla var rakin skýrsla sálfræðings sem hefur haft brotaþola til meðferðar. Samkvæmt skýrslunni og framburði sálfræðingsins fyrir dómi ber brotaþoli öll einkenni þess að hafa verið misnotaður kynferðislega og taldi hún brotaþola segja satt og rétt frá um misnotkunina. Þá var hér að framan rakinn framburður ráðgjafa brotaþola og móður hans og styðja skýrslur þeirra framburð brotaþola. Með vísun til þess, sem sagði hér að framan um [...]merkin á líkama ákærða, telur dómurinn það ekki draga úr trúverðugleika síðari brotaþola þótt hann hafi ekki séð þau. Loks er til þess að líta að margt er líkt í samskiptamynstri ákærða og beggja brotaþola. Hann neytir ekki aðeins yfirburðastöðu aldurs og reynslu heldur gefur þeim peninga og sinnir þeim á margvíslegan hátt eins og rakið var.
Eins og sagði í umfjöllun um fyrri kafla ákæru var skýrsla ákærða við aðalmeðferð ekki ótrúverðug að öðru leyti en því að ekki fékkst trúverðug skýring á hinum miklu samskiptum hans við brotaþola eftir að hann komst á unglingsár og úr samskiptum brotaþola og sonar ákærða dró.
Þegar allt framangreint er virt í heild sinni er það niðurstaða dómsins varðandi II. kafla ákæru að leggja til grundvallar úrlausn málsins trúverðuga skýrslu brotaþola sem studd er framangreindum gögnum. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um kynferðisbrot gagnvart brotaþola eins og honum er gefið að sök, nema að hafa tekið kynferðislegar myndir af honum. Gegn neitun ákærða hafa ekki verið færðar sönnur á að hann hafi gert það, en engar myndir hafa fundist eins og rakið var. Þá er framburður beggja brotaþola um myndatökurnar ekki nægjanlega skýr til að sakfelling verði reist á honum. Þá verður heldur ekki fallist á það með ákæruvaldinu að ákærða hafi verið trúað fyrir brotaþola, en engin gögn hafa verið færð fram til stuðnings því ákæruatriði.
Brotaþoli bar, eins og rakið var, að hann hefði farið að gista á heimili ákærða þegar hann var 5 eða 6 ára gamall og hefði misnotkunin hafist þá. Er á því byggt í ákæru að misnotkun ákærða hafi hafist er brotaþoli var 5 til 7 ára gamall. Ákærði kvaðst hins vegar fyrst hafa kynnst brotaþola 1999 og kvaðst muna það í tengslum við andlát bróður síns seint á því ári. Sonur ákærða bar að hann og brotaþoli hefðu kynnst 1998 þegar þeir hófu skólagöngu. Brotaþoli varð 6 ára í [...] 1998. Vafann um upphaf misnotkunarinnar verður að skýra ákærða í hag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 og verður á því byggt að hún hafi hafist haustið 1999 þegar brotaþoli var 7 ára og ákærði bar að muna fyrst eftir honum. Brotaþoli bar enn fremur að hlé hefði orðið á misnotkuninni frá því að hann varð 10 ára og þar til hann varð 14 ára, en þá hefði hún hafist aftur og staðið þar til hann varð 18 ára og málið komst upp, eins og rakið var. Brotaþoli var að vísu ekki viss um hvort hléið hefði hafist þegar hann var 10 ára eða 11 eða 12 ára og sem fyrr verður þessi vafi skýrður ákærða í hag. Dómurinn byggir því á því að ákærði hafi misnotað brotaþola kynferðislega frá því hann var 7 ára og til 10 ára aldurs og aftur frá því að hann var 14 ára og til 18 ára aldurs. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni nema hvað hann verður sýknaður af því að hafa brotið gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga með vísun til þess sem að framan sagði um að ósannað væri að ákærða hefði verið trúað fyrir brotaþola.
Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Hann hefur nú verið sakfelldur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn tveimur börnum sem stóðu yfir í langan tíma eins og rakið var. Samkvæmt gögnum málsins, sem rakin hafa verið, hafa brot ákærða haft alvarlegar afleiðingar á líf brotaþolanna. Refsing ákærða verður ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfileg 7 ára fangelsi. Til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og í dómsorði segir.
Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir um afleiðingar brotsins fyrir andlega hagi brotaþola verða þeim dæmdar miskabætur. Fyrri brotaþoli krefst 1.600.000 króna og er þeirri kröfu í hóf stillt og verður orðið við henni. Síðari brotaþoli krefst 4.500.000 króna og eru bætur til hans hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna. Bæturnar skulu bera vexti eins og í dómsorði segir. Það athugast að ekki verður séð að ákærða hafi verið birtar bótakröfurnar fyrr en við þingfestingu málsins og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Við aðalmeðferð málsins var ákærða vikið úr dómsal meðan brotaþolar gáfu skýrslu. Í þingbók var bókað af því tilefni: „Ákærði víkur úr dómsal kl. 10.18, en fylgist með þinghaldinu og getur heyrt það sem fram fer. Hann situr fyrir framan hurð sem er opin í hálfa gátt. Ákærði getur ekki séð vitnin og þau ekki hann.“ Eftir að málflytjendur og dómarar höfðu lokið við að spyrja fyrri brotaþola fór verjandi ákærða til hans og hafði tal af honum. Sami háttur var hafður á eftir að síðari brotaþoli hafði verið yfirheyrður. Lokið var við að taka skýrslur af ákærða og brotaþolum fyrir hádegi. Eftir hádegishlé lagði verjandi ákærða fram bókun þar sem fram kemur að ákærði „geri athugasemdir við þá aðstöðu eða aðstöðuleysi sem honum var boðið upp á á ganginum við dómaraherbergið (svo) í Héraðsdómi Reykjavíkur, en það hafi orðið til þess að hann heyrði ekki og gat ekki hlustað nægilega vel á vitnin, .... , er þau gáfu skýrslu fyrir dómi. Á ganginum hafi verið umgangur, hávaði úr vatnsvél, hurðaskellir og skvaldur úr næstu herbergjum, sem gerði það að verkum að hann heyrði ekki nægilega vel. Þessum aðbúnaði og aðstöðuleysi til að hlusta á vitnaleiðslur vilji hann mótmæla sem óviðunandi.“ Þrátt fyrir þessa bókun barst engin krafa um að vitnin kæmu aftur fyrir dóm til að ákærði gæti látið spyrja þau frekar, en það skal áréttað að verjandi ákærða hafði tal af honum í lok yfirheyrslu yfir brotaþolum og spurði þá frekari spurninga eftir að hafa rætt við ákærða. Þá kom fyrri brotaþoli aftur fyrir dóm áður en málið var flutt og hafði verjandinn á sama hátt tal af ákærða áður en yfirheyrslu yfir henni lauk.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Ásgeir Magnússon og Kristjana Jónsdóttir.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 7 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 16. nóvember 2010 til 25. nóvember 2010.
Ákærði greiði A 1.600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2001 til 8. júní 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2010 til 8. júní 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 487.399 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hrl., 552.200 krónur og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 304.337 krónur og Þórdísar Bjarnadóttur hrl. 304.337 krónur.